Hæstiréttur íslands

Mál nr. 312/2001


Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Líkamstjón
  • Íþrótt
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 14

 

Fimmtudaginn 14. febrúar 2002.

Nr. 312/2001.

Andri Már Einarsson

(Þorsteinn Einarsson hrl.)

gegn

Luigi Bartolozzi

Knattspyrnufélaginu Þrótti

Tennisfélagi Kópavogs

Ungmennafélagi Bessastaðahrepps

Ungmennafélaginu Fjölni og

Badmintonfélagi Hafnarfjarðar

(Lárus L. Blöndal hrl.)

Knattspyrnufélaginu Víkingi

(Jóhannes Albert Sævarsson hrl.)

og

Luigi Bartolozzi

Knattspyrnufélagið Þróttur

Tennisfélag Kópavogs

Ungmennafélag Bessastaðahrepps

Ungmennafélagið Fjölnir og

Badmintonfélag Hafnarfjarðar

gegn

Andra Má Einarssyni                    

 

Skaðabætur. Líkamstjón. Íþróttir. Gjafsókn.

A, sem slasaðist á auga er hann var við tennisæfingu, höfðaði skaðabótamál á hendur þjálfaranum L, og íþróttafélögunum T, F, Þ, V, B og U. Með hliðsjón af framburði A sjálfs, auk L og tilkvaddra vitna, þótti upplýst að ekkert hefði verið athugavert við það hvernig staðið var að æfingunni í umrætt sinn. Þá lá fyrir að A var orðinn nokkuð þjálfaður leikmaður þegar slysið varð og honum var um það kunnugt að aldrei voru notuð hlífðargleraugu eða sett upp net eftir endilöngum vellinum við iðkun íþróttarinnar. Þá hafði A um það frjálst val hvort hann stundaði tennisæfingar. Með þessum rökum sýknaði héraðsdómur stefndu af kröfu A og staðfesti Hæstiréttur þá niðurstöðu.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Garðar Gíslason.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 21. ágúst 2001. Hann krefst þess að gagnáfrýjendum og stefnda verði sameiginlega gert að greiða sér 1.583.354 krónur með 2% ársvöxtum af þeirri fjárhæð frá 4. apríl 1997 til 13. nóvember 1998 og af 14.410 krónum frá 13. nóvember 1998 til 29. júní 1999, með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 1.517.494 krónum frá 13. nóvember 1998 til 29. júní 1999 og af 1.583.354 krónum frá þeim degi til 1. júlí 2001, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af síðastgreindri fjárhæð frá þeim degi til greiðsludags. Hann krefst einnig málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt á báðum dómstigum.

Gagnáfrýjendur áfrýjuðu fyrir sitt leyti 19. október 2001 og krefjast þess að héraðsdómur verði staðfestur með þeirri breytingu að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða þeim málskostnað. Þá krefjast þeir málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Stefndi Knattspyrnufélagið Víkingur krefst staðfestingar héraðsdóms og að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér málskostnað fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Rétt er að aðilarnir beri hver sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Um gjafsóknarkostnað aðaláfrýjanda fyrir Hæstarétti fer samkvæmt því, sem í dómsorði segir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Allur gjafsóknarkostnaður aðaláfrýjanda, Andra Más Einarssonar, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 300.000 krónur.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. maí 2001.

I.

Mál þetta, sem dómtekið var föstudaginn 16. febrúar sl., er höfðað fyrir af Einari Sólonssyni, kt. 161054-4539, Laufbrekku 21, Kópavogi, og Katrínu Hallgrímsdóttur, kt. 130256-3849, Laufbrekku 21, Kópavogi, fyrir hönd ólögráða sonar þeirra, Andra Más Einarssonar, kt. 040182-3499, Laufbrekku 21, Kópavogi, með stefnu og sakaukastefnum, birtum 23. júní 1999, 30. september 1999 og 6. marz 2000, á hendur Luigi Bartolozzi, kt. 130659-2099, Kleppsvegi 10, Reykjavík, Knattspyrnufélaginu Þrótti, kt. 470678-0119, Holtavegi 11, Reykjavík, Tennisfélagi Kópavogs, kt. 650293-2079, Hlíðarhjalla 31, Kópavogi, Ungmennafélagi Bessastaðahrepps, kt. 630190-1939, Íþróttamiðstöðinni, Bessastaðahreppi, Knattspyrnufélaginu Víkingi, kt. 700269-0789, Traðarlandi 1, Reykjavík, Ungmennafélaginu Fjölni, kt. 520793-2169, Dalhúsum 2, Reykjavík og Badmintonfélagi Hafnarfjarðar, Stuðlabergi 30, Hafnarfirði.

 

Endanlegar dómkröfur stefnanda á hendur öllum stefndu eru þær, að þeir verði in solidum dæmdir til að greiða stefnanda kr. 1.583.354, með 2% ársvöxtum af þeirri fjárhæð frá 4. apríl 1997 til 13. nóvember 1998, með 2% ársvöxtum af kr. 14.410 frá 13. nóvember 1998 til 29. júní 1999, með dráttarvöxtum samkvæmt lögum nr. 25/1987 af kr. 1.517.494 frá 13. nóvember 1998 til 29. júní 1999, en með dráttarvöxtum samkvæmt lögum nr. 25/1987 af kr. 1.583.354 frá þeim degi til greiðsludags.  Þá krefst stefnandi þess, að stefndu verði in solidum dæmdir til greiðslu málskostnaðar, að viðbættum 24,5% virðisaukaskatti, samkvæmt málskostnaðar­reikningi, eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál. 

