Hæstiréttur íslands
Mál nr. 269/1999
Lykilorð
- Skipasala
- Söluþóknun
- Lögmannsþóknun
- Skaðabætur
|
|
Fimmtudaginn 16. desember 1999. |
|
Nr. 269/1999. |
Sigurnes hf. (Karl Axelsson hrl.) gegn Þorsteini Guðnasyni (Þorsteinn Einarsson hrl.) og gagnsök |
Skipasala. Söluþóknun. Lögmannsþóknun. Skaðabætur.
S veitti U einkaumboð til sölu skips en U var einkafirma Þ. S afturkallaði síðar umboðið. Þrátt fyrir afturköllunina hafði Þ milligöngu um að koma á fundi með framkvæmdastjóra S og kaupanda skipsins. Þ krafðist sölulauna og kvaðst hafa fengið munnlegt umboð S til sölu skipsins eftir afturköllunina en S neitaði greiðslu og kvaðst framkvæmdastjóri þess hafa talið að Þ væri að starfa fyrir J þegar hann kom fundinum á. Talið var að Þ hefði borið að tryggja sér ótvírætt umboð frá S og yrði hann að bera sönnunarbyrði um að hann hefði gert það. Var S því sýknað af kröfu hans. Í sama máli krafði S Þ um málskostnað vegna dómsmáls sem hann höfðaði áður um sama sakarefni í nafni U, en því máli hafði verið vísað frá héraðsdómi þar sem U skorti aðildarhæfi. Var fallist á þessa kröfu enda var Þ metið til sakar að hafa staðið með þessum hætti að málatilbúnaði á hendur S.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 5. júlí 1999. Hann krefst sýknu af kröfum gagnáfrýjanda og að hinn síðarnefndi verði dæmdur til að greiða sér skaðabætur að fjárhæð 567.111 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 25. maí 1998 til greiðsludags. Hann krefst einnig málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi 21. september 1999. Hann krefst þess að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 7.003.125 krónur með dráttarvöxtum frá 25. júní 1997 til greiðsludags. Hann krefst þess jafnframt að staðfest verði ákvæði héraðsdóms um sýknu af skaðabótakröfu aðaláfrýjanda. Hann krefst loks málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
I.
Ágreiningur málsaðila á rætur að rekja til þess að með samningi 18. júní 1997 seldi aðaláfrýjandi Jökli hf. fiskiskipið Brimi SU 383. Kaupverð var 375.000.000 krónur, en með í kaupunum fylgdi meðal annars almennt veiðileyfi skipsins, öll aflahlutdeild þess og margs konar búnaðar og veiðarfæri, en um samningsskilmála var ítarlega kveðið á í kaupsamningnum. Ágreiningslaust er að Friðrik J. Arngrímsson, héraðsdómslögmaður og löggiltur skipasali, annaðist skjalagerð við kaupin, en einkafirma hans, LM skipamiðlun, hafði fengið munnlegt umboð aðaláfrýjanda til að annast sölutilraunir í maí 1997. Hafði skipasalinn í skjóli þess umboðs boðið ýmsum skipið til kaups, þar á meðal forráðamanni Jökuls hf. Þóknun hans fyrir vinnu við söluna var 900.000 krónur auk virðisaukaskatts. Skýrði hann svo frá fyrir dómi að sú þóknun væri í samræmi við viðmiðunargjaldskrá sína, sem miðaði við 0,5% af söluverði skips, þegar það væri um og nokkuð yfir 100.000.000 krónur. Svigrún hafi þó verið til samninga um það. Þegar söluverð hafi verið orðið jafn hátt og var í þessu tilviki hafi söluþóknun hans almennt verið á bilinu 0,2 til 0,4%. Við sölu Brimis hafi hann tekið fulla þóknun miðað við að skip væri selt og ekki hafi verið tilefni til að lækka þóknunina niður fyrir gjaldskrána af þeirri ástæðu að hann hefði ekki annast söluna að öllu leyti. Þá kemur fram í texta reiknings hans til aðaláfrýjanda að um sé að ræða þóknun vegna sölu skips. Áður en tilboð Jökuls hf. í skipið barst 10. júní 1997 kvaðst vitnið hafa nokkrum sinnum rætt við forráðamann félagsins um hugsanleg kaup á því, en fengið þau svör að áhugi væri ekki fyrir hendi.
Í héraðsdómi er greint frá því að hinn 3. júní 1997 hafi verið haldinn fundur á heimili framkvæmdastjóra aðaláfrýjanda, en auk hans sátu fundinn gagnáfrýjandi og framkvæmdastjóri Jökuls hf. Hinn fyrstnefndi skýrði svo frá að gagnáfrýjandi hefði spurt sig að því hvort framkvæmdastjóri Jökuls hf. mætti koma og ræða við hann, sem hann samþykkti. Ekki hafi hann átt von á gagnáfrýjanda á fundinn, en þó ekki gert neina athugasemd við veru hans þar. Hann hafi staðið í þeirri trú að gagnáfrýjandi væri þar kominn í þágu Jökuls hf. og væri að aðstoða við kaup þess félags á skipinu, en hann hafi í lok mars á sama ári verið sviptur umboði til að annast sölutilraunir á því af hálfu aðaláfrýjanda. Þá hafi honum borist kauptilboð Jökuls hf. einni viku síðar, undirritað af gagnáfrýjanda fyrir hönd tilboðsgjafans. Hann hafi skömmu eftir það spurt framkvæmdastjóra Jökuls hf. hvort gagnáfrýjandi væri að vinna í þágu þess félags, sem var svarað neitandi.
