Hæstiréttur íslands

Mál nr. 573/2006


Lykilorð

  • Innlausn
  • Eignarnámsbætur
  • Fullvirðisréttur


Fimmtudaginn 24

 

Fimmtudaginn 24. maí 2007.

Nr.  573/2006.

Magnús Björn Brynjólfsson

(Kristján Stefánsson hrl.)

gegn

Ágústi Sigurðssyni og

Ásgerði Pálsdóttur

(Othar Örn Petersen hrl.)

og gagnsök

 

Innlausn. Eignarnámsbætur. Fullvirðisréttur.

Landbúnaðarráðherra heimilaði 10. júlí 2001 innlausn á hluta eigna M og bræðra hans í jörðinni G. Matsnefnd eignarnámsbóta framkvæmdi 9. maí 2002 mat á þeim eignum sem innlausnin náði til. M sætti sig ekki við niðurstöðu nefndarinnar og óskaði eftir því að dómkvaddir yrðu tveir matsmenn til að meta þær eignir sem matsnefndin hafði áður metið, auk ákveðinna atriða sem nefndin hafði ekki úrskurðað um. Í niðurstöðu héraðsdóms, sem staðfest var í Hæstarétti, sagði að krafa M hefði orðið til við uppkvaðningu úrskurðar matsnefndar eignarnámsbóta 9. maí 2002. Hefði M því verið rétt að óska þess við hina dómkvöddu matsmenn að þeir mætu eignarhluta hans á verðlagi þess árs en ekki ársins 2005. Þar sem ekkert var tekið tillit til þessa í matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna var það mat dómsins að M hefði ekki tekist að hnekkja mati matsnefndar eignarnámsbóta með matsgjörðinni. Þá var hvorki fallist á kröfu M um hlut í beingreiðslum greiðslumarks mjólkur né beingreiðslum fullvirðisréttar í kindakjöti þar sem M hafði hvorki stundað mjólkur- né kindakjötsframleiðslu svo sem áskilið er í lögum nr. 99/1993. Þá var hvorki fallist á kröfu M um bætur vegna kostnaðar við að koma hluta hans í íbúð í upprunalegt horf né bætur vegna tapaðra afnota af séreignaríbúð M 7 ár aftur í tímann. Hins vegar var fallist á kröfu M um hlutdeild í ærgildum fullvirðisréttar í kindakjöti.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson.

Aðaláfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 29. ágúst 2006. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 11. október 2006 og áfrýjaði hann öðru sinni 6. nóvember sama ár. Hann krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til meðferðar á ný, en til vara að gagnáfrýjendum verði gert að greiða sér óskipt 3.114.082 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 7. september 2005 til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun að fjárhæð 502.204 krónur. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjendur áfrýjuðu fyrir sitt leyti 17. janúar 2007. Þau krefjast sýknu af kröfu aðaláfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Aðaláfrýjandi hefur ekki fært haldbær rök fyrir aðalkröfu sinni um ómerkingu héraðsdóms og verður henni hafnað.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Aðaláfrýjanda verður gert að greiða gagnáfrýjendum málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði, en við ákvörðun hans er tekið tillit til þess að samhliða þessu máli eru rekin hér fyrir dómi tvö önnur samkynja mál á hendur gagnáfrýjendum.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Aðaláfrýjandi, Magnús Björn Brynjólfsson, greiði gagnáfrýjendum, Ágústi Sigurðssyni og Ásgerði Pálsdóttur, 150.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands vestra 1. júní 2006.

I

          Mál þetta er höfðað af Magnúsi Birni Brynjólfssyni, Aflagranda 31, Reykjavík, 18. ágúst 2005 á hendur Ágústi Sigurðssyni og Ásgerði Pálsdóttur, báðum til heimilis að Geitaskarði, sveitarfélaginu Blönduósi. Málið var tekið til dóms 21. apríl sl.

Dómkröfur stefnanda

          Stefnandi krefst þess að stefndu verði sameiginlega gert að greiða honum 3.114.082 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá stefnubirtingardegi 18. ágúst 2005 til greiðsludags að frádreginni innborgun þann 10. júlí 2002 að fjárhæð 502.204 krónur. Þá krefst stefnandi málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti úr hendi stefnda.

