Hæstiréttur íslands
Mál nr. 524/2016
Lykilorð
- Líkamstjón
- Vinnuslys
- Eigin sök
- Ábyrgðartrygging
- Vinnuveitendaábyrgð
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Benedikt Bogason hæstaréttardómari og Ingveldur Einarsdóttir og Þorgeir Ingi Njálsson settir hæstaréttardómarar.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 20. júlí 2016. Hann krefst þess að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda óskipt úr frjálsri ábyrgðartryggingu annars vegar Umbúðamiðlunar ehf. og hins vegar Ópal Sjávarfangs ehf. vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir í vinnuslysi 8. janúar 2013. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms en til vara að áfrýjandi verði látinn bera tjón sitt að verulegu leyti sjálfur. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Áfrýjandi slasaðist við vinnu sína 8. janúar 2013 hjá Ópal Sjávarfangi ehf. Aðdragandi slyssins var sá að B vörubílstjóri, sem sá um að flytja fisk, kom á vinnustað áfrýjanda í leit að fiskikassa sem ratað hafði á rangan stað. Áfrýjandi hjálpaði honum við leitina og saman stigu þeir upp á stæðu af fjórum fiskikörum og stóðu hvor á sínum enda karanna, þegar þau féllu til hliðar. Áfrýjandi datt aftur á bak í fiskikar fullt af vatni og féllu eitt eða fleiri kör á vinstri fót hans. Varanleg læknisfræðileg örorka hans vegna slyssins var metin 7% með matsgerð læknis 28. ágúst 2014. Umrædd fiskikör voru í eigu Umbúðamiðlunar ehf. sem sá um þrif þeirra og viðhald en leigði þau Ópal Sjávarfangi ehf.
Vinnueftirlitið og lögregla skoðuðu vettvang slyssins samdægurs. Í skýrslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu 9. janúar 2013 sagði að fyrrgreindur B hefði bent lögreglu á skemmd á horni neðsta karsins í stæðunni, sem gert hafði verið við. Lögregla tók ljósmyndir af körunum og sagði í texta með einni þeirra að greinilegt hafi verið að eitthvað hafi komið fyrir hornið á karinu sem hafi gefið sig og væri um að ræða gamla viðgerð. Í skýrslu Vinnueftirlitsins 21. janúar 2013 kom fram að hvert fiskikar vægi 42 kíló, en kar með fiski gæti orðið allt að 300 kíló. Niðurstaða rannsóknar Vinnueftirlitsins var sú að Ópal Sjávarfang ehf. hafi ekki gert skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustaðnum og að engin vinnutilhögun hafi legið fyrir um verkið, þannig að sem minnst hætta stafaði af. Þá hafi neðsta karið í fjögurra kara stæðu verið viðgert og eitt horn þess gleiðara en það átti að vera. Því yrði að telja það vera ástæðu þess að körin féllu á hliðina.
Í vætti B fyrir héraðsdómi kom fram að hann hefði ásamt áfrýjanda leitað að fiskikassa er slysið varð. Hann bar að unnt hefði verið að nota lyftara við verkið, en það hefði tekið lengri tíma. Þeir hefðu náð að klifra upp á alla stæðuna og þegar stæðan hrundi hefði vitnið staðið á gólfinu við hlið karanna, en áfrýjandi verið ,,rétt kominn niður“. Vitnið kvað körin vera nánast eins og stiga og það sé fljótlegra að ,,hlaupa bara upp körin“. Væri oft klifrað upp á þau þegar verið væri að leita að einhverju. Kvaðst vitnið ekki hafa heyrt að bannað væri að stíga upp á körin.
Áfrýjandi bar fyrir héraðsdómi að lyftari sem var á staðnum hefði oftast verið ,,í lamasessi“. Umræddan morgun hefði C, yfirmaður sinn, sem jafnframt er fyrirsvarsmaður Ópal Sjávarfangs ehf., beðið sig að hjálpa B við að leita að fiskikassa. Áfrýjandi hefði verið að stíga upp á fyrsta karið í stæðunni, þegar hún féll ofan á hann. Áfrýjandi kvað C ekki hafa gefið sér fyrirmæli um að stíga upp á körin við leitina.
Fyrrgreindur C tók undir með áfrýjanda að hann hefði ekki gefið honum fyrirmæli um að stíga upp á körin. Hann sagði ekki útilokað að lyftari sem var á staðnum hefði verið rafmagnslaus, en skamman tíma tæki að fá hleðslu í hann, eða um 10 til 15 mínútur og því hefði verið unnt að nota hann við verkið. Spurður um hvort til hefði verið vinnutilhögun varðandi verkið sem áfrýjandi vann umrætt sinn, kvað hann ekki vera til vinnutilhögun um það sem ,,menn eigi ekki að gera.“
Í vætti E, framkvæmdastjóra Umbúðamiðlunar ehf., fyrir héraðsdómi kom fram að fyrirtækið leigði út fiskikör og væri með um 80.000 kör í umferð. Þeir sæju einnig um viðgerðir á körunum. Hann kvaðst ekki hafa séð það kar sem viðgert var, engar mælingar hafi verið gerðar á því og það gæti allt eins verið í notkun enn þá. Hann sagði þó um eiginleika karanna að ef eitt þeirra væri gleiðara en annað, féllu körin ekki rétt ofan í hvert annað.
G eftirlitsmaður Vinnueftirlitsins gaf skýrslu fyrir héraðsdómi eftir að hinn áfrýjaði dómur var kveðinn upp. Hann sagði horn neðsta karsins í stæðunni hafa verið gleitt, eða ,,eiginlega svagt“ og það hefði verið mat manna á staðnum að þetta gæti verið meðvirk orsök þess að næstneðsta karið og stæðan þar fyrir ofan rann inn í neðsta karið, þegar prílað var upp á það. Hann kvað karið ekki hafa verið rannsakað sérstaklega, en hann hafi gefið fyrirmæli um að það yrði tekið úr umferð.
II
Áfrýjandi hefur í máli þessu krafist viðurkenningar á bótaskyldu Ópals Sjávarfangs ehf. og Umbúðamiðlunar ehf., á grundvelli frjálsrar ábyrgðartyggingar félaganna hjá stefnda vegna líkamstjóns er hann varð fyrir í vinnuslysi hjá fyrrnefnda félaginu.
Eina athugunin sem fyrir liggur um orsök þess að áfrýjandi slasaðist er skýrsla Vinnueftirlits ríkisins. Samkvæmt niðurstöðu rannsóknar þess var slysið rakið til vanbúnaðar á horni neðsta karsins í stæðunni sem áfrýjandi steig upp á. Kom starfsmaður Vinnueftirlitsins fyrir héraðsdóm eftir að hinn áfrýjaði dómur var kveðinn upp og staðfesti niðurstöður skýrslunnar. Stefnda var í lófa lagið að afla matsgerðar til að freista þess að fá hnekkt niðurstöðum rannsóknar Vinnueftirlitsins. Þar sem það var ekki gert og ekki nýtur við annarra sönnunargagna í málinu um orsök slyssins verða þær lagðar til grundvallar um orsökina.
