Hæstiréttur íslands
Mál nr. 433/2006
Lykilorð
- Gerðardómur
|
|
Fimmtudaginn 29. mars 2007. |
|
Nr. 433/2006. |
Páll Ólafsson(Kristinn Bjarnason hrl.) gegn dánarbúi Jóns Ólafssonar (Steinunn Guðbjartsdóttir hrl.) og
gagnsök |
Gerðardómur.
P krafðist þess að þrír hlutar gerðardóms
um slit á samrekstri, uppgjör skulda og skiptingu eigna málsaðila í B yrðu
ógiltir á grundvelli 6. töluliðar 1. mgr. 12. gr. laga nr. 53/1989 um
samningsbundna gerðardóma. Hann krafðist þess jafnframt að dánarbú J yrði gert
að greiða honum tiltekna fjárhæð í samræmi við það. Fallist var á að annmarkar
væri á úrlausn meiri hluta gerðardóms í tveimur kaflanna. Talið var að við
skýringu á framangreindu ákvæði yrði að taka tillit til þess að í þeim erlendu
reglum, sem vísað var til í athugasemdum með frumvarpi til laganna, væru miklar
skorður settar við því að gerðardómur yrði ógiltur vegna efnislegra annmarka á
niðurstöðu hans. Þá yrði að líta til þess að með gerðarsamningi tæki málsaðili
þá áhættu af gerðardómsmeðferð að réttaröryggi yrði ekki tryggt á sama hátt og
við rekstur máls fyrir dómi, meðal annars sökum verulegra takmarkana á því að
leitað yrði endurskoðunar eða ógildingar á niðurstöðu. Þótt annmarkar væru á
röksemdum meiri hluta gerðardóms fyrir niðurstöðu sinni var ekki talið
bersýnilegt að ekki hefði mátt komast að sömu niðurstöðu og þar var gert á
grundvelli annarra atriða, sem lágu fyrir við gerðarmeðferðina. Að öllu þessu
virtu var ekki talið sýnt fram á að niðurstaða meirihluta gerðardóms hefði
bersýnilega verið reist á ólögmætum sjónarmiðum í skilningi ákvæðisins. Ekki
var heldur talið að fyrirmæli ákvæðisins um tilvik þar sem niðurstaða
gerðardóms færi í bága við allsherjarreglu gætu átt við.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Markús Sigurbjörnsson.
Aðaláfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 31. maí 2006. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 12. júlí 2006 og var áfrýjað öðru sinni 8. ágúst sama ár. Hann krefst þess að ógiltir verði eftirfarandi þrír hlutar gerðardóms 4. apríl 2002 um slit á samrekstri, uppgjör skulda og skiptingu eigna málsaðila í Brautarholti á Kjalarnesi: Kafli I að því er varðar mat á verðmismun milli lands og húseigna sem komu í hlut gagnáfrýjanda annars vegar og aðaláfrýjanda hins vegar, kafli II.3 að því er varðar rekstur kaffistofu og kafli II.4. Aðaláfrýjandi krefst þess einnig að gagnáfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 11.752.663 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 4. apríl 2002 til greiðsludags. Hann krefst og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 18. október 2006 og krefst þess að hann verði staðfestur um annað en málskostnað, sem sér verði dæmdur í héraði og fyrir Hæstarétti.
I.
Aðaláfrýjandi styður dómkröfur sínar þeim rökum að þeir bræður, hann og Jón heitinn Ólafsson, sem rekið hafi í sameiningu bú að Brautarholti, hafi gert samning 15. mars 2000, þar sem kveðið hafi verið á um slit á samrekstri og uppgjör skulda er honum tilheyrðu, svo og um skiptingu sameigna. Gert hafi verið ráð fyrir því að skipting eigna yrði eins jöfn og kostur væri, en aðilar skyldu jafna verðmætismun með peningagreiðslu. Í samningnum hafi verið ákveðið að nánar tiltekin atriði yrðu lögð fyrir gerðardóm þriggja manna til úrlausnar, en hann yrði skipaður þáverandi lögmanni hvors aðila ásamt oddamanni, sem yrði „dómkvaddur“ ef samkomulag yrði ekki um val á honum. Gerðardómur hafi verið kveðinn upp 4. apríl 2002, en niðurstaða hans hafi ekki verið í neinu samræmi við forsendur samningsins. Af þeim sökum hafi aðaláfrýjandi upphaflega gert þá aðalkröfu í máli þessu að gerðardómurinn yrði ógiltur í heild, en til vara þær kröfur, sem áður er getið. Sakarefni í málinu hafi verið skipt og aðalkröfunni hafnað með dómi héraðsdóms 19. desember 2003, sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar 18. nóvember 2004 í máli nr. 186/2004, sem birtur er í dómasafni þess árs á bls. 4386. Nú sé til úrlausnar krafa aðaláfrýjanda um ógildingu gerðardómsins að hluta. Heimilt sé að ógilda gerðardóm ef bersýnilega hafi verið vikið frá gerðarsamningi og einnig þegar gerðarmenn hafi slegið föstum málsatvikum, sem enginn fótur sé fyrir í gögnum málsins, en gerðin sé þá reist á ólögmætum sjónarmiðum, sbr. 6. tölulið 1. mgr. 12. gr. laga nr. 53/1989 um samningsbundna gerðardóma. Gagnáfrýjandi hafi fengið miklu verðmætari eignir í sinn hlut samkvæmt I. kafla gerðardómsins og niðurstöður í kafla II.3 og II.4 að því er varði kaffistofu og ætlaða úttekt aðaláfrýjanda úr sameiginlegum rekstri séu beinlínis rangar. Þetta hafi aðaláfrýjandi sannað, meðal annars með matsgerð dómkvaddra manna 8. desember 2005. Gerðardómsmeðferð tryggi ekki réttaröryggi á sama hátt og málsmeðferð fyrir dómstólum. Af því leiði ríkari nauðsyn að fylgt sé þeim lágmarkskröfum, sem gerðar séu í lögum nr. 53/1989. Þegar aðaláfrýjandi hafi fallist á að leggja ágreining þeirra bræðra í gerð hafi hann mátt ætla að almennum reglum um sönnunarmat yrði fylgt í gerðardóminum, jafnframt því sem gerðarmenn myndu afla tilhlýðilegra gagna um ágreiningsefnin. Sérstaklega ríkar kröfur verði að gera til þess að gerðarsamningurinn sé virtur, enda feli hann í sér þann grundvöll, sem beita eigi við úrlausn máls, og forsendur að baki því að aðilar fóru ekki með það fyrir dómstóla. Aðaláfrýjandi telur og að ekki fái staðist sú forsenda héraðsdóms að hugtakið allsherjarregla í 6. tölulið 1. mgr. 12. gr. laga nr. 53/1989 feli í sér skírskotun til ordre public hugtaksins í alþjóðlegum einkamálarétti. Að réttu lagi heimili þetta lagaákvæði dómstólum að endurskoða innlendan gerðardóm efnislega og meta hvort hann samrýmist meginreglum íslensks réttar, þar á meðal um sönnun og sönnunarbyrði. Aðaláfrýjandi byggi á því að gerðin hafi brotið gegn allsherjarreglu, meðal annars með því að ganga bersýnilega þvert á almennar reglur um sönnun og sönnunarbyrði og leggja röng atvik til grundvallar.
Gagnáfrýjandi telur gerðardóminn fullnægja öllum kröfum laga að formi til og efni. Ekkert skilyrða 1. mgr. 12. gr. laga nr. 53/1989 sé uppfyllt í málinu, svo sem ráðið verði af dómi Hæstiréttar 18. nóvember 2004 um upphaflega aðalkröfu aðaláfrýjanda.
II.
Fyrsti kröfuliður aðaláfrýjanda lýtur að ógildingu I. kafla gerðardómsins að því er varðar mismun á verði lands og húseigna, sem komu í hlut hvors aðila, en þar var komist að þeirri niðurstöðu að Jón Ólafsson hafi fengið í sinn hlut slíkar eignir, sem hafi verið verðmætari sem nam 4.000.000 krónum en þær, sem aðaláfrýjandi fékk í sinn hlut. Aðaláfrýjandi telur þann verðmun að réttu lagi eiga að vera 20.000.000 krónur, sem fái stuðning í fyrrnefndri matsgerð dómkvaddra manna 8. desember 2005. Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um að hafna þessum lið í kröfu aðaláfrýjanda.
III.
Í öðrum kröfulið leitar aðaláfrýjandi ógildingar á kafla II.3 í gerðardóminum, sem varðaði ágreining aðilanna um kostnað af rekstri kaffistofu að Brautarholti. Meiri hluti gerðardómsins komst að þeirri niðurstöðu að sá kostnaður, 782.330 krónur, sem færður var í bókhaldi fyrir sameiginlegan rekstur bræðranna árið 1998, yrði að teljast úttekt aðaláfrýjanda, sem honum bæri að standa skil á til samrekstrarins, en fyrir þessu voru færð svofelld rök: „Meðal gagna málsins eru landbúnaðarframtöl aðila, sem þeir skiluðu sameiginlega. Við athugun framtala áranna 1993 til 1998 verður ekki séð að þar hafi verið talið fram til gjalda vegna reksturs kaffistofu. Dómurinn lítur því svo á að það sé Páls að sanna þá fullyrðingu sína að um sé að ræða kostnað vegna reksturs mötuneytis. Með því að hann hefur ekki gert það er fallist á þessa kröfu Jóns að fjárhæð 782.330 krónur.“ Í atkvæði minni hluta gerðardómsins var á hinn bóginn vísað til þess að á árunum fyrir 1998 hafi verið færður gjaldaliður í bókhaldi vegna samrekstrarins, sem hafi verið nefndur „starfsmannahús, mötuneyti og hiti“, en með mötuneyti hafi verið átt við það sama og nefnt var kaffistofa í ársreikningi 1998. Fjárhæð þessa liðar hafi numið 570.000 til 640.000 krónum á hverju af næstu árunum fyrir 1998. Af þeim sökum yrði að leggja sönnunarbyrði á Jón Ólafsson fyrir því að þetta væri einkaneysla aðaláfrýjanda, sem hann ætti að bera kostnað af. Með því að það hafi ekki verið sannað yrði aðaláfrýjanda ekki gert að endurgreiða fyrrnefnda fjárhæð.
