Hæstiréttur íslands

Mál nr. 90/2001


Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Samkeppni
  • Kröfugerð
  • Vanreifun
  • Frávísun frá héraðsdómi


Fimmtudaginn 1

 

Fimmtudaginn 1. nóvember 2001.

Nr. 90/2001.

Austurleið hf.

(Sigurður Jónsson hrl.)

gegn

Bergi Sveinbjörnssyni

(Jón Ingólfsson hrl.)

og gagnsök

 

Skaðabætur. Samkeppni. Kröfugerð. Vanreifun. Frávísun máls frá héraðsdómi.

B gerði að undangengnu útboði samning við Fjölbrautarskóla Suðurlands um akstur með nemendur milli Hvolsvallar og Selfoss. Átti að greiða fyrir aksturinn annars vegar grunngjald, en hins vegar einstaklingsgjald fyrir hvern nemanda sem nýtti sér þjónustu B. Í útboðsgögnum var miðað við að nemendurnir gætu orðið allt að 80 talsins. A, sem hafði sérleyfi á umræddri leið, gerði jafnframt tilboð í aksturinn. Í kjölfar niðurstöðu útboðsins bauð A nemendum skólans sérstök kjör í áætlunarferðum milli Hvolsvallar og Selfoss þannig að fargjald þeirra yrði lægra en einstaklingsgjaldið sem greiða átti B. Þegar til kom nýttu aðeins 10 nemendur sér þjónustu B. Vegna þessa kvartaði B yfir háttsemi A til samkeppnisyfirvalda, sem töldu að A hefði misnotað markaðsráðandi stöðu sína. Í málinu krafðist B bóta úr hendi A sem námu einstaklingsgjaldi vegna 70 nemenda auk kostnaðar sem B hafði af rekstri málsins fyrir samkeppnisyfirvöldum. Hæstiréttur féllst á að A hefði bakað sér bótaskyldu gagnvart B og að krafa B af því tilefni gæti að stofni til tekið mið af umræddum missi fargjalda. B hefði hins vegar í engu reiknað til frádráttar kröfunni þann rekstrarkostnað, sem hann hefði ótvírætt orðið að bera vegna aksturs allra þeirra nemenda, sem upphaflega hefði verið gert ráð fyrir. B hefði verið í lófa lagið að leggja fram viðhlítandi gögn um þetta efni, eftir atvikum með matsgerð dómkvadds manns, til þess að unnt yrði að ákveða raunverulegt tjón hans. Taldi Hæstiréttur ekki unnt að bæta úr þessum annmarka með því að meta B skaðabætur að álitum. Af þessum sökum væri óhjákvæmilegt að vísa málinu frá héraðsdómi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 9. mars 2001. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu gagnáfrýjanda, en til vara að hún verði lækkuð. Í báðum tilvikum krefst aðaláfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 15. maí 2001. Hann krefst þess að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 693.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 15. október 1998 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Gagnáfrýjandi krefst einnig málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

I.

Eins og greinir í héraðsdómi á ágreiningur aðilanna rætur að rekja til þess að gagnáfrýjandi gerði að undangengnu útboði samning við Fjölbrautaskóla Suðurlands 12. ágúst 1998 um akstur nemenda til og frá skóla milli Hvolsvallar og Selfoss. Til samræmis við tilboð gagnáfrýjanda 2. júní 1998 var samið um að verklaun hans myndu nema allt að 2.152.000 krónum fyrir skólaönn, þar sem gert var ráð fyrir 80 kennsludögum. Átti að greiða fyrir aksturinn annars vegar grunngjald að fjárhæð 1.480.000 krónur, en hins vegar 8.400 krónur í einstaklingsgjald fyrir hvern nemanda, sem nýtti sér þjónustu gagnáfrýjanda. Í útboðsgögnum var miðað við að nemendurnir gætu orðið allt að 80 talsins og einstaklingsgjaldið þannig alls 672.000 krónur.

Aðaláfrýjandi hafði sérleyfi til að aka langferðabifreiðum meðal annars á þeirri leið, sem gagnáfrýjandi tók að sér skólaakstur á samkvæmt framansögðu. Hafði aðaláfrýjandi áður annast skólaaksturinn um árabil og gerði jafnframt tilboð í hann umrætt sinn, en boð hans var hærra en boð gagnáfrýjanda. Eftir að samið var við gagnáfrýjanda um aksturinn bauð aðaláfrýjandi skólanemum sérstök kjör í áætlunarferðum milli Hvolsvallar og Selfoss, þannig að fargjald þeirra yrði lægra en einstaklingsgjaldið, sem greiða átti gagnáfrýjanda. Þegar til kom nýttu aðeins 10 nemendur sér akstursþjónustu gagnáfrýjanda á haustönn 1998. Hann beindi 1. október 1998 erindi til samkeppnisstofnunar, þar sem hann kvartaði undan óheimilli samkeppni af hendi aðaláfrýjanda. Í ákvörðun 16. desember 1998 ályktaði samkeppnisráð að háttsemi aðaláfrýjanda, sem hér um ræðir, væri misnotkun á markaðsráðandi stöðu hans. Var þeim tilmælum þar beint til aðaláfrýjanda að hann léti af „samkeppnishamlandi háttsemi sinni í akstri með nemendur Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi á leiðinni Selfoss-Hvolsvöllur“. Óumdeilt er að aðaláfrýjandi varð þegar við þessum tilmælum. Hann skaut 15. janúar 1999 ákvörðun samkeppnisráðs til áfrýjunarnefndar samkeppnismála, sem staðfesti ákvörðunina með úrskurði 27. febrúar sama árs.

Í málinu krefst gagnáfrýjandi skaðabóta úr hendi aðaláfrýjanda vegna framangreindra atvika. Í kröfu sinni leggur gagnáfrýjandi til grundvallar að hann hafi vegna háttsemi aðaláfrýjanda farið á mis við að aka 70 nemendum daglega milli Hvolsvallar og Selfoss og þannig orðið af einstaklingsgjaldi úr hendi þeirra, áðurnefndum 8.400 krónum frá hverjum, eða alls 588.000 krónur. Því til viðbótar hafi gagnáfrýjandi orðið að greiða 105.000 krónur í þóknun til lögmanns vegna rekstrar máls síns fyrir samkeppnisyfirvöldum, en þann kostnað eigi aðaláfrýjandi að bæta honum. Samtals nemur krafa gagnáfrýjanda þannig 693.000 krónum.

II.

Í fyrrnefndum verksamningi 12. ágúst 1998 var lagt til grundvallar að gagnáfrýjandi myndi flytja 80 nemendur Fjölbrautaskóla Suðurlands daglega milli Hvolsvallar og Selfoss. Af gögnum, sem fylgdu tilboði gagnáfrýjanda 2. júní 1998 í þennan akstur, verður ráðið að hann hafði í hyggju að nýta í þessu skyni tvær hópferðabifreiðar, aðra fyrir 57 farþega og hina fyrir 45. Í málatilbúnaði hans kemur fram að þegar ljóst hafi orðið að einungis 10 nemendur myndu nýta þessa þjónustu, hafi hann keypt bifreið, sem hæfði þeim fjölda farþega, til að sinna daglegum akstri þeirra. Meginhluti dómkröfu gagnáfrýjanda er sem fyrr segir reistur á því að hann hafi vegna ólögmætra gerða aðaláfrýjanda farið á mis við einstaklingsgjöld úr hendi 70 nemenda á haustönn fjölbrautaskólans 1998. Þótt fallast megi á með gagnáfrýjanda að aðaláfrýjandi hafi bakað sér skaðabótaskyldu gagnvart honum með þeim gerðum sínum, sem hér um ræðir, og að krafa gagnáfrýjanda af því tilefni gæti að stofni til tekið mið af þessum missi fargjalda, hefur hann í engu reiknað til frádráttar kröfunni þann rekstrarkostnað, sem hann hefði ótvírætt orðið að bera vegna aksturs allra þeirra nemenda, sem upphaflega var gert ráð fyrir. Þannig hefur gagnáfrýjandi ekkert tillit tekið til þess að hann gat nýtt í þessu skyni eina bifreið, sem hæfileg var til að flytja 10 farþega, í stað þess að nota tvær stórar hópferðabifreiðar, en með þessu hefur gagnáfrýjandi sýnilega sparað sér kostnað af störfum eins ökumanns ásamt því, sem munaði að öðru leyti á kostnaði af rekstri tveggja bifreiða og einnar. Gagnáfrýjanda hefði verið í lófa lagið að leggja fram viðhlítandi gögn um þetta efni, eftir atvikum með matsgerð dómkvadds manns, til þess að unnt yrði að ákveða raunverulegt tjón hans. Verður ekki úr þessum annmarka bætt með því að dómstólar meti honum hæfilegar skaðabætur að álitum.