Í 1. mgr. 46. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum er mælt fyrir um að vélar, vélahlutir, ílát, geymar, katlar, áhöld, tæki, virki hvers konar og húshlutar, samstæður og annar búnaður, skuli þannig úr garði gerð að gætt sé fyllsta öryggis, góðs aðbúnaðar og hollustuhátta. Lög nr. 46/1980 leggja ekki einungis skyldur á atvinnurekendur um að fylgja fyrirmælum laganna, heldur einnig á þá sem lána eða leigja út búnað samkvæmt 3. mgr. 29. gr. laganna, sbr. 1. mgr. sömu greinar.
Eins og rakið hefur verið varð slysið er áfrýjandi steig upp á fiskikar í stæðu fjögurra fiskikara. Ekki hefur komið fram í málinu að fyrirsvarsmanni Ópal Sjávarfangs ehf., fremur en áfrýjanda sjálfum, hafi mátt vera kunnugt um að neðsta karið í stæðu þeirri er áfrýjandi steig upp á hafi verið haldið þeim ágalla sem fyrr er rakinn og varð til þess að stæðan hrundi. Sannað er að áfrýjandi fékk ekki fyrirmæli frá fyrirsvarsmanni Ópals Sjávarfangs ehf. um að stíga upp á fiskikörin til þess að leita að títtnefndum fiskikassa, heldur tók hann sjálfur þá ákvörðun að vinna verkið með þessum hætti. Þá hefur áfrýjandi ekki fært sönnur á að Ópal Sjávarfang ehf. hafi brotið gegn nánar tilgreindum ákvæðum laga nr. 46/1980 með þeim hætti að bótaskylda félagsins hafi stofnast.
Á hinn bóginn er sannað með fyrrgreindri skýrslu Vinnueftirlitsins að vegna viðgerðar á neðsta karinu hafi eitt horn þess orðið gleiðara en það átti að vera. Hafi það verið ástæða þess að körin féllu á hliðina. Viðgerðin, sem unnin var af starfsmönnum Umbúðamiðlunar ehf., var samkvæmt þessu ófullnægjandi og á því ber félagið ábyrgð eftir reglum skaðabótaréttar um vinnuveitandaábyrgð. Er þá litið til þess að á félaginu hvíldi skylda til að tryggja að ekki hlytist slysahætta af körum sem frá þeim stöfuðu, sbr. 29. gr. laga nr. 46/1980.
Í 1. mgr. 23. gr. a. skaðabótalaga nr. 50/1993 segir að verði starfsmaður fyrir líkamstjóni í starfi sínu, skerðist ekki réttur hans til skaðabóta vegna meðábyrgðar hans nema hann hafi af stórkostlegu gáleysi eða ásetningi átt þátt í að tjónsatburður varð. Hvílir sönnunarbyrði um það á stefnda og hefur sú sönnun ekki tekist, en ákvæði þetta er ekki bundið við tilvik þar sem skaðabótakröfu vegna slysa er beint gegn vinnuveitanda, eins og ákvæðið verður skýrt í ljósi lögskýringargagna, sbr. athugasemdir við 1. gr. laga nr. 124/2009 um breytingu á skaðabótalögum.
Að öllu framangreindu virtu er viðurkennd bótaskylda stefnda úr frjálsri ábyrgðartryggingu Umbúðamiðlunar ehf. vegna líkamstjóns er áfrýjandi hlaut í vinnuslysi 8. janúar 2013.
Stefnda verður gert að greiða áfrýjanda málskostnað á báðum dómstigum sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Viðurkennd er bótaskylda stefnda, Tryggingamiðstöðvarinnar hf., úr frjálsri ábyrgðartryggingu Umbúðamiðlunar ehf., á líkamstjóni áfrýjanda, A, sem hann hlaut í vinnuslysi 8. janúar 2013.
Stefndi greiði áfrýjanda 1.800.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. maí 2016.
Mál þetta sem höfðað var 7. desember 2015 af A, […] gegn Tryggingamiðstöðinni hf., Síðumúla 24, 108 Reykjavík, var dómtekið að lokinni aðalmeðferð 12. apríl sl.
Stefnandi krefst þess að viðurkennd verði bótaskylda stefnda, Tryggingamiðstöðvarinnar hf., óskipt úr frjálsri ábyrgðartryggingu Umbúðamiðlunar ehf. og frjálsri ábyrgðartryggingu Ópal Sjávarfangs ehf, vegna líkamstjóns sem stefnandi hlaut í vinnuslysi þann 8. janúar 2013. Þá krefst hann málskostnaðar.
Stefndi krefst þess aðallega að verða sýknaður af öllum kröfum stefnanda en til vara að stefnandi verði látinn bera tjón sitt sjálfur að verulegu leyti. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi stefnanda.
I.
Stefnandi varð fyrir vinnuslysi 8. janúar 2013 þegar hann var við störf sín sem sérhæfður fiskvinnslumaður hjá Ópal Sjávarfangi ehf. en félagið kaupir fisk til vinnslu á fiskmörkuðum.
Stefnandi lýsir aðdraganda slyssins svo að B vörubílstjóri hafi komið á starfsstöð Ópals í leit að fiskikössum sem höfðu endað þar, en tilheyrðu annarri fiskvinnslu. Að sögn stefnanda hafi C, stjórnarformaður og verkstjóri hjá Ópal, beðið stefnanda um að aðstoða B við leit að karinu en stefnandi var þá að koma úr kaffitíma ásamt samstarfsfólki sínu. Stefndi mótmælir þessu og segir stefnanda hafa farið óumbeðinn að aðstoða B, en þetta komi fram í lögregluskýrslu sem tekin var af stefnanda eftir slysið. Slysið varð er stefnandi og B voru að kanna hvort fiskikassarnir væru í fiskikari sem var efst í fjögurra kara stæðu. Sökum þess að dautt var á lyftara vinnustaðarins hafi stefnandi og B stigið hvor sínum megin upp á brík neðsta karsins í stæðunni. Stefnandi hafi þó aðeins verið kominn með annan fótinn upp á karið, þegar körin þrjú fyrir ofan féllu til hliðar og niður í áttina að stefnanda. Stefnandi hafi fallið aftur á bak ofan í fiskikar, sem var við hlið stæðunnar og var fullt af vatni, og fengið körin sem féllu, ofan á vinstri fót, sem lá út fyrir karbrúnina, sem hann féll ofan í. Vitnið B taldi þá hafa verið komna talsvert ofar í stæðuna þegar slysið varð. Stefndi mótmælir því sem ósönnuðu að lyftarinn hafi ekki verið tiltækur.
