Hæstiréttur íslands

Mál nr. 170/2014


Lykilorð

  • Skuldabréf
  • Gengistrygging
  • Greiðsla
  • Vextir


                                     

Fimmtudaginn 25. september 2014.

Nr. 170/2014.

Arion banki hf.

(Stefán A. Svensson hrl.)

gegn

Guðbjörgu Elínu Ragnarsdóttur

(Björn Þorri Viktorsson hrl.)

Skuldabréf. Gengistrygging. Greiðsla. Vextir.

G höfðaði mál á hendur A hf. og krafðist viðurkenningar á því að eftirstöðvar skuldabréfs næmu tiltekinni fjárhæð. Fyrir Hæstarétti greindi aðila einvörðungu á um hvort líta ætti svo á að vextir af skuld G við A hf. vegna tilgreinds tímabils hefðu verið greiddir með því að svo hefði samist með þeim að þessir vextir yrði lagðir við höfuðstól skuldarinnar, sem hefði hækkað sem því nam. Hæstiréttur vísaði til þess að aðilarnir hefðu samið í fjögur skipti um tiltekna frestun greiðslna G, sem samið hafði verið um í skuldabréfinu, þar af þrisvar með þeim skilmála að áfallnir vextir bættust við höfuðstól skuldarinnar. Taldi rétturinn að með þessum samningum hefðu engin kröfuréttindi A hf. liðið undir lok, heldur hefðu þeir aðeins falið í sér umlíðan skuldar G, sem greidd yrði á síðari stigum í annars konar áföngum en upphaflega var ráðgert. Fyrrgreind skipan hefði ekki að geyma megineinkenni greiðslu samkvæmt almennum reglum kröfuréttar. Með því að aðilarnir höfðu hvorki borið álitaefnið undir Hæstarétt með tilliti til þess hvort fyrrgreindir samningar um skilmálabreytingar byndu hendur þeirra um fjárhæð vaxta, né heldur hvort annar samningsaðila gæti losnað undan slíkri skuldbindingu eða fengið henni vikið til hliðar eða breytt eftir reglum fjármunaréttar um ógilda löggerninga, var A hf. sýknaður af kröfu G.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson og Gunnlaugur Claessen fyrrverandi hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 10. mars 2014. Hann krefst sýknu af kröfu stefndu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Málið á rætur að rekja til þess að stefnda gaf út 14. mars 2008 veðskuldabréf til Kaupþings banka hf., þar sem sagði meðal annars í fyrirsögn að lán samkvæmt því væri gengistryggt með breytilegri myntkörfu. Samkvæmt skuldabréfinu var fjárhæð þess jafnvirði 25.000.000 króna í nánar tilgreindum hlutföllum í bandaríkjadölum, evrum, japönskum jenum og svissneskum frönkum. Grunnvextir af skuldinni yrðu 6,33% vegna bandaríkjadala, 6,27% vegna evra, 2,42% vegna japanskra jena og 4,29% vegna svissneskra franka. Álag á þá vexti væri 1,7%, en þeir skyldu vera breytilegir og háðir ákvörðun bankans hverju sinni, þó þannig að breytingar mætti ekki gera oftar en á þriggja mánaða fresti. Skuldina átti að endurgreiða með 360 jöfnum mánaðarlegum afborgunum og vextir að greiðast samhliða þeim, í fyrsta sinn 1. apríl 2008.

Fyrir liggur að stefnda stóð skil á umsömdum afborgunum og vöxtum samkvæmt framansögðu í mánuðunum frá og með apríl til og með október 2008. Fyrir næsta gjalddaga skuldarinnar ákvað Fjármálaeftirlitið 9. október 2008 að neyta heimildar samkvæmt 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, til að taka yfir vald hluthafafundar í Kaupþingi banka hf., víkja stjórn hans frá og setja yfir hann skilanefnd. Í framhaldi af því ráðstafaði Fjármálaeftirlitið 21. sama mánaðar nánar tilteknum eignum og skuldum eldri bankans til nýs, sem nú ber heiti áfrýjanda. Óumdeilt er að framangreind skuldbinding stefndu hafi verið meðal þeirra eigna, sem áfrýjandi tók við á þennan hátt.

Málsaðilar undirrituðu 4. nóvember 2008 skjal með yfirskriftinni: „Breyting á greiðsluskilmálum skuldabréfs með erlendu myntviðmiði“. Þar var ákveðið að skuldin, sem þá væri að „jafnvirði ISK 38.719.135“, yrði endurgreidd með 353 mánaðarlegum afborgunum frá og með 1. mars 2009, en vextir yrðu reiknaðir frá 1. október 2008. Til frekari skýringa sagði eftirfarandi: „Afb. og vextir fryst í 4. mán. Vaxtakjör óbreytt og lán lengt í 4. mán.“ Tekið var fram að ákvæði skuldabréfsins skyldu að öðru leyti vera óbreytt.

Aftur undirrituðu aðilarnir skjal 5. mars 2009 með samsvarandi yfirskrift. Þessu sinni sagði að þau hafi orðið ásátt „um þá breytingu á efni veðskuldabréfsins, að næstu afborgun þess er frestað til 01.06.2009. Áfallnir vextir frá breytingadegi þann 01.10.2008 til og með 01.05.2009 leggjast við höfuðstól lánsins og mynda nýjan höfuðstól. Síðasti gjalddagi lánsins verður þann 01.10.2038.“ Fram kom að „fjöldi afborgana og vaxta“ yrði upp frá því 353, gjalddagar yrðu mánaðarlegir frá 1. júní 2009, en vextir „af nýjum höfuðstól“ myndu reiknast frá 1. maí sama ár. Þá sagði að lánið væri „fryst í 3 mánuði og lengt sem því nemur“, en önnur ákvæði skuldabréfsins yrðu óbreytt. Áfrýjandi kveður þá höfuðstólsfærslu vaxta, sem um ræddi í skjalinu, hafa verið gerða 4. maí 2009.

Enn stóðu aðilarnir að skjali 8. júní 2009 með samsvarandi fyrirsögn, þar sem þau lýstu sig ásátt „um þá breytingu á efni veðskuldabréfsins, að næstu greiðslu þess er frestað til 01.09.2009. Áfallnir vextir frá breytingadegi þann 04.05.2009 til og með 01.08.2009 leggjast við höfuðstól lánsins og mynda nýjan höfuðstól. Síðasti gjalddagi lánsins verður þann 01.01.2039.“ Sem fyrr var ákveðið að afborganir af eftirstöðvum skuldarinnar yrðu 353, þær yrðu greiddar ásamt vöxtum mánaðarlega frá 1. september 2009, en vextir af „nýjum höfuðstól“ yrðu reiknaðir frá 1. ágúst sama ár. Eftirfarandi var einnig tekið fram: „Afb. og vextir fryst í 3 mán, lán lengt sem því nemur, vaxtakjör óbreytt.“ Ákvæðum skuldabréfsins um önnur atriði var ekki breytt. Samkvæmt málatilbúnaði áfrýjanda voru vextir, sem skjalið tók til, lagðir mánaðarlega við höfuðstól skuldarinnar.

Loks rituðu aðilarnir 2. september 2009 undir skjal með samsvarandi yfirskrift og áður var getið. Þar kváðust þau vera ásátt „um þá breytingu á efni bréfsins, að næstu greiðslu er frestað til 01.09.2010. Áfallnir vextir frá breytingardegi lánsins þann 04.08.2009 til og með 01.08.2010 leggjast við höfuðstól lánsins og mynda nýjan höfuðstól. Síðasti gjalddagi lánsins verður þann 01.01.2040.“ Bæri að greiða „eftirstöðvar lánsins í samræmi við ofangreint“ á þann hátt að vextir af nýjum höfuðstól yrðu reiknaðir frá 1. ágúst 2010 og mánaðarlegir gjalddagar 353, sá fyrsti 1. september 2010. Enn var áréttað að önnur ákvæði skuldabréfsins yrðu óbreytt. Áfrýjandi segir vexti á tímabilinu, sem um ræddi í skjalinu, hafa verið lagða mánaðarlega við höfuðstól skuldarinnar, síðast 28. júní 2010. Af gögnum málsins verður ráðið að stefnda innti af hendi greiðslur í samræmi við þessa breyttu skilmála frá 1. september 2010 að telja.