Dómkröfur stefndu eru þær aðallega, að þeir verði sýknaðir af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða hverjum og einum stefnda málskostnað að mati dómsins, að viðbættum 24,5% virðis­aukaskatti.  Til vara gera stefndu þær dómkröfur, að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og málskostnaður falli niður.

II.

Málavextir:

Þann 4. apríl 1997 varð stefnandi fyrir alvarlegu líkamstjóni, er hann var við tennisæfingu í tennishöllinni í Kópavogi.  Stefnandi var félagsmaður í Tennisfélagi Kópavogs og greiddi æfingagjöld til félagsins.  Atvik voru þau, að stefnandi var ásamt þjálfara sínum, stefnda, Luigi Bartolozzi, og tveimur unglingum að hita upp fyrir tennis­æfingu, og stjórnaði stefndi, Luigi, æfingunni og upphitun fyrir hana.  Upphitunin var fólgin í því, að spilaðir voru tveir leikir á sama tennisvellinum.  Stefnandi kveðst hafa spilað við annan ungling, Hafstein Dan Kristjánsson, á öðrum vallarhelmingnum, en á hinum vallarhelmingnum hafi þjálfarinn spilað við þriðja unglinginn.  Af hálfu stefnda, Luigi, er því hins vegar haldið fram, að stefnandi hafi spilað við þjálfarann, en hinir unglingarnir tveir hafi spilað hvor á móti öðrum á hinum vallarhelmingnum.  Undir æfingunni fékk stefnandi skyndilega tennisbolta í vinstra auga, og vankaðist hann um stund vegna höggsins.  Aðila greinir á um tildrög slyssins.  Stefnandi heldur því fram, að það hafi verið þjálfarinn, Luigi Barolozzi, sem sló boltanum í auga hans, þar sem hann var skáhallt á móti honum á vellinum.  Af hálfu stefnda er því hins vegar haldið fram, að stefnandi hafi fipazt vegna annars tennisbolta, sem kom frá hinum vallarhelmingnum, þegar hann hugðist slá bolta frá stefnda, Luigi, til baka til hans, þannig að sá bolti hafi lent á jaðri tennisspaða stefnanda og hrokkið þaðan í auga hans. 

Eftir slysið lagði stefndi, Luigi, kaldan bakstur á auga stefnanda.  Móður stefnanda var gert viðvart um slysið og kom hún á staðinn og ók stefnanda á slysadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur, þar sem hann var með­höndlaður af læknum.  Í vottorði Friðriks Sigurbergssonar læknis, dags. 1. febrúar 1998, segir m.a. um afleiðingar slyssins:

"Nánast engin sjón er á auganu. Hann sér þó ljós og sér móta fyrir einhverskonar skuggum en sér ekki á sjóntöflu. Við skoðun er framhólf fullt af blóði og það er bjúgur í hornhimnu".

Stefnandi var lagður inn á augndeild Landspítalans og annaðist Friðbert Jónasson augnlæknir hann þar.  Í vottorði hans, dags. 15. janúar 1998, segir m.a. eftirfarandi um afleiðingar slyssins:

"....Sjón hafði hrakað innan tveggja vikna í 6/60 eða tæplega það raunar á vinstra auganu en sjón er eðlileg á hægra auga.  Engar breytingar hafa orðið síðar og líklegt að ástand haldist óbreytt.  Það er allténd ljóst að sjón á ekki eftir að lagast en í versta falli gætu seinni tíma vandamál komið upp svo sem sjónhimnulos og ský á augasteini. Central sjón er farin en hann sér til hliðar með auganu ."

Þann 10. nóvember 1998 mat Jónas Hallgrímsson læknir afleiðingar slyss stefnanda með hliðsjón af l. nr. 50/1993, og er niðurstaða hans sú, að stefnandi hafi verið veikur og rúmliggjandi í 5 daga og veikur með fótaferð í 9 daga.  Varanlegan miska stefnanda metur læknirinn 15% og varanlega örorku 15%.

Aðila málsins greinir á um tildrög slyssins og bótaábyrgð.

III.

Málsástæður stefnanda:

Stefnandi byggir á því, að stefndu beri skaðabótaábyrgð á tjóni hans samkvæmt reglum skaðabóta­réttar, sbr. einkum sakarregluna og regluna um vinnuveitenda­ábyrgð. 

Eftir að mál þetta var höfðað á hendur stefndu, Luigi, Knattspyrnufélaginu Þrótti og Tennisfélagi Kópavogs, kveðst stefnandi hafa fengið upplýsingar um samning milli Tennisfélags Kópavogs, tennisdeildar Fjölnis, tennisdeildar Þróttar, Tennisklúbbs Víkings, tennisdeildar Badminton­félags Hafnarfjarðar og tennisdeildar UMFB um samstarf þeirra aðila um tennisþjálfun í tennishöllinni í Kópavogi tímabilið 1. september 1996 til 15. maí 1997.  Stefnandi telji þann samning leiða í ljós, að ofangreind félög, sem síðan var stefnt til sakauka í máli þessu, beri, ásamt öðrum stefndu, fébótaábyrgð á tjóni því, er stefnandi varð fyrir í slysinu þann 4. apríl 1997.