Stefnandi var fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild Landspítalans í Fossvogi eftir slysið þar sem hann var greindur með klemmuáverka á vinstri fótlegg með blæðingu í miðlægan vöðvabúk kálfavöðvans. Stefnandi var verulega slæmur af verkjum og var lagður inn til eftirlits, en útskrifaður 10. janúar 2013. Þann 14. mars 2013 gekkst stefnandi undir aðgerð á kálfanum, þar sem tæmdur var út margúll.
Lögregla var kvödd samdægurs á vettvang slyssins, hún skoðaði fiskikörin og tók myndir. Vinnueftirlitið rannsakaði slysið. Niðurstaða eftirlitsins var að orsakir slyssins mætti einkum rekja til þriggja atriða. Þannig hafi vinnuveitandi ekki gert skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði. Engin vinnutilhögun fyrir verkið hafi legið fyrir, þannig að sem minnst hætta stafaði af og neðsta karið í fjögurra kara stæðu hafi verið viðgert og eitt horn þess verið gleiðara en það hafi átt að vera. Því yrði að telja að sú hafi verið ástæða þess að körin féllu á hliðina.
Við skýrslutöku hjá lögreglu 23. janúar 2013, upplýsti C að öll fiskikör sem notuð væru hjá Ópal væru í eigu Umbúðamiðlunar ehf., en þau væru leigð af því fyrirtæki sem sæi um þrif á þeim og allar viðgerðir. Þá kom fram að körin kæmu í hús fyrir opnun fyrirtækisins og væri staflað af öðrum en starfsmönnum Ópals.
Stefnandi óskað þess með bréfi 6. maí 2013, að stefndi tæki afstöðu til bótaskyldu úr frjálsri ábyrgðartryggingu Ópals. Stefni hafnaði bótaskyldu 22. júlí 2013 á þeim grunni að slys stefnanda yrði ekki rakið til atriða sem Ópal bæri skaðabótaábyrgð á að lögum. Úrskurðarnefnd í vátryggingamálum komst að sömu niðurstöðu þar sem ekki lægi fyrir í málinu að um vanbúnað hefði verið að ræða á vinnustað eða aðrar ástæður sem felldi sök á Ópal. Tekið var fram að stefnandi væri vanur starfsmaður og hefði mátt gera sér grein fyrir því að varhugavert væri að standa að verki með þeim hætti sem hann gerði. Þá var talið að ekki hefði verið sýnt fram á að lyftari hefði ekki verið tiltækur.
Því næst, eða með bréfi 11. desember 2013, óskaði stefnandi eftir því að stefndi tæki afstöðu til bótaskyldu úr frjálsri ábyrgðartryggingu Umbúðamiðlunar ehf. Afstaða stefnda sem hann kynnti með bréfi 25. nóvember 2014 var hin sama. Slys stefnanda væri ekki að rekja til atriða sem Umbúðamiðlun ehf. bæri skaðabótaábyrgð á að lögum og því var bótaskyldu hafnað. Úrskurðarnefnd í vátryggingamálum, fékk málið því aftur til úrlausnar og hafnaði sem fyrr bótaskyldu 31. mars 2015. Nefndin taldi þannig ekki sýnt fram á með óyggjandi hætti að orsakasamhengi væri á milli þess að eitt horn fiskikars var gleiðara en það átti að vera og slyssins. Þá yrði ekki séð að karið hafi verið vanbúið til þeirra nota sem því var ætlað, eða að Umbúðamiðlun ehf. hafi mátt vita um meinta vankanta á fiskikarinu.
D læknir mat læknisfræðilegar afleiðingar slyssins í örorkumati útgefnu 28. ágúst 2014. Hann taldi tímabundna læknisfræðilega örorku stefnanda 100% frá slysdegi 8. janúar 2013 til 24. mars 2013 og 50% frá 25. mars 2013 til 13. apríl 2013. Þá mat hann varanlega læknisfræðilega örorku stefnanda 7%. Á grundvelli matsins var slys stefnanda gert upp úr slysatryggingu launþega Ópals hjá stefnda 2. september 2014.
-------
B gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins. Hann sagði að annar starfsmaður hefði verið að nota lyftarann áður en slysið varð og hann því í lagi. Það hafi hins vegar ekki komið til tals milli hans og stefnanda að nýta lyftarann til verksins, heldur að viðhafa aðferð sem sé mjög algeng, þ.e. að príla upp karastæðuna enda virki hún eins og hálfgildings stigi. Notkun lyftarans til verksins hefði verið seinlegri og það hafi verið ástæðan fyrir því að það kom ekki til tals. Vitnið sagði ekki óalgengt að stæður sem þessar væru að hrynja og kvaðst oft hafa orðið vitni að slíku. Vitnið taldi að slysið hefði orðið þegar þeir voru á leið niður aftur, þ.e. eftir að hafa klifrað upp og fundið karið sem vantaði.
C, fullyrti að það væri bannað að klifra upp karastæður líkt og stefnandi hefði gert og þvertók fyrir að slík háttsemi væri látin óátalin. Farið væri reglulega yfir öryggismál með starfsmönnum. Hann benti á að ef lyftarinn hefði verið rafmagnslaus, sem hann hefði þó enga vitneskju um, hefði það tekið á milli fimm og tíu mínútur að hlaða hann. C kvaðst engin fyrirmæli hafa gefið umrætt sinn og ekki haft hugmynd um að stefnandi hefði farið til að aðstoða B. Þá taldi C fullvíst að stigi hefði verið tiltækur umrætt sinn en fjöldi stiga væri á víð og dreif í starfsstöð fyrirtækisins.
E, framkvæmdastjóri Umbúðamiðlunar ehf., og F, yfirmaður á verkstæði fyrirtækisins, báru nokkuð á sama veg fyrir dómi. Kváðust þeir engar upplýsingar hafa fengið um slysið nema í gegnum fjölmiðla. Vinnueftirlitið hefði ekki haft samband vegna málsins sem hann taldi undarlegt, einkum í ljósi þess að starfsmaður eftirlitsins hafi talið orsök slyssins ófullnægjandi viðgerð á kari frá fyrirtækinu. Þeir töldu fráleitt að viðgerð á viðkomandi kari hafi verið ófullnægjandi miðað við þær myndir sem liggja frammi í málinu. Ekki hafi verið hreyft við innra byrði karsins, þar væri engin suða sjáanleg, og viðgerð, sem ljóslega hafi verið gerð á karinu, hafi eingöngu verið á ytra byrði og ekki getað haft áhrif á eiginleika karsins m.t.t. stöflunar. Báðir töldu fráleitt að menn klifruðu upp kör, og taldi E það eins vitlaust og það gæti orðið. Fram kom að Iðntæknistofnun hefði tekið mjög ítarlega út viðgerðir fyrirtækisins og þær hafi fengið 100% gæðavottun. Jafnframt væri þetta unnið í nánu samstarfi við Vinnueftirlitið sem kæmi iðulega til að fara yfir þær aðferðir sem viðhafðar væru við viðgerðir á körunum. Töldu mættu jafnlíklegt að umrætt kar væri enn í notkun, a.m.k. hefðu þeir enga hugmynd um hvar það væri niðurkomið.