Vegna þess, sem að framan greinir, er óhjákvæmilegt að vísa máli þessu í heild frá héraðsdómi. Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af því í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 11. desember 2000.

Mál þetta, sem dómtekið var 28. nóvember sl., er höfðað með birtingu stefnu, 9. júní sl.

Stefnandi er Bergur Sveinbjörnsson, kt. 150643-2959, Lyngási, Holta og Landsveit, Rangárvallasýslu.

Stefndi er Austurleið hf., kt. 430169-7509, Hvolsvegi 14, Hvolsvelli.

Dómkröfur stefnanda eru þær að hið stefnda félag verði dæmt til að greiða stefnanda 700.350 krónur auk hæstu lögleyfðu dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 213.150 krónum frá 15. október 1998 til 15. nóvember 1998, en af 374.850 krónum frá þeim degi til 15. desember 1998, en af 529.200 krónum frá þeim degi til 15. janúar 1999, en af 595.350 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá er auk þess krafist dráttarvaxta af 105.000 krónum frá þingfestingardegi til greiðsludags.

Þess er krafist að dráttarvextir leggist við höfuðstól kröfunnar á 12 mánaða fresti.

Þá er þess krafist að hið stefnda félag verði dæmt til að greiða málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

Af hálfu stefnda er krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda, en til vara að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar.

Jafnframt krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda í báðum tilvikum, eftir mati dómsins.

Málsatvik

Ríkiskaup buðu út skólaakstur nemenda Fjölbrautarskóla Suðurlands frá nokkrum þéttbýlisstöðum í Árnes-og Rangárvallasýslum til skólans að morgni og aftur heim síðdegis, alla skóladaga samkvæmt nánari skilgreiningu í útboðsgögnum. Stefnandi bauð í liði C og D samkvæmt útboði og var tilboði stefnanda í lið C tekið, en það er akstur milli Hvolsvallar og Hellu og Selfoss. Í tilboðsskrá útboðsgagna hafði verið reiknað með að um 80 nemendur nýttu sér þennan akstur. Tilboðið var samansett úr tveimur þáttum, þ.e. grunngjaldi, sem var 1.480.000 krónur og Fjölbrautaskóli Suðurlands greiddi og gjaldi sem nemendur sjálfir greiddu, en hver nemandi átti að greiða stefnanda 8.400 krónur fyrir hverja önn. Útboðið náði til aksturs í sex annir. Samkvæmt tilboði sínu átti stefnandi því að fá samtals 2.152.000 krónur fyrir önnina. Stefndi tók einnig þátt í útboði þessu og bauð í verkið 2.848.000 krónur. Þegar stefnandi hóf akstur samkvæmt framangreindu tilboði í lok ágúst 1998, kom í ljós að aðeins 10 nemendur nýttu sér þjónustu stefnanda. Stefndi sem er sérleyfishafi á leiðinni Selfoss-Hvolsvöllur, breytti birtri tímaáætlun sinni í samræmi við verklýsingu í útboði og bauð nemendum Fjölbrautaskólans akstur á leið þessari fyrir lægra verð en stefnandi hafði boðið í tilboði sínu og töluvert lægra verð en hann hafði sjálfur gert ráð fyrir í tilboði sínu, eða 7.800 krónur fyrir hverja önn.

