Hæstiréttur íslands

Mál nr. 560/2017

A (Jónas Þór Jónasson lögmaður)
gegn
Sjóvá-Almennum tryggingum hf. (Guðjón Ármannsson lögmaður)

Lykilorð

  • Sjómaður
  • Líkamstjón
  • Slys
  • Slysatrygging

Reifun

A höfðaði mál á hendur S hf. og krafðist aðallega viðurkenningar á bótaskyldu S hf. úr slysatryggingu sjómanna, en til vara úr frjálsri ábyrgðartryggingu E ehf. hjá S hf., vegna vinnuslyss sem hann varð fyrir um borð í skipi í eigu E ehf. er hann missteig sig og sneri sig illa á hægri ökkla. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að einungis S hf. hefði verið stefnt í málinu. Þrátt fyrir það hefðu S hf. og E ehf. skilað sameiginlegri greinargerð í héraði þar sem miðað hefði verið við að E ehf. væri til varnar um varakröfu A. Þá hefði héraðsdómur ekki lagt dóm á varakröfu A á hendur S hf., heldur hefðu forsendur og dómsorð annars vegar kveðið á um sýknu S hf. af aðalkröfu A en hins vegar um sýknu E ehf. af varakröfu hans. Hefði meðferð málsins samkvæmt því farið úr böndum og gæti varakrafa A því ekki komið til álita fyrir Hæstarétti. Hvað aðalkröfu A varðaði var óumdeilt að hann hefði slasast við vinnu sína umrætt sinn. Aðilar deildu hins vegar um hvort slysið hefði orðið vegna skyndilegs utanaðkomandi atburðar og félli þar með undir hugtakið „slys“ samkvæmt skilmálum slysatryggingarinnar, en A hélt því fram að hann hefði snúið sig við að stíga á járnbrík sem soðin var á þilfar skipsins. Í niðurstöðu sinni vísaði Hæstiréttur meðal annars til framlagðra yfirlýsinga skipstjóra, stýrimanna og þáverandi öryggisfulltrúa skipsins sem staðfestu að A hefði upplýst þá um með hvaða hætti slysið hefði orðið. Taldi Hæstiréttur að með því hefði A leitt nægilega í ljós hvernig slysið hefði atvikast og að um skyndilegan utanaðkomandi atburð í skilningi skilmála slysatryggingarinnar hefði verið að ræða. Var því fallist á aðalkröfu A.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson og Símon Sigvaldason dómstjóri.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 6. september 2017. Hann krefst þess að viðurkennd verði með dómi bótaskylda stefnda, aðallega úr slysatryggingu sjómanna en til vara frjálsri ábyrgðartryggingu […] ehf., vegna líkamstjóns þess er áfrýjandi hlaut í vinnuslysi 17. apríl 2012 um borð í […]. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Óumdeilt er að áfrýjandi slasaðist við vinnu sína sem háseti um borð í […], einu af kaupskipum […] ehf., 17. apríl 2012. Var verið að hífa gáma um borð í skipið í höfninni við Grundartanga í Hvalfirði og áfrýjandi að stýra 40 feta gámi í sellu frá lúgukarmi, er hann steig niður á þilfarið og missteig sig illa á hægri fæti við lúgukarm milli 4. og 5. lestar skipsins. Áfrýjandi var þegar fluttur til læknis á spítala á Akranesi þar sem gert var að meiðslum hans.

Áfrýjandi reyndist hafa tognað illa á ökkla. Liggur fyrir í málinu matsgerð um 5 stiga varanlegan miska og 5% varanlega örorku vegna þessa og var áfrýjandi frá vinnu í þrjá mánuði í kjölfar atviksins. Krefst hann í máli þessu viðurkenningar á bótaskyldu stefnda úr slysatryggingu sjómanna sem í gildi var umræddan dag en því hefur stefndi hafnað.