II.
Stefnandi kveður málið höfðað sem viðurkenningarmál samkvæmt heimild í 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Stefnandi kveðst byggja á því að Ópal Sjávarfang ehf. og Umbúðamiðlun ehf. beri fulla og óskipta skaðabótaábyrgð á því slysi sem hann varð fyrir þann 8. janúar 2013.
Stefnandi telji að slysið megi rekja til vanrækslu og vanbúnaðar sem Ópal og Umbúðamiðlun beri sameiginlega skaðabótaábyrgð á. Ópal hafi verið vinnuveitandi stefnanda og þannig borið ábyrgð á öryggi á vinnustað. Umbúðamiðlun hafi verið eigandi fiskikaranna og Ópal hafi leigt þau af henni. Þá liggi fyrir að Umbúðamiðlun hafi séð um þrif á körunum og allar viðgerðir. Það sé skylda vinnuveitanda að tryggja öruggt starfsumhverfi fyrir alla starfsmenn, auk þess að skipuleggja örugga vinnutilhögun og útvega starfsmönnum fullnægjandi og örugg tæki og áhöld. Þá beri sá sem lánar eða leigir búnað til notkunar við atvinnurekstur ábyrgð á því að búnaðurinn sé forsvaranlegur og skapi ekki slysahættu. Bæði Ópal og Umbúðamiðlun hafi borið að fylgja lögum nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, og reglum settum samkvæmt þeim, en þá skyldu hafi bæði fyrirtækin vanrækt. Því beri þeir sameiginlega og óskipta bótaábyrgð á tjóni stefnanda.
Stefnandi kveðst byggja á því að hann hafi orðið fyrir tímabundnu og varanlegu líkamstjóni vegna slyssins sem stefnda beri að bæta að fullu úr ábyrgðartryggingum þessara tveggja félaga.
Stefnandi byggi á því að slysið megi aðallega rekja til vanbúnaðar fiskikarsins vegna ófullnægjandi viðgerðar á einu horni þess. Óforsvaranlegt hafi verið að stafla öðrum fiskikörum ofan á vanbúna fiskikarið og að einungis hafi verið spurning um tíma hvenær slys hlytist af vanbúnaðinum.
Stefnandi vísi í fyrsta lagi til umsagnar Vinnueftirlitsins um ástand karsins sem eftirlitið telji afdráttarlaust að sé orsök slyssins.
Í öðru lagi vísi hann til vettvangsskýrslu lögreglu, þar sem komi fram það álit skýrsluritara að greinilegt væri að eitthvað hefði komið fyrir hornið á karinu sem gaf undan, gömul viðgerð hafi verið sjáanleg á horninu.
Þá vísi stefnandi í þriðja lagi til tilkynningar um slys til Sjúkratrygginga Íslands 27. febrúar 2013, en þar komi fram að fulltrúi Ópals telji að fiskikarið hafi verið gallað. Það hafi og C, forráðamaður Ópals, staðfest í skýrslutöku hjá lögreglu 23. janúar 2013.
Með hliðsjón af framangreindu telji stefnandi ljóst að orsök slyssins megi aðallega rekja til þess að umrætt fiskikar hafi verið vanbúið, gallað og beinlínis hættulegt.
Stefnandi kveðst byggja á því að Ópal og Umbúðamiðlun hafi ekki fylgt fyrirmælum laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, og reglugerða og reglna sem settar hafi verið með stoð í þeim lögum. Stefnandi vísi til 13., 14., 37., 42., 46. gr. og 65. gr. a í lögum nr. 46/1980. Sérstaklega vísi hann til 46. gr. laganna, en þar sé meðal annars mælt fyrir um að áhöld, tæki og annar búnaður skuli þannig úr garði gerður að gætt sé fyllsta öryggis og að fylgja skuli ákvæðum laga og reglugerða að því er varðar aðbúnað, hollustuhætti og öryggi.
Stefnandi telji þá skyldu hvíla á Ópal sem vinnuveitanda, að gæta þess að kör sem notuð séu á vinnustaðnum, sérstaklega þau kör sem staflað sé upp, séu í forsvaranlegu ástandi og að á þeim flötum þar sem mesta álagið er sé ekki ófullnægjandi viðgerð. Þessari skyldu hafi vinnuveitandi stefnanda ekki sinnt og beri af þeim sökum ábyrgð á tjóni stefnanda.
Stefnandi kveðst byggja á því að það hafi verið í verkahring vinnuveitanda að yfirfara kör í stæðum, m.t.t. skemmda sem þessara, og að vinnuveitandi geti ekki skorast undan ábyrgð með því að vísa til þess að annar aðili hafi átt að bera ábyrgð á því að vinnutilhögun og vinnuaðstæður væru forsvaranlegar.
Það sé vinnuveitandi einn sem ákveði hvaða verk skuli vinna hverju sinni og setji hann þar með starfsmenn sína í ákveðnar aðstæður. Starfsmenn lúti hans húsbóndavaldi við framkvæmd verksins.
Stefnandi fullyrði að sá lyftari sem var til taks hafi verið bilaður og því ekki hægt að nýta hann til verksins. Hann hafi verið ónothæfur þar sem hann hafi ekki haldið hleðslu og verið meira og minna rafmagnslaus alla daga. Því hafi Ópal brugðist þeirri skyldu sinni að útvega starfsmönnum sínum nauðsynleg vinnutæki svo starfsmenn gætu sinnt starfi sínu og verkum á öruggan hátt.
Stefnandi byggi einnig á því að slysið megi rekja til þess að Ópal hafi vanrækt þá skyldu sína að útbúa, skipuleggja og tryggja örugga vinnutilhögun fyrir umrætt verk, þannig að sem minnst hætta stafaði af, samanber og niðurstöðu Vinnueftirlitsins. Þá hafi ekki verið tilnefndur öryggisvörður í fyrirtækinu eða séð til þess að starfsmenn tilnefndu öryggistrúnaðarmann úr sínum hópi samkvæmt 5. gr. laga nr. 46/1980. Þá hafi hvorki öryggisvörður né öryggistrúnaðarmaður hjá fyrirtækinu sótt námskeið um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustað, en kveðið sé á um það í 24. gr. reglugerðar, um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum nr. 920/2006, að atvinnurekanda beri skylda til að sjá til þess að þeir geri það.
Stefnandi vísar til þess að óumdeilt sé að öll fiskikör sem notuð voru á vinnustaðnum voru í eigu Umbúðamiðlunar sem leigði Ópal þau, og að Umbúðamiðlun hafi séð um þrif á körunum og allar viðgerðir.