Áfrýjandi gerði endurútreikning 17. febrúar 2011 á skuld stefndu, sem hann kveður hafa verið í samræmi við ákvæði X og XI til bráðabirgða við lög nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 2. gr. laga nr. 151/2010. Í útreikningnum kom fram að skuldin næmi 34.395.652 krónum eftir skilmálum skuldabréfsins með áorðnum breytingum. Gengið var út frá því að ákvæðum þess um að fjárhæð skuldarinnar tæki mið af gengi áðurnefndra erlendra gjaldmiðla yrði ekki beitt og var staða hennar því reiknuð út á nýjan leik. Í því efni var lagt til grundvallar að líta yrði svo á að skuldin hefði þess í stað verið í íslenskum krónum án verðtryggingar og frá öndverðu borið þá vexti, sem Seðlabanki Íslands hafi ákveðið hverju sinni eftir 4. gr. laga nr. 38/2001. Fjárhæð þessara vaxta var reiknuð út og lögð við upphaflegan höfuðstól skuldarinnar, en síðan voru dregnar frá greiðslur, sem stefnda hafði innt af hendi í apríl til október 2008 og frá september 2010 til febrúar 2011, ásamt reiknuðum vöxtum af þeim. Þannig var komist að þeirri niðurstöðu að „nýr höfuðstóll“ skuldarinnar væri 31.243.779 krónur. Á grundvelli þessa útreiknings undirritaði stefnda yfirlýsingu 20. febrúar 2011, þar sem fram kom að hún gerði ekki athugasemdir við hann og kysi að breyta skuldbindingu sinni þannig að hún yrði „lán með verðtryggðum vöxtum Seðlabanka Íslands, fyrstu fimm árin“. Þessu til samræmis undirrituðu aðilarnir sama dag skjal um skilmálabreytingu „láns í íslenskum krónum, sem áður var í erlendum myntum“, þannig að það yrði jafngreiðslulán með verðtryggingu samkvæmt vísitölu neysluverðs og breytilegum vöxtum. Nýja fjárhæð skuldarinnar, áðurnefndar 31.243.779 krónur, átti stefnda að endurgreiða með 346 mánaðarlegum afborgunum, í fyrsta sinn 5. mars 2011.

Aftur gerði áfrýjandi endurútreikning á láni stefndu 7. maí 2013, en samkvæmt honum námu eftirstöðvar skuldarinnar fyrir útreikninginn 33.189.920 krónum miðað við 20. febrúar sama ár. Þessu sinni tók útreikningurinn mið af því að greiddar afborganir kæmu til frádráttar höfuðstól skuldarinnar og að vextir teldust endanlega gerðir upp fram til 1. október 2008 með þeim fjárhæðum, sem stefnda hafi þá samanlagt verið búin að greiða, en vöxtum vegna tímabilsins þar á eftir, sem munu hafa verið reiknaðir eftir 4. gr. laga nr. 38/2001, væri bætt við höfuðstól skuldarinnar, sem væri þannig að eftirstöðvum 29.395.733 krónur.

Stefnda fellir sig ekki við síðastgreindan útreikning, þar sem hún telur áfrýjanda ekki með réttu mega endurreikna vexti af skuld hennar fyrir tímabilið frá 1. október 2008 til 28. júní 2010 á þann hátt að vextir samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 verði látnir koma í stað vaxtanna, sem kveðið var á um í skuldabréfinu 14. mars 2008 og ákveðið var að leggja við höfuðstól skuldarinnar með fyrrnefndum skilmálabreytingum. Telur hún að vextirnir hafi í raun verið að fullu greiddir með höfuðstólsfærslu þeirra og séu þá aðilarnir eins settir og áfrýjandi hefði gefið fullnaðarkvittun fyrir vöxtunum. Samkvæmt útreikningi, sem stefnda aflaði frá áfrýjanda, hefði skuld hennar numið 26.575.824 krónum 5. febrúar 2013 hefði skuldin verið endurreiknuð á þennan hátt og leitar hún í málinu viðurkenningar á því að skuldin hafi verið þessarar fjárhæðar nefndan dag. Í greinargerð áfrýjanda fyrir héraðsdómi var því lýst yfir að hann samþykkti að þessi dómkrafa stefndu næði fram að ganga ef litið yrði svo á að höfuðstólsfærsla vaxta af skuld hennar vegna tímabilsins 1. október 2008 til 28. júní 2010 hafi verið jafngildi greiðslu á þeim og hefur hann áréttað það í málatilbúnaði sínum fyrir Hæstarétti.

II

Eins og aðilarnir hafa hvort fyrir sitt leyti ráðstafað sakarefninu í máli þessu stendur ágreiningur þeirra samkvæmt framansögðu um það eitt hvort líta eigi svo á að vextir af skuld stefndu við áfrýjanda vegna tímabilsins 1. október 2008 til 28. júní 2010 hafi verið greiddir með því að svo hafi samist með þeim að þessir vextir yrðu lagðir við höfuðstól skuldarinnar, sem hafi hækkað sem því nam. Álitaefni um þetta eru hvorki lögð fyrir dóminn með tilliti til þess hvort fyrrgreindir samningar aðilanna um skilmálabreytingar bindi hendur þeirra um fjárhæð vaxtanna né hvort annað þeirra geti losnað undan slíkri skuldbindingu eða fengið henni vikið til hliðar eða breytt eftir reglum fjármunaréttar um ógilda löggerninga.

Samkvæmt almennum reglum kröfuréttar ber skuldara að inna af hendi til kröfuhafa þá greiðslu, sem kveðið er á um í samningi milli þeirra, eftir nánari fyrirmælum samningsins og að þeim slepptum eftir þeim réttarreglum, sem gilda um lögskipti þeirra. Óhjákvæmileg afleiðing þeirra efnda skuldarans, sem greiðsla felur í sér, er jafnframt sú að hann losnar undan skyldu sinni og kröfuréttindin líða þar með undir lok. Þegar kveðið er á um skyldu í samningi til að greiða skuld í tilteknum áföngum, svo sem á við um lánssamning aðilanna sem skuldabréf stefndu til Kaupþings banka hf. 14. mars 2008 fól í sér, gildir það sama og að framan segir sjálfstætt um hvern áfangann, sem birtist þá í mynd afborgunar eða annars konar hlutagreiðslu af umfangsmeiri skuldbindingu. Þó svo að það hafi ekki berum orðum verið sagt í fyrrnefndu skuldabréfi að stefndu bæri að inna af hendi greiðslu afborgana af höfuðstól skuldar sinnar og vaxta með peningum er ótvírætt eftir almennum reglum kröfuréttar að það hafi henni verið skylt að gera. Óumdeilt er að engar slíkar peningagreiðslur fóru fram á tímabilinu, sem ágreiningur í máli þessu varðar. Þess í stað sömdu aðilarnir í fjögur skipti um tiltekna frestun greiðslna stefndu, sem samið hafði verið um í skuldabréfinu, þar af þrisvar með þeim skilmála að áfallnir vextir bættust við höfuðstól skuldarinnar. Með þessum samningum liðu engin kröfuréttindi áfrýjanda undir lok, heldur fólu þeir aðeins í sér umlíðan skuldar stefndu, sem greidd yrði á síðari stigum í annars konar áföngum en upphaflega var ráðgert. Sú skipan, sem leiddi af þessum samningum, geymir þannig engin þau megineinkenni greiðslu, sem að framan var getið. Engu getur hér breytt að farið sé við ákvörðun opinberra gjalda og vaxtabóta á grundvelli laga nr. 90/2003 um tekjuskatt með vexti, sem lagðir eru við höfuðstól skuldar á sama hátt og um ræðir í máli þessu, eins og þeir hefðu í raun verið greiddir, enda hafa slíkar reglur um skatta ekki áhrif á efni skyldna í kröfuréttarsambandi, sem lýtur reglum einkaréttar. Við úrlausn málsins getur heldur engu skipt, svo sem stefnda ber fyrir sig, að ákvæði 12. gr. laga nr. 38/2001 girði fyrir að leggja megi áfallna vexti við höfuðstól skuldar oftar en á tólf mánaða fresti, en mál þetta er ekki rekið um gildi skuldbindinga stefndu samkvæmt samningum aðilanna um breytingar á upphaflegum ákvæðum skuldabréfs hennar.

Að virtu framangreindu og eins og aðilarnir hafa ráðstafað sakarefninu í málinu verður að sýkna áfrýjanda af kröfu stefndu. Rétt er að þau beri hvort sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Arion banki hf., er sýkn af kröfu stefndu, Guðbjargar Elínar Ragnarsdóttur.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. febrúar 2014.

I.

Mál þetta, sem tekið var til dóms 11. febrúar sl., er höfðað með áritun á stefnu 27. júní 2013.

Stefnandi er Guðbjörg Ragnarsdóttir, Dalprýði 3, Garðabæ.

Stefndi er Arion banki hf., Borgartúni 19, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru þær að viðurkennt verði með dómi að eftirstöðvar skuldabréfs nr. 0318-35-007274, dags. 14. mars 2008, upphaflega að fjárhæð 25.000.000 króna, hafi þann 5. febrúar 2013 verið 26.575.824 krónur.

Þá er þess krafist að stefnda, Arion banka hf., verði gert að greiða stefnanda málskostnað að mati dómsins. Þá er krafist virðisaukaskatts á málskostnað.

Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda. Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda að skaðlausu samkvæmt mati réttarins.

II.

Um aðild stefnda að málinu segir í stefnu að stefnandi hafi gefið út skuldabréf nr. 0318-35-007274 til Kaupþings banka hf. hinn 14. mars 2008. Við fall Kaupþings banka hf. haustið 2008 hafi Fjármálaeftirlitið tekið yfir vald hluthafafundar bankans 9. október og með ákvörðun eftirlitsins 21. október 2008 hafi Nýi Kaupþing banki hf. verið stofnaður, nú Arion banki hf., stefndi í máli þessu. Með ákvörðuninni hafi verið ákveðið hvaða eignir og skuldir skyldu fluttar úr gamla bankanum yfir í þann nýja, en umrætt skuldabréf hafi verið þar á meðal. Arion banka hf. sé því réttilega stefnt í máli þessu.

