Hæstiréttur íslands

Mál nr. 346/2008


Lykilorð

  • Fasteign
  • Eignarréttur
  • Eignarnám
  • Valdmörk


Fimmtudaginn 14

 

Fimmtudaginn 14. maí 2009.

Nr. 346/2008.

Valdimar Gunnarsson og

Jón Steinar Gunnarsson

(Karl Axelsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Reynir Karlsson hrl.)

 

Fasteign. Eignarréttur. Eignarnám. Valdmörk.

V hlutaðist til um endurgerð 15 km langs kafla á þjóðvegi nr. 1. Var ráðgert að vegurinn lægi m.a. um land í eigu VG og JS. Ekki náðist samkomulag milli V og VG og JS um bætur og lagði V ágreininginn fyrir matsnefnd eignarnámsbóta. Taldi V að eignarnámið ætti að ná til lands undir 40 m breitt vegsvæði að flatarmáli 16,9 hektarar. Matsnefndin vísaði til 33. gr. þágildandi vegalaga nr. 45/1994 um að leyfi V þyrfti til mannvirkjagerðar á 30 m kafla frá miðlínu stofnvega og taldi að eignarnáminu yrðu ekki settar þrengri skorður. Miðaði hún bætur við að eignarnámið tæki til 21,84 hektara. V greiddi VG og JS bætur að frátöldum þeim hluta þeirra sem ákveðnar voru fyrir land umfram 16,9 hektara. Höfðuðu VG og JS mál til heimtu mismunarins. Talið var að þó að matsnefnd eignarnámsbóta væri, samkvæmt 4. gr. laga nr. 11/1973, að meginreglu ætlað að taka mið af því hvernig eignarnemi geri grein fyrir umfangi þeirra réttinda sem aðgerð hans beinist að, væri matsnefndin ekki bundin að þessu leyti af málatilbúnaði eignarnema ef lýsing hans á réttindum, sem meta ætti bætur fyrir, gengi skemur en eignarnámið myndi í raun gera að lögum. Væri því ekki litið svo á að matsnefndin hefði farið út fyrir lögmælt hlutverk sitt. Hafi V borið því við að vegsvæðið gegnum land VG og JS væri að meðaltali þrengra en þeir 40 m sem þegar hafi verið greiddar eignarnámsbætur fyrir. Hafi VG og JS ekki fært fram haldbær andmæli gegn þessu. Þá hafi eldri vegur verið lagður niður samhliða gerð nýja vegarins. Óumdeilt sé að hann sé ekki lengur ætlaður umferð að öðru leyti en sem reiðvegur og til rekstrar búfjár. Honum fylgi því ekki lengur þau eignarhöft sem leitt hafi af 33. gr. þágildandi vegalaga, en sams konar höft stafi nú af hinum nýja vegi. Var ekki talið að um sviptingu eignarráða væri að ræða enda gætu VG og JS nýtt landsvæðið að öðru leyti. Væri um að ræða almennar kvaðir sem hvíli á öllum landareignum sem engar bætur kæmu fyrir. Var því sýknað af kröfu VG og JS.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 24. júní 2008. Þeir krefjast þess að stefnda verði gert að greiða sér 1.155.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 24. maí 2006 til greiðsludags. Þá krefjast þeir málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Dómendur í málinu gengu á vettvang 7. maí 2009.

