Hæstiréttur íslands
Mál nr. 419/1998
Lykilorð
- Hjón
- Skilnaðarsamningur
|
|
Fimmtudaginn 18. mars 1999. |
|
Nr. 419/1998. |
Gunnlaugur Bjarnason (Agnar Gústafsson hrl.) gegn Björk Jóhannsdóttur (Ingibjörg Rafnar hrl.) |
Hjón. Skilnaðarsamningur.
G og B skildu lögskilnaði á árinu 1995 og gerðu með sér eignaskiptasamning sem þau staðfestu fyrir sýslumanni. Samkvæmt samningnum skyldi B greiða áhvílandi skuldir af fasteign, sem var séreign hennar, en G greiða allar aðrar lausaskuldir og bankalán sem þau hefðu í sameiningu stofnað til. Í málinu krafði B G um endurgreiðslu vegna greiðslna sem hún hafði innt af hendi af skuldum sem stofnast höfðu meðan á hjónabandi þeirra stóð. G neitaði greiðslu. Hvorki var fallist á að um málamyndagerning hefði verið að ræða né að umræddar skuldir féllu utan þess sem G tók að sér að greiða samkvæmt samningnum. Var G dæmdur til að greiða B stefnufjárhæðina.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 14. október 1998. Hann krefst sýknu af kröfum stefndu, auk málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefnda krefst þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur og áfrýjandi dæmdur til að greiða henni málskostnað fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur um annað en málskostnað, en áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefndu málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem er ákveðinn í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.
Áfrýjandi, Gunnlaugur Bjarnason, greiði stefndu, Björk Jóhannsdóttur, samtals 350.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Héraðsdómur Reykjaness 30. september 1998.
Ár 1998, miðvikudaginn 30. september, er Héraðsdómur Reykjaness háður í húsi dómsins að Brekkugötu 2, Hafnarfirði. Dómari er Þorgerður Erlendsdóttir settur héraðsdómari. Fyrir er tekið: Málið nr. E-329/1998, Björk Jóhannsdóttir gegn Gunnlaugi Bjarnasyni
Og kveðinn er upp svohljóðandi dómur:
Mál þetta sem dómtekið var 18. september sl., er höfðað af Björk Jóhannsdóttur, kt. 070158-4509, Rauðalæk 21, Reykjavík, með stefnu birtri 6. apríl sl. á hendur Gunnlaugi Bjarnasyni, kt. 270658-6449, Vatnsendabletti 181, Kópavogi.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda kr. 738.282, auk dráttarvaxta af kr. 424.837 frá 9. ágúst 1996 til 17. febrúar 1998, en af kr. 738.282 frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til greiðslu hæfilegs málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.
Dómkröfur stefnda eru að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og tildæmdur hæfilegur málskostnaður úr hendi stefnanda að viðbættum virðisaukaskatti.
Málavextir.
Stefnandi og stefndi eru fyrrverandi hjón. Í máli þessu krefur stefnandi stefnda, á grundvelli eignaskiptasamnings sem aðilar gerðu vegna skilnaðar síns, um greiðslu á kr. 738.282 sem hún hefur greitt vegna skulda við Den Danske Bank A/S og Lífeyrissjóð Vestfjarða.
Atvik að baki máli eru þau að aðilar máls þessa gengu í hjúskap árið 1982. Þann 6. febrúar 1989 gerðu þeir með sér kaupmála um að íbúð að Silfurteig 5 í Reykjavík skyldi vera séreign stefnanda og var kaupmálinn skráður í kaupmálabók Borgarfógetaembættisins í Reykjavík 28. febrúar s.á. Síðar á árinu 1989 fluttu málsaðilar til Danmerkur og aftur heim til Íslands í júlí 1993. Þann 5. október 1993 fengu aðilar leyfi til skilnaðar að borði og sæng og lögskilnaðarleyfi 31. mars 1995.
Við fyrirtöku skilnaðarmálsins hjá Sýslumanninum í Reykjavík þann 30. september 1993 lögðu aðilar fram eignaskiptasamning dagsettan sama dag. Ákvæði samningsins um skiptingu skulda er svofellt: „Björk greiði áhvílandi skuldir af Silfurteig 5, þinglýstri séreign hennar. Gunnlaugur greiði allar aðrar lausaskuldir og bankalán sem þau hafa í sameiningu stofnað til.”
Hinn 30. september 1993 gerðu aðilar með sér annan samning þar sem segir m.a. orðrétt: „Gulli greiði allar skuldir, en ef hann getur það ekki má hann koma með þær til Bjarkar.”
Þegar aðilar fluttu heim til Íslands frá Danmörku voru þeir í skuld að upphæð u.þ.b. DKR 31.000 við Den Danske Bank A/S þar sem þau höfðu haft svokallaðan „ökonomikonto.” Þann 30. mars 1995 höfðaði bankinn mál á hendur þeim til greiðslu á skuldinni sem nam þá DKR 33.239,54. Hinn 4. maí s.á. gerði stefndi sátt við bankann um greiðslu kröfunnar. Stefndi stóð ekki við sáttina og var stefna í málinu árituð í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 9. apríl 1996. Stefnandi greiddi skuldina við Den Danske Bank hinn 9. ágúst 1996 með kr. 424.837.
