Hæstiréttur íslands

Mál nr. 432/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Erfðaskrá
  • Milliliðalaus málsmeðferð
  • Aðfinnslur


                                                        

Fimmtudaginn 24. september 2009.

Nr. 432/2009.

A og

B

(Sigurður G. Guðjónsson hrl.)

gegn

C

(Ragnar Halldór Hall hrl.)

 

Kærumál. Erfðaskrá. Milliliðalaus málsmeðferð. Aðfinnslur.

A og B kærðu úrskurð héraðsdóms, þar sem hafnað var kröfu þeirra um að ógilda erfðaskrá þar sem D arfleiddi C að helstu eigum sínum. Byggðu A og B kröfu sína um ógildingu á því að D hafi skort arfleiðsluhæfi í skilningi 2. mgr. 34. gr. laga nr. 8/1962. Niðurstaða héraðsdóms var staðfest í Hæstarétti.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru móttekinni af héraðsdómi 22. júlí 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. júlí 2009, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að erfðaskrá D 26. október 2006 sé ógild. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðilar krefjast þess að dæmt verði að fyrrgreind erfðaskrá sé ógild. Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði var fyrst leyst úr ágreiningi þeim sem málið varðar með úrskurði 8. janúar 2009. Við aðalmeðferð málsins þá komu fyrir dóm til skýrslugjafar, auk varnaraðila og annars sóknaraðila, ellefu vitni. Úrskurður héraðsdóms var felldur úr gildi og málinu vísað heim til aðalmeðferðar og uppkvaðningar úrskurðar að nýju með dómi Hæstaréttar 24. febrúar 2009 í málinu nr. 52/2009 þar sem talið var að rétt hefði verið að héraðsdómari kveddi sérfróða meðdómendur til setu í dómi samkvæmt 2. mgr. 131. gr. laga nr. 20/1991, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. 

Við aðalmeðferð málsins 20. maí 2009 höfðu tveir sérfróðir meðdómendur tekið sæti í dóminum. Var þá bókað að lagt væri fram endurrit yfirheyrslna í málinu frá 25. nóvember 2008. Við aðalmeðferðina voru teknar skýrslur af báðum matsmönnum, arfleiðsluvottum og tveimur öðrum vitnum. Í hinum kærða úrskurði er vísað til framburða vitna, sem ekki komu fyrir dóm þá og sem hinir sérfróðu meðdómsmenn áttu ekki kost á að spyrja spurninga. Í 1. mgr. 4. gr. laga nr. 91/1991 er mælt fyrir um að meðdómsmenn skuli ekki síðar en við aðalmeðferð taka sæti í dómi. Er það til samræmis við meginregluna í 1. mgr. 47. gr. laga nr. 91/1991 um milliliðalausa málsmeðferð. Meta verður sönnunargildi framburða þeirra vitna sem ekki komu fyrir dóm til skýrslugjafar 20. maí 2009 með hliðsjón af þessu.

Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna verður hinn kærði úrskurður staðfestur. Sóknaraðilar greiði óskipt varnaraðila málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Við meðferð málsins í héraði voru aðilar sammála um að afla þyrfti gagna úr sjúkraskrá D sem voru í vörslu Landspítala háskólasjúkrahúss, er neitaði afhendingu þeirra nema að undangengnum úrskurði dómara. Héraðsdómur úrskurðaði 25. ágúst 2008 að Landspítala háskólasjúkrahúsi væri skylt að afhenda gögnin. Það athugast að við meðferð á þessum þætti málsins var ekki gætt ákvæða 2. mgr. 68. gr. laga nr. 91/1991.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðilar, A og B, greiði óskipt varnaraðila, C, 150.000 krónur í kærumálskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. júlí 2009.

Með bréfi til dómsins, dagsettu 25. apríl 2008, var þess farið á leit fyrir hönd  A, kt. [...], [...], Reykjavík og B, kt. [...], [...], Reykjavík, að Héraðsdómur Reykja­víkur úrskurði um ágreining sem risið hefur milli erfingja við einkaskipti á dánarbúi D, kt. [...], sem síðast var til heimilis að [...], Reykjavík og lést [...] október 2006.

Málið var þingfest 23. maí 2008. Með dómi Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 52/2009 var úrskurður héraðsdóms í málinu frá 8. janúar 2009 felldur úr gildi og málinu vísað heim í hérað til aðalmeðferðar og uppkvaðningar úrskurðar að nýju. Segir í forsendum dóms Hæstaréttar að eins og gögnum málsins sé háttað var rétt að héraðsdómari kveddi sérfróða meðdómsmenn til setu í dómi, samkvæmt 2. mgr. 131. gr. laga nr. 20/1991, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að leggja mat á læknisfræðileg gögn og spyrja matsmenn um atriði er lúta að matsgerð.

Dómari kvaddi til setu í dómi sérfróða meðdómsmenn og fór aðalmeðferð fram að nýju 20. maí 2009. Málið ver endurupptekið og tekið til úrskurðar á ný 8. júlí 2009.

Dómkröfur sóknaraðila, A og B, eru að úrskurðað verði að erfðaskrá dags. [...] október 2006, þar sem D kt. [...], arfleiddi C kt. [...] að helstu eignum sínum, sé ógild. Þá er krafist málskostnaðar að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Varnaraðili C, kt. [...], krefst þess að kröfum sókn­ar­aðila verði hafnað og að sóknaraðilar verði dæmdir in solidum til að greiða varn­ar­aðila málskostnað.

Í málavaxtalýsingu sóknaraðila kemur fram að D hafi látist hinn [...] október 2006 eftir erfið veikindi. Skömmu fyrir andlát sitt eða hinn [...] október 2006 hafi hann undirritað erfðaskrá þar sem hann arfleiddi varnaraðila, C, að helstu eignum sínum eins og það er orðað í erfðaskránni. Samkvæmt erfðaskránni skyldi hins vegar fjölskylda D fá í sinn hlut einstaka innan­stokksmuni. Með bréfi Sýslumannsins í Reykjavík dags. 20. desember 2006, hafi ofan­greind C fengið leyfi til einkaskipta á dánarbúinu.