Dómkröfur stefndu

          Stefndu krefjast aðallega sýknu af kröfum stefnanda. Til vara að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Í báðum tilfellum krefjast stefndu málskostnaðar úr hendi stefnanda og að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til skyldu stefndu til að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun.

II

Málavextir

          Á árinu 1975 hófu stefndu Ágúst og Ásgerður búskap á jörðinni Geitaskarði í Langadal, A-Húnavatnssýslu. Jörðin var þá í sameign stefnda Ágústs, Sigurðar Sigurðssonar föður hans og Brynjólfs Sigurðssonar föður stefnanda. Á árinu 1982 eignaðist stefndi Ágúst hlut föður síns í jörðinni og átti eftir það ¾ hluta jarðarinnar. Á þessu sama ári afsalaði Brynjólfur Sigurðsson sínum eignarhluta til sex sona sinna sem eftir það áttu í óskiptri sameign 1/4 hluta jarðarinnar eða 4,1667% hver (1/24).  Enginn þeirra bræðra hefur stundað landbúnað á jörðinni.

Með land- og eignaskiptasamningi gerðum 18. desember 1982 var jörðinni skipt þannig að afmarkaður hluti nyrst á jörðinni skyldi vera eign Brynjólfs Þorbjarnarsonar. Í samningnum er að finna lýsingu á því hvernig fjórðungur Brynjólfs skuli afmarkast. Þá er ákvæði þess efnis að eigendur skyldu setja upp gripahelda girðingu á merkjum og að mannvirki á jörðinni skyldu vera í sameiginlegri eign í hlutfalli við eignarhlut í jörðinni. Einnig er í samningi þessum kveðið á um notkun á íbúðarhúsinu á jörðinni svo og öðru landi jarðarinnar sem ekki var skipt og loks hvernig skuli fara með kostnað vegna viðhalds á mannvirkjum.

Hinn 1. maí 1986 gerðu stefndi Ágúst og stefnandi ásamt fimm bræðrum sínum leigu- og afnotasamning er tók til hlutar þeirra bræðra í íbúðarhúsinu að Geitaskarði. Í samningnum er meðal annars lýst þeim afnotum sem stefndi Ágúst mátti hafa af hluta sameigenda sinna. Þá er tekið fram að stefnandi Ágúst skuli greiða skatta og skyldu af hinu leigða, tryggingar, rafmagns- og hitunarkostnað auk þess sem hann skuli bera kostnað af eðlilegu viðhaldi. Aðrar greiðslur skyldi stefndi Ágúst ekki inna af hendi vegna hins leigða. Stefnandi og Jón bróðir hans sögðu samningi þessum upp 29. september 1997. Hinn 13. október sama ár mótmælti stefndi Ágúst uppsögninni með þeim rökum að tveir sameigenda gætu ekki sagt samningnum upp svo bindandi væri fyrir þá alla.

Á árinu 1997 hættu stefndu mjólkurframleiðslu og seldu allt greiðslumark sem tilheyrði lögbýlinu. Í kjölfarið höfðuðu stefnandi og Jón bróðir hans mál á hendur stefndu og fleirum og kröfðust hlutdeildar í söluverði greiðslumarksins. Því máli lauk með dómi Hæstaréttar Íslands 8. mars 2001 þar sem staðfest var að greiðslumark fylgdi lögbýlum.

Hinn 13. nóvember 1998 fór stefndi Ágúst þess á leit við landbúnaðarráðherra að heimiluð yrði innlausn á hlut stefnanda og bræðra hans í jörðinni. Innlausn var heimiluð 21. júní 1999. Stefnandi var ósáttur við úrskurð ráðuneytisins og sendi af þeim sökum erindi til Umboðsmanns Alþingis. Álit Umboðsmanns lá fyrir 8. júní 2000 og beindi Umboðsmaður því til landbúnaðarráðherra að taka málið fyrir að nýju. Landbúnaðarráðherra fór að tilmælum Umboðsmanns og nýr úrskurður hans lá fyrir 10. júlí 2001. Í úrskurði þeim var innlausn heimiluð á sameignarhluta í íbúðar- og útihúsum auk þess sem innlausn var heimiluð á landi jarðarinnar sem enn var í óskiptri sameign. Hins vegar var ekki heimilt að innleysa þann part jarðarinnar sem áður hafði verið skipt út með áðurnefndum samningi frá 18. desember 1982.