II

Samkvæmt stefnu í héraði höfðaði áfrýjandi mál þetta „á hendur Sjóvá Almennum tryggingum hf. ... aðallega til viðurkenningar á bótaskyldu úr slysatryggingu sjómanna o.fl., vegna afleiðinga vinnuslyss 17. apríl 2012, en til vara vegna sama slyss til viðurkenningar á skaðabótaskyldu […] ehf., úr frjálsri ábyrgðartryggingu, sem félagið hafði hjá stefnda á slysdegi.“ Síðar í stefnu var dómkröfum nánar lýst á sama veg. Á hinn bóginn skiluðu stefndi og […] ehf. sameiginlega greinargerð í héraði þar sem miðað var við að hið síðarnefnda félag væri til varnar um varakröfu áfrýjanda. Í hinum áfrýjaða dómi var kröfum áfrýjanda lýst svo: „aðallega að viðurkennd verði með dómi bótaskylda stefnda úr slysatryggingu sjómanna, vegna líkamstjóns þess er stefnandi hlaut í vinnuslysi 17. apríl 2012, um borð í […]“ en til vara „að viðurkennd verði með dómi skaðabótaskylda […] ehf. ... vegna líkamstjóns þess er stefnandi hlaut“ umrætt sinn. Í dóminum var tilgreint að „aðalstefndi“ krefðist sýknu af aðalkröfu, en ekkert var getið um dómkröfur […] ehf. Félagið var þó í dóminum nefnt „varastefndi“ og raktar röksemdir þess fyrir því að það skyldi ekki bera skaðabótaskyldu gagnvart áfrýjanda. Á hinn bóginn var ekki um það getið að stefndi væri aðili varnarmegin um varakröfu áfrýjanda. Héraðsdómur lagði ekki dóm á varakröfu áfrýjanda á hendur stefnda heldur kváðu forsendur og dómsorð annars vegar á um sýknu stefnda af aðalkröfu áfrýjanda en hins vegar um sýknu […] ehf. af varakröfu hans, jafnframt því sem málskostnaður var felldur niður. Í skjölum málsins fyrir Hæstarétti er þó látið svo af hálfu aðila að héraðsdómur hafi veitt með fullnægjandi hætti efnisdóm um varakröfu áfrýjanda á hendur stefnda og krafist er úrlausnar um hana hér fyrir dómi.

Meðferð málsins hefur samkvæmt þessu farið úr böndum og kemur varakrafa áfrýjanda ekki til álita fyrir Hæstarétti.

III

Aðilar eru sammála um að áfrýjandi hafi við vinnu sína umrætt sinn meiðst við það að misstíga sig á hægri ökkla. Þeir deila á hinn bóginn um hvort áfrýjandi hafi sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir slysi í skilningi skilmála slysatryggingar sjómanna hjá stefnda.

Í skilmálum tryggingarinnar segir: „Félagið greiðir bætur vegna slyss, er sá, sem tryggður er, verður fyrir, eins og segir í skírteininu. Með orðinu „slys“ er hér átt við skyndilegan utanaðkomandi atburð, sem veldur meiðslum á líkama þess, sem tryggður er, og gerist sannanlega án vilja hans.“

Í leiðarbók […] er að finna svofellda skráningu 17. apríl 2012: „13 55 Misstígur A sig við lestun í lest. Þegar hann er að stýra 40 feta gámi af lúgu karmi milli 4-5 lestar. Á hægri fæti á ökkla.“ Í slysaskýrslu stefnda, sem undirrituð var af skipstjóra skipsins, var atvikið skráð með sama hætti. Auk þess sagði: „17.04.12 A fer til læknis á spítala á Akranesi. Fóturinn myndaður og síðan settur í gips. Samkv. lækni telur hann að um brot sé að ræða og mikla tognun.“

Í tilkynningu til Sjúkratrygginga Íslands, sem undirrituð var af fyrirsvarsmanni útgerðar skipsins 23. apríl 2012, en af áfrýjanda 29. maí sama ár, sagði: „Um kl. 13:55 þegar A háseti var að stýra 40 feta gám í sellu frá lúgukarmi missteig hann sig illa við lúgukarm milli 4 og 5 lesta.“ Jafnframt var tiltekið að enginn sjónarvottur hefði verið að atvikinu.

