Hæstiréttur íslands
Mál nr. 449/2016
Lykilorð
- Börn
- Forsjá
- Ómerking
- Heimvísun
- Málsgrundvöllur
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 14. júní 2016. Hann krefst þess aðallega að sér verði falin forsjá barnsins A en til vara að forsjá barnsins verði sameiginleg og lögheimili hennar hjá sér. Þá krefst hann í báðum tilvikum að kveðið verði á um inntak umgengnisréttar. Loks krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt.
I
Í forsendum hins áfrýjaða dóms er gerð grein fyrir niðurstöðum matsgerðar B sálfræðings 1. desember 2015 þar sem metin var forsjárhæfni málsaðila, persónulegir eiginleikar þeirra, hagir og tengsl við barnið A. Komst matsmaður að þeirri niðurstöðu að báðir aðilar væru hæfir til að gegna foreldraskyldum sínum gagnvart barninu. Í forsendum dómsins er hins vegar tekið undir það með matsmanni, og rökstutt frekar, að þegar litið væri til persónugerðar, tilfinningaástands og tengslahæfni foreldra stæði áfrýjandi mun lakar að vígi en stefnda. Þá er jafnframt vikið að því að stefnda hafi um þriggja mánaða skeið á fyrri hluta árs 2015 staðið í vegi fyrir umgengni áfrýjanda við barnið og með því blandað barninu með afar óæskilegum hætti inn í deilur aðila og sýnt af sér dómgreindarbrest. Þess bæri þó að gæta að þessi tálmun stefnda á umgengni barnsins við föður helgaðist að einhverju leyti af mjög erfiðum aðstæðum hennar á umræddum tíma. Eftir að umgengni hefði komist á að nýju hefði stefnda enga tilburði sýnt í þá veru að takmarka umgengni barnsins við föður en aðilar þá náð samkomulagi um að barnið dveldi viku í senn hjá hvoru þeirra. Í dóminum er síðan komist að þeirri niðurstöðu að í ljósi aldurs barnsins og skorts á vilja eða getu foreldra til að eiga samvinnu um málefni þess væri það barninu ekki fyrir bestu að forsjáin yrði sameiginleg. Þá er gerð grein fyrir því að stefnda ætti í góðum samskiptum við föður eldri barna sinna en hún deildi sameiginlegri forsjá þeirra með honum og byggi hún af þeim sökum yfir ágætri reynslu af uppeldi barna í samvinnu við hann. Að teknu tilliti til niðurstaðna matsgerðar um forsjárhæfni aðila út frá persónueinkennum þeirra og skapgerð var í hinum áfrýjaða dómi komist að þeirri niðurstöðu að stefnda færi ein með forsjá barnsins, sbr. 2. og 3. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003. Þá taldi dómurinn það ekki þjóna hagsmunum barnsins að umgengni þess við föður sinn yrði jöfn umgengni við móður í ljósi þeirra átaka sem einkennt hefðu samskipti aðila. Hins vegar væri mikilvægt að viðhalda góðum tengslum barnsins við áfrýjanda og fjölskyldu hans. Var umgengnin ákveðin þannig að barnið dveldi hjá áfrýjanda aðra hverja helgi frá því síðdegis á fimmtudegi fram á þriðjudagsmorgun. Þá var í dóminum kveðið nánar á um umgengni á hátíðum og í sumarleyfum.
Stefnda gaf skýrslu fyrir héraðsdómi og tjáði sig þar meðal annars um fyrirkomulag umgengni áfrýjanda við barnið færi hún ein með forsjá þess. Reifaði hún mismunandi hugmyndir sínar í þá veru. Hún kvaðst hafa í hyggju að búa áfram á Íslandi og hefði ráðið sig í vinnu frá 2. maí 2016. Sérstaklega aðspurð neitaði hún því að hún hefði áform um að flytja til Bandaríkjanna. Stefnda hafði lýst sömu afstöðu fyrir dómkvöddum matsmanni.
Með hinum áfrýjaða dómi var stefndu dæmd forsjá barnsins, áfrýjanda gert að greiða einfalt meðlag með því til 18 ára aldurs þess og jafnframt kveðið á um umgengnisrétt barnsins við hann.
II
Við málflutning fyrir Hæstarétti var upplýst að stefnda hefði flust til Bandaríkjanna með barnið um mánaðarmótin júlí og ágúst 2016 og eftir það hefðu hvorki hún né barnið haft nein samskipti við áfrýjanda. Aðspurð um umgengnisrétt barnsins við áfrýjanda kvað lögmaður stefndu hana bíða endanlegs dóms Hæstaréttar áður en unnt yrði að ræða og taka afstöðu til umgengni. Þá fengust ekki skýr svör lögmannsins við því hvernig búferlaflutningar stefndu og viðhorf hennar til umgengni barnsins við áfrýjanda fengju samræmst kröfu hennar um staðfestingu hins áfrýjaða dóms. Af hálfu áfrýjanda var því hreyft að sú röskun kynni að hafa orðið á grundvelli málsins að til álita kæmi að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu heim í hérað til aðalmeðferðar og dómsálagningar að nýju.
Árétta ber að báðir foreldrar voru í hinum áfrýjaða dómi taldir hæfir til að gegna foreldraskyldum sínum gagnvart barninu þó svo stefnda væri talin hæfari til þess að fara með forsjána. Allt að einu hagar svo til að niðurstaða dómsins um forsjá stefndu með barninu og fyrirkomulag umgengni var meðal annars reist á forsendum um áframahaldandi búsetu stefndu hér á landi þar sem unnt væri að koma við reglulegri umgengni barnsins við föður sinn og viðhalda góðum tengslum milli þeirra. Þessar forsendur hafa undir áfrýjun málsins breyst svo mjög að grundvelli málsins er raskað með þeim hætti að ekki verður hjá því komist að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og leggja fyrir héraðsdóm að taka málið til aðalmeðferðar og dómsálagningar að nýju.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður, en um gjafsóknarkostnað stefndu fer eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur er ómerktur og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til aðalmeðferðar og dómsálagningar á ný.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður stefndu, K, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, 800.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. maí 2016.
I
Mál þetta, sem var dómtekið 28. apríl sl., er höfðað 15. apríl 2015 af M, til heimilis að [...] í Reykjavík, gegn K, [...] í Reykjavík.
Stefnandi gerir aðallega þá kröfu að honum verði dæmd óskipt forsjá barnsins A, kt. [...], til 18 ára aldurs barnsins. Til vara krefst stefnandi þess að aðilar fari áfram sameiginlega með forsjá barnsins til 18 ára aldurs þess og að lögheimili þess verði hjá stefnanda. Þá krefst stefnandi þess að ákveðið verði með dómi inntak umgengnisréttar barnsins við þann aðila sem ekki verður dæmd forsjáin eða lögheimili barnsins. Stefnandi krefst einnig málskostnaðar úr hendi stefndu að viðbættum virðisaukaskatti.
Stefnda krefst þess að öllum kröfum stefnanda verði hafnað og að henni verði með dómi falin forsjá stúlkunnar A. Þá gerir stefnda þá kröfu að stefnanda verði gert að greiða sér einfalt meðlag með stúlkunni frá uppkvaðningu dóms til 18 ára aldurs hennar eins og barnalífeyrir er ákveðinn hverju sinni. Jafnframt er þess krafist að dómari ákveði umgengni barns við það foreldri sem ekki fer með forsjá þess. Að lokum krefst stefnda málskostnaðar úr hendi stefnanda.
II
Stefnandi og stefnda kynntust í nóvember 2011 og munu þau hafa byrjað að búa saman nokkrum mánuðum síðar. Í [...] 2013 fæddist dóttir þeirra, A.
Fyrir á stefnda tvö börn með fyrrverandi maka sínum, stúlku sem er fædd árið 2004 og dreng sem er fæddur árið 2006. Samkvæmt því sem fram hefur komið fyrir dómi féll dómur stefndu í vil um forsjá eldri barna hennar í kjölfar þess að stefnda skildi við barnsföður sinn. Síðar samdi hún við hann um að forsjá barnanna væri sameiginleg og að umgengni væri jöfn þannig að börnin væru hjá þeim viku og viku í senn.
Stefnandi á einnig 14 ára gamla stúlku. Kveður hann samskiptaörðuleika við móður stúlkunnar hafa valdið því að samband hans við hana rofnaði og hefur hann ekki séð hana í tæplega sjö og hálft ár.