Áður en D lést hafði hann verið alvarlega veikur af krabbameini og gengið í gegn­um erfiða sjúkdómslegu. Hann hafi dvalið á Landspítalanum við Hringbraut þegar hann undirritaði erfðaskrána sem og þegar hann lést. Hann hafi verið m.a. á sterkum lyfjum sem hafi haft það í för með sér að hann datt stundum út og virtist engan veginn með sjálfum sér. Hafi stundum virst sem hann þekkti ekki nána vini sína og ættingja. Sóknaraðilar telji sig hafa vissu fyrir því að D heitinn hafi skömmu áður en hann undirritaði ofangreinda erfðaskrá, verið í annarlegu ástandi að þessu leyti. Þá hafi D verið mjög heyrnardaufur sem hafi leitt til misskilnings hans um marga hluti, ekki síst meðan á veikindum hans stóð.

Vegna veikinda D heitins, þegar hann undirritaði erfðaskrána, og þar sem erfða­skráin hafi ekki verið í samræmi við það sem D heitinn hafði nefnt við nokkra ættingja sína og vini, hafi sóknaraðilar óskað eftir því með matsbeiðni, dags. 9. febrúar 2007, að dómkvaddir yrðu tveir hæfir og óvilhallir matsmenn til þess að meta hvort D hafi verið það heill heilsu andlega og líkamlega þegar hann undirritaði erfðaskrána, skömmu fyrri andlát sitt, að hann hafi gert sér fulla grein fyrir hvað fólst í þeirri ráðstöfun.

Hinn 25. maí 2007 hafi verið dómkvaddir í Héraðsdómi Reykjavíkur, til að fram­kvæma hið umbeðna mat, læknarnir Guðjón Baldursson, sérfræðingur í heim­il­is­lækn­ingum og krabbameinslækningum, og Pálmi V. Jónsson, sérfræðingur í lyflækningum og öldrunarlækningum.

Í spurningum til matsmanna í matsbeiðninni segi m.a. orðrétt:

Þess er óskað að hinir dómkvöddu matsmenn láti matsbeiðendum í té skriflegt og rökstutt álit á eftirgreindum atriðum:

1. Þeir kanni og upplýsi í hverju veikindi D heitins fólust á þeim tíma sem hann undirritaði erfðaskrána.

2. Þeir kanni og upplýsi á hvaða lyfjum D heitinn var á og í hvaða magni hann tók þau, skömmu fyrir undirritun erfðaskrárinnar og þegar hann undirritaði hana.

3. Þeir lýsi þeim áhrifum sem líklegt sé að lyfjagjöfin hafi haft á D heitinn og/eða hvaða áhrif slík lyfjagjöf hafi almennt á sjúklinga, andlega og líkamlega.

4. Þeir gefi álit sitt á því með tilliti til allra fyrirliggjandi gagna um heilsu D heitins þ.m.t. sjúkraskráa, hvort líklegt sé að veikindi hans og sú meðferð sem hann fékk, þ.m.t. í formi lyfjagjafar, hafi dregið úr andlegu og líkamlegu hæfi hans til að gera sér grein fyrir hvað fólst í erfðaskránni sem hann undirritaði. Ef svo er, þá hvers vegna?

Matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna sé dags. 15. október 2007. Þar sé m.a. rakið það sem fram komi í sjúkraskýrslum, hjúkrunarnótum og læknabréfum um veikindi D og innlagnir á sjúkrahús. Í niðurstöðum hinna dómkvöddu matsmanna segi m.a. orðrétt:

Í samantekt, þá greinist D í janúar 2006, þá 87 ára gamall, með blöðruhálskirtilskrabbamein sem hefur sáð sér í kvið, lungu og bein. Gegn krabba­meininu var beitt lyfja- og geislameðferð. Frá því í ágúst 2007 er D kominn á Contalgin, sem er sterkt verkjalyf.

Þá kemur fram að D hafi verið lagður inn á sjúkrahús skömmu fyrir andlát sitt hinn [...] október 2006. Þá segi orðrétt:

Við komu í banalegunni er D skýr, samkvæmt sjúkraskrá, en daginn fyrir undir­skrift er D með rugl ástand. Þá segir sérfræðingur að D hafi verið rugl­aður þann dag, sem hann undirritaði erfðaskrána. Jafnframt kemur fram að þetta kvöld er D snúið reglulega og honum er verulega þungt. D  fær við­bóta­skammta af morfíni síðdegis og um þetta kvöld, auk þess sem hann er kominn á slím­dempandi lyf (scopoderm). Bæði morfín og scopoderm hafa andkolinerg áhrif sem auka á tilhneigingu til rugls hjá þeim sem eru aldraðir og viðkvæmir vegna undir­liggjandi sjúkdóma.

Nokkru síðar segi orðrétt:

Í banalegunni er D kominn með merki um óráð deginum áður en hann undir­ritar erfðaskrána og helst það ástand samkvæmt nótu sérfræðings og þess utan er hann með mikil andþyngsli, auk verkja, kvöldið sem hann undirritar erfðaskrána og hann er þá máttfarinn og þarf að snúa honum.

Óráð er tímabundin vitræn skerðing, sem einkennist af því að ástandið getur komið upp skyndilega og einkennist af athyglisbresti, auk þess að þá geta komið fram önnur einkenni, svo sem breyting á skýrleika hugsunar og meðvitundarbreytingar, rang­hugmyndir og ofskynjanir. Lykileinkenni er athyglisbrestur og síðan annað tveggja meðvitundarskerðing og hugsanabrengl. Áhættuþættir fyrir óráði eru alvar­lega undirliggjandi sjúkdómar, svo sem krabbamein með meinvörpum getur verið, svo og lyfjameðferð, einkum með lyfjum með andkólinergum lyfjum. Sá sem er með óráði hefur tapað hæfni sinni til þess að taka ákvarðanir, að minnsta kosti tímabundið.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum var D með óráði daginn fyrir og daginn sem hann ritaði undir erfðaskrána og það ástand hélst allt til dauðadags. Sam­tíma­skráning á einkennum D er sannfærandi og kemur fram í nótum hjúkr­un­ar­fræðinga, deildarlækna og sérfræðings. Undirliggjandi sjúkdómur og meðferð hans er þannig, að annars skýrir einstaklingar, geta auðveldlega fengið óráð. Með hliðsjón af öllu ofanskráðu, svo og með tilliti til þekkingar og reynslu matsmanna, drögum við undirritaðir þá ályktun að D hafi verið með óráði og því ekki fær um að taka skuldbindandi ákvarðanir vegna tímabundinnar vitrænnar skerðingar. Veikindin voru á það alvarlegu stigi að D komst aldrei út úr þessu annarlega and­lega ástandi og lést þremur sólarhringum síðar.