Aðilar náðu ekki samkomulagi um verð fyrir þær eignir sem innlausn var heimiluð á. Matsnefnd eignarnámsbóta framkvæmdi mat á þeim eignum sem innlausn náði til. Mat nefndarinnar lá fyrir 9. maí 2002 og samkvæmt því bar að greiða samtals 1.255.512 krónur fyrir innleystar eignir. Hlutur þeirra bræðra hvers um sig nam 1/6 hluta þeirrar fjárhæðar eða 251.102 krónum. Stefndu hafa þegar greitt þessa fjárhæð en stefnandi tók við henni með fyrirvara og áskildi sér rétt til að afla annars mats um verðmæti eignarinnar.

Hinn 5. mars 2003 voru að beiðni stefnanda dómkvaddir tveir matsmenn til að meta allar óskiptar sameignir stefnanda í jörðinni en matsbeiðnin var í 7 liðum og tekur að hluta til þeirra eigna sem matsnefnd eignarnámsbóta hafði áður metið en að hluta til atriða sem nefndin hafði ekki úrskurðað um. Stefnandi hafði sett fram kröfur fyrir matsnefndinni um að fleira yrði metið en þar var að endingu gert en sjónarmið hans höfðu ekki verið tekin til greina. Matsgjörð dómkvaddra matsmanna lá síðan fyrir hinn 21. apríl 2005.

III

Málsástæður og lagarök

          Stefnandi byggir kröfu sína á því að eignarnámsþoli skuli fá fullt verð fyrir eignir sínar. Hann telur að matsgjörð sú sem áður er getið sýni hið raunverulega tjón hans. Stefnandi byggir á því að honum sé heimilt að bera ágreining um fjárhæð eignarnámsbóta undir dómstóla eftir að úrskurður matsnefndar eignarnámsbóta liggur fyrir. Tjón sitt hafi hann sannað með matsgjörð dómkvaddra matsmanna og þá hafi hann sýnt fram á að eignarnámsbætur hafi verið ranglega metnar. Með mati hinna dómkvöddu matsmanna hafi honum tekist að hnekkja mati matsnefndarinnar.

Stefnandi telur hlutdeild sína í hinni innleystu eign nema 766.000 krónum sem sé í samræmi við matsgjörð dómkvaddra matsmanna og sundurliðist þannig: Íbúð 350.000 krónur, útihús 166.400 krónur, land Skarðsskarðs og Tungubakka án veiðiréttinda 212.400 krónur og hlutdeild í vatns og veiðiréttindum í Laxá og Norðurá 37.440 krónur. (Krafa stefnanda er 240 krónum lægri en þessar fjárhæðir lagðar saman.)

Auk þessa byggir stefnandi á því að hann hafi sýnt fram á annað tjón sitt með matsgjörð dómkvaddra matsmanna en stefnandi heldur því fram að matsnefnd eignarnámsbóta hafi ekki fjallað um alla þá þætti sem henni bar í úrskurði sínum.

Í fyrsta lagi kveðst stefnandi hafa orðið fyrir tjóni vegna kostnaðar við að koma íbúð á efri hæð íbúðarhússins í upprunalegt horf, þar með talin lagfæring á raf- og pípulögnum og bætur vegna tjóns sem stefnandi varð fyrir með því að stefndi Ágúst fargaði innréttingum, vaski og eldavél. Stefnandi byggir á að hans hluti tjónsins sé 116.666 krónur. Stefnandi bendir á að stefndi Ágúst hafi viðurkennt að hafa breytt vatns- og raflögnum í eldhúsi og að hann hafi hent eldhúsvaski og eldavél. Hvað þetta varðar byggir stefnandi á almennum reglum skaðabótaréttarins varðandi skemmdir á þeim eignum sem stefndu höfðu í vörslum sínum og báru ábyrgð á samkvæmt leigusamningi. Tjónið sé alfarið á ábyrgð stefndu sem hafi talið sig þurfa að breyta séreignaríbúð stefnanda og bræðra hans til að hafa af henni önnur not. Afleiðing tjónsins sé sú að ekki sé mögulegt að nýta eldhúsið með hefðbundnum hætti. Raunar telur stefnandi að ef eldhúsið hefði ekki verið eyðilagt með þessum hætti hefði mat á eignarhluta stefnda í íbúðarhúsinu orðið hærra.