Framkvæmdastjóri Jökuls hf. staðfesti fyrir dómi að bæði gagnáfrýjandi og Friðrik Arngrímsson hafi rætt við sig um hugsanleg kaup á skipinu. Gagnáfrýjandi hefði orðið fyrri til að gefa sig fram til viðræðu um málið. Af þeirri ástæðu og vegna þess að vitnið taldi hann hafa einkaumboð til að annast sölutilraunir, hafi það ekki gefið kost á viðræðum við Friðrik um málefnið. Staðfesti vitnið einnig að framkvæmdastjóri aðaláfrýjanda hefði eftir að kauptilboð barst 10. júní 1997 spurt sig að því hvort gagnáfrýjandi væri að vinna að málinu fyrir Jökul hf., sem vitnið hafi svarað neitandi.
II.
Svo sem rakið er í héraðsdómi fékk Uns, einkafirma gagnáfrýjanda, skriflegt einkaumboð frá aðaláfrýjanda 20. janúar 1997 til að annast sölutilraunir á áðurnefndu skipi. Þar er einnig tekið upp orðrétt bréf aðaláfrýjanda 30. mars sama árs, þar sem afturkallað var söluumboð til Uns frá 20. janúar 1997 og einnig símskeyti 3. apríl 1997, þar sem segir að söluumboð vegna Brimis SU 383 sé afturkallað. Þessi afturköllun er afdráttarlaus og hafði gagnáfrýjandi ekki réttmæta ástæðu til að skýra þessi skjöl þannig, að í þeim fælist eingöngu afturköllun á einkasöluumboði, en hann hefði áfram almennt umboð til að annast sölu skipsins.
Gagnáfrýjandi ber að hann hafi haldið áfram sölutilraunum á skipinu eftir að hafa fengið áðurnefnt bréf og skeyti. Það hafi hann gert í samráði við framkvæmdastjóra aðaláfrýjanda. Því neitar hinn síðastnefndi, sem kveður alls engar viðræður hafa átt sér stað þeirra á milli í þá veru. Af sinni hálfu hafi verið alveg ljóst að hann kærði sig ekki um þjónustu gagnáfrýjanda eftir að hann var sviptur umboðinu.
Við úrlausn þessa atriðis verður litið til þess að seint í maí 1997 höfðu tekið gildi lög nr. 54/1997 um fasteigna-, fyrirtækja- og skipasölu, en þau leystu af hólmi eldri lög nr. 34/1986 um fasteigna- og skipasölu. Í 11. gr. fyrrnefndu laganna segir meðal annars að fasteignasali skuli tryggja sér ótvírætt umboð hjá réttum aðila til að leita eftir tilboðum í eign og eftir atvikum til að ganga frá samningum og annarri skjalagerð. Ákvæði þetta á jafnt við um sölu skipa, sbr. 3. mgr. 1. gr. laganna. Sams konar ákvæði var í 9. gr. laga nr. 34/1986. Þá er í 14. gr. yngri laganna jafnframt kveðið á um að fasteignasali skuli, þegar óskað er milligöngu hans um kaup eða sölu eignar, gera samning við umbjóðanda sinn um þóknun fyrir starfann og greiðslu útlagðs kostnaðar.
Ósannað er í málinu að gagnáfrýjandi eða einkafirma hans hafi fengið nokkurt umboð í orði eða verki frá aðaláfrýjanda eftir 3. apríl 1997 til að bjóða skipið til sölu fyrir hans hönd. Verður gagnáfrýjandi að bera hallann af því að hafa ekki tryggt sér sönnun um það. Þótt ljóst sé að gagnáfrýjandi hafi með atbeina sínum í byrjun júní 1997 stuðlað að því að aðilar viðskiptanna náðu saman um kaupverð skipsins, er ekki sýnt fram á að neitt réttarsamband hafi komist á milli málsaðila, sem heimilað geti gagnáfrýjanda að krefja aðaláfrýjanda um söluþóknun vegna viðskipta hins síðarnefnda við Jökul hf. Verður aðaláfrýjandi samkvæmt því sýknaður af kröfum gagnáfrýjanda í málinu.
III.
Krafa aðaláfrýjanda um greiðslu skaðabóta er sprottin af því að áður en mál þetta var höfðað hafði gagnáfrýjandi í nafni Uns stefnt aðaláfrýjanda 29. júlí 1997 til að þola dóm vegna sama ágreiningsefnis. Því máli var vísað frá héraðsdómi af sjálfsdáðum 25. maí 1998 þar eð slíkt einkafirma skorti hæfi til að eiga sjálfstæða aðild að dómsmáli, sbr. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkmála. Málskostnaður var ekki dæmdur. Aðalmeðferð í því máli hafði farið fram 27. apríl 1998. Er fjárhæð skaðabótakröfunnar jafnhá fjárhæð reiknings lögmanns aðaláfrýjanda fyrir gæslu hagsmuna hans í fyrra málinu að undanskildum virðisaukaskatti, sem lýst var yfir af hálfu aðaláfrýjanda að fengist endurgreiddur. Málsástæður aðila eru raktar í héraðsdómi.
