Hæstiréttur íslands

Mál nr. 17/2004


Lykilorð

  • Ávana- og fíkniefni


Fimmtudaginn 1

 

Fimmtudaginn 1.apríl 2004.

Nr. 17/2004.

Ákæruvaldið

(Ragnheiður Harðardóttir saksóknari)

gegn

Ásgeiri Gunnarssyni 

(Björgvin Jónsson hrl.)

 

Ávana- og fíkniefni.

Í samræmi við játningu Á var hann sakfelldur fyrir fíkniefnalagabrot með því að hafa flutt til landsins 1987,66 gr. af hassi, sem hann ætlaði til sölu í ágóðaskyni. Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um refsingu Á, sem gert var að sæta fangelsi í 6 mánuði.   

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 2. janúar 2004 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst þess að refsing hans verði milduð.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins eins og nánar segir í dómsorði.

                                                         Dómsorð:

         Héraðsdómur skal vera óraskaður.

         Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Björgvins Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 100.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 5. desember 2003.

Málið höfðaði lögreglustjórinn á Keflavíkurflugvelli með ákæru útgefinni í dag á hendur ákærða, Ásgeir Gunnarssyni, [ . . . ], Stormgade 1, Söllested, Danmörku, fyrir fíkniefnalagabrot,  með því að hafa fimmtudaginn 4. desember 2003 flutt með sér hingað til lands 1987,66 gr. af hassi, en hann hafði límt það um sig miðjan og þykir sýnt að hassið sé ætlað til sölu í ágóðaskyni.

Þetta er talið varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65,1974, sbr. lög nr. 13,1985, sbr. lög nr. 68,2001 og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233, 2001, sbr. reglugerð nr. 490,2001 og reglugerð nr. 848,2002.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og sæta upptöku skv. 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65,1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233,2001 á ofangreindum 1987,66 gr. af hassi sem hald var lagt á.

Með skýlausri játningu ákærða sem er í samræmi við önnur gögn málsins telst sannað að hann hafi gerst sekur þá háttsemi sem í ákæru greinir og þar er réttilega færð til refsiákvæða.

Ákærði hefur ekki áður sætt refsingum sem máli geta skipt við refsiákvörðun í máli þessu.  Í ljósi þess að brot ákærða er alvarlegt og að hann ætlaði að selja fíkniefnin í ágóðaskyni þykir hæfileg refsing ákærða fangelsi í 6 mánuði.  Í ljósi alvarleika brotsins þykir eigi fært að skilorðsbinda refsingu ákærða, hvorki að hluta né öllu leyti.

Þá sæti ákærði upptöku á 1987,66 gr. af hassi sem hald var lagt á í þágu rannsóknar málsins.

Loks ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar samkvæmt 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991 þar með talda þóknun skipaðs verjanda síns Björgvins Jónssoanr hrl. 50.000 krónur.

Finnbogi H. Alexandersson héraðsdómari kvað upp dóminn.

Dómsorð

                Ákærði, Ásgeir Gunnarsson, sæti fangelsi í 6 mánuði.

                Ákærði, sæti upptöku á 1987,66 gr. af hassi sem hald var lagt á í þágu rannsóknar málsins.

                Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Björgvins Jónssonar hrl.  50.000 krónur.