Gögn málsins, sem varða þennan þátt í ágreiningi aðilanna, bera með sér að um árabil hafi kostnaður verið færður til gjalda í bókhaldi bræðranna vegna mötuneytis, svo sem aðaláfrýjandi hefur haldið fram og staðfest var í fyrrnefndri matsgerð frá 8. desember 2005. Ljóst er af atkvæði minni hluta gerðardómsins að gögn, sem þar lágu fyrir, hafi borið nægilega með sér að kostnaðurinn, sem hér um ræðir, ætti sér hliðstæðu í reikningsskilum á árunum fyrir 1998. Í matsgerðinni var jafnframt komist að þeirri niðurstöðu að einn gjaldaliður að fjárhæð 189.469 krónur, sem innifalinn var í áðurgreindum 782.330 krónum, hafi ekki átt rétt á sér, en að öðru leyti hafi kostnaður af rekstri kaffistofu eða mötuneytis átt að falla á sameiginlegan rekstur bræðranna og hafi hann numið 592.861 krónu á árinu 1998. Í málinu liggur fyrir hreyfingarlisti úr bókhaldi, þar sem tilgreindar eru á fjórða tug færslna að baki þeim 782.330 krónum, sem fyrr var getið, og verður ráðið af listanum að þær hafi flestar varðað úttektir í tilteknum verslunum eða á veitingahúsum. Skjölin að baki þessum færslum hafa á hinn bóginn ekki verið lögð fram í málinu og verður ekki ráðið af áðurnefndri matsgerð að matsmenn hafi fengið þau til sjálfstæðrar skoðunar.
Þriðji kröfuliður aðaláfrýjanda lýtur að ógildingu kafla II.4 í gerðardóminum, en þar kom til úrlausnar krafa Jóns Ólafssonar um að aðaláfrýjanda yrði gert að endurgreiða til samrekstrar þeirra samtals 10.061.573 krónur vegna peningaúttekta, sem á árinu 1997 hafi verið að fjárhæð 5.977.114 krónur og 4.084.459 krónur 1998. Til þessarar kröfu tók meiri hluti gerðardómsins afstöðu með eftirfarandi orðum: „Dómurinn lítur svo á að sannað sé með gögnum, er lögð hafa verið fyrir dóminn að Páll hafi tekið þessar fjárhæðir út úr rekstrinum. Ber honum því að standa samrekstrinum skil á þeim.“ Í atkvæði minnihluta gerðardómsins var á hinn bóginn vísað til þess að löggiltur endurskoðandi hafi verið fenginn á árinu 1999 til að gera ársreikning vegna rekstrar bræðranna 1998. Fram að því hafi ekki verið fært tvíhliða bókhald fyrir reksturinn og hafi samanburðartölur vegna ársins 1997 af þeim sökum verið fengnar úr skattframtali, en höfuðstóll í ársbyrjun 1998 verið stilltur af þannig að efnahagsstaða í árslok 1997 stemmdi. Aðaláfrýjandi hafi viðurkennt tilteknar úttektir á þessu tveggja ára tímabili, samtals að fjárhæð um 6.500.000 krónur, en Jón hafi ekki lagt fram nein gögn til stuðnings því að aðaláfrýjandi hafi tekið meira út. Þessar úttektir hafi ekki verið hærri en svo að svarað gæti til hæfilegra launa, sem aðaláfrýjanda hafi ekki verið reiknuð. Taldi því minni hluti gerðardómsins að ekki væru efni til að aðaláfrýjandi endurgreiddi neitt vegna þessa liðar.
Í formála við fyrrnefndan ársreikning löggilts endurskoðanda, þar sem gefnar voru skýringar um forsendur reikningsskila fyrir sameiginlegan rekstur aðaláfrýjanda og Jóns Ólafssonar á árinu 1998, sagði meðal annars: „Upphafsstaða ársins er ekki byggð á færðu bókhaldi og er því fyrirvari um hana og áhrif hennar á rekstur ársins. ... Samanburðartölur vegna 1997 byggja á skattframtali vegna ársins 1997 að teknu tilliti til ákveðinna leiðréttinga sem fyrir lágu. ... Höfuðstóll í ársbyrjun 1997 (sic) er stilltur af þannig að efnahagsstaða í árslok 1997 stemmi. Ekki liggja fyrir forsendur til að skipta úttekt úr rekstri milli rekstraraðila.“ Í sundurliðun höfuðstóls í efnahagsreikningi 31. desember 1998, sem var hluti þessa ársreiknings, kom fram að úttektir eigenda á því ári hafi numið 4.031.228 krónum, en á árinu 1997 hafi þær verið samtals 6.174.994 krónur. Af hálfu Jóns Ólafssonar var aflað umsagnar annars löggilts endurskoðanda 15. júní 2001, sem laut meðal annars að úttektum bræðranna úr rekstrinum. Í umsögninni sagði að endurskoðandinn hafi litið á bókhaldsgögn frá 1997 og 1998, sem hafi verið á skrifstofu graskögglaverksmiðju í Brautarholti, og hafi hann notið þar leiðsagnar beggja bræðranna um nokkur atriði. Um úttektir þeirra sagði að hjá aðaláfrýjanda hafi þær numið 5.977.114 krónum á árinu 1997 og 4.084.459 krónum 1998, en hjá Jóni Ólafssyni hafi þær verið 197.880 krónum fyrra árið og engar síðara árið. Væri þetta „samkvæmt upplýsingum úr landbúnaðarskýrslum fyrir árin 1997 og 1998“, en tekið var fram að „erfitt er að sannreyna þessar fjárhæðir þar sem ekki fæst aðgangur að færðu bókhaldi verksmiðjunnar.“ Meðal gagna málsins er sameiginleg landbúnaðarskýrsla bræðranna vegna 1997, þar sem þeir skiptu neikvæðu eigin fé vegna rekstrarins í lok þess árs til helminga milli sín, en af henni verður á hinn bóginn ekkert ráðið um úttektir hvors þeirra á árinu. Landbúnaðarskýrsla vegna ársins 1998 liggur ekki fyrir í heild í málinu, en af þeim hluta hennar, sem lagður hefur verið fram, verður ekkert ráðið um úttektir bræðranna eða stöðu eigin fjár í lok þess árs. Við meðferð málsins fyrir gerðardómi var því borið við af aðaláfrýjanda að úttektir hans úr rekstri bræðranna hafi numið samtals 2.396.295 krónum á árinu 1997 og 4.281.065 krónum 1998, en úttektir Jóns Ólafssonar hafi alls verið 773.377 krónur fyrra árið og engar á því síðara. Af atkvæði minni hluta gerðardómsins verður ráðið að gögnin, sem að framan er getið, hafi legið fyrir þegar þar var leyst úr málinu.
IV.
Eins og áður var rakið komst meiri hluti gerðardóms að niðurstöðu í kafla II.3 um ágreining aðaláfrýjanda og Jóns heitins Ólafssonar varðandi rekstur kaffistofu á þeirri forsendu að kostnaður af slíku hafi ekki verið færður í sameiginlegum landbúnaðarskýrslum þeirra á árunum 1993 til 1998. Yrði því að fella sönnunarbyrði á aðaláfrýjanda fyrir því að útgjöld af þessum sökum 1998 heyrðu að réttu lagi til samrekstrar þeirra, en henni hafi hann ekki fullnægt. Þessi forsenda fyrir sönnunarbyrði aðaláfrýjanda átti sér ekki haldbæra stoð í fyrirliggjandi gögnum, enda hafði kostnaður af þessum rekstrarþætti um árabil verið færður undir öðru heiti í landbúnaðarskýrslum.
Niðurstaða meiri hluta gerðardómsins í kafla II.4 var samkvæmt áðursögðu reist á því einu að sannað væri með gögnum, sem lögð hefðu verið fyrir hann, að aðaláfrýjandi hefði tekið alla fjárhæðina, sem þar var deilt um, samtals 10.061.573 krónur, út úr samrekstri bræðranna á árunum 1997 og 1998. Ekkert var vikið nánar að því hver þessi gögn væru. Samkvæmt því, sem að framan var rakið, lá fyrir gerðardóminum ársreikningur vegna samrekstrarins 1998, þar sem fram kom að úttektir eigenda á þessum tveimur árum hafi verið samtals 10.206.222 krónur, en veigamiklir fyrirvarar voru þar gerðir um áreiðanleika þessarar fjárhæðar, sem að auki var ekki skipt milli eigendanna tveggja. Á hinn bóginn lá fyrir gerðardóminum umsögn frá löggiltum endurskoðanda 15. júní 2001, þar sem fram kom að úttektir aðaláfrýjanda á árunum 1997 og 1998 hafi samtals numið 10.061.573 krónum, en úttektir Jóns Ólafssonar á sama tímabili 197.880 krónum. Fram kom í umsögninni að þetta væri stutt við landbúnaðarskýrslur frá umræddum árum, en eins og málið liggur fyrir verður þessu ekki fundin stoð. Þá er til þess að líta að fyrir gerðardóminum viðurkenndi aðaláfrýjandi að hafa tekið út úr rekstrinum samtals 6.677.360 krónur á þessu tímabili. Þótt verið geti að meiri hluti gerðardómsins hafi lagt til grundvallar niðurstöðu sinni umsögnina frá 15. júní 2001 gáfu önnur fyrirliggjandi gögn fullt tilefni til efasemda um réttmæti hennar að því leyti, sem aðaláfrýjandi hafði ekki viðurkennt úttektir af sinni hendi, auk þess sem afstaða var ekki tekin berum orðum til þeirrar mótbáru hans að þær hafi svarað til launa fyrir vinnu hans við samrekstur bræðranna.
Samkvæmt því, sem að framan er rakið, verður að fallast á að annmarkar hafi verið á úrlausn meiri hluta gerðardómsins í köflum II.3 og II.4. Kemur þá til álita hvort taka eigi kröfu aðaláfrýjanda um ógildingu gerðardómsins að þessu leyti til greina á þeim forsendum að hann sé bersýnilega reistur á ólögmætum sjónarmiðum eða fari í bága við allsherjarreglu, sbr. 6. tölulið 1. mgr. 12. gr. laga nr. 53/1989.