Lögmaður sóknaraðila hafi með bréfi gert lögmanni varnaraðila grein fyrir þeirri skoðun sinni, með vísan til niðurstaðna hinna dómkvöddu matsmanna, að ekki hafi verið gætt ákvæða VI. kafla erfðalaga nr. 8/1962 við gerð erfðaskrárinnar. Hún væri því ógild og ætti ekki að koma til framkvæmda. Með tölvupósti dags. 12. nóvember 2007, hafi lögmaður varnaraðila tjáð lögmanni sóknaraðila, að varnaraðili C héldi fast við erfðarétt sinn samkvæmt erfðaskránni og ef sóknaraðilar vildu hnekkja henni, yrðu þeir að leita til dómstóla.

II

Varnaraðili telur málavaxtalýsingu sóknaraðila vera ónákvæma og hlutdræga og alls ekki gefa rétta mynd af aðdraganda að gerð erfðaskrárinnar.

Arfleifandinn, D, hafi látist [...] október 2006, 87 ára gamall. Hann hafi þá um nokkurt skeið átt við krabbamein að stríða, en þó haldið andlegri heilsu alveg fram undir það síðasta. D hafi margsinnis ámálgað við E hæstaréttarlögmanni, frænda sinn, að hann vildi fá að koma á skrifstofu hans til að ganga frá sínum málum, en af því hafi ekki orðið. Þegar lögmaðurinn hafi frétt að D væri kominn á sjúkrahús hafi hann ákveðið að heimsækja hann og kanna það hvort D ætti eitthvað ósagt við sig eða hvort hann óskaði eftir að því E gerði eitthvað fyrir hann. Lögmaðurinn hafi rætt við D sem hafi þá óskað eftir því að hann ritaði fyrir sig erfðaskrá. Lögmaðurinn hafi þá kallað til tvo votta, hjúkr­un­arfræðinga sem önnuðust D í veikindum hans, sem hafi fylgst með því þegar D útlistaði fyrir lögmanninum hvers efnis erfðaskráin ætti að vera. Að svo búnu hafi lögmaðurinn farið afsíðis og ritað texta erfðaskrárinnar í tölvu á sjúkrahúsinu. Hann hafi síðan farið aftur á sjúkrastofuna til D og þar hafi verið gengið frá stað­fest­ingu hennar að arfleiðsluvottunum viðstöddum eins og skjalið beri með sér. Í vott­orði þeirra segi m.a. að D hafi að þeim báðum viðstöddum lýst yfir að erfðaskráin hefði hinsta vilja hans að geyma og að hann hafi gert þetta vitandi vits og heill heilsu and­lega og líkamlega. E hafi verið viðstaddur undirritun erfða­skrár­innar og staðfestingu vottanna, þótt þess sé ekki getið í texta skjalsins.

III

Sóknaraðilar byggja kröfu sína um ógildingu erfðaskrárinnar á því að D heitinn hafi ekki uppfyllt kröfur 2. mgr. 34. gr. laga nr. 8/1962 um arf­leiðslu­hæfi. Samkvæmt hinu tilgreinda ákvæði sé erfðaskrá því aðeins gild að sá sem hana gerir, sé svo heill heilsu andlega, að hann sé fær um að gera þá ráðstöfun á skynsamlegan hátt.

Í framangreindri matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna sé veikindum D lýst og þeirri meðferð sem hann hlaut. Þar komi m.a. fram að kvöldið sem hann undirritaði erfða­skrána hafi hann fengið viðbótarskammta af morfíni auk þess sem hann hafi verið kominn á scopoderm en bæði þessi lyf hafi andkolinerg áhrif sem auki til­hneig­ingu til rugls hjá þeim sem séu aldraðir og viðkvæmir fyrir vegna undirliggjandi sjúk­dóma. Þá komi fram að D hafi verið með óráði daginn fyrir og daginn sem hann ritaði undir erfðaskrána og að það ástand hafi haldist allt til dauðadags. Fram komi að sam­tímaskráning á einkennum D sé sannfærandi og komi fram í nótum hjúkr­unar­fræð­inga, deildarlækna og sérfræðings. Telji matsmennirnir að undirliggjandi sjúk­dómur D og meðferð hans sé þannig, að annars skýrir einstaklingar geti fengið óráð.

Sóknaraðilar telji að allt framangreint sýni að D hafi verið í annarlegu ástandi vegna veikinda sinna og meðferðarinnar við þeim. Hann hafi því engan veginn verið hæfur til að gera erfðaskrá og því verulegar líkur á því að hann hafi ekki vitað hvað fólst í ráðstöfun hans samkvæmt erfðaskránni. Það leiði til þess að erfðaskráin sé ekki gild, sbr. 2. mgr. 34. gr. erfðalaga nr. 8/1962, og eigi því ekki að koma til framkvæmda sbr. 1. mgr. 45. gr. sömu laga. Varnaraðili C, sem sé erfingi að öllum helstu eignum dánarbúsins, hafi hins vegar ekki fallist á það. Því verði sóknar­aðilar að fá úrskurð héraðsdóms fyrir því að erfðaskráin sé ógild.

Kröfu sína um málskostnað byggja sóknaraðilar á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 og kröfu um virðisaukaskatt á málskostnað á lögum nr. 50/1988 um virðis­aukaskatt, en sóknaraðilar eru ekki virðisaukaskattskyldir.

IV

Varnaraðili byggir á að D sem hafi verið ekkjumaður og ekki átt skyldu­erfingja, hafi samkvæmt 1. mgr. 34. gr. erfðalaga nr. 8/1962 verið heimilt að ráð­stafa öllum eignum sínum með erfðaskrá.

Erfðaskrá D uppfylli allar formkröfur sem um slíka lög­gern­inga gildi samkvæmt 40. – 42. gr. erfðalaga. Hún sé skrifleg, arfleifandinn staðfesti hana að viðstöddum tveim hæfum arfleiðsluvottum, sem hvorugur hafi verið vanhæfur til þeirrar vottunar. Efni arfleiðsluvottorðs sé í samræmi við kröfur sem til slíkra vottorða séu gerðar í 142. gr. laganna.

Í 37. gr. erfðalaga segi að erfðaákvörðun sé ógild ef arfleifandi hafi verið beittur nauð­ung, svikum eða misneytingu til þess að gera hana. Ljóst sé að sóknaraðilar byggi ekki kröfur sínar á þessu ákvæði og komi það því ekki frekar til skoðunar.

2. mgr. 34. gr. erfðalaga sé svohljóðandi: Erfðaskrá er því aðeins gild, að sá, sem gerir hana, sé svo heill heilsu andlega, að hann sé fær um að gera þá ráðstöfun á skyn­samlegan hátt.

Því sé ekki haldið fram af sóknaraðilum að erfðaráðstöfunin feli ekki í sér skyn­sam­lega ráðstöfun í skilningi ákvæðisins.

Með því að öllum formkröfum um gildi erfðaskráa er fullnægt sé ljóst að fara beri eftir henni nema því aðeins að sá sem vefengi skrána geti hnekkt vottorði arf­leiðslu­vott­anna. Vísist í þessu sambandi til 2. mgr. 46. gr. erfðalaga, sem sé svohljóðandi: Nú er yfirlýsing votta í arfleiðsluvottorði fullnægjandi um atriði þau, sem greinir í 42. gr. og 1. mgr. 44. gr. og skal hún þá talin rétt, nema sá, sem rengir, færi sönnur á hið gagn­stæða.

Svo sem fram komi í greinargerð sóknaraðila hafi þeir fengið dómkvadda tvo mats­menn, sem báðir séu læknar, til að meta þau atriði sem tilgreind séu í matsbeiðni undir fyrirsögninni Andlag matsins. Meginspurningin þar sé sú að óskað er mats á því hvort líklegt sé að veikindi D og sú meðferð sem hann fékk, þ.m.t. í formi lyfja­gjafar, hafi dregið úr andlegu og líkamlegu hæfi hans til að gera sér grein fyrir hvað fólst í erfðaskránni sem hann undirritaði, og þá hvers vegna.

Varnaraðili geri alvarlegar athugasemdir við matsgerðina og telji að óheimilt sé að leggja hana til grundvallar niðurstöðu í málinu vegna galla á málsmeðferð. Gall­arnir séu þess eðlis að sönnunargildi matsgerðarinnar sé ekkert.

Í matsbeiðninni hafi þess verið óskað að matsmenn könnuðu og upplýstu í hverju veik­indi D hafi falist á þeim tíma sem hann undirritaði erfðaskrána og að þeir könnuðu og upplýstu á hvaða lyfjum D hafi verið á þeim tíma. Um þessi atriði hafi engin gögn verið lögð fram með matsbeiðninni og augljóslega gert ráð fyrir að matsmennirnir öfluðu þeirra gagna sjálfir sem þeir mundu síðan byggja nið­ur­stöður sínar á.

Matsfundur hafi verið haldinn 6. september 2007. Þar sé m.a. bókað hver gögn mats­menn hafi um málið. Komi þar fram að þeir hafi á grundvelli umboðs sem þeir hafi fengið nokkru eftir dómkvaðninguna aflað sér sjúkraskrár D til skoðunar.

Lögmaður varnaraðila hafi þá óskað eftir afriti af öllum gögnum, sem stuðst væri við í matsgerð og vitnað til, sem þýðingu hefðu fyrir niðurstöðu í málinu. Hann hafi þó engin gögn fengið afhent á fundinum og hafi, þegar greinargerðin sé skrifuð, ekki fengið nein þau gögn afhent sem matsmenn studdust við í matsstörfum sínum. Mats­gerðina sjálfa hafi lögmaður varnaraðila fengið senda frá matsmönnum í pósti, en henni hafi engin gögn fylgt.

Í 2. mgr. 62. gr. laga nr. 91/1991 segi m.a. um framkvæmd mats: Matsmanni er rétt að afla sér gagna til afnota við matið, en aðilum sem eru viðstaddir skal þá gefinn kostur á að tjá sig um þau eftir þörfum. Ef vitnaleiðsla reynist nauðsynleg til skýr­ingar á matsatriði er dómara rétt að láta hana þegar fara fram.

Þessara mikilvægu reglna hafi ekki verið gætt þegar hið umbeðna mat fór fram. Þau gögn sem matsgerðin byggist á í öllum aðalatriðum hafi heldur ekki verið lögð fram í málinu og þar af leiðandi hafi varnaraðili engin tök á að fjalla um efni þeirra í grein­argerð þessari nema að því leyti sem þau séu tilfærð í matsgerðinni. Slíkt sé að mati varnaraðila algerlega ófullnægjandi. Af þessu leiði að mati varnaraðila að mats­gerðin geti enga þýðingu haft sem sönnunargagn í málinu.

Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu, þrátt fyrir framangreint, að matsgerðin hafi eitthvert sönnunargildi í málinu hafi varnaraðili ýmsar athugasemdir fram að færa varð­andi efni hennar.