Málsatvik eru þau að stefnandi gaf út fyrrgreint skuldabréf nr. 7274 hinn 14. mars 2008 til fyrirrennara stefnda vegna byggingar íbúðarhúsnæðis. Skuldabréfið var upphaflega að fjárhæð 25.000.000 króna, gengistryggt miðað við nánar greindar fjórar myntir í eftirfarandi hlutföllum, USD 10%, EUR 30%, CHF 30% og JPY 30%. Í vexti af höfuðstól skuldarinnar bar stefnanda að greiða breytilega vexti eins og þeir væru ákveðnir af Kaupþingi banka hf. á hverjum tíma og tók það jafnt til kjörvaxta hverrar myntar og vaxtaálags. Var Kaupþingi banka hf. heimilt að breyta vöxtunum á þriggja mánaða fresti til samræmis við þá vexti sem þá giltu gagnvart nýjum sambærilegum og/eða hliðstæðum lánum. Grunnkjörvextir við undirritun skuldabréfsins voru 4,53% auk vaxtaálags 1,70%, samtals 6,23%.

Við gerð lánssamningsins var gefin út greiðsluáætlun þar sem fram komu upplýsingar samkvæmt 6. gr. laga um neytendalán nr. 121/1994. Í greiðsluáætluninni kom fram að vextir væru 6,23% og árleg hlutfallstala kostnaðar væri 6,83%. Þá kom fram að önnur afborgun af skuldabréfinu yrði samtals að fjárhæð 199.476 krónur og færi svo lækkandi. Rituðu báðir aðilar undir umrædda greiðsluáætlun. Stefnandi greiddi af umræddu skuldabréfi mánaðarlega og hækkaði greiðsla afborgana og vaxta samkvæmt greiðsluáætlun strax í annarri greiðslu skuldabréfsins um rúmar 20.000 krónur. Þá fóru vextir hækkandi vegna lánsins.

Í kjölfar efnahagshrunsins á haustmánuðum 2008 hækkaði greiðsla stefnanda mikið en á gjalddaga 2. október 2008 greiddi stefnandi 319.437 krónur. Átti þá gengi krónunnar eftir að lækka enn meira. Eins og áður greinir tók Fjármálaeftirlitið yfir vald hluthafafundar 9. október 2008. Í kjölfar þess og vegna þeirrar miklu óvissu sem var á þessum tíma kveðst stefnandi hafa óskað eftir fundi með stefnda sem hafði þá tekið við innheimtu lánsins. Hafi aðilar verið sammála um að frysta afborganir af skuldabréfinu. Í framhaldinu voru gerðar fjórar skilmálabreytingar vegna lánsins:

Fyrst var gerð breyting á greiðsluskilmálum skuldabréfsins 4. nóvember 2008. Samið var um að afborganir og vextir skyldu fryst í fjóra mánuði og að gjalddagi fyrstu afborgunar eftir frystingu yrði 1. mars 2009. Vextir skyldu reiknast frá 1. október 2008 til 1. mars 2009 og skyldu vaxtakjör vera óbreytt. Lánið skyldi lengt um fjóra mánuði. Eftirstöðvar lánsins samkvæmt skilmálabreytingunni voru á þessum tíma 34.444.560 krónur.

Önnur breyting á greiðsluskilmálum skuldabréfsins átti sér stað 5. mars 2009. Samið var um að næstu afborgun af skuldabréfinu yrði frestað til 1. júní 2009. Jafnframt að áfallnir vextir frá 1. október 2008 til og með 1. maí 2009 yrðu lagðir við höfuðstól lánsins og mynduðu nýjan höfuðstól. Eftirstöðvar lánsins samkvæmt skilmálabreytingunni voru á þessum tíma 37.246.391 króna. Framangreind höfuðstólsfærsla átti sér stað 4. maí 2009, sem var fyrsti bankadagur eftir 1. maí.

Þriðja breytingin á greiðsluskilmálum skuldabréfsins er dagsett 8. júní 2009. Samið var um að næstu afborgun af skuldabréfinu yrði frestað til 1. september 2009 og að áfallnir vextir frá 4. maí 2009 til og með 1. ágúst 2009 yrðu lagðir við höfuðstól lánsins og mynduðu nýjan höfuðstól. Eftirstöðvar lánsins á þeim tíma voru samkvæmt skilmálabreytingunni 43.382.461 króna. Á grundvelli þessarar skilmálabreytingar voru vextir, sem stefnandi skyldi greiða mánaðarlega fyrir þetta tímabil, höfuðstólsfærðir mánaðarlega.

Fjórða breytingin á greiðsluskilmálum skuldabréfsins er dagsett 2. september 2009. Samið var um að næstu afborgun af skuldabréfinu yrði frestað til 1. september 2010. Jafnframt að áfallnir vextir frá 4. ágúst 2009 til og með 1. ágúst 2010 yrðu lagðir við höfuðstól lánsins og mynduðu nýjan höfuðstól. Eftirstöðvar lánsins voru samkvæmt skilmálabreytingunni á þeim tíma 10.535.207 krónur, en stefnandi kveður að hér hafi augljóslega verið um einhverja villu að ræða hjá stefnda. Á grundvelli þessarar skilmálabreytingar voru vextir, sem stefnandi skyldi greiða mánaðarlega fyrir þetta tímabil, höfuðstólsfærðir mánaðarlega, en þó einungis til 28. júní 2010, en fyrsta vaxtagreiðslan sem innt var af hendi eftir frystingu lánsins miðaðist við vaxtatímabil sem byrjaði þann dag.

Fyrri endurútreikningur á framangreindu láni var gerður í febrúar 2011 og var hann byggður á bráðabirgðaákvæði X og XI í lögum nr. 151/2010 um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Niðurstaða endurútreikningsins var sú að lánið væri að fjárhæð 31.243.779 krónur og hafði þá lækkað um 3.151.873 krónur. Eftir að fyrri endurútreikningur lánsins lá fyrir kaus stefnandi að miða vexti næstu fimm ára þar á eftir við lægstu vexti á nýjum almennum verðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum sem Seðlabanki Íslands ákveður og birtir, sbr. áðurgreint bráðabirgðaákvæði X. Hinn 20. febrúar 2011 var gerð skilmálabreyting á umræddu skuldabréfi þar sem fjárhæð þess, 31.243.779 krónur, var bundin vísitölu neysluverðs auk verðtryggðra vaxta Seðlabanka Íslands. Átti þetta sér stað áður en stefndi viðurkenndi ólögmæti gengistryggingar lánsins.

Í kjölfar dóms Hæstaréttar í máli nr. 600/2011, og síðan í máli 646/2012 lýsti stefndi því yfir að endurreikna þyrfti að nýju gengistryggð lán og þar á meðal lán stefnanda. Var síðari endurútreikningur lánsins gerður 20. febrúar 2013 og samkvæmt honum voru eftirstöðvar höfuðstóls þann dag 29.313.376 krónur. Stefndi kveður að í hnotskurn hafi lánið verið endurreiknað með þeim hætti að afborganir af höfuðstól skuldarinnar kæmu að fullu til frádráttar höfuðstólnum, án gengistryggingar eða verðtryggingar af öðru tagi, á því tímabili, sem vextir hefðu að sönnu verið greiddir. Útreikningurinn hafi hins vegar gert ráð fyrir að á tímabilinu frá 1. október 2008 til 28. júní 2010, þ.e. þegar engar vaxtagreiðslur hafi verið inntar af hendi, reiknuðust vextir samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001 af láninu.

Stefnandi kveðst hafa tilkynnt stefnda að hann teldi endurútreikninginn rangan og að miða hefði átt við samningsvexti á því tímabili þar sem greiðslur afborgana voru frystar og vextir höfuðstólsfærðir. Jafnframt að stefnandi teldi að um sannanlega greiðslu hefði verið að ræða á þessu tímabili, enda væru vextir reiknaðir af uppreiknuðum höfuðstól. Stefndi hafi verið þessum sjónarmiðum ósammála og lýst því yfir að hann teldi endurútreikninginn réttan, enda hefði ekki komið „físísk“ greiðsla vegna vaxtanna.

Í stefnu segir að við undirbúning málsins hafi lögmaður stefnanda fengið gögn frá stefnda og að auki hafi stefndi, að ósk stefnanda, reiknað út hverjar eftirstöðvar skuldabréfsins væru ef notaðir væru samningsvextir í stað seðlabankavaxta á því tímabili er frysting afborgana og höfuðstólsfærsla vaxta átti sér stað. Niðurstaða stefnda hafi verið sú að hinn 5. febrúar 2013 hefðu eftirstöðvar skuldabréfsins átt að nema 26.575.824 krónum, sem sé í samræmi við viðurkenningarkröfu stefnanda. Þá hafi stefnandi einnig fengið sambærilegan útreikning frá stefnda miðað við að notaðir væru seðlabankavextir.

Fyrir dóminn kom sem vitni, Bragi Þorsteinn Bragason, eiginmaður stefnanda.

III.