Í athugasemdum með frumvarpi, sem varð að lögum þessum, segir um 12. gr. að aðalreglan sé sú að gerðardómur sé endanleg niðurstaða um sakarefni og verði honum ekki hnekkt. Aðilar gerðarsamnings verði því að jafnaði að sætta sig við þá niðurstöðu, sem gerðardómur komist að, og geti ekki fengið hana endurskoðaða. Ákveðnar ástæður geti þó leitt til þess að ógilda megi gerðardóm, en þeim sé þó þröngur stakkur skorinn og komi þær fram í sex töluliðum 1. mgr. greinarinnar. Að því er varðar 6. tölulið er tekið fram sérstaklega að gerðardómur verði ekki ógiltur nema í undantekningartilviki þótt niðurstaða hans sé ekki í samræmi við hefðbundna túlkun eða beitingu réttarreglna. Það sé í samræmi við nánar tilgreinda fyrirmynd að alþjóðlegum reglum um gerðardóma, svokallaðar UNCITRAL reglur, svo og norsk, dönsk og sænsk gerðardómslög. Þegar ákvæði 6. töluliðar 1. mgr. 12. gr. laga nr. 53/1989 eru skýrð með hliðsjón af þessum lögskýringargögnum verður að taka tillit til þess að í þeim erlendu reglum, sem þar er vísað til, eru miklar skorður settar við því að gerðardómur verði ógiltur vegna efnislegra annmarka á niðurstöðu hans, hvort sem þeir varða villu um staðreyndir máls, sönnun eða beitingu réttarreglna. Verður jafnframt að líta sérstaklega til þess, sem getið er í héraðsdómi, að með gerðarsamningi tekur málsaðili þá áhættu af gerðardómsmeðferð að réttaröryggi verður þar ekki tryggt á sama hátt og við rekstur máls fyrir dómi, meðal annars sökum verulegra takmarkana á því að leitað verði endurskoðunar eða ógildingar á niðurstöðu.
Svo sem leitt verður af ákvæði 8. gr. laga nr. 53/1989 verða ekki gerðar sömu kröfur til röksemdafærslu fyrir niðurstöðu gerðardóms og gerðar eru til úrlausnar í dómsmáli. Þótt annmarkar hafi verið samkvæmt áðursögðu á röksemdum, sem meiri hluti gerðardómsins færði fyrir niðurstöðu sinni er ekki bersýnilegt að ekki hefði mátt komast að sömu niðurstöðu og þar var gert á grundvelli annarra atriða, sem lágu fyrir við gerðarmeðferðina. Að öllu þessu virtu verður ekki fallist á með aðaláfrýjanda að sýnt hafi verið að niðurstaða meiri hluta gerðardómsins hafi bersýnilega verið reist á ólögmætum sjónarmiðum í skilningi 6. töluliðar 1. mgr. 12. gr. laga nr. 53/1989. Af þeim ástæðum, sem greinir í héraðsdómi, verður ekki litið svo á að hér geti átt við fyrirmæli þessa ákvæðis um tilvik, þar sem niðurstaða gerðardóms fer í bága við allsherjarreglu. Verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms því staðfest.
Rétt er að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 1. mars 2006.
Mál þetta, sem dómtekið var
6. janúar sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Páli Ólafssyni, kt.
160330-3849, Brautarholti, Kjalarnesi, Reykjavík, gegn Jóni Ólafssyni, kt.
260432-2819, Brautarholti 2, Kjalarnesi, Reykjavík.
Dómkröfur
stefnanda eru þessar:
1. Að ógiltir verði með dómi eftirfarandi
kaflar í gerðardómi, uppkveðnum 4. apríl 2002, um slit á samrekstri, uppgjör
skulda og skiptingu eigna stefnanda og stefnda í Brautarholti, Kjalarnesi,
Reykjavík:
a.
kafli I að því er varðar mat á verðmismun milli lands og húseigna sem
komu í hlut stefnda annars vegar og stefnanda hins vegar.
b. kafli II.3 að því er
varðar rekstur kaffistofu.
c.
kafli II.4.
2. Að stefndi verði
dæmdur til að greiða stefnanda 21.535.199,50 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt
1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 4. apríl 2002 til greiðsludags.
Þá er þess krafist að
stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt
málskostnaðarreikningi.
Dómkröfur stefnda eru þær
að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur
til að greiða stefnda málskostnað samkvæmt málskostnaðarreikningi.
Dómkröfur
þær sem nú eru til úrlausnar fyrir dóminum eru í samræmi við skiptingu
sakarefnis málsins.
Málsatvik
Bræðurnir
Páll Ólafsson og Jón Ólafsson ráku um áratugaskeið félagsbúskap á óðalsjörðinni
Brautarholti á Kjalarnesi, Reykjavík. Aðalframleiðslugrein á búinu var
mjólkurframleiðsla á árunum 1954-1963. Árið 1967 tóku þeir bræður við jörðinni
af foreldrum sínum. Það ár var kúabúskapur lagður niður á jörðinni og
framleiðsla hófst á hraðþurrkuðu fóðri, grasmjöli. Árið 1972 hófst framleiðsla
á graskögglum, sem síðan var aðalframleiðslugrein á jörðinni næstu
áratugina.
Um
rekstur graskögglaverksmiðju aðila eða annan sameiginlegan búrekstur þeirra var
aldrei stofnað neitt formlegt félag.
Var reksturinn í nafni og kennitölu þeirra persónulega og á ábyrgð
þeirra beggja.
Óðalsjörðinni
Brautarholti var með landskiptasamningi, dags. 9. desember 1989, skipt að hluta
milli aðila. Hluti jarðarinnar var áfram í óskiptri sameign.
Stefndi
setti fram ákveðnar athugasemdir við drög að ársreikningi fyrir samreksturinn
fyrir árin 1997 og 1998. Athugasemdir
stefnda lutu að ýmsum þáttum í rekstrinum eins og nánar er rakið í kröfugerð
stefnda fyrir gerðardómi.
Hinn 15.
mars 2000 gerðu aðilar máls þessa með sér samkomulag um slit á samrekstri og
uppgjör skulda sem honum tilheyrðu, svo og um skiptingu eigna. Var þar rætt um
skiptingu lands, mannvirkja og hlunninda, uppgjör á samrekstri aðila og
skiptingu véla og tækja. Í IV. kafla samkomulagsins sagði að aðilar þess skuldbyndu
sig til að leggja ágreining um skiptingu eigna og uppgjör skulda og
samrekstrar, svo og önnur atriði sem lúta að skiptum aðila, til úrskurðar
gerðardóms. Skyldi dómurinn ljúka skiptum á landi eigi síðar en 15. apríl 2000
og skiptingu á fasteignum og tækjum eigi síðar en 25. apríl 2000. Gerðardómur
skyldi skipaður lögmönnum beggja aðila og einum oddamanni sem þeir kæmu sér
saman um ella yrði hann dómkvaddur. Ekki varð samkomulag með aðilum um skipun
oddamanns í dóminn og óskaði stefndi
eftir því með bréfi, dagsettu 31. ágúst 2000, til Héraðsdóms Reykjavíkur
að skipaður yrði oddamaður gerðardóms. Skipaði dómstjóri Arngrím Ísberg
héraðsdómara sem oddamann gerðardóms hinn 6. september 2000.
Undir meðferð málsins hjá
gerðardóminum var aðilum gefinn kostur á að leggja fram greinargerðir og gögn
til stuðnings kröfugerðum sínum. Að auki var endurskoðendum aðila falið að
fara yfir ágreiningsefni um uppgjör samrekstrar þeirra til þess að setja fram
sjónarmið um hvernig taka bæri á einstökum álitaefnum.
Eins og fram kemur í gerðardóminum þá kvaddi
gerðardómurinn sérfræðinga til aðstoðar um ýmsa þætti í uppgjörinu. Einar
Ingimarsson arkitekt vann að skiptingu lands, Freyr Jóhannesson tæknifræðingur
og Magnús Leópoldsson fasteignasali voru fengnir til ráðgjafar um mat á húsum
og lóðum og Sverrir Ingólfsson endurskoðandi var fenginn til ráðgjafar um
uppgjör á samrekstri aðila. Málsaðilum var fyrirfram gerð grein fyrir því að
þessir aðilar yrðu fengnir til ráðgjafar og voru engar athugasemdir gerðar við
ráðningu þeirra af aðilum málsins.
Gerðardómur
kvað upp dóm sinn 4. apríl 2002. Í dómsorði var kveðið á um skiptingu óskipts lands, húseigna, véla og annarra
eigna þeirra bræðra, auk þess sem stefnanda var gert að greiða stefnda
1.886.752 krónur við uppgjör samreksturs þeirra.
Með
bréfi lögmanns stefnanda til stefnda, dagsettu 15. apríl 2002, var stefnda
tilkynnt að stefnandi mótmælti niðurstöðu gerðardóms í heild sinni og áskildi
sér rétt til að fá dóminn ógiltan að hluta eða öllu leyti með málsókn í héraði.
Stefnandi höfðaði mál
þetta með stefnu útgefinni 3. apríl 2003 og gerði
þær kröfur að gerðardómur sem gekk milli sömu aðila, uppkveðinn 4. apríl 2002,
yrði aðallega ógiltur í heild en til vara að ákveðnir kaflar hans yrðu ógiltir.
Að tilstuðlan stefnanda var sakarefninu skipt og var málið flutt um aðalkröfu stefnanda um ógildingu gerðardómsins í heild.
Héraðsdómur sýknaði stefnda af kröfu
stefnanda með dómi uppkveðnum 19. desember 2003. Sá dómur var staðfestur með
dómi Hæstaréttar uppkveðnum 18.
nóvember 2004. Undir rekstri málsins fyrir héraðsdómi var kveðinn upp
úrskurður 15. ágúst 2003, þar sem fallist var
á kröfu stefnanda um að réttaráhrifum gerðardómsins yrði frestað þar til málið yrði til lykta leitt. Með
úrskurði uppkveðnum 10. júní 2005 var kveðið á um það að frestun á
réttaráhrifum gerðardóms aðila skuli miðast við varakröfu stefnanda í málinu að
því marki sem hún hafi ekki verið til lykta leidd.
Stefndi, Jón Ólafsson,
lést 14. júní 2004. Dánarbú hans hefur tekið við aðild málsins fyrir dómi.
Í málinu eru nú til
úrlausnar kröfur stefnanda um að fá ógilta með dómi kafla I að því er varðar
mat á verðmismun milli lands og húseigna sem komu í hlut stefnda annars vegar
og stefnanda hins vegar, kafla II.3 að því er varðar rekstur kaffistofu og
kafla II.4. Í kafla I var húsum og landi skipt. Í kafla II.3 var stefnanda gert
að greiða til samrekstrar síns og stefnda 782.333 kr. sem færðar höfðu verið í
samrekstrinum sem kostnaður við rekstur mötuneytis en meirihluti gerðardóms
leit svo á að væri einkaneysla stefnanda. Í kafla II.4 taldi meirihluti
gerðardóms sannað að stefnandi hefði tekið 10.061.573 kr. út úr samrekstrinum
og bæri honum því að endurgreiða þá fjárhæð til samrekstrarins.
