Hæstiréttur íslands
Mál nr. 485/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Mánudaginn 16. ágúst 2010. |
|
Nr. 485/2010. |
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum (Alda Hrönn Jóhannsdóttir fulltrúi) gegn X (enginn) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. ágúst 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 11. ágúst 2010, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 20. ágúst 2010 klukkan 16 og sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 11. ágúst 2010.
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur í dag krafist þess að X, f. [...], litháískum ríkisborgara, verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 20. ágúst 2010, kl. 16.00. Þá er þess krafist að kærða verði gert að sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.
Í greinargerð lögreglustjóra segir að kærði hafi verið stöðvaður í Flugstöð Leifs Eiríkssonar við komu til landsins með flugi frá Stansted, Bretlandi að kvöldi þriðjudagsins 10. ágúst s.l. vegna gruns um innflutning fíkniefna. Við skoðun hafi komið í ljós að kærði var með um 29 kg af ætlaðri khat-plöntu í tveimur stórum ferðatöskum. Við frekari rannsókn hafi komið í ljós að kærði hafði ferðast hingað til lands við annan mann og hafi kærði tjáð lögreglu að samferðamaður hans hefði verið með samskonar tösku og hann. Við eftirgrennslan og leit hafi samferðarmaður kærða, Y, verið handtekinn á gistiheimili við [...], Keflavík og við leit í herbergi hans hafi fundist stór ferðataska með samskonar efni í og áður getur.
Í greinargerð segir að rannsókn máls þessa sé á frumstigi. Meðal þess sem rannsaka þurfi sé aðdragandi ferðar kærða og samferðarmanns hingað til landsins og tengsl þeirra við hugsanlega vitorðsmenn á Íslandi og/eða erlendis auk annarra atriða. Við frumrannsókn málsins virðist sem fleiri aðilar tengist málunum og að samferðarmaður kærða, hafi komið hingað til lands fyrir viku síðan. Það magn fíkniefna, sem kærðu hafi komið með til landsins þyki benda til þess að efnin hafi verið ætluð til sölu og dreifingar og háttsemi þeirra kunni að varða við ákvæði 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 auk ákvæði laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni. Lögregla telji að kærði kunni að torvelda rannsókn málsins og hafa áhrif á samseka gangi hann laus.
Þess er krafist að kærða verði gert að sæta einangrun í gæsluvarðhaldi skv. b-lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008. Þá er þess jafnframt krafist að kærða verði gert að sæta takmörkunum sbr. a-, c-, d- , e- og f-liði 1. mgr. sömu greinar.
Með vísan til alls framangreinds, rannsóknarhagsmuna, a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88, 2008 um meðferð sakamála, 173. gr.a almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 og laga nr. 65, 1974 um ávana og fíkniefni telji lögreglustjóri brýna rannsóknarhagsmuni standa til þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 20. ágúst 2010 kl. 16.00.
Samkvæmt rannsóknargögnum málsins er kærði undir rökstuddum grun um brot sem varðað getur fangelsi, en ávana- og fíkniefnin, kat, cathinone eða cathine, falla öll undir 1. mgr. 2. gr., sbr. 6. gr. laga nr. 65/1974, sbr. reglugerð nr. 233/2001 með síðari breytingum. Með vísan framangreinds og a-liðs 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, er því fallist á kröfu lögreglustjóra eins og hún er fram sett.
Úrskurð þennan kveður upp Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 20. ágúst 2010, kl. 16.00.
Kærði sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.