Hæstiréttur íslands

Mál nr. 272/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Miðvikudaginn 5. maí 2010.

Nr. 272/2010.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum

(Alda Hrönn Jóhannsdóttir fulltrúi)

gegn

X

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. apríl 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. maí 2010. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 30. apríl 2010, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 7. maí 2010 klukkan 16 og sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að kröfu um einangrun verði hafnað.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurður verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

                                                        

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 30. apríl 2010.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur krafist þess í dag fyrir Héraðsdómi Reykjaness með vísan til a liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála að X, kt. [...],[...], verði með úrskurði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 7. maí 2010 kl. 16.00. Lögreglustjóri krefst þess ennfremur að kærði sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur.

Kærði krefst þess að kröfunni verði hafnað.

Krafan er reist á því að kærði sé undir rökstuddum grun um brot gegn 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og lögum um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974.

Í kröfu lögreglustjórans kemur m.a. fram að aðfaranótt 11. apríl 2010 hafi Y og Z verið stöðvuð á Keflavíkurflugvelli við komu til landsins frá Alicante á Spáni. Í ferðatösku þeirra hafi fundist 1765 g af kókaíni. Við skýrslutökur af þeim hafi komið fram að kærði hafi fengið þau til að fara  til Spánar í þeim tilgangi að flytja fíkniefni til landsins. Þá hafi einnig komið fram að unnusta kærða hafi aðstoðað þau Y og Z við að bóka hótel og gistingu og verið í samskiptum við þau meðan á dvöl þeirra á Spáni stóð. Lögreglan telji því rökstuddan grun um að kærði sé viðriðinn hinn ætlaða innflutning. Kærði hafi ennfremur viðurkennt að hafa fengið Z og Y til fararinnar og jafnframt bent á annan aðila sem hafi átt að taka við efnunum þegar þau voru komin til landsins. Sá aðili sitji nú í gæsluvarðhaldi en hann tengist jafnframt öðru fíkniefnamáli sem sé til rannsóknar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Í því máli hafi verið lagt hald á svipað magn af fíkniefnum og telji lögreglan að þessi mál tengist. Tíu manns sitji nú í gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar á þessum tveimur málum. Kærði hafi setið í gæsluvarðhaldi frá 23. apríl sl.

Rannsókn málsins sé í fullum gangi en rannsaka þurfi frekar ferðir aðila úr landi og tengsl þeirra við kærða og sambýliskonu hans. Við húsleit hjá kærða og sambýliskonu hans hafi fundist töluvert magn fíkniefna auk gagna er tengi þau við framangreinda aðila. Grunur sé um að þetta sé ekki í fyrsta skipti sem þessir aðilar hafi reynt að smygla fíkniefnum til landsins. Lögreglan telur að kærði muni geta torveldað rannsókn málsins gangi hann laus.

Þegar litið er til gagna málsins verður fallist á það með lögreglu að kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa framið brot sem varðað geti við 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Rannsókn málsins er umfangsmikil og haldi kærði óskertu frelsi  gæti hann torveldað rannsókn málsins, m.a. með því að hafa áhrif á framburð vitorðsmanna eða vitna. Með vísan til a liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er fallist á kröfu lögreglustjóra um gæsluvarðhald eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði. Fallist verður á með lögreglustjóra að kærði sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.

Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 7. maí 2010, kl. 16.00.

Kærði skal sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldsvist hans stendur.