Í öðru lagi krefst stefnandi hlutdeildar í beingreiðslum vegna greiðslumarks mjólkur fjögur ár aftur í tímann en hans hluti í þessum greiðslum sé metinn á 325.083 krónur. Stefnandi byggir á því að hann eigi rétt á hlutdeild í beingreiðslum til lögbýlisins til samræmis við eignarhluta sinn. Máli sínu til stuðnings vísar stefnandi til dóms Hæstaréttar Íslands nr. 279/2000 og þess að gerðar hafi verið kröfur um greiðslu á þessum eignarhluta í kröfugerð hans fyrir matsnefnd eignarnámsbóta. Ekki hafi verið tekið tillit til beingreiðslna sem lögbýlið naut þegar greiðslumarkið var selt frá lögbýlinu og því hafi hann ekki fengið þetta bætt. Stefnandi bendir á að hann hafi haldið kröfu sinni til haga alla tíð. Matsnefnd eignarnámsbóta hafi hins vegar horft framhjá þessari kröfu í matsgerð sinni. Stefnandi byggir á því að stefndu beri að bæta honum tjón það sem hann varð fyrir með vísan til reglna skaðabótaréttarins.

Í þriðja lagi krefst stefnandi hlutdeildar í beingreiðslum og fullvirðisrétti vegna kindakjöts. Þessa kröfu styður hann við matsgerð dómkvaddra matsmanna. Kveður stefnandi tjón sitt vegna beingreiðslna, að teknu tilliti til hans eignarhluta í lögbýlinu, vera 10.468 krónur fyrir árið 2004, fyrir árið 2003 8.974 krónur, fyrir árið 2002 10.077 krónur og fyrir árið 2001 9.0503 krónur. Samtals nemi tjón hans vegna beingreiðslna í sauðfé fyrir þessi fjögur ár 39.023 krónum. Byggir stefnandi tölulegan útreikning sinn á upplýsingum frá Bændasamtökum Íslands.

Stefnandi krefst bóta vegna fullvirðisréttar í sauðfé og kveður hann tjón sitt vegna þess vera 58.269 krónur. Miðar hann þá við að í apríl 2005 hafi hvert ærgildi verið metið á 29.000 krónur en lögbýlinu fylgi 48,3 ærgildi. Varðandi rétt sinn til bóta vegna fullvirðisréttar í sauðfé vísar stefnandi til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 279/2000. Byggir stefnandi á því að þetta séu eignarréttindi sem hafi horfið með eignarnáminu. Stefnandi kveðst eiga rétt á bótum samkvæmt ákvæðum stjórnarskrár, sbr. 14. gr. jarðalaga nr. 65/1976 eða samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttarins á því verðlagi sem hæst reynist samkvæmt matsgerð og miðað við þær fjárhæðir sem sannanlega hafi verið greiddar til stefnanda.

Í fjórða lagi krefst stefnandi bóta vegna tapaðra afnota af séreignaríbúð hans. Krafan miðast við sjö ár aftur í tímann en hann hafi ásamt öðrum á lögmætan hátt sagt upp húsaleigusamningi við stefnda 29. september 1997. Leiga fyrir þessi ár hafi samkvæmt matsgerð verið metin á 1.512.000 krónur og hans hluti sé því 252.000 krónur. Stefnandi byggir á því að stefndu hafi tekið íbúðina undir sig og nýtt sem sína eign eftir formlega uppsögn leigusamnings. Stefnandi byggir á því að ekki hafi komið til greina að heimila stefndu afnot íbúðarinnar eftir uppsögn leigusamningsins og því sé honum heimilt að krefja stefndu um gjald eða bætur fyrir töpuð afnot stefnanda frá áramótum 1997/1998. Kröfuna byggir stefnandi á reglum skaðabótaréttarins og því að íbúðin var nýtt í óþökk stefnanda og bræðra hans. Forsendur fyrir tilvist leigusamningsins hafi brostið þar sem tilgangi og notkun eldhúss hafi verið gerbreytt og eignin stórskemmd. Stefnandi bendir á að í leigusamningnum sé tekið fram að ef ekki sé gengið frá ágreiningsatriðum innan þriggja mánaða þá sé allur samningurinn úr gildi fallinn. Með matsgerðinni hafi hann lagt fram sönnur fyrir því hvern arð hann hafi misst eða hefði getað haft af eigninni síðustu sjö árin og beri honum bætur samkvæmt niðurstöðu matsgerðarinnar.

