Hæstiréttur íslands
Mál nr. 395/2005
Lykilorð
- Kjarasamningur
- Ráðningarsamningur
- Tómlæti
|
|
Fimmtudaginn 2. febrúar 2006. |
|
Nr. 395/2005. |
Kögun hf. (Jakob R. Möller hrl.) gegn Magnúsi Hermannssyni (Guðni Á. Haraldsson hrl.) |
Kjarasamningur. Ráðningarsamningur. Tómlæti.
Aðilar deildu um hvort ákvæði um greiðslu fæðispeninga, sem taldist hluti af þeim kjarasamningi sem gilti á þeim tíma sem krafa M náði til, væri í gildi og hvort K bæri að fara eftir því. Óumdeilt var að fæðispeningar samkvæmt ákvæðinu voru við það miðaðir að starfsmaður fengi hvorki fæði né aðgang að niðurgreiddu fæði. Svo hagaði til með M. Varð því að telja að samkvæmt orðanna hljóðan ætti M rétt á greiðslum samkvæmt ákvæðinu. Upplýst var að aldrei hafi verið greiddir fæðispeningar samkvæmt umræddu ákvæði, en jafnframt að það hafi verið vegna þess að þeir starfsmenn sem ákvæðið náði til hafi annaðhvort fengið fæði eða aðgang að niðurgreiddu fæði. Það var hins vegar ekki talið leiða til þess að ákvæðið væri ekki lengur í gildi og var M talinn geta byggt rétt sinn til fæðispeninga á því. Þá var ekki fallist á þá málsástæðu K að krafa M væri fallin niður fyrir tómlæti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 31. ágúst 2005. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Í aðilaskýrslu sinni fyrir dómi kvaðst stefndi ekki sjálfur hafa gert athugasemdir við áfrýjanda um að fjárhæð fæðispeninga væri of lág, en það hafi tveir samstarfsmenn hans gert og hafi starfsmenn áfrýjanda verið „saman í þessu.“ Rafiðnaðarsamband Íslands hafi svo í byrjun árs 2001 gert þeirra vegna athugasemdir um þetta við fjármálastjóra áfrýjanda. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um annað en málskostnað.
Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðst í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.
Áfrýjandi, Kögun hf., greiði stefnda, Magnúsi Hermannssyni, málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, samtals 450.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. júní 2005.
I
Mál þetta sem dómtekið var 20. júní sl. höfðaði Magnús Hermannsson, Úthaga 13, Selfossi gegn Kögun hf., kt. 490389-2619, Lynghálsi 9, Reykjavík með stefnu birtri 8. janúar 2005.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða honum kr. 602.352 með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af kr. 140.736 frá 1. janúar 2002 til 1. janúar 2003, en frá þeim degi af kr. 299.304 til 1. janúar 2004, en frá þeim degi af kr. 468.648 til 1. október 2004, en frá þeim degi af kr. 602.352 til greiðsludags, þannig að dráttarvextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti í fyrsta sinn 1. janúar 2003.
Þá krefst stefnandi þess að stefndi greiði honum málskostnað samkvæmt gjaldskrá Löggarðs ehf.
Dómkröfur stefnda eru þær aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og tildæmdur málskostnaður að mati dómsins.
Til vara krefst stefndi þess að stefnukröfur verði stórlega lækkaðar og að málskostnaður verði felldur niður.
II
Stefnandi er rafeindavirki og félagi í Félagi rafeindavirkja sem á aðild að Rafiðnaðarsambandi Íslands. Hinn 1. janúar 1997 gerðu aðilar málsins með sér ráðningarsamning og skyldi hann gilda á meðan stefnandi vann við viðhald tölvu- og fjarskiptabúnaðar í ISSF- og CRC-byggingum á Keflavíkurflugvelli á vegum stefnda. Við það vann stefnandi til 1. október 2004, en honum var sagt upp störfum 1. júlí s.á. Stefnandi telur sig ekki hafa fengið greidda fulla fæðispeninga úr hendi stefnda og gerir kröfu samkvæmt því.