            Í læknabréfi Friðriks Elvars Yngvasonar læknis 23. apríl 2012 sagði: „A meiddi sig á fæti er hann hoppaði ofan af vörubílspalli á flatjárn. Gerðist á Akranesi þann 17. apríl sl. Hefur síðan verið í L-spelku með mikla bólgu á fætinum en röntgen greindi ekki brot.“ Í áverkavottorði Þóris Bergmundssonar læknis 8. nóvember 2012 sagði svo um atvikið: „Var að störfum við undirbúning fyrir brottför þar sem skipið var statt í höfn á Grundartanga í Hvalfirði. Sté ofan af palli og kom illa niður á hæ. fæti þannig að hann snerist í ökklanum. Heyrði smell og bólgnaði strax upp. Kom strax eftir óhappið hingað til skoðunar á slysastofu.“

            Í málinu liggur einnig fyrir skýrsla Rannsóknarnefndar sjóslysa þar sem sagði: „Skipverji var að vinna við lestun og hafði verið að stýra 40 feta gám í sellu en þegar hann steig niður af palli niður á lúgukarm lenti hann með hægri fótinn á járnbrík með þeim afleiðingum að hann missteig sig illa. Farið var með hann til læknis og var hann talin brotinn í fyrstu en í ljós kom að um mjög slæma tognun var að ræða.“ Sagði þar enn fremur að við rannsókn hafi komið fram „að járnbríkin var u.þ.b. 5 sm há og var til að varna því að slor frá gámum rynni yfir ganga í síðunum; að bríkin var ryðguð eins og karmurinn sem gerði þetta samlitt; að eftir atvikið var ætlunin að mála bríkina gula til auðkenningar; að skipverjinn var í öryggisskóm.“ Loks var tekið fram að nefndin myndi ekki álykta í málinu.

            Áfrýjandi hefur lagt fyrir Hæstarétt yfirlýsingar skipstjóra og tveggja stýrimanna á […] 10. júlí 2017 þar sem fram kemur að af gefnu tilefni skuli það tekið fram að það sem fært hafi verið í leiðarbók skipsins um atvik hafi ekki verið eftir áfrýjanda haft. Skömmu síðar hafi þeir á hinn bóginn fengið þær upplýsingar frá honum sjálfum að hann hefði misstigið sig við að stíga hægri fæti niður á járnbrík, sem soðin hafi verið föst í þilfar skipsins. Þá hefur áfrýjandi lagt fram yfirlýsingu þáverandi öryggisfulltrúa útgerðar skipsins 16. ágúst 2017 um að áfrýjandi hefði haft samband við sig skömmu eftir atvik og upplýst um að hann hefði slasast við að stíga á umrædda járnbrík sem verið hafi samlit þilfari skipsins og borið fram ósk um að það yrði lagað. Þegar áfrýjandi hafi snúið til vinnu á ný hefði verið farið yfir slysahættur um borð í skipinu og meðal annars gerðar þær ráðstafanir að mála umrædda járnbrík gula til aðgreiningar frá þilfari skipsins.

IV

            Samkvæmt því sem að framan er rakið greina samtímagögn frá því að áfrýjandi hafi misstigið sig illa á hægri fæti við vinnu um borð í […] 17. apríl 2012 og er fram komið að hann var þegar fluttur á spítala. Af framangreindum yfirlýsingum skipverja er nægilega leitt í ljós að færslur í bækur skipsins um atvikið grundvölluðust ekki á frásögn áfrýjanda. 

Við úrlausn málsins verða yfirlýsingar þessar lagðar til grundvallar um að áfrýjandi hafi þegar látið vita um hvað gerst hafði og á grundvelli lýsinga áfrýjanda hafi útgerð skipsins gripið til viðeigandi ráðstafana með því að gera umrædda járnbrík sýnilegri. Þá er frásögn áfrýjanda um málavexti í samræmi við niðurstöðu Rannsóknarnefndar sjóslysa um að hann hafi misstigið sig er hann lenti með hægri fótinn á járnbríkinni.

Hefur áfrýjandi með þessu nægilega leitt í ljós hvernig atvik að slysi hans voru. Verður talið að það hafi verið utanaðkomandi atburður er hann lenti með hægri fót á járnbrík þegar hann hugðist stíga niður á þilfarið og að um hafi verið að ræða skyndilegan atburð í skilningi skilmála slysatryggingarinnar sem skapar áfrýjanda rétt til bóta úr hendi stefnda.