I

Samkvæmt gögnum málsins hlutaðist Vegagerðin til um endurgerð þjóðvegar nr. 1 á um 15 km löngum kafla um Norðurárdal í Skagafirði að Öxnadalsheiði. Í aðdraganda þess var gert mat á umhverfisáhrifum og mun skipulagsstofnun hafa fallist á framkvæmdina með úrskurði 14. maí 2003, sem umhverfisráðherra staðfesti 16. febrúar 2004. Akrahreppur gaf síðan út framkvæmdaleyfi vegna vegarins 2. maí 2005. Ráðgert var að nýi vegurinn myndi meðal annars liggja um land jarðanna Fremri-Kota og Ytri-Kota, sem eru í sameign áfrýjenda, auk þess sem fyrirhugað var þar malarnám, svo og á jörðinni Borgargerði í eigu áfrýjandans Valdimars Gunnarssonar. Í tengslum við þetta gerðu áfrýjendur og Vegagerðin samkomulag 10. desember 2005 um heimild hennar til að hefja framkvæmdir við veginn og efnistöku fyrir hann. Þar var einnig kveðið á um ýmis atriði varðandi lagningu vegarins, girðingar og frágang, svo og um eldri veg, sem yrði nýttur sem reið- og rekstrarleið um land jarðanna. Þá var mælt fyrir um að Vegagerðin greiddi fullar bætur fyrir land undir veginn, jarðefni, jarðrask og átroðning, auk kostnaðar af gæslu hagsmuna áfrýjenda, en næðist ekki samkomulag innan þriggja vikna um fjárhæð bóta skyldu þær ákveðnar af matsnefnd eignarnámsbóta.

Samkomulag tókst ekki milli áfrýjenda og Vegagerðarinnar um fjárhæð bóta og leitaði hún 7. apríl 2006 til matsnefndarinnar með ósk um ákvörðun eignarnámsbóta. Í matsbeiðni Vegagerðarinnar kom meðal annars fram að eignarnámið ætti að ná til lands undir 40 m breitt vegsvæði, sem færi um tún, beitiland og ræktanlegt land á jörðum áfrýjenda, en heildarflatarmál þess, sem nánar var sundurliðað, væri 16,9 hektarar. Jafnframt tæki eignarnámið til jarðefna fyrir veginn, sem flokkað var eftir tegundum, alls 91.500 m3.

Í úrskurði matsnefndarinnar í málinu 24. maí 2006 var meðal annars vísað til þess að samkvæmt 33. gr. þágildandi vegalaga nr. 45/1994 þyrfti leyfi Vegagerðarinnar til mannvirkjagerðar á 30 m kafla frá miðlínu stofnvega og teldi nefndin að eignarnáminu yrðu ekki settar þrengri skorður. Þótti engu breyta að gert væri ráð fyrir að girðingu hvorum megin við veginn yrði komið fyrir 20 m frá miðlínu hans. Þessu til samræmis yrðu bætur miðaðar við að eignarnámið tæki til 21,84 hektara lands í stað 16,9 hektara, sem Vegagerðin hefði lagt til grundvallar. Af þessu landi væru 4,2 hektarar innan ræktaðra túna, sem þótti hæfilegt að bæta með 300.000 krónum fyrir hvern hektara, en fyrir annað land, 17,64 hektara, voru bætur ákveðnar 125.000 krónur á hvern. Samkvæmt því yrðu eignarnámsbætur fyrir land samtals 3.465.000 krónur. Auk þessa ákvað matsnefndin áfrýjendum bætur vegna skerðingar á kostum til búskapar á öðru landi jarðanna, 3.500.000 krónur, bætur fyrir átroðning og jarðrask, 500.000 krónur, og bætur fyrir jarðefni, 1.950.000 krónur, en alls urðu því bætur til áfrýjenda 9.415.000 krónur auk málskostnaðar að fjárhæð 988.407 krónur. Áður en málið var lagt fyrir matsnefndina mun Vegagerðin hafa greitt áfrýjendum hluta væntanlegra bóta, en óumdeilt er að í framhaldi af úrskurði nefndarinnar voru bætur samkvæmt honum að öðru leyti greiddar, en þó að frátöldum þriðjungi bóta, sem þar voru ákveðnar fyrir eignarnám á landi í jörðum áfrýjenda eða 1.155.000 krónur.

Með stefnu 3. janúar 2007 höfðuðu áfrýjendur mál þetta til heimtu síðastnefndrar fjárhæðar. Eins og nánar kemur fram í héraðsdómi snýst ágreiningur aðilanna um það hvort stefnda beri að greiða eignarnámsbætur fyrir 16,9 hektara lands, sem miðist við að vegsvæðið sé 40 m breitt eins og Vegagerðin lagði til grundvallar, eða 21,84 hektara, sem taki mið af svæði 30 m til hvorrar handar frá miðlínu vegarins, svo sem matsnefnd eignarnámsbóta lagði til grundvallar.

II

Samkvæmt 4. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms ber eignarnema að tilgreina í matsbeiðni til matsnefndar eignarnámsbóta meðal annars þær eignir, sem eignarnám lýtur að, auk þess að lýsa þeim eignarskerðingum, sem það hefur að öðru leyti í för með sér. Af þessu er ljóst að matsnefndinni er ætlað að meginreglu að taka mið af því hvernig eignarnemi geri grein fyrir umfangi þeirra réttinda, sem aðgerð hans beinist að. Þess verður á hinn bóginn að gæta að hvorki verður leitt af ákvæðum laga nr. 11/1973 né öðrum réttarreglum að matsnefndin sé bundin að þessu leyti af málatilbúnaði eignarnema ef lýsing hans á réttindum, sem meta á bætur fyrir, gengur skemur en eignarnámið myndi í raun gera að lögum, þótt ekki sé á valdi nefndarinnar nema svo standi á, sem um ræðir í 12. gr. laganna, að knýja eignarnema til að taka við eign, sem hann ekki leitar eftir. Í þessu ljósi verður að líta svo á að matsnefnd eignarnámsbóta hafi í úrskurði sínum 24. maí 2006 gengið út frá því að eignarnám Vegagerðarinnar á landi undir vegsvæði á jörðum áfrýjenda hefði slík áhrif að greiða skyldi bætur fyrir fulla skerðingu á samtals 21,84 hekturum, þótt Vegagerðinni bæri ekki gegn greiðslu þeirra bóta að taka við landi umfram þá 16,9 hektara, sem beiðni hennar um eignarnám laut að. Að þessu virtu verður ekki fallist á með stefnda að matsnefnd eignarnámsbóta hafi farið út fyrir lögmælt hlutverk sitt með því að meta bætur handa áfrýjendum fyrir eignarnám á landi á þann hátt, sem hún gerði í úrskurði sínum.

Í málinu hefur stefndi borið því við að vegsvæðið gegnum land áfrýjenda, sem umlukið sé girðingu, sé að meðaltali þrengra en þeir 40 m, sem eignarnámsbætur hafi þegar verið greiddar fyrir. Gegn þessu hafa áfrýjendur ekki fært fram haldbær andmæli. Til þess verður og að líta að samhliða því að nýr vegur var gerður um jarðir áfrýjenda var lagður þar niður eldri vegur. Þótt hann sé enn til er óumdeilt að hann sé ekki lengur ætlaður umferð að öðru leyti en sem reiðvegur, svo og til rekstrar búfjár. Honum fylgja því ekki lengur þau eignarhöft á landi áfrýjenda, sem leiddu af ákvæðum 33. gr. þágildandi vegalaga, en sams konar höft stafa nú af hinum nýja vegi.

Að öðru leyti en því, sem leiðir af öllu framangreindu, verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur með vísan til forsenda hans.

Rétt er að aðilarnir beri hver sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 27. mars 2008.

Mál þetta, sem dómtekið var 29. febrúar 2008, var þingfest 9. janúar 2007. Stefnendur eru Valdimar Gunnarsson og Jón Gunnarsson, báðir til heimilis að Fremri Kotum, Varmahlíð. Stefndi er Vegagerðin, Borgartúni 5 og 7, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnendum kröfu að fjárhæð 1.155.000 kr., ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. í III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 24. maí 2006 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar.

Stefndi krefst þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnenda. Þá er gerð krafa um málskostnað.

Aðalmeðferð í málinu átti að fara fram 17. október 2007, en ákveðið var að fresta henni og bíða dóms Hæstaréttar í máli nr. 644/2006, sem var kveðinn upp 21. febrúar 2008. Aðalmeðferð fór svo fram hinn 29. s.m.