Í ráðningarsamningnum segir m.a. um launakjör að aðilar séu: „sammála um að hafa til hliðsjónar kjarasamning þann sem gerður hefur verið milli Rafiðnaðarsambands Íslands og Ratsjárstofnunar um kjör rafiðnaðarmanna. (Vísast til samkomulags Rafiðnaðarsambands Íslands vegna aðildarfélaga og Kögunar hf. dags. 7. maí 1996)“
Í samkomulaginu frá 7. maí segir að aðilar séu sammála um að kjarasamningur milli Rafiðnaðarsambands Íslands og Ratsjárstofnunar gildi fyrir almenna rafiðnaðarmenn Kögunar hf. á meðan þeir vinni að viðhaldi tölvu- og fjarskiptabúnaðar í ISSF og CRC byggingum á Keflavíkurflugvelli. Þá segir að samkomulagið taki til þeirra ákvæða samningsins og bókana sem við hann hafi verið gerðar, sem lúti að starfsemi ratsjárstöðvar H-1. Sú ratsjárstöð er á Miðnesheiði og sér Ratsjárstofnun um rekstur hennar. Sams konar samkomulag hefur verið lagt fram dags. 22. júní 2001.
Í kjarasamningi á milli Ratsjárstofnunar og Rafiðnaðarsambands Íslands vegna aðilarfélaga, undirritaður 27. apríl 2001 með gildistíma frá 1. janúar 2001 til 30. júní 2005, segir í gr. 2.10.3 um fæði að Ratsjárstofnun leggi starfsmönnum til fæði eða greiði fæðispeninga. Við stöðina á Miðnesheiði skuli hafa hliðsjón af því sem tíðkist hjá Varnarliðinu.
Í málinu hefur verið lögð fram orðsending dags. 8. september 1987 frá Landsvirkjun til Magnúsar Geirssonar, þáverandi formanns Rafiðnaðarsambands Íslands, og varðar hún kjör vaktmanna Landsvirkjunar á Geithálsi. Í henni segir svo:
„Það staðfestist hér með að greiðslur til starfsmanna á vöktum umfram föst dagvinnulaun og vaktaálag eru sem hér segir:
Vegna ferða, vaktaskipta, kaffitíma o.þ.h. greiðast 46 yfirvinnustundir á mán.
Fæðisgjald er kr. 9.422 á mán. og hækkar það í samræmi við launabreytingar.“
Á sömu orðsendingu er ritað:
„Aðilar eru sammála um að ofangreint fyrirkomulag gildi hjá ratsjárstofnun við útreikning á fastri yfirvinnu, innifalinn er ferðatími sem miðast við Höfn-Stokksnes og greiðsla á fæðispeningum. Þar sem starfsmenn hafa aðgang að niðurgreiddu fæði skal tekið tillit til þess.“
Undir þessari áritun eru stafirnir MG og JEB, þ.e. fangamörk Magnúsar Geirssonar og Jóns E. Böðvarssonar starfsmanns Ratsjárstofnunar. Þessu samkomulagi er bætt við kjarasamning Rafiðnaðarsambands Íslands og Ratsjárstofnunar frá 27. apríl 2001, en ekki tekið inn í meginmál hans. Verður áritun þessi framvegis í dóminum nefnd „ákvæðið frá 8. september.“
Lagt hefur verið fram skjal um samskipti skrifstofustjóra Rafiðnaðarsambands Íslands og stefnda þar sem fram kemur að skrifstofustjórinn hefur hinn 19. febrúar 2001 gert kröfu til þess, vegna þeirra rafiðnaðarmanna sem unnu hjá stefnda, að fæðispeningar yrðu greiddir eftir kjarasamningi rafiðnaðarsambandsins eða að öðrum kosti yrði þeim séð fyrir fullu fæði. Í sama skjali kemur fram að fallist stefndi ekki á það, og aðrar kröfur sem settar eru fram, sé það vilji rafiðnaðarsambandsins að úr ágreiningnum verði skorið í Félagsdómi.
Óumdeilt er að stefnandi vann á vöktum 11 tíma dagvakt og 13 tíma næturvakt og hafði ekki sérstakan matar- eða kaffitíma, hann hafði ekki formlegan aðgang að mötuneyti og stefndi sá honum ekki fyrir fæði.