Í matsgerðinni komi fram að matsmenn hafa kynnt sér sjúkrasögu D og sjúkra­skrá og styðjist við þessi gögn úr henni við mat sitt, enda hafi hvorugur þeirra haft hann til læknismeðferðar. Niðurstöður matsmannanna séu svo dregnar saman þannig: Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum var D með óráði daginn fyrir og daginn sem hann ritaði undir erfðaskrána og það ástand hélst allt til dauðadags. Sam­tíma­skráning á einkennum D er sannfærandi og kemur fram í nótum hjúkrunar­fræðinga, deildarlækna og sérfræðings. Undirliggjandi sjúkdómur og meðferð hans er þannig, að annars skýrir einstaklingar geta auðveldlega fengið óráð Með hliðsjón af öllu ofanskráðu, svo og með tilliti til þekkingar og reynslu matsmanna, drögum við undir­ritaðir þá ályktun að D hafi verið með óráði og því ekki fær um að taka skuldbindandi ákvarðanir vegna tímabundinnar vitrænnar skerðingar. Veik­indin voru á það alvarlegu stigi að D komst aldrei út úr þessu annarlega andlega ástandi og lést þremur sólarhringum síðar.

Varnaraðili mótmæli því að þessar niðurstöður hafi þýðingu fyrir niðurstöðu í málinu. Það sem öllu máli skipti við mat af þessu tagi sé það, hvort viðkomandi gerði sér grein fyrir efni skjalsins og lýsti því yfir að það hefði vilja sinn að geyma. Arf­leiðslu­vottanir votti þetta skýrlega, en matsmenn líti til þess hvort arfleifandinn hafi verið fær um að taka á sig skuldbindandi ákvarðanir. Erfðaskráin hafi ekki verið skuld­bindandi ákvörðun, enda hafi hún átt að koma til framkvæmda eftir lát hans.

Af hálfu varnaraðila sé lögð á það áhersla að matsmennirnir hafi skoðað gögn um heilsu­far hins látna – þeir hafi aldrei skoðað hann sem sjúkling og geti þess vegna ekki byggt á öðru en því sem þeir telji líklegt með hliðsjón af þekkingu sinni og reynslu. Sjúkl­ingarnir séu hins vegar ekki allir eins og þótt tiltekin sjúkdómsgreining liggi fyrir sé ekki víst að allir sem fengið hafa sömu greiningu séu allir jafn skýrir eða jafn skertir. Þótt D hafi verið mikið veikur á lokakafla lífsskeiðs síns sé þó ljóst af gögnum málsins, að hann hafi verið útskrifaður af sjúkrahúsi til síns heima fjórum vikum áður en hann undirritaði erfðaskrána. Í matsgerðinni sé tilvitnun í lækna­bréfs Ólafs H. Samúelssonar, sérfræðings í öldrunarlækningum, þar sem segi m. a.: Fram komu hjá D afar sterkar óskir um að vera áfram heima og á fjöl­skyldu­fundi sem mættir voru nánasti stuðningsaðili úr fjölskyldunni ásamt fulltrúum frá heim­ilishjálp ákveðin útskrift. Fyrir útskrift var gerð heimilisathugun, gerðar við­eigandi ráðstafanir heima, pantaður öryggishnappur, baðbretti, salernishækkun og göngu­grind.

Í matsgerðinni komi einnig fram að við innlögn á þvagfæraskurðdeild [...] október 2006 hafi D virst vera áttaður, hann hafi heyrt dálítið illa en ... svarað þokkalega þegar hann var spurður ... .

Varnaraðili telji að líta verði sérstaklega til þessara atriða þegar metið sé hvort eftirá­skoðun matslæknanna verði látin hafa meira vægi en framburður þeirra sem sann­anlega umgengust D heitinn um það leyti sem erfðaskráin var gerð. Þar sem erfða­skráin sé í lögboðnu horfi verði henni ekki hnekkt nema því aðeins að dómurinn telji hafið yfir allan vafa að arfleiðsluvottorðið sé beinlínis rangt um hæfi arfleifandans á nákvæmlega þeim tíma sem erfðaskráin var staðfest.

Í þessu samhengi telji varnaraðili einnig fjarstæðukennt að D heitinn hefði getað skrifað nafn sitt svo greinilega sem hann gerði á erfðaskrána ef hann hefði verið svo úr heimi hallur sem haldið sé fram af sóknaraðilum. Að þessu sé ekkert vikið í mats­gerð matsmannanna, enda hafi þeir ekki verið beðnir um að tjá sig neitt um það.

Á beiðni um leyfi til einkaskipta eftir eiginkonu D heitins megi sjá undirritun hans árið 2003. Þegar hún sé borin saman við nafnritun hans undir erfðaskrána sjáist að öll helstu rithandareinkennin séu þau sömu.

Varnaraðili vísar til 130. gr. laga nr. 91/1991 varðandi málskostnaðarkröfu sína.

V

Fyrir liggur að formskilyrðum erfðalaga nr. 8/1962 er fullnægt hvað snertir hina um­deildu erfðaskrá er D, sem lést hinn [...] október 2006, gerði þann 26. sama mánaðar.

Mál þetta snýst þannig eingöngu um arfleiðsluhæfi D við gerð erfða­skrárinnar, en í 2. mgr. 34. gr. erfðalaga nr. 8/1962 er kveðið á um að erfðaskrá sé því aðeins gild, að sá, sem hana gerir, sé svo heill heilsu andlega, að hann sé fær um að gera þá ráðstöfun á skynsamlegan hátt.

Bera sóknaraðilar sönnunarbyrði fyrir því að D heitinn hafi ekki uppfyllt kröfur 2. mgr. 34. gr. erfðalaga um arfleiðsluhæfi við gerð erfðaskrárinnar, þann [...] október 2006, þremur dögum fyrir andlát sitt.

Við fyrri aðalmeðferð málsins gáfu vitnaskýrslur m.a. nákomnir ættingjar D heitins, þau F, G og H, sem heimsóttu hann [...] Og [...] október, þ.e. daginn fyrir gerð erfðaskrárinnar og sama dag. Bar þeim saman um að D hafi verið mjög veikur og mjög af honum dregið. Kvað F, sem heimsótti hann [...]. október, hann hafa þekkt sig en ekki föður hans sem með honum var. G kvað móður sína hafa komið með sér í heimsóknina þann [...] október og hann þekkt hana en hún sé ekki viss um að hann hafi þekkt sig. H, sem heimsótti D [...] október, kvaðst vera í vafa um að D hafi þekkt hana. 