I.

Með bréfi 7. apríl 2006 fór stefndi þess á leit við matsnefnd eignarnámsbóta að metnar yrðu bætur vegna framkvæmda við vegagerð í landi jarðanna Fremri- og Ytri-Kota og Borgargerðis, Akrahreppi í Norðurárdal í Skagafirði. Andlag eignarnáms var tilgreint þannig að um væri að ræða 40 m breitt vegsvæði hringvegar og jarðefni til vegagerðar. Nánar tiltekið væri um að ræða 6,9 ha land undir vegsvæði í landi Fremra-Kots og 10 ha í landi Ytra-Kots, alls 16,9 ha.

Matsnefnd eignarnámsbóta kvað upp úrskurð 24. maí 2006, í málinu nr. 5/2006. Í niðurstöðu nefndarinnar er vísað til þess að samkvæmt 33. gr. vegalaga nr. 45/1994 þurfi leyfi stefnda til mannvirkjagerðar á 30 metra kafla frá miðlínu stofnvega. Með hliðsjón af ákvæðinu taldi nefndin að eignarnáminu yrðu ekki settar þrengri skorður. Engu breytti þótt gert væri ráð fyrir girðingu við veginn 20 m frá miðlínu. Voru bætur til eignarnámsþola miðaðar við 21,84 ha spildu, eða 4,94 ha stærri en stefndi vildi miða við. 

Af þessu landi voru 4,2 ha ræktað tún og ákvað nefndin bætur vegna þess 1.260.000 kr. (4,2 x 300.000) og 2.205.000 kr. (17,64 x 125.000) vegna annars lands sem var 17,64 ha. Samtals voru þetta 3.465.000 kr. Auk þess voru stefnendum ákveðnar bætur vegna skerðingar á eignarréttindum, fyrir jarðrask og átroðning meðan á veg­alagningunni stæði, og bætur fyrir jarðefni, auk málskostnaðar.

Í tölvuskeyti stefnda 20. júlí 2006 kemur fram að stefndi haldi eftir 1/3 hluta af bótunum að fjárhæð 3.465.000 kr., eða 1.155.000 kr., sem er stefnufjárhæð málsins, meðan farið yrði í gegnum atriði er varði afsal. Stefndi kvaðst ætla að senda tillögu að afsali.

Lögmaður stefnenda svaraði sama dag á þá leið að eðlilegt væri að afsal tæki til þess lands sem stefndi þurfi beinlínis og útiloki afnot af, eða 16,9 ha.

Með tölvuskeyti lögmanns stefnenda 16. desember 2006 var bent á að það ætti eftir að greiða eftirstöðva bóta, en mál hafi skipast þannig að stefnendur væru ekki reiðubúnir til að skrifa upp á afsal vegna lands sem færi undir vegstæði þar sem stefnda dugi sem endranær þær heimildir sem felist í eignarnáminu og úrskurði um bætur.

Þar sem engin viðbrögð bárust frá stefnda við tölvuskeytinu frá 16. desember 2006 ákváðu stefnendur að höfða mál þetta.

II.

Í stefnu er vísað til þess að krafa stefnenda nemi ógreiddum eftirstöðvum samkvæmt úrskurði matsnefndar eignarnámsbóta í máli nr. 5/2006, en stefndi hafi verið úrskurðaður til þess að greiða stefnendum alls 10.403.407 kr. Stefndi hafi greitt 9.248.407 kr. í júlí sl. en haldið eftir þeirri fjárhæð sem nemur dómkröfunni. Hafi sú afstaða byggst á því að stefnendum bæri að gefa út afsal til stefnda vegna þess lands sem eignarnumið sé í vegstæði. Stefndi hafi upplýst um þessa afstöðu sína í tölvuskeytum í aðdraganda þess að hann innti umrædda greiðslu af hendi, en þá boðað greiðslu eftirstöðva bráðlega og ætlað að gera tillögu um afsal vegna þessa. Síðan hafi ekkert heyrst af afdrifum málsins og eftirstöðvarnar enn ógreiddar.