III
Stefnandi kom fyrir dóminn og skýrði svo frá að starfsmenn stefnda á Keflavíkurflugvelli hefðu unnið á 12 tíma vöktum. Þeir hefðu ekki haft skilgreinda matartíma og ekki aðgang að niðurgreiddu fæði. Íslenskir starfsmenn varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli hefðu það hins vegar. Fljótlega eftir að þeir hefðu farið að standa vaktirnar hefðu verið gerðar athugasemdir við það að fæðispeningar væru ekki greiddir samkvæmt kjarasamningi. Stefnandi kvað sér kunnugt um að því erindi hefði ekki verið vel tekið. Óskað hafi verið eftir liðsinni stéttarfélagsins í þessu máli. Stefnandi sagði að ótti hefði valdið því að ekki hefði fyrr verið farið í dómsmál.
Vitnið Halldór Ellert Sigurþórsson gaf skýrslu fyrir dóminum, en hann er stefnandi í öðru máli gegn stefnda um sama sakarefni. Vitnið sagði þá starfsmenn sem unnu hjá stefnda á Keflavíkurflugvelli ekki hafa haft aðgang að mötuneyti þar. Ástæðan hefði verið sú að stefndi hafi verið verktaki. Vitnið kvaðst ekki vita betur en íslenskir starfsmenn varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli og starfsmenn ríkisins þar hefðu aðgang að mötuneyti þar sem fæði var niðurgreitt. Fljótlega eftir þeir félagar hefðu byrjað störf hjá stefnda hefði hann gengið á fund forsvarsmanns hans ásamt öðrum starfsmanni og gert þá athugasemd að fæðispeningar væru ekki greiddir samkvæmt kjarasamningi. Því hefði verið harðlega neitað. Þá hefði hann áttað sig á því að fara yrði í gegnum rafiðnaðarsambandið með þessa kröfu því að þeir starfsmennirnir hefðu hvorki haft þor eða grimmd til þess að standa í þessu sjálfir. Fljótlega upp úr þessu hafi þeir talað við Helga Eyjólfsson, skrifstofustjóra rafiðnaðarsambandsins. Forstjóri stefnda eitt sinn að eigin frumkvæði minnst á þetta mál og tekið því illa.
Héðinn Eyjólfsson, fjármálastjóri stefnda, kom fyrir dóminn. Vitnið kvaðst hafa byrjað störf hjá stefnda í ársbyrjun 1998 en áður starfað hjá Ratsjárstofnun frá ársbyrjun 1988. Hjá báðum aðilum hefði hann séð um samskipti við rafiðnaðarsambandið og vaktavinnumenn. Vitnið upplýsti að starfsmenn stefnda á Keflavíkurflugvelli hafi verið um 30 talsins. Ákveðið hefði verið að hafa í ráðningarsamningum við þessa starfsmenn ákvæði um að hafa til hliðsjónar sama kjarasamning og gilti á milli Ratsjárstofnunar og Rafiðnaðarsambands Íslands til þess að ekki þyrfti að gera tvo kjarasamninga um mjög svipað efni. Stefndi hafi verið undirverktaki Ratsjárstofnunar sem hafi gert það að verkum að starfsmenn stefnda hefðu ekki fengið aðgang að mötuneytum á Keflavíkurflugvelli.
Vitnið sagði að 8. september 1987, þegar ritað var á orðsendingu Landsvirkjunar, hafi Ratsjárstofnun varla verið byrjuð að starfa. U.þ.b. 10 manna hópur hafi verið sendur austur á Stokknes til þjálfunar og hafi hann síðar hafi átt að fara til BNA til þess að læra á búnað þann sem Ratsjárstofnun hafi tekið að sér að sjá um fyrir varnarliðið í ratsjárstöðvum víðs vegar um landið. Mennirnir hafi ýmist búið á Stokksnesi eða á hóteli á Höfn í Hornafirði. Á Stokksnesi hafi verið svefnaðstaða og mötuneyti með niðurgreiddu fæði. Þetta ákvæði hafi verið undirritað færi svo að einhverjir þessara manna þyrftu að dvelja á hóteli og greiða fæði þar. Ákvæðið hefði því verið tekið upp á meðan starfsmennirnir voru í þjálfun fyrir austan. Ekki hafi komið til þess að þessu ákvæði væri beitt hvorki á þessum tíma né síðar að því er vitnið sagðist best vita. Á Höfn hefðu hótelreikningar starfsmannanna verið greiddir af Ratsjárstofnun.