Mál þetta hefur stefnandi höfðað til að fá skorið úr um skaðabótaskyldu stefnda vegna þessarar háttsemi stefnda, sem hann telur hafa valdið sér tjóni.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi kveður stefnda ekki hafa viljað una niðurstöðu útboðs sem hann sjálfur hefði tekið þátt í. Hann hefði því breytt tímaáætlun í almennum áætlunarrekstri langferðabifreiða á leiðinni Selfoss-Hvolsvöllur þannig að hún hentaði nemendum Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi og hafi hann reynt að ryðja keppinaut sínum úr vegi til að ná aftur til sín þeim viðskiptum sem hann áður hafi haft. Stefndi hafi boðið hverjum nemanda Fjölbrautaskólans að nýta sér akstur á leið þeirri sem tilboð stefnanda samkvæmt útboði hafi tekið til, fyrir 7.800 krónur á mann á hverja önn, eða talsvert lægri fjárhæð en stefnandi hafi boðið í verkið og umtalsvert lægri fjárhæð en tilboð stefnda sjálfs hafi verið samkvæmt útboðinu. Eins og fram komi í ákvörðun samkeppnisráðs nr. 45/1998 hafi tilboð þetta falið í sér 90% afslátt til nemenda skólans frá fullu fargjaldi stefnda sem sérleyfishafa á leiðinni Selfoss-Hvolsvöllur.

Í forsendum ákvörðunar samkeppnisráðs nr. 45/1998 segi: ,,Í krafti markaðsráðandi stöðu á markaðnum fyrir almennan áætlunarakstur langferðabifreiða á leiðinni Selfoss-Hvolsvöllur, sem byggir á opinberu sérleyfi og styrkjum í formi endurgreiðslu á þungaskatti, bauð sérleyfishafinn nemendum Fjölbrautaskólans akstur gegn gjaldi sem var langt undir almennu fargjaldi á áætlunarleiðinni”.

Stefndi hafi kært ákvörðunina til áfrýjunarnefndar samkeppnismála þar sem málið hafi fengið númerið 1/1999 en áfrýjunarnefndin hafi staðfest ákvörðun samkeppnisráðs. Stefnandi byggir á því að aðgerðir stefnda hafi verið ólögmætar og að hann hafi valdið stefnanda því tjóni sem dómkröfur greini og að framferði hans sé skaðabótaskylt. Sannað sé í málinu að hann hafi ætlað sér að hundsa löglegt útboð og niðurstöðu þess og að hann hafi ætlað að ná til sín viðskiptunum aftur með ólögmætum hætti.

Aðgerðir stefnda hafi brotið gegn 17. gr., sbr. 1. gr. samkeppnislaga nr. 8/1993 að mati samkeppnisráðs og áfrýjunarnefndar samkeppnismála.

Stefndi hafi látið af hinum ólögmætu aðgerðum sínum um áramótin 1998/1999. Eftir það hafi stefnandi ekið þeim farþegafjölda sem áætlaður hafi verið. Stefndi hafi af ásetningi kippt stoðum undan útboði og verksamningi stefnanda. Aðgerðir stefnda hafi leitt til þess að stefnandi hafi orðið af hagnaðarvon sem falist hafi í þeim samningi sem gerður hafi verið.

Útreikning bótafjárhæðar kveður stefnandi vera þann að samkvæmt forsendum útboðs og jafnframt tilboðs stefnanda hafi verið miðað við að 80 farþegar greiddu hver um sig 8.400 krónur til stefnanda, fyrir utan virðisaukaskatt. Fram komi á reikningum sem stefnandi hafi gert Fjölbrautaskóla Suðurlands að stefnandi hafi ekið 10 nemendum og því hafi hann orðið af akstri með 70 nemendur. Í útboðsgögnum og í tilboði komi fram að miðað sé við 80 daga á haustönn 1998. Miðað við heildargjald annar 8.400 kr. á hvern nemanda og 80 dagafjölda, sé daggjald fyrir hvern nemanda sem ekið sé 105 kr.

70 nemendur x 80 dagar x 105 krónur geri 588.000 krónur. Samkvæmt útboðslýsingu hafi gjalddagi verið 15. næsta mánaðar eftir akstur.

Því sé um að ræða sundurliðun samkvæmt neðangreindu:

Lok ágúst/september 1998: 29 dagar x 70 x 105 kr.=213.150 krónur með gjalddaga 15. október 1998.

Október 1998: 22 dagar x 70 x 105 kr.=161.700 krónur með gjalddaga 15. nóvember 1998.