Í greinargerð aðaláfrýjanda í hinu fyrra dómsmáli, sem lögð var fram 13. nóvember 1997, var gerð athugasemd við aðild stefnanda þess máls. Telur hann að ábending sín hefði átt að gefa gagnáfrýjanda tilefni til að freista þess að bæta úr annmörkum í þeim efnum. Það hafi hins vegar ekki verið gert og var málinu vísað frá héraðsdómi af sjálfsdáðum 25. maí 1998, eins og áður er rakið.
Einkafirma gagnáfrýjanda skorti hæfi til að eiga aðild að dómsmáli, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar 1996, bls. 1812 í dómasafni. Verður honum metið til sakar hvernig málatilbúnaði var að þessu leyti hagað í hinu fyrra máli og ber hann skaðabótaábyrgð á tjóni, sem aðaláfrýjandi kann að hafa orðið fyrir af þessum sökum. Skiptir þá ekki máli að aðaláfrýjandi krafðist ekki frávísunar, en hér var um að ræða atriði, sem héraðsdómara bar að gæta af sjálfsdáðum, sbr. 100. gr. laga nr. 91/1991.
Gagnáfrýjandi mótmælir bótakröfu aðaláfrýjanda sem of hárri. Vísar hann um það einkum til þess að vinna lögmanns aðaláfrýjanda í fyrra málinu hafi nýst honum í því síðara. Er sérstaklega bent á að greinargerð aðaláfrýjanda í héraði sé nákvæmt eftirrit þeirrar greinargerðar, sem lögð var fram í fyrra málinu.
Við úrlausn þessa atriðis verður litið til þess, að meðal málsgagna eru ljósrit reikninga lögmanns aðaláfrýjanda, sem var hinn sami í báðum málunum, á hendur umbjóðanda sínum vegna flutnings beggja málanna í héraði. Er fjárhæð hvors reiknings ákveðin samkvæmt gjaldskrá lögmannsins með hliðsjón af hagsmunum, sem í húfi voru, en afsláttur síðan veittur af fjárhæð fyrri reikningsins. Þegar þetta er virt eru ekki efni til að taka til greina kröfu um lækkun bótakröfunnar, sem á þessari ástæðu er reist.
Samkvæmt öllu framanröktu verður fallist á skaðabótakröfu aðaláfrýjanda í málinu með dráttarvöxtum, eins og krafist er, en upphafstími dráttarvaxta hefur ekki sætt sérstökum andmælum.
Gagnáfrýjanda verður gert að greiða aðaláfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem verður ákveðinn í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Aðaláfrýjandi, Sigurnes hf., er sýkn af kröfum gagnáfrýjanda, Þorsteins Guðnasonar.
Gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjanda 567.111 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 25. maí 1998 til greiðsludags.
Gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjanda samtals 400.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12. maí 1999.
Mál þetta, sem tekið var til dóms 13. apríl s.l., er höfðað með stefnu út gefinni 29. júní s.l. og birtri samdægurs. Gagnstefna er gefin út 23. júlí 1998 og birt samdægurs.
Aðalstefnandi er Þorsteinn Guðnason, kt. 070852-4629, Unnarbraut 20, Seltjarnarnesi.
Aðalstefndi er Sigurnes hf., kt. 590894-2819, Suðurlandsbraut 46, Reykjavík.
Dómkröfur aðalstefnanda eru þær í aðalsök að aðalstefndi verði dæmdur til að greiða aðalstefnanda kr. 7.003.125 með dráttarvöxtum skv. vaxtalögum frá 25. júní 1997 til greiðsludags. Þá krefst aðalstefnandi málskostnaðar að mati dómsins.
Dómkröfur aðalstefnda eru þær í aðalsök að hann verði sýknaður af öllum kröfum aðalstefnanda og honum verði dæmdur málskostnaður úr hans hendi samkvæmt reikningi.
Endanlegar dómkröfur gagnstefnanda í gagnsök eru þær að gagnstefndi verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð kr. 567.111 ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá 25. maí 1998 til greiðsludags. Jafnframt er þess krafist að gagnstefndi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar að skaðlausu.
Dómkröfur gagnstefnda í gagnsök eru þær aðallega að hann verði sýknaður af kröfum gagnstefnanda og honum verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins. Til vara er þess krafist að krafa gagnstefnanda verði lækkuð verulega og gagnstefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar að mati dómsins.
Málavextir.