Vitnið sagði að tilvísun til ratsjárstöðvar H-1 í samkomulagi Kögunar og Rafiðnaðarsambands Íslands, 7. maí 1996 og 22. júní 2001, væri til ratsjárstöðvarinnar á Miðnesheiði. Kjör starfsmanna Kögunar hf. á Keflavíkurflugvelli hafi átt að vera nokkurn veginn sambærileg við kjör rafiðnaðarmanna sem unnu á Miðnesheiði á vegum Ratsjárstofnunar. Vitnið kvaðst telja að það væri bara „lapsus“ að ákvæðið frá 8. september væri enn inni í kjarasamningi. Vitnið sagði að hluti ákvæðisins væri í gildi, þ.e. fyrri liðurinn, en sá hluti þess sem næði til fæðispeninga hefði gjörsamlega verið kominn út úr kollinum á öllum og fæðisgreiðslur miðaðar við gr. 2.10.3 í kjarasamningnum. Vitnið sagðist tvisvar á ári hafa kannað það hvað íslenskum starfsmönnum hjá varnarliðinu væri greitt í fæðispeninga. Þeir menn ynnu eins vakt og starfsmenn stefnda á Keflavíkurflugvelli, en hefðu aðgang að mötuneytum á Keflavíkurflugvelli þar sem fæði væri niðurgreitt eða mjög ódýrt. Sömu fjárhæð hefði hann greitt starfsmönnum stefnda.
Vitnið kvaðst kannast við að starfsmenn Kögunar hefðu kvartað út af því að þeir fengju ekki greidda fulla fæðispeninga. Hann hefði fengið þær kvartanir í eyrað einstaka sinnum og starfsmennirnir vitnað til ákvæðisins frá 8. september. Þetta hafi verið áður en Helgi Gunnarsson hjá rafiðnaðarsambandinu hefði komið að málinu sem vitnið kvaðst ekki muna hvenær hefði verið. Vitnið kvaðst alltaf hálfpartinn hafa búist við því að málið færi fyrir Félagsdóm eins og komið hafi fram hjá rafiðnaðarsambandinu að myndi verða.
Helgi Rúnar Gunnarsson, skrifstofustjóri hjá rafiðnaðarsambandinu þar til í maí 2002, kom fyrir dóminn. Vitnið kvaðst hafa verið viðstaddur þegar samkomulagið frá 8. september var gert. Hann hefði undirritað samkomulagið frá 7. maí 1996 og 22. júní 2001. Í sínum huga hafi það alla tíð verið þannig að allur kjarasamningur rafiðnaðarsambandsins hefði átt að gilda fyrir þá félagsmenn sem unnið hafi hjá Kögun. Vitnið kvaðst ekki minnast þess að nokkru sinni hefði verið greitt samkvæmt ákvæðinu frá 8. september. Ratsjárstofnun hefði tekið þá ákvörðun að leggja öllum starfsmönnum sínum til fæði, þar á meðal þeim sem unnu í ratsjárstöðinni á Miðnesheiði. Því hefðu starfsmennirnir enga fæðispeninga fengið greidda og á ákvæðið ekki reynt. Ákvæðið hafi hugsanlega af þessum sökum aðeins náð til starfsmanna Kögunar hf. Starfsmenn Ratsjárstofnunar á Miðnesheiði hefðu í upphafi fengið niðurgreitt fæði. Þegar því hefði verið hætt hafi staðið til að greiða þeim starfsmönnum samkvæmt ákvæðinu frá 8. september en þá hafi þeir fengið fæði í staðinn þannig að ekki hafi komið til greiðslna. Vitnið kvaðst hafa skynjað það að starfsmenn Kögunar hefðu sjálfir ekki viljað standa í deilum út af fæðispeningunum.