Stefnandi
telur fyrrgreinda kafla gerðardóms bersýnilega reista á ólögmætum sjónarmiðum
og krefst því ógildingar á þeim, sbr. 6. tölulið. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 53,
1989 um samningsbundna gerðardóma. Þá krefur stefnandi stefnda um 21.535.199,50
kr. Sundurliðast krafan svo að krafist er 20.000.000 kr. vegna verðmismunar á
húseignum og landi sem kom í hlut stefnda annars vegar og stefnanda hins vegar.
Þá er krafist 1.535.199,50 kr. sem er niðurstaða uppgjörs samrekstrar aðila að
teknu tilliti til ógildingar kafla II.3 að því er varðar rekstur kaffistofu og
II.4 í umræddum gerðardómi.
Undir
rekstri málsins fór fram dómkvaðning matsmanna að beiðni stefnanda. Óskað var mats á þeim atriðum, sem
dómkröfur stefnanda lúta að í þessum þætti málsins. Niðurstaða matsmanna
samkvæmt matsgerð, dags.8. desember 2005, var sú að söluverðmæti eigna sem í
hlut stefnda komu samkvæmt gerðardómi hafi verið u.þ.b. 31.000.000 kr. og
söluverðmæti þeirra húseigna sem í hlut stefnanda komu hafi verið u.þ.b. 11.000.000 kr. Þá varð það niðurstaða
matsmanna að kostnaður við rekstur kaffistofu (mötuneytis) að upphæð 592.861
kr. tilheyrði samrekstri aðila. Þá var niðurstaðan sú samkvæmt matsgerð að
úttekt ársins 1997 skyldi skiptast jafnt á eigendur og yrði stefnanda því ekki
gert að endurgreiða samrekstrinum 5.977.114 kr. og stefnda ekki gert að
endurgreiða samrekstrinum 197.880 kr.
Niðurstaða matsgerðar hefur ekki leitt til breytinga á kröfugerð
stefnanda fyrir dómi.
Málsástæður stefnanda
Stefnandi
krefst þess í þessum þætti málsins annars vegar að hluti gerðardóms verði
ógiltur og hins vegar að stefnda beri að greiða stefnanda tiltekna fjárhæð til
þess að jafna metin þeirra í milli vegna ójafnrar skiptingar á eignum.
l. Krafa um ógildingu á hluta gerðardóms.
a. Krafa um ógildingu
kafla I að því er varðar mat á verðmismuni milli lands og húseigna.
Með
fyrrgreindum gerðardómi var óskiptu landi aðila skipt, svo og húseignum. Í
sameign aðila voru þrjú hús, graskögglaverksmiðja, gömul útihús og gamalt
íbúðarhús. Kröfðust báðir aðilar þess við meðferð málsins fyrir dóminum að fá í
sinn hlut verksmiðjuna og gamla íbúðarhúsið. Samkvæmt gerðardóminum varð í engu
orðið við kröfu stefnanda og fékk stefndi báðar húseignirnar í sinn hlut en
stefnandi gömul útihús sem eru án rafmagns og vatns og þarfnast verulegra
endurbóta. Var stefnda gert að greiða stefnanda 2.000.000 kr. til að jafna
metin vegna verðmismunar á húseignunum og hafði þá verið tekið tillit til
skiptingar sameiginlegs lands.
Fyrrgreind
graskögglaverksmiðja var reist árið 1972 og er alls 878,7 fermetrar að stærð.
Sé þar allt að sex metra lofthæð og því vítt til veggja og hátt til lofts. Í
húsinu sé góður vélabúnaður sem hægt sé að nýta til hvers konar þurrkunar en í
engu hafi verið tekið tillit til milljónaverðmætis hans í gerðardómi. Þá sé í
verksmiðjunni m.a. góð kaffistofa,
salerni, skrifstofa og verkstæði. Brunabótamat graskögglaverksmiðjunnar, þ.e.
hússins án vélastæðu, var 35.209.000 kr. hinn
1. desember 2001. Á sama tíma var gamla íbúðarhúsið sem kom í hlut
stefnda brunabótametið á 16.139.000 kr., en það var byggt árið 1907 og
endurbyggt árið 1930 og aftur árið 1951. Samanlagt brunabótamat þeirra húseigna
sem í hlut stefnda komu var því 51.348.000 kr. en fasteignamat 22.411.000 kr. Í
hlut stefnanda komu hins vegar gömul útihús reist í kringum 1930 og endurnýjuð
að hluta, alls 724 fermetrar, og að brunabótamati 17.154.000 kr. hinn 1.
desember 2001 en að fasteignamati
9.510.000 kr. Rétt sé að taka fram að hluti útihúsanna hafi verið rifinn
en sé enn skráður í fasteignamati.
Samkvæmt
framansögðu hafi munað 34.194.000 kr. miðað við brunabótamat og 12.901.000 kr.
miðað við fasteignamat á þeim húseignum sem í hlut stefnda kom annars vegar og
stefnanda hins vegar. Sé þá meðtalin lóð undir graskögglaverksmiðjuna sem kom
í hlut stefnanda en fasteignamat hennar var
362.000 kr. hinn 1. desember 2001. Stefnda hafi hins vegar verið gert að
greiða stefnanda 2.000.000 kr. vegna verðmismunar á húsunum að teknu tilliti
til skiptingar lands. Til hliðsjónar skal þess getið að óskipt 18 hektara
ræktað land í eigu beggja málsaðila í svokallaðri Gullkistu var metið á 901.000
kr. í fasteignamati 1. desember 2000 eða sem svarar rúmum 50.000 krónum á
hektara. Því landi var skipt til helminga í gerðardómi.
Stefnandi
telur gerðardóminn að þessu leyti bersýnilega reistan á ólögmætum sjónarmiðum.
Bendir stefnandi á að gerðardómurinn hafi ekki látið meta sérstaklega verðmæti
viðkomandi húseigna eða lands eins og lögmaður hans hafi ítrekað lagt til,
heldur hafi verið látið við það sitja að kalla til fasteignasala og
tæknifræðing til skrafs um eignirnar sem slíkar. Ekkert verðmat hafi því legið
fyrir og gerðardómur litla þekkingu haft til að leggja mat á verðmæti húseigna
eða óskipts lands. Þá hafi ekki einu sinni verið farið eftir eða höfð hliðsjón
af mati Fasteignamats ríkisins sem hafi verið eina matið sem gerðardómur hafi
haft við höndina. Sömu sögu sé að segja um þær litlu vísbendingar sem komið
hafi út úr skrafi við fasteignasalann og tæknifræðinginn. Hafi ákvörðun
meirihluta dómsins um hæfilega greiðslu til handa stefnanda vegna verðmismunar
eignanna því verið órökstudd og í engu byggst á staðreyndum eða gögnum málsins
og því augljóslega reist á ólögmætum sjónarmiðum. Með vísan til 6. töluliðar l.
mgr. 12. gr. gerðardómslaga verði af þessum sökum að ógilda gerðardóminn að
þessu leyti. Jafnframt telur stefnandi að málsmeðferð hafi verið áfátt að í
verulegum atriðum að þessu leyti og beri að ógilda dóminn af þeim sökum, sbr.
3. töluliðar 1. mgr. 12. gr. gerðardómslaga.
b. Krafa um ógildingu kafla 11.3 að því er varðar rekstur
kaffistofu.
Við
meðferð málsins fyrir gerðardómi krafðist stefndi þess að 782.330 kr. sem
færðar höfðu verið í bókhaldi þeirra bræðra fyrir árið 1998 sem kostnaður við
rekstur kaffistofu, yrðu færðar sem eigin úttekt stefnanda. Hafi krafan verið
órökstudd með öllu og engin gögn lögð fram henni til stuðnings.
Í bókhaldi
stefnanda og stefnda sé m.a. gjaldaliður, sem kallaður sé starfsmannahús,
mötuneyti og hiti. Sé þar átt við hita í gömlu íbúðarhúsi í Brautarholti.
Kostnaður vegna þessa hafi verið 663.488 kr. árið 1993, 651.802 kr. árið 1994,
538.000 kr. árið 1995, 576.192 kr. árið 1996 og 607.228 kr. árið 1997. Þá verði
ráðið af dagbók áranna 1995 og 1996 að kostnaður við rekstur mötuneytis hafði
verið 449.883 kr. fyrra árið og 516.012
kr. hið síðara. Kostnaður við rekstur mötuneytis hafi á árinu 1998 verið færður
undir heitinu „rekstur kaffistofu” og var 782.330 kr. Þá hafi fleiri starfsmenn verið en árin á undan, auk
þess sem aðalvertíðin hafi staðið a.m.k. mánuði lengur en vant var. Geti
kostnaðaraukningin á engan hátt talist óeðlileg.
Höfuðmáli
skipti þó að stefndi hafi ekki á nokkurn hátt getað rökstutt hvers vegna færa
ætti mismun á þessum gjaldalið milli áranna 1997 og 1998 sem úttekt hjá
stefnanda. Hann hafi heldur ekki getað rökstutt hvort og þá hvers vegna
hækkunin milli ára væri óeðlileg og því síður að stefnandi hafi með óeðlilegum
hætti notið góðs af þeirri hækkun. Átti því óhjákvæmilega að hafna umræddri
kröfu stefnda fyrir gerðardóminum.
Meirihluti
gerðardóms, sem skipaður var lögmanni stefnda og oddamanni, taldi hins vegar að
stefnanda hefði ekki tekist að sanna að um væri að ræða sameiginlegan kostnað
þeirra bræðra vegna reksturs mötuneytis. Hafi sönnunarbyrðinni þar með verið
snúið við og stefnanda gert að afsanna með öllu órökstudda fullyrðingu stefnda
og sú fullyrðing lögð til grundvallar. Að mati stefnanda gengur slíkt þvert á
almennar reglur um sönnun og sönnunarbyrði.
Samkvæmt
framansögðu telur stefnandi niðurstöðu gerðardóms að þessu leyti byggjast á
málsatvikum sem enginn fótur sé fyrir, þ.e. að fjármunum þessum hafi verið
varið til einkaneyslu stefnanda en ekki til reksturs kaffistofu fyrir
starfsmenn eins og rétt sé. Hafi engin gögn verið lögð fram sem stutt gátu þá
niðurstöðu gerðardóms. Á því sé byggt að niðurstaðan sé samkvæmt þessu
bersýnilega reist á ólögmætum sjónarmiðum, sbr. 6. tölulið 1. mgr. 12. gr.
gerðardómslaga. Jafnframt bendir stefnandi á 8. gr. gerðardómslaga sem gerir
ákveðnar lágmarkskröfur um skýrleika og rökstuðning. Almennt sé viðurkennt að
illa rökstuddur gerðardómur leiði til ógildingar hans, en 5. töluliður 1. mgr.
