Hæstiréttur íslands

Mál nr. 264/2006


Lykilorð

  • Virðisaukaskattur
  • Staðgreiðsla opinberra gjalda
  • Ákæruvald
  • Kröfugerð


Fimmtudaginn 10

 

Fimmtudaginn 10. maí 2007.

Nr. 264/2006.

Ákæruvaldið

(Björn Þorvaldsson settur saksóknari)

gegn

Auðuni Svafari Guðmundssyni og

Frey Aðalgeirssyni

(Hilmar Magnússon hrl.)

 

Virðisaukaskattur. Staðgreiðsla opinberra gjalda. Ákæruvald. Kröfugerð.

F framkvæmdastjóri N ehf. og A stjórnarformaður sama félags voru sakfelldir fyrir brot gegn 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 með því að hafa ekki staðið réttilega skil á 17.863.609 krónum í virðisaukaskatt og  21.852.701 krónu í staðgreiðslu opinberra gjalda. Greitt hafði verið inn á skuldir félagsins og kom því til álita hvort staðin hefði verið skil á verulegum hluta skattfjárhæðanna í skilningi 2. málsl. greinanna, eins og þeim var breytt með lögum nr. 134/2005, þannig að fyrirmæli þeirra um fésektarlágmark ætti ekki við. Af þeim 17.863.609 krónum sem ákæran laut að vegna vanskila á virðisaukaskatti töldust 11.333.359 krónur greiddar að fullu eða verulegu leyti. Af þeim 21.852.701 krónu sem ákæran laut að vegna vanskila á staðgreiðslu opinberra gjalda töldust 7.598.464 krónur greiddar að fullu eða verulegu leyti. Fyrir héraðsdómi lá yfirlýsing tollstjóra um að unnt hefði verið að lýsa í þrotabú N ehf. forgangskröfu vegna fjárnáms tollstjórans 13. ágúst 2002 í tilgreindar eignir N ehf. Það var hins vegar ekki gert. Í fylgiskjali Á í greinargerð sinni til Hæstaréttar var gengið út frá því að jafna skyldi til greiðslu þeirri fjárhæð sem hefði fengist greidd við skiptin ef kröfunni hefði verið lýst sem forgangskröfu. Hefði þannig allur vangreiddur virðisaukaskatti og stærsti hluti hinna vangreiddu staðgreiðslu opinberra gjalda F og A fengist greiddur. Við munnlegan flutnings málsins fyrir Hæstarétti kom fyrst fram, að fjárnámið hefði verið fallið niður á þeim tíma er bú N ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta, sbr. 60. gr. laga nr. 90/1989. Krafðist Á þess því að refsing F og A væri ákveðin án tillits til fjárnámsins og líklegra áhrifa þess. Í niðurstöðu Hæstaréttar segir að ekki beri að jafnaði að taka tillit til þess hversu skilvirk innheimta opinberra gjalda hafi verið þegar við ákvörðun refsinga er metið hversu mikið af skuldum virðisaukaskatts eða staðgreiðslu opinberra gjalda hafi verið til skila haldið. Hins vegar verði eins og atvikum er háttað að líta til þeirrar afstöðu sem fram kom hjá Á í greinargerð þess til Hæstaréttar. Tilgangur 2. mgr. og 3. mgr. 155. gr. laga nr. 19/1991 sé að tryggja að málatilbúnaður aðila sé eins skýr og kostur er og að þeim sé unnt að átta sig á málatilbúnað gagnaðilans. Sérstaklega sé mikilvægt að málatilbúnaður Á sé svo skýr að tryggt sé að ákærðu hafi tækifæri til að undirbúa vörn sína með fullnægjandi hætti. Með hliðsjón af þessu var Á talið bundið af málatilbúnaði sínum í greinargerð sinni fyrir Hæstarétti og fylgiskjölum með henni. Ekki var talið eins og atvikum var háttað að brot F og A yrði talin meiri háttar í skilningi 262. gr. almennra hegningarlaga.  Voru A og F hvor um sig dæmdir til að greiða 3.240.000 krónur í sekt en sæta ella fangelsi í 76 daga.

 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Hrafn Bragason.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 28. apríl 2006 af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst þess að refsing ákærðu verði þyngd.