I, félagi D heitins, kvaðst hafa heimsótt D kvöldið áður en hann dó en við það þykir mega miða að það hafi verið kvöldið sem hann gerði erfðaskrána. Bar hann að honum hafi sýnst D alveg klár í kollinum.

Ekkert vitnanna kannaðist við að hafa heyrt D heitinn tala um að gera erfðaskrá. Þó kom fram í vitnisburði vinar hans, J, að hann hefði heyrt á honum og konu hans að þegar að því kæmi myndu fjölskyldur þeirra beggja erfa þau.

Ekkert þessara vitna kom fyrir dóm á ný við síðari aðalmeðferð málsins en framburðarskýrslur þeirra eru meðal gagna þess.

Um aðdragandann að því að D heitinn gerði umrædda erfðaskrá er ekki við annað að styðjast en framburð vitnisins E hæstaréttarlögmanns sem ann­að­ist gerð hennar. Hann hefur greint frá því að D, sem var afabróðir hans í föður­ætt, hafi, í tengslum við það að hann var skipaður fjárhaldsmaður eiginkonu hans í árs­lok 2001, talað við sig um að hann þyrfti að gera erfðaskrá D hafi síðan áréttað þetta nánast alltaf þegar þeir hittust, sem þó hafi ekki verið oft, en ekkert hafi orðið úr því.

Hann hafi vitað það í gegnum varnaraðila og hennar fjölskyldu, sem sé mikið vina­fólk hans, að D heitinn hefði verið inn og út af spítala. Síðan hafi M, sonur varnaraðila, borið honum þau skilaboð frá N systur sinni að D vildi gjarnan hitta hann. Hann hafi rennt grun í að D vildi hitta hann vegna ráð­stöfunar á eignum en ekkert vitað hvað hann hygðist fyrir í þeim efnum. Hann hafi því afráðið að fara á spítalann og ræða við D. Þegar hann hafi komið þangað hafi D legið útaf og greinilega verið mikið veikur. D hafi strax þekkt hann og spurt hann fyrst af öllu um það hvernig O, tveggja ára sonur hans, sem hann haldi að D hafi ekki hitt, hefði það. Honum hafi af þeirri spurn­ingu og fleirum þótt hann vera vel heima í kollinum. Þar sem gestir hafi verið hjá D hafi hann ákveðið að fara og koma aftur síðar um daginn. Hann hafi rætt við yfir­hjúkr­unarkonu á deildinni og hafi hún aðspurð tjáð honum að þó að D væri auð­vitað mikið veikur þá væri hann alveg með á nótunum. Hafi hún sagt honum að D yrði fluttur á einkastofu síðar um daginn og þá yrði hægt að ræða við hann í næði.

Hann hafi komið á spítalann aftur eftir kl. 18:00 sama dag og þá hitt yfir­hjúkr­unar­konuna sem hafi tjáð honum að D væri mun hressari. Hann hafi farið inn á stofuna til D ásamt yfirhjúkrunarkonunni og annarri hjúkrunarkonu sem tekið hafi að sér að vera vottar. Hann hafi rætt við D og hann viljað gera erfðaskrá. Sam­skiptin við D hafi verið erfið þar til hjúkrunarkonurnar hjálpuðu honum að koma heyrnartækjunum fyrir. Hann hafi þráspurt D hvernig hann vildi hafa erfða­skrána og hann alltaf sagt að C ætti að hafa fyrsta rétt. Hann hafi sagt D að hann gæti ráðstafað eignum sínum að vild og spurt hvort hann vildi nefna einhverja aðra en hann alltaf sagt að C ætti að hafa fyrsta rétt. Svo hafi hann tekið fram að hann vildi að sitt fólk fengi aðgang að innbúi. Hann hafi síðan gert erfðaskrána á tölvu á spítalanum. Það hafi verið mikið atriði fyrir hann að fá hjúkrunarkonurnar, sem þekktu D og umgengust hann, til að vera vottar. Hann hafi spurt þær hvort þær væru ekki algjörlega vissar um hvað D vildi og þær svarað því játandi. Önnur þeirra hafi tjáð honum að þetta kæmi henni ekki á óvart því greinilegt væri að C væri honum mjög náin. Hann hafi sérstaklega tekið fram við þær að þær mættu alls ekki votta ef þær teldu af kynnum sínum af D að þetta væri eitthvað óljóst eða að ástæða væri til að ætla að hann vissi ekki hvað hann væri að gera.

Arfleiðsluvottar á erfðaskránni eru K hjúkrunarfræðingur og L sjúkraliði. Ljóst er því að vitnið E hefur ranglega talið L vera hjúkrunarfræðing.

Arfleiðsluvottarnir staðfestu undir­skriftir sínar undir arfleiðsluvottorðið fyrir dóminum. Þær báru báðar að þær hefðu verið viðstaddar gerð erfðaskrárinnar. D heitinn hafi við gerð hennar verið heill heilsu andlega og að erfðaskráin hefði að geyma vilja hans. Hins vegar væri það ekki rétt sem kæmi fram í arfleiðslu­vottorðinu að hann hafi verið heill heilsu líkamlega.

Í framburði K kom fram að hún hefði kynnst D heitnum vel. Hann hafi verið andlega alveg klár. Umræddan dag hafi hann verið slæmur fyrripartinn og fengið morfín. Hann hafi sofnað og vaknað skýr. Þegar hann vaknaði hafi hann verið harður á því að hann vildi gera erfðaskrá. Hann hafi alveg vitað hvað hann var að gera. D hafi talað um það í fyrri innlögnum að gera erfðaskrá. Hún hafi heyrt að hann hafi talað um að það væri ósk hans að C erfði hann. Það hafi verið hans ósk. Lögmaðurinn hafi spurt hann margs konar spurninga til að ganga úr skugga um hver vilji hans væri. D hafi margítrekað hver væri hans síðasta ósk.