Magnús Geirsson, formaður Rafiðnarsambands Íslands árin 1971-1994, kom fyrir dóminn. Vitnið sagði ákvæðið frá 8. september væri þannig til komið að hjá Landsvirkjun hefðu starfað menn sem eins hefði verið ástatt um og þá menn sem ákvæðið næði til, þ.e. þá sem ekki hefðu matartíma né aðgang að mötuneyti. Þess vegna hefði verið notuð fyrirmynd frá Landsvirkjun. Þetta ákvæði hefði verið undirritað sama dag og kjarasamningur Ratsjárstofnunar og rafiðnaðarsambandsins. Það hefði verið gert á síðustu stundu og ákvæðið því ekki tekið beint upp í samninginn sjálfan.
IV
Af hálfu stefnanda er á því byggt að ákvæðið frá 8. september 1987 sé enn í fullu gildi, enda hafi það verið tekin inn í kjarasamning Ratsjárstofnunar og Rafiðnaðarsambands Íslands á sínum tíma og sé þar enn. Samkvæmt samkomulagi Rafiðnaðarsambands Íslands og Kögunar hf., bæði frá 7. maí 1996 og 22. júní 2001, gildi framangreindur kjarasamningur á milli rafiðnaðarsambandsins, sem stefnandi eigi aðild að, og Kögunar hf. Enda þótt kveðið sé á um það í ráðningarsamningi stefnanda við stefnda að hliðsjón eigi að hafa af þessum kjarasamningi gildi öll ákvæði hans um samningssamband þeirra, enda séu samkvæmt lögum nr. 55/1980 ógildir þeir kjarasamningar milli einstakra launamanna og atvinnurekenda þar sem samið sé um lakari kjör en hinir almennu kjarasamningar kveði á um. Ekki skipti máli hvort ákvæðið hafi verið virkt, þannig að greiða hafi þurft samkvæmt því eða ekki, það haldi gildi sínu engu að síður. Stefnandi hafi fengið greidda fæðispeninga samkvæmt gr. 2.10.3 í kjarasamningnum en sú grein gangi skemur en sérákvæði samningsins um fæðispeninga. Í þessu sambandi beri að hafa í huga að þeir starfsmenn, sem hafi fengið greitt fyrir fæði samkvæmt grein 2.10.3, hafi haft aðgang að mötuneyti með niðurgreiddu fæði en það hafi stefnandi ekki haft.
Stefnandi og samstarfsmenn hans hafi af og til haft uppi kröfur um að þeir fengju greidda fæðispeninga samkvæmt ákvæðinu frá 8. september og í ársbyrjun 2001 hafi stefnda verið kunngert að næðist ekki samkomulag um greiðslur yrði höfðað mál fyrir Félagsdómi. Þeir félagar hafi verið í veikri stöðu gagnvart vinnuveitanda sínum og stefnandi því kosið að hefjast ekki handa fyrr en eftir að hann hætti störfum hjá stefnda. Því sé alfarið mótmælt að ólögbundnar reglur um tómlæti geti leitt til þess að hann verði sviptur rétti sínum til fæðispeninganna. Slíkar reglur sem hafi vafasamt gildi eigi hér ekki við.
Af hálfu stefnda er viðurkennt að ákvæðið frá 8. september 1987 gildi að því er varðar skylduna til að greiða 46 yfirvinnustundir vegna ferða, vaktaskipta, kaffitíma o.þ.h., og hafi stefnandi fengið þær greiðslur. Hins vegar er því haldið fram að ákvæðið um fæðisgjaldið hafi verið tilkomið vegna þeirra rafiðnaðarmanna sem á þeim tíma hafi verið í starfsþjálfun hjá stefnda og unnið á Stokksnesi. Við lok þeirrar vinnu hafi ákvæðið runnið sitt skeið og hafi ekki verið greitt samkvæmt því síðan. Ákvæðið hafi því aldrei átt við stefnanda og félaga hans, heldur grein 2.10.3 í kjarasamningnum. Samkvæmt því ákvæði hafi þeir fengið greidda fæðispeninga. Þessi hafi verið framkvæmdin til margra ára sem geri það að verkum að ákvæðið sé ekki lengur í gildi. Þá beri að hafa í huga að í gr. 1.3 í ráðningarsamningi stefnanda komi fram að aðilar samningsins séu sammála um að hafa til hliðsjónar kjarasamning Rafiðnaðarsambands Íslands og Ratsjárstofnunar. Það feli í sér að stefndi sé ekki skuldbundinn til þess að tryggja að stefnandi sé í einu og öllu eins settur og starfsmenn varnarliðsins, en þess hafi þó verið gætt af hálfu stefnda.