Aðalstefnandi er eigandi einkafirmans Uns rekstrarráðgjöf, kt. 421286-1329, Suðurlandsbraut 50, Reykjavík og er starfsemin einkum fólgin í rekstrarráðgjöf og sölu skipa. Hjá einkafirma aðalstefnanda starfar löggiltur fasteigna- og skipasali. Aðilar málsins gerðu með sér samkomulag 20. janúar 1997 þess efnis að Uns skipasala tók að sér að selja í einkasöluumboði á Íslandi v/s Birni og aflahlutdeildir þess saman fyrir aðalstefnda. Voru aðilar ásáttir um að söluþóknun skyldi vera 1,5% af söluandvirði skips og aflahlutdeilda, án virðisaukaskatts. Sérstaklega skyldi samið um þóknun seldist skipið erlendis. Aðalstefnandi heldur því fram að áður en söluumboðið var veitt hafi hann unnið við sölu skipsins frá árinu 1995 og lagt mikla vinnu í sölutilraunir og m.a. annars átt viðræður við framkvæmdastjóra Jökuls hf. um sölu skipsins til þess félags. Aðalstefndi mótmælir þessari staðhæfingu aðalstefnanda. Sölutilraunir aðalstefnanda báru þann árangur að 4. febrúar 1997 barst kauptilboð í skipið frá Meleyri hf. að fjárhæð kr. 350.000.000. Sigurður Ingimarsson, framkvæmdastjóri aðalstefnda samþykkti þetta tilboð með ákveðnum skilmálum og fyrirvörum en frestur tilboðsmóttakanda til að svara þessu gagntilboði rann út án þess að nokkur svör bærust. Aðalstefndi heldur því fram að í lok mars hafi borist erindi frá forsvarsmönnum stórs fyrirtækis þar sem viðraðar voru hugmyndir þeirra um sameiningu fyrirtækjanna. Segist aðalstefndi hafa ákveðið að huga að þessum málum og hætta söluhugleiðingum, enda hafi sölutilraunir aðalstefnanda engan árangur borið. Aðalstefndi sendi því aðalstefnanda svohljóðandi bréf 30. mars 1997: "Þar sem nú eru liðnar 7 vikur síðan ég gaf jákvætt svar við kauptilboði í Brimi SU 383, án þess að nokkur viðbrögð hafi borist, er ég farinn að efast mjög um að nokkurt framhald verði á málinu. Þar sem fleiri aðilar hafa sýnt skipinu áhuga, get ég ekki dregið það lengur að gefa þeim tækifæri á að skoða málið. Afturkalla ég því hér með söluumboð til Uns skipasölu, dagsett 20. janúar 1997. Formsins vegna verður afturköllun þessi staðfest með símskeyti."
Samkvæmt gögnum málsins barst svohljóðandi símskeyti til aðalstefnanda 3. apríl 1997: "Afturkalla hér með söluumboð vegna Brimis SU 383." Aðalstefnandi kveðst hafa litið svo á að aðalstefndi hafi einungis afturkallað umboð hans til einkasölu skipsins og kvaðst hann hafa haldið sölutilraunum áfram í samráði við framkvæmdastjóra aðalstefnda. Þessu er mótmælt af hálfu aðalstefnda.
Þar sem samningar um sameiningu tókust ekki leitaði aðalstefndi til Friðriks J. Arngrímssonar hdl. í LM skipamiðlun og fól honum að bjóða skipið til sölu. Friðrik mun hafa kynnt skipið fyrir nokkrum mönnum, m.a. Jóhanni Ólafssyni, framkvæmdastjóra Jökuls hf. Þá var skipamiðlara í London veitt umboð til að vinna að sölu skipsins erlendis. Í byrjun júní 1997 mun Jóhann Ólafsson hafa rætt við aðalstefnanda og lýst yfir áhuga sínum á að kaupa skipið. Aðalstefnandi hafði þá samband við Sigurð Ingimarsson og gerði honum grein fyrir áhuga forsvarsmanna Jökuls hf. á kaupunum. Samkomulag varð með aðilum um að halda fund á heimili Sigurðar Ingimarssonar 3. júní sama ár og sátu þennan fund aðalstefnandi, Sigurður og Jóhann. Aðalstefndi heldur því fram að hann hafi staðið í þeirri trú að aðalstefnandi hafi verið að vinna að því að kaupa skipið fyrir Jökul hf. Á þessum fundi er því haldið fram að Jóhann hafi gert munnlegt tilboð í skip og kvóta að fjárhæð kr. 360.000.000 en aðalstefndi hafnaði tilboðinu þegar á þeim fundi.
Jóhann Ólafsson hafði samband við aðalstefnanda 9. júní sama ár og tjáði honum að Jökull hf. vildi gera aðalstefnda tilboð um kaup á skipinu fyrir kr. 375.000.000 og fól hann aðalstefnanda að ganga frá skriflegu tilboði. Samþykkisfrestur rann síðan út án þess að aðalstefndi svaraði því en í beinu framhaldi af þessu hafði aðalstefndi samband við Jóhann og tjáði honum að þeir gætu hugsanlega náð saman en viðskiptin yrðu þá að vera fyrir milligöngu LM skipamiðlunar er hefði umboð til sölunnar. Í framhaldi af þessu tókust samningar milli aðalstefnda og Jökuls hf. um kaup á skipi og aflahlutdeild fyrir 375.000.000 og var kaupsamningur undirritaður 18. júní 1997.
Sama sakarefni var áður til meðferðar í dóminum, sbr. mál nr. E-3723/1997: Uns gegn Sigurnesi hf., en það var þingfest 4. september 1997. Aðalmeðferð í því máli fór fram 27. apríl 1998 en með úrskurði upp kveðnum 25. maí 1998 var málinu vísað sjálfkrafa frá dómi þar sem talið var að stefnanda skorti hæfi til að eiga sjálfstæða aðild að dómsmáli, sbr. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Jafnframt var ákveðið að málskostnaður dæmdist ekki. Gagnstefndi í því máli sem hér er til meðferðar krafðist þess að gagnsök yrði vísað frá dómi og féllst dómarinn á þá kröfu með úrskurði upp kveðnum 14. janúar s.l. Þessum úrskurði var skotið til Hæstaréttar Íslands sem með dómi upp kveðnum 4. febrúar s.l. felldi úrskurðinn úr gildi og lagði fyrir dómara að taka gagnsökina til efnismeðferðar. Gagnsökin snýst um lögmannsþóknun sem gagnstefnandi var krafinn um vegna flutnings fyrra málsins.