Í 1. gr. samningsins segi, að allar æfingar aðila séu sameiginlegar æfingar samningsaðila.  Þá segi í 3. gr. samningsins, að umsjón, stjórnun og skipulagning samstarfsins verði í höndum þjálfaranna, Luigi Bartolozzi, Önnu Podoskaia og Raj Bonifacius.  Stefnandi telji, með vísan til fyrrgreinds samstarfssamnings, að sakaukastefndu beri, ásamt öðrum stefndu, jafnframt skaðabótaábyrgð á tjóni hans samkvæmt reglum skaðabótaréttar, einkum sakarreglunni og reglunni um vinnuveitendaábyrgð.  Stefnandi telji samstarfssamninginn staðfesta, að tennisæfingin þann 4. apríl 1997 hafi jafnframt verið á vegum og á ábyrgð sakaukastefndu, og að þjálfarinn á æfingunni, Luigi Bartolozzi, hafi jafnframt verið starfsmaður sakaukastefndu á æfingunni.  Stefnandi telji a.m.k. ljóst, að æfingin hafi verið samstarfsverkefni sakaukastefndu og annarra samningsaðila, og að Luigi Bartolozzi hafi m.a. verið við stjórn æfingarinnar á vegum sakaukastefndu.

Kröfur sínar á hendur öllum stefndu byggir stefnandi á því, að stefndi, Luigi Bartolozzi, hafi sýnt af sér saknæma hegðun með því að slá boltanum í auga stefnanda.  Stefnandi byggir á því, að sakaukastefndu, Knattspyrnufélagið Víkingur vegna tennisklúbbs Víkings, Ungmennafélagið Fjölnir vegna tennisdeildar Fjölnis, Ungmennafélag Bessastaðahrepps vegna tennisdeildar UMFB og Badmintonfélag Hafnarfjarðar vegna tennisdeildar BH beri, ásamt Luigi Bartolozzi, Tennisfélagi Kópavogs og Knattspyrnufélaginu Þrótti, óskipta ábyrgð á því tjóni, er hann varð fyrir, enda hafi stefndi, Luigi, starfað á vegum hinna stefndu félaga á æfingunni og því á ábyrgð þeirra.  Tennisklúbbur Víkings sé deild innan Knattspyrnufélagsins Víkings, tennisdeild Fjölnis sé deild innan Ungmennafélagsins Fjölnis, tennisdeild UMFB sé deild innan Ungmennafélags Bessastaðahrepps og Tennisdeild BH sé deild innan Badmintonfélags Hafnarfjarðar.  Stefnandi byggi á því, að fyrrgreind félög beri ábyrgð á deildum innan félaganna, og því sé kröfum réttilega beint gegn sakauka­stefndu.  Um ábyrgð sakaukastefndu á deildum innan félaganna vísi stefnandi m.a. til reglugerðar ÍSÍ um bókhald, laga Knattspyrnufélagsins Víkings og laga Ungmenna­félags Bessastaðahrepps.

Þá byggir stefnandi á því, að ekki hafi verið forsvaranlegt af hálfu stefndu að skipa unglingum fyrir um upphitun með þeim hætti, að tveir tennisleikir væru leiknir samtímis á sama vellinum.  Stefnandi telji þá skipan upphitunar beinlínis vera hættulega og að stefndi, Luigi Bartolozzi, og forsvarsmenn hinna stefndu félaga hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi með því að haga upphitun þannig.  Sérstök net séu strengd á milli tennisvalla í tennishöll Kópavogs og víðar til að tryggja öryggi þeirra, sem leiki þar tennis, enda viðurkennt, að tennisboltar séu harðir og hættulegir.  Stefnandi telji, að Knattspyrnufélagið Þróttur, vegna tennisdeildar Þróttar, og Tennisfélag Kópavogs beri fébótaábyrgð á fyrrgreindri, saknæmri háttsemi þjálfarans, enda hafi þjálfarinn starfað á vegum og á ábyrgð hinna stefndu félaga.  Stefnandi ítreki, að hann hafi verið félagsmaður í Tennisfélagi Kópavogs og greitt æfingagjöld til félagsins.  Stefnandi telji því, að Tennisfélag Kópavogs beri ábyrgð á framkvæmd æfingarinnar, og bendi m.a. á, að vafalaust hafi hluti æfingagjalda runnið til greiðslu fyrir þjálfun á æfingunni.

Þá byggi stefnandi á því, að stefndi, Luigi Bartolozzi, og starfsmenn og forsvarsmenn hinna stefndu félaga hafi sýnt af sér saknæmt athafnaleysi með því að láta ekki unglingunum í té hlífðargleraugu til notkunar á æfingunni.  Þá byggi stefnandi á því, að hin stefndu félög beri ábyrgð á því saknæma athafnaleysi Luigi Bartolozzi að láta stefnanda ekki í té hlífðargleraugu til notkunar á æfingunni, enda hafi þjálfarinn starfað á vegum og ábyrgð hinna stefndu félaga.