Stefnandi byggi á því að Umbúðamiðlun beri fulla skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda vegna slyssins enda sé orsök slyssins aðallega að rekja til vanbúnaðar á fiskikari sem var í eigu og á ábyrgð Umbúðamiðlunar. Ljóst sé, með hliðsjón af niðurstöðu Vinnueftirlitsins um orsakir slyssins, að viðgerðin, sem Umbúðamiðlun framkvæmdi á umræddu fiskikari, hafi verið ófullnægjandi og óforsvaranleg en á því beri félagið ábyrgð. Um þennan vankant á karinu hafi félagið vitað eða mátt vita.
Samkvæmt 3. mgr. 29. gr., sbr. 1. mgr. 29. gr., laga nr. 46/1980 beri sá, sem lánar eða leigir búnað til notkunar við atvinnurekstur, ábyrgð á því að búnaðurinn standist þær kröfur, sem gerðar séu í lögunum, eða reglum settum samkvæmt þeim, og að notkun slíks búnaðar leiði ekki af sér slysahættu. Vanræksla Umbúðamiðlunar hafi verið saknæm og ólögmæt og beri félagið því skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda.
Stefnandi kveður engar forsendur fyrir því að hann beri sjálfur sök í málinu. Hann hafi ekki sýnt af sér nokkra þá háttsemi sem jafna megi til stórkostlegs gáleysis, en ekki nægi að hann hafi sýnt af sér einfalt gáleysi, samanber a-lið 1. mgr. 23. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Stefnandi hafi mátt gera ráð fyrir að fiskikarið væri forsvaranlegt og ekki vanbúið og fyllsta öryggis væri gætt á vinnustaðnum.
Stefnandi kveðst mótmæla fullyrðingu stefnda, um að starfsmönnum hafi verið bannað að klifra á körunum, sem rangri og ósannaðri, enda eigi hún sér ekki neina stoð í gögnum málsins. Af niðurstöðu Vinnueftirlitsins sé ljóst að engin boð eða bönn lágu fyrir varðandi umrætt verk af hálfu vinnuveitanda stefnanda. Stefnandi hafi því ekki brotið neinar skráðar eða óskráðar reglur við vinnu sína og var eingöngu að fylgja eftir fyrirmælum yfirboðara sinna. Stefnandi kveður ekki óvanalegt að starfsfólk eða yfirmenn hafi þurft, vinnu sinnar vegna, að stíga upp á körin með svipuðum hætti og stefnandi gerði umrætt sinn og hafi slík háttsemi verið óátalin af yfirmönnum. Þá byggi stefnandi á því að fiskikör eigi að geta staðið trygg í stæðum þótt komið sé lauslega við þau. Rétt stöfluð, geti kör sem þessi staðið af sér mikið hnjask.
Málshöfðun og kröfugerð kveðst stefndi byggja á heimild í 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, en hann hafi mikla hagsmuni af því að skorið sé úr um tilvist og efni kröfu hans á hendur stefnda.
Um heimild til að höfða viðurkenningarmál kveðst stefnandi vísa til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Um bótaábyrgð sé vísað til ákvæða skaðabótalaga nr. 50/1993, með síðari breytingum, og meginreglna skaðabótaréttar, þ. á m. sakarreglu íslensks skaðabótaréttar og reglunnar um ábyrgð vinnuveitanda á saknæmri háttsemi starfsmanna sinna. Vísað sé til laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, og reglugerða og reglna sem settar eru með stoð í lögunum, einkum reglugerðar nr. 920/2006, um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum, og reglugerðar 367/2006, um notkun tækja, einkum 5.-7. gr. og 2.6. gr. í I. viðauka við reglugerðina.
Um aðild málsins vísist til 44. gr. laga nr. 30/2004, um vátryggingarsamninga, sem og III. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Þá sé vísað til III. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, varðandi fyrirsvar málsins. Varðandi málskostnað sé vísað til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
III.
Stefndi kveðst byggja á því að stefnanda hafi ekki tekist sönnun um að tjón hans verði rakið til saknæmrar og ólögmætrar athafnar eða athafnaleysis þess sem valdur sé að tjóninu.
Stefnandi hafi sjálfur ákveðið að aðstoða bílstjórann við leit að karinu og því ekki verið að bregðast við fyrirmælum yfirmanna. Stefnandi kveðst mótmæla, sem ósönnuðum, fullyrðingum í stefnu um að óforsvaranlegt hafi verið að stafla öðrum fiskikörum ofan á vanbúna fiskikarið og að einungis hafi verið spurning um tíma hvenær slys hlytist af.
Þá telji stefndi stefnanda ekki hafa tekist sönnun um að slysið verði rakið til ólögmætrar og saknæmrar háttsemi starfsmanna Ópals Sjávarfangs.
Stefndi kveðst halda því fram að Ópal Sjávarfang hafi í hvívetna fylgt lögum og reglum og tryggt öryggi á vinnustaðnum eftir því sem hægt var og aðstæður leyfðu og m.a. fullnægt skilyrðum 13., 14. og 42. gr. laganna. Hafi þar engu verið áfátt.
Stefnandi hafi sjálfur ákveðið að fara með bílstjóranum til leita að fiskikassanum sem bílstjórinn var að grennslast fyrir um. Stefnandi hafi ekki ráðfært sig við verkstjóra sem var á vinnustaðnum. Verkstjóri hefði brýnt fyrir starfsmönnum að vera ekki nálægt þegar verið var að lyfta eða losa úr körunum því þau gætu skrikað til á gafli lyftarans þannig að hætta skapaðist. Stefnandi hafi, eins og aðrir starfsmenn, fengið skýrar leiðbeiningar um að vera ekki að príla upp á tæki, tól og áhöld. Stefndi telur að hefði stefnandi ráðfært sig við verkstjórann hefði sá fyrirskipað honum að nota lyftarann sem var til staðar á staðnum, en stefnandi sé með sérstakt lyftarapróf. Engin rannsókn hafi farið fram á lyftaranum, en fyrirsvarsmenn Ópals Sjávarfangs staðhæfi að lyftarinn hafi verið hæfur til notkunar á þessum tíma.
Það sé óumdeilt að fiskikör í starfsstöð Ópals Sjávarfangs eru í eigu Umbúðarmiðlunar, sem leigi út slík kör og annist á þeim þrif og viðgerðir. Á fyrirsvarsmönnum Ópals Sjávarfangs kunni að hvíla sú skylda, að viðhafa eðlilegt eftirlit með því, hvort fiskikör á starfsstöð félagsins séu í því horfi að ekki stafi hætta af. Hins vegar verði ekki talið óforsvaranlegt að gera við skemmdir á fiskikörum og hlutlæg ábyrgð á gæðum slíkra viðgerða verði ekki lögð á Ópal Sjávarfang. Ekkert hafi reyndar bent til þess að ástand fiskikarsins sem um ræðir hafi verið ófullnægjandi, enda hafi stefnandi sjálfur ekki tekið eftir neinu slíku þegar hann klifraði upp á karið.