Ákærðu hafa ekki lýst yfir áfrýjun. Í greinargerð til Hæstaréttar krefjast þeir  þess engu að síður aðallega að refsing þeirra verði felld niður eða milduð verulega, en til vara að héraðsdómur verði staðfestur.

I.

Ríkislögreglustjóri gaf út ákæru 20. janúar 2005 á hendur ákærðu, Frey Aðalgeirssyni sem framkvæmdastjóra einkahlutafélagsins Norður-stáls og Auðuni Svafari Guðmundssyni sem stjórnarformanni sama félags, fyrir að hafa ekki staðið tollstjóranum í Reykjavík skil á virðisaukaskatti félagsins fyrir tímabilin janúar til febrúar 2001, mars til apríl, maí til júní og september til október sama ár og janúar til febrúar 2002, samtals 17.863.609 krónur. Þá var þeim gefið að sök að hafa ekki staðið skil á staðgreiðslu opinberra gjalda, sem haldið var eftir af launum starfsmanna félagsins, á tímabilunum frá janúar til og með júlí 2001,  nóvember og desember sama ár, janúar til og með apríl og júní 2002 og febrúar og mars 2003, samtals 21.852.701 krónu.

Ekki var fyrir héraðsdómi ágreiningur um að þeim fjárhæðum sem í ákæru greinir hafði ekki verið skilað á eindaga og játuðu ákærðu brot sín fyrir héraðsdómi. Voru þeir á grundvelli gagna málsins og játninga sinna sakfelldir samkvæmt ákæru og brot þeirra heimfærð undir þau refsiákvæði er þar greindi. Beindust athugasemdir ákærðu í héraði eingöngu að því hvaða áhrif greiðslur á hluta vanskilanna eftir eindaga gjaldanna hefðu á refsiákvörðun og hvernig virða skyldi það við ákvörðun viðurlaga að kröfu samkvæmt tilgreindu fjárnámi hafði ekki af hálfu tollstjórans í Reykjavík verið lýst sem forgangskröfu í þrotabú Norður-stáls ehf. Áttu þau álitamál að hluta rót að rekja til óvissu um hvernig skýra bæri lög nr. 134/2005 um breytingu á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987 og lögum um virðisaukaskatt nr. 50/1988 með áorðnum breytingum, sem nýlega höfðu tekið gildi er héraðsdómur gekk.

II.

Ágreiningslaust er að virðisaukaskattskuld Norður-stáls ehf. vegna tímabilanna janúar til febrúar, mars til apríl og maí til júní 2001 var að fullu greidd eftir eindaga, en áður en ákæra var gefin út. Álagsgreiðslu vegna framangreindra tímabila verður í samræmi við fordæmi Hæstaréttar ráðstafað upp í elstu skuld, sem er skuld vegna tímabilsins september til október 2001. Samkvæmt yfirliti saksóknara nemur álagsgreiðslan samtals 1.082.217 krónum. Það er meira en þriðjungur af 2.928.149 króna skuld vegna tímabilsins september til október 2001, sem telst því samkvæmt fordæmum Hæstaréttar greidd að verulegu leyti. Á hinn bóginn hafa einungis verið greiddar 1.500.000 krónur upp í 6.530.251 krónu virðisaukaskattskuld vegna tímabilsins janúar til febrúar 2002 og telst hún því ekki greidd að verulegu leyti. Samkvæmt þessu teljast samtals 11.333.359 krónur vera vegna greiðslutímabila sem greidd eru að fullu eða verulegu leyti af þeim 17.863.609 krónum sem ákæra laut að vegna vanskila á virðisaukaskatti.

Skuld Norður-stáls ehf. vegna staðgreiðslu opinberra gjalda starfsmanna félagsins vegna tímabilanna nóvember og desember 2001 og tímabilanna janúar og júní 2002 var að fullu greidd eftir eindaga en fyrir útgáfu ákæru. Álagi vegna þessara tímabila, samtals 528.086 krónum, að viðbættri staðgreiðsla vegna launa ákærðu sjálfra á þessum tímabilum, samtals 477.024 krónum, verður samkvæmt fordæmum Hæstaréttar ráðstafað upp í elstu skuld, sem er skuld vegna tímabilsins janúar 2001, sem telst þá greidd að verulegu leyti. Samkvæmt þessu teljast samtals 7.598.464 krónur vera vegna greiðslutímabila sem greidd eru að fullu eða verulegu leyti af þeirri 21.852.701 krónu, sem ákært var fyrir vegna vanskila á staðgreiðslu opinberra gjalda.