Málsástæður og lagarök.
Aðalsök.
Aðalstefnandi byggir á því að hann hafi komið á sölu skipsins enda sé óumdeilt að Jökull hf. gerði hjá einkafirma aðalstefnanda aðalstefnda tilboð um kaup á skipinu sem aðalstefndi síðar samþykkti. Samkomulag hafi verið á milli aðila um að einkafirma aðalstefnanda annaðist sölu skipsins og aðalstefnandi bendir á að hann vann að sölu skipsins frá árinu 1995. Aðalstefndi hafi aldrei gefið í skyn að aðalstefnandi hefði ekki umboð til sölu skipsins. Þeir hafi haft skrifstofuaðstöðu í sama húsi og rætt nær daglega um sölu skipsins. Aðalstefnandi telur að með þeirri háttsemi að fela öðrum að ganga frá sölunni eftir að kaup komust á fyrir milligöngu aðalstefnanda hafi aðalstefndi með sviksamlegum hætti brotið gegn samningi aðila um greiðslu fyrir vinnu aðalstefnanda. Samkvæmt reglum samninga- og kröfuréttar, reglum skaðabótaréttar, lögum nr. 54/1997 og með vísan til dómafordæma beri aðalstefnda að greiða aðalstefnanda þóknun vegna sölu skipsins. Aðalstefnandi telur að í þeirri háttsemi aðalstefnda að leita til annars aðila um frágang á sölu skipsins felist sú afstaða að hann ætlar að nýta sér þjónustu og vinnu aðalstefnanda án endurgjalds. Aðalstefnandi segist hafa vitneskju um að aðalstefndi hafi greitt skipasala þeim er hann fól að ganga frá samningum 0,2% þóknun af söluverði skipsins og telur aðalstefnandi þá þóknun staðfesta að þeim skipasala var aðeins falið að ganga frá skjölum varðandi sölu skipsins og að sá skipasali kom ekki á sölu þess. Venjuleg þóknun fyrir sölu skipa og fasteigna sé 2% af söluverði og lægri sé einkasöluumboð veitt. Aðalstefndi hafi áður veitt aðalstefnanda einkasöluumboð og þá skuldbundið sig til að greiða söluþóknun sem næmi 1,5% af söluverði skipsins. Aðalstefnda hafi því verið kunnugt um venju á þessu sviði er hann fól öðrum að ganga frá sölu skipsins, á grundvelli tilboðs sem gert var hjá aðalstefnanda, fyrir mun lægri þóknun en venjulegt var að greiða. Verði ekki fallist á að aðalstefnda beri að greiða aðalstefnanda kröfur hans með vísan til reglna samninga- og kröfuréttar og með vísan til laga nr. 54/1997, telur aðalstefnandi að aðalstefnda beri með vísan til reglna skaðabótaréttar að greiða kröfu aðalstefnanda, enda hafi aðalstefndi með háttsemi sinni valdið aðalstefnanda tjóni sem nemur stefnufjárhæðinni.
Aðalstefnandi vekur athygli á því að enda þótt aðalstefndi hafi afturkallað einkasöluumboðið sé hann ekki krafinn um greiðslu 2% þóknunar heldur sé látið við það sitja að krefjast þóknunar í samræmi við einkasölusamninginn. Aðalstefnandi sundurliðar kröfu sína þannig að 1,5% af kr. 375.000.000 sé kr. 5.625.000 og að viðbættum 24,5% virðisaukaskatti sé stefnufjárhæðin kr. 7.003.125.
Þá byggir aðalstefnandi á því að verði ekki fallist á þessa fjárhæð verði aðalstefndi dæmdur til greiðslu lægri þóknunar að mati dómsins fyrir að hafa komið á því sambandi með aðalstefnda og Jökli hf. sem leiddi til samninga þeirra á milli.
Auk þess sem að framan er rakið vísar aðalstefnandi til meginreglu 5. gr. laga nr. 39/1922, vaxtalaga og 21. kafla laga nr. 91/1991.
Aðalstefndi byggir á því að aðalstefnandi hafi ekki haft umboð til að reyna að selja skip hans. Allar aðgerðir hans frá 30. mars, þegar söluumboð hans var afturkallað, voru í algerri óþökk aðalstefnda og beinlínis gegn ótvíræðum og sannanlegum fyrirmælum hans. Umboðið hafi verið afturkallað á skýran og ótvíræðan hátt og sé afturköllunin að öllu leyti í samræmi við reglur samningaréttarins þar að lútandi. Ekki sé nokkur vafi á því að um algera afturköllun var að ræða og fráleitt að aðalstefnandi hafi á einhvern hátt öðlast almennt umboð eftir afturköllunina. Þá hafi aðalstefndi sýnt aðalstefnanda á ótvíræðan hátt að hann vildi engin frekari afskipti hans af sölu skipsins.