Ábyrgð á slysi stefnanda verði því ekki lögð á Ópal Sjávarfang á grundvelli sakar, og ósannað að fyrirsvarsmenn félagsins hafi viðhaft ófullnægjandi eftirlit með þeim fiskikörum sem starfsmenn þess unnu með. Sjónarmið um hlutlæga ábyrgð eða öfuga sönnunarbyrði eigi ekki við í málinu, enda uppfyllti Ópal Sjávarfang allar skyldur sínar sem að félaginu snúa í tengslum við rannsókn á málsatvikum og aðstæðum.
Vegna umsagnar Vinnueftirlitsins, fullyrði stefndi að skriflegar reglur á vinnustaðnum hefðu ekki komið í veg fyrir slys stefnanda og ekki séu til staðar skjalfestar vinnureglur um framkvæmd verka sem aldrei séu unnin í starfsstöð Ópals Sjávarfangs.
Í 1. mgr. 26. gr. laga nr. 46/1980 er kveðið á um að starfsmenn skuli stuðla að því, að starfsskilyrði innan verksviðs þeirra séu fullnægjandi að því er varðar aðbúnað, hollustuhætti og öryggi, og einnig að því, að þeim ráðstöfunum, sem gerðar eru til þess að auka öryggi og bæta aðbúnað og hollustuhætti samkvæmt lögunum, sé framfylgt. Í 2. mgr. þessarar lagagreinar er kveðið á um að starfsmaður, sem verður var við ágalla eða vanbúnað, sem leitt gæti til skerts öryggis eða lakari aðbúnaðar eða hollustuhátta, sem hann getur ekki sjálfur bætt úr, skuli umsvifalaust tilkynna það öryggisverði, öryggistrúnaðarmanni, verkstjóra eða atvinnurekanda.
Stefnandi, sem var vanur starfsmaður, átti ekki að sýna af sér það dómgreindarleysi að klifra upp á fiskikarið, sérstaklega þegar slíkt hátterni hafði verið bannað. Slysið verður einvörðungu rakið til háttalags stefnanda sjálfs og ber hann því einn ábyrgð á tjóni sínu. Að þessu virtu ber að sýkna stefnda af kröfu stefnanda um greiðslu skaðabóta úr ábyrgðartryggingu Ópals Sjávarfangs.
Stefndi vísi til 3. mgr. 29. gr., sbr. 1. mgr. 29. gr. laga nr. 46/1980 en samkvæmt ákvæðunum skuli sá, sem láni eða leigi búnað til notkunar við atvinnurekstur tryggja að notkun þess leiði ekki af sér slysahættu. Umbúðamiðlun sé eigandi á milli 60 til 70.000 eininga af fiskikörum og séu þau framleidd af Borgarplasti og Promens/Sæplasti. Körin séu framleidd eftir viðurkenndum aðferðum og hafi báðar verksmiðjurnar opinber starfsleyfi til starfsemi sinnar. Körin séu af framleiðendum ætluð til hífingar og stöflunar og hífa megi meira en eitt kar í einu. Körin séu hönnuð með þeim hætti að gaflar lyftara komist auðveldlega undir þau og á efri hornum þeirra séu op sem fætur annarra kara falla í þegar körunum er staflað.
Umbúðamiðlun leigi aðilum í sjávarútvegi körin en hafi engin afskipti af körunum í rekstri leigutaka þeirra. Leigutakar þekki almennt körin og eðli þeirra og hagi notkun í starfsemi sinni með tilliti til þeirra staðreynda. Umbúðamiðlun geti ekki með neinum ráðum komið í veg fyrir að einstakir leigutakar eða starfsmenn þeirra eyðileggi kör vegna óhappatilvika eða haft eftirlit með því að þau séu ekki notuð undir álagi sem sé umfram getu eða eiginleika karanna. Það sé því í öllum tilvikum viðkomandi leigutaki og vinnuveitandi/starfsmenn sem taki ákvarðanir um notkun og meðferð karanna og gefi starfsmönnum sínum fyrirmæli um meðferð þeirra.
Kör sem skemmist í meðförum leigutaka séu tekin úr umferð og komið í viðgerð eða fargað ef skemmdir eru miklar, en sérhæfðir viðgerðarmenn gera við kör sem skemmist og gera það með sérhæfðum búnaði þar sem notaður er suðuþráður úr sama efni og karið sjálft, eða polyethylene, og með plastsuðutæki sem framleiðir heitt loft. Viðgerð kör hafi sömu eiginleika og ný kör og engin kör séu sett í umferð sem eru talin rýrari að gæðum. Stefndi fullyrðir að óþekkt sé að viðgerð hafi gefið sig á körum, og því sé viðgerð sem slík ekki óforsvaranleg. Ágiskun um að viðgerð hafi gefið sig og verið orsök eða meðorsök slyssins sé með öllu ósönnuð.
Við klifur stefnanda, sem var alfarið bannað, hafi komið ójafnvægi á karastæðuna sem var þess valdandi að körin ultu. Fyrir það stóðu körin stöðug á gólfinu.
Kar það sem stefnandi klifraði upp á, hafi verið viðgert en fullkomlega í nothæfu ástandi til þess sem því er ætlað. Ekki sé gert ráð fyrir jafn fjarlægri notkun eins og að klifrað eða hangið sé í körunum og jafnvægi þeirra þannig raskað svo um muni. Stefndi tekur undir álit úrskurðarnefndar í vátryggingamálum, að ekki verði séð að umrætt kar hafi verið vanbúið til þeirra nota sem því hafi verið ætlað eða að Umbúðamiðlun hafi mátt vita að meintir vankantar á fiskikarinu hafi verið fyrir hendi.
Með skírskotun til alls framangreinds beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.
Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að rekja megi slys stefnanda til vanbúnaðar vinnustaðarins eða að skort hafi á öryggisráðstafanir af hálfu Ópals Sjávarfangs eða að slysið verði rakið til ástands fiskikarsins, sem sé í eigu Umbúðamiðlunar, krefst stefndi þess að stefnandi verði látinn bera hluta tjóns síns sjálfur að verulegu leyti.
Varakröfu sína um eigin sök stefnanda kveðst stefndi byggja á því að stefnandi hafi sjálfur ákveðið að klifra upp fiskikörin til að kanna hvað væri ofan í fjórða og efsta karinu. Stefnandi hafði, eins og aðrir starfsmenn, fengið skýrar leiðbeiningar um að vera ekki að príla upp á tæki, tól og áhöld. Hann hafi ekki ráðfært sig ekki við verkstjóra áður en hann ákvað að klifra upp fiskikörin. Með vítaverðri hegðun sinni hafi hann sýnt af sér stórkostlegt gáleysi. Á því beri hann einn ábyrgð og eigi því að bera verulegan hluta tjóns síns sjálfur.