Stefnandi sundurliðar kröfu sína þannig:

Hlutdeild í heildarverðmæti þess sem tekið var eignarnámi         766.000 krónur

Viðgerðarkostnaður á eldhúsi íbúðar                                  116.666 krónur

Hlutdeild í beingreiðslum greiðslumarks mjólkur              325.083 krónur

Hlutdeild í beingreiðslum fullvirðisréttar í kindakjöti                     39.023 krónur

Hlutdeild í ærgildum fullvirðisréttar í kindakjöti                  58.269 krónur

Bætur vegna tapaðra afnota af íbúð                                                252.000 krónur

          Samtals                                                                                       1.557.041 króna

 

Þorbjörn Brynjólfsson, bróðir stefnanda og einn sameigenda að eignarhlut þeirra bræðra, hefur framselt stefnanda réttindi sín. Stefnandi gerir því sömu kröfur og að framan eru raktar vegna eignarhluta Þorbjörns og tvöfaldast kröfur hans af þeim sökum. Eru kröfur hans vegna réttinda í eigninni því samtals að fjárhæð 3.114.082 krónur.

Hvað lagarök varðar vísar stefnandi til 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, ákvæða Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 um Mannréttindasáttmála Evrópu, 17. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms, 14. gr. jarðalaga nr. 65/1976, 38. gr. laga nr. 99/1993 um framleiðslu og greiðslumark sauðfjárafurða, 52. og 54. gr. laga nr. 99/1993 varðandi fullvirðisrétt í greiðslumarki mjólkur. Þá vísar stefnandi til almennu skaðabótareglunnar. Hvað málskostnað varðar vísar stefnandi til 129. og 130. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð einkamála. Loks er krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun studd við lög nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

Kröfu um sýknu reisa stefndu á eftirfarandi málsástæðum:

1. Almenn mótmæli við matsgerð. Stefndu benda á að svo virðist sem stefnandi hafi ætlað sér að hnekkja mati matsnefndar eignarnámsbóta með mati dómkvaddra matsmanna. Þá telja stefndu að stefnandi hafi ætlað dómkvöddum matsmönnum að meta til verðs eignir sem hann taldi að matsnefndin hefði ekki tekið með í mati sínu. Stefndu telja að óljóst sé hvort stefnandi sé að reyna að hnekkja mati matsnefndarinnar í skilningi 17. gr. laga um framkvæmd eignarnáms. Telja stefndu að tilvitnað lagaákvæði verði ekki skilið á annan hátt en að úrskurður matsnefndarinnar sé endanlegur. Vilji menn ekki una matinu verði að hnekkja því í almennu dómsmáli. Ekki verði séð að stefnandi geri athugasemd við gildi eignarnámsins heldur verði að ætla að hann sé ósáttur við fjárhæð bóta til hans. Kröfugerð stefnanda og framsetning matsbeiðninnar sé hins vegar sundurlaus og ekki í samræmi við úrskurð matsnefndarinnar. Stefndu telja að matsgerð dómkvaddra matsmanna, sem sé reist á rangri og villandi framsetningu, teljist ekki sönnun þess að mati matsnefndar eignarnámsbóta á verðmæti hins innleysta eignarhluta hafi verið hnekkt í skilningi 17. gr. laga um framkvæmd eignarnáms. Niðurstaða matsnefndar eignarnámsbóta sé endanleg um fjárhæðir nema þeim sé hnekkt í dómsmáli. Til að hnekkja mati nefndarinnar verði að nota sambærilegar forsendur við endurmat ella sé verið að bera saman ólíka hluti. Að mati stefndu dregur það úr gildi mats hinna dómkvöddu matsmanna að ekki voru sömu forsendur lagðar til grundvallar við þeirra mat og mat matsnefndarinnar. Stefndu telja að vegna þessara annmarka á matsgerð hafi ekki verið forsendur fyrir þá til að krefjast yfirmats samkvæmt ákvæðum 64. gr. laga um meðferð einkamála. Slíkt mat hefði alltaf verið haldið sömu annmörkum og mat hinna dómkvöddu matsmanna þar sem yfirmatsmenn hefðu þurft að svara sömu röngu spurningum og matsmennirnir gerðu. Þá benda stefndu á að verulegur hluti þess sem stefnandi krafðist mats á séu eignir eða kröfuréttindi sem stefnandi var ekki eigandi að eða féll utan þess sem stefndu fengu innleyst samkvæmt úrskurði landbúnaðarráðherra.