Þann 17. febrúar 1998 greiddi stefnandi skuld við Lífeyrissjóð Vestfirðinga að fjárhæð kr. 313.445,20 skv. skuldabréfi útgefnu af stefnanda þann 10. apríl 1985 að fjárhæð kr. 193.000, upphaflega með veði í fasteigninni Stórholti 9, Ísafirði, íbúð á 1. hæð merkt A, en við greiðslu með veði í fasteigninni Fífuhvammi 25, Kópavogi. Fasteignina að Stórholti 9 keyptu málsaðilar með kaupsamningi dags 10. maí 1984 og var stefndi þinglýstur eigandi hennar. Til skuldarinnar var stofnað til að greiða afborgun af fasteigninni að upphæð kr. 193.961 þann 5. mars 1985.
Þann 13. mars 1995 sendi stefnandi Lífeyrissjóði Vestfirðinga erindi um að stefndi yrði í samræmi við eignaskiptasamning aðila skráður greiðandi að láninu. Varð Lífeyrissjóðurinn við því og beindi greiðsluseðlum til stefnda. Í september 1997 fékk stefnandi greiðsluáskorun frá Lífeyrissjóðnum. Þann 17. febrúar 1998 greiddi stefnandi kröfuna upp með kr. 313.445,20.
Málsástæður og lagarök.
Stefnandi byggir á að hún hafi árangurslaust reynt að fá stefnda til að greiða skuldirnar við Den Danske Bank og Lífeyrissjóð Vestfirðinga, en ótvírætt sé samkvæmt eignaskiptasamningi aðila að stefndi hafi tekið að sér að greiða þær. Stefndi, sem hafi um árabil unnið við rekstur fyrirtækja og verið vel að sér um fjármál aðila, hafi sjálfur útbúið eignaskiptasamninginn, ráðið innihaldi hans, undirritað hann ásamt stefnanda og staðfest hjá Sýslumanninum í Reykjavík þann 30. september 1993. Stefndi hafi ekki krafist riftunar samningsins og óvéfengjanlegt sé að hann sé bundinn af honum gagnvart stefnanda.
Stefndi byggir á að þegar aðilar skildu að borði og sæng hafi fjárhagur þeirra verið þannig að sameiginlegar eignir þeirra hrukku ekki fyrir skuldum. Þar sem hætta hafi verið á því að skuldheimtumenn myndu ganga að eignum aðilanna til fullnustu á kröfum sínum hafi eignaskiptasamningur sá sem staðfestur var hjá sýslumanni verið gerður. Tilgangurinn með samningnum hafi þannig verið að gera skuldheimtumönnum erfiðara fyrir að ganga að stefnanda með kröfur sínar þannig að tóm gæfist til þess að greiða skuldirnar án þess að gengið yrði að íbúð konunnar að Silfurteigi 5 í Reykjavík. Hafi stefnda verið það kappsmál að tryggja sem best framtíð barna þeirra hjónanna og koma í veg fyrir að þau stæðu uppi húsnæðislaus.
Jafnframt hafi því verið gerður annar samningur milli aðila. Samkvæmt þeim samningi skal stefndi greiða allar skuldir, en ef hann getur það ekki má hann koma með þær til stefnanda. Sá samningur sýni svart á hvítu að samningurinn sem staðfestur var hjá sýslumanni var einungis „pro forma” samningur, gerður í framangreindum tilgangi. Samningur aðila hafi í raun verið sá að þau áttu að greiða sameiginlegar skuldir sínar til helminga hvort.
Þá byggir stefndi á því að lánið við Lífeyrissjóð Vestfjarða teljist ekki til sameiginlegra skulda. Það geti auk þess hvorki fallið undir „lausaskuldir og bankalán sem þau hafa í sameiningu stofnað til.” Stefndi hafi einnig skuldað lífeyrissjóðslán hjá Lífeyrissjóði Verslunarmanna sem hafi verið hærra en lífeyrissjóðslán það sem stefnandi hefur greitt. Um það hafi verið samið að hvort hjónanna tæki sitt lífeyrissjóðslán.
Stefndi hafi greitt af sameiginlegum skuldum þeirra hjóna kr. 625.000 vegna skuldar við Kreditkort hf. Þá hafi hann greitt lán í Búnaðarbanka Íslands nálægt 1.000.000 króna. Stefndi hafi með þessum greiðslum staðið að fullu skil á sínum helmingi af sameiginlegum skuldum þeirra hjóna og vel það.
Loks byggir stefndi á að hluti skuldarinnar við Den Danske Bank sé vegna kaupa á heimilistækjum fyrir bróður stefnanda og beri stefnanda að krefja hann um greiðslu þess hluta skuldarinnar, hafi hún ekki fengist greidd.