            Eftir þessum úrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefndi dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað vegna reksturs málsins á báðum dómstigum, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Viðurkenndur er réttur áfrýjanda, A, til bóta úr slysatryggingu sjómanna, sem […] ehf. tók hjá stefnda, Sjóvá-Almennum tryggingum hf., vegna líkamstjóns er áfrýjandi hlaut í slysi 17. apríl 2012.

            Stefndi greiði áfrýjanda samtals 1.200.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

D Ó M U R

Héraðsdóms Reykjavíkur 6. júní 2017 í málinu nr. E-2474/2016:

                                                              

                               Mál þetta var höfðað 2. september 2016 af A, […] aðallega gegn Sjóvá-Almennum tryggingum hf., Kringlunni 5, 103 Reykjavík, en til vara […] hf., Korngörðum 2, 104 Reykjavík. Málið var dómtekið að lokinni aðalmeðferð sem fram fór 16. maí sl.

Krafa stefnanda er aðallega að viðurkennd verði með dómi bótaskylda stefnda úr slysatryggingu sjómanna, vegna líkamstjóns þess er stefnandi hlaut í vinnuslysi 17. apríl 2012, um borð í […].

Til vara að viðurkennd verði með dómi skaðabótaskylda […] hf., vegna líkamstjóns þess er stefnandi hlaut í vinnuslysi 17. apríl 2012, um borð í […].

Krafist er í báðum tilvikum málskostnaðar að skaðlausu, að mati dómsins, í samræmi við þá hagsmuni sem í húfi eru og vinnu málflytjanda, að teknu tilliti til virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

I.

Stefnandi starfaði alla sína starfsævi sem sjómaður og hefur um árabil verið háseti á kaupskipum […], nú […] hf. Þann 17. apríl 2012 slasaðist stefnandi þegar hann var við vinnu sína um borð í […]. Skipið var þá við bryggju á Grundartanga og var verið að lesta gáma ofan í eina af lestum skipsins. Var stefnandi að stýra verkinu og segja kranamanni til. Við þessa vinnu kveðst stefnandi verða að vera hreyfanlegur til að geta gefið kranamanni fyrirmæli og komið gámunum á réttan stað og skorðað ofan í lest skipsins, sem og til þess að varast gámana þegar verið er að hífa þá frá bryggju. Til að geta fylgst með verkinu og leiðbeint kranamanninum þurfti stefnandi að stíga upp á vinnupalla sem standa ofar en þilfarið á milli lestanna. Hann þurfti svo að koma sér aftur af vinnupallinum niður á þilfarið á milli lestanna, horfa ofan í þær og segja kranamanninum til við að koma gámunum þar rétt fyrir. Um þetta vinnulag hefur ekki verið gerður ágreiningur.

Þegar slysið varð kveðst stefnandi hafa, sbr. framangreint, staðið uppi á vinnupallinum til þess að geta leiðbeint kranamanninum. Er hann ætlaði að koma sér niður af pallinum vildi ekki betur til en að hann að eigin sögn steig með hægri fæti á járnbrík sem er á þilfarinu og við það tognaði hann illa á ökkla og varð strax óvinnufær og þurfti að leita sér læknisaðstoðar.

Enginn sjónarvottur varð að slysinu. Ágreiningslaust er að stefnandi missté sig umrætt sinn. Stefndi hefur hins vegar hafnað því að það hafi gerst vegna þess að stefnandi steig á umrædda járnbrík. Því finni ekki stað í slysaskýrslu skipstjóra sem undirrituð var af honum á slysdegi né í skipsdagbók. Þá sé þessa ekki getið í tilkynningu um slys á sjómanni til Tryggingastofnunar ríkisins sem dagsett er 23. apríl 2012 og undirrituð þá af fulltrúa útgerðarinnar en undirrituð 29. maí 2012 af stefnanda.