Stefnendur telja að krafa stefnda um afsal, sem forsendur fyrir uppgjöri á úrskurðuðum bótum, fái ekki staðist enda verði slíkur áskilnaður hvorki leiddur af lögum, sbr. einkum fyrirmæli vegalaga nr. 45/1994, með síðari breytingum, né laganna um framkvæmd eignarnáms nr. 11/1973, né fyrirvaralausri niðurstöðu matsnefndar eignarnámsbóta í máli nr. 5/2006. Hafi stefnendur innt stefnda eftir lyktum málsins í tölvuskeyti 16. desember 2007 án þess að nokkur viðbrögð hafi borist og stefnendur því nauðbeygðir til þess að innheimta kröfuna fyrir milligöngu dómstóla.

III.

Kröfu sína um sýknu styður stefndi í fyrsta lagi við það að í matsbeiðni 7. apríl 2006 til matsnefndar eignarnámsbóta sé gerð krafa um að eignarnámið nái aðeins til 16,9 hektara lands. Matsefndin bæti hins vegar við 4,94 hekturum með vísan til 33. gr. vegalaga nr. 45/1994 þannig að niðurstaða hennar verði sú að stefnda beri að greiða bætur fyrir 21,84 hektara lands undir vegstæði. Þetta telur stefndi óásættanlegt.

Byggir stefndi á því að matsnefndinni sé ekki heimilt að fara út fyrir kröfur aðila nema í þeim tilvikum þegar eignarnema hafi láðst að tilgreina eignarnumda eign í matsbeiðni eða þegar 12. gr. laga 11/1973 um framkvæmd eignarnáms heimili það. Í  ákvæðinu segi að „skerðist fasteign með þeim hætti við eignarnám, að sá hluti hennar sem eftir er, verði ekki nýttur á eðlilegan hátt sem sjálfstæð eign, geti matsnefnd ákveðið að kröfu eiganda, að eignarnámið skuli ná til eignarinnar allrar.“

Stefndi telur að í 12. gr. laga nr. 11/1973 sé tæmandi talið við hvaða kringumstæður matsnefndin geti metið eign sem ekki sé andlag mats samkvæmt beiðni, enda hafi ekki augljóslega láðst að geta um eign sem eignarnám beinist að í matsbeiðni. Í greinargerð með frumvarpi að lögunum komi fram að 12. gr. taki til þess þegar sá hluti eignarinnar sem eftir standi, verði svo lítill eða að öðru leyti ólánlegur, að eigandi hans hafi litla sem enga hagsmuni af að halda honum eða hann verði honum jafnvel til fjárhagslegrar byrði, þá sé ekki óeðlilegt að eignarnemi verði skyldaður til að taka við eigninni allri, ef krafa kemur fram um það af hálfu eiganda, enda yrði oftast um óverulega hækkun eignarnámsbóta af þeim sökum að ræða. Þá komi fram í greinargerð með 12. gr. frumvarpsins að þegar hluti eignar sé tekinn eignarnámi geti orðið tjón sem sé fólgið í verðmætisrýrnun á þeim hlutanum sem eftir standi. Byggir stefndi á því að gagnálykta megi frá 12. gr. laganna á þá leið að matsnefndin geti ekki við aðrar kringumstæður en þeim sem greinin taki til metið eign sem ekki er matsandlag samkvæmt matsbeiðni nema að ótvírætt sé að stjórnarskrár­varin eignarréttindi séu tekin eignarnámi en þeirra sé ekki getið í matsbeiðni.