Stefnandi og stefnda bjuggu saman í íbúð að [...] í Reykjavík. Stefnda mun hafa fest kaup á henni á sambúðartímanum en stefnandi kveðst hafa fjármagnað kaupin að einhverju leyti. Af lýsingum í gögnum málsins má ráða að sambúð þeirra hafi verið stormasöm. Stefnandi rekur það að mestu leyti til þess að stefnda eigi við geðrænan vanda að stríða, en hún hafi meðan á sambúðinni stóð verið lögð inn á geðdeild vegna geðhvarfa. Stefnda kveður stefnanda aftur á móti eiga við áfengis- og fíkniefnavanda að etja og að hann hafi beitt hana bæði líkamlegu og andlegu ofbeldi á sambúðartímanum. Stefnandi hefur staðfastlega neitað því að hafa lagt hendur á stefndu.
Sambúð aðila lauk [...] 2014, en þá flutti hún út af heimili sínu með eigur sínar. Hún kveðst hafa dvalið um skeið á heimili vina sinna en síðan flutt í Kvennaathvarfið til að tryggja öryggi sitt og dóttur sinnar. Af gögnum málsins verður ráðið að hún hafi frá desember 2014 aðallega dvalið hjá vinkonu sinni áður en hún flutti að nýju í íbúðina að [...] í byrjun mars 2015, en stefnandi var þá fluttur úr íbúðinni. Hann leigir nú íbúð í [...] í Reykjavík.
Í gögnum málsins kemur fram að aðilar hafi við skilnaðinn í nóvember 2014 komið sér saman um að dóttir þeirra dveldi til skiptis hjá aðilum viku og viku í senn. Mun það í meginatriðum hafa gengið eftir fram yfir miðjan febrúarmánuð 2015.
Strax í kjölfar sambúðarslitanna hafði stefnandi samband við Barnavernd Reykjavíkur og lýsti þar áhyggjum sínum af stöðu dóttur sinnar hjá stefndu þar sem hún ætti við geðrænan vanda að stríða. Í gögnum málsins kemur fram að málinu hafi verið fylgt eftir, m.a. með viðtölum við aðila, óboðuðum eftirlitsheimsóknum og upplýsingaöflun frá lögreglu og fleiri aðilum. Í niðurstöðu könnunar Barnaverndar Reykjavíkur, dags. 17. febrúar 2015, segir að miðað við fyrirliggjandi upplýsingar sé ljóst að aðstæður barnsins hjá báðum foreldrum séu góðar og að ekki væri talin þörf á afskiptum af málefnum telpunnar út frá barnaverndarlögum.
Fram kemur í gögnum málsins að stefnda hafi lagt fram kæru á hendur stefnanda í desember 2014 þar sem hún sakaði hann um að hafa beitt hana líkamlegu ofbeldi í þrjú skipti. Kvað hún stefnanda hafa í eitt skipti haldið sér fram af svölum og hótað að sleppa. Þá hafi hann hrint henni niður tröppur úti á Spáni í júlí 2014 og hún lent á eldhúsinnréttingu. Síðasta tilvikið hafi átt sér stað eftir að fjölskyldan kom heim frá Spáni 30. júlí 2014. Hafi stefnda þá ætlað að henda bjórkippu fram af svölum, en stefnandi reynt að koma í veg fyrir það með því að ýta henni á svalahurðina þannig að sprunga kom á vör hennar. Hafi lögregla þá verið kölluð á vettvang en stefnandi hafi yfirgefið staðinn. Stefnandi neitaði sök við rannsókn lögreglu. Kannaðist hann ekkert við fyrsta atvikið, neitaði að hafa ýtt við stefndu í tröppunum og skýrði síðasta atvikið á þá leið að stefnda hefði dottið á hurðina í átökunum um bjórkippuna.
Í gögnum málsins er að finna tölvuskeyti og smáskilaboð frá stefnanda til einstaklinga sem standa stefndu nærri frá því í byrjun desember 2014, þar sem hann sakar stefndu um lygar um sig og vænir hana um að vera geðveika.
Skömmu fyrir jól 2014 birtist umfjöllun í [...] um mál stefndu. Þar lýsti hún, undir nafnleynd, því ofbeldi, bæði andlegu og líkamlegu, sem hún kveðst hafa orðið fyrir af hendi stefnanda á sambúðartímanum. Í umfjölluninni kemur meðal annars fram að stefnandi hafi verið dæmdur fyrir alvarlega líkamsárás, þjófnað og fíkniefnalagabrot, og bíði þess að hefja afplánun á dómi sem hann hafi hlotið árið [...]. Í greininni er jafnframt haft eftir stefndu að stefnandi neiti að flytja út úr íbúðinni, sem sé hennar eign, auk þess sem hún lýsir vonbrigðum sínum með hvernig barnaverndarnefnd og lögregla hafi tekið á málinu. Engin gögn hafa verið lögð fram í málinu sem gefa til kynna að stefnandi hafi gerst sekur um þau hegningarlagabrot sem lýst er í greininni.
Stefnandi setti sig í samband við stefndu í kjölfar blaðagreinarinnar og hótaði að birta myndir og myndbrot sem sýndi hana í kynlífsathöfnum. Upplýsti hann hana um að hann hefði í hyggju að senda þetta efni meðal annars til samstarfsmanna hennar, en hún vann þá hjá alþjóðlegu tæknifyrirtæki með höfuðstöðvar í Bandaríkjunum. Í kjölfarið óskaði hún eftir því við starfsmannastjóra fyrirtækisins að lokað yrði fyrir aðgang tveggja netfanga stefnanda að tölvupósti starfsmanna fyrirtækisins. Stefnandi mun hins vegar hafa náð að senda umræddar myndir á valda stjórnendur fyrirtækisins í gegnum nýtt netfang nokkrum dögum síðar. Við aðalmeðferð málsins lýsti stefnda þeim afleiðingum sem þetta hefði haft innan fyrirtækisins og á stöðu hennar innan þess. Gat hún þess jafnframt að lögfræðingar fyrirtækisins hefði tilkynnt málið til alríkislögreglunnar í Bandaríkjunum þar sem myndbirting af þessu tagi sé alríkisglæpur. Upplýsti hún að hún ynni ekki lengur hjá umræddu fyrirtæki. Stefnda kærði stefnanda til lögreglu fyrir myndbirtinguna.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu ákvað 14. janúar 2015 að stefnandi skyldi sæta nálgunarbanni þannig að hann mætti ekki veita stefndu eftirför, nálgast hana á almannafæri eða setja sig í samband við hana með öðrum hætti. Nálgunarbannið var staðfest með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 20. janúar 2015. Það var fellt úr gildi með dómi Hæstaréttar Íslands 22. janúar 2015. Þar var vísað til þess að nálgunarbann gæti ekki verndað stefndu gegn háttsemi stefnanda sem fælist í því að senda af henni kynlífsmyndir. Þá væri nokkur tími liðinn frá atvikinu 30. júlí 2014. Því lægi ekki fyrir að skilyrðum 4. gr. laga nr. 85/2011 væri fullnægt. Í kjölfar þessarar niðurstöðu kom stefnda fram í fjölmiðlum undir nafni og rakti þar sögu sína af sambúð sinni og stefnanda. Ítarlegt viðtal við hana birtist til að mynda í helgarblaði [...].
Eins og fram hefur komið lauk eftirliti Barnaverndar Reykjavíkur 17. febrúar 2015. Eftir það neitaði stefnda að A færi í umgengni til stefnanda þar sem hún treysti honum ekki sökum eiturlyfjaneyslu. Jafnframt er ágreiningslaust að stefnda hafi ekki sent stúlkuna í leikskóla á þessum tíma af ótta við að stefnandi gæti nálgast hana þar. Virðist barnið þá hafa verið í umsjá vinkonu stefndu meðan hún var í vinnunni.
Í byrjun mars 2015 flutti stefnda að nýju í íbúðina að [...]. Hún kveður stefnanda hafa unnið skemmdir á íbúðinni meðan hann dvaldi þar frá sambúðarslitum. Lagði hún fram kæru á hendur honum af þeim sökum.
Í málinu liggur fyrir vottorð um sáttameðferð samkvæmt 33. gr. a í barnalögum nr. 76/2003. Kemur þar fram að sættir hafi ekki tekist með aðilum. Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu sendi aðilum afrit vottorðsins með bréfi 20. mars 2015. Þá var þeim tilkynnt að erindi þess efnis að gerður yrði samningur um forsjá og lögheimili barnsins hefði verið vísað frá embættinu. Fór sýslumaðurinn jafnframt fram á að hann yrði upplýstur um það fyrir 3. apríl 2015 ef foreldrar óskuðu eftir úrlausn embættisins um meðlagskröfur þeirra. Að öðrum kosti myndi embætti ljúka umfjöllun um þann lið.