12. gr. gerðardómslaga kveði svo á að gerðardómur sé ógildanlegur ef hann er
ekki í lögmætu formi.
Með
vísan til alls framanritaðs verði að ógilda þennan kafla dómsins að því er
varðar rekstur kaffistofu. Stefnandi gerir hins vegar ekki athugasemdir við þá
niðurstöðu gerðardóms í þessum kafla dómsins að hafna kröfu stefnda um að
stefnandi endurgreiði 127.240 kr. vegna tölvukerfis.
c. Krafa um ógildingu á kafla II.4.
Meirihluti
gerðardóms féllst í kafla II.4 í gerðardóminum á kröfu stefnda um að stefnandi
greiddi til samrekstrarins 10.061.573 kr. Taldi meirihluti dómsins sannað með
gögnum sem áttu að hafa verið lögð fyrir dóminn að stefnandi hefði tekið þessar
fjárhæðir út úr rekstrinum. Sé niðurstaðan að öðru leyti með öllu órökstudd. Að
mati stefnanda hafi engin gögn verið lögð fyrir gerðardóminn sem hafi sýnt fram
á réttmæti kröfu stefnda og hafi oddamaður dómsins ekki getað bent lögmanni
stefnanda á þau er eftir því hafi verið leitað.
Á árinu
1999 hafi að kröfu stefnda verið unninn af löggiltum endurskoðanda
ársreikningur 1998 fyrir graskögglaverksmiðju þeirra bræðra. Eins og fram komi
í nefndum ársreikningi hafi verið stuðst við uppfært bókhald fyrir árið 1998.
Samanburðartölur vegna ársins 1997 hafi byggst á skattframtali þess árs, að
teknu tilliti til ákveðinna leiðréttinga. Höfuðstóll í ársbyrjun hafi verið
stilltur af þannig að efnahagsstaða í árslok 1997 stemmdi. Að mati
endurskoðandans hafi ekki legið fyrir forsendur til að skipta úttekt úr rekstri
á milli stefnanda og stefnda. Þær forsendur hafi heldur ekki legið fyrir við uppkvaðningu gerðardóms.
Umrædd
krafa stefnda fyrir gerðardóminum hafi engum gögnum verið studd og byggð á
ágiskunum einum saman. Ekkert hafi legið fyrir um úttektir stefnanda og stefnda
annað en það að stefndi hafi viðurkennt að hafa tekið út 200.000 kr. á árinu 1997 og stefnandi um 6.500.000 kr. á
árunum 1997 og 1998. Hafi það verið með reiknuðu endurgjaldi. Við sameiginlegan
rekstur tveggja einstaklinga miðist úttektir þeirra eðli máls samkvæmt við
vinnuframlag hvors um sig og hlutdeild þeirra í verðmætasköpun. Um vinnu
málsaðila í þágu samrekstrar þeirra vísist til þess sem fyrr greini. Óhætt sé
að fullyrða að vinnuframlag stefnanda hafi í gegnum tíðina verið miklum mun
meira en stefnda. Hafi reiknað endurgjald stefnanda vegna vinnu við
samreksturinn verið í samræmi við það. Á yfirliti sem unnið sé úr skattskýrslum
megi sjá að reiknað endurgjald stefnanda á árunum 1985-1998 hafi verið 66-82%
af reiknuðu endurgjaldi við samreksturinn í heild á móti 18-34% hjá stefnda.
Gefi það nokkuð góða mynd af vinnuframlagi þeirra.
Ljóst sé
að stefndi hafði mikinn meirihluta tekna sinna annars staðar frá en af vinnu
sinnar við búrekstur þeirra bræðra. Við meðferð málsins fyrir gerðardómi hafi
hann í engu orðið við ítrekaðri beiðni stefnanda um afhendingu persónulegra
skattskýrslna þannig að sannreyna mætti heildartekjur hans og hlutdeild tekna
vegna vinnu við samrekstur þeirra bræðra í þeim.
Þrátt
fyrir framangreint virðast úttektir stefnda lengst af hafa verið mun meiri en
stefnanda og a.m.k. nokkru meiri en sem svari vinnuframlagi stefnda til
rekstrarins.
Við mat
á vinnuframlagi verði í besta falli fyrir stefnda að miða við reiknað
endurgjald fyrir vinnu. Í öllu falli hafi úttektir stefnanda á engan hátt verið
óeðlilegar sé tekið mið af framlagi hans til tekjuöflunar og verðmætasköpunar.
Sá
mismunur sem sé á úttektum eigenda árin 1997 og 1998 samkvæmt yfirlitinu annars
vegar og ársreikningi 1998 hins vegar kunni fyrst og fremst að skýrast af
skorti á gögnum frá stefnda. Séu því sterkar líkur til þess að hann hafi
sjálfur tekið út þær fjárhæðir sem skilur á milli. Eigi hann sjálfur að bera
hallann af því að hafa ekki skilað bókhaldsgögnum um úttektir og notkun sína á
tékkareikningi nr. 30610 sem var í eigu þeirra bræðra. Í öllu falli hafi á
engan hátt verið sýnt fram á það af hálfu stefnda að stefnandi hafi tekið út
þær fjárhæðir sem krafa var gerð um að færð yrði sem úttektir stefnanda,
samtals 10.061.573 kr. Þá hafi heldur ekki verið sýnt fram á að sannanlegar
úttektir stefnanda á nefndum árum, um 6.500.000 kr., hafi verið óeðlilegar
þegar hliðsjón sé höfð af vinnuframlagi aðila og þátttöku þeirra í
verðmætasköpun. Engin gögn hafi verið lögð fram fyrir gerðardóminn sem sýnt
hafi fram á að stefnandi frekar en stefndi hefði tekið út þær rúmu 3,5 milljónir
króna sem skilur á milli.
Niðurstaða
meirihluta gerðardóms hafi haft það í för með sér að stefnanda var gert að þola
það að vinna að öllu leyti kauplaust í þágu búrekstrar aðila á árunum 1997 og
1998. Hafi honum meira að segja verið gert að endurgreiða reiknað endurgjald
fyrir umrædd ár, sem hann hafði þó talið fram á skattskýrslu sinni og greitt
skatta af. Fyrrgreind niðurstaða byggist á þeirri lýsingu stefnda á málsatvikum
að stefnandi hafi án heimildar tekið 10.061.573 kr. út úr búrekstri þeirra bræðra.
Fullyrðingar þar að lútandi eigi sér enga stoð í gögnum málsins og séu með
öllu ósannaðar. Þá geti það heldur ekki staðist lög að ætla stefnanda að vinna
að öllu leyti án endurgjalds í þágu samrekstrarins. Þessi kafli gerðardómsins
sé því bersýnilega reistur á ólögmætum sjónarmiðum og því óhjákvæmilegt að
fella hann úr gildi með dómi, sbr. einkum 6. tölulið 1. mgr. 12. gr.
gerðardómslaga.
2. Fjárkrafa stefnanda.
Svo sem
fyrr sé rakið hafi gerðardómur skipt landi og húseignum milli málsaðila eins og
nánar sé kveðið á um í dómi hans. Fái stefnandi samkvæmt þeirri skiptingu bæði
minna af landi og færri hús. Stefnandi hafi hins vegar kosið að láta við þá
skiptingu sitja en gerir kröfu um að stefndi greiði honum þann mismun sem sé á
raunverulegu verðmæti þeirra húseigna og lands sem stefndi fékk í sinn hlut
annars vegar og á húseignum og landi sem kom í hlut stefnanda hins vegar.
Um
verðmæti húsa sem kom í hlut hvors málsaðila fyrir sig vísast til þess sem fyrr
greini. Megi ljóst vera að verðmæti þeirra húseigna sem í hlut stefnda komu sé
mun meira en sem nemur 2.000.000 kr. eins og meirihluti gerðardóms taldi,
jafnvel þótt talið yrði að meira eða verðmætara land hafi komið í hlut
stefnanda. Telur stefnandi verðmætamuninn vera a.m.k. tífaldan og gerir því kröfu
um að stefndi greiði honum 20.000.000
vegna þessa. Er sú kröfugerð stefnanda
einnig í samræmi við niðurstöðu dómkvaddra matsmanna um söluverðmæti þessara
eigna.
Samkvæmt
niðurstöðu gerðardóms skyldi stefnandi greiða stefnda 1.886.752 kr. þegar tekið
hafi verið tillit til krafna stefnanda um ógildingu kafla II.3 að því er varðar
rekstur kaffistofu og kafla II.4 verði niðurstaðan sú að stefnanda beri að
greiða samrekstri 2.103.756 kr. í stað 12.947.659 kr. Stefnda beri hins vegar
eftir sem áður að greiða til samrekstrarins 3.489.225 kr. Sé skuld stefnda við
samreksturinn umfram skuld stefnanda þá 1.385.469 kr. og skuld stefnda við
stefnanda því helmingurinn af því eða 692.734,50 kr. Því til viðbótar bætist
nettóskuld stefnda við stefnanda samkvæmt niðurstöðu kafla II.17 og II.18 í
gerðardóminum að frádreginni skuld stefnanda við stefnda samkvæmt kafla II.7,
samtals 842.465 kr. Er skuld stefnda við stefnanda þá 1.535.199,50 kr. í stað
þess að stefnandi skuldi stefnda 3.866.752 kr. Til viðbótar 1.535.199,50 kr. er
þess krafist að stefnandi greiði 20.000.000 kr. vegna verðmismunar á húsum í
stað 2.000.000 kr. eins og gerðardómi þótti hæfilegt. Sé því gerð krafa um að
stefndi greiði stefnanda alls
21.535.199,50 kr.
Stefnandi
vísar til laga nr. 53/1989 um samningsbundna gerðardóma, einkum 8. og 12. gr.,
og jarðalaga nr. 65/1976, einkum VII. kafla um óðalsjarðir. Þá er vísað til
meginreglna um sameiginlegan atvinnurekstur og óskipta sameign, svo og til
ákvæða laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt, einkum 2. mgr. 1. tölul.
a-liðar 7. gr., að því er varðar reiknað endurgjald. Krafa um málskostnað
styðst við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Varðandi
varnarþing er vísað til 32. gr. sömu laga. Þá vísar stefnandi til stuðnings
kröfum sínum til landskiptasamnings, dags. 9. desember 1989, samkomulags aðila,
dags. 15. mars 2000, og gerðardóms, dags. 4. apríl 2002.
