Hæstiréttur íslands
Nr. 2021-87
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Skaðabætur
- Líkamstjón
- Vinnuslys
- Ábyrgðartrygging
- Sönnunarbyrði
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.
Með beiðni 23. mars 2021 leita Vörður tryggingar hf. og Alur álvinnsla ehf. eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 26. febrúar 2021 í málinu nr. 217/2019: Vörður tryggingar hf. og Alur álvinnsla ehf. gegn A, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila um viðurkenningu á bótaskyldu vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir við störf sín hjá leyfisbeiðanda Ali álvinnslu ehf. þegar hann féll úr stigapalli á steinsteypt gólf er hann var að vinna við vélasamstæðu. Í málinu deila aðilar um hvernig slysið atvikaðist. Í dómi Landsréttar var komist að þeirri niðurstöðu að það hafi staðið leyfisbeiðanda Ali álvinnslu ehf. nær að leitast við að upplýsa betur um atvik að slysinu og útbúnað vélasamstæðunnar sem gagnaðili vann við. Eins og atvikum væri háttað yrði gagnaðili því hvorki látinn bera hallann af því að leyfisbeiðandi Alur álvinnsla ehf. hafi látið undir höfuð leggjast að kynna sér atvik málsins með fullnægjandi hætti né því að Vinnueftirlitið sinnti ekki þeirri lagaskyldu sinni að rannsaka slysið í kjölfar tilkynningar. Miðað yrði því við þá frásögn gagnaðila, sem fengi nokkra stoð í framburði vitnis, að hleri á vélasamstæðunni hefði fallið niður og handfang á honum rekist í hjálm gagnaðila þannig að hann féll niður af stigapallinum. Leyfisbeiðanda Ali álvinnslu ehf. hafi borið að tryggja að hlerinn væri festur með fullnægjandi hætti en félli ekki niður vegna hristings vélarinnar. Bæri hann því bótaábyrgð á tjóni gagnaðila samkvæmt sakarreglunni og óskráðri reglu skaðabótaréttar um vinnuveitandaábyrgð og leyfisbeiðandi Vörður tryggingar hf. sem ábyrgðartryggjandi hans. Krafa gagnaðila var því tekin til greina.
Leyfisbeiðandi byggir á því að málið hafi mikilvæga almenna þýðingu um skyldur atvinnurekanda til að rannsaka vinnuslys þegar hann hefur tilkynnt um það til Vinnueftirlitsins í samræmi við ákvæði laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum en Vinnueftirlitið komi ekki á staðinn og þegar starfsmaður sýnir af sér tómlæti við að upplýsa um atvik. Þá telja leyfisbeiðendur niðurstöðu Landsréttar bersýnilega ranga og leggja óraunhæfar skyldur á atvinnurekendur um að upplýsa og sanna tildrög slyss ef starfsmaður gefur misvísandi eða rangar upplýsingar um atvik. Þá telja þeir niðurstöðu Landsréttar í ósamræmi við dóm Landsréttar 5. apríl 2019 í máli nr. 560/2018 og dóma Hæstaréttar 22. mars 2018 í máli nr. 286/2017, 24. október 2013 í máli nr. 249/2013, 10. febrúar 2011 í máli nr. 433/201 og 2. mars 2000 í máli nr. 399/1999. Í dómi Landsréttar sé því slegið föstu að rannsóknarskylda atvinnurekanda sé umfangsmeiri en áður hafi verið talið.
Gagnaðili leggst gegn beiðninni. Hann kveður niðurstöðu Landsréttar byggja á sakarreglunni og reglunni um vinnuveitandaábyrgð en ekki hlutlægri ábyrgð vinnuveitanda. Þá telur hann niðurstöðu Landsréttar í málinu í samræmi við dómafordæmi varðandi ríka skyldu vinnuveitanda til að rannsaka slys og fylgja því eftir að vinnuslys sé rannsakað, sérstaklega þar sem aðstöðumunur sé mikill. Gagnaðili vísar meðal annars til dóma Hæstaréttar 4. febrúar 2010 í máli nr. 286/2009, 19. mars 2009 í máli nr. 363/2008 og 8. mars 2018 í máli nr. 151/2017 svo og dóma Landsréttar 25. janúar 2019 í máli nr. 402/2018 og 8. nóvember 2019 í máli nr. 900/2018. Gagnaðili telur dóm Landsréttar ekki valda óvissu um skyldur vinnuveitanda og hver beri sönnunarbyrðina ef atvik eru ekki nægilega upplýst.
Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt
gildi umfram dómsúrlausnir sem áður hafa gengið um sambærileg efni né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.