Stefnandi höfðaði mál þetta 15. apríl 2015 og gerði þær kröfur sem að framan greinir. Við þingfestingu málsins 16. sama mánaðar lagði stefnandi einnig fram kröfu um að lögheimili A yrði til bráðabirgða hjá honum meðan málið væri til meðferðar fyrir héraðsdómi. Þar var meðal annars vísað til þess að stefnda hamlaði umgengni stúlkunnar við stefnanda. Við fyrirtöku málsins 30. apríl 2015 lagði stefnda fram kröfu þess efnis að dómurinn hafnaði kröfu stefnanda um lögheimili til bráðabirgða og að henni yrði falin forsjá stúlkunnar til bráðabirgða. Til vara fór stefnda fram á að lögheimili stúlkunnar yrði áfram hjá stefndu. Jafnframt krafðist stefnda meðlags með stúlkunni og að umgengni stefnanda og stúlkunnar færi einungis fram undir eftirliti barnaverndarstarfsmanns.
Málflutningur fór fram um þennan ágreining aðila 26. maí 2015. Kom þá fram að umgengni hefði komist á að nýju um miðjan maí eftir að stefnandi hafði orðið var við stefndu og barnið í verslun. Var atvikum lýst á þann veg fyrir dómi að stefnandi hefði óskað eftir því að systir hans og mágur kæmu á staðinn, en sá síðarnefndi hefði fest samskipti aðila á filmu. Hafi stefnandi síðan óskað eftir því að stefnda leyfði barninu að fara með stefnanda og hún fallist á það. Greindi stefnda frá því að hún hefði ekki viljað standa því í vegi þar sem hún hafi viljað forðast átök þegar A væri viðstödd.
Hinn 29. maí 2015 var kveðinn upp úrskurður um ágreining aðila um bráðabirgðaráðstafanir samkvæmt 35. gr. barnalaga. Þar var komist að þeirri niðurstöðu að forsjá A skyldi áfram vera sameiginleg hjá foreldrunum meðan forsjármálið væri til úrlausnar. Lögheimili barnsins yrði hjá stefndu uns forsjárdeilan hefði verið útkljáð og stefnanda gert að greiða stefndu einfalt meðlag með barninu. Þá bæri að haga umgengni þannig að barnið yrði á víxl hjá foreldrunum eina viku í senn, eins og verið hefði, frá föstudegi til föstudags.
Í þinghaldi 29. júlí 2015 lagði stefnda fram greinargerð ásamt fylgigögnum þar sem kröfur hennar komu fram af hennar hálfu um forsjá A. Í sama þinghaldi var B sálfræðingur dómkvödd til þess að leggja mat á forsjárhæfni aðila „allt með tilliti til þess að unnt verði að ákvarða með dómi hvort þeirra teljist hæfara til að fara með forsjá barnsins“. Skyldi matsmaður skoða sérstaklega persónulega eiginleika og hagi hvors aðila um sig og barnsins eftir því sem aldur þess leyfði, tengsl aðila við barnið og önnur þau atriði sem talin eru upp í ellefu liðum í athugasemdum við 34. gr. í frumvarpi því er varð að barnalögum.
Matsgerð B var lögð fram í þinghaldi 3. desember 2015. Þar er farið yfir forsögu málsins og síðan gerð grein fyrir foreldrum A, aðilum máls þessa. Fjallað er um sömu atriði um báða aðila, þ.e. ástæður ágreinings aðila að þeirra mati, bakgrunni þeirra samkvæmt lýsingu aðila, fyrri sambúðir og börn aðila sem og mat þeirra á sambúðinni með gagnaðila og samskipti þeirra eftir sambúðarslit. Því næst er í matsgerðinni gerð grein fyrir heimsókn matsmanns á heimili aðila og núverandi aðstæðum með tilliti til atvinnu. Þá er þar að finna lýsingu aðila á uppeldisstíl þeirra og tengslum við A auk þess sem þar er vikið að stuðningsneti þeirra á Íslandi. Að því loknu er gerð grein fyrir niðurstöðu sálfræðilegra prófana á hvorum aðila um sig, en tvenns konar sálfræðipróf voru lögð fyrir aðila, MMPI/2-persónuleikapróf og DIP-Q-persónuleikapróf, auk þess sem DASS-spurningalisti um líðan var lagður fyrir aðila, en honum er ætlað að skima fyrir einkennum kvíða, þunglyndis og streitu. Í matsgerðinni er umræddum prófum og matslistum lýst nánar. Þar er því næst vikið að A. Tekur matsmaður fram að hann telji sig ekki hafa nægilega miklar upplýsingar undir höndum til að draga þá ályktun að barnið sé að einhverju leyti óöruggt. Hins vegar sé ljóst að það hafi upplifað ofbeldi milli foreldra sinna. Matsmaður lýsir síðan því sem fram hafi komið um málið hjá öðrum viðmælendum en aðilum málsins. Kemur þar fram að matsmaður hafi leitað upplýsinga hjá leikskólastjóra og deildarstjóra á leikskóla A, auk þess sem matsmaður hafi átt viðtal við hálfsystur A, sem er [...] ára gömul. Í niðurstöðu matsgerðarinnar segir því næst orðrétt:
Forsjárhæfni er metin út frá uppeldisþörfum barns. Almennar þarfir sem öll börn hafa og þarf að mæta, til að þau geti þroskast og dafnað eðlilega, lúta að þáttum eins og ást, vernd, öryggi, líkamlegri umönnun, atlæti, örvun, hvatningu og stuðningi. Einnig er litið til persónulegra eiginleika, tilfinningaástands og tengslahæfni foreldra þegar forsjárhæfni þeirra er metin.
Tengsl barnsins við aðila voru metin með viðtölum við foreldra og leikskólakennara barnsins. Eins fylgdist matsmaður með samskiptum barnsins og foreldra þess á heimilum þeirra. Sökum ungs aldurs barnsins var ekki hægt að styðjast við tengslapróf. Matsmaður álítur báða foreldra sýna barni sínu ástríki í orðum og athöfunum. Tengsl telpunnar við foreldra eru ástrík, foreldrar eru natnir við telpuna, samskipti hlýleg og ástúðleg. Líkamleg umönnun á telpunni er góð. Þeir sem koma að umönnun hennar ber saman um að þrifnaður, viðeigandi og góður fatnaður sé fullnægjandi. Báðir foreldrar hafa búið barni sínu gott heimili og þar sem telpuna skortir ekkert.
Báðum foreldrum er umhugað um að örva telpuna og þeir stuðla að þroskavænlegum athöfnum eins og bóklestri og telpunni er séð fyrir leikföngum sem taka mið af aldri hennar og þroska. Foreldri þarf að sýna staðfestu og stöðugleika, taka ábyrgð á barninu og verja það fyrir hættum og óþægindum. Þarna hafa báðir foreldrar gerst sekir um að valda barni sínu óþægindum þar sem barnið hefur ítrekað orðið vitni að heiftúðugum deilum þeirra og með því móti dregið úr öryggistilfinningu þess. Jafnframt hefur móðir þess tálmað umgengni barns við föður og haldið því frá leikskóla vikunum saman.
Líta verður til persónulegra eiginleika þegar mat er lagt á forsjárhæfni. Það gerði matsmaður með því að leggja fyrir málsaðila sálfræðileg próf og skoða bakgrunn þeirra, samskipti sín á milli og við aðra. Niðurstaða sálfræðiprófa sýnir að M er í vörn og leitast við að draga upp fegraða og jákvæða mynd af sjálfum sér sem er ekki óalgegnt að sjá í forsjármálum. M skorti verulega innsæi og skilning í eigin hegðun og annarra, lítur ekki í eigin barm við lausn vandamála, heldur finnst lausnin liggja hjá öðrum. Prófmyndin sýnir mann sem er líklegur til að vera ofurviðkvæmur, tortrygginn, viðkvæmur fyrir allri andstöðu og kann að bregðast harkalega við henni. Samskipti M við annað fólk einkennast af ágreiningi og hann kennir öðrum um vanda sem skapast hafa í samskiptum hans og þeirra. Frávik eru á kvarða sem tekur til siðblindueinkenna. Einstaklingar sem skora eins hátt á kvarðanum og M hafa ekki getað tileinkað sér venjuleg gildi og viðmið samfélagsins. Þeir skeyta oft lítt um afleiðingar gerða sinna og eru oft óútreiknanlegir. Þessir einstaklingar koma gjarnan vel fyrir við fyrstu kynni en við lengri viðkynningu kemur óáreiðanleiki, óstöðug skapgerð og reiði þeirra í ljós. Þeir eru yfirborðslegir í samskiptum, hafa almennt takmarkað innsæi og eiga erfitt með að mynda sterk og náin geðtengsl við aðra. Þeir eru sjálfhverfir, eigingjarnir og miða allt við eigin þarfir.