Þá er á því byggt af hálfu stefnda, verði litið svo á að ákvæðið sé í gildi, að krafa stefnanda sé fallin niður fyrir tómlæti. Stefnandi hafi engan reka gert að því að krefjast greiðslu fæðispeninga fyrr en lögmaður hans hefjist handa með bréfi dags. 9. nóvember 2004 og hafi því ekki haldið fram kröfu til fæðispeninganna í nær 7 ár. Þýðingarmikið sé fyrir atvinnurekendur að starfsmenn bíði ekki árum saman að setja kröfur sínar fram og séu tómlætisreglur í fullu gildi í vinnurétti.
V
Á því verður að byggja að ákvæðið frá 8. september 1987 sé hluti kjarasamnings á milli Ratsjárstofnunar og Rafiðnaðarsambands Íslands, sem er með gildistíma frá 1. janúar 2001 til 30. júní 2005. Upplýst er að þetta ákvæði hefur fylgt kjarasamningi sömu aðila allt frá því að það var undirritað án þess þó að vera tekið inn í meginmál samningsins. Það er enda viðurkennt af hálfu stefnda að hluti þessa ákvæðis sé í gildi og starfsmönnum Kögunar hf. hefur verið greitt samkvæmt því. Deila aðila snýst því einungis um það hvort ákvæðið um greiðslu fæðispeninga sé í gildi og hvort stefnda beri að fara eftir því, og eins hvort krafa stefnanda kunni að vera fallin niður vegna tómlætis.
Í ráðningarsamningi á milli aðila málsins frá 1. janúar 1997 er kveðið á um að þeir séu sammála um að hafa til hliðsjónar kjarasamning þann sem gerður hafi verið á milli Rafiðnaðarsambands Íslands og Ratsjárstofnunar um kjör rafiðnaðarmanna. Í samkomulagi Rafiðnaðarsambands Íslands og Kögunar hf. frá 7. maí 1996 segir að aðilar séu sammála um að kjarasamningur milli sömu aðila gildi fyrir almenna rafiðnaðarmenn Kögunar hf. á meðan þeir vinni að viðhaldi tölvu- og fjarskiptabúnaðar í ISSF og CRC byggingum á Keflavíkurflugvelli eins og stefnandi gerði. Þá segir að samkomulagið taki til þeirra ákvæða samningsins og bókana sem við hann hafi verið gerðar, sem lúti að starfsemi ratsjárstöðvar H-1, en sú stöð er á Miðnesheiði og rekur Ratsjárstofnun hana. Sams konar samkomulag var gert á milli sömu aðila 22. júní 2001. Í framangreindum kjarasamningi er ákvæði í gr. 2.10.3 þar sem segir að Ratsjárstofnun leggi starfsmönnum til fæði eða greiði fæðispeninga. Við stöðina á Miðnesheiði skuli hafa hliðsjón af því sem tíðkist hjá Varnarliðinu, þ.e. að því er varðar íslenska starfsmenn þess. Upplýst verður að telja að íslenskir starfsmenn varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli hafi haft aðgang að niðurgreiddu fæði og starfsmönnum Ratsjárstofnunar í ratsjárstöðinni á Miðnesheiði var lagt til fæði eftir að tekið var fyrir aðgang þeirra að niðurgreiddu fæði. Var staða stefnanda, sem hvorki fékk fæði eða hafði aðgang að niðurgreiddu fæði, því önnur og lakari en framangreindra starfsmanna. Er því ekki hægt að fallast á að stefnandi geti ekki átt meiri rétt en kveðið er á um í gr. 2.10.3.
Óumdeilt er í málinu að fæðispeningar samkvæmt ákvæðinu frá 8. september 1987 voru við það miðaðir að starfsmaður fengi hvorki fæði né aðgang að niðurgreiddu fæði. Svo hagaði til með stefnanda. Verður því að telja að samkvæmt orðanna hljóðan eigi stefnandi rétt á greiðslum samkvæmt ákvæðinu. Kemur því til skoðunar hvort ákvæðið sé fallið úr gildi eins og haldið er fram af stefnda.