Samkvæmt skaðabótalögum nr. 50/1993, gr. 23. a skerðist ekki réttur starfsmanns til skaðabóta vegna meðábyrgðar hans nema hann hafi af stórkostlegu gáleysi eða ásetningi átt þátt í að tjónsatburður varð. Stefnandi hafi ekki verið starfsmaður Umbúðamiðlunar og beri því ábyrgð á eigin tjóni samkvæmt almennum reglum um gáleysi.
Stefndi kveðst vísa til laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Enn fremur vísar hann til laga um vátryggingarsamninga nr. 30/2004, og skaðabótalaga nr. 50/1993 og meginreglna skaðabótaréttarins. Um málskostnaðarkröfu vísi hann til 130. gr., sbr. 129. gr., laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
IV.
Ekki er ágreiningur um að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni vegna slyssins, samanber framlagt örorkumat D frá 28. ágúst 2014 og uppgjör við stefnanda í kjölfarið úr slysatryggingu launþega Ópals sjávarfangs ehf., 2. september 2014. Er því fullnægt skilyrði 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, um lögvarða hagsmuni.
Með vísan til framburða fyrir dómi og annarra gagna málsins verður lagt til grundvallar að stefnandi sjálfur hafi ákveðið að aðstoða vitnið B umrætt sinn, en aðalstarfsstöð stefnanda í fyrirtækinu var annars staðar í húsinu. Hann hafi jafnframt sjálfur ákveðið hvernig hann stæði að verkinu.
Ekki verður, að mati dómsins, sú krafa gerð, að skrifleg fyrirmæli liggi fyrir um hvaðeina sem mögulega þarf að gera í fyrirtæki sem Ópal sjávarfangi ehf. Ekki er hægt að ætlast til að vinnuveitandi þurfi ætíð að hugsa fyrir allar mögulegar og ómögulegar kringumstæður og setja starfsmönnum sínum skrifleg fyrirmæli um framkvæmd allrar vinnu og við allar aðstæður. Enn síður eigi það við um athafnir og aðgerðir sem fráleitt er að vænta af starfsmönnum eða mjög langsótt. Eins og stefnandi og B báru sig að umrætt sinn, og m.t.t. framburðar B, verður enda að telja allt eins líklegt, að þeir hefðu haft sama háttinn á, þótt einhverjar reglur hefðu legið fyrir og lagt bann við því að klifra upp fiskikör. Forsvarsmaður Ópals sjávarfangs ehf. fullyrti að hann færi reglulega yfir öryggismál með starfsmönnum sínum og að það væri öllum ljóst að klifur á fiskikörum væri stranglega bannað og fráleitt af starfsmönnum að ástunda slíkt. Hann væri sér mjög meðvitaður um sínar skyldur sínar í þessum efnum, enda hefði hann á árum áður stýrt 1.200 starfsmanna verksmiðjum í Frakklandi sem unnu með sjávarfang. Ekki voru leidd fyrir dóminn vitni til að bera um hvernig öryggismálum hjá fyrirtækinu væri háttað.
Í fyrirtækinu vinna að jafnaði 7-8 manns þannig að sú skylda sem lögð er á fyrirtæki samkvæmt 5. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, hvílir ekki á stefnanda. Því gildir regla 4. gr., um að atvinnurekandi og/eða verkstjóri hans skuli stuðla að góðum aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi á vinnustað, í nánu samstarfi við starfsmenn fyrirtækisins og félagslegan trúnaðarmann þeirra. Ekkert er fram komið í málinu sem bendir til þess að þessu hafi ekki verið framfylgt og ekki verður fallist á það mat starfsmanns Vinnueftirlitsins í skýrslu eftirlitsins frá 21. janúar 2013, að orsök slyssins megi rekja til þess að fyrirtækið hafði ekki gert skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði, og að engin vinnutilhögun hafi legið fyrir verk sem þetta, þannig að sem minnst hætta stafaði af. Skaðabótaskylda Ópals ehf., og þar með greiðsluskylda stefnda, verður því ekki byggð á því að skort hafi á leiðbeiningar, eftirlit eða fyrirmæli vinnuveitanda. Þótt því yrði slegið föstu að slík fyrirmæli hefðu átt að vera til staðar, verður ekki séð að orsakatengsl séu á milli þess að þau skorti og þess slyss sem mál þetta fjallar um, eins og atvikum háttar. Þá verður heldur ekki séð að það geti talist sennileg afleiðing af slíkri, eftir atvikum þá, vangá vinnuveitanda, að starfsmaður gerist sekur um háttsemi sem tæplega er hægt að sjá fyrir eða flokka má jafnvel sem fífldirfsku.
Þá telur dómurinn að fullyrðing starfsmanns Vinnueftirlits ríkisins, um að þriðja og síðasta atriði sem hafi ollið slysinu hafi verið að eitt hornið á neðsta karinu hafi verið gleiðara en það eigi að vera, sé hvorki nægjanlega rökstudd né styðjist við slík gögn að geti talist sönnuð. Þetta atriði er það eina, að mati dómsins, sem hugsanlega kemur til skoðunar um það, hvort orsakir slyssins verði raktar til saknæmrar háttsemi starfsmanna Ópals sjávarfangs ehf. eða Umbúðamiðlunar ehf. Dómurinn telur að sú rannsókn sem fram fór á þessu atriði sé allsendis ófullnægjandi og ýmislegt bendi til þess, þvert á móti, að ekki sé um slíkan galla eða vanbúnað á karinu að ræða.
Svo virðist sem vitnið B hafi fyrstur bent á að neðsta karið í stæðunni hafi verið viðgert, samanber lögregluskýrslu frá vettvangi. Hvorki í framburði hans fyrir lögreglu né í skýrslu af vettvangi er getið um að innanvert horn karsins sé gleiðara en það eigi að vera. Einungis er getið um viðgerð á karinu, en hún er greinilega sjáanleg á ljósmyndum í málinu. Starfsmaður Vinnueftirlitsins fullyrðir hins vegar að eitt horn karsins sé gleiðara án þess að gera einhverjar mælingar á því eða prófa karið á staðnum, þ.e. að skoða hvernig karið tæki við öðrum körum sem staflað væri upp á það. Þá vekur það athygli að eftirlitið gerði ekki sjáanlega kröfu um að karið yrði tekið úr umferð, enda standa allar líkur til þess, samanber framburði fyrir dómi, að það sé enn í notkun.