Í skýrslu Rannsóknarnefndar sjóslysa, mál nefndarinnar nr. 050/12, er greint frá tildrögum slyssins. Þar segir að stefnandi hafi verið að „vinna við lestun og hafði verið að stýra 40 feta gám í sellu en þegar hann steig niður af palli niður á lúgukarm lenti hann með hægri fótinn á járnbrík með þeim afleiðingum að hann missteig sig illa. Farið var með hann til læknis og var hann talinn brotinn í fyrstu en í ljós kom að um mjög slæma tognun var að ræða“. Í skýrslu nefndarinnar kemur jafnframt fram að járnbríkin hafi verið u.þ.b. 5 cm há og verið til að varna því að slor frá gámum rynni yfir ganga í síðunum. Bríkin hafi verið ryðguð eins og karmurinn sem gerði þetta samlitt og að eftir atvikið hafi verið ætlunin að mála bríkina gula til auðkenningar, sem var svo gert. Loks var tekið fram að stefnandi hafi verið í öryggisskóm.

Vegna höfnunar stefnda á greiðsluskyldu var málinu skotið til úrskurðarnefndar vátryggingamála 3. september 2014. Með áliti úrskurðarnefndarinnar […]2014 var greiðsluskyldu stefnda hafnað, með vísan til þess, að „Þegar litið er til fyrstu skýrslna [stefnanda] um aðdraganda líkamstjónsins verður að leggja til grundvallar að það verði ekki rakið til annars en misstigs og þar af leiðandi ekki til utanaðkomandi atburðar í skilningi slysahugtaks vátryggingaréttarins heldur til innra ástands í líkama [stefnanda]“.

Framangreind skýrsla rannsóknarnefndarinnar lá einhverra hluta vegna ekki fyrir, eða var a.m.k ekki tiltæk aðilum, fyrr en skömmu fyrir 1. júní 2016 að því er virðist þótt erindi hafi borist nefndinni strax í júní 2012 og svo virðist sem samantekt nefndarinnar hafi legið fyrir í september það ár. Með tölvuskeyti 1. júní 2016 óskaði lögmaður stefnanda þannig eftir því við stefnda, að hann tæki málið upp aftur vegna slysatryggingar sjómanna enda hefðu málsatvik fyrst legið skýrt fyrir eftir að skýrsla rannsóknarnefndarinnar kom í leitirnar. Stefndi hafnaði þessari málaleitan sem og því að vanbúnaður hefði leitt til slyssins.

II.

Stefnandi krefst í málinu aðallega viðurkenningar á bótaskyldu stefnda úr slysatryggingu sjómanna, sem í gildi var hjá stefnda á slysdegi, vegna afleiðinga vinnuslyss hans 17. apríl 2012. Samkvæmt skilmálum slysatryggingarinnar sé með hugtakinu slys átt við skyndilegan og utanaðkomandi atburð, sem veldur meiðslum á líkama þess sem vátryggður er, og gerist án vilja hans.

Stefnandi kveðst viðurkenna að fordæmi séu fyrir því að sé um það eitt að ræða að einstaklingur misstígi sig þá hafi það ekki verið talið slys í framangreindum skilningi. Hann byggir hins vegar á því að í þessu máli sé hinn skyndilegi utanaðkomandi atburður sá að stefnandi hafi stigið á járnbríkina. Samkvæmt gögnum málsins megi teljast sannað að stefnandi hafi slasast er hann steig af vinnupallinum niður á járnbríkina með þeim afleiðingum að hann tognaði illa á ökkla. Að mati stefnanda sé því bersýnilega um að ræða slys í skilningi skilmála slysatryggingar sjómanna og slysahugtaks vátryggingaréttar. Stefnandi tekur sem dæmi dóma Hæstaréttar í málunum nr. 47/2006 og nr. 412/2011, enda verði meiðsli stefnanda ekki rakin til innri atburðar, álagsmeiðsla eða sjúkdóms hans.