Í framburði L kom fram að hún teldi sig geta sagt að D heitinn hafi verið andlega heill. Hann hafi verið alveg skýr að tala við og alveg vitað hvað var að gerast í kringum hann. D hafi verið ótrúlega með á nótunum. Lögmaðurinn hafi spurt D í þaula um vilja hans og snúið spurningum aftur á bak og áfram eins til að athuga hvort hann fengi alltaf sömu svörin. D hafi verið með vilja sinn alveg á hreinu. Það hafi ekki verið hægt að rugla hann. Hún muni að aðspurður af lögmanninum um það hvort aðrir ættingjar fengju eitthvað hafi hann svarað að þeir mættu velja sér einn hlut hver úr búinu.

Í málinu liggur fyrir matsgerð læknanna Pálma V. Jónssonar og Guðjóns Baldurs­sonar.

Fyrir liggur að á matsfundi 6. september 2007 höfnuðu matsmenn beiðni lög­manns varnaraðila um að fá afhent afrit af öllum gögnum, sem stuðst væri við og vitnað til í matsgerð, sem þýðingu hefðu fyrir niðurstöðu í málinu. Matsmennirnir, sem höfðu aflað sér aðgangs að sjúkraskrá D heitins, höfnuðu beiðninni þar sem þeir töldu sig ekki hafa umboð til að afhenda gögnin.

Samkvæmt 2. mgr. 62. gr. laga nr. 91/1991 skal viðstöddum aðilum gefinn kostur á að tjá sig um gögn sem matsmaður hefur aflað til afnota við mati. Þar sem ekki liggur annað fyrir en að lögmaður varnaraðila hafi á matsfundinum átt þess kost að tjá sig um gögnin, sem beiðni hans laut að, verður ekki fallist á að framkvæmd matsins hafi brotið í bága við ákvæði 2. mgr. 62. gr. laga nr. 91/1991. 

Í matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna, sem byggð er á sjúkragögnum D heitins, kemur m.a. fram að D hafi verið með óráði daginn fyrir og daginn sem hann undirritaði erfðaskrána og hafi það ástand haldist allt til dauðadags.

Komast matsmennirnir að þeirri niðurstöðu að D hafi vegna óráðsins ekki verið fær um að taka skuldbindandi ákvarðanir vegna tímabundinnar vitrænnar skerðingar.

Matsmennirnir komu báðir fyrir dóminn, skýrðu matsgerðina frekar og staðfestu.

Í framburði Pálma V. Jónssonar læknis kom fram að unnt sé að eiga samtal við fólk með óráði og það geti blekkt tímabundið sé maður ekki á varðbergi gagnvart því sem er á seyði. Fólk geti sýnt fyrstu viðbrögð sem virðist eðlileg og framkvæmt einfaldar skipanir eins og rita nafnið sitt sem sé rótgróið. Fólk geti hins vegar ekki framkvæmt skipanir þar sem eitt leiði af öðru. Það sé eins ljóst og verið geti að D heitinn hafi verið með óráði í kringum umræddan dag. Óráð sé skyndileg breyting á vitrænni getu og hástig vitrænnar skerðingar. Óráð geti verið sveiflukennt. Ekkert gefi til kynna að bráð hafi af honum og því yfirgnæfandi líkur á að óráðsástandið hafi haldið áfram. Ekki sé hægt að treysta því að hann hafi haft vitræna getu til að gera erfðaskrá.

Í framburði Guðjóns Baldurssonar læknis kom fram að óráð geti verið sveiflu­kennt, það sveiflist eftir þeim aðstæðum sem valdi því. Þannig geti tímabundið bráð af manni og hann öðlast ráð aftur. Þá geti sá sem er með óráði, þegar bráir af inn á milli, virst með fullu ráði og í lagi fyrir þá sem ekki þekkja til. Sá sem er með óráði geti framkvæmt ýmsar eðlislægar eða vanabundnar at­hafnir eins skrifa nafnið sitt. Þá geti viðkomandi framfylgt fyrirmælum um að gera ein­falda hluti. Hann telji miklar, jafnvel allmiklar, líkur á því að D heitinn hafi ekki gert sér grein fyrir því hvað fólst í erfðaskránni. Sérstaklega aðspurður kvaðst hann þó ekki telja það útilokað. Það geti bráð af veikum einstaklingi eins og honum inn á milli tímabundið.

Í læknabréfi Baldvins Kristjánssonar sérfræðings, sem hann staðfesti fyrir dóm­inum, kemur fram að D hafi versnað þann 26.10., daginn sem hann gerði erfða­skrána, og að hann sé þá mjög slappur og óáttaður. Um kvöldið hafi hann verið með veru­leg andþyngsli og meðvitundarlítill. Jafnt og þétt hafi dregið af honum þar til hann andaðist þann 29.10.2006.

Í framburði hans fyrir dómi kom fram að stundum brái af sjúklingum með óráð og þeir hressist í nokkra klukkutíma. Óráð þýði ekki endilega að sjúklingur liggi og viti hvorki í þennan heim né annan. Geta hans til að hugsa heildrænt sé hins vegar skert. Viðkomandi þoli stutta heimsókn og geti virst svara af viti. Sérstaklega að­spurður um það hvort algjörlega væri útilokað að D heitinn hafi getað gert sér grein fyrir efni erfðaskrárinnar svaraði hann því til að hugsanlega hafi bráð af honum og ekkert væri útilokað.

Hann sjái sjúklinga ekkert eftir stofugang, sem farinn sé að morgni, nema eitthvað sérstakt komi til. Ástand D heitins hafi verið misjafnt og hann hafi flökt heilmikið. Hann hafi heyrt af gerð erfðaskrárinnar eftirá. Aðspurður um það hvort ekki hafi hvarflað að honum að mótmæla því að erfðaskráin var gerð þar sem D var með óráði svaraði hann því til að honum hafi ekki fundist hann vera með þannig óráð að hann gæti staðhæft að þetta væri alveg út í hött.