III.

Að kröfu tollstjórans í Reykjavík var 13. ágúst 2002 gert fjárnám í kröfu Norður-stáls ehf. til greiðslu samkvæmt nánar tilgreindum kaupsamningi og í nánar tilgreindri kröfu félagsins, sem bæði var tryggð með veði í fasteign og sjálfskuldarábyrgð þriðja manns. Var fjárnám þetta gert til tryggingar kröfu tollstjóra á hendur félaginu vegna skattskulda þess. Meðal þeirra skulda félagsins var höfuðstóll alls þess vangreidda virðisaukaskatts, sem ákæra í máli þessu varðar, og höfuðstóll þeirrar vangreiddu staðgreiðslu opinberra gjalda vegna áranna 2001 og 2002, sem ákæran tekur til.

 Bú Norður-stáls ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 5. desember 2003. Ekkert fékkst greitt upp í kröfu tollstjórans við gjaldþrotaskiptin. Fyrir héraðsdómi lá yfirlýsing tollstjóra um að unnt hefði verið að lýsa í þrotabúið forgangskröfu vegna fyrrgreinds fjárnáms. Greiðsla sem þannig hefði fengist úr skiptunum hefði gengið til greiðslu virðisaukaskatts félagsins og mátti af fylgiskjali með yfirlýsingunni ráða að sú greiðsla hefði numið 6.038.974 krónum. Tók héraðsdómur tillit til þessa við úrlausn sína um ákvörðun refsingar ákærðu.

Héraðsdómi var áfrýjað af hálfu ákæruvalds, sem krefst eins og að framan greinir, að refsing ákærðu verði þyngd. Af greinargerð ákæruvalds til Hæstaréttar verður þó ekki dregin sú ályktun að af þess hálfu sé gerð athugasemd við það að héraðsdómur tók við ákvörðun refsingar tillit til hugsanlegra áhrifa fjárnámsins á greiðslu skattskuldar Norður-stáls ehf. Er raunar í fylgiskjali ákæruvalds með greinargerðinni gengið út frá því að jafna skuli til greiðslu þeirri fjárhæð sem tollstjóri taldi samkvæmt framansögðu að hefði fengist greidd við skiptin ef kröfu samkvæmt fjárnáminu hefði verið lýst sem forgangskröfu í þrotabúið.

Fyrir Hæstarétt hefur verið lögð yfirlýsing tollstjórans í Reykjavík 14. febrúar 2007 þess efnis að hefði kröfu samkvæmt fjárnáminu 13. ágúst 2002 verið lýst í þrotabúið sem forgangskröfu hefðu eftirstöðvar allra þeirra skattskulda sem fjárnámið tók til fengist greiddar. Fjárnámið tók, samkvæmt því sem að framan er rakið, til allra þeirra vanskila sem ákært er fyrir í máli þessu ef undan er skilin staðgreiðsla opinberra gjalda vegna tímabilanna febrúar og mars 2003, samtals 1.318.865 krónur.

Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti kom fram af hálfu ákæruvalds að ekki hefði verið gerð krafa af hálfu tollstjóra um nauðungarsölu á grundvelli fjárnámsins 13. ágúst 2002. Fjárnámið hefði því fallið sjálfkrafa niður að liðnu ári frá því að það var gert, sbr. 60. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Það hafi því verið niður fallið er bú Norður-stáls ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 5. desember 2003. Ráðagerðir um hvað kynni að hafa greiðst upp í skattskuldir Norður-stáls ehf. vegna forgangs fjárnámsins við skiptin væru því á misskilningi byggðar. Bæri því að ákveða refsingu ákærða án tillits til fjárnámsins og líklegra áhrifa þess.

IV.

Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, eins og þessum ákvæðum var breytt með lögum nr. 134/2005, á fésektalágmark samkvæmt þessum greinum ekki við ef brot einskorðast við að standa ekki skil á réttilega tilgreindum skatti  enda hafi verið staðið skil á verulegum hluta skattfjárhæðar eða málsbætur eru miklar. Þegar þessum ákvæðum er beitt verður almennt einungis litið til þess sem raunverulega hefur verið greitt af viðkomandi gjöldum. Verður því að jafnaði ekki talið að taka beri tillit þess hversu skilvirk innheimta opinberra gjalda hefur verið þegar við ákvörðun refsinga er metið hversu miklu af skuldum virðisaukaskatts eða staðgreiðslu opinberra gjalda hefur verið til skila haldið. 