Matsmaður álítur þá prófmynd sem sálfræðilega prófið dregur upp af M endurspeglast í ýmsu sem fram kom í sögu hans, samskiptum við aðra og í málsskjölum. Hér verða nefnd nokkur atriði. M á 14 ára gamla dóttur sem hann hefur ekki verið í tengslum við frá því að telpan var 4 ára gömul og kennir erfiðum samskiptum við móður telpunnar um. M virðist hvorki setja sig í spor telpunnar né renna blóðið til skyldunnar að koma á umgengni við hana. M er tortrygginn í garð ýmissa sem hafa komið að forsjármálinu eins og undirritaðrar, leikskólastjóra og starfsmanna barnaverndar. M hefur ekki virt venjuleg gildi og viðmið samfélagsins. Þegar hann hefur talið að brotið hafi verið á sér hefur hann gripið til hatursfullra aðgerða eins og hefndarkláms. Vægari dæmi um það má sjá í hótun M til leikskólastjóra og sagt er frá í viðtali við leikskólastjóra hér að ofan. Ítrekað stjórnleysi M í samskiptum má einnig sjá í gögnum sem matsmaður vitnar í frá geðdeild Landspítalans og í skriflegum samskiptum hans og K. Frásögn dóttur K af meintu heimilisofbeldi M var trúverðug.
Niðurstaða sálfræðiprófa leiða í ljós að K er í vörn og leitast við að draga upp jákvæða mynd af sjálfri sér og afneita veikleikum sem flestar manneskjur hafa. Slíkt er ekki óalgengt að sjá í málum þar sem forsjárhæfni er metin og fólki umhugað um að gefa af sér jákvæða mynd. Einnig kemur K fram með þá mynd af af sjálfri sér að hún búi yfir óvenju mikilli sjálfstjórn sem gefur til kynna skort á innsæi í eigin hegðun. Sjálfsfegrun hennar er með þeim hætti að annað hvort er K vísvitandi að blekkja eða hana skorti innsæi og skilning í eigin hegðun eða sambland af hvoru tveggja.
Klínískir kvarðar prófsins eru innan eðlilegra marka og samkvæmt því stríðir K ekki við alvarlega geðsjúkdóma. Prófmyndin sýnir konu sem er hvorki tortryggin eða auðtrúa og hefur almennt jákvætt viðhorf til annarra. Samkvæmt prófinu er K næm í félagslegum samskiptum, félagslynd og á auðvelt með að eignast vini. K hefur góðan sjálfstyrk, líkar vel að taka ábyrgð, stýra verkefnum og dreifa til annarra. Fram kemur nokkur hækkun á kvarða sem mælir samskiptahæfni sem gefur til kynna að K eigi í einhverjum samskiptavanda. Nærtækast er að rekja hann til þeirrar togstreitu sem ríkir milli hennar og M. Nokkur lækkun er á kvarða sem metur virkni og samkvæmt honum er K orkulítil og þreytt sem kann einnig að endurspegla núverandi ástand.
Það er niðurstaða þessarar athugunar að báðir foreldrar teljast hæfir til að fara með forsjá A en að móðir teljist hæfari. Það sem gerir M að mati matsmanns ekki eins hæfan og móður lýtur að persónugerð hans. Það kemur fram á sálfræðilegu prófi að persónugerð M er með þeim hætti að átök eru líkleg til að einkenna samskipti hans við aðra. Þessi persónugerð hefur tilhneigingu til að vera stöðug og svara illa meðferð. M hefur afar skert innsæi sem er forsenda góðrar foreldrahæfni, er hömlulaus og yfirgangssamur í samskiptum og tekur ekki ábyrgð á eigin gjörðum. M hefur að mati matsmanns virst geta sinnt umönnun A vel en það er ástæða til að ætla að þegar barnið eldist og verður viljasterkara að þá geti þessi frávik í persónugerð föður komið fram. Í uppeldi barna fram á fullorðinsár reynir mikið á innsæi foreldra, skapstillingu, stöðuglyndi og samskiptahæfni bæði við barnið, hitt foreldrið og uppeldisstofnanir. Strax á fyrsta leikskólaári telpunnar er M kominn upp á kant, virðir ekki reglur og viðhefur hótanir við leikskólakennara. Í málsgögnum, í viðtölum við M má greina mörg dæmi sem þessir þættir í persónugerð hans birtast.
Það sem gerir K hæfari en M að fara með forsjá telpunnar er að mati matsmanns sú staðreynd að K hefur áður gengist undir forsjárhæfnismat og dæmd full forsjá með tveimur börnum sínum. K hefur áratuga reynslu af uppeldi og verið til staðar fyrir börn sín og á í góðum samskiptum við föður eldri barnanna. M á tvö börn og hefur takmarkaða reynslu af uppeldi og hefur ekki ræktað uppeldisskyldur sínar gagnvart eldra barni sínu.
Heiftúðug samskipti M og K hafa verið með þeim hætti að matsmaður óttast að erfitt verði fyrir þau að fara sameiginlega með forsjá telpunnar.
Eins og vikið hefur verið að lagði stefnda fram þrjár kærur á hendur stefnanda vegna líkamsárásar í lok júlí 2014, myndbirtingarinnar í janúar 2015 og eignaspjalla í mars 2015. Samkvæmt gögnum málsins er rannsókn á málum vegna ætlaðrar líkamsárásar og eignaspjalla lokið með því að það sem fram kom við rannsóknina þótti ekki líklegt til sakfellis. Ekki liggur hins vegar fyrir hvort ákært verði fyrir myndbirtinguna. Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur jafnframt fellt niður mál er lýtur að ætlaðri líkamsárás stefnanda á hendur dóttur vinkonu stefndu sem á að hafa átt sér stað þegar stefnandi varð var við dóttur sína í bifreið vinkonunnar á þeim tíma er stefnda tálmaði honum umgengni við dóttur sína.
III
1. Málsástæður og lagarök stefnanda
Í stefnu kveðst stefnandi byggja kröfur sínar í heild á því að það sé barni aðila fyrir bestu að þeir fari sameiginlega með forsjá barnsins, sbr. 2. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003. Hagsmunir barnsins standi til þess enda sé forsjármál þetta höfðað í þeim eina tilgangi að velferð barnsins sé sem best tryggð til frambúðar sem og réttur barnsins til að njóta heilbrigðra samskipta við hvort foreldra sinna. Afstaða stefndu, veikindi hennar og tálmanir á umgengni barnsins við föður hafi, að mati stefnanda, raskað hagsmunum barnsins og svipt það réttinum til heilbrigðrar umgengni við föður sinn. Vegna þessarar afstöðu stefndu neyðist stefnandi til að gera aðalkröfu um að forsjáin verði framvegis í höndum stefnanda.
Bæði í stefnu og við aðalmeðferð málsins vísaði stefnandi til þess að hann væri hæfari til þess að fara með forsjá barnsins en stefnda m.a. þar sem hann hefði allt frá fæðingu barnsins annast það meira en stefnda. Hafi stefnda m.a. þurft að leggjast inn á geðdeild þegar barnið var sjö mánaða og hafi það þá alfarið verið í umsjá stefnanda. Í stefnu er því einnig haldið fram að stefnda hafi aldrei náð fyrri heilsu og því hafi það komið í hlut stefnanda að sinna barninu á sambúðartímanum. Í stefnu er einnig staðhæft að stefnda eigi við geðrænan vanda að stríða og að hún ofnoti geðlyf sem valdi því að hún sé ekki í jafnvægi, en það komi niður á hæfni hennar til þess að sinna barninu.