Vilji arfleifanda vegur þungt við mat á því hvort ógilda eigi erfðaskrá á grund­velli 2. mgr. 34. gr. erfðalaga. Fyrir liggur að varn­araðili hafði annast um D heitinn og að hann gaf hana upp sem nánast ættingja við innlögn eins og hann hafði oftsinnis gert áður. Um það að vilji hans hafi staðið til að gera erfðaskrá liggur fyrir framburður K sem ber að D hafi talað um það í fyrri innlögnum að gera erfðaskrá og að hún hafi heyrt að það væri ósk hans að varnaraðili erfði hann. Það hefði verið hans ósk. Samkvæmt framburði E hæsta­réttar­lög­manns kom frumkvæðið að gerð erfðaskrárinnar frá D heitnum.

Af niðurstöðu matsgerðarinnar, sem ekki hefur verið hnekkt, sem og framburði mats­mannanna þykir verða ráðið að veruleg óvissa sé um að D heitinn hafi verið vegna „óráðs“ fær um að ráðstafa eignum sínum með erfðaskrá á skyn­samlegan hátt.

Matsgerðina þykir hins vegar verða að meta í ljósi þess að matsmennirnir meta ástand D heitins eftirá út frá sjúkraskrárgögnum eingöngu en þekkt er að skráning þeirra er oft ónámkvæm og getur gefið ófullnægjandi upplýsingar. 

Fyrir liggur að D heitinn var mjög veikur daginn sem hann gerði erfðaskrána, þ.e. [...] október 2006, og var óáttaður samkvæmt sjúkragögnum. Hvergi kemur hins vegar fram að hann hafi verið andlega vanheill eða ekki vitandi vits. Liggur fyrir að hann fékk sterk verkjalyf umræddan dag og viðbótarskammta síðdegis og um kvöldið.

Vitnið K, hjúkrunarfræðingur, ber að D heitinn hafi sofnað eftir lyfjagjöf og vaknað skýr. Hann hafi alveg vitað hvað hann var að gera þegar hann gerði erfðaskrána. Vitnið L, sjúkraliði, sem kom til starfa kl. 16:00, hefur einnig borið að D hafi verið „ótrúlega“ skýr. Þá liggur fyrir vitnisburður I, sem leggja þykir mega til grund­vallar að hafi heimsótti D skömmu áður en hann gerði erfðaskrána, og sýndist hann vera alveg klár í kollinum. Vitnisburður E hæstaréttarlögmanns er á sömu lund.

Liggur þannig fyrir framburður allra þessara vitna um að D heitinn hafi verið skýr á þeim tíma sem erfðaskráin var gerð en þau eru ein til vitnis um það hvernig ástandi D heitins var háttað á þeim tíma. Þá verður að telja afdráttarlausan framburð arfleiðsluvottanna, sem eru hjúkrunarfræðingur og sjúkraliði, sérstaklega veigamikinn, en þær kváðust báðar hafa annast hann og önnur þeirra hafa hugsað mikið um hann.

Þá liggur fyrir framburður Baldvin Kristjánssonar læknis um að stundum brái af sjúklingum með óráð. Ástand D heitins hafi verið misjafnt og hann hafi flökt heilmikið. „Óráð“ þýði ekki endilega að sjúklingur liggi og viti hvorki í þennan heim né annan. Honum hafi ekki fundist D heitinn með þannig óráð að hann gæti staðhæft að gerð erfðaskrárinnar væri alveg út í hött. 

Loks liggur fyrir að matsmaðurinn Guðjón Baldursson læknir kvað óráð geta sveiflast eftir þeim aðstæðum sem valdi því og að hann teldi ekki útilokað að D heitinn hafi gert sér grein fyrir því hvað fólst í erfðaskránni.

Matsmaðurinn Pálmi V. Jónsson læknir kvað hins ekki hægt að treysta því að D heitinn hafi haft vitræna getu til að gera erfðaskrá þar sem ekkert í sjúkraskrá gefi til kynna að bráð hafi af honum og því yfirgnæfandi líkur á að óráðsástandið hafi haldið áfram.

Þegar afdráttarlaus framburður þeirra, sem borið hafa um skýrleika D heitins við gerð erfðaskrárinnar er virtur, þykir ekki annað verða ráðið en að óáttun sú sem lýst er í sjúkragögnum hafi verið tengd líðan hans og að leggja megi til grundvallar að af honum hafi bráð þegar líðanin varð betri í kjölfar lyfjagjafar eins og áður hafði gerst. Þykir sú niðurstaða ekki fara í bága við framburð læknanna sem borið hafa um breytileika „óráðs“ og það sem þekkt er hjá sjúklingum í banalegu. Leggja verði þannig til grundvallar að D heitinn hafi verið hæfur til að gera erfðaskrá á skynsamlegan hátt á þeim tíma er erfðaskráin var gerð.

Þá ber á það að líta að vitnið K hefur borið að vilji D heitins hafi staðið til þess að arfleiða varnaraðila og arfleiðsluvottarnir hafa staðfest að D hafi ekki verið beittur þrýstingi við gerð erfðaskrárinnar. Hún hafi þvert á móti að geyma afdráttarlausan vilja hans. Ennfremur að telja verður að efni erfðaskrárinnar getur ekki talist óskynsamlegt með hliðsjón af því að D hafði ítrekað tilgreint  varnaraðila sem nánasta aðstandanda sinn.

Samkvæmt framangreindu verður kröfu sóknaraðila um ógildingu erfða­skrár­innar hafnað.

Rétt þykir eftir atvikum að sóknaraðilar og varnaraðili beri hvorir fyrir sig sinn kostnað af málinu.

Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn ásamt meðdómendunum Helga Sigurðssyni prófessor í krabbameinslækningum og Maríu Ólafsóttur heimilislækni.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu sóknaraðila, A og B, um að erfðaskrá dags. [...]. október 2006, þar sem D, arfleiddi, varn­araðila, C að helstu eignum sínum, sé ógild.

Málskostnaður fellur niður.