Aðalstefndi leggur áherslu á að réttur til sölulauna byggir á því að söluumboð sé fyrir hendi. Enginn geti að eigin frumkvæði ákveðið að selja hlut annars manns og heimta laun fyrir. Þessi regla sé staðfest í 11. gr. laga nr. 54/1997 um fasteigna- fyrirtækja- og skipasölu, sbr. 9. gr. eldri laga nr. 34/1986. Samkvæmt þessum ákvæðum skal fasteignasali tryggja sér ótvírætt söluumboð hjá réttum aðila til að leita eftir tilboðum í eign eða gera tilboð í eign. Löggjafinn geri miklar kröfur til að menn geti sýnt fram á slíkt umboð. Sönnunarbyrðin hvílir alfarið á aðalstefnanda og á umboðsskortur að leiða til sýknu.
Þá leggur aðalstefndi áherslu á að ekki sé rétt að aðalstefnandi hafi komið á sölu skipsins eða því sambandi sem að lokum leiddi til sölu. Aðalstefndi hafi boðið Jóhanni skipið áður og Friðrik í LM skipamiðlun hafði einnig boðið Jökli hf. skipið ítrekað til sölu. Verði ekki fallist á að umboðsskortur aðalstefnanda leiði þá þegar til sýknu sé ljóst að aldrei komi til greina að dæma aðalstefnanda einhverja þóknun að álitum úr hendi aðalstefnda þar sem aðalstefnandi var sannanlega að vinna að sölunni í óþökk hans.
Fari svo að komist verði að þeirri niðurstöðu að aðalstefnandi eigi rétt á einhverri þóknun fyrir störf sín þá er þess krafist að litið verði til þess tjóns sem framkoma aðalstefnanda hefur valdið aðalstefnda. Sé alveg ljóst að umkrafin söluþóknun feli fráleitt í sér sanngjarnt endurgjald fyrir vinnuframlag aðalstefnanda.
Aðalstefndi mótmælir sérstaklega tilvísun til reglna skaðabótaréttar, þ.m.t. almennu skaðabótareglunnar, enda sé sá grundvöllur algerlega vanreifaður í stefnu og eðli málsins samkvæmt út í hött.
Aðalstefndi vísar til reglna samninga- og kröfuréttar, laga nr.54/1997, einkum 11. og 14. gr., sbr. eldri lög nr. 34/1986. Krafa um málskostnað er studd við 21. kafla laga nr. 91/1991.
Aðalstefnandi hefur skýrt svo frá fyrir dómi að hann hafi fengið munnlegt umboð árið 1995 til þess að selja skipið og það ár hafi eitt tilboð komið í skipið. Hann kvaðst hafa staðið í þeirri trú að afturköllun söluumboðsins 30. mars 1997 hafi einungis lotið að einkasöluumboðinu. Hann kvaðst hafa rætt við Sigurð Ingimarsson eftir að umboðið var afturkallað um möguleika á sölu skipsins og hafi aldrei komið fram í samtölum þeirra að hann hefði ekki umboð til sölu þess.
Sigurður Ingimarsson, framkvæmdastjóri aðalstefnda, skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi ekki veitt aðalstefnanda munnlegt umboð til sölu skipsins árið 1995 og hann kvaðst ekki hafa séð tilboð frá því ári fyrr en með dómskjölum málsins. Sigurður kvaðst ekki hafa rætt við aðalstefnanda um sölutilraunir eftir að söluumboðið var afturkallað og hann kvað það ekki hafa komið til tals milli þeirra að aðalstefnandi hefði áfram heimild til þess að afla sölutilboða í skipið. Hann kvaðst hafa staðið í þeirri trú á fundinum heima hjá honum 3. júní 1997 að aðalstefnandi væri að vinna fyrir Jökul hf., en hann kvaðst ekki hafa tilkynnt aðalstefnanda á þeim fundi að hann hefði ekki umboð til sölu skipsins.
Jóhann Magnús Ólafsson, framkvæmdastjóri Jökuls hf., skýrði svo frá fyrir dómi að honum virtist aðalstefnandi koma fram sem skipasali á fundinum 3. júní og virtist honum hann vera óhlutdrægur. Hann kvaðst hafa talið að aðalstefnandi væri að selja skipið í einkasölu fyrir Sigurð Ingimarsson.
Friðrik Jón Arngrímsson skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi fengið skipið til sölumeðferðar eftir 20. maí 1997. Hann kvaðst hafa rætt við Jóhann Ólafsson hjá Jökli hf., en hann hafi alltaf sagt að hann hefði ekki áhuga á skipinu. Friðrik skýrði aðdragandann að gerð kaupsamnings þannig að Sigurður Ingimarsson hafi haft samband og skýrt honum frá fundi hans og Jóhanns og aðalstefnanda. Í framhaldi af því hafi hann komið og síðan var kaupsamningurinn gerður. Friðrik kvað Sigurð hafa tjáð sér að hann hefði afturkallað söluumboð til aðalstefnanda og hefði það komið honum á óvart að aðalstefnandi mætti á fundinn. Friðrik kvaðst hafa séð sölutilboð það sem gert var í skipið hjá Uns skipasölu og var það tilboð lagt til grundvallar að því að leyti að kaupverðið var hið sama. Friðrik kvaðst hafa fengið 900.000 króna þóknun að viðbættum virðisaukaskatti og sagði hann þóknunina vera vegna sölu á skipi en ekki einungis vegna skjalagerðar. Aðspurður hvort hann teldi að LM skipamiðlun hefði komið á sölu skipsins svaraði Friðrik því þannig að Sigurður hafi litið svo á að tilboð Uns væri fyrir hönd Jökuls hf.