Krafa stefnanda á hendur stefndu byggi á skaðabótalögum nr. 50/1993 og sé um greiðslu þjáningabóta, bóta vegna varanlegs miska og varanlegrar örorku.  Krafa stefnanda styðjist við matsgerð Jónasar Hallgrímssonar læknis, dags. 10. nóvember 1998 og sundurliðist þannig:

I. Þjáningabætur.

5 dagar x kr. 1.460.- (3698/3282)

9 dagar x kr. 790.- x 3698/3282

 

kr.       7.300­

kr.       7.110­

II. Varanlegur miski.

kr. 4.398.500.- x 15%

 

kr.   659.775­

III. Varanleg örorka.

 

kr. 659.775.- x 130%

kr.   857.707

­6% vegna iðgjalda í lífeyrissjóð

kr.     51.462

Krafizt sé vaxta samkvæmt 16. gr. laga nr. 50/1993 frá slysdegi.  Þá sé krafizt dráttarvaxta af kröfu um bætur vegna varanlegs miska og örorku frá 13. nóvember 1998.  Krafist sé dráttarvaxta af kröfu um þjáningabætur frá þingfestingardegi málsins.

Stefnandi vísar til reglna skaðabótaréttar, sbr. einkum sakarreglunnar og reglunnar um vinnu­veitenda­ábyrgð.  Þá vísar stefnandi til skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. einkum 3. gr., 4. gr. og 8. gr. þeirra laga.  Um vexti vísar stefnandi til 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.  Krafa um dráttarvexti styðst við 3. kafla vaxtalaga nr. 25/1987.  Um heimild til að sakaukastefna Luigi Bartolozzi vísar stefnandi til 3. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991.  Krafa um málskostnað er studd við XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 19/1991, sbr. einkum 130. gr. þeirra laga.  Krafa um virðisaukaskatt á málskostnað er studd við lög nr. 50/1988.

Stefnandi bendi á, að hann hafi ekki haft upplýsingar um samstarfssamning sakauka­stefndu, Knattspyrnufélagsins Þróttar og Tennisfélags Kópavogs, er málið var þingfest í héraðsdómi þann 29. júní 1999 og ekki heldur, er sakaukastefna var þingfest þann 19. október 1999.  Stefnandi hafi því ekki getað höfðað mál á hendur öðrum sakaukastefndu á þeim tíma.  Kröfur á hendur sakaukastefndu og öðrum stefndu eigi rætur að rekja til slyss stefnanda þann 4. apríl 1997.  Sé því fullnægt skilyrðum 3. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 fyrir sakaukastefnu á hendur þessum aðilum.

Málsástæður stefndu:

Svo sem fram komi í samningi á dskj. nr. 24, hafi þar tilgreind íþróttafélög, sem séu sakaukastefndu í máli þessu, hafið samstarf um æfingar í tennis á tímabilinu 1. septemb­er 1996 til 15. maí 1997.  Stefndi, Luigi, hafi verið einn af þremur þjálfurum, sem samkvæmt samstarfssamningi þessum hafi haft umsjón með þessum tennisæfingum.  Í stefnu komi fram, að stefnandi sé félagi í Tennisfélagi Kópavogs, sem hafi verið einn af aðilum að samstarfssamningnum á dskj nr. 24.

Fram sé komið, að stefndi, Luigi, hafi starfað sem sjálfstæður verktaki hjá tennisdeild Knattspyrnufélagsins Þróttar.

Stefndu, Knattspyrnufélagið Þróttur, Tennisfélag Kópavogs, Ungmennafélag Bessastaðahrepps, Knattspyrnufélagið Víkingur, Ungmennafélagið Fjölnir og Badmintonfélag Hafnarfjarðar, hafi gert með sér samstarfssamning, sbr. dskj. nr. 24.  Samkvæmt því sem liggi fyrir í málinu, hafi stefndi, Luigi, starfað sem sjálfstæður verktaki við þjálfun og kennslu í tennis.

Í sakaukastefnu sé á því byggt, að öll þessi íþróttafélög beri ábyrgð á háttsemi stefnda, Luigi, á grundvelli húsbóndaábyrgðar.

Þessu sé mótælt sérstaklega.  Framangreind íþróttafélög beri ekki ábyrgð á athöfnum eða athafnaleysi sjálfstæðra verktaka, sem starfi í þágu þeirra.  Slík ábyrgð verði ekki reist á bótareglum utan samninga um húsbóndaábyrgð.

Ábyrgð íþróttafélaganna verði heldur ekki reist á því, að þau beri ótakmarkaða ábyrgð á öllu því, sem fram fari á æfingum.

Það beri því að sýkna hin stefndu íþróttafélög sökum aðildarskorts.

Af stefnu megi ráða, að stefnandi byggi málsókn sína á þeirri málsástæðu fyrst og fremst, að stefndi, Luigi, hafi sýnt af sér saknæma hegðun við það að skjóta tennisbolta í auga stefnanda.  Skilja megi stefnuna svo, að því sé haldið fram, að um viljaverk hafi verið að ræða, eða stórkostlegt gáleysi.  Þessu sé harðlega mótmælt.  Sé fráleitt að halda því fram, að maður, sem hafi þjálfun og kennslu í tennis að atvinnu, hafi viljandi slegið boltann í auga stefnanda.

Af lögregluskýrslum af slysinu á dskj. nr. 3-8 verði ekki annað ráðið en að slys stefnanda hafi orðið af algjörri óhappatilviljun.  Vegna utanaðkomandi tennisbolta, hafi stefnandi sjálfur fipazt, og tennisbolti, sem stefndi, Luigi, hafði slegið í átt til hans, hafi lent á brún tennisspaðans og þaðan í auga stefnanda.  Enginn stefnda beri ábyrgð á tjóni stefnanda, þegar svona hátti.

Lögregluskýrslur af Luigi á dskj. nr. 4, Jónasi Páli Björnssyni, starfs­manni Tennishallarinnar, á dskj nr. 7, og af stefnanda sjálfum, á dskj nr. 3, bendi eindregið til þess, að á vettvangi hafi ekkert bent til þess eða gefið vísbendingar um það að stefnandi hafi orðið fyrir svo alvarlegum meiðslum, sem raun beri vitni.  Svo virðist sem engin sýnileg ytri merki hafi verið um það, auk þess sem stefnandi hafi borið sig nokkuð vel.

Þannig virðist sem slys þetta hafi ekki greipzt djúpt í huga sumra þeirra, sem þar voru á staðnum, t.a.m. muni vitnið, Arnþór Stefánsson, ekki eftir þessu atviki, þegar hann gefi lögregluskýrslu um ári eftir slysið, sbr. dskj. nr. 6.

Stefnandi hafi verið þaulvanur tennisleikari og hafi tekið þátt í íþróttaæfingu.  Vel flestar íþróttir og leikir hafi á einn eða annan hátt áhættu í för með sér fyrir þátttakendur, áhættu, sem menn viti eða eigi að vita, að sé til staðar hverju sinni.

Áhættan sé mismikil eftir tegund þeirrar íþróttar, sem stunduð sé.  Menn séu tæklaðir í knattspyrnu, slíti liðbönd í handbolta, togni og beinbrotni á skíðum og jafnvel í golfi leynist hættur, svo sem dæmin sanni.

Þátttakendur í íþróttum viti, eða eigi að vita, að um leið og þeir gangi til leiks, taki þeir á sig áhættu af því að slasast sem afleiðingu af venjubundnum og eðlilegum leik í viðkomandi íþrótt.  Á meðan meðþátttakendur og/eða þjálfarar sýni ekki af sér stór­kostlegt gáleysi eða ásetning, beri menn sjálfir áhættuna af því tjóni, sem þeir verði fyrir.

Stefnandi hafi tekið þátt í æfingum í tennis af fúsum og frjálsum vilja.  Með vísan til almenn­ra reglna skaðabótaréttar um áhættutöku verði að telja, að stefnandi verði að bera það tjón sjálfur, sem hann verði fyrir í þátttöku sem þessari.

Aldrei hafi tíðkazt, að þátttakendur í tennis eða á tennisæfingum noti gleraugu eða annan búnað til að hlífa augum.  Stefndu telji þá röksemd stefnanda að reyna að fella bótaábyrgð á stefndu sökum þess, að stefnandi notaði ekki hlífðargleraugu, fráleita, og eigi hún ekki við nein rök að styðjast.

Við æfingar hjá unglingum, eins og stefnandi hafi verið á þessum tíma, hafi mjúkir tennisboltar aldrei verið notaðir og séu ekki enn, heldur harðir.  Þá hafi aldrei tíðkazt að strengja net yfir tennisvöll eftir endilöngu, enda myndi slíkt net takmarka verulega gildi æfinga.

Stefndu telji og, að það sé fyllilega eðlilegt og algengast, að við upphitun í tennis séu fjórir þátttakendur á sama tennisvellinum.  Það sé hvorki saknæmt né ólögmætt að haga æfingum með þeim hætti.  Hér megi t.d. benda á, að vandséð sé, að æfingar manna fyrir tvíliðaleik í tennis, geti verið með öðrum hætti.

Þegar öll gögn séu skoðuð og atvik málsins í heild sinni, sé ekki unnt að komast að annarri niðurstöðu en að slys stefnanda megi einungis rekja til óhappatilviljunar, sem hann verði sjálfur að bera ábyrgð á.  Lagarök geti ekki leitt til þess, að óhappatilvilj­un sem þessi sé á ábyrgð stefndu.

Æfingin og upphitunin umrætt sinn hafi verið venjubundin og samkvæmt góðum og gildum aðferðum, sem notaðar séu um allan heim.

Stefndu bendi á, að komist dómur að þeirri niðurstöðu, að skaðabótaábyrgð sé fyrir hendi, gæti slíkur dómur, sem yrði í andstöðu við meginsjónarmið í skaðabótarétti um áhættutöku þátttakenda í íþróttum, haft þær afleiðingar, að allt barna- og unglingastarf íþróttafélaga kæmist í uppnám og ógerningur fyrir félögin að stunda þá hefðbundnu starfsemi, sem þau hafi verið með áratugum saman.

Varakrafa stefndu byggi á því, að komist dómur að þeirri niðurstöðu, að bótaábyrgð stefndu sé fyrir hendi, leiði lagarök til þess að skipta sök í málinu, og að stefnandi verði látinn bera hluta af tjóni sínu sjálfur.

Sýknukröfur sakaukastefndu um aðildarskort, byggist á 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.  Stefndi og sakaukastefndu vísi til almennra reglna skaðabótaréttar utan samninga sýknukröfum sínum til stuðnings, m.a. þeirrar meginreglu, sem fram komi í niðurlagi 13. kafla Jónsbókar frá 1281 um áhættutöku í leik og íþróttum.  Málskostnaðarkrafa stefndu sé byggð á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einka­mála.  Stefndu séu ekki virðisaukaskattskildir aðilar og sé því nauðsynlegt, að tekið sé tillit til þess við ákvörðun málskostnaðar.

IV.

Forsendur og niðurstaða:

Fyrir dóminn komu til skýrslugjafar auk stefnanda og stefnda, Luigi, Hafsteinn Dan Kristjánsson nemi, Ólafur Oddsson kynningarfulltrúi, fyrrum formaður Tennisdeildar Fjölnis og núverandi stjórnarmaður, Jón Páll Björnsson, tennisþjálfari og framkvæmdastjóri Sportvangs ehf, sem rekur Tennishöllina og fyrrverandi formaður tennisklúbbs Víkings, Ásgeir Margeirsson, aðstoðarforstjóri Orkuveitu Reykjavíkur og fyrrverandi formaður tennisdeildar BH, Jón Þór Björnsson, verkfræðingur og fyrrverandi formaður tennisdeildar UMFB, Óskar Knutsen, jarðfræðingur og formaður tennisdeildar Fjölnis, Sigurður Þorsteinsson, kennari og formaður tennisdeildar Kópavogs, Kolbeinn Tumi Daðason, stjórnarmaður og gjaldkeri tennisklúbbs Víkings, og Jón Gunnar Grétarsson, fréttamaður á Sjónvarpinu og formaður tennisdeildar BH.

Krafa stefnanda á hendur stefnda, Luigi, byggir á því, að hann hafi sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi með því að slá boltanum í auga stefnanda.  Krafa stefnanda á hendur öllum stefndu byggir á því, að það hafi verið saknæmt og ólögmætt af stefnda, Luigi, og forsvarsmönnum hinna stefndu félaga að skipa svo fyrir um æfingu, að tveir tennisleikir væru leiknir á sama tíma á sama velli, að ekki hafi verið strengt net milli vallarhelminga, að unglingum á æfingum hafi ekki verið látin í té hlífðargleraugu og að ekki hafi verið notaðir mjúkir tennisboltar við æfingar.  Þá byggir stefnandi kröfur sínar á hendur hinum stefndu félögum á því, að þau beri vinnuveitendaábyrgð á saknæmri og ólögmætri háttsemi stefnda, Luigis.

M.a. er deilt um aðild hinna stefndu félaga og bótaskyldu á grundvelli húsbóndaábyrgðar, og verður fyrst vikið að því atriði.

Með svokölluðum samstarfssamningi, sem liggur fyrir ódagsettur á dskj. nr. 24, sameinuðust hin stefndu félög, Tennisfélag Kópavogs, tennisdeild Fjölnis, tennisdeild Þróttar, tennisklúbbur Víkings, tennisdeild BH og tennisdeild UMBF um tennisþjálfun í Tennishöllinni tímabilið 1. september 1996 til 15. maí 1997.  Við skýrslutökur fyrir dómi kom fram, að samningurinn hefði aldrei verið endurnýjaður skriflega, en samstarfið væri enn í gangi.  Markmið samningsins var að auka gæði æfinga með því að hafa einstaklinga í svipuðum styrkleikaflokki saman á æfingum.  Í 3. gr. samningsins segir, að umsjón, stjórnun og skipulagning samstarfsins skuli vera í höndum þjálfaranna, Luigi Batolozzi, Önnu Podosskaia og Raj Bonifacius.  Engin ákvæði eru um greiðslur til þjálfaranna í samningnum.

Það liggur fyrir, að stefnandi var skráður félagsmaður í Tennisfélagi Kópavogs og kveðst hann hafa greitt æfingagjöld til félagsins.  Stefndi, Luigi, kvað nemendur eða foreldra þeirra hins vegar greiða þátttökugjöld beint til þjálfaranna.  Hann kvaðst ekki hafa verið launþegi hjá félögunum.  Það hefðu verið haldnir fundir mánaðarlega, þar sem þjálfararnir gáfu félögunum skýrslu um starfsemi tennisskólans.  Samkvæmt framburði þáverandi fyrirsvarsmanna hinna stefndu félaga, sem skýrslu gáfu fyrir dóminum, má telja upplýst, að greiðslufyrirkomulagið hafi verið á þann hátt, sem stefndi lýsir því.  Ólafur Oddsson kvað þjálfarana hafa fengið greiðslur frá félögunum til viðbótar, en hann gat ekki skýrt nánar frá því.  Hann kvað samstarfsverkefnið hafa verið á ábyrgð félaganna og þau hafi látið sig varða, hvernig það var framkvæmt.  Sigurður Þorsteinsson, formaður Tennisfélags Kópavogs, kvaðst hafa tekið við félaginu haustið 2000.  Hann kvað stefnda fremur teljast vera verktaka en launþega.  Hins vegar kvaðst hann telja félögin ábyrg fyrir því, að þjálfarinn fengi launin, ef börnin borguðu ekki.  Þá taldi hann æfingarnar vera á ábyrgð félaganna.  Kolbeinn Tumi Daðason kvaðst telja, að æfingarnar hlytu alltaf að vera á ábyrgð félaganna, þau gætu gefið leiðbeiningar, en hefðu ekki beinlínis eftirlit með fyrirkomulagi æfinganna.  Hvorki Ólafur Oddsson né Jón Páll Björnsson kváðust geta útilokað, að þjálfararnir hefðu verið launamenn. 