Vitnið Helgi Rúnar Gunnarsson, fyrrum skrifstofustjóri Rafiðnaðarsambands Íslands, taldi að aldrei hefðu verið greiddir fæðispeningar samkvæmt ákvæðinu frá 8. september 1987 sem stafaði af því að starfsmenn rafiðnaðarsambandsins hefðu annað hvort fengið niðurgreitt fæði eða verið lagt það til. Ratsjárstofnun hefði tekið þá stefnu að leggja öllum starfsmönnum sínum til fæði, þar á meðal þeim sem unnu í stöðinni á Miðnesheiði. Vitnið Héðinn Eyjólfsson, fjármálastjóri stefnda, kvaðst ekki vita til þess að greiddir hefðu verið fæðispeningar samkvæmt ákvæðinu. Þannig verður að telja upplýst að ekki hafi verið greiddir fæðispeningar samkvæmt ákvæðinu en jafnframt að það hafi verið vegna þess að þeir starfsmenn sem ákvæðið nær til hafi annað hvort fengið fæði eða aðgang að niðurgreiddu fæði. Sú staða kom því ekki upp að skylt yrði að greiða fæðispeninga samkvæmt ákvæðinu. Það leiðir hins vegar ekki til þess að ákvæðið sé ekki lengur í gildi, en það er hluti af þeim kjarasamningi sem gildir á þeim tíma sem krafa stefnanda nær til, eins og lýst er í upphafi þessa kafla dómsins. Niðurstaða dómsins er því sú að ákvæðið frá 8. september sé í gildi og stefnandi geti byggt rétt sinn til fæðispeninga á því.
Verður nú vikið að þeirri málsástæðu stefnda að krafa stefnanda sé fallin niður fyrir tómlæti. Krafa stefnanda nær til tímabilsins frá 1. janúar 2001 til 1. október 2004 en hann hóf störf hjá stefnda 1. janúar 1997. Stefnandi kvaðst fljótlega eftir að hann hóf störf gert athugasemd við það að fæðispeningar væru ekki greiddir samkvæmt kjarasamningi. Vitnið Héðinn Eyjólfsson, fjármálastjóri stefnda, kannaðist við að hafa fengið kvartanir einstaka sinnum vegna hins sama. Samkvæmt gögnum málsins gerði skrifstofustjóri rafiðnaðarsambandsins hinn 19. febrúar 2001 kröfu til þess að rafiðnaðarmönnum sem unnu hjá stefnda yrðu greiddir fæðispeningar samkvæmt kjarasamningi eða að öðrum kosti séð fyrir fullu fæði. Yrði ekki á það fallist væri það vilji rafiðnaðarsambandsins að úr ágreiningnum yrði skorið í Félagsdómi. Þegar með tilliti til þessa þykja ekki efni til þess að fallast á þá málsástæðu stefnda að krafa stefnanda sé fallin niður fyrir tómlæti.
Af hálfu stefnda hafa ekki verið gerðar athugasemdir við útreikning á kröfu stefnanda eða fjárhæð hennar samkvæmt þeim útreikningi.
Samkvæmt því sem að framan segir verða kröfur stefnanda teknar til greina.
Málskostnaður sem stefndi greiði stefnanda þykir hæfilega ákveðinn kr. 30.000 auk virðisaukaskatts.
Friðgeir Björnsson héraðsdómi kvað upp dóminn.
Dómsorð.
Stefndi, Kögun hf., greiði stefnanda, Magnúsi Hermannssyni, kr. 602.352 með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af kr. 140.736 frá 1. janúar 2002 til 1. janúar 2003, frá þeim degi af kr. 299.304 til 1. janúar 2004, frá þeim degi af kr. 468.648 til 1. október 2004 og frá þeim degi af kr. 602.352 til greiðsludags. Dráttarvextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti í fyrsta sinn 1. janúar 2003.
Málskostnaður sem stefndi greiði stefnanda ákveðst kr. 30.000 auk virðisaukaskatts.