Í stefnu og við aðalmeðferð málsins vísaði stefnandi einnig til þess að hann og barnið væru mjög náin. Hafi stefnandi náð að mynda góð tengsl við barnið þrátt fyrir tilraun stefndu til þess að hamla umgengni. Þessu til stuðnings vísaði stefnandi við aðalmeðferð málsins meðal annars til matsgerðar dómkvadds matsmanns. Stefnandi kveðst jafnframt gera sér grein fyrir því hversu mikilvægt það sé fyrir barnið að vera í góðum tengslum við báða foreldra sína og að það fái að sækja leikskólann. Stefnda hafi aftur á móti sýnt að hún eigi það til að setja hagsmuni sína ofar hagsmunum barnsins að þessu leyti. Í stefnu segir um þetta atriði að stefnda virðist hafa lítinn skilning á þörf barnsins fyrir samneyti við föður sinn og að hana skorti innsæi og virðingu fyrir rótgrónum tilfinningatengslum feðginanna. Að mati stefnanda sé óforsvaranlegt að afstaða stefndu, vilji hennar til hefnda og skortur til sátta, fái ráðið niðurstöðu máls þessa.
Stefnandi leggur jafnframt áherslu á að hann búi við stöðugleika í lífi sínu, sé í fastri vinnu hjá rótgrónu fyrirtæki, búi í húsnæði sem henti honum og barninu vel og eigi ekki við óreglu að stríða. Hann tryggi barninu stöðugleika og festu í tengslum við svefnvenjur, næringu, örvun og hreyfingu. Við aðalmeðferð málsins taldi hann allar staðhæfingar stefndu um óreglu hans hafa verið hraktar, auk þess sem misræmis gæti í lýsingum hennar á vanköntum stefnanda. Hafi hún í fyrstu staðhæft að hann misnotaði áfengi og fíkniefni, en nú sé komið annað hljóð í strokkinn þar sem einkum sé vísað til persónugerðar hans. Í stefnu kemur einnig fram að hann eigi góða fjölskyldu sem hann sé í miklu sambandi við og njóti mikils stuðnings hennar. Mikilvægt sé að rækta þetta samband svo að tengsl barnsins við föðurfjölskyldu sína rofni ekki. Allar ytri aðstæður hans séu til fyrirmyndar.
Bæði í stefnu og við aðalmeðferð málsins víkur stefnandi að áhyggjum sínum af því að stefnda muni flytja til Bandaríkjanna, en hún sé bandarískur ríkisborgari. Telur hann hættu á því að verði henni veitt full forsjá muni hún láta verða af fyrirætlun sinni að flytja þangað og slíta þar með öll tengsl barnsins við stefnanda og fjölskyldu hans. Við aðalmeðferð málsins áréttaði stefnandi að hann beiti ekki tálmunum eða reyni að sverta gagnaðila sinn með kærum til lögreglu líkt og stefnda hafi gert.
Við aðalmeðferð málsins dró stefnandi í efa áreiðanleika niðurstöðu persónuleikaprófsins (MMPI/2) sem matsmaður lagði fyrir hann. Benti hann á að prófið hefði verið gagnrýnt fyrir að veita ekki rétta geðgreiningu. Þá bendir stefnandi á að önnur niðurstaða hafi orðið á DIP-Q prófinu. Jafnframt taldi stefnandi að sú staðreynd að hann væri með ADHD og væri lesblindur hlyti að hafa haft áhrif á útkomu úr prófinu.
Til stuðnings varakröfu um sameiginlega forsjá vísar stefnandi til sömu röksemda og rakin hafi verið. Bendir stefnandi á að hann hafi reynt að bæta samskiptin við stefndu en að hún hafi ekki sýnt vilja til þess. Jafnframt komi fram í matsgerð dómkvadds matsmanns að þau vandamál sem til staðar séu í samskiptum aðila séu yfirstíganleg. Meginregla barnalaga sé að forsjá skuli vera sameiginleg.
Varðandi umgengni tekur stefnandi fram að það fyrirkomulag sem nú sé við lýði sé ákjósanlegt. Sú krafa sé reist á 5. mgr. 34. gr. barnalaga. Þá vísar stefnandi til 5. mgr. sömu greinar um heimild dómara til þess að kveða á um meðlagsskyldu í málinu. Málskostnaðarkrafa stefnanda er reist á ákvæðum XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sbr. aðallega 130. gr. laganna. Stefnandi krefst þess að tekið verði tillit til áhrifa virðisaukaskatts við ákvörðun málflutningsþóknunar, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, enda sé stefnandi ekki virðisaukaskattsskyldur.
2. Málsástæður og lagarök stefndu
Stefnda byggir á því að það sé dóttur aðila fyrir bestu að hún fari ein með forsjá barnsins. Hún telur að átök og deilur aðila, sem rekja megi til óvildar stefnanda í hennar garð og vilja hans til ágreinings, geti aldrei gert annað en að valda barninu vanlíðan. Við aðalmeðferð málsins vísaði stefnda til gagna málsins sem sýni hömluleysi stefnanda sem beinist ekki aðeins að stefndu. Hafi hann meðal annars lent í átökum við starfsfólk leikskólans, við matsmann, samstarfsfólk og fleiri. Bendir stefnda meðal annars á umfjöllun í matsgerð þessu til stuðnings þar sem persónugerð hans sé lýst. Séu átök líkleg til þess að lita öll samskipti stefnanda, enda sé persónugerð hans stöðug og hann hafi lítið innsæi í eigin veikleika. Sambúð aðila hafi litast af átökum og ofbeldi sem hafi átt rót í áfengisneyslu stefnanda og hafi börn stefndu orðið vitni að því. Hafi eldri börnin tvö gefið trúverðugar skýrslur um þessi atvik við lögreglurannsókn. Þá sýni það innræti stefnanda að hann hafi að yfirlögðu ráði sent kynlífsmyndband af stefndu til yfirmanna hennar hjá bandarísku tæknifyrirtæki þar sem hún starfaði. Jafnframt hafi hann sent níðingspóst um stefndu til ýmissa aðila og reynt að eitra samband hennar við bróður sinn. Eftir að bráðabirgðaúrskurður hafi verið kveðinn upp um umgengni stefnandi hafi hann ekki látið af stífni sinni og áfram sýnt skort á sáttavilja. Vísar stefnda þar meðal annars til nýlegra sms-samskipta milli aðila, þar sem stefnandi hafi neitað stefndu að fara með barnið til læknis vegna stöðugra sýkinga í eyrunum af því að barnið hafi verið hjá honum þá vikuna. Þá hafi hann komið í veg fyrir að stefnda gæti farið með barnið í sumarfrí til Bandaríkjanna til að hitta fjölskyldu sína þar.
Í greinargerð stefndu vísar hún, máli sínu til stuðnings, til 2. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003, en þar komi fram að dómara beri að láta hagsmuni barnsins ráða við ákvörðun um forsjá þess. Jafnframt vísar stefnda til þess sem rakið sé í greingerð með frumvarpi því er varð að gildandi barnalögum, þar sem drepið sé á ýmsum þeim atriðum sem taka verði tillit til við ákvörðun um forsjá. Að teknu tilliti til þessara atriða telur stefnda sig vera mun hæfari til þess að búa stúlkunni það öryggi sem hún þurfi í uppvexti sínum, enda sé stefnda reglusöm og sýni barninu mikla umhyggju. Þá hafi hún allt frá fæðingu verið aðalumönnunaraðili stúlkunnar og telji sig vera mun tilfinningalega tengdari barninu en stefnandi. Þá séu systkini barnsins á heimili stefndu en þau séu henni afar kær.
Í greinargerðinni er því jafnframt haldið fram að sú skylda hvíli á stefndu að veita barninu þá vernd sem hverju barni sé nauðsynleg, m.a. fyrir mögulegu ofbeldi, óviðunandi umönnun og aðstæðum. Þar er vísað til þess að stefnda telji að stefnandi sé í daglegri neyslu og að hann sé af þeim sökum ófær um að annast barnið. Stefnda bendir á að hún hafi sjálf verið ítrekað í hættu á sambúðartíma vegna ofbeldis af hálfu stefnanda. Þá hafi andlega ofbeldið í hennar garð haldið áfram eftir að sambúðinni var slitið. Við aðalmeðferð málsins vísaði stefnda þessu til stuðnings til niðurstöðu matsgerðar sem varpi ljósi á persónugerð stefnanda, eins og áður er rakið.
Stefnda tekur frama að hún geti aftur á móti veitt barni sínu stöðugleika, festu og öryggi. Hún og börnin hennar búi í eigin íbúð, og í greinargerð kemur fram að hún sé í góðri vinnu og með fastar tekjur. Stöðugleiki ríki í lífi stefndu umfram stefnanda sem hvorki sé með fastan dvalarstað né atvinnu. Jafnframt tók stefnda fram að tengsl hennar við íslenskt samfélag væru mikil. Eldri börnin hennar hafi alist hér upp og eigi íslenskan föður sem búi hér á landi með fjölskyldu sinni, en þau deili forsjá þeirra. Hún sé því alls ekki á förum.