Málsástæður stefnda
Sýknukrafa stefnda af öllum kröfum stefnanda í þessum þætti málsins
byggist á því að gerðardómurinn fullnægi öllum lögum og reglum og að hann verði
ekki ógiltur nema að uppfyllt séu ákveðin þröng skilyrði 12. gr. laga um
samningsbundna gerðardóma. Því sé ekki til að dreifa í máli þessu. Að auki er á
eftirfarandi málsástæðum byggt varðandi hverja kröfu stefnanda fyrir sig:
1. Krafa um ógildingu á kafla I um
verðmismun skiptra fasteigna.
Sýknukrafa stefnda byggist á því að
með gerðarsamningi aðila hafi gerðardóminum verið falið að skipta landi og
húseignum sem ekki hafði þegar verið skipt milli aðila með landskiptagerð frá
1989. Mat gerðardómsins sé því endanlegt og verði efnisúrlausn hans ekki
endurskoðuð af öðrum dómstóli. Við skiptingu fasteigna og lóða hafi
gerðardómurinn miðað við að landamörk milli hinna tveggja jarðarhluta aðila
væru eðlileg og skynsamleg. Niðurstaða gerðardómsins var sú að graskögglaverksmiðjan
og gamla íbúðarhúsið, sem voru næst landi stefnda, kæmu í hans hlut og gömlu
útihúsin í hluta stefnanda, enda hafi sú fasteign verið næst landi stefnanda.
Önnur skipting á eignum hefði leitt til þess að landamörk hefðu verið órökrétt.
Þau sjónarmið sem gerðardómurinn
hafi lagt til grundvallar landskiptunum og mati á fjárhæð sem skyldi greiða
vegna verðmunar á milli eigna hafi verið byggð á lögmætum forsendum.
Gerðardómurinn hafi fengið sér til ráðgjafar aðila sem hafi mikla þekkingu og
reynslu til að að meta fasteignir til sveita. Við verðmat sitt hafi gerðardómurinn stuðst við mat þessara
sérfræðinga. Fullyrðing stefnanda um að ekkert mat hafi legið fyrir og að
gerðardómurinn hafi ekki haft fullnægjandi upplýsingar til þess að meta
eignirnar eigi því ekki við nein rök að styðjast og sé í raun hreinn
tilbúningur. Ítrekað sé að stefnandi hafi engar athugasemdir gert við að
sérfræðingarnir yrðu fengnir til að meta verð fasteignanna.
Tekið er fram að verðmæti þeirra
fasteigna sem skipt var felist fyrst og fremst í því notagildi sem þær hafi
fyrir eigendur jarðanna. Gamla íbúðarhúsið, sem byggt var 1890, hafi nánast
verið ónýtt og mjög kostnaðarsamt að endurbyggja það. Verðmæti þess hafi fyrst
og fremst falist í þeirri lóð sem því fylgdi að frádregnum viðbótarkostnaði
sem fylgir því að endurbyggja hús á sama stað. Lóðin sem húsinu fylgdi sé lítil
og verðmæti gamla íbúðarhússins sé því óverulegt. Í þessu sambandi sé bent á að
í stefnu komi fram að hektari lands á jörðinni sé metinn á 50.000 kr. í
fasteignamati en lóðin sem fylgdi gamla íbúðarhúsinu sé mun minni en einn
hektari. Brunabótamat þessarar eignar gefi því enga vísbendingu um raunverulegt
verðmæti hennar. Húsið fyrir graskögglaverksmiðjuna sé sérhannað utan um
rekstur graskögglaverksmiðju. Ein af meginforsendunum fyrir skiptum aðila á
samrekstrinum hafi verið sú að ekki hafi verið fyrir hendi rekstrargrundvöllur
fyrir graskögglaverksmiðjur á Íslandi og því ekki unnt að nota húsið áfram til
þeirrar starfsemi. Húsið hafi verið sérhannað utan um vélbúnað sem notaður var
til rekstursins. Af þessum sökum nýtist húsið mjög illa fyrir aðra starfsemi.
Notagildi graskögglaverksmiðjunnar felist fyrst og fremst í því að nota megi
hluta hússins sem vélageymslu. Þá fylgdi sá böggull skammrifi að vélasamstæða í
húsinu sé verðlaus og mikill kostnaður fylgi því að rífa hana niður og farga.
Bent er á í þessu samhengi að á árinu 2000 hafi verið gerður samningur við
landbúnaðarráðuneytið um úreldingu verksmiðjunnar og því óheimilt að nýta
vélarnar. Gömlu útihúsin sem komu í hlut stefnanda höfðu að hluta til verið
endurnýjuð. Hluti þeirra hafði verið notaður sem verkstæði og aðrir hlutar sem
geymslur fyrir graskögglaframleiðsluna, vélar og annan búnað. Notagildi gömlu
útihúsanna hafi því verið mikið fyrir starfsemi sem fylgir búskap. Þá er bent á
að ekki muni miklu á stærð húsanna, graskögglaverksmiðjan sé 878,7 fm og gömlu
útihúsin 724 fm. Þegar tekið sé tillit til þess að hluti
graskögglaverksmiðjunnar nýtist mjög illa þar sem hann sé hannaður utan um
vélasamstæðu séu nýtanlegir fermetrar sem aðilar fengu í sinn hlut áþekkir.
Þá er á því byggt að aðilum hafi
verið frjálst að leggja fram mat sérfræðinga (þ.m.t. dómkvaddra matsmanna) á
verðmæti fasteignanna fyrir gerðardóminn, til þess að færa fram rök fyrir
verðmismun á eignum. Stefnandi hafi ekki lagt fram nein slík gögn fyrir
gerðardóminn og sé því dómkvaðning matsmanna undir rekstri þessa máls í því skyni að breyta verðmati gerðardómsins
þýðingarlaus.
2. Krafa um ógildingu á kafla II.3 um
gjaldfærslu matvörureikninga.
Að því er varðar þennan lið í
kröfugerð stefnanda er því hafnað af stefnda að niðurstaða gerðardómsins í
kafla II.3 sé reist á ólögmætum sjónarmiðum. Byggist sýknukrafa stefnda á því
að niðurstaða gerðardómsins hvað varðar gjaldfærslu matvörureikninga sé rétt,
enda hafi matvörureikningar sem stefnandi vildi gjaldfæra í bókhald félagsins
verið kostnaður við einkaneyslu fyrir stefnanda. Lögum samkvæmt sé óheimilt að
gjaldfæra slíka kostnað í bókum félags jafnvel þó sameigandi að rekstri mundi
samþykkja hann, sjá hér 1. tölulið 31. gr. laga um tekju og eignaskatt nr.
75/1981.
Á það er bent að í málinu liggi ekki
fyrir sundurliðun þessa kostnaðar þannig að ekki sé unnt að staðreyna hvenær
matarkaupin áttu sér stað. Í þessu sambandi er bent á að mestan hluta ársins
voru stefndi og stefnandi einu starfsmenn samrekstrarins. Einungis hluta
sumarsins hafi aðrir aðilar verið fengnir til aðstoðar við reksturinn sem voru fyrst og fremst börn aðila. Athygli veki
að í sundurliðun á handskrifuðum blöðum fyrir árin 1995 og 1996 komi fram að
matvöruúttektir dreifast á allt árið þrátt fyrir þá staðreynd að ekki hafi
verið öðrum starfsmönnum til að dreifa mestan hluta ársins en stefnanda og
stefnda. Styðji þetta þá málsástæðu stefnda að um hafi verið að ræða
einkaneyslu stefnanda.
Í gerðardóminum komi fram að gjöld
vegna reksturs kaffistofu hafi ekki verið tilgreind í fyrri skattframtölum
aðila. Á það sé að auki bent að ef starfsmenn njóti fæðis í vinnu beri að gefa
þau hlunnindi upp til skatts. Ekki séu fyrir hendi gögn um að fæðishlunnindi
hafi verið færð á þá starfsmenn sem unnu við samrekstur aðila og gefi það
vísbendingu um að ekkert mötuneyti hafi verið rekið á staðnum. Í þessu samhengi
er á það bent að fjárhæðin sem um sé krafið, 782.330 kr., sé miklum mun hærri
en eðlilegur kostnaður við að bjóða starfsmönnum upp á kaffi. Ljóst sé að annar
sameigenda í sameignarfélagsrekstri geti ekki upp á sitt eindæmi ákveðið að
stofna til útgjalda af þessu tagi. Meginreglan í sameignarfélagi sé að allir
sameigendur þurfi að samþykkja skuldbindingu fyrir félagið. Slíkt samþykki hafi
stefndi ekki gefið.
Athygli veki að hvorki Þórir
Ólafsson, endurskoðandi stefnanda, né Sverrir Ingólfsson endurskoðandi, sem var
gerðardóminum til aðstoðar, hafi treyst sér til þess að samþykkja þessi útgjöld
sem eðlileg útgjöld sem tilheyrðu rekstri aðila. Staðfesti það enn frekar þá
skoðun að um einkaneyslu stefnanda hafi verið að ræða.
Á því er byggt að samkvæmt 1.
tölulið 31. gr. laga um tekju- og eignaskatt nr. 75/1981 sé meginreglan sú að
til þess að heimilt sé að gjaldfæra kostnað í bókhaldi félags þurfi aðili að
færa sönnur á að kostnaðurinn hafi verið nauðsynlegur til þess að afla tekna
fyrir félagið. Niðurstaða gerðardómsins um að stefnandi þurfi að sanna að
kostnaðinn hafi mátt gjaldfæra sé því í samræmi við beina lagaskyldu.
Samkvæmt því sem að framan sé rakið
byggist niðurstaða gerðardómsins á lögmætum forsendum og fullnægir
rökstuðningur dómsins skilyrðum laga um efni og form gerðardóma.
3. Krafa um ógildingu á kafla II.4 um
peningaúttekir stefnanda.
Að því er varðar þennan lið í
kröfugerð stefnanda sé því hafnað af stefnda að niðurstaða gerðardómsins í
kafla II.4 sé reist á ólögmætum sjónarmiðum. Byggist sýknukrafa stefnda á því
að stefnandi hafi sannanlega tekið peninga út úr samrekstri aðila án samþykkis
stefnda að fjárhæð 10.061.573 kr. Niðurstaða gerðardómsins um að stefnanda beri
að endurgreiða þessa fjármuni til samrekstrarins sé því rétt og byggð á gögnum
sem hafi legið fyrir í málinu.