Nóvember 1998: 21 dagur x 70 x 105= 154.350 krónur með gjalddaga 15. desember 1998.

Desember 1998: 9 dagar x 70 x 105 kr.= 66.150 krónur með gjalddaga 15. janúar 1999

Til viðbótar komi kostnaður sem stefnandi hafi haft af því að þurfa að reka mál fyrir samkeppnisráði og áfrýjunarnefnd samkeppnismála. Skaðabótafjárhæð samkvæmt þeim lið séu 105.000 krónur sem er höfuðstóll reiknings lögmanns stefnanda.

Stefnandi vísar til almennra reglna skaðabótaréttar vegna kröfu sinnar og til laga nr. 8/1993, sérstaklega 1. og 17. gr. Kröfu um dráttarvexti og vaxtavexti styður stefnandi við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987. Kröfur um málskostnað styður stefnandi við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Málsástæður og lagarök stefnda

Sýknukröfu sína byggir stefndi í fyrsta lagi á því að akstur stefnda á sérleyfisleið sinni frá Hvolsvelli hafi ekki valdið stefnanda tjóni. Á haustönn 1998 hafi einungis 9 farþegar ferðast að jafnaði með stefnanda, þannig að gjald hans hafi verið 164.444 á hvern farþega. Af þessum sökum hafi stefnandi getað verið með 14 manna bíl í ferðum sínum, en samkvæmt taxta BSÍ sé gjald fyrir afnot af slíkri bifreið einungis um þriðjungur af gjaldi fyrir afnot af tveimur 40 manna bílum, sem ella þyrfti ef farþegar væru að jafnaði 80. Stefnandi hafi ekki lagt fram nein gögn um rekstrarkostnað og mun á tilkostnaði og endurgjaldi og þannig ekki sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir tjóni. Þá hafi hann ekki aflað matsgerðar dómkvaddra matsmanna um tjón sitt.

Hafi stefnandi orðið fyrir tjóni, byggir stefndi á því í öðru lagi að hann verði ekki dreginn til ábyrgðar vegna þess. Þrátt fyrir niðurstöðu Samkeppnisstofnunar um akstur stefnda, verði ekki ályktað að stefndi beri ábyrgð á því að endurgjald til stefnanda samkvæmt umræddum verksamningi hafi orðið minna, en það hefði hugsanlega orðið, ef akstur stefnda hefði ekki komið til. Samkeppnislögum sé ætlað að vernda almenna hagsmuni, þ.e. stuðla að frjálsri samkeppni og sé samkeppnisyfirvöldum af þeim sökum falið vald til þess að beita menn viðurlögum ef ekki er farið að samkeppnislögum. Í þessu máli hafi samkeppnisráð ekki beitt viðurlögum, enda sé mjög skiljanlegt og afsakanlegt að stefndi, sem áður hafi sinnt umræddum akstri, og auk þess sérleyfishafi á akstursleiðinni hafi viljað láta á það reyna hvort honum væri heimilt að sinna viðskiptavinum sínum með þessum hætti. Stefndi hafi hætt akstrinum þegar ákvörðun Samkeppnisráðs hafi legið fyrir í desember 1998, þrátt fyrir að staðfesting áfrýjunarnefndarinnar hafi ekki legið fyrir fyrr en 27. febrúar 1999.

Samkvæmt samningi stefnanda við Fjölbrautaskóla Suðurlands, sem byggst hafi á útboði, fái hann greiddar 1.480.000 krónur fyrir önn. Ekki verði ráðið af verksamningi aðila hvernig túlka beri svonefnt einstaklingsgjald. Í stefnu geri stefnandi ráð fyrir að hann fái greiddar sérstaklega 8.400 krónur fyrir hvern nemanda. Það verði hins vegar ekki ráðið af verksamningi. Hafi ætlun samningsaðila verið að verktaka bæri að innheimta 8.400 krónur fyrir hvern nemanda hefði átt að tiltaka það í sjálfum verksamningnum. Í 5. gr. samningsins sé talað um að uppgjör fyrir hvern mánuð skuli greitt samkvæmt reikningi sem byggi á akstursdagafjölda mánaðarins. Hvergi sé minnst á fjölda nemenda. Í útboðsskilmálum sé ekki skýrt með fullnægjandi hætti hvernig endurgjaldið í samningnum skuli skiptast í einstaklingsgjald og grunngjald, þ.e. hver sé merking þessara orða. Í skýringum í útboðsskrá sé sagt að grunngjaldinu sé ætlað að sjá fyrir lágmarkskostnaði við úthald á viðkomandi svæði en að einstaklingsgjaldinu sé ætlað að mæta auknum kostnaði sem fylgi auknum fjölda farþega. Einstaklingsgjaldið reiknist fyrir fjölda farþega á einstökum svæðum á hverri önn fyrir sig. Einstaklingsjaldið sé einnig háð fjölda akstursdaga á hverri önn.