Vinnusamband stefnda, Luigis, og hinna stefndu félaga virðist samkvæmt því, sem að framan er rakið, ekki hafa verið skýrt afmarkað.  Sýnist þó fremur hafa verið litið á hann sem verktaka, hvað varðar greiðslur fyrir þjálfunina.  Á hinn bóginn lögðu félögin til kostnað við vallarleigu, og að einhverju leyti lögðu þau til æfingatæki, s.s. spaða og bolta, sbr. frb. Jóns Þórs Björnssonar og Ólafs Oddssonar.  Þá höfðu félögin einhvers konar eftirlit með framgangi æfinganna á reglulegum fundum og gerðu m.a. tillögur um, hvað betur mætti fara.  Eins og fyrirkomulagi þessu var háttað, verður að fallast á með stefnanda, að hin stefndu félög hafi haft einhvers konar húsbóndavald yfir stefnda, Luigi, og sé þeim því réttilega stefnt í málinu á grundvelli húsbóndaábyrgðar.

Aðilar eru sammála um, að bolti sá, sem stefnandi fékk í augað, hafi komið frá stefnda, Luigi, en hins vegar greinir þá á um það, hvernig uppröðun leikmanna var við æfinguna.  Stefndi, Luigi, heldur því fram, að hann hafi verið að spila móti stefnanda, sem hafi fipazt vegna annars bolta, sem hafi komið yfir á hans vallarhelming frá Hafsteini Dan Kristjánssyni, sem hafi leikið móti pilti að nafni Arnþór, og hafi Hafsteinn verið skáhallt á móti stefnanda á vellinum.  Boltinn frá Luigi hafi því lent í spaðabrún stefnanda og hrokkið þaðan í auga hans.  Stefnandi ber hins vegar, að stefndi, Luigi, hafi leikið á móti áðurgreindum Arnþóri, skáhallt á móti stefnanda á vellinum og skotið boltanum skáhallt á vallarhelming stefnanda, þannig að boltinn lenti í auga hans. 

Engin rannsókn fór fram á vettvangi þegar eftir slysið, og fór lögreglurannsókn fyrst fram rúmu ári síðar.  Pilturinn, Arnþór, tjáði lögreglu símleiðis, að hann myndi ekki eftir atvikinu. 

Telja verður, að leggja megi frásögn stefnanda um uppröðun á velli, þegar slysið varð, til grundvallar, en hún er studd framburði vitnisins, Hafsteins Dans Kristjánssonar.

Stefnandi byggir á því, að stefndi, Luigi, hafi sýnt af sér saknæma hegðun með því að slá boltanum í auga stefnanda.

Stefnandi skýrði svo frá fyrir dómi, að hann hefði aldrei séð boltann koma frá stefnda, Luigi.  Hann hafi verið að fylgjast með bolta frá mótherja sínum, Hafsteini, þegar hann fékk boltann frá Luigi í augað á ská yfir völlinn.  Vitnið, Hafsteinn, lýsti atvikum svo, að mótspilari Luigis hefði gefið boltann yfir á vallarhelming vitnisins, og Luigi hefði hlaupið til og teygt sig í boltann, sem hafi farið á ská.  Vitnið kvaðst ekki muna, hvort boltinn hefði síðan lent fyrst í spaða stefnanda og þaðan í andlit hans eða farið beint í andlit hans.  Framangreind lýsing gefur ekki tilefni til að álykta, að stefndi, Luigi, hafi sýnt af sér saknæmt atferli, þegar hann sló boltann, heldur þykir hér einsýnt, að um algert óhappatilvik hefur verið að ræða, sem ekki varð séð fyrir.  Gildir þá einu, þótt um færan tennisspilara sé að ræða, sem boltann sló.

Stefnandi byggir á því, að ekki hafi verið verjanlegt af hálfu stefndu að skipa unglingum fyrir um upphitun með þeim hætti, að tveir tennisleikir væru leiknir samtímis á vellinum, án þess að net væri strengt á milli vallarhelminga, og hafi stefndu sýnt af sér stórkostlegt gáleysi með því að haga upphitun þannig.  Þá byggir hann á því, að stefndu hafi á sama hátt sýnt af sér stórfellt gáleysi með því að leggja stefnanda ekki til hlífðargleraugu á æfingunni.

Stefnandi skýrði svo frá fyrir dómi, að hann hefði verið búinn að æfa tennis á þriðja ár, þegar slysið varð, og m.a. hafi hann verið búinn að fara með landsliðinu til Þýzkalands, þannig að hann hafi verið kominn nokkuð framarlega í íþróttinni.  Hann kvað uppstillingu, sem þarna var viðhöfð, vera viðtekna venju og jafnvel hafi komið fyrir, að sex leikmenn væru á vellinum í einu í upphitun og þrír boltar í gangi.  Þá kvaðst hann ekki þekkja til þess að net sé strengt eftir tennisvelli endilöngum, og hann hefði aldrei séð einn einasta mann leika tennis með hlífðargleraugu.

Stefndi, Luigi, skýrði svo frá, að þegar þrír nemendur séu á velli og einn kennari, leiki kennarinn við þá til skiptis og skipti á 5-10 mínútna fresti.  Það fyrirkomulag upphitunar, sem stefnandi lýsti fyrir dóminum væri venjulegt, og hlífðargleraugu væru ekki til í tennis.  Hann kvað net aldrei notuð til að skipta tennisvelli eftir endilöngu, það gangi ekki upp, því hluti æfingarinnar sé að slá skáhallt yfir völlinn, einnig þegar fjórir einstaklingar séu á velli með tvo bolta í gangi.