Eins og atvikum er háttað verður þó að líta til þeirrar afstöðu, sem að framan er rakin og fram kom hjá ákæruvaldi í greinargerð þess til Hæstaréttar. Áður en málið var flutt fyrir Hæstarétti kom samkvæmt framansögðu í ljós að það var á misskilningi byggt að fjárnámið 13. ágúst 2002 hafi verið í gildi við gjaldþrot Norður-stáls ehf. og þar með að unnt hefði verið að lýsa forgangskröfu í búið á grundvelli þess. Ákærðu varð eigi ljóst fyrr en við málflutning fyrir Hæstarétti að málatilbúnaður ákæruvaldsins varðandi ofangreint atriði hafði breyst vegna þessa og að ákæruvaldið liti nú svo á að fjárnámið 13. ágúst 2002 hefði engin áhrif við mat á því hve mikið hefði greiðst af skattkröfunum. Samkvæmt 2. mgr. 155. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála ber málsaðila að leggja greinargerð fyrir Hæstarétt þar sem meðal annars komi fram hvers hann krefjist fyrir Hæstarétti, hvort hann felli sig við lýsingu málsatvika í héraðsdómi og röksemdir fyrir niðurstöðu, athugasemdir við málatilbúnað gagnaðila ef þeirra er þörf og hvort hann hyggist leggja fram ný gögn fyrir Hæstarétti. Í 3. mgr. sömu greinar segir að málsaðilum sé heimilt að leggja fram frekari gögn fyrir Hæstarétt en þau skulu afhent skrifstofu réttarins og kynnt gagnaðila ekki síðar en einni viku fyrir flutnings málsins. Tilgangur framangreindra lagaákvæða er að tryggja að málatilbúnaður aðila sé eins skýr og kostur er og að þeim sé unnt að átta sig á málatilbúnaði gagnaðilans. Er sérstaklega mikilvægt að málatilbúnaður ákæruvaldsins sé svo skýr að tryggt sé að ákærðu hafi tækifæri til að undirbúa vörn sína með fullnægjandi hætti. Með hliðsjón af tilgangi ofangreindra lagaákvæða verður talið að ákæruvaldið sé bundið af málatilbúnaði sínum í greinargerð fyrir Hæstarétti og fylgiskjölum með henni. Verður því við úrlausn málsins að leggja til grundvallar að því sem greiðst hefði, ef kröfu samkvæmt fjárnáminu hefði verið lýst sem slíkri í búið og hún reynst hafa forgang við skiptin, verði að jafna til greiðslu á þeim vanskilum er ákæran varðar. Verður því, vegna afstöðu ákæruvalds í greinargerð til Hæstaréttar, við ákvörðun refsingar ákærðu að meta það svo að staðið hafi verið skil á öllum vangreiddum virðisaukaskatti samkvæmt ákæru og allri staðgreiðslu opinberra gjalda vegna áranna 2001 og 2002. Ógreidd sé hins vegar staðgreiðsla opinberra gjalda vegna tímabilanna febrúar og mars 2003, samtals 1.318.865.

Með vísan til þess, sem að framan greinir, verður hvorum ákærða um sig gert að greiða sekt að fjárhæð 3.240.000 krónur innan fjögurra vikna frá uppsögu þessa dóms, en sæta ella fangelsi í 76 daga. Ekki verður talið eins og atvikum er háttað að brot ákærðu verði talin meiri háttar í skilningi 262. gr. almennra hegningarlaga. Verður ákærðu því ekki ákveðin fangelsisrefsing.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.

Með vísan til 2. mgr. 169. gr. laga nr. 19/1991 verður áfrýjunarkostnaður málsins felldur á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu, sem eru ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærðu, Auðunn Svafar Guðmundsson og Freyr Aðalgeirsson, greiði hvor um sig 3.240.000 krónur í sekt í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá uppsögu dóms þessa að telja, en sæti ella fangelsi í 76 daga.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu fyrir Hæstarétti, Hilmars Magnússonar hæstaréttarlögmanns, 311.250 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. mars 2006.