Sé samningurinn túlkaður í samræmi við þann grundvöll sem lagður hafi verið í fyrrgreindu útboði og þá samninga sem gerðir hafi verið við stefnda á sama tíma og á sama grundvelli, eigi akstur stefnda á þessari leið ekki að skerða tekjur stefnanda. Sé samningurinn hins vegar þess eðlis sem haldið sé fram í stefnu, þ.e. að tekjur stefnanda skerðist ef farþegum fækkar, sé hann ekki í samræmi við aðra samninga né heldur þær magntölur sem settar hafi verið fram í útboðinu.

Að mati stefnda sé það jafnframt ljóst að hlutfall grunngjalds sé engu að síður það hátt að það hafi í för með með sér mun meiri hagnað fyrir stefnanda að aka á grunngjaldinu 1.480.000 kr., með fáa farþega heldur en að aka með 80 nemendur fyrir 2.152.000 kr. Þá sé talan 2.152.000 kr. einungis áætluð tala, en ekki tilboðsfjárhæð. Nemendur sem stefnandi hafi flutt á haustönn hafi einungis verið 76 en ekki 80 eins og ráð hafi verið fyrir gert í útboði. Þannig hafi einstaklingsgjald hans aðeins verið 638.000 kr., en ekki 672.000 kr. Tilboðsfjárhæðin hafi því verið 2.118.000 kr., en ekki 2.152.000 kr. Það sé óeðlilegt að meint bótaskylda stefnda sé háð þeirri tilviljun hvernig tilboð stefnanda sé sett upp.

Stefndi kveður að með áætlunarakstri sínum hafi hann alls ekki ætlað að valda stefnanda tekjutapi heldur einungis halda uppi þjónustu við viðskiptamenn sína. 

Í þriðja lagi byggir stefndi sýknukröfu sína á því að hann hafi sérleyfi á akstursleiðinni Hvolsvöllur-Selfoss. Hann geti ekki orðið bótaskyldur einfaldlega vegna þess að ein af reglulegum ferðum hans á sérleiðinni hafi verið á sama tíma og stefnandi hafi sinnt skólaakstri sínum.

Stefndi kveður mál þetta fyrst og fremst sprottið af deilum um hvaða akstur teljist sérleyfisakstur og hvaða fólksflutninga öðrum sé heimilt að stunda á sérleyfisleiðum. Ekki er fallist á að akstur sem í útboði hafi verið nefndur skólaakstur falli undir 3. gr. laga nr. 53/1987. Að mati stefnda er því ákvæði einungis ætlað að kveða á um lítilsháttar undantekningu og þá horft til venjubundins skólaaksturs þar sem nemendum grunnskóla sé ekið á eigin bifreiðum skólabílstjóra, frá heimili nemandans að grunnskólanum á kostnað viðkomandi sveitarfélags en án nokkurs kostnaðar fyrir nemandann sjálfan. Reglurnar um Evrópska efnahagssvæðið breyti því ekki  að enn þá séu í gildi lagaákvæði um sérleyfi og að eftir þeim beri að fara. Þau lög séu sérlög sem vissulega feli í sér starfsemi sem að mörgu leyti stangist á við samkeppnislög. Í þeim tilvikum þar sem sérlögin stangist á við samkeppnislög, gangi lögin um sérleyfi framar. Akstur þessi geti ekki verið skólaakstur, enda um að ræða nemendur utan skólaskyldu sem greiði sjálfir hluta af fargjaldi sínu. Akstrinum megi miklu frekar líkja við akstur með starfsmenn milli heimilis og vinnustaðar.