Gagnsök.
Gagnstefnandi byggir á því í gagnsök að í greinargerð í hinu fyrra máli hafi verið gerðar athugasemdir við aðild einkafirmans. Gagnstefndi hafi hins vegar ekki séð ástæðu til þess að breyta aðild málsins en slíkt hefði verið hægt með einfaldri bókun. Málið hafi komið til aðalmeðferðar og var flutt efnislega um öll atriði. Í kjölfar frávísunar málsins var gagnstefnandi krafinn um greiðslu þóknunar til lögmanns síns fyrir flutning málsins.
Gagnstefnandi telur gagnstefnda bera ábyrgð gagnvart sér á greiðslu þóknunarinnar. Fyrra málinu hafi verið vísað frá vegna ástæðna sem varða gagnstefnda og hann ber áhættuna af. Auk þess hafi verið saknæmt af hálfu gagnstefnda eða þeirra sem hann bar ábyrgð á að höfða málið og halda áfram rekstri þess að óbreyttu.
Gagnstefnandi hefur kröfuna uppi til sjálfstæðs dóms og eftir atvikum skuldajafnaðar. Vísað er til 28. gr. og XXI. kafla laga nr. 91/1991 og 2. mgr. 2. gr. laga nr. 61/1942.
Gagnstefndi byggir á því að skilyrði skorti að lögum fyrir skaðabótakröfu gagnstefnanda. Þá telur gagnstefndi það vera ósannað og vanreifað af hálfu gagnstefnanda að gagnstefndi beri ábyrgð á ætluðu tjóni gagnstefnanda. Þá mótmælir gagnstefndi því að hafa með saknæmum og ólögmætum hætti valdið gagnstefnanda tjóni er nemur fjárhæð hans í gagnstefnu.
Þá byggir gagnstefndi á því að gagnstefnandi hafi við rekstur hins fyrra máls samþykkt aðild Uns rekstrarráðgjafar í því máli og því beri vegna þess samþykkis að sýkna gagnstefnda. Gagnstefndi bendir á að gagnstefnandi krafðist þess ekki fyrir héraðsdómi, líkt og honum var þó skylt að gera, teldi hann Uns rekstrarráðgjöf ekki hafa aðildarhæfi, að málinu yrði vísað frá dómi. Gagnstefndi telur að samþykkið varði því að hann geti ekki átt bótakröfu á hendur gagnstefnda og vísar gagnstefndi því til stuðnings til reglna skaðabótaréttar um þýðingu samþykkis þess sem telur sig hafa orðið fyrir tjóni. Þá vísar gagnstefndi jafnframt til þeirrar meginreglu að málskostnaður sé felldur niður í máli ef því er vísað frá dómi án kröfu aðila.
Þá byggir gagnstefndi á því að ósannað sé að gagnstefnandi hafi orðið fyrir tjóni vegna frávísunar málsins. Hafi öll vinna gagnstefnanda nýst honum að fullu við rekstur aðalsakar þessa máls.
Gagnstefndi mótmælir kröfu gagnstefnanda sem of hárri. Sé ósannað að gagnstefnandi hafi orðið fyrir tjóni er nemur fjárhæð kröfu hans í gagnsök. Byggir gagnstefndi á því að öll vinna lögmanns í fyrra málinu nýtist að fullu við rekstur aðalsakar þessa máls. Gagnstefnandi geri ekki grein fyrir því hvort tekið verði tillit til vinnu lögmanns hans í fyrra máli við ákvörðun þóknunar til lögmanns hans við rekstur þessa máls.
Þá telur gagnstefndi að krafa gagnstefnanda sé allt of há og í engu samræmi við umfang og vinnu við rekstur málsins. Óþekkt sé að dómarar dæmi málskostnað í samræmi við málskostnaðarreikninga lögmanna er taka mið af hagsmunum máls og byggir gagnstefndi á því að sú venja gildi við ákvörðun fjárhæðar málskostnaðar að dómarar taki mið af vinnuframlagi lögmanns aðila við rekstur málsins.
Þá byggir gagnstefndi á því að lækka beri verulega kröfu gagnstefnanda þar sem hann reyndi ekki að draga úr ætluðu tjóni sínu svo sem honum er skylt. Hefði gagnstefnandi krafist frávísunar í greinargerð sinni hefði þegar verið úrskurðað um þá kröfu og hefði gagnstefnandi þá ekki þurft að greiða lögmanni sínum fyrir mætingar í dómi, undirbúning málflutnings og málflutning. Hafi gagnstefnandi sjálfur orðið valdur að tjóni sínu og beri því að lækka kröfuna verulega verði ekki fallist á sýknu. Vísað er til reglna skaðabótaréttar um skyldu tjónþola til að draga úr tjóni sínu og til reglna bótaréttar um þýðingu eigin sakar.
Gagnstefndi vísar til laga nr. 91/1991, einkum 28. gr., 116. gr. og 21. kafla. Þá er vísað til reglna skaðabótaréttar og kröfuréttar.
Forsendur og niðurstaða.
Aðalsök.