Eins og gögn málsins beri með sér sé
umrædd fjárhæð fengin úr drögum að ársreikningi samrekstrar aðila fyrir árin
1997 og 1998 sem Þórir Ólafsson, endurskoðandi stefnanda, hafi gert. Í
framlögðu bréfi Þóris Ólafssonar dags. 16. júní 1999 sé gerð grein fyrir því að
úttektir eigenda hafi verið færðar þannig að ef ekki væru fyrir hendi
fullnægjandi gögn um ráðstöfun útborgunar á tékkareikningum hafi úttektin verið
færð á umsjónarmann þess reiknings. Sundurliðun úttekta á eiganda komi hins vegar
ekki fram í ársreikningsdrögunum. Í framlögðu bréfi Guðlaugs Guðmundssonar,
endurskoðanda stefnda, komi fram að
samkvæmt þeim gögnum sem hann hafði undir höndum skiptist úttektir eigenda úr
samrekstrinum á árunum 1997 og 1998 þannig að stefnandi hafi tekið út
10.061.573 kr., en stefndi einungis 197.880 kr.
Í málinu hafi því ekki verið hnekkt
að fjárhæðir heildarúttekta eigenda í áðurgreindum drögum að ársreikningi fyrir
árin 1997 og 1998 séu réttar. Eina álitaefnið sé því hvernig skipta beri
úttektunum á eigendur.
Fyrir liggi samkvæmt gögnum máls
viðurkenning stefnanda á því að hafa tekið út a.m.k. 2.396.295 kr. á árinu 1997
og 4.281.065 kr. á árinu 1998. Fyrir gerðardóminn voru lögð fram ljósrit af
svuntum tékkhefta sem stefndi hafði umsjón með (reikningur nr. 30610) þannig að
auðvelt hafi verið að staðreyna úttektir stefnda því stefndi hafði ekki aðgang
að fjármunum samrekstrarins nema með því að ávísa á þann reikning. Samkvæmt
þeim gögnum sé ljóst að stefndi hafði einungis tekið út 197.880 kr. úr samrekstrinum á árunum 1997
til 1998.
Stefnandi, sem annast hafi fjármál
samrekstrar aðila, færslu bókhalds og hafði vörslu bókhaldsins, hafi ekki getað
lagt fram nein gögn um að stefndi hafi fengið greitt meira út úr rekstrinum.
Hægur vandi hefði verið fyrir stefnanda að leggja fram bankayfirlit um úttektir
stefnda á þeim tékkareikningi sem stefndi hafði umsjón með og benda á hvaða
greiðslur það væru sem hann hefði tekið í eigin þágu. Þá hefði stefnandi einnig
getað lagt fram gögn er sýndu hvað keypt hefði verið fyrir þær fjárhæðir sem
hann tók út af tékkareikningi samrekstrarins og að úttektir hans væru þannig
sannanlega framkvæmdar í þágu rekstrarins í meira mæli en ofangreindir
endurskoðendur töldu sannað.
Með bréfi dags. 23. janúar 2001 var
skorað á stefnanda að afhenda tiltekin gögn þannig að unnt væri að staðreyna
með nákvæmni m.a. úttektir hans á peningum í félaginu. Í þessu samhengi sé rétt
að benda á að í bréfi Guðlaugs Guðmundssonar, endurskoðanda stefnda, komi
skýrlega fram að stefnandi neitaði að afhenda hreyfingalista fyrir bókhald í
formi tölvuútprentunar eða handfærðrar dagbókar. Í kröfugerð stefnda fyrir
gerðardóminum sé vísað til fyrrgreindrar áskorunar og kröfur byggðar á því að
stefnandi þurfi að bera hallann af því að afhenda ekki umbeðin gögn.
Þau gögn sem vísað sé til að framan
og lögð voru fyrir gerðardóminn séu algerlega fullnægjandi grundvöllur fyrir
niðurstöðu gerðardómsins, einkum í ljósi þess að stefnandi hafi ekki getað lagt
fram gögn sem bendi til þess að úttektir stefnda hafi verið hærri eða hans
sjálfs lægri, þrátt fyrir að honum hafi verið auðvelt að leggja slík gögn fram
ef þau væru á annað borð til. Að auki sé sönnunarstaðan í málinu þannig að
stefnandi sem vörslumaður bókhalds aðila beri hallann af sönnunarskorti.
Í stefnu sé byggt á því að stefnandi
hafi átt rétt á hærri launum vegna meira vinnuframlags eða hærra reiknuðu
endurgjaldi en stefndi og að sú staðhæfing réttlæti þessar úttektir stefnanda.
Þessum röksemdum sé mótmælt og á það bent að þarna sé stefnandi að blanda saman
tveimur ólíkum hlutum því laun og reiknað endurgjald eigenda beri að færa sem
launagjöld og greiða af þeim skatta og aðrar skyldur. Engar skattgreiðslur hafi
verið inntar af hendir vegna peningaúttekta stefnanda. Stefnandi og stefndi
hafi í gegnum tíðina fengið reiknað endurgjald fyrir vinnuframlög sín í þágu
samrekstrar í samræmi við samkomulag aðila. Bent er á að reiknað endurgjald
stefnanda samkvæmt landbúnaðarskýrslu fyrir árið 1997 hafi verið 695.032 kr. og 694.980 kr. fyrir árið 1998. Úttektir hans
til viðbótar fyrir árið 1997 hafi verið hátt í nífalt hærri fjárhæð og fyrir
árið 1998 hátt í sjöfalt hærri fjárhæð. Ljóst sé í samræmi við meginreglur um
sameignarfélög að stefnandi hafði engar heimildir til þess að skammta sér
launagreiðslur með þessum hætti og að auki hafi hann ekki talið þessar
fjárhæðir fram sem laun á framtali og greitt af þeim skatt. Þá beri að hafa í
huga að rekstur graskögglaverksmiðjunnar hafi engan veginn staðið undir þessum
greiðslum og hafi úttektir stefnda leitt m.a. til mikillar skuldasöfnunar
samrekstrarins.
Samkvæmt því sem að framan sé rakið
byggist niðurstaða gerðardómsins á lögmætum forsendum og fullnægi rökstuðningur
dómsins skilyrðum laga um efni og form gerðardóma.
4. Fjárkrafa stefnanda.
Í ljósi þess sem að framan hafi
verið rakið um mat gerðardómsins á verðmæti fasteigna sem voru í eigu
samrekstrarins séu engar forsendur til þess að taka fjárkröfu stefnanda til
greina. Enginn fótur sé fyrir þeim fjárhæðum sem stefnandi hafi sett fram í
kröfugerð sinni og því ekki ástæða til þess að fjalla um einstaka liði
kröfugerðarinnar að öðru leyti en að þeim er mótmælt sem röngum og órökstuddum.
Þá er ítrekað það sjónarmið að stefnandi getur ekki á þessu stigi málsins lagt
fram mat dómkvaddra matsmanna um verðmæti eigna. Slík gögn hefði stefnandi
þurft að leggja fram í gerðardóminum hefði hann óskað eftir því að á þeim væri
byggt. Stefnandi verði að bera hallann af því að hafa ekki lagt fram gögn af
þessum toga fyrir gerðardóminn.
Vísað er til laga um samningsbundna
gerðardóma nr. 53/1989 einkum 7., 8. og 12. gr. um að gerðardómurinn sé
bindandi fyrir aðila og að hann uppfylli skilyrði um form og efni gerðardóma.
Þá er vísað til 33. gr. laga um tekju- og eignarskatt nr. 75/1981 um skilyrði
þess að gjaldfæra megi kostnað í reikningi félags. Um heimildir til þess að
skuldbinda sameignarfélag er vísað til almennra reglna um samrekstur og
sameignarfélög.
Málskostnaðarkrafan styðst við 130.
gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Niðurstaða
Krafa
stefnanda um ógildingu gerðardómsins að hluta er einkum á því byggð að hann sé
reistur á ólögmætum sjónarmiðum, sbr. 6. tölulið 1. mgr. 12. gr. laga nr.
53/1989 um samningsbundna gerðardóma.
Með
samkomulaginu frá 15. mars 2000 skuldbundu aðilar sig til að leggja ágreining um
skiptingu eigna og uppgjör skulda og samrekstrar, svo og önnur atriði sem lutu
að skiptum aðila, til úrskurðar gerðardóms.
Með þeirri tilhögun á úrlausn ágreiningsefna sinna hafa aðilar
undanþegið sig málsmeðferð almennra dómstóla. Gerðardómur felur í sér endanlega
niðurstöðu um sakarefnið og verður almennt ekki hnekkt. Engu að síður geta
ákveðnar ástæður leitt til þess að unnt sé að ógilda gerðardóm að nokkru leyti
eða öllu með málsókn, eins og kveðið er á um í 1.- 6. tölulið 1. mgr. 12. gr.
gerðardómslaga. Að því er varðar 6.
tölulið 1. mgr. 12. gr. þá er tekið sérstaklega fram í greinargerð með lögunum
um þann lið að gerðardómur verður ekki ógiltur nema í undantekningartilviki
þótt niðurstaða hans sé ekki í samræmi við hefðbundna túlkun eða beitingu réttarreglna.
Slík regla sé í samræmi við UNCITRAL lögin um alþjóðlega gerðardóma, sem höfð
var hliðsjón af við samningu laganna, og sé m.a. lögð til grundvallar í norsku,
dönsku og sænsku gerðardómslögunum. Af lögskýringarsjónarmiðum þessum og
orðalagi 6. töluliðar verður ráðið að verulegt frávik frá viðurkenndum
sjónarmiðum og málsmeðferðarreglum þurfi að koma til, ef ógilda á gerðardóm á
grundvelli tilvitnaðs lagaákvæðis.
Stefnandi
gerir í fyrsta lagi kröfu til þess að ógiltur verði í gerðardómi kafli I að því
er varðar mat á verðmismun milli lands og húseigna sem komu í hlut stefnda
annars vegar og stefnanda hins vegar.