Stefnandi kveður deilu málsaðila snúast um það hvort skilmálabreytingar, sem feli í sér að áfallnir vextir séu lagðir við höfuðstól skuldar og að vextir séu reiknaðir af uppreiknuðum höfuðstól, geti falið í sér greiðslu stefnanda á vöxtum þannig að hann hafi réttmæta ástæðu til þess að ætla að ekki komi til frekari vaxtareiknings fyrir þau tímabil. Í þeirri spurningu felist hvort sú fyrirvaralausa höfuðstólsfærsla og eftirfarandi vaxtareikningur stefnda jafngildi því að stefnandi hafi fengið fullnaðarkvittun fyrir greiðslu vaxta fyrir tímabilið 1. október 2008 til 1. september 2010 og að stefnda sé þannig óheimilt að krefja stefnanda um frekari vexti fyrir það tímabil.

Stefnandi bendir á að það tímabil sem um ræði í málinu sé frá 1. október 2008 til 1. september 2010. Hinn 4. nóvember 2008 hafi verið gerð skilmálabreyting á skuldabréfinu sem falið hafi í sér að vextir skyldu reiknast á höfuðstól skuldabréfsins frá 1. október 2008 til 1. mars 2009 þegar stefnandi skyldi á ný greiða afborganir af skuldabréfinu. Samkvæmt tilkynningu stefnda um greiðslu á gjalddaga þann dag hafi stefnandi átt að greiða USD 1.079,30, CHF 3.264,98, EUR 2.690,80 og JPY 242.007 miðað við jafnvirði þeirra mynta í íslenskum krónum á greiðsludegi. Þá komi þar fram að vaxtatímabil sé frá 1. október 2008 til 2. mars 2009 en vextir séu mismunandi eftir myntum. Stefnandi kveður talsverða óvissu hafa enn verið uppi á þessum tíma um það hvernig skyldi haga málum varðandi hin svokölluðu gengistryggðu lán og hafi aðilar því gert með sér samkomulag um aðra skilmálabreytingu hinn 5. mars 2009, sem falið hafi í sér að áfallnir vextir frá 1. október 2008 til og með 1. maí 2009 skyldu lagðir við höfuðstól þann dag og mynda nýjan höfuðstól. Þá hafi afborganir lánsins verið frystar í þrjá mánuði og lánið lengt sem því hafi numið. Sérstaklega sé tekið fram í skilmálabreytingunni að greiðsla á gjalddaga verði hærri til framtíðar. Samkvæmt tilkynningu stefnda um greiðslu á gjalddaga 2. júní 2009 hafði áföllnum vöxtum verið bætt við höfuðstól lánsins. Þannig hafi t.d. eftirstöðvar í USD samkvæmt þeirri tilkynningu verið 36.311.62 í stað 34.965,59 og því hafi vextir að fjárhæð 1.346,03 verið lagðir við höfuðstól þess hluta. Beri að geta þess að þeir vextir sem komi fram í tilkynningunni, þ.e. USD 128,41 hafi verið reiknaðir af hinum uppreiknaða höfuðstól fyrir vaxtatímabilið 4. maí 2009 til 2. júní 2009.

Hinn 8. júní 2009 hafi á ný verið gerð skilmálabreyting sem falið hafi í sér að næstu greiðslu afborgunar hafi verið frestað til 1. september 2009 og að áfallnir vextir frá 4. maí 2009 skyldu leggjast við höfuðstól lánsins og mynda nýjan höfuðstól. Í millitíðinni hafi stefnanda hins vegar borist kvittun fyrir greiðslu um að hún hefði hinn 1. júlí 2009 greitt samtals 275.595 krónur, en stefnandi kannist ekki við slíka greiðslu né heldur greiðslu samkvæmt kvittun 1. september 2009, en þessara greiðslna sé ekki getið í framlögðum gögnum stefnda. Samkvæmt tilkynningu stefnda 20. ágúst 2009 sé ljóst að áfallnir vextir frá 4. maí 2009 höfðu verið lagðir við höfuðstól. Þannig hafi eftirstöðvar í USD samkvæmt þeirri tilkynningu verið 36.600,14 í stað 36.311,62 í fyrri tilkynningu og hafi vextir verið reiknaðir af þeirri fjárhæð.

Hinn 2. september 2009 hafi enn á ný verið gerð skilmálabreyting sem falið hafi í sér að greiðslu afborgunar hafi verið frestað í eitt ár eða til 1. september 2010. Áfallnir vextir frá síðasta breytingardegi lánsins hinn 4. ágúst 2009 til og með 1. ágúst 2010 skyldu lagðir við höfuðstól þann dag og skyldi reikna vexti af uppreiknuðum höfuðstól. Samkvæmt greiðslutilkynningu 20. ágúst 2010 höfðu vextir verið lagðir við höfuðstól og hafi eftirstöðvar USD nú verið tilgreindar 38.035,36 í stað 36.311,62. Af þeim höfuðstól hafi verið reiknaðir 3,74% vextir fyrir vaxtatímabilið 3. ágúst 2010 til 1. september 2010. Allar þessar skilmálabreytingar hafi falið í sér að stefnandi greiddi vaxtavexti af uppreiknuðum höfuðstól skuldarinnar.

Stefnandi kveður að í dómum Hæstaréttar í málum nr. 600/2011, 464/2012 og nú síðast í máli nr. 50/2013 hafi rétturinn leitast við að skýra þau sjónarmið sem komi til greina þegar metið sé hvort kröfuhafi, sem hafi fengið minna greitt en hann hafi átt rétt til, eigi kröfu á hendur skuldara um það sem vangreitt hefur verið. Frá þeirri reglu séu þó undantekningar, m.a. um að fullnaðarkvittun geti að vissum skilyrðum fullnægðum valdið því að kröfuhafi glati frekari kröfu. Í máli þessu nemi viðbótarkrafa stefnda á hendur stefnanda fyrir tímabil skilmálabreytinganna 2.737.552 krónum, en hafa verði í huga að stefndi hafi þegar fallist á að krefja stefnanda ekki um frekari greiðslur fyrir þau tímabil er stefnandi greiddi vexti án þess að þeim væri bætt við höfuðstólinn. Snúist ágreiningur aðila því einungis um það tímabil er stefnandi og stefndi gerðu með sér samkomulag um skilmálabreytingu á skuldinni.

Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 50/2013 sé gerð grein fyrir þeim skilyrðum sem horfa beri til. Í dómi réttarins segi m.a.:

,,Þau atriði sem líta verður til við mat á því hvort svo standi á eru í fyrsta lagi hvort skuldari hafi verið í góðri trú, það er hafi hvorki vitað né mátt vita að greiðsla hans var ófullnægjandi þegar hann innti hana af hendi. Í öðru lagi hvort sá aðstöðumunur hafi verið á samningsaðilum að það réttlæti að hafna beri viðbótarkröfu. Í þriðja lagi hvorum aðilanum standi nær að bera áhættu af þeim mistökum sem leiða til þess að vangreitt hefur verið. Í því sambandi skiptir einkum máli hvort festa hafi verið komin á framkvæmd samnings, hversu langur tími líði frá því að mistök komi fram þar til krafa er höfð uppi, hvort öðrum samningsaðila megi fremur kenna um að mistök hafi orðið, hvort samningssambandið sé í eðli sínu einfalt eða flókið og hvert sé umfang viðbótarkröfu. Ekkert eitt þessara atriða getur ráðið úrslitum um það hvort kröfuhafi eigi rétt á viðbótargreiðslum, heldur ræður þar heildarmat á aðstæðum öllum, en því verulegra sem óhagræði skuldarans yrði af viðbótargreiðslu því sterkari eru röku til að víkja megi frá reglunni.“

Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 600/2011 sé sérstaklega hnykkt á því að sú regla að skuldari geti borið fyrir sig fullnaðarkvittun styðjist m.a. við sjónarmið um öryggi í viðskiptum. Þannig hafi skuldari við móttöku kvittunar fengið í hendur viljayfirlýsingu kröfuhafa um að greiðslu sé lokið og þar með haft réttmæta ástæðu til að ætla að hann hafi verið búinn að gera upp að fullu greiðslu sína á viðkomandi gjalddaga og getað treyst því að ekki kæmi til frekari kröfu síðar.

Stefnandi sé neytandi í skilningi laga um neytendalán nr. 121/1994 og ekki sérfræðingur í lánamálum. Fyrirrennari stefnda hafi hins vegar verið stærsta fjármálafyrirtæki Íslandssögunnar sem boðið hafi viðskiptavinum sínum upp á ýmis kjör, þar með talin lán með gengistryggingu sem síðar hafi reynst ólögmæt. Stefnandi hafi verið fullkomlega grandlaus um bann við gengistryggingu, enda hafi stefnandi treyst því að bankinn væri að bjóða upp á fjármálaafurð sem stæðist lög. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 50/2013 segi um þetta atriði:

,,Sem fjármálafyrirtæki stóð það SP-Fjármögnun hf. nær að gæta að því að samningurinn við áfrýjanda væri í samræmi við heimildir laga nr. 38/2001. Fyrir fjármálafyrirtæki hefði ekki átt að vera flókið að gæta að lögmæti samningsákvæða, en það sama á ekki við um áfrýjanda.“

Stefnandi kveðst telja að sömu sjónarmið eigi við í þessu máli um stefnanda og stefnda.