Varðandi kröfu stefnanda um sameiginlega forsjá vísar stefnda til afar erfiðra samskipta foreldranna. Kveður hún andlega ofbeldið, sem stefnandi hafi beitt stefndu, hafa haldið áfram eftir lok sambúðar þeirra. Æskilegast sé að samskipti aðila séu engin, en þau geti undir engum kringumstæðum átt í eðlilegum samskiptum. Þess vegna sé útilokað að verða við kröfu um sameiginlega forsjá. Þetta leiði einnig til þess að óæskilegt sé að umgengni sé skipt til helminga viku og viku í senn. Þá sé nauðsynlegt að setja skýr fyrirmæli um umgengni stefnanda og fer stefnda fram á að hún verði frá fimmtudegi til mánudags aðra hverja viku. Jafnframt óskar hún eftir því að umgengni um jól verði ávallt hagað þannig að barnið verði á aðfangadag hjá föður en fari um kvöldið til móður þannig að hún vakni á jóladagsmorgni hjá henni. Þannig fái barnið betur að kynnast jólasiðum í menningu beggja foreldra.
Stefnda kveðst reisa kröfu sína um meðlag úr hendi stefnanda á 5. mgr. 34. gr. barnalaga sem og á ákvæði barnalaga um framfærsluskyldu foreldra samkvæmt 53. gr., sbr. 6. mgr. 57. gr., laganna. Þá sé krafa hennar um málskostnað reist á 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, og um virðisaukaskatt vísar stefnda til laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, en stefnda sé ekki virðisaukaskattsskyld og því beri henni nauðsyn til að fá dóm fyrir þeim skatti. Jafnframt krefst stefnda þess að tekið verði fram í dómsorði að áfrýjun fresti ekki réttaráhrifum dómsins.
IV
Eins og rakið hefur verið lauk stormasamri sambúð aðila í nóvember 2014 þegar stefnda flutti út af sameiginlegu heimili þeirra með dóttur aðila, A. Samkvæmt 1. mgr. 31. gr. laga nr. 76/2003, sbr. 1. gr. laga nr. 69/2006, fóru aðilar í kjölfar sambúðarslitanna sameiginlega með forsjá barnsins. Í kjölfarið gerðu þau óformlegt samkomulag sín á milli um að barnið dveldi hjá þeim viku og viku í senn. Hélst sú skipan uns stefnda taldi velferð barnsins ógnað af því að dvelja hjá stefnanda eftir að eftirliti Barnaverndar Reykjavíkur með aðstæðum barnsins lauk. Greip hún þá til þess ráðs að tálma umgengni A við stefnanda og láta hana í umsjá vinkonu sinnar meðan hún sinnti starfi sínu. Þetta ástand mun hafa staðið yfir í tæpa þrjá mánuði, en umgengni komst aftur á um miðjan maí 2015. Eins og rakið hefur verið féll úrskurður dómara um bráðabirgðaráðstafanir um forsjá og umgengni í lok þess mánaðar. Þar var komist að þeirri niðurstöðu að sú tilhögun sem verið hafði, um sameiginlega forsjá og jafna umgengni, skyldi haldast óbreytt meðan málið væri til meðferðar. Ekki liggur fyrir að neinir alvarlegir hnökrar hafi orðið á því að aðilar virtu þá niðurstöðu og hefur A því verið til skiptis í jafnlangan tíma hjá aðilum frá uppkvaðningu úrskurðarins.
Sáttameðferð á vegum sýslumanns lauk án árangurs með útgáfu vottorðs sáttamanns 19. mars 2015. Var aðilum tilkynnt með bréfi 20. mars 2015 að sýslumaður myndi ljúka umfjöllun um ágreining þeirra um forsjá, lögheimili og meðlag. Í kjölfarið höfðaði stefnandi mál þetta þar sem hann gerir aðallega þá kröfu að sér verði dæmd forsjá barnsins en til vara að forsjáin verði sameiginleg og að lögheimili barnsins verði hjá sér. Stefnda krefst þess að hún fari ein með forsjá stúlkunnar. Fyrir dómnum liggur því að skera úr um hvor aðila eigi að fara með forsjá barnsins eða hvort hún eigi að vera sameiginleg og þá hvar lögheimili barnsins eigi að vera, sbr. 1. mgr. 34. gr. barnalaga. Jafnframt fellur það í hlut dómsins að kveða á um meðlag með barninu og inntak umgengnisréttar barns og foreldris.
Samkvæmt 2. mgr. 34. gr. barnalaga, sbr. 13. gr. laga nr. 61/2012, skal dómur ákveða forsjá eða lögheimili barns eftir því sem barni er fyrir bestu. Er það í samræmi við það sem segir í 2. mgr. 1. gr. laganna, sbr. 1. gr. laga nr. 61/2012, en þar kemur fram að það sem barni er fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir um málefni þess. Í 2. mgr. 34. gr. barnalaga eru tilgreind atriði sem dómara ber að líta til við mat á því hvað sé barni fyrir bestu þegar ákvörðun er tekin um forsjá og lögheimili. Lúta þessi atriði að hæfi foreldra, stöðugleika í lífi barns, tengsla þess við báða foreldra, skyldu þeirra til þess að tryggja rétt barnsins til umgengni, hættu á að barnið, foreldri eða aðrir á heimili barns hafi orðið fyrir eða verði fyrir ofbeldi og vilja barns að teknu tilliti til aldurs og þroska. Dómurinn getur samkvæmt 3. mgr. 34. gr. barnalaga ákveðið að annað foreldrið fái forsjá barns, eða að forsjáin verði sameiginleg að kröfu foreldris, ef dómari telur þær aðstæður fyrir hendi að slíkt geti þjónað hagsmunum barnsins. Við mat á því hvort forsjá skuli vera sameiginleg ber dómara, auk þeirra atriða sem nefnd eru í 2. mgr. 34. gr. laganna, að taka mið af því hvort forsjáin hafi áður verið sameiginleg sem og aldri og þroska barns. Þá ber sérstaklega að líta til þess hvort ágreiningur eða samskipti foreldra séu líkleg til að koma í veg fyrir, hindra eða draga úr möguleikum barns til að alast upp við þroskavænleg skilyrði.
Um þau atriði sem vísað er til í 2. og 3. mgr. 34. gr. barnalaga liggja fyrir dóminum ýmis gögn. Vegur þar þyngst vönduð matsgerð dómkvadds matsmanns, sem ekki er aðeins reist á þeim sálfræðilegu prófum sem lögð voru fyrir aðila, heldur einnig á viðtölum matsmanns við bæði stefnanda og stefnda, við starfsmenn leikskóla A og við systur hennar sem er [...] ára, auk skriflegra gagna úr málinu sem matsmaður hafði undir höndum. Í málinu liggja einnig fyrir ýmis gögn sem varpa ljósi á stirð samskipti aðila eftir sambúðarslitin.
Af hálfu stefnanda hefur niðurstaða persónuleikaprófsins MMPI/2 verið dregin í efa. Sérfróðir meðdómendur taka fram að þetta próf sé áreiðanlegt og almennt notað víða um heim til varpa ljósi á persónugerð einstaklinga. Prófið er ítarlegt og vandað og ef misræmi kemur fram í svörum, t.d. vegna þess að próftakinn misskilur ítrekað spurningar eða svarar þeim handahófskennt, eiga innbyrðis áreiðanleikakvarðar að grípa það. Í skýrslu dómkvadds matsmanns fyrir dómi kom fram að ekkert misræmi af þessum toga hefði verið sjáanlegt hjá aðilum máls þessa. Þess ber að geta að prófið veitir vísbendingar um skapgerð og geðrænt ástand viðkomandi en persónu- og samskiptasaga viðkomandi kann að skjóta frekari stoðum undir greiningu samkvæmt prófinu. Í matsgerð dómkvadds matsmanns eru ályktanir um persónugerð aðila reistar á slíku heildarmati. Þá ber að taka fram að DIP-Q persónuleikaprófið mælir ekki sömu hluti og MMPI/2 prófið, en fyrrnefnda prófið er notað til þess að varpa ljósi á einkenni persónuleikaraskana sem viðurkennd eru í alþjóðaskrám heilbrigðisstétta. Það dregur því ekki úr áreiðanleika MMPI/2 prófsins þó að niðurstaða á DIP-Q prófi gefi ekki vísbendingu um að viðkomandi uppfylli skilmerki um slíkar persónuleikaraskanir.