Skýrsla rannsóknarnefndarinnar, þar sem tildrögum slyssins sé lýst með skýrum og skilmerkilegum hætti, hafi ekki legið fyrir þegar málið var til úrlausnar hjá úrskurðarnefnd vátryggingarmála. Skráning skipstjórnarmanns á […] í skipsdagbók, sem stefnandi hafi ekki komið nálægt og tekin var orðrétt upp í slysatilkynningu útgerðar til Sjúkratrygginga Íslands og stefndi byggir höfnun sína á, falli saman við lýsingu rannsóknarnefndarinnar á tildrögum slyssins, þó svo að þær séu ekki nákvæmlega eins. Einhliða skráning í skipsdagbók geti ekki ein og sér verið grundvöllur fyrir höfnun stefnda á greiðsluskyldu. Ef talið verður að um misræmi sé að ræða í gögnum málsins, sem frá vátryggingartaka stafa um tildrög slyssins, slysatilkynningu til Sjúkratrygginga Íslands og skýrslu rannsóknarnefndarinnar, verður stefndi en ekki stefnandi að bera halla af slíku, enda hvíli á honum lögbundin skylda til að senda þessar tilkynningar.

Til vara krefst stefnandi viðurkenningar á bótaskyldu útgerðar […], […] hf., úr frjálsri ábyrgðartryggingu útgerðarinnar hjá stefnda, vegna afleiðinga vinnuslyss stefnanda. Byggir stefnandi á því að það hafi verið óforsvaranlegt að umrædd járnbrík, sem sé 5 cm há, á vinnusvæði skipverja, hafi verið samlit þilfarinu, en þetta hafi haft í för með sér óþarfa slysahættu fyrir skipverja skipsins, en vegna þessa hafi stefnandi ekki með góðu móti getað greint bríkina frá þilfari, þar sem vinnan við lestun gámanna fór fram.

Lestun og losun 40 feta gáma sé vandasamt og hættulegt verk. Ekki verði séð að stefnanda hafi verið mögulegt að vinna verkið með öðrum hætti en hann gerði. Horfa verði hér sérstaklega til þess við sakarmat, að eftir slysið hafi járnbríkin verið máluð með gulu lakki, til að koma í veg fyrir að slys eins og stefnanda myndu endurtaka sig, en þessar öryggisráðstafanir hafi í senn verið einfaldar og haft lítinn kostnað í för með sér.

Í 1. mgr. 3. gr. laga nr. 47/2003, um eftirlit með skipum, segi að skip skuli smíðað og búið út á þann hátt að öryggi mannslífa sé tryggt eins og kostur er og með tilliti til þeirra verkefna sem því er ætlað á hverjum tíma. Í 3. mgr. sömu greinar segi að vinnusvæði og vistarverur skipverja skuli hanna og búa með hliðsjón af öryggi og velferð skipverja.

Stefnandi telur því að slys hans megi rekja til ófullnægjandi vinnuaðstæðna á vinnusvæði á þilfari skipsins. Hafi vinnusvæðið ekki verið til samræmis við framangreind öryggisfyrirmæli laga nr. 47/2003. Verði stefndi því, á grundvelli sakar- og húsbóndaábyrgðarreglu skaðabótaréttar, að bera skaðabótaábyrgð á líkamstjóni stefnanda, að hafa látið hjá líða að grípa til þeirra ráðstafana sem nauðsynlegar voru til að tryggja öryggi stefnanda og annarra skipverja.

Um afleiðingar slyssins fyrir stefnanda vísist til matsgerðar Atla Þórs Ólasonar, læknis og Ingvars Sveinbjörnssonar hæstaréttarlögmanns, frá 26. september 2013, þar sem stefnanda var metinn varanlegur miski og varanleg örorka vegna afleiðinga slyssins. Stefnandi uppfylli því í málinu áskilnað 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, um lögvarða hagsmuni.

Stefnandi byggir á almennum reglum vátryggingaréttar og þágildandi vátryggingaskilmálum. Jafnframt lögum um vátryggingasamninga nr. 30/2004 og meginreglum samninga- og kröfuréttar um skuldbindingagildi samninga og efndir fjárskuldbindinga. Þá byggir stefnandi á meginreglum skaðabótaréttar um skaðabætur utan samninga, sakarreglunni og reglum skaðabótaréttar um ábyrgð vinnuveitenda á saknæmum verkum/aðgæsluleysi starfsmanna sinna. Einnig vísist til ákvæða skaðabótalaga nr. 50/1993 og siglingalaga nr. 34/1985, einkum 171. og 172. gr. laganna. Varðandi viðurkenningarkröfuna vísist til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Um aðild stefnda í varakröfu vísist til 44. gr. laga nr. 30/2004. Um málskostnað vísast til laga nr. 91/1991, einkum 129. og 130. gr. Um virðisaukaskatt vísist til laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

III.