Hafa verði í huga að á þeim tíma sem samið hafi verið um lánveitingu fyrirrennara stefnda til stefnanda og eftirfarandi útgáfu skuldabréfs til viðurkenningar á þeirri lánveitingu hafi lægstu vextir Seðlabanka Íslands á óverðtryggðum vöxtum numið 16,5%. Í lánssamningi aðila séu vextir og vaxtaálag samanlagt 6,23%. Hin ólögmæta gengistrygging sem fyrirrennari stefnda hafi komið fyrir í lánssamningum sínum hafi því orðið að hvata fyrir stefnanda að leita viðskipta við stefnda. Samkvæmt greiðsluáætlun sem fyrirrennari stefnda hafi útbúið skyldi stefnandi greiða rétt tæplega 200.000 krónur á gjalddaga 1. maí 2008 og færu þær greiðslur síðan lækkandi. Stefnandi hafi ávallt greitt hærri greiðslur heldur en þær er komið hafi fram í greiðsluáætlun, enda sé ljóst að bankinn og fjármálakerfið á Íslandi hafi staðið höllum fæti strax í lok árs 2007. Hafi það síðan orðið reyndin að fyrirrennari stefnda hafi fallið og sé nú í slitameðferð og stjórnendur bankans grunaðir um alvarlega markaðsmisnotkun. Við hrun fjármálakerfisins hafi einnig orðið gengishrun sem leitt hafi til þess að hin ólögmæta gengistrygging hafi orðið þess valdandi að lán stefnanda hækkaði mikið. Eftir að hafa fundað með stefnda hafi niðurstaðan orðið sú að heppilegast væri að frysta afborganir og að áfallnir vextir myndu greiðast með því að leggja þá við höfuðstól lánsins.

Komi því til skoðunar hvort slík höfuðstólsfærsla vaxta sem myndað hafi stofn til vaxtavaxta teljist greiðsla og hvort sú aðgerð stefnda að leggja vextina við höfuðstól feli í sér viðurkenningu stefnda um réttar efndir þannig að stefnandi hafi haft réttmæta ástæðu til að ætla að ekki kæmi til viðbótarvaxta fyrir það tímabil er áfallnir vextir hafi verið lagðir við höfuðstól.

Í 12. gr. laga um vexti og verðtryggingu komi fram að sé vaxtatímabil lengra en tólf mánuðir skuli leggja vexti við höfuðstól. Þá sé sérstaklega tekið fram að óheimilt sé að bæta vöxtum við höfuðstól oftar en á tólf mánaða fresti nema um sé að ræða innlánsreikninga. Þess beri að geta að 12. gr. laganna tilheyrir V. kafla laganna og teljist ófrávíkjanlegt ákvæði, sbr. 2. gr. laganna. Með öðrum orðum megi segja að stefnda hafi verið óheimilt að leggja vextina við höfuðstól skuldar stefnanda nema hann liti á slíkt sem greiðslu vaxtanna. Að öðrum kosti hafi stefndi gerst sekur um brot á ákvæðum 12. gr. laga nr. 38/2001. Hér verði því með öðrum orðum að líta svo á að stefndi hafi í raun lánað stefnanda fyrir „físískri“ greiðslu þessara vaxta með því að leggja þá við höfuðstól. Þá sé einnig ljóst að stefndi hafi hagnast á slíkri höfuðstólsfærslu vaxta, enda geti hann þá krafið stefnanda í framhaldinu um vaxtavexti á hærri höfuðstól. Stefndi sé fjármálafyrirtæki á lánamarkaði og ætti að vera ljós þau lög sem gildi um vexti, þar á meðal 12. gr. laga nr. 38/2001.

Stefnandi kveðst líta svo á að sú aðferð að höfuðstólsfæra vextina sé sambærilegt og ef stefnandi hefði haft yfirdráttarheimild hjá stefnda á þessum tíma og ávallt hækkað yfirdráttarheimildina í hverjum mánuði til greiðslu vaxta af skuldabréfinu. Óumdeilt sé að slík greiðsla hefði talist greiðsla og fullnaðarkvittun í skilningi framangreindra hæstaréttardóma. Þá kveðst stefnandi líta svo á að fyrirvaralaus hækkun á höfuðstól skuldarinnar og eftirfarandi vaxtareikningur af uppreiknuðum höfuðstól feli í sér yfirlýsingu stefnda um að greiðslu sé lokið fyrir gefin tímabil og því hafi stefnandi haft réttmæta ástæðu til að ætla að hann hefði gert upp að fullu greiðslu sína fyrir viðkomandi gjalddaga og getað treyst því að ekki kæmi til frekari krafna fyrir þau uppgerðu tímabil síðar.

Í kjölfar dóms Hæstaréttar í máli nr. 600/2011 hafi Samtök Fjármálafyrirtækja (SFF) látið lögmannsstofuna LEX lögmannsstofu vinna fyrir sig lögfræðiálit varðandi þýðingu áðurgreinds dóms, en stefndi sé aðili að samtökunum. Í áliti lögmannsstofunnar sé aðeins vikið að þessu atriði varðandi skilmálabreytingar. Þar segi:

,,Hafi skilmálabreytingar verið gerðar á láni án þess að um vanskil hafi verið að ræða og fullnaðarkvittanir til staðar samkvæmt breyttum samningi eiga sömu sjónarmið við og lögð voru til grundvallar í dóminum, þ.e. fjármálafyrirtæki getur ekki í þeim tilvikum krafist mismunar SÍ vaxta og greiddra samningsvaxta. Þá kunna sérstök sjónarmið að eiga við um tilvik þar sem frumkvæði að breytingu greiðslna hefur alfarið verið hjá lánveitanda og/eða stjórnvöldum, en ekki lántaka og því sérstaklega lýst yfir að lántaki glati engum rétti með því að samþykkja viðkomandi greiðslufyrirkomulag. Við slíkar aðstæður er að okkar mati líklegra en hitt að dómstólar muni telja að skuldarar sem voru í fullum skilum áður en slíkum breytingum var komið á og þannig sýnt greiðslugetu og greiðsluvilja, hafi verið rétt að líta svo á að efndir þeirra í samræmi við slíkar breytingar fælu í sér ígildi fullnaðargreiðslu á upprunalegri skuldbindingu.“

Stefnandi kveðst aldrei hafa verið í vanskilum með skuldabréfið. Stefnandi hafi verið í skilum þegar umræddar skilmálabreytingar hafi verið gerðar og hafi staðið í skilum eftir að afborganir hófust að nýju. Kveðst stefnandi telja að framangreint álit LEX lögmannsstofu eigi við um þær aðstæður sem um sé deilt í þessu máli og kveðst byggja á því sem þar komi fram. Hafa verði í huga að ekki hafi verið um neina raunverulega frystingu vaxta að ræða í tilfelli stefnanda. Hefði verið um svokallaða frystingu að ræða þýddi það samkvæmt orðanna hljóðan að engir vextir skyldu lagðir á fyrir það tímabil sem lán var í frystingu. Það hafi ekki verið gert og þvert á móti hafi verið reiknaðir vextir fyrir allt tímabilið og lánið þar að auki lengt um nærri tvö ár. Þannig muni stefndi einnig hagnast á vöxtum sem verði greiddir undir lok lánstímans.

Stefnandi kveðst einnig byggja á 32. gr. samningalaga og sjónarmiðum um rangar og brostnar forsendur. Þegar umræddar skilmálabreytingar hafi verið gerðar hafi stefnandi verið í þeirri trú að hún þyrfti að greiða afborganir og vexti af tvöfölduðum höfuðstól í ljósi hinnar ólögmætu gengistryggingar. Á meðan þetta óvissuástand hafi ríkt hafi verið gert tvíhliða samkomulag við stefnda um að fresta greiðslu afborgana og að áfallnir vextir myndu leggjast við höfuðstól og mynda nýjan höfuðstól. Ákvæði 32. gr. laga nr. 7/1936 fjalli um það álitaefni ef mistök hafa átt sér stað við samningsgerð. Ljóst sé að mistökin felist í því að stefnanda hafi verið gert að greiða vexti af of háum höfuðstól og um hafi verið að ræða greiðslu sem stefnandi hefði getað ráðið við ef höfuðstóll skuldarinnar hefði ekki verið gengistryggður. Krafa stefnda hafi því verið röng á því tímabili og því hafi komið til þessara skilmálabreytinga. Verði stefndi að bera hallann af þeim mistökum sínum.

