Hæstiréttur íslands
Mál nr. 268/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Matsgerð
- Frestur
|
|
Miðvikudaginn 1. júní 2011. |
|
Nr. 268/2011. |
Landsvaki hf. (Stefán Geir Þórisson hrl.) gegn Jóni Ásgeiri Jóhannessyni Pálma Haraldssyni (Gísli Guðni Hall hrl.) Magnúsi Ármann og Þorsteini M. Jónssyni (Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.) |
Kærumál. Matsgerð. Frestun máls.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu L hf. um að hann fengi að leggja fram beiðni um dómkvaðningu matsmanna í máli hans gegn J, P, M og Þ áður en fram færi munnlegur málflutningur um frávísunarkröfu þeirra. L hf. höfðaði málið aðallega til heimtu skaðabóta úr hendi J, P, M og Þ vegna tiltekinnar ákvörðunar þeirra sem stjórnarmanna í hlutafélaginu 365 sem síðar varð Í hf., en til vara til viðurkenningar á skaðabótaskyldu þeirra vegna tjóns sem L hf. taldi sig hafa orðið fyrir vegna ákvörðunarinnar en L hf. mun hafa verið einn kröfuhafa í þrotabú Í hf. Í dómi Hæstaréttar sagði m.a. að þótt sú meginregla kæmi fram í 2. mgr. 100. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að mál skuli flytja um frávísunarkröfu og leyst úr henni í úrskurði áður en fjallað sé frekar um efni þess væri þar að finna undantekningu sem heimilaði að víkja frá meginreglunni væri krafan reist á ástæðum sem vörðuðu einnig efni máls og nægilegar upplýsingar þættu ekki komnar fram að því leyti. Frávísunarkrafa J, P, M og Þ lyti að því að tilgreind efnisatriði í málatilbúnaði L hf. væru vanreifuð. Með matsbeiðni sinni freistaði L hf. þess að renna stoðum undir þau. Taldi Hæstiréttur að fyrrnefnd undantekningarregla ætti við í málinu og var L hf. heimiluð framlagning matsgerðar áður en munnlegur málflutningur um frávísunarkröfu færi fram.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. maí 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. apríl 2011, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um hann fengi að leggja fram beiðni um dómkvaðningu matsmanna í máli hans gegn varnaraðilum áður en fram færi munnlegur málflutningur um frávísunarkröfu þeirra. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og lagt fyrir héraðsdóm „að heimila framlagningu beiðni um dómkvaðningu matsmanna og taka ákvörðun um dómkvaðningu matsmanna, áður en málið verður flutt um frávísunarkröfu“ varnaraðila. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði höfðaði sóknaraðili mál þetta aðallega til heimtu skaðabóta úr hendi varnaraðila, eins og nánar greinir hér á eftir, vegna tiltekinnar ákvörðunar þeirra sem stjórnarmanna í hlutafélaginu 365, sem síðar varð Íslensk afþreying hf., en til vara til viðurkenningar á skaðabótaskyldu þeirra vegna tjóns, sem sóknaraðili telur sig hafa orðið fyrir vegna ákvörðunarinnar. Í stefnu til héraðsdóms gerir sóknaraðili grein fyrir því að hann sé einn kröfuhafa í þrotabú Íslenskrar afþreyingar hf. Hann kveður fjárfestingasjóð sem rekinn hafi verið af honum, Fyrirtækjabréf Landsbanka Íslands hf., hafa á árinu 2005 við skuldabréfaútboð hlutafélagsins Ogvodafone keypt skuldabréf fyrir 540.000.000 krónur í skuldabréfaflokki, sem nefndur var OGVODA 05 1. Kaup hans hafi numið um fjórðungi af heildarfjárhæð skuldabréfaflokksins. Hann kveður nafni Ogvodafone hf. hafa verið breytt oftar en einu sinni, en næst hafi það heitið 365 hf. og loks Íslensk afþreying hf. Sóknaraðili kveður hafa verið ákveðið á stjórnarfundi í 365 hf. 1. nóvember 2008 að selja einkahlutafélag í þess eigu, 365 miðla, sem hafði á sinni hendi nokkra fjölmiðla, til Rauðsólar ehf., sem var í eigu varnaraðilans Jóns Ásgeirs Jóhannessonar. Kaupverðið hafi verið 5.900.000.000 krónur, sem greitt hafi verið að mestu með yfirtöku tiltekinna skulda, en 1.500.000.000 krónur hafi verið greiddar með peningum. Síðar hafi tvö einkahlutafélög til viðbótar í eigu 365 hf. verið seld. Bú Íslenskrar afþreyingar hf. hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta 2. júlí 2009. Sóknaraðili telur að hin skaðabótaskylda háttsemi varnaraðila hafi átt sér stað á stjórnarfundinum í 365 hf. 1. nóvember 2008. Gerir hann grein fyrir því í stefnu hver aðdragandinn var að sölu 365 miðla ehf., hverja hann telur hafa verið fjárhagsstöðu félagsins fyrir og eftir söluna og hvaða kosti það hafi haft til þess að greiða skuldir sínar þegar þær myndu falla í gjalddaga. Hann kveður eigið fé 365 hf. hafa verið neikvætt við framangreinda sölu og byggir á því að félagið hafi þá einnig verið ógjaldfært. Hann kveður varnaraðila hafa bakað sér skaðabótaskyldu með þeirri ákvörðun á umræddum stjórnarfundi að nota þann hluta söluverðsins, 1.500.000.000 krónur, til þess að greiða upp skuldabréfaflokk sem nefndur hafi verið OGVODA 03 1 í stað þess að óska eftir því að bú félagsins yrði tekið til gjaldþrotaskipta, svo sem skylt hafi verið. Hann kveður varnaraðila með þessu hafa sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi, sem farið hafi í bága við skyldur þeirra sem stjórnarmanna samkvæmt lögum nr. 2/1995 um hlutafélög og verið brot á skyldu, sem á stjórn félagsins hafi hvílt, samkvæmt 2. mgr. 64. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Af ákvörðun varnaraðila um að greiða upp hinn tilgreinda skuldabréfaflokk hafi leitt mismunun milli kröfuhafa þeirra skuldabréfa annars vegar og annarra kröfuhafa félagsins, meðal annars sóknaraðila. Í stefnunni leitast sóknaraðili við að rökstyðja nánar þá staðhæfingu að 365 hf. hafi verið ógjaldfært fyrir söluna eða að minnsta kosti orðið það við hana og þess vegna hafi skylda stjórnar, sem mælt sé fyrir um í 2. mgr. 64. gr. laga nr. 21/1991, orðið til í síðasta lagi við söluna. Sóknaraðili gerir grein fyrir því með útreikningum í stefnu hvert hafi verið tjón sitt vegna hinnar ætluðu saknæmu og ólögmætu ákvörðunar varnaraðila og kveður það hafa verið 169.294.443 krónur, en það er aðalkrafa hans í málinu. Í stefnu áskilur sóknaraðili sér meðal annars rétt til ,,... að dómkveðja matsmenn í þeim tilgangi að meta tjón stefnanda af háttsemi stefndu og hvort þeim hafi verið skylt að gefa búið upp til gjaldþrotaskipta í stað þess að ráðstafa andvirði hluta kaupverðsins ... til greiðslu á skuldabréfaflokki OGVODA 03 1.“
II
Af hálfu varnaraðila er í héraðsgreinargerðum aðallega krafist frávísunar, en til vara sýknu og að því frágengnu er krafist verulegrar lækkunar á fjárkröfu sóknaraðila. Í greinargerðunum eru raktir málavextir og í þeirri lýsingu meðal annars gerð grein fyrir atvikum, sem varnaraðilar telja að leiði til þess að ákvörðun sú, sem sóknaraðili telur að hafa valdið sér tjóni, hafi verið rétt og í þágu hagsmuna félagsins eins og varnaraðilum hafi verið unnt að sjá aðstæður fyrir á þeirri stundu, sem ákvörðunin var tekin. Hafi varnaraðilar verið í góðri trú um að bú 365 hf., síðar Íslenskrar afþreyingar hf., gæti staðið við skuldbindingar sínar og myndi ekki verða tekið til gjaldþrotaskipta. Óumdeilt sé að söluverðið fyrir fjölmiðlahlutann hafi ekki verið of lágt og hafi það einnig verið niðurstaða skiptastjóra þrotabúsins. Þá kveða varnaraðilar að sóknaraðili taki ekki tillit til atriða, sem óhjákvæmilega myndu leiða til lækkunar á kröfu hans, meðal annars að afsláttur hafi verið veittur af kaupverði, sem nam 160.000.000 krónum, en hann hafi nú verið greiddur þrotabúi Íslenskrar afþreyingar hf. eftir að búið höfðaði dómsmál til riftunar á gjafagerningi, sem hafi falist í afslættinum. Þá hafi Teymi hf., sem ekkert hafi bent til annars, á þeim tíma er salan fór fram, en að hafi verið gjaldfært, verið í ábyrgð fyrir skuldum 365 hf. að tiltekinni fjárhæð. Ábyrgðin hafi komið til vegna þess að á árinu 2006 hafi Dagsbrún hf. verið skipt upp í tvö félög, það er í 365 hf. og Teymi hf. Félögin tvö hafi ábyrgst skuldir hvors annars og hafi því Teymi hf. verið í ábyrgð fyrir greiðslu á skuldabréfum í flokknum OGVODA 05 1.