Vitnið, Hafsteinn Dan, lýsti stefnda, Luigi, sem mjög öruggum þjálfara og varkárum.  Hann kvað uppstillingu á velli við upphitun, eins og þarna var, vera notaða alls staðar í heiminum.  Jón Páll Björnsson skýrði svo frá, að hann væri búinn að þjálfa tennis í 14 ár.  Hann kvaðst hvorki kannast við, að hlífðargleraugu séu notuð í íþróttinni né að velli sé skipt eftir endilöngu með neti.  Upphitun fjögurra leikmanna með tvo bolta á sama velli sé eðlilegt fyrirkomulag.  Þetta tíðkist á öllum mótum í heiminum, bæði þar sem keppt sé í tvíliðaleik og eins þótt honum sé sleppt.  Vitnið, Ásgeir Margeirsson, kvaðst engin tengsl hafa við tennisdeild BH í dag.  Hann skýrði svo frá, að hann hefði æft tennis á árunum 1986-1998 og einu sinni keppt.  Hann kvað algengt, að fjórir eða fleiri hiti upp á sama velli, bæði hérlendis og erlendis.  Hann hafi sjálfur lært tennis í Svíþjóð og þetta tíðkist alls staðar.  Hann kvaðst hvorki þekkja hlífðargleraugu í tennis né skiptingu vallar eftir endilöngu með neti.  Jón Þór Björnsson kvaðst engin tengsl hafa við tennisdeild UMFB í dag utan að hann stundi tennis, sem hann hafi gert frá árinu 1992.  Hann kvaðst hvorki þekkja til notkunar hlífðargleraugna í tennis né skiptingar vallar eftir endilöngu með neti.  Þá kvað hann stundum vera þjálfað með því að gefa boltann á ská, sem væri ekki hægt, ef net væru.  Þá væri það venjulegt, að fjórir hiti upp á velli með tvo bolta.  Sigurður Þorsteinsson kvaðst hafa stundað tennis frá árunum 1991 eða 1992 sem áhugamál, og hafi hann m.a. spilað í Svíþjóð.  Hann kvaðst hvorki þekkja til notkunar hlífðargleraugna né nets eftir endilöngum velli.  Jón Gunnar Grétarsson tók í sama streng og kvaðst hafa stundað tennis á árunum 1990-1995, en hann hafi lært undir handleiðslu þjálfara í Svíþjóð.

Þegar virtur er framburður framangreindra aðila og vitna verður að telja sannað, að í tennisíþróttinni sé óþekkt, að notuð séu net til að strengja eftir velli endilöngum og skipta honum þannig í tvennt.  Enn fremur telst upplýst, að það sé hluti af þjálfun tennisleikara að leika fjórir eða fleiri saman á velli með tvo eða fleiri bolta í gangi í senn.  Á sama hátt telst upplýst, að notkun hlífðargleraugna í tennis, hvort heldur er við æfingar eða í keppni, sé óþekkt. 

Fram kom í framburði stefnda, Luigi, fyrir dómi, að mjúkir boltar væru ekki notaðir við æfingar þeirra, sem lengra eru komnir í tennisíþróttinni, heldur fyrst og fremst við þjálfun yngri nemenda.  Það sé annað að slá mjúkan bolta en harðan.  Verður að fallast á þessi rök, þar sem ljóst má vera, að tennisþjálfun lýtur að því að búa nemendur undir þátttöku í tennisleikjum, þar sem harðir boltar eru notaðir.  Verður stefnda því ekki gefið að sök, að hafa notað svokallaða harða bolta á æfingunni.

Fyrir liggur, að stefnandi var orðinn nokkuð þjálfaður leikmaður, þegar slysið varð, sbr. framburð hans fyrir dómi, og honum var um það kunnugt, að aldrei voru notuð net eða hlífðargleraugu við iðkun þessarar íþróttar.  Stefnandi hafði um það frjálst val, hvort hann stundaði tennisæfingar.  Gilda því önnur ábyrgðarsjónarmið, en kunna að eiga við, þegar slys verða í skólaleikfimi, þar sem nemendur hafa skyldumætingu.

Samkvæmt framansögðu er ekki á það fallizt, að stefndi, Luigi, eða hin stefndu félög hafi sýnt af sér saknæma háttsemi með því að sjá ekki til þess að strengja net eftir velli endilöngum, láta nemendum ekki í té hlífðargleraugu eða nota mjúka bolta við æfingar.  Ber því að sýkna alla stefndu af kröfum stefnanda í máli þessu.  

Eftir atvikum þykir rétt að hver aðila beri sinn kostnað af málinu.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði og ákveðst kr. 450.000, þ.m.t. útlagður kostnaður, en ekki hefur verið litið til virðisaukaskatts.

Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

D Ó M S O R Ð :

Stefndu, Luigi Bartolozzi, Knattspyrnufélagið Þróttur, Tennisfélag Kópavogs, Ungmennafélag Bessastaðahrepps, Knattspyrnufélagið Víkingur, Ungmennafélagið Fjölnir og Badmintonfélag Hafnarfjarðar, skulu vera sýkn af öllum kröfum stefnanda, Andra Más Einarssonar, í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, kr. 450.000, greiðist úr ríkissjóði.