Stefndu gera nokkrar athugasemdir við matsgerð dómkvaddra matsmanna. Benda þeir á að í matsbeiðni hafi þess verið óskað að matsandlag verði metið ,,á almennu markaðsverði eins og það getur verið hæst.“ Þá segi í matsgerðinni að útreikningar á byggingarkostnaði og fyrningum komi ekki til greina þótt byggingarkostnaður og aldur mannvirkja kunni að hafa áhrif á markaðsverð. Stefndu telja þessa aðferðafræði ranga og ómarktæka. Matsgerðinni sé væntanlega ætlað að hnekkja fjárhæðum í mati matsnefndar eignarnámsbóta og því hefði verið rétt að miða við verðlag á þeim degi sem sú nefnd byggði á og miðaði við. Auk þess sé alkunna að verð jarða og fasteigna hafi hækkað mikið á undanförnum árum. Því hafi átt að miða verð á innleystum eignarhluta við verðlag ársins 2002 en þá hafi innlausnarverð verið ákveðið.

Stefndu benda á að eignarhlutar hafi verið hlutaðir niður í matsgerðinni, enda um það beðið, en ekki metnir sem ein heild eins og þeir telja að rétt hefði verið. Telja stefndu að einstakir matshlutar hafi ekki eignarréttarlegt gildi. Þetta rýrir að mati stefndu gildi matsgerðarinnar, enda sé með þessu beitt annarri aðferðafræði en gert var við ákvörðun eignarnámsbóta. Að mati stefndu eru forsendur matsbeiðninnar augljóslega rangar og því sé matsgerðin ómarktæk og geti af þeim sökum ekki orðið grundvöllur kröfugerðar í dómsmáli. Matsmenn hafi hins vegar verið bundnir af orðalagi matsbeiðninnar og þeir hafi svarað þeim spurningum sem þar voru fram settar.

2. Stefndu halda því fram að í matsbeiðni sé því ranglega haldið fram að kvistherbergi og eldhús geti talist íbúð í venjulegum skilningi þess orðs. Telja stefndu að þetta orðalag hafi átt að villa um fyrir matsmönnum í þeim tilgangi að hækka verð eignarhlutans. Stefndu halda því fram að íbúðarhúsið að Geitaskarði hafi alltaf verið ein heild án sérstakrar afmörkunar. Húsið sé ein fasteign og hafi eitt fastanúmer samkvæmt lögum um skráningu og mat fasteigna. Hvorki stefnandi né aðrir sameigendur hans hafi rétt til að loka umræddum herbergjum þannig að stefndu kæmust ekki að sínum eignarhluta í risinu. Kvistherbergi þessi hafi fyrst verið nýtt í tengslum við eldhúsið á árunum milli 1950-1960 og þá aðeins hluta úr ári. Þau not hafi hins vegar lagst af innan fárra ára og eignarhlutinn hafi ekki verið nýttur sem sérpartur af íbúðarhúsinu eftir það.

Hvað varðar ástand eignarhlutans og verðmat á honum telja stefndu að niðurstaða matsnefndar eignarnámsbóta hafi síst verið of lág miðað við aðrar eignir sem gengið höfðu kaupum og sölum á þeim tíma þegar matið var framkvæmt. Raunar telja stefndu að matið hefði átt að vera lægra. Stefndu benda sérstaklega á að matsnefndin verðmat eignina miðað við 9. maí 2002. Hafi átt að hnekkja því mati á grundvelli 17. gr. laga um framkvæmd eignarnáms hefði matsbeiðni og matsgerðin í framhaldi af því átt að miða við það tímamark. Á þeim árum sem liðin eru frá 2002 hafi verð eigna hækkað verulega. Auk þessa byggja stefndu á því að þau hafi staðið að viðhaldi og endurbótum eftir að matsnefndin gerði sitt mat. Þau hafi lagt nýtt dren við tvo veggi hússins, sett nýtt klóak og nýja rotþró, auk þess sem húsið hafi verið málað og steypa lagfærð. Vísa þeir sérstaklega til ummæla í mati matsnefndarinnar þar sem tekið er fram að steypa sé öll í molum og þarfnist stöðugs viðhalds. Þessar endurbætur allar hafi verið á kostnað stefndu, enda gerðar eftir að þau voru orðnir einu eigendur hússins með lögmætum hætti. Endurbætur þessar eigi því alls ekki að koma stefnanda til góða í hækkuðu verðmati íbúðarhússins. Að mati stefndu kemur hækkað verð fram í matsgerð vegna þess að matsbeiðni var röng hvað þetta varðar. Þá benda stefndu á að í mati matsnefndar eignarnámsbóta sé tekið fram að nauðsynlegt sé að klæða húsið að utan til að forðast frekari skemmdir en þessa sé ekki getið í matsgjörð. Þetta ætti að leiða til lækkunar á verði.