Aðalstefndi krefst sýknu á þeim grundvelli að ósannað sé að óhapp stefnanda 17. apríl 2012 geti fallið undir hugtakið „skyndilegur utanaðkomandi atburður“ en slíkt sé grunnforsenda þess að sá sem fyrir meiðslum verður eigi bótarétt úr slysatryggingu þeirri sem um ræði, enda gerist atburðurinn án vilja tjónþola.

Ágreiningslaust sé að engin vitni voru að atvikinu. En í fyrstu tilkynningum vegna slyssins komi fram að stefnandi hafi misstigið sig án þess að það sé útskýrt nánar. Samtímagögn séu samstíga um þetta. Það hafi ekki verið fyrr en síðar sem rætt var um að stefnandi hefði misstigið sig við að stíga á 5 cm járnbrík á þilfari skipsins. Það sé með öllu ósannað og engar upplýsingar um hvernig Rannsóknarnefnd sjóslysa hafi fengið upplýsingar í þá veru. Þá beri að líta til þess að stefnandi hafi verið mjög reyndur sjómaður og ekkert hafi verið óvenjulegt við útbúnað […] né umrædda járnbrík. Bríkin hafi þjónað nauðsynlegu hlutverki og það að einhver misstígi sig á henni geti ekki talist utanaðkomandi atburður.

Varastefndi byggir á því að ósannað sé að […] hafi verið vanbúið í skilningi laga nr. 47/2003, um eftirlit með skipum. Hvorki fyrr né síðar hafi komið fram athugasemdir við aðbúnað skipsins.

Hann tekur undir sjónarmið aðalstefnda um að ósannað sé að slysið verið rakið til umræddrar járnbríkur. Ekkert óeðlilegt hafi verið við staðsetningu hennar en hún eigi að varna því að slor frá gámum renni yfir ganga í síðum skipsins. Ekkert óeðlilegt sé við það að slík brík ryðgi og verði samlit öðru járni í gólfi.

Þá vísar varastefndi til víðtækrar reynslu stefnanda á sjó, og bendir á þá staðreynd að stefnandi hafi lent í fjölmörgum vinnuslysum og búi við fjölþætt einkenni vegna þeirra. Því hafi stefnanda borið að sýna sérstaka aðgæslu við störf sín. Varastefndi telur því að óhappið megi fyrst og fremst rekja til óhappatilviljunar og/eða gáleysis stefnanda sjálfs.

IV.

Dómurinn telur að ekki verði gerður ágreiningur um að enginn sjónarvottur hafi verið að slysinu. Gengið er út frá því í öllum málatilbúnaði aðila og eina vísbendingin um vitni að atvikinu er þegar fullyrt er í málsskoti til úrskurðarnefndar vátryggingamála að stjórnandi krana skipsins umrætt sinn hafi orðið vitni að slysinu og þegar stefnandi hafi stigið á járnbríkina. Verður ekki betur séð en að þessi staðhæfing líti fyrst dagsins ljós um það bil tveimur árum eftir atvikið og hún birtist ekki í stefnu málsins. Umrætt vitni sem var nafngreint var ekki kallað fyrir dóminn þrátt fyrir áskilnað í stefnu málsins og verður það metið stefnanda í óhag. Ekkert annað bendir til þess að einhver hafi séð atvikið.