Stefndi kveðst með engu móti geta fallist á að í 33. gr. vegalaga nr. 45/1994 felist að stefnda sé skylt að taka eignarnámi 30 metra frá miðlínu vegar eða 60 metra samtals, þegar í matsbeiðni sé aðeins krafist eignarnáms fyrir 20 metrum frá miðlínu eða 40 metrum samtals. Landið nýtist landeiganda áfram þrátt fyrir vegstæðið, m.a. til beitar. Samkvæmt 33. gr. þurfi hins vegar landeigandi leyfi stefnda til þess að setja niður byggingar, mannvirki eða leiðslur nær miðlínu stofnvega en 30 metra. Telur stefndi að ákvæði 33. gr. fari alveg saman við t.d. 2. gr. auðlindalaganna nr. 57/1998 þar sem fram komi að eigandi lands fari með öll venjuleg eignarráð þess innan þeirra marka sem lög segi til um á hverjum tíma. Landeigandi (stefnandi) geti áfram nýtt þetta land en með þessum takmörkunum. Þessar reglur séu ekkert öðru vísi en aðrar reglur sem fjalli um staðsetningu mannvirkja t.d. frá lóðarmörkum, fjarlægð frá leiðslum o.s.frv. Oft séu öryggissjónarmið að baki slíkum reglum.

Stefndi telur 33. gr. vegalaga nr. 45/1994 ekki fela í sér slíka kvöð á landi að jafna megi til eignarnáms, frekar en t.d. ákvæði skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og ýmissa annarra laga er áskilji leyfi opinbers aðila til mannvirkjagerðar. Þannig sé óheimilt samkvæmt 1. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingalaga að grafa grunn, reisa hús, rífa hús, breyta því, burðarkerfi þess, formi, svipmóti eða notkun þess eða gera önnur þau mannvirki sem falla undir IV. kafla laganna nema að fengnu leyfi viðkomandi sveitarstjórnar. Um sé að ræða almenna kvöð sem hvíli á öllum sambærilegum eignum með sama hætti og lögð séu á vegna almannahagsmuna. Stefndi vísar einnig til þess að ekki sé sjálfgefið að synjað yrði í öllum tilvikum um leyfi samkvæmt 33. gr. vegalaga. Þannig sé ekki heimilt fyrir fram að slá því föstu að land sem kvöðin hvíli á nýtist ekki til neins konar mannvirkjagerðar vegna þessa ákvæðis.

Þá telur stefndi að líta verði til þess, við mat á stærð hins eignarnumda svæðis, að veggirðing sé með fram hluta vegarins á hinu umdeilda svæði, þar sem vegstæðið sé aðeins 25 metra breitt en ekki 40 metra eins og krafa hafi verið um að eignarnámið taki til samkvæmt matsbeiðni. Þannig hafi vegurinn mun minni áhrif á aðliggjandi land en ella. Vísast m.a. um þetta til samkomulags aðila.

Einnig byggir stefndi á því að jafnvel þótt niðurstaða dómsins yrði sú að matsnefndinni hafi verið heimilt að fara út fyrir kröfur stefnda í matsbeiðni þá hafi það ekki átt við í þessu tilviki. Um sé að ræða nýjan veg við hliðina á vegi sem verið hafi þarna í áratugi. Núverandi vegur verði nýttur þarna sem reið- og rekstrarleið. Stefndi hyggist ekki nýta hann á neinn hátt og því sé hann honum óviðkomandi. Helgunarsvæði hafi fylgt gamla veginum og því sé það aðeins nýi vegurinn sjálfur sem komi til skoðunar. Ekki verði til neitt nýtt helgunarsvæði þar sem gamla veginum hafi fylgt helgunarsvæði samkvæmt 33. gr. vegalaga. Í íslenskum rétti séu áratuga fordæmi um að draga frá eignarnumdu landi flatarmál gamalla vega sem verði landeiganda til afnota á ný vegna nýrrar vegalagningar, sbr. dómur Hæstaréttar frá 1980, bls. 920, hrd. í málinu nr. 349/2004 og hrd. í málinu nr. 18/1995. Í þessu sambandi vísar stefndi einnig til 2. mgr. 47. gr. vegalaga nr. 45/1994 þar sem gert sé ráð fyrir því að eldri vegur sem leggist af við nýja vegalagningu og falli til landeiganda, skuli sérstaklega metinn og sú fjárhæð sem þannig fáist dregin frá þeirri fjárhæð sem landeiganda beri fyrir hinn nýja veg. Grunnrökin að baki þessu ákvæði séu þau að landeigandi eigi ekki að fá bætur vegna þeirra vega sem fyrir séu í landi hans. Þetta ákvæði verði að skilja þannig að gömlum vegum fylgi veghelgunar­svæði þeirra. Þó stefndi geri ekki kröfu um að flatarmál gamla vegarins verði dregið frá nýja veginum, vegna samkomulags þess efnis við stefnendur og viðkomandi sveitarstjórn, þá geri hann hins vegar kröfu til þess að tekið verði tillit til veghelgunar­svæðis gamla vegarins. Þá byggir stefndi á að land með fram veginum verður áfram nýtanlegt sem beitiland eða til annarra nota hér eftir sem hingað til.