Af hálfu stefndu er ennfremur bent á að í mati matsnefndar eignarnámsbóta sé tekið fram að vafasamt sé að eignarhlutinn í íbúðarhúsinu hafi almennt markaðsvirði eins og þarna hátti til. Nefndin hafi talið að rýmið nýttist helst einhverjum sem væri nákominn húsráðanda. Nefndin, sem hafi mikla reynslu í mati sem þessu, hafi talið að virði eignarhlutans væri 1.000.000 króna. Stefndu telja það verð of hátt og telja niðurstöðu dómkvaddra matsmanna upp á 2.100.000 krónur, heildarverð hússins 14.000.000 króna, fjarstæðu en engin rök hafi verið færð fyrir þessari niðurstöðu. Telja stefndu að þessi hækkun skýrist af þeim röngu og villandi forsendum sem gefnar voru í matsbeiðni. Stefndu benda einnig á í þessu sambandi að verðmat dómkvaddra matsmanna eigi sér enga hliðstæðu í nálægum sveitum jarðarinnar Geitaskarðs og langt frá því sem kallast getur markaðsverð. Telja stefndu að hafna beri mati hinna dómkvöddu matsmanna, enda sé það fjarstæðukennt og órökstutt og í engu fallið til að hnekkja mati matsnefndar eignarnámsbóta.

3. Stefndu mótmæla þeim rangfærslum sem fram koma í matsbeiðni og endurspeglast í matsgerðinni að því er varðar endurbætur á eignarhluta í risi íbúðarhússins. Þá er því harðlega mótmælt að stefndi Ágúst hafi viðurkennt bótaskyldu vegna þessa. Stefndu halda því fram að þau hafi ekki fargað neinum innréttingum, þær standi enn í dag og séu nú þeirra eign. Fyrir liggi að umræddri Rafha-eldavél hafi verið fleygt en það hafi verið gert um 1980. Eldavélin hafi verið árgerð 1955 og ónýt og fleygt áður en stefnandi varð eignaraðili að Geitaskarði. Þannig sé grundvöllur matsbeiðninnar rangur að þessu leyti og ekki hægt að koma rýminu í sama horf og það var 1. maí 1986, þegar leigusamningur var gerður, með því að kaupa nýja eldavél í stað þeirrar sem var löngu horfin.

          Stefndu neita því ekki að hafa í kringum árið 1987 staðið að ákveðnum breytingum í kringum hurðarop og stigagang. Engu hafi hins vegar verið fargað eða skemmt. Breytingarnar hafi verið gerðar án athugasemda stefnanda og hann og sameigendur hans hafi vitað af framkvæmdunum allan þann tíma sem þær stóðu yfir. Ekki hafi verið gerður ágreiningur um þessar breytingar í 10-12 ár eftir að þeim lauk.  Hafi stefnandi átt bótarétt vegna þessa sé hann löngu fallinn niður á grundvelli meginreglna kröfuréttarins um brottfall krafna fyrir tómlæti. Þá benda stefndu á að breytingarnar hafi ekki rýrt eignina heldur frekar aukið verðmæti hennar vegna þess hagræðis og endurnýjunar sem af þeim varð. Í mati matsnefndar eignarnámsbóta sé sérstaklega tekið fram að nefndin hafi tekið tillit til málflutnings stefnanda fyrir nefndinni hvað þennan lið varðar.

          Stefndu telja kröfu stefnanda varðandi raf- og pípulagnir fráleita. Ómögulegt sé að sjá hvernig hægt sé að rökstyðja kröfu um bætur við að koma þeim í fyrra horf. Lagnir þessar hafi verið hluti af lögnum hússins. Raflagnirnar séu sennilega lagðar um 1944, fyrir daga jafnstraums. Þá hafi kaldavatnslögnin, ein vatnslögn, að eldhúsvaskinum verið farin að leka. Þessi leki hafi valdið fúaskemmdum á eldhúsinnréttingu. Hefðu stefndu ekki skipt um þessar lagnir hefðu þær valdið öðru afleiddu tjóni á eignum stefndu og stefnda sjálfs.