Þá kveðst stefnandi byggja á því að skattyfirvöld og þar með stjórnvöld hafi lengi litið svo á að í þeim tilvikum er frestuðum greiðslum hafi verið bætt við höfuðstól hafi slík höfuðstólsfærsla verið talin greiðsla á vöxtum, sbr. framlagða útprentun af heimasíðu ríkisskattstjóra þar sem fram koma upplýsingar um greiðslu vaxtabóta, en þar segi eftirfarandi:

„Vextir og verðbætur á afborganir á vexti verða að vera greiddir. Ekki nægir að þeir séu gjaldfallnir. Ef afborgunum og vöxtum láns í vanskilum hefur verið breytt í nýtt lán þá telst vera um greiðslu að ræða. Einnig ef frestuðum greiðslum hefur formlega verið bætt við höfuðstól lánsins og þær þannig greiddar.“

Ljóst sé að rök hnígi til þess að líta svo á að um greiðslu hafi verið að ræða. Telji ríkisvaldið að skattborgarar eigi rétt á endurgreiðslu vaxta í formi vaxtabóta sé það frumskilyrði að slíkir vextir hafi verið greiddir. Svo hafi verið raunin í tilfelli stefnanda. Þessu til stuðnings kveðst stefnandi einnig vísa til framlagðra leiðbeininga ríkisskattstjóra við útfyllingu skattframtals fyrir árið 2013, en þar segi:

,,Sem stofn til vaxtabóta teljast gjaldfallnir vextir og verðbætur sem greiddar voru á árinu. Sé samið um breytingu á skilmálum láns sem er í vanskilum, með því að breyta vanskilunum í nýtt lán, telst sá hluti vanskilanna, sem eru vextir og verðbætur, til gjaldfallinna og greiddra vaxtagjalda þegar þeim er bætt við höfuðstól lánsins, ef það er á sama ári og þau gjaldféllu. Sama á við þegar lán er fryst eða greiðslum frestað, til dæmis með greiðslujöfnun, ef það er gert með þeim skilmálum að hækka höfuðstól lánsins árlega sem nemur frestuðum greiðslum. Sá hluti frestaðra greiðslna sem eru vextir og verðbætur teljast sem vaxtagjöld þegar þeim er bætt við höfuðstól lánsins“.

Að endingu kveðst stefnandi hafa lagt fram útprentun af heimasíðu stefnda varðandi innlánsreikninga í boði fyrir einstaklinga. Um sé að ræða reikning sem kallist ,,Fjárhæðaþrep verðtryggt“, þ.e. verðtryggðan reikning sem bundinn sé til 36 mánaða þar sem vextir séu greiddir mánaðarlega. Þó séu þeir vextir lausir til ráðstöfunar. Innlánseigandi geti þó valið að fá vextina „greidda“ inn á reikninginn og myndi þeir þá grunn til vaxtavaxta. Hér líti stefndi svo á að þegar hann þurfi að reikna vexti til innlánseiganda sé það ,,greiðsla“ þegar þeir vextir séu lagðir við höfuðstól og vaxtavextir reiknaðir af þeim vöxtum.

Stefnandi kveðst líta svo á að meta verði atvik málsins heildstætt. Stefnandi hafi bæði verið algerlega grandlaus um ólögmæti gengistryggingarinnar og þá staðreynd að svokallaðir seðlabankavextir skyldu gilda um lánveitinguna. Eðlilegt þyki að við þessar fordæmalausu aðstæður, þegar heilt bankakerfi hrynur og um þúsundir ólögmætra samninga er að ræða séu lög og meginreglur kröfuréttar, samningaréttar og neytendaréttar séu túlkuð stefnanda í hag.

Hvað varðar lagarök vísar stefnandi til laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, laga um neytendalán nr. 121/1994, meginreglna samninga- kröfu- og neytendaréttar, laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936 og laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Stefnandi kveður kröfu um málskostnað styðjast við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

IV.

Stefndi kveður að ágreiningur aðila snúist um það eitt hvort efni skilmálabreytinga um að ógreiddir vextir skyldu lagðir við höfuðstól lánsins með nánar tilgreindum hætti jafngildi fullnaðargreiðslu vaxta fyrir þau tímabil, sem nánar séu tilgreind í skilmálabreytingunum. Á því tímabili sé því ekki miðað við vexti samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr., laga nr. 38/2001 heldur svokallaða samningsvexti.

Stefndi bendir á að í dómi Hæstaréttar 16. júní 2010 í máli nr. 92/2010 hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að lög nr. 38/2001 heimili ekki að lán í íslenskum krónum séu verðtryggð með því að binda höfuðstól þeirra við gengi erlendra gjaldmiðla.

Í dómi Hæstaréttar 16. september 2010 í máli nr. 471/2010 komi meðal annars fram að umsamin vaxtakjör af því gengisbundna láni sem þar um ræddi hefðu ekki getað komið til álita nema í tengslum við gengistryggingu lánsins en fyrir lægi að óheimilt hafi verið að kveða á um slíkt. Þegar virt væri að ákvæðið um gengistryggingu í samningi aðilanna væri ógilt og bein og órjúfanleg tengsl væru á milli þess ákvæðis og fyrirmæla þar um vexti, væri hvorki unnt að styðjast við þau fyrirmæli óbreytt eftir orðanna hljóðan né gefa þeim með skýringu annað inntak, enda lægi fyrir í málinu að á millibankamarkaði í London hefðu aldrei verið skráðir LIBOR-vextir af lánum í íslenskum krónum. Vegna þessa væri óhjákvæmilegt að ógildi ákvæðisins um gengistryggingu leiddi til þess að líta yrði með öllu fram hjá ákvæðum samningsins um vaxtahæð. Í samningnum væri hins vegar ákveðið að skuldin bæri vexti og var komist að þeirri niðurstöðu í dóminum að um þá skyldi fara eftir 4. gr., sbr. 3. gr., laga nr. 38/2001.

Í dómi Hæstaréttar 15. febrúar 2012 í máli nr. 600/2011 hafi verið til úrlausnar hvort lánveitandi, sem veitt hafði ólögmætt gengistryggt lán í íslenskum krónum og endurreiknað fjárhæð lánsins með vöxtum samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr., laga nr. 38/2001, gæti krafið lántaka um viðbótarvexti á þeim lagagrundvelli fyrir liðna tíð. Sama álitaefni hafi verið til úrlausnar í dómi Hæstaréttar 18. október 2012 í máli nr. 464/2012. Þar hafi verið tekið fram að endurútreikningur lánsins fæli í reynd í sér viðbótarkröfu um vexti fyrir liðna tíð sem svaraði mismuninum á endurreiknaðri stöðu lánsins og því sem þá stæði eftir af höfuðstól skuldarinnar einum og væri sú fjárhæð umtalsverð að virtri upphaflegri fjárhæð lánsins. Loks var þetta álitaefni einnig til úrlausnar í dómi Hæstaréttar 30. maí 2013 í máli nr. 50/2013 en þar hafi verið um jafngreiðslulán að ræða eða svokallað annuitetslán.

Stefndi kveður að í síðastgreindum þremur dómum hafi Hæstiréttur vísað til þeirrar meginreglu kröfuréttar að kröfuhafi sem fengið hafi minna greitt en hann eigi rétt til eigi kröfu á hendur skuldara um það sem vangreitt sé. Í framhaldi umfjöllunar um framangreinda meginreglu og undantekningu frá henni hafi í dómum réttarins í málum nr. 600/2011, nr. 464/2012 og nr. 50/2013 verið tekið til úrlausnar hvort atvik væru með þeim sérstaka hætti að hafna bæri tilkalli kröfuhafa um viðbótarvexti fyrir liðna tíð. Hafi það í fyrsta lagi verið metið út frá huglægri afstöðu lántaka til lögmætis skuldbindingar sinnar og þar með þess hvort greiðslur hans fyrir liðna tíð fælu í sér fullar og réttar efndir. Í öðru lagi hvort sá aðstöðumunur væri með aðilum lánssamnings að það réttlætti að hafna bæri tilkalli lánveitanda um viðbótarkröfu. Í þriðja lagi hvorum aðilanum stæði nær, út frá sjónarmiðum sem nánar væru reifuð, að bera þann vaxtamun fyrir liðna tíð sem um væri deilt og hlotist hefði af ólögmætri gengistryggingu. Í dómunum þremur hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að þegar þau atriði sem að framan greini væru virt heildstætt bæri að hafna tilkalli lánveitanda um greiðslur til viðbótar þegar greiddum vöxtum fyrir liðna tíð. Loks hafi í dómunum þremur verið vitnað til laga nr. 151/2010 um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu og fleiri lögum, sem meðal annars hafi að geyma ákvæði er lúti að ákvörðun vaxta aftur í tímann af skuldabréfum þar sem samningsákvæði um gengistryggingu hafi verið talin andstæð lögum. Hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að með almennum lögum væri ekki unnt með íþyngjandi hætti að hrófla á afturvirkan veg við réttarreglum um efni skuldbindinga og greiðslu skulda frá því sem gilt hafi þegar til þeirra hafi verið stofnað og af þeim greitt. Færi slíkt í bága við þá vernd eignarréttinda sem leiði af 72. gr. stjórnarskrárinnar. Af þeirri ástæðu fengju nefnd lög ekki haggað þeirri niðurstöðu sem áður hefði verið komist að.

Í dómi Hæstaréttar 10. maí 2012 í máli nr. 518/2011 hafi verið talið að þar sem áfrýjandi þess máls hafði ekki greitt af láninu, sem um ræddi, stæðu ekki rök til þess að miða við aðra vexti af því en vexti Seðlabanka Íslands samkvæmt 4. gr., sbr. 10. gr., laga nr. 38/2001 þegar uppgreiðsluverðmæti þess 25. september 2008 væri reiknað út.

Stefndi kveður að málatilbúnaður stefnanda lúti í grunninn að því, sem fyrr segi, þ.e. hvort höfuðstólsfærsla vaxta „feli í sér viðurkenningu stefnda um réttar efndir þannig að stefnandi hafi haft réttmæta ástæðu til að ætla að ekki kæmi til viðbótarvaxta fyrir þau tímabil þar sem áfallnir vextir hefðu verið lagðir við höfuðstól“.

