Hæstiréttur íslands
Mál nr. 658/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Málskostnaðartrygging
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Helgi I. Jónsson og Viðar Már Matthíasson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. október 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. október 2017, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar í máli sínu á hendur sóknaraðila. Kæruheimild er í o. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að fallist verði á framangreinda kröfu hans um málskostnaðartryggingu sem verði ákveðin í formi peningagreiðslu eða bankaábyrgðar að fjárhæð 2.000.000 krónur eða lægri fjárhæðar að mati réttarins. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðili greiði varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Sigmundur Hannesson, greiði varnaraðila, Karli Emil Wernerssyni, 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. október 2017.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 29. september 2017 um kröfu varnaraðila um tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar úr hendi sóknaraðila, barst Héraðsdómi Reykjavíkur með aðfararbeiðni 22. maí 2017, sem lögð var fram í dóminum 9. júní sama ár.
Sóknaraðili, Karl Emil Wernersson, Blikanesi 9, Garðabæ, krefst þess að sér verði heimilað með beinni aðfarargerð að fá tekið úr umráðum varnaraðila, Sigmundar Hannessonar, Frostaskjóli 33, Reykjavík, veðskuldabréf 26. maí 2011 að nafnvirði 120.000.000 krónur, útgefið af sóknaraðila til Steingríms Wernerssonar, með veði á fyrsta veðrétti í fasteigninni Galtalækjarskógi. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi varnaraðila.
Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað, en að auki að viðurkennt verði að varnaraðili eigi haldsrétt í skuldabréfi því sem aðfararbeiðni sóknaraðila lýtur að. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.
I
Við þingfestingu málsins 9. júní 2017 var mætt af hálfu varnaraðila og var málinu frestað til 16. júní sama ár til þess að gefa sóknaraðila kost á að skila sérstakri greinargerð. Í þinghaldi þann dag óskaði varnaraðili eftir fresti til þess að skila greinargerð af sinni hálfu. Málinu var frestað til 15. september 2017 í því skyni og lagði varnaraðili þá fram greinargerð auk nokkurra skjala og krafðist þess að sóknaraðila yrði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar. Munnlegur málflutningur fór fram um þá kröfu varnaraðila 29. september 2017. Sóknaraðili mótmælti kröfunni og vísaði til þess að krafan væri of seint fram komin. Báðir aðilar kröfðust málskostnaðar úr hendi hins vegna þessa þáttar málsins.
II
Samkvæmt b. lið 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála getur stefndi krafist þess við þingfestingu máls að stefnandi setji tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar ef leiða má líkur að því að stefnandi sé ófær um greiðslu kostnaðarins. Þó má hafa slíka kröfu uppi síðar en við þingfestingu, ef sérstakt tilefni kemur þá fyrst fram til þess.
Eins og fyrr er rakið barst dóminum aðfararbeiðni sóknaraðila 22. maí 2017 og var málið þingfest 9. júní sama ár. Meðal þeirra skjala sem varnaraðili lagði fram 15. september 2017 til stuðnings kröfu sinni um málskostnaðartryggingu var skráning úr vanskilaskrá, þar sem fram kom að gert hafði verið árangurslaust fjárnám hjá sóknaraðila 19. maí 2017. Samkvæmt því mátti varnaraðila vera kunnugt um að tilefni var til að setja fram kröfu um málskostnaðartryggingu úr hendi sóknaraðila þegar aðfararbeiðni á hendur honum var þingfest. Hefur varnaraðili ekki sýnt fram á að hann hafi fyrst átt þess kost að setja kröfuna fram svo seint sem raun varð á. Samkvæmt þessu verður kröfu varnaraðila um tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar úr hendi sóknaraðila hafnað. Rétt er að ákvörðun um málskostnað vegna þessa þáttar málsins bíði endanlegs úrskurðar í því.
Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kvað upp þennan úrskurð.
Ú R SK U R Ð A R O R Ð:
Kröfu varnaraðila, Sigmundar Hannessonar, um að sóknaraðila, Karli Emil Wernerssyni, verði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar er hafnað.
Málskostnaður í þessum þætti málsins bíður endanlegs úrskurðar.