Hæstiréttur íslands
Mál nr. 12/2009
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Börn
- Skilorð
- Skaðabætur
|
|
Fimmtudaginn 3. desember 2009. |
|
Nr. 12/2009. |
Ákæruvaldið(Hulda Elsa Björgvinsdóttir settur saksóknari) gegn Inga Frey Arnarssyni(Guðrún Sesselja Arnardóttir hrl.) (Steinunn Guðbjartsdóttir hrl. réttargæslumaður) |
Kynferðisbrot. Börn. Skilorð. Skaðabætur.
I var sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa haft samræði við Y þá 12 ára og látið hana hafa við sig munnmök. Talið var sannað að I hefði vitað að Y var yngri en 15 ára er brotið átti sér stað en ekki voru efni til að fallast á það með I að brot hans hefði verið framið af gáleysi né að hann hefði vegna afsakanlegrar vanþekkingar eða misskilnings á réttarreglum mátt telja að verknaður sinn varðaði ekki refsingu, sbr. 3. tl. 1. mgr. 74. gr. almennra hegningarlaga. Var I dæmdur í 18 mánaða fangelsi en þar sem engar viðhlítandi skýringar höfðu verið gefnar á þeim töfum er málið sætti hjá lögreglu og ákæruvaldinu, þótti rétt að skilorðsbinda 15 mánuði af refsingunni í fjögur ár.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Hjördís Hákonardóttir og Markús Sigurbjörnsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 1. desember 2008 af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst þyngingar á refsingu ákærða og að honum verði gert að greiða Y 1.200.000 krónur ásamt vöxtum og dráttarvöxtum eins og dæmdir voru í héraði.
Ákærði krefst aðallega að refsing verði milduð, en til vara að ákvæði héraðsdóms um hana verði staðfest. Í báðum tilvikum krefst hann staðfestingar á ákvæði hins áfrýjaða dóms um einkaréttarkröfu.
Niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða er ekki til endurskoðunar fyrir Hæstarétti. Um refsingu hans er þess að gæta að brot hans var framið eftir að tekið höfðu gildi breytingar á almennum hegningarlögum nr. 19/1940, sem gerðar voru með lögum nr. 61/2007. Eins og rakið er í héraðsdómi átti atvikið sér nokkurn aðdraganda, en þegar brotið var framið var ákærði 20 ára og brotaþoli 12. Fyrir liggur að ákærði vissi að brotaþoli var yngri en 15 ára og eru hvorki efni til að fallast á að brot hans hafi verið framið af gáleysi né að hann hafi vegna afsakanlegrar vanþekkingar eða misskilnings á réttarreglum mátt telja verknað sinn ekki varða refsingu, sbr. 3. tölulið 1. mgr. 74. gr. almennra hegningarlaga. Að þessu virtu er refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 18 mánuði. Eftir gögnum málsins hófst rannsókn lögreglunnar á því í september 2007 og lauk henni í desember á sama ári, en ákæra var ekki gefin út fyrr en 19. júní 2008. Héraðsdómur var kveðinn upp 13. nóvember 2008, en sem fyrr segir áfrýjaði ríkissaksóknari honum 1. desember sama ár. Málsgögn bárust ekki Hæstarétti fyrr en 12. ágúst 2009 og eru þau lítil að umfangi, en engin viðhlítandi skýring hefur verið færð fram á töfum í þeim efnum. Að þessu gættu er rétt að skilorðsbinda refsingu ákærða þannig að 15 mánuðir af henni komi ekki til fullnustu haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga í fjögur ár frá uppsögu dóms þessa.
Fyrir Hæstarétti er krafa um hækkun skaðabóta til brotaþola að nokkru studd við vottorð frá 10. nóvember 2009 um greiningu hennar og meðferð hjá Barnahúsi vegna ætlaðra afleiðinga verknaðar ákærða. Sambærileg gögn voru ekki lögð fram í héraði og hefur vottorð þetta ekki verið staðfest fyrir dómi. Eru því ekki efni til að breyta niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um skaðabætur.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.
Að virtum úrslitum málsins er rétt að ákærði beri að hálfu áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði, en að öðru leyti skal áfrýjunarkostnaður greiddur úr ríkissjóði.
Dómsorð:
Ákærði, Ingi Freyr Arnarsson, sæti fangelsi í 18 mánuði, en fresta skal fullnustu 15 mánaða af refsingunni og sá hluti hennar falla niður að liðnum fjórum árum frá uppsögu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákvæði héraðsdóms um skaðabætur og sakarkostnað eru staðfest.