 Stefndi byggir á því að ekki liggi fyrir hvernig hið gamla vegstæði, og þar með veghelgunarstæðið allt, kom til eða hvaða samningar lágu því til grundvallar. Telur stefndi að a.m.k. fullnuð afnotahefð sé komin á þau not, sbr. 7. gr. hefðalaga nr. 46/1905 enda hefði gamli vegurinn legið um landið í marga áratugi en afnotahefð teljist fullnuð að liðnum 20 árum enda séu önnur skilyrði uppfyllt. Þá hljóti meint krafa stefnenda að vera niður fallinn fyrir tómlæti en þeir hafi ekki svo vitað sé gert athugasemdir við gamla veginn eða veghelgunarsvæði hans. Vísast í þessu sambandi til dóms Hæstaréttar í málinu nr. 18/1995 þar sem ekkert hafi legið fyrir um það hvort landeigandi krafðist bóta þegar gamall vegur var lagður eða hvort hann hafði látið land undir hann án endurgjalds.

Með vísan til framanritaðs telur stefndi engin haldbær rök fyrir því að taka stærra land undir eignarnám en hann geri kröfu um í eignarnámsbeiðni sinni, eða 16,9 hektara. Því beri að hafna kröfu stefnenda um að miða við að eignarnámið taki til 21,84 hektara lands undir vegstæði. Það leiði til þess að sýkna beri stefnda. 

Málskostnaðarkröfu sína styður stefndi við 129. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Varðandi málsástæður og lagarök að öðru leyti vísar stefndi til matsbeiðni sinnar og greinargerðar til matsnefndar eignarnámsbóta.

IV.

Í máli þessu er deilt um það hvort matsnefnd eignarnámsbóta hafi verið heimilt að meta bætur vegna eignarnáms fyrir stærra landvæði en stefndi tiltók í matsbeiðni sinni til nefndarinnar. Nánar tiltekið er ágreiningur um það hvort miða eigi bætur við stærra land en stefndi krefst eignarnáms á. Stefndi telur að miða eigi við 16,9 ha lands undir vegarstæði, þ.e. 20 metra frá miðlínu vegar, en ekki 21,84 ha, sem miðast við 30 metra frá miðlínu, líkt og stefnendur héldu fram og matsnefndin féllst á í úrskurði sínum. Eins og fram kemur í málatilbúnaði stefnda gerðu aðilar samkomulag um að flatarmál gamla vegarins yrði ekki dregið frá nýja veginum og getur eldri vegur því ekki haft áhrif á ákvörðun bóta í máli þessu.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973, um framkvæmd eignarnáms, sker matsnefnd eignarnámsbóta úr ágreiningi um eignarnámsbætur og annað endurgjald, sem ákveða á samkvæmt lögum um framkvæmd eignarnámsbóta. Í ákvæðinu felst að nefndin er ekki bundin við kröfugerð aðila og gat hún því af þeirri ástæðu farið út fyrir kröfu stefnda um stærð landsins.