Árið 2006, föstudaginn, er á dómþingi, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Guðjóni St. Marteinssyni héraðsdómara, kveðinn upp dómur í málinu nr. S-133/2005: Ákæruvaldið gegn Auðunni Svavari Guðmundssyni og Frey Aðalgeirssyni en málið var dómtekið 17. febrúar s l.

  Málið er höfðað með ákæru útgefinni 20. janúar 2005 á hendur:

  ,,Auðunni Svafari Guðmundssyni, kennitala 170871-5459,

  Sævarlandi 4, Reykjavík og

  Frey Aðalgeirssyni, kennitala 170471-4669,

  Kóngsbakka 12, Reykjavík,

fyrir eftirtalin skatta– og hegningarlagabrot í sameiningu, ákærða Frey sem framkvæmdastjóra einkahlutafélagsins Norður-stáls, kt. 470797-2239 og ákærða Auðunni Svafari sem formanni stjórnar sama félags:

I. Fyrir brot gegn lögum um virðisaukaskatt.

Með því að hafa eigi staðið Tollstjóranum í Reykjavík, í samræmi við það sem lög áskilja, skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í nafni einkahlutafélagsins á árunum 2001 og 2002, samtals að fjárhæð kr. 17.863.609,- sem sundurliðast sem hér

greinir:

Uppgjörstímabil:

Árið 2001

Jan. – feb.                         kr.             678.230

Mars- apríl.             kr.             3.603.578

Maí- júní                         kr.             4.123.401

Sept.- okt.                          kr.             2.928.149                         kr.             11.133.358

 

Árið 2002

Jan. – feb.                         kr.             6.530.251                         kr.             6.530.251

                                                                            

                                                    Samtals:             kr.             17.863.609

Telst þetta varða við 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50, 1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr.

laga nr. 42, 1995 og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 1. gr.

laga nr. 39, 1995 og 139. gr. laga nr. 82, 1998.

II: Fyrir brot gegn lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda.

Með því að hafa eigi staðið Tollstjóranum í Reykjavík, í samræmi við það sem lög áskilja, skil á staðgreiðslu opinberra gjalda sem haldið var eftir af launum starfsmanna

einkahlutafélagsins á árunum 2001, 2002 og 2003, samtals að fjárhæð 21.852.701,

sem sundurliðast sem hér greinir:

Uppgjörstímabil:

Árið 2001

Janúar                kr.                     1.460.881

Febrúar              kr.                     1.636.069

Mars                  kr.                     1.914.295

Apríl                  kr.                     1.489.392

Maí                    kr.                     1.440.317

Júní                    kr.                     1.285.434

Júlí                     kr.                     1.174.207

Nóvember                         kr.                          1.701.271

Desember                         kr.                          1.723.675             kr.             13.825.541

 

Árið 2002

Janúar                kr.                     1.110.801

Febrúar              kr.                     1.118.520

Mars                  kr.                     1.568.499

Apríl                  kr.                     1.308.639

Júní                    kr.                     1.601.836.             kr.             6.708.295

 

Árið 2003

Febrúar                          kr.                          733.810

Mars                  kr.                     585.055                         kr.             1.318.865

 

                                                    Samtals:              kr.             21.852.701

Telst þetta varða við 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45, 1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42, 1995 og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39, 1995 og 139. gr. laga nr. 82, 1998.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar.“

  Verjandi beggja ákærðu krefst vægustu refsingar sem lög leyfa og málsvarnarlauna að mati dómsins.

  Hinn 15. júní 2004 lagði skattrannsóknarstjóri ríkisins fram kæru á hendur ákærðu máls þessa vegna háttsemi sem lýst er í ákærunni. Sætti málið eftir það lögreglurannsókn og við skýrslustökur af ákærðu hjá lögreglunni höfðu þeir ekki athugasemdir fram að færa vegna fjárhæða sem í ákærunni greinir.

  Fyrir dómi kvað ákærði Auðunn ekki vera ágreining um fjárhæðir samkvæmt ákærunni. Hann bar á sama veg hjá lögreglunni og staðfesti þann framburð fyrir dóminum. Ákærði lýsti stofnun Norður-stáls og rekstri félagsins uns gjaldþrot varð.  Greindi hann frá ástæðum þess að félagið varð gjaldþrota en þar hafi tapaðar kröfur vegið þungt. Hann kvað hafa verið reynt að semja við alla lánadrottna félagsins og einnig skattayfirvöld, allt í því skyni að bjarga rekstri félagsins.