Gegn eindregnum andmælum stefnanda telur dómurinn að ekki sé hægt að fallast á annað en að með hliðsjón af framangreindu verði lýsing á slysinu á slysdegi og í framhaldi eðli máls samkvæmt rakin til stefnanda sjálfs. Því hljóti lýsing í slysaskýrslu útgerðar sem undirrituð var á slysdegi af skipstjóra […] að styðjast við lýsingu stefnanda. Hið sama gildir um færslu í skipsdagbók sem er á sama veg, en athygli vekur að sú færsla virðist framkvæmd af öðrum skipverja en skipstjóranum miðað við rithönd. Í tilkynningu um slys á sjómanni til útgerðar og Sjúkratrygginga Íslands, sem undirrituð er af fulltrúa útgerðarinnar 23. apríl 2012 og undirrituð af stefnanda 29. maí það ár, er nákvæmlega sama upp á teningnum. Í þeirri tilkynningu var slysinu lýst með nákvæmlega sama hætti og í slysaskýrslu útgerðar, eða með eftirfarandi hætti: „Um kl. 13:55 þegar A háseti var að stýra 40 feta gám í sellu frá lúgukarmi missteig hann sig illa við lúgukarm milli 4 og 5 lesta.“ Efnislega er lýsingin hin sama í skipsdagbókinni. Í þessum skjölum er hvergi minnst á að stefnandi hafi misstigið sig vegna þess að hann hafi stigið á járnbrík.

Það er fyrst með athugun Rannsóknarnefndar sjóslysa á atvikinu þar sem því er lýst að stefnandi hafi stigið á umrædda járnbrík og það hafi verið orsök þess að hann missteig sig. Ekki hafa verið lögð fram gögn í málinu sem staðfesta hvenær skýrslan var unnin en málið er merkt sem nr. 050/12. Sérstaklega er tekið fram í skýrslunni að atvikið hefði ekki kallað á ályktun nefndarinnar. Eftir þetta hefur stefnandi byggt á því að þetta hafi valdið tjóninu.

Stefnandi ber sönnunarbyrðina fyrir því hvað gerðist á þilfari […] 17. apríl 2012 og olli áverkum á hægri ökkla hans. Dómurinn telur óhjákvæmilegt að líta til þess að þær tilkynningar sem fyrst voru sendar vegna slyssins og skráningar sem voru gerðar láta ekki getið um að slysið megi rekja til margnefndrar járnbríkur. Þá verður ekki við annað miðað en að þær upplýsingar sem varpa ljósi á atvik málsins verði raktar til stefnanda sjálfs enda engir sjónarvottar að slysinu. Einnig verður ekki litið fram hjá því að stefnandi sjálfur ritaði undir og staðfesti þannig tilkynningu til útgerðar og Sjúkratrygginga Íslands tæpum einum og hálfum mánuði eftir slysið en þar er járnbríkur hvergi getið.

Aðilar málsins voru sammála um það við aðalmeðferð málsins að það eitt að misstíga sig geti ekki talist vera „skyndilegur utanaðkomandi atburður“ í skilningi skilmála tryggingarinnar. Vísaði lögmaður stefnanda þessu til stuðnings til dóms Hæstaréttar í málinu nr. 47/2006; að það yrði að koma til einhvers meira. Með vísan til framangreindrar umfjöllunar verður komist að þeirri niðurstöðu að þessi sé einmitt raunin í málinu og ósannað verði því að telja að stefnandi hafi stigið á járnbríkina og hún valdið því að stefnandi missteig sig. Er því ekki ástæða til að fjalla um hvort sú atburðarás, ef talin sönnuð, hefði leitt til bótaskyldu á þeim grundvelli, að þá hefði verið fullnægt skilyrði um skyndilegan utanaðkomandi atburð.

Hið sama á við kröfu stefnanda á hendur varastefnda. Ósannað er þannig að járnbríkin hafi stuðlað að slysinu eða verið helsta örsök þess. Jafnvel þótt komist yrði að þeirri niðurstöðu að bríkina hefði átt að mála skærum lit eða að um einhvers konar vanbúnað hafi verið að ræða verður ekki séð að orsakatengsl á milli meints vanbúnaðar og slyssins væru þá sönnuð.

Með vísan til framangreinds verða því bæði aðalstefndi og varastefndi sýknaðir af kröfum stefnanda. Með hliðsjón af málsatvikum þykir þó rétt að málskostnaður falli niður.           

Af hálfu stefnanda flutti málið Jónas Þór Jónasson hæstaréttarlögmaður og af hálfu stefndu flutti málið Guðjón Ármannsson hæstaréttarlögmaður. 

Lárentsínus Kristjánsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

Aðalstefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., og varastefndi, […] hf., eru sýknaðir af kröfum stefnanda, A.                                                             

Málskostnaður fellur niður.