Sérleyfi sé byggt á lögum og með því taki sérleyfishafinn á sig ákveðnar kvaðir og skyldur sem upp séu taldar í lögunum. Þessar skyldur séu hluti af því verði sem sérleyfishafi greiði fyrir að fá sérleyfið. Það sé því afar mikill tvískinnungur að halda því fram að það skipti engu máli vegna þess að það endurgjald sem sérleyfishafi fái sé einmitt það að sitja einn að þessum fólksflutningum með þeim þröngu undantekningum sem lögin heimili. Heildarhagsmunir af rekstri sérleyfis séu þeir að á hverjum tíma sé hagnaður af rekstri sérleyfisins í heild sinni og að þjónustan sé í samræmi við sérleyfislög og þarfir íbúa viðkomandi svæðis. Vegna þeirra kvaða sem lagðar séu á sérleyfishafann sé ekki við því að búast að hagnaður verði af sérhverjum þætti í rekstri sérleyfisins enda sé það augljóslega ætlun löggjafans að sá rekstrarþáttur sem skili hagnaði bæti upp þjónustuhátt sem aldrei geti skilað hagnaði.

Stefndi kveðst enga ábyrgð bera á málarekstri stefnanda fyrir samkeppnisyfirvöldum og hafi málarekstur hans verið óþarfur. Þá kveður stefndi að kostnaður þessi sé eðlilegur kostnaður stefnanda af starfsemi sinni og leiði af því starfsumhverfi sem hann lifi í og hafi stefndi sjálfur þurft að bera umtalsverðan kostnað vegna málsins.

Niðurstaða

Mál þetta hefur stefnandi höfðað til greiðslu skaðabóta úr hendi stefnda, vegna tjóns sem hann telur sig hafa orðið fyrir vegna meintrar ólögmætrar háttsemi stefnda.

Sýknukröfu sína hefur stefndi m.a. byggt á því að hann hafi sérleyfi á akstursleiðinni Hvolsvöllur-Selfoss og hafnar því að vera bótaskyldur ,,einfaldlega vegna þess að að ein af reglulegum ferðum hans á sérleiðinni var á sama tíma og stefnandi stundaði skólaakstur sinn”. Hann kveðst ekki fallast á að akstur sá sem í útboði sé nefndur skólaakstur, hafi fallið undir 3. gr. þágildandi laga um skipulag á fólksflutningum með langferðabifreiðum nr. 53/1987.

Í 3. gr. laga þessara segir: ,,Leyfi þarf ekki til ferða með starfsfólk að og frá vinnustað á kostnað vinnuveitanda með eigin bifreiðum hans og til aksturs skólabarna úr og í skóla”.

Stefndi tók sjálfur þátt í umræddu útboði án athugasemda og ekkert hefur komið fram í málinu um að lögmæti útboðsins hafi verið dregið í efa á grundvelli sérleyfis hans. Samkvæmt lögum nr. 53/1987 skal sérleyfisakstur eiga sér stað samkvæmt fyrirfram birtri ferðaáætlun, en fram er komið í málinu að tímasetning áætlunarferða stefnda á sérleiðinni Hvolsvöllur-Selfoss samrýmdist ekki verklýsingu í útboði vegna skólaaksturs nemenda og breytti þá stefndi tímasetningu til samræmis við verklýsingu í útboði. Í ljósi framangreinds og með skírskotun til áðurgreindrar 3. gr. laga nr. 53/1987, verður að telja að sérleyfi stefnda hafi ekki náð til ofangreinds skólaaksturs.

Í ákvörðunarorðum Samkeppnisstofnunar í máli nr. 45/1998, sem staðfest var með úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála uppkveðnum 27. febrúar 1999, segir að sú háttsemi stefnda, að breyta tímaáætlun í sérleyfisakstri þannig að hún hentaði til aksturs með þá nemendur Fjölbrautaskólans á Suðurlandi, sem útboð um skólaakstur tæki til og með því að bjóða nemendunum mun lægra verð fyrir aksturinn en gjaldskrá fyrirtækisins segði til um, sé misnotkun á markaðsráðandi stöðu í skilningi 17. gr. samkeppnislaga, sbr. og 1. gr. laganna. Þeim tilmælum var beint til stefnda að hann léti af framangreindri samkeppnishamlandi háttsemi sinni.

