Hæstiréttur íslands

Mál nr. 6/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


                                     

Þriðjudaginn 8. janúar 2013.

Nr. 6/2013.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Stefán Eiríksson lögreglustjóri)

gegn

X

(Bjarni Hauksson hrl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. janúar 2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 4. janúar 2013 þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 11. janúar 2013 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 4. janúar 2013.

                Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess fyrir dóminum í dag að X, kt. [...], verði með úrskurði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 11. janúar 2013, kl. 16:00, og að á þeim tíma verði kærðu gert að sæta einangrun.

                Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu segir að um hádegið í gær hafi lögregla fengið tilkynningu um innbrot að A, en fram hafi komið að grunsamlegt par hefði bakkað bifreið með skráningarnúmerinu [...] upp að húsinu og síðan borið út úr því sjónvarpstæki. Umrædd bifreið hafi verið stöðvuð skömmu síðar á [...] nálægt versluninni [...] eftir að henni hafði verið veitt eftirför. Kærði Y og kærða X hafi verið handtekin þar grunuð um innbrotið að A auk tveggja annarra innbrota i [...], nánar tiltekið að B og C, en tilkynnt hafi verið um öll þessi innbrot til lögreglu með stuttu millibili í gær.

Við leit í bifreiðinni [...] hafi fundist þýfi úr framangreindum innbrotum að B og A í [...]. Um hafi verið að ræða talsvert magn skartgripa, raftækja og annarra muna. Þá hafi fundist greiðslukort, sem tilheyri íbúa að D í [...], en lögreglu hafi einnig borist tilkynning um innbrot þar í gær.

Í kjölfar handtöku kærðu hafi verið farið í húsleit að heimili þeirra að E og þar hafi fundist talsvert magn muna, sem grunur leiki á um að sé þýfi. Í ljós hafi komið að munirnir sem fundust hafi m.a. komið úr ofangreindu innbroti að D og úr innbroti í F sem framið hafi verið 12. desember sl. Lögregla eigi eftir að fara yfir töluvert af munum sem haldlagðir hafi verið og staðreyna hvort og þá hvaða innbrotum þeir tengist.

Í greinargerðinni segir ennfremur að skóför sem fundist hafi á vettvangi innbrotanna í [...] í gær eigi það sammerkt að vera sömu tegundar og skófatnaður kærðu. Við húsleit að heimili kærðu hafi lögregla lagt hald á skófatnað, sem á eftir að bera saman skóför úr öðrum nýlegum innbrot.

Þá segir í greinargerðinni að lögreglan hafi til rannsóknar fleiri mál er varði innbrot í íbúðarhús á höfuðborgarsvæðinu undanfarið en um mánaðarmótin nóvember/desember sl. hafi hrina slíkra innbrota á svæðinu hafist. Þýfi hafi fundist hjá kærðu úr innbroti að F frá 12. desember sl., auk þess sem á vettvangi innbrots að G 23. desember sl. hafi fundist skóför og verkfæraför, sem séu eins og för sem fundist hafi á vettvangi innbrotanna í gær. Með vísan til þessa telji lögregla nauðsynlegt að rannsaka möguleg tengsl kærðu við önnur nýleg innbrot á höfuðborgarsvæðinu.

Í skýrslutöku af kærðu í dag hafi hún sagst muna eftir að hafa farið að A í gær en ekki muna neitt frekar um það. Að öðru leyti hafi hún neitað hún að tjá sig eða sagst ekki geta tjáð sig um það sem henni sé gefið sök vegna minnisleysis.

Til rannsóknar í máli þessu sé ætlað brot gegn 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 eða eftir atvikum 254. gr. sömu laga. Brotist hafi verið inn á fjögur heimili í [...] í gær og verðmætum stolið. Kærða sé undir rökstuddum grun um aðild að málunum samkvæmt rannsókn lögreglu. Þá sé hún undir rökstuddum grun um innbrot að F 12. desember sl. Rannsóknin sé á frumstigi og sé nauðsynlegt fyrir lögreglu að fá svigrúm til þess að ná utan um málin. Fara þurfi yfir meint þýfi sem fundist hafi við leit hjá kærðu, auk þess sem freista þurfi þess að endurheimta frekara þýfi. Í því skyni þurfi að leita í bifreiðum, sem skráðar séu á kærðu og ef til vill á fleiri stöðum. Rannsaka þurfi möguleg tengsl kærðu við önnur nýleg innbrot og hugsanlega samverkamenn. Þá sé nauðsynlegt að taka frekari skýrslur af kærðu vegna málanna og sé brýnt að þau geti ekki haft áhrif hvort á annað með því að ræða saman. Það þyki því afar brýnt með hliðsjón af gögnum málsins og sterkum grunsemdum lögreglu að vernda rannsóknarhagsmuni á þessu stigi málsins með því að varna því að kærða gangi laus en veruleg hætta sé talin á að hún torveldi rannsókn málsins með því að koma undan þýfi og hafa áhrif á aðra samseka og eftir atvikum vitni fái hún að fara frjáls ferða sinna. Það sé því brýnt og nauðsynlegt með vísan til alls framanritaðs og gagna málsins að öðru leyti að kærðu verði með vísan til a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 gert að sæta gæsluvarðhaldi til föstudagsins 11. janúar nk. kl. 16.00 og til að sæta einangrun samkvæmt b. lið 1. mgr. 99. gr. sömu laga.

Eins og rakið hefur er kærða undir rökstuddum grun um brot sem varðað getur fangelsisrefsingu. Haldi kærða óskertu frelsi sínu gæti hún torveldað rannsókn málsins, s.s. með því að koma sönnunargögnum undan eða hafa áhrif á samseka eða vitni. Með vísan til a-liðar 1. mgr. 95. gr. og b-liðar 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, er því fallist á kröfu lögreglustjóra eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.

                Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

                Kærða, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 11. janúar 2013, kl. 16:00.

                Kærða sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur.