Hæstiréttur íslands

Nr. 2018-89

Ásahreppur (Óskar Sigurðsson lögmaður)
gegn
Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og íslenska ríkinu (Fanney Rós Þorsteinsdóttir lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Sveitarfélög
  • Reglugerðarheimild
  • Stjórnarskrá
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.

Með beiðni 4. maí 2018 leitar Ásahreppur leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 9. apríl sama ár í málinu nr. E-139/2017: Ásahreppur gegn Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og íslenska ríkinu, á grundvelli 1. mgr. 175. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Jöfnunarsjóður sveitarfélaga og íslenska ríkið leggjast ekki gegn því að fallist verði á beiðnina.

Ágreiningur aðila lýtur að því hvort heimilt hafi verið að skerða fjárframlög til Ásahrepps úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga samkvæmt lögum nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga fyrir árin 2013 til 2016 á grundvelli 9. gr. a. í reglugerð nr. 960/2010 um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, en því ákvæði var bætt við reglugerðina með 2. gr. reglugerðar nr. 1226/2012. Byggir Ásahreppur á því að framangreind skerðing sé í andstöðu við 2. mgr. 78. gr. stjórnarskrárinnar og að reglugerðarheimild í 18. gr. laga nr. 4/1995 feli í sér of víðtækt framsal lagasetningarvalds. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 9. apríl 2018 voru Jöfnunarsjóður sveitarfélaga og íslenska ríkið sýknuð af kröfum Ásahrepps, aðallega um greiðslu tiltekinnar fjárhæðar en til vara um að viðurkennt yrði með dómi að hinum fyrrgreindu hafi verið óheimilt að skerða lögbundin fjárframlög til sveitarfélagsins samkvæmt framangreindu. Samhliða máli þessu voru í héraði rekin mál fjögurra annarra sveitarfélaga á hendur Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og íslenska ríkinu um samkynja ágreining.   

Samkvæmt framansögðu varðar mál þetta, sem var höfðað í desember 2016 lögmæti reglugerðar sem sett var á árinu 2012. Þegar af þessari ástæðu er ljóst að ekki er fullnægt því skilyrði 1. mgr. 175. gr. laga nr. 91/1991 að þörf sé á að fá endanlega niðurstöðu Hæstaréttar í málinu með skjótum hætti. Er beiðninni því hafnað.