Aðilar máls þessa gerðu með sér samkomulag um einkasöluumboð á skipinu Brimi SU 383 20. janúar 1997 og varð að samkomulagi að söluþóknun skyldi vera 1,5% af söluandvirði skips og aflahlutdeilda, án virðisaukaskatts. Ágreiningur aðila í máli þessu snýst um það hvort afturköllun söluumboðs 30. mars 1997 til sölu á skipinu feli í sér afturköllun einkasöluumboðs einvörðungu eða hvort um algera afturköllun var að ræða. Það er álit dómsins að afturköllunin verði með engu móti skýrð þannig að einungis sé verið að afturkalla einkasöluumboð. Var því niður fallinn samningur aðila um einkasölu á skipinu og fjárhæð söluþóknunar. Hins vegar er ljóst að aðalstefnandi vann áfram að sölu skipsins og kemur þá til álita hvort aðgerðir hans hafi leitt til þess að samningar tókust um sölu skipsins milli aðalstefnda og Jökuls hf.
Óumdeilt er í máli þessu að aðalstefnandi kom á þeim fundi með fyrirsvarsmanni aðalstefnda og Jóhanni Ólafssyni, framkvæmdastjóra Jökuls hf. sem leiddi til þess að Jökull hf. gerði tilboð í skipið. Aðalstefnandi segist hafa verið í þeirri trú að hann hefði almennt umboð til sölu skipsins og segir hann Sigurð Ingimarsson aldrei hafa gefið í skyn að svo væri ekki. Sigurður segir hins vegar að hann hafi staðið í þeirri trú að aðalstefnandi væri að vinna að sölu skipsins fyrir Jökul hf. Þessi staðhæfing Sigurðar er ótrúverðug í ljósi þeirrar venju í fasteigna- og skipaviðskiptum að seljandi greiði söluþóknun en ekki kaupandi, en aðalstefnandi hefur atvinnu m.a. af sölu skipa. Verður í ljósi þessa að telja að Sigurði hafi borið á þessum fundi að inna aðalstefnanda eftir því í hvers umboði hann væri mættur. Var þetta sérstaklega brýnt sökum þess að hann hafði á þessum tíma falið öðrum sölu skipsins. Verður aðalstefndi að bera hallann af þessari vanrækslu sinni.
Ljóst er að endanlegir samningar tókust um sölu skipsins hjá öðrum skipasala nokkrum dögum eftir að Jökull hf. hafði lagt fram tilboð fyrir milligöngu aðalstefnanda. Var kaupverðið hið sama og greindi í tilboði því sem aðalstefndi hafnaði, eða kr. 375.000.000. Ósannað er að samningar hafi tekist fyrir milligöngu LM skipamiðlunar og benda gögn málsins til þess að umrætt tilboð hafi verið lagt til grundvallar samningsgerð. Verður því að telja að aðalstefnandi hafi komið á því sambandi milli aðalstefnda og Jökuls hf. sem leiddi til sölu skipsins og ber honum því þóknun úr hendi aðalstefnda fyrir þessi störf sín. Þykir hæfilegt að miða við að þóknunin sé 1% af söluandvirði skipsins, eða kr. 3.750.000 auk virðisaukaskatts kr. 918.750 eða samtals kr. 4.668.750. Þar sem aðalstefnandi vann ekki að endanlegri skjalagerð og að öðrum atvikum málsins virtum þykir mega lækka þessa fjárhæð um kr. 1.120.500 en það mun vera nálægt þeirri fjárhæð sem aðalstefndi greiddi LM skipamiðlun í þóknun. Verður aðalstefndi því dæmdur til þess að greiða aðalstefnanda kr. 3.548.250 ásamt dráttarvöxtum frá 25. júní 1997 til greiðsludags og kr. 400.000 í málskostnað.
Gagnsök.
Í gagnsök snýst ágreiningur aðila um það hvort gagnstefnda beri að standa gagnstefnanda skil á lögmannsþóknun vegna meðferðar og flutnings hins fyrra máls sem lauk með frávísun ex officio 25. maí 1998. Ljóst er að hið fyrra mál var höfðað af einkafirma gagnstefnda en slíkt firma skortir hæfi til að eiga sjálfstæða aðild að dómsmáli, sbr. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Var málinu því vísað sjálfkrafa frá dómi en málskostnaður var ekki dæmdur. Í greinargerð í því máli krafðist gagnstefnandi ekki frávísunar en í greinargerðinni er svohljóðandi texti: "Í fyrsta lagi er gerð athugasemd við aðilastöðu sóknarmegin í málinu þar sem engum fyrirsvarsmanni er til að dreifa fyrir hönd Uns. Virðist því sem félagið sé sjálft að höfða málið í eigin nafni sem samræmist ekki reglum réttarfarslaga um fyrirsvar og aðild." Þrátt fyrir þetta lét gagnstefnandi átölulaust að málið hlaut efnismeðferð og verður að telja að hann hafi af þeim sökum firrt sig rétti til bóta. Verður gagnstefndi því sýknaður af kröfum gagnstefnanda í gagnsök. Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður í gagnsök falli niður.
Hjörtur O. Aðalsteinsson héraðsdómari kvað upp dóminn.
Dómsorð:
Aðalstefndi, Sigurnes hf., greiði aðalstefnanda, Þorsteini Guðnasyni, kr. 3.548.250 ásamt dráttarvöxtum frá 25. júní 1997 til greiðsludags og kr. 400.000 í málskostnað.
Gagnstefndi, Þorsteinn Guðnason, skal vera sýkn af öllum kröfum gagnstefnanda, Sigurness hf. í gagnsök í máli þessu. Málskostnaður í gagnsök fellur niður.