Vitnið F, sem starfað hefur við viðgerðir á körum sem þessum í um tuttugu og fimm ár og stýrir fjögurra manna deild sem gerir við að jafnaði 100 kör á dag, fullyrti að útilokað væri að hornið væri gleiðara og taldi ljósmyndir enda staðfesta það. Greinilega hafi verið gert við ytra byrði karsins, en á milli væri frauð og síðan kæmi innra byrði sem greinilega hefði ekkert verið átt við. Vitnið benti á að þessi ker gætu bólgnað út þegar þau væru full af fiski eða öðru, og þannig gæti jafnvægi þeirra hugsanlega raskast eitthvað. Augljóst væri svo að það kynni ekki góðri lukku að stýra, ef fullvaxinn karlmaður hæfi sig upp stæðu af slíkum körum. Vitnið taldi að hugsanlega hefði karið sem var ofan á umræddu kari verið skemmt og það valdið hruninu.
Ekki verður annað ráðið en að sú skoðun starfsmanns V innueftirlitsins, að hornið hafi verið of gleitt, byggi einvörðungu á órökstuddri ályktun hans. Engin rannsókn hafi farið fram á því hvort þessi væri raunin. Ljósmyndir gefa þetta ekki til kynna að mati dómsins og ekki var hornið mælt eða borið saman við önnur horn karsins eða annarra kara. Hitt er óumdeilt í málinu að gert hafi verið við ytra byrði karsins enda blasir það við á ljósmyndum. Nokkuð bagalegt er að umræddur starfsmaður eftirlitsins hafi ekki verið kallaður fyrir dóm og að ekki liggi fyrir í málinu upplýsingar um hvort viðkomandi búi yfir einhvers konar sérþekkingu á sviðinu.
Það vekur athygli dómsins að ekki hafi verið, af hálfu Vinnueftirlitsins, haft samband við Umbúðamiðlunina ehf. og þeim gefinn kostur á að skoða karið og eftir atvikum veita ráðgjöf í málinu, eða koma að athugasemdum. Umsögn eftirlitsins var undirrituð 21. janúar 2013 eða þrettán dögum eftir slysið. Ekki liggur fyrir hvenær hún barst Ópal. Ef litið yrði svo á að niðurstaða Vinnueftirlitsins hefði fellt einhverja rannsóknarskyldu á vinnuveitandann var honum gert erfitt fyrir, í ljósi þess að ekki var gerð krafa um að karið yrði tekið úr umferð og flest sem bendir til þess að karið hafi, vegna sífelldra útskipta á körum, verið farið sína leið. Þá er ljóst að Umbúðamiðlun ehf. gat engar ráðstafanir gert í þessa veru þar sem forsvarsmenn félagsins höfðu ekki vitneskju um meintar orsakir slyssins, þótt þeir hefðu heyrt af því í fréttum, að slys hefði orðið í fiskvinnslu í Hafnarfirði.
Vinnuveitandi stefnanda uppfyllti þær skyldur sem á hann eru lagðar þegar slys verður á vinnustað og kallaði til bæði lögreglu og Vinnueftirlit ríkisins. Þá er óumdeilt að lyftari stóð á vinnslugólfinu rétt hjá stæðunni og samkvæmt vætti B var hann í lagi. Þá kom einnig fram í málinu og því hefur ekki verið mótmælt að til reiðu voru stigar sem hægt hefði verið að nota til verksins.
Sönnunarbyrði í málinu liggur í fyrstu á stefnanda. Ekki verður talið að framangreind atvik og sjónarmið geti leitt til þess að sönnunarbyrðinni um orsakir slyssins, verði varpað yfir á stefnda.
Dómurinn lítur enda svo á, samanber framangreint, að hvorki liggi fyrir sönnun um vanbúnað á karinu, né að slíkur vanbúnaður hafi leitt til slyssins. Jafnvel þótt litið yrði svo á að báðum þessum skilyrðum væri fullnægt, þ.e. að horn karsins hafi verið of gleitt og það hafi valdið slysinu, verður ekki séð að ábyrgð verði felld á vinnuveitandann á þeim grundvelli. Miðað við gögn málsins hefði þá þurft mjög nákvæma yfirferð vinnuveitanda í byrjun hvers dag, a.m.k. á þeim körum sem kæmu í húsið áður en eiginlegur vinnudagur hófst. Slík krafa verður ekki gerð í máli þessu, enda körin í eigu og undir viðhaldi annars aðila og afhent vinnuveitanda stefnanda af enn öðrum aðila áður en vinna hefst dag hvern. Jafnframt er með öllu óljóst hvort slíkt eftirlit hefði getað leitt til þess að einhver galli hefði greinst, ef hann hefur á annað borð verið til staðar. Verður því ekki séð að starfsmenn Ópals sjávarfangs ehf. hafi sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi þannig að leiði til bótaskyldu.
Ekki verður séð að stefnandi byggi á því að um hlutlæga ábyrgð geti verið að ræða vegna galla eða bilunar í tæki. Dómurinn telur enda að slík ábyrgð komi, með vísan til atvika málsins, aðstæðna á vinnustaðnum og dómafordæma, ekki til álita.
Sömu sjónarmið eiga við um ábyrgð Umbúðamiðlunar ehf. þegar af þeirri ástæðu að dómurinn metur það svo að ósannað sé að karið hafi verið gallað eða skemmt og slíkur vanbúnaður hafi valdið slysinu. Þá hefur því sem fram kom við aðalmeðferð ekki verið mótmælt af hálfu stefnanda, að mikið og nákvæmt eftirlit er viðhaft af hálfu félagsins á körunum. Ef minnsti vafi er á að viðgerð takist ekki er körum hent. Þessi viðgerðarvinna sé jafnframt vottuð af opinberum aðilum og Vinnueftirlit ríkisins heimsæki fyrirtækið reglulega . Þá verður ábyrgð á hendur félaginu ekki byggð á því að ker, sem eru í umferð og vörslum annarra þar með, séu sífellt á ábyrgð félagsins, enda væri þá ábyrgðin næst því að vera hlutlæg.
Dómurinn telur því ekkert fram komið í málinu sem fellt geti greiðsluskyldu á stefnda á grundvelli þess að starfsmenn Ópals sjávarfangs ehf. og/eða Umbúðamiðlunarinnar ehf. hafi átt sök á slysi stefnanda með saknæmum og ólögmætum hætti og bakað þannig vinnuveitendum sínum skaðabótaábyrgð.
Stefndi verður því sýknaður af viðurkenningarkröfu stefnanda. Eftir úrslitum og atvikum málsins, og með vísan til 1. gr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, verður stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 500.000 krónur.
Erling Daði Emilsson héraðsdómslögmaður flutti mál þetta fyrir hönd stefnanda og Hjörleifur B. Kvaran hæstaréttarlögmaður fyrir hönd stefnda.
Lárentsínus Kristjánsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, Tryggingamiðstöðin hf., er sýknuð af kröfum stefnanda, A.
Stefnandi greiði stefnda 500.000 krónur í málskostnað.