Ákærði greiði að helmingi áfrýjunarkostnað málsins, sem alls er 489.370 krónur að meðtöldum málsvarnarlaunum skipaðs verjanda hans, Guðrúnar Sesselju Arnardóttur hæstaréttarlögmanns, 311.250 krónur og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Steinunnar Guðbjartsdóttur hæstaréttarlögmanns, 124.500 krónur, en að öðru leyti greiðist áfrýjunarkostnaður úr ríkissjóði.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. nóvember 2008.
Mál þetta, sem dómtekið var í dag, er höfðað með ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 19. júní 2008 á hendur Inga Frey Arnarssyni, kennitala 040687-2389, Keilufelli 30, Reykjavík, „fyrir kynferðisbrot með því að hafa, í lok júlí 2007, á heimili sínu að Keilufelli 30, Reykjavík, haft samræði við Y, kennitala [...], þá 12 ára, og látið hana hafa við sig munnmök.
Telst brot ákærða varða við 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 40/1992, 4. gr. laga nr. 40/2003 og 11. gr. laga nr. 61/2007.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Af hálfu A, kennitala [...], fyrir hönd Y, er krafist skaðabóta að fjárhæð kr. 1.200.000 auk vaxta samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 28. júlí 2007 til 26. desember 2007 en með dráttarvöxtum frá þeim degi samkvæmt 9. gr., sbr. 6. gr. vaxtalaga, til greiðsludags.
Af hálfu ákærða er þess aðallega krafist að hann verði dæmdur til vægustu refsingar sem lög leyfa og að hún verði þá færð niður fyrir lögbundið lágmark með vísan til 74. gr. almennra hegningarlaga. Þá verði refsingin skilorðsbundin að fullu. Varðandi bótakröfu er þess krafist aðallega að henni verði vísað frá dómi en til vara að ákærði verði sýknaður af henni. Að öðrum kosti verði hún lækkuð verulega. Þá er og krafist hæfilegrar þóknunar til verjanda.
Upphaf þessa máls má rekja til þess, að A kom til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu þann 12. september 2007 og lagði fram kæru á hendur ákærða fyrir kynferðisbrot gegn dóttur sinni, Y. Í kæruskýrslunni kemur fram að hann hefði heyrt af því frá móður vinkonu Y að Y hefði haft samfarir við 19 ára pilt. Hefði vinkonan tjáð móður sinni að Y hefði sagt sér frá þessu. Í kæruskýrslunni segir einnig að A hafi borið þessa sögu undir Y, dóttur sína, sem hefði þá brotnað niður og sagt þetta vera rétt. Hefði hún meðal annars skýrt honum frá því að ákærði hefði haft samræði við hana, en hún hefði þá verið aðeins 12 ára, en átt 13 ára afmæli í ágúst.
Tekin var skýrsla af Y í Héraðsdómi Reykjavíkur 26. september 2007 í samræmi við a-lið 1. mgr. 74. gr. laga nr. 19/1991. Kvaðst hún þá hafa kynnst ákærða á netinu og hann þá sagst vera nýorðinn 19 ára. Hún hefði svo komist að því síðar að hann væri í raun tvítugur. Stúlkan lýsti því hvernig þau hefðu spjallað saman á netinu í fyrstu og ákærði sagt henni að hún þyrfti ekki að vera feimin, þegar hún hefði sagði honum að hún vissi ekki hvort hún vildi hitta hann. Hún sagðist ekki viss um hversu oft hún hefði spjallað við ákærða en taldi að það hefði verið í um átta skipti, á tímabilinu júní til júlí þá um sumarið. Hefði hún sagst vera 12 ára og að hún yrði 13 ára í ágúst. Þau hefðu rætt saman á kynferðislegum nótum og ákærði meðal annars spurt hana að því hvort hún ,,gerði það með sjálfri sér“. Hún hefði aldrei ætlað að hitta hann og ekki þorað að hitta hann ein. Hún hefði svo sagt 15 ára frænku sinni frá ákærða og frænkan hefði hvatt hana til að fara og hitta ákærða.
Í fyrra skiptið sem þau hittust hefði ákærði sótt hana að versluninni Tíu-ellefu þar sem hún hefði verið með frænku sinni. Hefði hann ekki viljað sækja hana heim því hún væri svo ung og foreldrar hennar yrðu ekki ánægðir. Hefði ákærði farið með hana í bíltúr og þau spjallað saman um fjölskyldu hennar og skólann. Hún hefði sagt ákærða að hún væri að fara í 8. bekk og ákærði sagt að hún gæti verið 16 ára. Hann hefði svo skutlað henni aftur á sama stað. Hún hefði aldrei kysst neinn áður og ákærði spurt hana að því hvort hún vildi það. Hún hefði sagt honum að hún kynni það ekki og hann þá kennt henni það. Svo hefði hún bara farið heim. Hún hefði fyrst hitt ákærða á miðvikudegi og næst á föstudegi í sömu viku.
Um síðara skiptið sagði hún að þá hefði hún verið með B, vinkonu sinni, í sjoppunni Holtanesti þegar ákærði hefði sent henni sms-skilaboð í síma og spurt hvort hann ætti að sækja hana. Hefði hann boðið henni heim til sín að horfa á mynd og ,,svo gerðist bara allt“. Hefði ákærði fljótlega byrjað að káfa á henni og svo spurt hvort hún vildi meira. Hún hefði þá sagt ,,ég veit það ekki“, þótt hún hefði vitað að hana langaði ekkert meira. Hún ætti erfitt með að segja nei og ákærði hefði bara haldið áfram. Hefði hann byrjað að klæða hana úr fötunum og hún þá verið frosin og ekkert vitað hvað hún ætti að gera. Hann hefði spurt hana hvort hún vildi meira og hún þá svarað því til að hún vissi það ekki. Hefði ákærði þá brosað og haldið áfram að klæða hana úr. Fram kom hjá stúlkunni að ákærði ,,afmeyjaði mig, sem sagt reið mér“. Hún hefði svo tottað ákærða en hann hefði ekki fengið sáðlát við það. Hún hefði verið hjá ákærða í um klukkustund en hann hefði svo sagst þurfa að fara. Hefði hann svo skutlað henni aftur á sama stað þaðan sem hún hefði gengið heim. Ákærði hefði ekkert samband haft við hana síðan. Hún hefði einu sinni sent honum sms- skilaboð í síma en hann þá ekki haft samband til baka.
Ákærði játaði fyrir dómi að hafa haft samræði við Y að heimili sínu í greint sinn. Hann kannaðist einnig við að stúlkan hefði haft við hann munnmök en sagði hana hafa gert það að eigin frumkvæði. Kvaðst ákærði hafa staðið í þeirri trú að stúlkan væri 14 ára og jafnframt að slíkt samræði væri ekki refsivert nema við börn yngri en 14 ára. Hefði hann ekki komist að hinu sanna um þetta fyrr en lögreglumennirnir sem handtóku hann sögðu honum frá því að lögin miðuðu í þessu tilliti við 15 ára aldursmark.
Ákærði kvaðst hafa komist í samband við stúlkuna inni á spjallsíðu á netinu, um tveimur mánuðum áður en þau hittust, eða í maí. Kvaðst hann ekki muna hvort þeirra hefði átt frumkvæðið. Sagði hann stúlkuna hafa sagt í þessu spjalli þeirra að hún væri alveg að verða 14 ára en hún hefði þó ekkert nefnt hvenær hún ætti afmæli. Því væri ekki réttur sá framburður stúlkunnar að hún hefði sagt honum að hún væri 12 ára og yrði 13 ára í ágúst. Þau hefðu verið í sambandi á þessari spjallsíðu í nokkur skipti, með einhverjum hléum. Í fyrstu hefði ekkert verið rætt um kynlíf en á einhverjum tímapunkti hefði stúlkan byrjað að ræða á slíkum nótum og hefði talið þá snúist um sjálfsfróun. Undir það síðasta hefðu þau svo farið að ræða um að hittast og hefði orðið úr að ákærði sækti hana á bíl. Stúlkan hefði þó ekki viljað að hann kæmi að heimili hennar, líklega vegna þess að hún hefði ekki viljað að foreldrar hennar vissu af því. Hann hefði því sótt hana við verslun Tíu-ellefu í Hafnarfirði og þá séð hana í fyrsta skipti. Þau hefðu þá ekkert rætt um aldur hennar en hann kvaðst hins vegar sjálfur hafa staðið í þeirri trú að hún væri þá orðin 14 ára. Af útliti hennar að dæma hefði honum þó frekar fundist hún vera 15 eða 16 ára. Hann kvaðst ekkert hafa þekkt til hennar vina en stúlkan hefði sjálf sagt honum í hvaða skóla hún væri sem hann myndi þó ekki hver væri. Í þetta skipti hefðu þau rúntað eitthvað um áður en hann hefði ekið henni aftur á sama stað. Þau hefðu svo hist aftur á sama hátt, einum eða tveimur dögum síðar. Hefðu þau þá ákveðið að fara heim til ákærða. Hefðu þau í byrjun horft á vídeó inni í herbergi hjá honum. Í framhaldi hefði þau farið að kyssast og svo haft samræði og munnmök en stúlkan hefði áður verið búin að gefa til kynna að hún vildi það. Sagðist hann einnig hafa spurt hana hvort hún vildi ganga lengra, eftir að þau byrjuðu að kyssast, og hún þá játað því. Sagði ákærði stúlkuna hafa sagt sér frá því að þetta væri hennar fyrsta kynlífsreynsla.
Aðspurður sagði ákærði mál þetta hafa haft gífurlega mikil áhrif á líf sitt og að þetta hefði í raun verið alveg óbærilegur tími. Þrátt fyrir að málið hefði ekki horfið úr huga hans einn einasta dag væri hann að reyna að halda sínu striki og sinna skólagöngu sinni eins og hann mögulega gæti. Kvaðst hann búa í foreldrahúsum og hefði málið haft mikil áhrif á fjölskyldulífið. Kvaðst hann og harma það mjög að hafa með þessum gerðum sínum valdið stúlkunni, fjölskyldu hennar og fjölskyldu sinni þeirri sorg og vanlíðan sem raunin væri. Kvaðst hann í dag eiga kærustu og hefðu þau byrjað að vera saman stuttu eftir að mál þetta kom upp.
Vitnið A, faðir Y, sagðist fyrst hafa fengið einhverjar spurnir af því hvað gerst hefði þegar hann hefði verið að ræða við móður vinkonu dóttur sinnar út af öðru. Hefði móðirin þá skýrt sér frá því að dóttir hennar hefði sagt sér að Y hefði haft samfarir við 19 ára pilt. Kvaðst hann hafa orðið mjög hissa. Hefði hann þá strax í framhaldi rætt þetta við dóttur sína og hefði hún þá brotnað niður og sagt sér frá því sem gerst hefði. Hefðu þau ekki farið neitt nákvæmlega út í hvað gerðist nema að hún hefði þá verið að hitta manninn í annað skipti eftir að hafa fyrst hitt hann með vinkonu sinni, C. Hefði hún sagt frá því að í seinna skiptið hefði C ekki viljað fara með honum en hún þá ákveðið að fara ein. Kvaðst vitnið ekki hafa farið neitt nákvæmlega ofan í málsatvik með stúlkunni heldur hefði hann fengið henni til aðstoðar sálfræðing og einnig hefðu þau leitað til Stígamóta. Þá hefði hann strax, eða mjög fljótlega, kært málið til lögreglu. Vitnið sagði stúlkuna hafa áður rætt við þennan sama sálfræðing vegna slæms eineltis sem stúlkan hefði orðið fyrir í skólanum veturinn áður og væri alveg ótengt þessu máli. Kom fram hjá vitninu að síðasta ár hefði verið mjög erfitt fyrir stúlkuna. Hún ætti sína góðu og slæmu daga en stundum væri eins og þyrmdi yfir hana vegna þessa atviks. Fyndist honum eins og stúlkan hefði frekar einangrað sig í kjölfar atviksins en þar sem hún væri mjög samviskusöm virtist sem þetta hefði ekki komið niður á árangri hennar í námi. Aðspurður kannaðist vitnið ekki við að hafa ákveðið að hlé yrði gert á meðferðinni í október sl., eins og fram kemur í vottorði sálfræðingsins. Það hefði sálfræðingurinn sjálfur gert. Þá sagðist vitnið ekki hafa verið sérstaklega óskað eftir því að metnar yrðu afleiðingar þess atviks sem mál þetta fjallar um.
Vitnið C sagði Y vera frænku sína og bestu vinkonu. Kvaðst hún hafa farið með Y að Tíu-ellefu búðinni í umrætt sinn. Sjálf hefði hún svo farið aftur heim en Y farið áfram með ákærða. Daginn eftir hefði Y svo skýrt sér frá því sem gerðist. Sagðist vitnið hafa verið viðstödd þegar Y hefði verið í MSN-samskiptum við ákærða. Hefði hún þá séð á tölvuskjánum þegar Y sagðist vera 12 ára, að verða 13. Þá hefði Y einnig sagt sér frá samskiptum við ákærða varðandi þetta. Hefðu þessi samskipti líklega átt sér stað nokkrum vikum áður en ákærði og Y hittust. Hefði hún og sagt sér frá því að hann hefði sagst vera 19 ára. Aðspurð um þann framburð ákærða, að hún hefði sagt honum að hún væri 13 að verða 14, sagði vitnið það ekki vera rétt því hún hefði alltaf sagt honum hvað hún væri gömul.
Vitnið B sagðist vera bekkjarsystir og vinkona Y. Sagðist hún hafa verið með Y þegar ákærði hefði sent henni sms-skilaboð og spurt hvort þau ættu að hittast. Hefði Y þá talað um að hún ætlaði að vera hjá ákærða þá um kvöldið. Hefði hún þá fylgt henni að Tíu-ellefu búðinni og skilið svo við hana þar. Sagði hún að ekkert hefði borist í tal milli þeirra vinkvennanna hvort Y hefði sagt honum frá aldri sínum. Þá sagðist vitnið lítið muna hvað Y hefði sagt sér um hvað gerðist umrætt sinn. Hana rámaði þó í að Y hefði eitthvað talað um kynferðisleg samskipti í því sambandi. Sagðist vitnið vita til þess að Y liði oft illa vegna þess sem gerðist milli hennar og ákærða.
Vitnið Ólöf Björk Eggertsdóttir sálfræðingur staðfesti vottorð sem hún hefur gefið vegna Y. Kvaðst hún hafa haft stúlkuna til sálfræðimeðferðar frá því um veturinn 2007 og hafi hún komið til sín í tíu skipti. Hefði faðir stúlkunnar leitað til sín vegna erfiðleika sem hún ætti við að glíma skólanum, félagslega. Hefði stúlkunni liðið mjög illa, m.a. vegna eineltis sem hún hefði orðið fyrir. Sagðist vitnið því í raun ekki hafa haft stúlkuna til meðferðar vegna þess atviks sem mál þetta fjallar um og geti hún því kannski ekki mikið sagt um afleiðingar þess. Hins vegar hefði atvikið borist í tal milli þeirra, nokkru eftir að það hefði átt sér stað. Hefði stúlkan þá talað um að hún væri döpur yfir þessu þar sem hún væri hrifin af manninum. Hefði hún ekki viljað að sett yrði fram kæra í málinu, og hafi hræðsla hennar við afleiðingar þess haft þar einhver áhrif, sérstaklega í vinahópnum og innan skólans. En vissulega yrði að horfa á þetta í ljósi þess að hún væri bara barn. Staðfesti vitnið það sem fram kemur í fyrirliggjandi vottorði, sem hún staðfesti að væri rétt, að um haustið, eftir að skólinn hófst, hefði Y virst ánægðari og brattari með sig. Fljótlega þar á eftir hefði faðir hennar svo óskað eftir að hlé yrði gert á meðferðinni.
Vitnið Halldóra Halldórsdóttir, starfsmaður Stígamóta, staðfesti vottorð sem fyrir liggur í málinu. Hefði Y komið í viðtal eftir að foreldrar hennar höfðu haft samband og óskað eftir að hún fengi stuðning vegna þessa máls. Hefði stúlkan virkað á sig sem svolítið dofin og utan við sig. Hefði hún sagst hafa orðið fyrir nauðgun en að öðru leyti hefði hún ekkert farið út í að lýsa því sem gerðist. Hún hefði þó sagt sér frá því að hún hefði kynnst viðkomandi á netinu og einhvern veginn hefði það mjög fljótt þróast út í að þau hittust.
Vitnið E, faðir ákærða, sagðist hafa verið nýkominn heim ásamt konu sinni umrætt kvöld þegar hann hefði allt í einu tekið eftir að stúlka hefði opnað útidyrnar og gengið út. Kvaðst honum hafa fundist það svolítið skrýtið því þau hefðu þá ekki verið búin að vera lengi að heiman. Þau hefðu þó ekkert rætt þetta við son sinn í kjölfarið. Sagði vitnið mál þetta hafa haft mikil áhrif á heimilislífið, og þá sérstaklega á ákærða. Fengi hann oft kvíðaköst vegna þessa og ætti erfitt með svefn. Ákærði hefði verið nokkuð hlédrægur sem unglingur og farið frekar seint að stunda skemmtanir. Því færi og fjarri að hann hefði verið í einhverri óreglu. Hann hefði aftur á móti alltaf verið, og væri enn, virkur í íþróttastarfi eða starfi því tengdu. Tók vitnið að lokum fram að ákærði væri búinn að líða mikið fyrir þetta mál og lýsti þeirri skoðun sinni að enginn væri bættari með því að honum yrði gert að sæta fangelsisrefsingu vegna þess.