Af ákvörðunarorðum Samkeppnisstofnunar verður ráðið að framangreind háttsemi stefnda fól í sér ólögmætt atferli. Atferli stefnda var til þess fallið að valda stefnanda tjóni, þar sem forsendur tilboðs stefnanda byggðust m.a. á því að ákveðinn fjöldi nemenda ferðaðist með honum. Raunin varð hins vegar sú að í kjölfar breytinga á tímaáætlun stefnda og lækkunar á verði stefnda til nemendanna ferðuðust langflestir þeirra með stefnda í staðinn. Stefndi lét af akstri þessum um áramótin 1998/1999.

Tilboð stefnanda, sem gengið var að, nam 2.152.000 krónum. Í 1. gr. verksamnings sem gerður var milli Fjölbrautaskóla Suðurlands og stefnanda segir að verktaki taki að sér flutning á nemendum Fjölbrautaskóla Suðurlands, samkvæmt útboðsgögnum Ríkiskaupa nr. 11064 og tilboði verktaka. Samningur nái til svæðis C. Í útboði kom fram að farþegafjöldi hefði verið 77 vorið 1998 og 79 haustið 1997. Í tilboði stefnanda kemur fram að grunngjald sé miðað við 18.500 krónur í 80 daga, samtals 1.480.000 krónur og að einstaklingsgjald sé miðað við 8.400 krónur í 80 daga, samtals 672.000 krónur, þannig að stefnandi gerði í tilboði sínu ráð fyrir að 80 nemendur nýttu sér akstur hans. Tilboðið var samkvæmt framangreindu samsett úr þessum tveimur þáttum, einstaklingsgjaldi og grunngjaldi, sem samtals nam 2.152.000 krónum, eins og fram kemur í verksamningi, en í útboðinu sjálfu er skýrður munur á einstaklingsgjaldi og grunngjaldi. Heildarupphæðin miðaði við forsendur í útboðslýsingu, en hins vegar kemur fram í útboði að magntölur, tilteknar í tilboðsskrá séu áætlaðar og að uppgjör miðist við endanlegan fjölda farþega á hverri önn. Því er samkvæmt framangreindu ljóst að tjón stefnanda jókst í hlutfalli við fækkun þeirra nemenda sem með honum óku. Í gögnum málsins er fram komið að stefnandi ók aðeins 10 nemendum, en hafði eins og áður greinir, gert ráð fyrir að aka um 80 nemendum.

Stefnufjárhæð sundurliðar stefnandi í samræmi við tilboð sitt, en miðað við að hann hafi orðið af akstri með 70 nemendur. Þá krefst stefnandi og kostnaðar sem hann hafði af því að reka mál fyrir samkeppnisyfirvöldum.

Samkvæmt útboðslýsingu voru magntölur tilteknar í tilboðsskrá áætlaðar og átti uppgjör að miðast við endanlegan farþegafjölda á hverri önn. Tjón stefnanda er háð þessum óvissuþáttum, en nægjanlega þykir í ljós leitt að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni vegna ólögmætrar háttsemi stefnda. Þykir því mega ákvarða bætur að álitum og eru þær hæfilega ákveðnar 450.000 krónur, sem stefnda ber að greiða stefnanda með dráttarvöxtum eins og í dómsorði greinir.

Með hliðsjón af Hæstaréttardómi í máli nr. 131/1999: Hekla hf. gegn íslenska ríkinu verður ekki fallist á að stefnandi eigi rétt til skaðabóta úr hendi stefnda, vegna kostnaðar af rekstri máls hans fyrir samkeppnisyfirvöldum.

Í ljósi þessarar niðurstöðu greiði stefndi stefnanda málskostnað að fjárhæð 170.000 krónur.

Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð

Stefndi, Austurleið hf., greiði stefnanda, Bergi Sveinbjörnssyni, 450.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá dómsuppsögudegi til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 170.000 krónur í málskostnað.