Þegar fjallað er um hæfi foreldra í 2. mgr. 34. barnalaga er vísað til aðstæðna og getu þeirra til þess að tryggja barninu þroskavænleg uppeldisskilyrði, sýna því umhyggju og virðingu og vernda það gegn hvers kyns ofbeldi og annarri vanvirðandi háttsemi. Tekur dómurinn undir með matsmanni að þetta verði að meta út frá uppeldisþörfum þess barns sem í hlut á. Almennar þarfir barna að þessu leyti lúta meðal annars að ást, vernd, öryggi, líkamlegri umönnun, atlæti, örvun, hvatningu og stuðningi, eins og rakið er í matsgerð. Við mat á því hvort foreldri búi yfir getu og aðstæðum til að mæta þessum þörfum barnsins skipta persónugerð og eiginleikar þeirra máli, sem og tilfinningaástand og tengslahæfni.
Í matsgerðinni er komist að þeirri niðurstöðu að báðir aðilar séu hæfir til að gegna foreldraskyldum sínum gagnvart A. Bæði stefanandi og stefnda hafa búið barni sínu góð heimili þar sem stúlkuna skortir ekkert og engar vísbendingar hafa komið fram um annað en að þau hafi bæði myndað innilegt og ástríkt samband við barnið. Líkamleg umhirða stúlkunnar virðist einnig góð hjá þeim báðum auk þess sem álykta má, af því sem fram hefur komið, að þau veiti barni sínu góðan stuðning og hvatningu til þroskavænlegra athafna. Hins vegar hafa báðir foreldrar stuðlað að því að draga úr öryggistilfinningu stúlkunnar þar sem þau hafa ekki megnað að koma í veg fyrir að hún yrði vitni að heiftúðugum deilum þeirra.
Þegar kemur að persónugerð, tilfinningaástandi og tengslahæfni foreldra verður hins vegar að taka undir með matsmanni að þar stendur stefnandi mun lakar að vígi en stefnda. Niðurstaða klínískra mælikvarða á MMPI/2-persónuleikaprófi veita, að mati dómenda, greinargóðar vísbendingar um bresti í persónugerð stefnanda sem jafnframt fá stuðning í upplýsingum um samskipti stefnanda við annað fólk, einkum þegar honum finnst að sér vegið eða hann telur að fólk sé andsnúið sér. Aftur á móti sýnir niðurstaða sama prófs, sem lögð var fyrir stefndu, ekki viðlíka bresti í persónugerð hennar.
Niðurstöðu greiningar á stefnanda, sem lýst er í matsgerð dómkvadds matsmanns, hefur ekki verið hnekkt með yfirmatsgerð eða öðrum gögnum og telur dómurinn að það verði að ljá henni töluvert vægi við mat á foreldrahæfni hans. Í ljósi hennar, og með hliðsjón af öðrum gögnum málsins, má slá því föstu að stefnandi hafi ríka tilhneigingu til þess að tortryggja aðra og bregðast harkalega við allri andstöðu. Þá sýnir niðurstaða hennar, og önnur gögn málsins, að stefnandi eigi erfitt með að setja sig í spor annarra, einkum ef viðkomandi er á öndverðum meiði. Þá hefur hann skýra tilhneigingu til þess einfalda hlutina með því að flokka þá sem koma að málefnum hans í andstæðar fylkingar með og á móti sér. Hann lendir því gjarnan upp á kant við umhverfi sitt, auk þess sem gögn málsins gefa vísbendingu um að hann sé sjálflægur, hvatvís og skeyti oft lítið um afleiðingar gerða sinna.
Einstaklingur með þessi persónueinkenni getur hugsað ágætlega um eigið barn á leikskólaaldri, eins og stefnandi virðist gera í tilviki A. Sú hætta er hins vegar fyrir hendi að seinna meir, þegar barnið þarf að fara að standa meira á eigin fótum, fari að bera meira á togstreitu og átökum í sambandi þeirra. Þá skiptir miklu máli fyrir hagsmuni barns að foreldri sé í góðum tengslum við aðra aðila sem koma að umönnun, uppeldi og menntun barnsins, eins og leikskóla, skóla og hitt foreldrið.
Í þessu samhengi verður ekki fram hjá því litið að nú þegar virðist stefnandi vera kominn upp á kant við leikskólastjórann á leikskóla dóttur sinnar, en samskiptum þeirra er lýst í matsgerð. Þá virðast nýleg samskipti stefnanda við stefndu, m.a. um heilsufar dóttur þeirra og tilhögun á umgengni, enn þá einkennast af togstreitu, þar sem stefnandi sýnir ósveigjanleg viðhorf og er ásakandi í garð hennar. Þó að nokkur tími sé nú liðinn frá sambúðarslitum gefa þessi nýlegu samskipti til kynna að stefnandi eigi enn þá í erfiðleikum með uppbyggileg samskipti við stefndu um málefni dóttur þeirra. Verður að ætla að skapgerð hans eigi stóran þátt í þeim vanda.
Stefnda virðist aftur á móti ekki eiga við geðrænan vanda að stríða í þeim mæli að það dragi úr forsjárhæfni hennar. Fullyrðingar í stefnu þess efnis eiga sér ekki stoð í öðrum gögnum málsins. Fyrir liggur að haustið 2013 lagðist hún inn á geðdeild er hún var í mikilli geðlægð. Í geðgreiningu sem fram kemur í sjúkraskrá stefndu eru leiddar ákveðnar líkur að því að hún eigi við geðhvörf 2 að stríða (bipolar 2). Því er þó ekki slegið föstu og jafnframt rakið að ástæða vanlíðunar hennar væru erfið samskipti við stefnanda og áfengisneysla hans. Samkvæmt matsgerð voru klínískir kvarðar í persónuleikaprófi sem stefnda tók innan eðlilegra marka og því slegið föstu að hún ætti ekki við alvarlega geðsjúkdóma að etja. Þá upplýsti stefnda fyrir dómi að hún leitaði sér aðstoðar eftir þörfum, meðal annars hjá geðlækni, og tæki þunglyndislyf.
Samkvæmt því sem fram kemur í matsgerð dómkvadds matsmanns er heldur ekki að sjá að persónueinkenni eða skapgerð stefndu komi í teljandi mæli niður á forsjárhæfni hennar. Klínískir kvarðar persónuleikaprófsins styðja að stefnda hafi almennt jákvætt viðhorf til annarra og sé næm í félagslegum samskiptum. Þá búi hún yfir góðum sjálfstyrk og sé hvorki tortryggin né auðtrúa. Eins og fram kemur í matsgerð virðist hún eftir sem áður vera orkulítil og þreytt án þess að séð verði að það hamli henni mikið í uppeldi barna sinna.
Í málinu liggur fyrir að stefnda hafi eftir sambúðarslitin veist nokkuð harkalega að stefnanda. Það gerði hún t.d. með því að draga upp þá mynd af honum í viðtali, sem birtist í [...] skömmu eftir sambúðarslitin, að hann væri ofbeldismaður og fíkniefnaneytandi með sakarferil að baki. Þá braut hún á rétti barnsins og stefnanda til að umgangast í um það bil þrjá mánuði, en sú ákvörðun var augljóslega til þess fallin að hleypa illu blóði í hann. Með því var barninu jafnframt blandað, með afar óæskilegum hætti, inn í deilur aðila. Þá var sú ákvörðun að fara ekki með barnið á leikskóla um margra vikna skeið til þess fallin að raska þeim stöðugleika sem verður að ríkja í lífi ungra barna. Sýndi hún með þessu skort á dómgreind og með þessu á hún ákveðna sök á því að að deilur aðila urðu jafn heiftúðugar og raun ber vitni.
Á hinn bóginn verður að líta til þess að stefnda var á þessum tíma nýbúin að slíta stormasömu sambandi við stefnanda. Við aðalmeðferð málsins gaf stefnda skýrslu fyrir dómi og mátti af henni ráða að hún hefði í raun upplifað það sem svo að stefnandi hefði beitt hana bæði andlegu og líkamlegu ofbeldi á sambúðartímanum. Ítrekaðar ásakanir stefnanda, sem sjá má í gögnum málsins frá ýmsum tímum, um að stefnda sé óhæf móðir og að hún sé „geðveik“, kunna að vera til marks um andlegt ofbeldi. Þessar aðstæður geta skýrt viðbrögð stefndu skömmu eftir sambúðarslitin. Þá beitti stefnandi hefndarklámi gegn stefndu með því að senda yfirmönnum hennar myndir af henni við kynlífsathafnir skömmu áður en hún ákvað að hamla því að stefnandi fengi að umgangast dóttur sína. Eftir að umgengni komst á að nýju milli stefnanda og barnsins virðist stefnda hins vegar ekki hafa sýnt neina viðleitni til þess að takmarka hana.