Niðurstaða
Ákærði játar að hafa haft samræði við Y í greint sinn. Hann játar jafnframt að hún hafi haft við hann munnmök en segir þau hafi verið að hennar frumkvæði. Kveðst hann hafa talið stúlkuna vera 14 ára gamla þar sem hún hefði sagt honum í spjalli þeirra á netinu, áður en þau hittust, að hún væri þá að verða 14 ára. Y hefur hins vegar skýrt frá því að hún hafi sagt ákærða frá því í þessu spjalli þeirra að hún væri 12 ára og yrði 13 ára í ágúst. Hefur vitnið C staðfest þetta, en hún kveðst hafa séð Y senda ákærða slíkar upplýsingar í gegnum MSN-spjallrásina á netinu. Að þessu virtu þykir sönnun komin fram um að ákærði hafi haft samræði við stúlkuna og að hún hafi haft við hann munnmök. Verður í því sambandi lagt til grundvallar að ákærða hafi verið kunnugt um að stúlkan væri þá 12 ára gömul, að verða 13. Þá verður jafnframt, með hliðsjón af ungum aldri hennar, litið svo á að ákærði hafi látið hana hafa við sig munnmök, án tillits til þess hvort hún hafi sjálf haft að því frumkvæði eða ekki. Telst ákærði með þessari háttsemi sinni sekur um það háttsemi sem í ákæru greinir og hefur hann með því brotið gegn 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. breytingarlög, síðast lög nr. 61/2007.
Samkvæmt fyrirliggjandi sakavottorði hefur ákærði ekki áður gerst sekur um refsiverðan verknað. Þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 15 mánuði, en í ljósi ungs aldurs hans, og þess að hann hefur ekki áður sætt refsingu, þykir fært að skilorðsbinda refsinguna að hluta eins og nánar er tilgreint í dómsorði.
Af hálfu brotaþola er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða henni miskabætur að fjárhæð 1.200.000 krónur, auk vaxta eins og lýst er í ákæru. Til stuðnings kröfunni er til þess vísað að um hafi verið að ræða alvarlegt brot, eða samræði tvítugs manns við tólf ára gamla stúlku. Hafi brotið valdið brotaþola miklum miska, aðallega vegna þeirra slæmu áhrifa sem það hafi haft á andlega heilsu hennar. Beri því að ákvarða henni sanngjarnar bætur með vísan til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Enda þótt ekki liggi fyrir sálfræðilegt mat á því hvaða afleiðingar atburðurinn kann að hafa haft á líðan brotaþola verður á það fallist að brotaþoli eigi rétt á miskabótum frá ákærða á grundvelli tilvitnaðrar 26. gr. Eru þær hæfilega ákvarðaðar 400.000 krónur, ásamt vöxtum eins og í dómsorði greinir, en ekki hefur verið andmælt af hálfu ákærða að upphafstími vaxta miðist við 28. júlí 2007.
Ákærði greiði 32.040 króna útlagðan ferðakostnað vitnis ásamt 460.000 króna réttargæslu- og málflutningsþóknun verjanda síns, Guðrúnar Sesselju Arnardóttur hdl., og 216.132 króna þóknun réttargæslumanns brotaþola, Gunnhildar Pétursdóttur hdl., hvort tveggja að meðtöldum virðisaukaskatti.
Af hálfu ákæruvaldsins var málið flutt af Huldu Elsu Björgvinsdóttur, settum saksóknara.
Dóm þennan kveða upp Ásgeir Magnússon héraðsdómari sem dómsformaður og meðdómendurnir Ingimundur Einarsson og Kristjana Jónsdóttir héraðsdómarar.
D ó m s o r ð :
Ákærði, Ingi Freyr Arnarson, sæti fangelsi í 15 mánuði, en þar af skal fresta fullnustu 12 mánaða af refsingunni og skal sá hluti hennar falla niður að liðnum 2 árum frá birtingu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði Y 400.000 krónur í skaðabætur, ásamt vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 28. júlí 2007 til 26. desember 2007 en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði 708.172 krónur í sakarkostnað, þar með talin réttargæslu- og málflutningsþóknun verjanda síns, Guðrúnar Sesselju Arnardóttur hdl., 460.000 krónur, og þóknun til réttargæslumanns brotaþola, Gunnhildar Pétursdóttur hdl., 216.132 krónur.