Í
samkomulagi aðila frá 15. mars 2000 var miðað við að samningur milli þeirra um
skiptingu jarðarinnar dags. 9. desember 1989 skyldi lagður til grundvallar
landskiptingu á Brautarholti og frekari skipting lands miðaði að því að
eignarhlutur hvors um sig yrði í sem eðlilegustum tengslum við það land sem
þegar hafði verið skipt. Í gerðardóminum var tekið tillit til þessa og tekið
fram að jafnframt yrði haft að leiðarljósi að jarðarhlutarnir tveir gætu hvor
um sig myndað sem heillegasta fasteign. Einnig að nýting og umferð um annan
eignarhlutann þyrfti sem minnst að snerta hinn. Þá var gerðardóminum falið að skipta á milli aðila sameiginlegum
fasteignum, þ.e. graskögglaverksmiðju, gamla íbúðarhúsinu og gömlu útihúsunum.
Fyrir gerðardóminum gerðu báðir aðilar kröfu til þess að fá
graskögglaverksmiðjuna og gamla íbúðarhúsið í sinn hlut. Í samræmi við
framangreind sjónarmið um skiptingu lands og eigna var niðurstaða gerðardómsins
sú að í hlut stefnda kom graskögglaverksmiðjan og gamla íbúðarhúsið, en í hlut
stefnanda komu gömlu útihúsin. Í
samkomulagi aðila var gert ráð fyrir að skipting eigna yrði eins jöfn og kostur
væri, en aðilar skyldu jafna verðmismun með peningagreiðslu. Í gerðardóminum
er tekið fram að ljóst sé að meiri verðmæti í húsum talin hafi komið í hluti
stefnda. Í gerðardóminum var talið hæfilegt, að teknu tilliti til skiptingar
lands, að stefndi greiddi stefnanda 2.000.000 króna til að jafna metin. Stefnandi telur að ákvörðun meirihluta dómsins um hæfilega greiðslu til handa
stefnanda vegna verðmismunar eignanna hafi verið órökstudd og í engu byggst á
staðreyndum eða gögnum málsins og því augljóslega reist á ólögmætum sjónarmiðum.
Beri því að ógilda gerðardóminn að þessu leyti með vísan til 6. töluliðar l.
mgr. 12. gr. gerðardómslaga. Jafnframt telur stefnandi að málsmeðferð hafi
verið áfátt í verulegum atriðum að þessu leyti og beri að ógilda dóminn af þeim
sökum, sbr. 3. tölulið 1. mgr. 12. gr. gerðardómslaga.
Fyrir
liggur að gerðardómurinn leitaði álits sérfræðinga við mat á þeirri fjárhæð sem
greiða skyldi vegna verðmunar milli þeirra eigna sem í hlut aðila komu við
skiptin. Þá er tekið fram í gerðardóminum að við það mat hafi verið tekið
tillit til skiptingar lands í gerðardóminum.
Í matsbeiðni stefnanda var þess óskað að metinn yrði verðmismunur milli
lands og húseigna sem annars vegar komu í hlut stefnanda og hins vegar komu í
hlut stefnda samkvæmt gerðardómi. Í niðurstöðu dómkvaddra matsmanna er tekið
fram að ekki sé lagt mat á framkvæmd jafnrar skiptingar á landi milli aðila,
sem unnin hafi verið af arkitekt og verkfræðiþjónustu fyrir gerðardóm. Þannig
er ekki ljóst að sömu forsendur hafi að öllu leyti legið fyrir við mat dómkvaddra
matsmanna á söluverðmæti eigna og fyrir lágu þegar gerðardómurinn ákvað fjárhæð
peningagreiðslu til að jafna verðmismun eigna.
Kann það að einhverju leyti að skýra mismunandi niðurstöður. Í gerðardóminum er gerð grein fyrir því og
rökstutt með hvaða hætti skipting lands og annarra eigna var gerð. Ekki verður
fallist á að niðurstaða gerðardómsins að þessu leyti hafi byggst á ólögmætum
sjónarmiðum eða málsmeðferð fyrir gerðardóminum hafi verið áfátt í verulegum
atriðum. Eru því ekki skilyrði til þess, samkvæmt 3. eða 6. tölulið l. mgr. 12.
gr. laga nr. 53/1989 um samningsbundna gerðardóma, að ógilda kafla I í
gerðardómnum að því er varðar mat á verðmismun milli lands og húseigna sem komu
í hlut stefnda annars vegar og stefnanda hins vegar. Er þeirri kröfu stefnanda hafnað.
Stefnandi
gerir í annan stað kröfu til þess að ógiltur verði í gerðardómi kafli II.3 að
því er varðar rekstur kaffistofu.
Í
gerðardómi segir að meðal gagna málsins séu landbúnaðarframtöl aðila, sem þeir
hafi skilað sameiginlega. Við athugun framtala áranna 1993 til 1998 verði ekki
séð að þar hafi verið talið fram til gjalda vegna reksturs kaffistofu. Var því
litið svo á af hálfu gerðardóms að það væri stefnanda að sanna þá fullyrðingu
sína að um væri að ræða kostnað vegna reksturs mötuneytis. Var því fallist á
kröfu stefnda að fjárhæð 782.330 krónur.
Niðurstaða dómkvaddra matsmanna um þetta atriði var sú að kostnaður við
rekstur kaffistofu (mötuneytis) að upphæð 592.861 kr. sé tilheyrandi samrekstri
aðila.
Að mati
stefnanda hefur gerðardómurinn með niðurstöðu sinni gengið þvert á almennar
reglur um sönnun og sönnunarbyrði og gert stefnanda að afsanna með öllu
órökstudda fullyrðingu stefnda og sú fullyrðing hafi verið lögð til
grundvallar. Telur stefnandi niðurstöðu
gerðardóms að þessu leyti byggjast á málsatvikum sem enginn fótur sé fyrir,
þ.e. að fjármunum þessum hafi verið varið til einkaneyslu stefnanda en ekki til
reksturs kaffistofu fyrir starfsmenn eins og rétt sé. Á því er byggt að
niðurstaðan sé samkvæmt þessu bersýnilega reist á ólögmætum sjónarmiðum, sbr.
6. tölulið 1. mgr. 12. gr. gerðardómslaga.
Á þetta verður ekki fallist.
Líta verður til þess að með gerðarsamningi hafa aðilar tekið á sig og
samþykkt þá áhættu sem fylgir gerðardómsmeðferð, sem ekki tryggir sama réttaröryggi
og málsmeðferð fyrir dómstólum. Gerðardómur verður því aðeins ógiltur samkvæmt
6. tölulið 12. gr. gerðardómslaga að hann sé bersýnilega byggður á ólögmætum
sjónarmiðum. Það er því ekki nægjanlegt til ógildingar gerðardóms að
gerðardómsmenn hafi beitt sönnunarreglum ranglega eða byggt niðurstöðu sína á
málsatvikum, sem ekki voru sönnuð. Eru
því ekki skilyrði til þess, samkvæmt 6. tölulið l. mgr. 12. gr. laga nr.
53/1989 um samningsbundna gerðardóma eða öðrum ákvæðum laganna, að ógilda kafla
II.3 í gerðardómnum að því er varðar rekstur kaffistofu. Er þeirri kröfu
stefnanda einnig hafnað.
Stefnandi
gerir í þriðja lagi kröfu til þess að kafli II.4 í gerðardómi verði ógiltur.
Í
gerðardómi var fallist á kröfu stefnda um að stefnandi greiddi til samrekstrarins
10.061.573 kr. vegna úttekta hans árin 1997 og 1998 (5.977.114 kr. árið 1997 og
4.084.459 kr. árið 1998). Taldi gerðardómurinn það sannað með framlögðum gögnum
að stefnandi hefði tekið þessa fjárhæð úr rekstrinum og bæri að standa skil á
henni. Samkvæmt matsgerð dómkvaddra matsmanna var niðurstaðan sú að úttekt
ársins 1997 skiptist jafnt á eigendur og verði stefnanda því ekki gert að
endurgreiða samrekstrinum 5.977.114 kr. og stefnda ekki gert að endurgreiða
samrekstrinum 197.880 kr. Tekið er fram í matsgerðinni að árið 1998 sé uppfært
og viðurkennd sé úttekt stefnanda að fjárhæð 4.031.228 kr.
Verulegur
ágreiningur er með aðilum í málinu um niðurstöðu meirihluta gerðardómsins um
þetta atriði, eins og málatilbúnaður þeirra ber með sér. Við mat á því hvort
uppfyllt séu skilyrði 6. töluliðar 12. gr. gerðardómslaga um ógildingu gerðardómsins
að þessu leyti ber sem endranær að líta til þess að aðilar hafa undirgengist að
hlíta niðurstöðu hans og afsalað sér málsmeðferð fyrir almennum dómstólum. Eins
og fyrr er rakið verður gerðardómur ekki ógiltur nema í undantekningartilviki
þótt niðurstaða hans sé ekki í samræmi við hefðbundna túlkun eða beitingu
réttarreglna. Um þennan þátt gerðardómsins er einkum deilt um sönnunargögn, sönnun og sönnunarfærslu, en
ekki verður séð að niðurstaða gerðardómsins hafi verið byggð á ólögmætum
sjónarmiðum. Með vísan til þess og að öðru leyti með skírskotun til
rökstuðnings fyrir niðurstöðu um kafla II.3 hér á undan verður ekki talið að
skilyrði séu til þess, samkvæmt 6. tölulið l. mgr. 12. gr. laga nr. 53/1989 um
samningsbundna gerðardóma, að ógilda kafla II.4 í gerðardómnum. Er þeirri kröfu
stefnanda einnig hafnað.
Sú
málsástæða stefnanda, sem höfð var uppi við munnlegan málflutning að
gerðardómurinn bryti í bága við allsherjarreglu, sbr. 6. tölulið 1. mgr. 12.
gr. gerðardómslaga, á hér ekki við. Í greinargerð með lögunum segir að hugtakið
allsherjarregla eigi einkum við um alþjóðlega gerðardóma. Í því felist
fyrirvari um það að erlendum gerðardómi verði ekki beitt hér á landi ef beiting
þeirra reglna sem hann sé reistur á fari í bága við grundvallarreglur íslensks
réttar. Hér er því um að ræða skírskotun til „ordre public“ hugtaksins í
alþjóðlegum einkamálarétti.
Samkvæmt
framansögðu er kröfum stefnanda um ógildingu tilgreindra kafla gerðardómsins
frá 4. apríl 2002 hafnað og er stefndi sýknaður af þeim kröfum. Af því leiðir
að sýkna ber stefnda af fjárkröfu stefnanda í málinu, sem háð er því að
ógildingarkröfur stefnanda nái fram að ganga.
Eftir
atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Eggert
Óskarsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð:
Stefndi,
Dánarbú Jóns Ólafssonar, skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Páls Ólafssonar, í
máli þessu.
Málskostnaður
fellur niður.