Auk aðila, gaf bróðir stefnanda, Viðar Marel Jóhannsson, skýrslu fyrir dóminum. Í skýrslu hans kom fram að hann hafi rætt við aðila um fjárskiptin vegna skilnaðar þeirra. Hans skilningur hafi verið sá að stefnandi tæki að sér allar skuldbindingar vegna fasteignarinnar, en stefndi tæki að sér að greiða allar aðrar skuldir. Stefndi hafi ítrekað endurtekið við hann að skuldir skiptust þannig.
Þá kom þar fram að aðilar hefðu fyrir heimflutninginn frá Danmörku keypt fyrir hann og konu hans ísskáp og ryksugu. Stefndi hafi viljað greiða fyrir tækin með greiðslukorti þeirra hjóna frekar en að fá senda greiðslu. Kaupverðið, 70.000 krónur, hafi hann síðan greitt stefnda eftir heimkomuna með 5000 króna seðlum.
Einnig að stefndi hafi beðið hann að mæta í málinu sem Den Danske Bank höfðaði á hendur aðilum til þess að sækja um frest þar sem hann var erlendis og hafi hann gert það. Þá hafi hann mætt fyrir stefnda í málinu í annað skipti til að leggja fram skjöl til staðfestu á að stefndi hefði gert samning við bankann um greiðslu á skuldinni. Hann hafi litið svo á að stefndi hafi við skilnað aðila tekið að sér að greiða umrædda skuld.
Niðurstöður.
Með eignaskiptasamningi aðila dags. 30. september 1993, sem aðilar staðfestu fyrir sýslumanni sama dag, varð samkomulag með þeim um fjárskipti vegna skilnaðar þeirra. Stefndi byggir á því að samningurinn hafi verið málamyndasamningur gerður í því skyni að koma í veg fyrir að skuldheimtumenn gengu að séreign konunnar. Ekki verður fallist á það með stefnda að samningurinn sem aðilar gerðu sama dag styðji þá fullyrðingu hans. Á það er að líta að sá samningur kveður á um að stefndi greiði allar skuldir, en ef hann geti það ekki þá megi hann koma með þær til stefnanda. Þá þykir ekkert annað fram komið í málinu er styðji það að samningurinn sé málamyndagerningur. Einnig þykir ekkert fram komið í málinu sem styður þá fullyrðingu stefnda að samningur aðila hafi í raun og veru verið sá að þau skyldu greiða sameiginlegar skuldir sínar til helminga.
Verður því á því byggt að eignaskiptasamningurinn sem aðilar staðfestu hjá sýslumanni gildi um skiptin milli þeirra, en samkvæmt samningnum skyldi stefnandi greiða áhvílandi skuldir á fasteigninni Silfurteig 5, Reykjavík sem var séreign hennar samkvæmt kaupmála, en stefndi allar aðrar lausaskuldir og bankalán sem þau höfðu í sameiningu stofnað til.
Óumdeilt er að skuldin við Den Danske Bank A/S er tilkomin vegna svokallaðs „ökonomikonto” sem aðilar höfðu hjá bankanum meðan þau bjuggu í Danmörku. Fyrir liggur að stefndi gerði einn sátt við bankann um greiðslu skuldar á reikningnum. Sú fullyrðing stefnda að hluti skuldarinnar sé tilkominn vegna kaupa á heimilistækjum fyrir bróður stefnanda, sem ekki hafi fengist greidd, er ekki studd neinum gögnum. Þá er á það að líta að bróðirinn gaf skýrslu fyrir dóminum og kvaðst hafa greitt stefnda tækin að fullu eftir heimkomuna.
Stefnandi tók lánið hjá Lífeyrissjóði Vestfjarða meðan á hjúskap aðila stóð og ómótmælt er að því hafi verið varið til greiðslu afborgunar af íbúð sem aðilar keyptu á Ísafirði og stefndi var þinglýstur eigandi að. Verður því við það miðað að um sameiginlega skuld aðila hafi verið að ræða.
Í eignaskiptasamningi aðila er kveðið á um að stefnandi greiði áhvílandi skuldir á fasteigninni Silfurteig 5, en stefndi allar aðrar lausaskuldir og bankalán sem þau hafa í sameiningu stofnað til. Skuldin við lífeyrissjóðinn er hvorki lausaskuld né bankalán, en þegar til orðalags samningsins er litið þykir verða við það að miða að með honum sé kveðið á um að stefndi greiði allar aðrar skuldir hjónanna en þær sem hvíla á fasteigninni Silfurteig 5. Fær sá skilningur stoð í framburði vitnisins Viðars Marel Jóhannssonar .
Þegar framanrakið er virt verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda kr. 738.282 auk dráttarvaxta eins og krafist er og greinir í dómsorði.
Eftir úrslitum málsins verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 180.000 krónur og er þá ekki tekið tillit til virðisaukaskatts.
Þorgerður Erlendsdóttir settur héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
Dómsorð:
Stefndi, Gunnlaugur Bjarnason greiði stefnanda, Björk Jóhannsdóttur kr. 738.282 auk dráttarvaxta af kr. 424.837 frá 9. ágúst 1996 til 17. febrúar 1998, en af kr. 738.282 frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 180.000 krónur í málskostnað.