Hvað varðar stærð landsvæðis, sem greiða skal eignarnámsbætur fyrir, hélt lögmaður stefnenda því fram við aðalmeðferð málsins að í 33. og 36. gr. þágildandi vegalaga nr. 45/1994, nú lög nr. 80/2007, felist nær altæk skerðing á eignarrétti stefnenda sem jafnað yrði til eignarnáms. Telja stefnendur að af ákvæðunum leiði að miða eigi eignarnámsbætur við 60 metra breitt vegarstæði (21,84 ha), en ekki 40 metra (16,9 ha), eins og stefndi gerir í málinu.

Jafnframt var á því byggt að með því að stefndi miði við 40 metra vegarstæði, en ekki 60 metra, væri brotið gegn jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar, jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga og almennri jafnræðisreglu. Var í því sambandi vísað til þess að í máli vegna bóta fyrir vegaframkvæmdir í landi Syðri-Fjarðar í Hornafirði, sbr. dómur Hæstaréttar í máli nr. 644/2006, og samkomulagi sem gert var um bætur í landi Skálavíkur Innri, Súðavíkurhreppi, hafi verið miðað við 60 metra vegarstæði, þ.e. 30 metra frá miðlínu.

Lögmaður stefnda mótmælti þessum málsástæðum sem of seint fram komnum, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Ekki verður fallist á með stefnda að um sé að ræða málsástæður sem ekki komist að í málinu þar sem ekki var tilefni til þeirra fyrr en varnir stefnda komu fram undir rekstri málsins.  

Stefnendur hafa fengið greiddar bætur vegna lagningu nýs vegar sem miðast við 40 metra breitt vegarstæði. Vegna vegarins má ekki staðsetja mannvirki eða grafa framræsluskurði nær veginum en 30 metra frá miðlínu hans, sbr. 33. og 36. gr. vegalaga. Hagnýting eignar sætir því takmörkum og er eignarréttur þannig skertur. Hins vegar er ekki um sviptingu eignarráða að ræða og geta stefnendur nýtt landsvæðið að öðru leyti. Reynir hér á mörkin milli eignarnáms og eignartakmarkana. Líta verður til þess að í vegalögum er ekki mælt fyrir um neinar bætur fyrir þessar takmarkanir. Er hér um almennar kvaðir að ræða sem hvíla á öllum landeigendum. Enn fremur verður að horfa til þess að landsvæðið er ekki líklegt byggingarland. Að öllu þessu virtu er ekki fallist á að stefnendur eigi rétt til bóta vegna þeirra kvaða sem leiða af 33. og 36. gr. vegalaga.

Kemur þá til álita hvort jafnræðisregla skuli leiða til þess að miða verði bætur við 60 metra vegarstæði. Við aðalmeðferð málsins sagði lögmaður stefnda að það fari eftir staðháttum hversu mikið svæði þurfi undir veg. Þannig þurfi minna svæði þegar um flatlendi er að ræða en ef vegur þurfi að vera hærri sé þörf á breiðara svæði. Þá sagði hann að það hafi tíðkast í framkvæmd að miða við 40 metra. Stefnendur hafa eins og áður segir vísað til tveggja mála, þar sem bætur voru miðaðar við 60 metra, til stuðnings því að jafnræðisregla hafi verið brotin. Er ekki unnt að fallast á með stefnendum að þessi mál leiði til þess að jafnræðisregla hafi verið brotin, enda ekki sýnt fram á að aðstæður við veglagningu í málum jarðarinnar Syðri-Fjarðar og Skálavík Innri séu sambærilegar og hér.

Samkvæmt öllu framansögðu verður stefndi sýknaður af kröfum stefnenda. Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.

Af hálfu stefnenda flutti málið Guðjón Ármannsson hdl. og af hálfu stefnda Reynir Karlsson hrl. 

Dóm þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir, settur héraðsdómari.

Dómsorð:

Stefndi, Vegagerðin, er sýkn af kröfum stefnenda, Valdimars Gunnarssonar og Jóns Steinars Gunnarssonar.