Varnaraðilar styðja frávísunarkröfuna þeim rökum að ætlað tjón sóknaraðila sé vanreifað í stefnu svo og orsakatengsl milli þess og þeirrar háttsemi sem sóknaraðili telur skaðabótaskylda. Engin gögn séu lögð fram um þá kröfu, sem sóknaraðili telji sig hafa átt á hendur 365 hf. og hvorki sé útlistað við hvaða dag hún sé miðuð né hvernig hún sundurliðist. Þá sé ekkert tillit tekið til framangreindrar ábyrgðar Teymis hf. á skuldum 365 hf. Varnaraðilar benda á að gjaldþrotaskiptum á búi Íslenskrar afþreyingar hf., áður 365 hf., sé ekki lokið og ljóst megi vera að ekki séu forsendur til að höfða mál eins og þetta fyrr en skiptum sé lokið. Skaðabótakrafa sóknaraðila sé því bæði óvís og óljós og því beri að vísa henni frá dómi, sbr. 1. mgr. 26. gr. og d. og e. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.
Varnaraðilar benda einnig á að fjárhæðir sem stefnukrafan sé reist á séu flestar áætlaðar og ekki byggðar á gögnum. Sé ekki tekið tillit til afsláttar á kaupverði, sem getið var. Þetta sé ekki nefnt í stefnu.
Þá benda varnaraðilar á að þrotabúið muni hafa höfðað mál gegn Íslandsbanka hf. þar sem búið krefjist hagsmuna sér til handa sem nemi meira en 300.000.000 krónum. Þessa sé heldur að engu getið í stefnu. Loks benda varnaraðilar á að ekkert sé um það fjallað í stefnu hvaða áhrif nauðasamningur Teymis hf. 4. júní 2009 hafi á kröfu sóknaraðila vegna skuldabréfaflokksins OGVODA 05 1 eða hvað hann fékk eða átti að fá upp í kröfu sína á hendur Teymi hf.
Varnaraðilar telja að varakrafa sóknaraðila í héraðsstefnu, um viðurkenningu á skaðabótaskyldu þeirra vegna hinnar tilgreindu ákvörðunar, sé háð sömu annmörkum og aðalkrafan. Sóknaraðili verði hið minnsta að gera tjón sitt sennilegt til að krefjast viðurkenningardóms um skaðabótaskyldu varnaraðila. Veigamikil atriði vanti í stefnuna til þess að unnt sé að taka ætlaða skaðabótaskyldu til efnislegrar úrlausnar.