Stefndi kveðst hafna því að nokkur vaxtagreiðsla hafi átt sér stað þannig að rétt sé að miða við samningsvexti. Höfuðstólsfærsla vaxta geti að mati stefnda ekki jafngilt greiðslu með þeim hætti sem um sé rætt í áðurnefndum málum Hæstaréttar nr. 600/2011, nr. 464/2012 og nr. 50/2013.

Stefndi kveður að téðar skilmálabreytingar, og eins og efni þeirra beri skýrlega með sér, hafi verið hugsaðar sem bráðabirgðaúrræði stefnanda til hagsbóta. Í reynd hafi stefnanda verið komið í nokkurs konar greiðsluskjól. Afborgunum höfuðstóls skyldi slegið á frest eins og efni skilmálabreytinganna beri ljóslega með sér. Lánið skyldi þó, á tímabili greiðslufrests, bera vexti, svo sem almennt gildi. Í stað þess að stefnanda yrði síðar gert að inna af hendi fjármuni skyldi vöxtum ráðstafað inn á höfuðstól lánsins. Atvik hafi í reynd svarað til þess að í stað þess að til vaxtagreiðslna kæmi úr hendi stefnanda til samræmis við efni lánsskuldbindingar skyldu þeir lagðir við höfuðstól og greiddir yfir líftíma skuldbindingarinnar. Stefnandi hafi þannig verið leystur frá því að greiða vexti á tímabili „frystingar“ gegn því að vaxtaskuld sú, sem þá hafi myndast, yrði lögð við höfuðstól lánsins og þannig greidd yfir líftíma skuldarinnar. Að þessu gættu fái ekki með neinu móti staðist að líta svo á að leggja megi téða ráðstöfun að jöfnu við þau atvik og aðstæður sem um ræddi í málum Hæstaréttar nr. 600/2011, nr. 464/2012 og nr. 50/2013, en þar sé meðal annarra atriða sérstaklega til þess horft að skuldarar þeir sem um ræddi hafi verið í góðri trú um að fullnaðargreiðslur hefðu í reynd verið inntar af hendi. Engin greiðsla hefði átt sér stað með sama eða áþekkum hætti og þar um ræddi. Sé því ekkert hald í málatilbúnaði stefnanda. Því sé jafnframt sérstaklega mótmælt, líkt og látið sé í veðri vaka í stefnu, að rætt hafi verið um, í tengslum við téðar skilmálabreytingar, að vextir yrðu „greiddir“ með „höfuðstólsfærslu“.

Önnur niðurstaða en fyrrgreind fengi og illa samrýmst dómi Hæstaréttar í nefndu máli nr. 518/2011. Þar hafi verið talið, sem fyrr greini, að þegar engar greiðslur ættu sér stað stæðu engin rök til annarrar vaxtaviðmiðunar en samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr., laga nr. 38/2001. Alkunna sé, og leiði það jafnframt af lögum nr. 38/2001, að ógreiddir vextir séu höfuðstólsfærðir árlega þegar um eingreiðslulán, og áþekk lán, sé að ræða. Í samningi þeim, sem um ræddi í máli nr. 518/2011, hafi verið kveðið á um að lán, sem dagsett hafi verið 1. desember 2005, skyldi greiða með einni greiðslu 1. desember 2010. Þó skyldi lánið falla í gjalddaga léti stefnda af störfum sínum hjá bankanum fyrir þann tíma. Lánið skyldi bera breytilega REIBOR vexti auk 1,2% vaxtaálags. Skyldu þeir reiknast á þriggja mánaða fresti, í fyrsta sinn frá 1. desember 2005 og skyldi fyrsta vaxtatímabil vera frá þeim degi til 1. mars 2006. Vextir skyldu leggjast við höfuðstól á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 1. desember 2006. Kveður stefndi að slík höfuðstólsfærsla hafi ekki verið talin leiða til þess að vextir samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr., laga nr. 38/2001 ættu ekki að gilda á þeim grunni að slíkt jafngilti greiðslu, svo sem málatilbúnaður stefnanda í fyrirliggjandi máli feli í reynd í sér. Þvert á móti segi í forsendum áðurgreinds dóms Hæstaréttar að engin rök stæðu hér til annarrar vaxtaviðmiðunar en samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr., laga nr. 38/2001, sbr. einnig lög nr. 151/2010 um breytingu á lögum nr. 38/2001, en einnig væri byggt á þeim að því marki sem þau teldust samþýðanleg stjórnarskrá.

Þá kveðst stefndi hafna því með vísan til eðlis og efnis téðra skilmálabreytinga að stefnandi hafi mátt líta svo á að vextir fyrir liðin tímabil teldust að fullu greiddir. Þvert á móti skyldu þeir í reynd greiðast yfir líftíma skuldbindingarinnar sem fyrr greini.

Stefndi kveðst mótmæla öllum öðrum málsástæðum stefnanda, þ. á m. að hækkun höfuðstóls og eftirfarandi vaxtareikningur jafngildi yfirlýsingu um að greiðslu vaxta sé lokið. Sé sú ályktun í andstöðu við efni og eðli téðra skilmálabreytinga eins og fyrr greini. Eins sé ekkert hald í 32. gr. laga nr. 7/1936 um samninga, umboð og ógilda löggerninga. Þess sé heldur ekki krafist að téðum skilmálabreytingum sé vikið til hliðar í heild eða að hluta á grundvelli laganna, heldur þvert á móti sérstaklega á þeim byggt til stuðnings dómkröfu. Því sé einnig mótmælt að stefnandi hefði verið fær um að standa í fullum skilum á því tímabili er afborgunum af láninu var frestað ef lánið hefði verið lögmætt erlent lán eða lán í íslenskum krónum með vöxtum samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr., laga nr. 38/2001, eða eftir atvikum annars konar skuldbinding. Sjónarmiðum þeim sem stefnandi vísi til í tengslum við vaxtabætur og vexti af innlánsreikningi hjá stefnda sé jafnframt mótmælt sem þýðingarlausum fyrir sakarefnið.

Að síðustu kveðst stefndi byggja á því að verði talið að téðar höfuðstólsfærslur feli í sér greiðslu vaxta beri að líta fram hjá þeim með öllu, enda hafi skilmálabreytingar byggst á því að um gilt lán í erlendum gjaldmiðlum væri að ræða. Þær séu því óskuldbindandi eins og á standi vegna rangra og brostinna forsendna.

Um lagarök vísar stefndi meðal annars til laga nr. 38/2001, einkum 4. gr., sbr. 3. gr., laganna. Þá vísar stefndi til laga nr. 151/2010. Stefndi kveður kröfu sína um málskostnað reista á ákvæðum XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

V.

Eins og að framan greinir lýtur ágreiningur aðila að því einu hvort efni skilmálabreytinga vegna áðurgreinds skuldabréfs nr. 7274 um að samningsvextir skyldu lagðir við höfuðstól lánsins og mynda nýjan vaxtaberandi höfuðstól jafngildi fullnaðargreiðslu vaxta fyrir þau tímabil sem nánar eru tilgreind í skilmálabreytingunum.

Ágreiningslaust er að lán það sem hér um ræðir hafi verið lán í íslenskum krónum bundið ólögmætri gengistryggingu. Þá er ágreiningslaust að stefnandi innti engar greiðslur af hendi á því tímabili sem skilmálabreytingarnar taka til. Loks er ágreiningslaust að verði fallist á kröfur stefnanda beri að leggja til grundvallar þá fjárhæð, sem tilgreind er í viðurkenningarkröfu stefnanda, en útreikningur hennar tekur mið af vaxtatímabilinu frá 1. október 2008 til 28. júní 2010, en ekki til 1. ágúst 2010 eins og kveðið er á um í skilmálabreytingunni frá 2. september 2009.

Stefnandi heldur því fram að hann teljist hafa fullgreitt vexti fyrir liðna tíð með því að aðilar hafi án fyrirvara samið svo um að samningsvextir skyldu lagðir við höfuðstól lánsins á því tímabili sem greinir í áðurgreindum skilmálabreytingum og mynda nýjan vaxtaberandi höfuðstól. Feli þetta í sér viðurkenningu stefnda um réttar efndir þannig að stefnandi hafi haft réttmæta ástæðu til að ætla að ekki yrði krafist viðbótarvaxta fyrir áðurgreint tímabil, sbr. dóma Hæstaréttar Íslands í málum nr. 600/2011, 464/2012 og 50/2013. Stefndi heldur því hins vegar fram að höfuðstólsfærsla vaxta geti ekki jafngilt greiðslu með þeim hætti sem um sé rætt í fyrrgreindum dómum þar sem engin greiðsla hafi átt sér stað. Afborgunum af höfuðstól lánsins hafi verið slegið á frest og stefnandi hafi verið leyst frá því að greiða vexti á áðurgreindu tímabili gegn því að vaxtaskuld sú, sem þá hafi myndast, yrði lögð við höfuðstól lánsins og þannig greidd yfir líftíma skuldarinnar. Um hafi verið að ræða bráðabirgðaúrræði stefnanda til hagsbóta og með því hafi stefnanda í reynd verið komið í nokkurs konar greiðsluskjól.