  Ákærði Freyr kvaðst hafa verið framkvæmdastjóri Norður-stáls á þessum tíma. Hann bar efnislega á sama veg og meðákærði, Auðunn, og kvað ekki ágreining um fjárhæðir samkvæmt ákærunni. Ákærði bar hins vegar að verulegur hluti fjárhæða samkvæmt ákærunni hafi verið greiddur þótt eftir eindaga væri. Ákærði hafði áður borið á sama veg hjá lögreglunni og staðfesti þann framburð sinn fyrir dómi. Hann lýsti rekstri Norður-stáls og ástæðum gjaldþrots félagsins sem einkum verði raktar til tapaðra krafna vegna viðskiptavina sem ekki stóðu í skilum við félagið.

  Hvorugur ákærðu hefur fram að færa athugasemdir við fjárhæðir samkvæmt ákærunni. Byggjast mótbárur beggja og verjanda þeirra fyrst og fremst á því hvaða áhrif greiðslur eftir lögboðna eindaga skuli hafa og hvernig virða skuli fjárhæð sem ekki var nægilega lýst í þrotabúi Norður-stáls, eins síðar verður vikið að.

  Að þessu virtu þykir ekki þörf á því að rekja málavexti frekar og þykir mega vísa til ákærunnar um lýsingu þeirra.

  Niðurstaða:

  Sannað er með skýlausri játningu beggja ákærðu fyrir dómi og með öðrum gögnum málsins að þeir hafi gerst sekir um háttsemi þá sem í ákæru greinir og eru brot þeirra þar rétt færð til refsiákvæða, en ákærði Freyr ber refsiábyrgð sem framkvæmdastjóri og ákærði Auðunn Svafar sem stjórnarformaður Norður-stáls eins og lýst er í ákærunni.

  Eftir útgáfu ákæru tóku gildi lög nr. 134/2005 er varða breytingar á lögum um virðisaukaskatt og á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda og ber jafnframt að vísa til þeirra laga vegna sakarefnis sem lýst er í báðum ákæruliðum en þeim lögum verður beitt hér, sbr. meginreglu 2. gr. almennra hegningarlaga.

  Ákærði, Auðunn Svafar, hlaut sektardóm fyrir umferðarlagabrot á árinu 2001.

  Ákærði, Freyr, hefur ekki áður sætt refsingu.

  Refsing ákærðu er ákvörðuð með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga. Ákærðu greiddu verulegar fjárhæðir eftir lögboðinn eindaga eins og síðar verður vikið að. Þykir refsing hvors ákærða um sig hæfilega ákvörðuð fangelsi í 2 mánuði en rétt þykir að fresta fullnustu refsingar hvors um sig skilorðsbundið í 2 ár frá birtingu dómsins að telja og falli refsing hvors um sig niður að þeim tíma liðnum haldi viðkomandi almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

  Samkvæmt I. kafla ákæru var ekki staðið skil á 17.863.609 krónum í samræmi við það sem lög áskilja. Fyrir liggur að heildargreiðsla eftir eindaga greiðslutímabila sem í ákæru greinir var 13.151.918 krónur og er vangoldinn virðisaukaskattur því 7.958.400 krónur.

  Í bréfi tollstjórans í Reykjavík dagsettu 25. janúar 2006 til ríkislögreglustjóra er svofelldur kafli:

  ,,Að beiðni fulltrúa ríkislögreglustjóra staðfestist hér með að unnt hefði verið að lýsa í þrotabú Norður-stáls ehf. forgangskröfum vegna fjárnáms í lausafé dags. 13. ágúst 2002. Sú greiðsla sem þannig hefði fengist úr skiptum þrotabúsins hefði verið ráðstafað upp í virðisaukaskattskuld sem að baki fjárnáminu lá eins og hún stóð í tekjubókhaldskerfi tollstjóraembættisins þegar kröfulýsing í búið var gerð.“

  Í fylgiskjali með bréfi þessu er sundurliðun á greiðslum tengdum fjárnáminu. Þar segir að lýsa hefði mátt forgangskröfu (aðfaraveð) 6.038.974 krónum.