III
Í fyrsta þinghaldi í héraði, eftir að varnaraðilar höfðu lagt fram greinargerðir, sem háð var 29. mars 2011, var meðal annars bókað: ,,Lögmaður stefnanda óskar eftir að leggja fram beiðni um dómkvaðningu matsmanna. Lögmenn stefndu mótmæla framlagningunni. Lögmaður stefnanda krefst úrskurðar og er málinu frestað til munnlegs málflutnings um þann ágreining ...“ Sá málflutningur, um hvort sóknaraðila væri heimilt að leggja fram beiðni um dómkvaðningu matsmanna, áður en málið yrði flutt um frávísunarkröfu varnaraðila, fór fram 8. apríl 2011. Í hinum kærða úrskurði kemur fram að tilgangur dómkvaðningar matsmanna hafi verið að meta hvort 365 hf., síðar Íslensk afþreying hf., hafi verið ,,ógjaldfært í skilningi 64. gr. laga um gjaldþrotaskipti 1. nóvember 2008 þegar stjórn félagsins tók þá ákvörðun að selja 365 miðla ehf. og hvort félagið hafi verið ógjaldfært eftir söluna eftir að stjórn félagsins tók ákvörðunin um að ráðstafa 1.500 milljónum króna til greiðslu á skuldabréfaflokknum OGVODA 03 1 á gjalddaga. Einnig er af hálfu stefnanda óskað eftir mati á fjártjóni hans vegna þess að stjórnarmenn Íslenskrar afþreyingar hf. tóku ákvörðun um að greiða skuldabréfin í stað þess að gefa félagið upp til gjaldþrotaskipta.“
Þótt sú meginregla komi fram í 2. mgr. 100. gr. laga nr. 91/1991, að mál skuli flytja um frávísunarkröfu og leyst úr henni í úrskurði áður en fjallað verði frekar um efni þess, er þar að finna undantekningu sem heimilar að víkja frá meginreglunni, ef krafan er reist á ástæðum, sem varða einnig efni máls og nægilegar upplýsingar þykja ekki komnar fram að því leyti. Eins og gerð hefur verið grein fyrir krefjast varnaraðilar frávísunar einkum með þeim rökum að ætlað tjón sóknaraðila og orsakatengsl milli þess og þeirrar háttsemi, sem sóknaraðili telur skaðabótaskylda, sé vanreifað í stefnu, gögn og upplýsingar vanti um kröfu sóknaraðila á hendur Íslenskri afþreyingu hf. og einnig að tillit sé tekið til ábyrgðar Teymis hf. Matsbeiðni sóknaraðila, sem hann gerði sérstakan áskilnað um í stefnu til héraðsdóms, miðar að því að renna stoðum undir útreikning á fjárhæð skaðabótakröfu hans og treysta grundvöll málsástæðna sem settar eru fram í stefnu um ógjaldfærni 365 hf. þegar og eftir að ákvörðun sú var tekin, sem sóknaraðili telur hafa valdið sér skaðabótaskyldu tjóni. Krafa varnaraðila um frávísun lýtur að því að tilgreind efnisatriði í málatilbúnaði sóknaraðila séu vanreifuð. Með matsbeiðni freistar sóknaraðili þess að renna stoðum undir þau. Hann hefur hagsmuni af því að matsmenn verði dómkvaddir og matsgerð lögð fram áður en héraðsdómari fellir úrskurð um frávísunarkröfu varnaraðila. Samkvæmt því á við undantekningarregla 2. mgr. 100. gr. laga nr. 91/1991, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar í máli nr. 428/1995 í dómasafni réttarins 1996, bls. 29. Verður því hinn kærði úrskurður úr gildi felldur og lagt fyrir héraðsdóm að heimila framlagningu matsgerðar áður en munnlegur málflutningur um frávísunarkröfu varnaraðila fer fram.
Varnaraðilar greiði sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Sóknaraðila, Landsvaka hf., er heimilað að afla mats dómkvaddra manna áður en málflutningur fer fram um kröfu varnaraðila, Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, Pálma Haraldssonar, Magnúsar Ármann og Þorsteins M. Jónssonar, um frávísun málsins frá héraðsdómi.
Varnaraðilar greiði sameiginlega sóknaraðila 400.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 20. apríl 2011.
Stefnandi krefst þess aðallega í máli þessu að stefndu greiði honum in solidum 169.294.443 krónur ásamt dráttarvöxtum en til vara að viðurkenndur verði með dómi réttur stefnanda til greiðslu skaðabóta in solidum úr hendi stefndu vegna fjártjóns sem stefnandi telur sig hafa orðið fyrir þegar stefndu tóku ákvörðun sem stjórnarmenn 365 hf. (síðar Íslensk afþreying hf.) að óska ekki eftir gjaldþrotaskiptum á búi félagsins í stað þess að ráðstafa reiðufé að fjárhæð 1.500 milljónir króna til greiðslu á skuldabréfaflokki OGVODA 031 hinn 5. nóvember 2008.
Aðalkrafa stefndu í málinu er að því verði vísað frá dómi. Í þinghaldi þegar taka átti ákvörðun um munnlegan málflutning um frávísunarkröfuna var þess krafist af hálfu stefnanda að hann fengi að leggja fram beiðni um dómkvaðningu matsmanna til að meta hvort Íslensk afþreying hf. hafi verið ógjaldfært í skilningi 64. gr. laga um gjaldþrotaskipti 1. nóvember 2008 þegar stjórn félagsins tók þá ákvörðun að selja 365 miðla ehf. og hvort félagið hafi verið ógjaldfært eftir söluna eftir að stjórn félagsins tók ákvörðun um að ráðstafa 1.500 milljónum króna til greiðslu á skuldabréfaflokknum OGVODA 03 á gjalddaga. Einnig er af hálfu stefnanda óskað eftir mati á fjártjóni hans vegna þess að stjórnarmenn Íslenskrar afþreyingar hf. tóku ákvörðun um að greiða skuldabréfin í stað þess að gefa félagið upp til gjaldþrotaskipta. Allir stefndu mótmæla því að stefnandi fái að leggja matsbeiðnina fram áður en leyst verður úr frávísunarkröfu þeirra. Úrskurðurinn er kveðinn upp til úrlausnar á ágreiningi málsaðila um framlagningu á matsbeiðni stefnanda.
Krafa stefnanda í þessum þætti málsins er að matsbeiðnin verði lögð fram og að stefndu verði gert að greiða stefnanda málskostnað. Af hálfu stefndu er krafist að því verði hafnað að matsbeiðni stefnanda verði lögð fram og matsmenn dómkvaddir á þessu stigi málsins. Einnig er krafist málskostnaðar.
Af hálfu stefnanda er vísað til þess að mál skuli flytja munnlega um frávísunarkröfu sem komi fram í greinargerð áður en fjallað verður frekar um efni þess samkvæmt 2. mgr. 100. gr. laga um meðferð einkamála. Frá þessu megi víkja ef krafan byggðist á ástæðum sem varða einnig efni máls og nægilegar upplýsingar þættu ekki fram komnar að því leyti. Frávísunarkrafa stefndu varði efni málsins en úr hinum meintu göllum á málatilbúnaðinum verði unnt að bæta undir rekstri málsins. Þessu er mótmælt af hálfu stefndu sem telja að undantekningin í framangreindu lagaákvæði eigi ekki við um málið.
Stefndu byggja frávísunarkröfuna á því að hið meinta tjón stefnanda og orsakatengsl milli þess og ætlaðrar bótaskyldrar hegðunar séu vanreifuð. Þá telja stefndu að engin forsenda sé til að höfða málið fyrr en skiptum á þrotabúi Íslenskrar afþreyingar hf. sé lokið. Skaðabótakrafa stefnanda sé því bæði óvís og óljós. Fjárhæðir sem lúti að bótakröfunni séu áætlaðar og ekki byggðar á gögnum. Málið sé vanreifað í stefnu. Krafan um viðurkenningu á skaðabótaskyldu sé háð sömu annmörkum og fjárkrafan. Stefnandi verði a.m.k. að gera tjón sitt sennilegt til að krefjast viðurkenningardóms um bótaskylda háttsemi. Ýmis veigamikil atriði vanti í stefnu til þess að unnt sé að taka meinta skaðabótaskyldu stefndu til efnislegrar skoðunar. Af hálfu stefndu er vísað til þess að ekki verði bætt úr efnisannmarka málsins á þann hátt sem stefnandi vilji gera með dómkvaðningu matsmanna.
Krafa stefnanda um að honum verði leyft að leggja matsbeiðnina fram áður en fjallað verður um og leyst úr frávísunarkröfu stefndu felur í sér kröfu um að dómkvaddir verði matsmenn áður en leyst er úr kröfum stefndu um frávísun. Þetta er í andstöðu við meginregluna um að úr kröfu um frávísun máls, sem kemur fram í greinargerð, beri að leysa áður en fjallað verður frekar um efni málsins. Hér þykir ekki eiga við að fresta því að leysa úr frávísunarkröfunni þar til matsmenn hafa verið dómkvaddir samkvæmt beiðni stefnanda enda lýtur frávísunarkrafa stefndu einnig að öðrum atriðum en þeim sem matsbeiðnin tekur til. Með vísan til þessa og 1. mgr. 100. gr. laga um meðferð einkamála ber að hafna því að stefnandi fái að leggja fram beiðni um dómkvaðningu matsmanna áður en munnlegur málflutningur fer fram um frávísunarkröfuna og leyst úr henni með úrskurði.
Ákvörðun um málskostnað verður tekin við endanlega úrlausn málsins.
Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Hafnað er kröfu stefnanda um að hann fái að leggja fram beiðni um að dómkvaddir verði matsmenn áður en fram fer munnlegur málflutningur um frávísunarkröfu stefndu og leyst úr henni með úrskurði.