Eins og fram hefur komið voru í fjórgang gerðar breytingar á skilmálum áðurgreinds skuldabréfs með þeim hætti að gjalddaga 1. október 2008 var að lokum frestað til 1. september 2010, lánið lengt sem því nam og áfallnir og umsamdir vextir lagðir við höfuðstól. Í fyrstu voru áfallnir vextir frá 1. október 2009 til 4. maí 2009 lagðir við höfuðstólinn í einu lagi, en frá og með þeim degi voru vextirnir höfuðstólsfærðir mánaðarlega. Með höfuðstólsfærslunni myndaðist nýr vaxtaberandi höfuðstóll. Í skilmálabreytingunum, sem undirritaðar eru af báðum aðilum, er sérstaklega tekið fram að vaxtakjör og önnur ákvæði veðskuldabréfsins haldist óbreytt. Samkvæmt útreikningi stefnda á dskj. nr. 38 og 39 nam endurreiknaður höfuðstóll skuldarinnar 24.445.923 krónum hinn 2. október 2008, en eftir höfuðstólsfærslu vaxta hinn 28. júní 2010, annars vegar samningsvaxta að fjárhæð 3.437.467 krónur og hins vegar vaxta samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 að fjárhæð 5.832.653 krónur nam höfuðstólinn í fyrra tilvikinu 27.883.390 krónum og í síðara tilvikinu 30.278.576 krónum.

Á því tímabili er áðurgreindar skilmálabreytingar náðu til sendi stefndi greiðslutilkynningar til stefnanda um væntanlega gjalddaga lánsins, m.a. með útreikningum á þeim vöxtum sem greiða skyldi 1. október 2008, 2. mars, 2. júní og 1. september 2009 og 1. september 2010, en þeir gjalddagar eru í samræmi við skilmálabreytingarnar, en auk þess sendi stefndi sams konar greiðslutilkynningar vegna gjalddaga 3. nóvember 2008, 1. apríl og 1. júlí 2009. Auk þess sendi stefndi kvittanir fyrir greiðslum á gjalddaga 1. október 2008, 1. júlí og 1. september 2009.

Eins og greinir í dómum Hæstaréttar, m.a. í málum nr. 600/2011, 464/2012 og 50/2013, þar sem krafist var viðbótarvaxta fyrir liðna tíð, er það meginregla í kröfurétti að kröfuhafi, sem fengið hefur minna greitt en hann átti rétt til í lögskiptum aðila, eigi kröfu á hendur skuldara um það sem vangreitt er. Frá meginreglunni séu þó undantekningar, meðal annars um að fullnaðarkvittun kröfuhafa geti að vissum skilyrðum fullnægðum valdið því að hann glati frekari kröfu. Í dómunum segir að áherslan hvíli þá á því, að skuldari hafi við móttöku kvittunar fengi í hendur viljayfirlýsingu kröfuhafa um að greiðslu sé lokið og þar með réttmæta ástæðu til að ætla að hann sé búinn að gera upp að fullu greiðslu sína á viðkomandi gjalddaga og geti treyst því að ekki komi til frekari kröfu síðar. Í máli þessu verður lagt til grundvallar að greiðslutilkynningar, sem stefndi sendi um væntanlega gjalddaga lánsins með útreikningum á þeim vöxtum sem greiða skyldi og síðan fyrirvaralaus höfuðstólsfærsla þeirra vaxta í samræmi við tilkynningarnar og áðurgreindar skilmálabreytingar hafi jafngilt fullnaðarkvittun um greiðslu á þeim vöxtum sem gjaldféllu hverju sinni.

Í áðurgreindum dómum Hæstaréttar segir enn fremur að af framangreindri meginreglu leiði að einungis við sérstakar aðstæður verði tilkalli kröfuhafa um viðbótargreiðslu hafnað. Undantekningin frá meginreglunni styðjist m.a. við þau rök að skuldari hafi við móttöku kvittunar fengið í hendur yfirlýsingu kröfuhafa um að greiðslu sé lokið. Að baki búi sjónarmið um öryggi í viðskiptum, en því geti fylgt mikil röskun á fjárhagslegum hagsmunum skuldara, sem um lengri tíma hafi hagað sér í samræmi við tilmæli kröfuhafa, ef kröfuréttarsambandið er tekið upp vegna liðins tíma og honum síðan gert að standa kröfuhafa skil á umtalsverðum viðbótargreiðslum fyrir liðna tíð, þvert á væntingar hans um hið gagnstæða. Kemur því næst til athugunar í máli þessu, eins og í fyrrgreindum málum, hvort skilyrði séu uppfyllt svo að undantekning frá meginreglunni geti ráðið niðurstöðu málsins eins og viðurkenningarkrafa stefnanda felur í sér.

Hér ber fyrst að líta til þess að þegar stefnandi á einstökum gjalddögum frá stofndegi kröfunnar og fram til 1. október 2008 greiddi afborganir og vexti af skuldabréfi nr. 7274, en samþykkti eftir það og fram til 28. júní 2010 að vextirnir yrðu höfuðstólsfærðir, gengu báðir aðilar út frá því að útreikningur stefnda á fjárhæð vaxta tæki mið af því að ákvæði skuldabréfsins um gengistryggingu höfuðstólsins væru gild. Var stefnandi því í góðri trú um lögmæti þeirrar skuldbindingar sem hann hafði gengist undir gagnvart stefnda og þar með í góðri trú um að fyrrnefnd höfuðstólsfærsla samningsvaxta fæli í sér fullar og réttar efndir af hans hálfu. Í öðru lagi ber að hafa í huga að skuldbinding stefnanda samkvæmt umræddu skuldabréfi var til langs tíma eða 30 ára, og skyldi hún greiðast með 360 afborgunum. Hinn 2. október 2010, þegar greiðslur afborgana af láninu hófust að nýju, voru liðin rúm tvö ár frá því að til lánsskuldbindingarinnar var stofnað. Stefnandi hafði þá greitt sex afborganir af láninu fram til 1. október 2008 ásamt vöxtum, en eftir það og fram til 28. júní 2010 eða í 21 mánuð höfðu vextir hins vegar verið lagðir við höfuðstól lánsins í samræmi við skilmálabreytingar. Telst stefnandi ávallt hafa verið í skilum með þær greiðslur, sem og fyrri greiðslur af láninu. Ákveðin festa var því komin í framkvæmd endurgreiðslna samkvæmt samningnum og síðar greiðslna vaxta samkvæmt áðurgreindum skilmálabreytingum. Þá er litið til þess að fjárhæð viðbótarkröfu varnaraðila um vexti fyrir það tímabil sem skilmálabreytingarnar náðu til, 2.395.186 krónur, er umtalsverð þegar litið er til hennar sem hlutfalls af höfuðstólsfærðum vöxtum á sama tímabili, sem voru að fjárhæð 3.437.467 krónur. Í þriðja lagi skiptir máli við úrlausn þessa álitaefnis að stefndi er fjármálafyrirtæki sem á lánamarkaði bauð viðskiptavinum sínum ýmis lánakjör, þar með talin lán með ólögmætri gengistryggingu, og að skilmálar þess láns sem um ræðir í máli þessu voru samkvæmt einhliða ákvörðun varnaraðila og stöðluðum skilmálum hans hvað þau lán varðar.

Þegar öll framangreind atriði eru virt heildstætt og það lagt til grundvallar að greiðslutilkynningar stefnda með útreikningi á þeim vöxtum sem greiða skyldi og síðan fyrirvaralaus höfuðstólsfærsla þeirra vaxta í samræmi við greiðslutilkynningar og áðurgreindar skilmálabreytingar hafi jafngilt fullnaðarkvittunum um greiðslu vaxtanna, þykir það standa stefnda nær en stefnanda að bera þann vaxtamun sem um er deilt í málinu og af hinni ólögmætu gengistryggingu hlaust. Er því fallist á með stefnanda, að sá rangi lagaskilningur sem lá að baki lögskiptum aðila í upphafi verði í uppgjöri aðila einungis leiðréttur til framtíðar. Af því leiðir að stefndi getur ekki krafið stefnanda um viðbótargreiðslur vegna þegar greiddra vaxta aftur í tímann, þ.e. á tímabilinu 1. október 2008 til 28. júní 2010.

Eins og áður greinir er ekki deilt um þá fjárhæð sem greinir í viðurkenningarkröfu stefnanda. Verður viðurkenningarkrafa stefnanda því tekin til greina.

Með hliðsjón af málsúrslitum er stefnda gert að greiða stefnanda 1.200.000 krónur í málskostnað. Við ákvörðun málskostnaðar hefur verið tekið tillit til greiðslu virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.

Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.

Dómsorð:

Viðurkennt er að eftirstöðvar skuldabréfs nr. 0318-35-007274, útgefið 14. mars 2008, upphaflega að fjárhæð 25.000.000 króna, hafi hinn 5. febrúar 2013 verið að fjárhæð 26.575.824 krónur.

Stefndi, Arion banki hf., greiði stefnanda, Guðbjörgu Ragnarsdóttur., 1.200.000 krónur í málskostnað.