  Samkvæmt fyrrgreindu bréfi tollstjóra hefði þeirri fjárhæð sem fengist hefði úr þrotabúinu verið ráðstafað upp í virðisaukaskattsskuld þá sem lá að baki fjárnáminu. Þykir eftir atvikum rétt að láta ákærðu njóta þessa og draga þessa fjárhæð frá vanskilunum enda verða mistökin við kröfulýsinguna ekki rakin til þeirra.

  Samkvæmt þessu eru vanskil virðisaukaskatts 1.919.426 krónur.

  Samkvæmt lögum nr. 134/2005 um breytingu á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda og lögum um virðisaukaskatt var fésektarlágmark 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 og 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/ 1988 numið úr gildi enda hafi verið staðið skil á verulegum hluta skattfjárhæðar eða málsbætur miklar.

  Ljóst er af því sem að framan var rakið að ákærðu hafi staðið skil á verulegum hluta virðisaukaskattsins. Eiga því við undirstöðurök laga nr. 134/2005 sem lágu til grundvallar framangreindri lagabreytingu og á því ekki við, eins og á stendur, að beita fésektarlágmarki sem kveðið er á um í 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

   Samkvæmt II. kafla ákæru var ekki staðið skil á 21.852.701 krónu í samræmi við það sem lög áskilja. Fyrir liggur að heildargreiðsla eftir eindaga greiðslutímabila sem hér um ræðir var 7.790.377 krónur og er vangoldin staðgreiðsla því 15.501.401 króna.

  Eitt helsta tilefni breytingarinnar sem varð með lögum nr. 134/2005 var sú að bæði þótti ósanngjarnt og sætti mikilli gagnrýni að ekki væri unnt að taka tillit til greiðslna eftir eindaga er sektir voru dæmdar.

  Þótt ákærðu hafi aðeins greitt hluta vangoldinnar staðgreiðslu, þykja undirstöðurök laga nr. 134/2005 hníga í þá átt að meta greiðslur ákærðu eftir eindaga þannig að um málsbætur í skilningi laganna sé að ræða. Í samræmi við þetta verða greiðslur eftir eindaga dregnar frá vanskilunum. Verða vanskilin þá 15.501.401 króna. Það er mat dómsins, er málsbætur ákærðu eru virtar, að eftir atvikum sé rétt að víkja frá fésektarlágmarki sem kveðið er á um í 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda.

  Samanlögð vanskil samkvæmt báðum köflum ákæru eru 17.420.827 krónur. Eins og rakið var er vikið frá fésektarlágmarki vegna beggja ákæruliða og eru heildarvanskil ákærðu samkvæmt ofanrituðu grundvöllur sektarfjárhæðarinnar. Í samræmi við dómvenju verðum hvorum hinna ákærðu um sig gert að greiða jafn háa fjársekt sem að öllu ofanrituðu virtu þykir hæfilega ákvörðuð 8.711.000 krónur í ríkissjóð. Í samræmi við dómaframkvæmd skal vararefsing hvors um sig vera fangelsi í þrjá mánuði greiði hvor um sig ekki sektina innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins að telja.

Ákærðu greiði óskipt 373.500 krónur í málsvarnarlaun til Þórðar Þórðarsonar héraðsdómslögmanns. Við ákvörðun málsvarnarauna hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Málið hefur einkum dregist vegna tímafrekrar gagnaöflunar.

  Björn Þorvaldsson, fulltrúi ríkislögreglustjóra, flutti málið fyrir ákæruvaldið.

Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

Dómsorð:

  Ákærðu, Auðunn Svafar Guðmundsson og Freyr Aðalgeirsson, sæti hvor um sig fangelsi í 2 mánuði en fresta skal fullnustu refsivistarinnar skilorðsbundið í 2 ár frá birtingu dómsins að telja og falli refsing hvors um sig niður að þeim tíma liðnum haldi hvor um sig almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

  Ákærðu greiði hvor um sig 8.711.000 króna sekt í ríkissjóð og komi þriggja mánaða fangelsi í stað sektarinnar greiði viðkomandi ekki sektina innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins að telja.

  Ákærðu greiði óskipt 373.500 krónur í málsvarnarlaun til Þórðar Þórðarsonar héraðsdómslögmanns.