A er þriggja ára gömul. Í ljósi aldurs hennar, og skorts á vilja eða getu foreldra til að eiga samvinnu um málefni barnsins, telur dómurinn að það sé henni ekki fyrir bestu að forsjáin verði sameiginlega í höndum aðila. Stefnda á tvö eldri börn, sem eru [...] og [...] ára, og virðist hún vera í góðum samskiptum við föður þeirra og fjölskyldu hans um málefni þeirra. Fara þau nú sameiginlega með forsjá þeirra og dvelja börnin jafnlengi hjá foreldrum sínum viku og viku í senn. Stefnda býr því yfir ágætri reynslu af uppeldi barna í samvinnu við fyrrverandi maka. Þegar hefur verið gerð grein fyrir niðurstöðum í matsgerð um forsjárhæfni aðila út frá persónueinkennum og skapgerð þeirra. Benda þær til þess að stefnda sé betur til þess fallin en stefnandi að fara með forsjá A. Þegar framangreind atriði eru metin heildstætt er á það fallist að það sé A fyrir bestu að stefnda fari ein með forsjá hennar, sbr. 2. og 3. mgr. 34. gr. barnalaga.
Samkvæmt 5. mgr. 34. gr. barnalaga er óhjákvæmilegt að kveða í dóminum á um meðlag og inntak umgengnisréttar stefnanda við barnið. Í ákvæðinu segir að um ákvörðun um umgengni gildi ákvæði 1. til 4. mgr. 47. gr. og 47. gr. b í barnalögum. Kveðið er á um það í 1. mgr. 47. gr. laganna, sbr. 24. gr. laga nr. 61/2012, að ákvörðun þar að lútandi skuli ávallt taka mið af því sem er barni fyrir bestu. Ber þá að líta til tengsla barns við báða foreldra, aldur barns, stöðugleika í lífi þess, búsetu foreldra og vilja barns að teknu tilliti til aldurs og þroska. Jafnframt ber að leggja mat á hvort hætt sé við að barnið, foreldri eða aðrir á heimili barns hafi orðið, eða verði fyrir ofbeldi, auk þess sem líta verður sérstaklega til þess hvort ágreiningur eða samskipti foreldra séu líkleg til að koma í veg fyrir, hindra eða draga úr möguleikum barns til að alast upp við þroskavænleg skilyrði.
Vikið er að jafnri umgengni í 3. mgr. 47. gr. barnalaga, sbr. 24. gr. laga nr. 61/2012. Þar segir að þegar sérstaklega standi á megi úrskurða um umgengni allt að 7 daga af hverjum 14 dögum. Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi því sem varð að lögum nr. 61/2012 er vikið að sjónarmiðum um jafna umgengni. Kemur þar fram að á Norðurlöndum sé samstaða um að jöfn umgengni eða umgengni í marga daga samfellt sé almennt ekki í samræmi við þarfir yngstu barnanna. Þá sé samstaða um að persónulegir erfiðleikar, ágreiningur foreldra eða samstarfserfiðleikar, geti verið slíkir að mjög rúm eða jöfn umgengni yrði aldrei talin barni fyrir bestu. Í athugasemdum við 19. gr. frumvarps til barnalaga, sem varð að 24. gr. laga nr. 61/2012, er áréttað að jöfn umgengni geri miklar kröfur til samvinnu foreldra og komi þannig ekki til álita þegar samstarfsgrundvöllur er alls ekki fyrir hendi.
Í kjölfar sambúðarslita komu aðilar sér sjálfir saman um að A væri til skiptis hjá þeim viku og viku í senn. Þegar litið er til ungs aldurs barnsins og þeirra átaka sem einkennt hafa samskipti aðila, og einkenna þau enn þá, telur dómurinn að það þjóni ekki hagsmunum barnsins að umgengni verði framvegis jöfn, þó að aðilar geti ef til vill síðar samið um slíka tilhögun. Er þá m.a. litið til þess sem rakið hefur verið um persónugerð stefnanda og erfiðleika hans við að eiga í uppbyggilegum samskiptum við stefndu um málefni dóttur þeirra.
Aftur á móti þjónar það hagsmunum barnsins að leitast við að viðhalda góðum tengslum barnsins við stefnanda og fjölskyldu hans. Ætlað ofbeldi sem stefnandi kann að hafa beitt stefndu á sambúðartíma réttlætir ekki að þessum tengslum feðginanna verði raskað. Með þetta í huga þykir rétt að umgengninni verði hagað með þeim hætti að A dvelji hjá stefnanda aðra hverja helgi þannig að hann sæki barnið í leikskóla, og síðar meir í grunnskóla eftir að skólaganga barnsins hefst, síðdegis á fimmtudegi og skili því þangað á ný á þriðjudagsmorgni. Í þágu hagsmuna barnsins ber að haga umgengni þannig að A sé hjá stefndu þær helgar sem eldri systkini hennar dvelja þar einnig. Fyrirkomulag umgengni skal að öðru leyti vera hagað eins og í dómsorði greinir en þar verða nokkrar breytingar eftir að barnið byrjar í skóla.
Með vísan til 1. mgr. 53. gr., sbr. 3. mgr. 57. gr., barnalaga verður stefnanda gert að greiða einfalt meðlag með barninu frá dómsuppkvaðningu til 18 ára aldurs barnsins.
Samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, verður stefnanda gert að greiða stefndu málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 800.000 krónur.
Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp dóm þennan ásamt meðdómsmönnunum Aðalsteini Sigfússyni sálfræðingi og Guðfinnu Eydal sálfræðingi.
DÓMSORÐ:
Stefnda, K, skal fara með forsjá barnsins, A, til 18 ára aldurs þess.
Stefnandi, M, greiði einfalt meðlag með barninu frá dómsuppsögu til 18 ára aldurs þess.
Barnið skal dvelja hjá stefnanda aðra hverja helgi frá fimmtudegi til þriðjudags og skal barnið sótt og því skilað á þessum dögum í leikskóla eða skóla. Skylt er að haga umgengni á þann veg að barnið sé hjá stefnanda þær helgar sem eldri systkini þess eru hjá föður sínum.
Umgengni um jól og áramót verður þannig hagað að barnið dvelur hjá foreldrum til skiptis, annars vegar frá 23. desember til 27. desember og hins vegar frá 27. desember til 2. janúar. Um næstu jól dvelur barnið fyrst hjá stefndu en fer síðan til stefnanda yfir áramótin. Árið 2017 dvelur barnið fyrst hjá stefnanda en eftir það hjá stefndu og síðan koll af kolli næstu árin. Reglubundin umgengni fellur niður um jól og áramót.
Engin breyting verður á reglubundinni umgengni um páska og aðrar hátíðir.
Í sumarleyfum dvelur barnið í þrjár vikur hjá stefnanda og þrjár vikur hjá stefndu til og með sumrinu 2019. Á sumarleyfistíma fellur regluleg umgengni niður. Hefst sumarleyfistíminn á föstudegi í 25. viku ársins og lýkur á föstudegi í 31. viku ársins. Reglubundin umgengni hefst að nýju að sumarleyfistíma liðnum með því að barnið er í helgardvöl hjá því foreldri sem það dvaldist hjá við lok sumarleyfistímans. Frá og með sumrinu 2020 dvelur barnið í fjórar vikur hjá stefnanda og fjórar vikur hjá stefndu og lengist sumarleyfistíminn sem því nemur þannig að hann hefst á föstudegi í 24. viku ársins en lýkur á föstudegi í 32. viku ársins. Ákvörðun um tilhögun umgengni í sumarleyfum skal liggja fyrir í síðasta lagi 1. apríl ár hvert, en fyrir sumarið 2016 eigi síðar en 3. júní nk. Komist aðilar ekki að samkomulagi um umgengni í sumarleyfi fyrir þann tíma ræður stefnda hvenær barnið fer til stefnanda sumarið 2016 en stefnandi sumarið 2017 og síðan koll af kolli næstu árin.
Stefnandi greiði stefndu 800.000 krónur í málskostnað.
Áfrýjun dómsins frestar ekki réttaráhrifum hans.