          Varðandi rafstöð sem var á Geitaskarði benda stefndu á að hún hafi framleitt jafnstraum en RARIK sé með riðstraum. Á árinu 1976, þegar tekið var í húsið rafmagn frá RARIK, hafi verið skipt um allar raflagnir í húsinu en þá hafi allar raflagnir hússins verið orðnar ólöglegar auk þess sem skemmdir hafi verið á flestum rafleiðslum. Auk þessa hafi eðli máls samkvæmt verið tímabært að skipta um lagnir, enda hafi það verið þáttur í eðlilegu viðhaldi. Þetta viðhald hafi að fullu verið á kostnað stefndu og fráleitt sé að krefja þau um bætur vegna kostnaðar við að koma þessum lögnum í fyrra horf á verðlagi dagsins í dag eins og óskað var eftir í matsbeiðni. Stefndu telja að áætla megi verð stálvasks og blöndunartækis en benda á að vaskurinn sé geymdur í skemmu á Geitaskarði og stefnandi geti sótt hann. Hann sé því í fyrra horfi og hægt að selja hann á markaðsverði sem væntanlega sé ekki neitt. Blöndunartæki hafi hins vegar aldrei verið annað og meira en einn kaldavatnskrani.

          Stefndu vísa til þess að matsnefnd eignarnámsbóta hafi tekið tillit til þeirra endurbóta og viðgerða sem stefndu hafi framkvæmt á hinu leigða rými. Í matinu sé sérstaklega tekið fram að tillit hafi verið tekið til þess sem sagði í greinargerð stefnanda til nefndarinnar. Mati nefndarinnar hafi í engu verið hnekkt með matsgerð dómkvaddra matsmanna, sem hafi takmarkað gildi vegna mikilla annmarka. Því telja stefndu að verðmat matsnefndarinnar skuli standa óbreytt.

4. Varðandi gripa- og útihús vísa stefndu til þess að mannvirkin séu upptalin í fasteignamati og lýst í matsgerð matsnefndar eignarnámsbóta. Við þá lýsingu hafi dómkvaddir matsmenn engu haft að bæta. Telja stefndu því að lýsingu matsnefndarinnar verði að leggja til grundvallar í máli þessu. Benda stefndu á að matsnefndin hafi lýst byggingunum skilmerkilega og af þeim lýsingum megi ráða að þær voru flestar mjög lélegar. Nefndin hafi síðan komist að þeirri niðurstöðu að heildarverðmæti þeirra væri 826.449 krónur. Að mati stefndu er óskiljanlegt hvernig dómkvaddir matsmenn gátu nánast fimmfaldað það verð í mati sínu án þess að gera rökstudda grein fyrir þeirri niðurstöðu sinni. Byggja stefndu á því að hafna verði matsgerðinni hvað þetta verðar og að mati matsnefndarinnar hafi því ekki verið hnekkt. Auk þessa benda stefndu á að endurbætur hafi verið gerðar á þaki nokkurra af þessum byggingum eftir að þau eignuðust þær alfarið. Stefnandi geti ekki krafist hlutdeildar í þeim endurbótum. Matsbeiðni hafi hins vegar gert kröfu um að miðað yrði við ástand eignanna á matsdegi en ekki þeim degi sem matsnefnd eignarnámsbóta miðaði við. Einnig telja stefndu rétt að benda á að meiri kostnaður sé af því að eiga þessar byggingar en hagnaður sem þær skili. Stefndu halda því fram að ekkert fengist fyrir þessar byggingar ef reynt yrði að selja þær einar og sér og vísa í því sambandi til lýsingar dýralæknis og úttektar byggingarfulltrúa. Stefndu halda því fram að fjárhagslegt mat á þessum byggingum verði ekki byggt á öðru en þeim notum sem þau voru upphaflega ætluð til. Varðandi rafstöðina sérstaklega segja stefndu að hún hafi verið byggð á tímum vöruskorts og alla tíð borið þess merki. Einu sinni hafi verið skipt um rafal á kostnað stefndu og notkun rafstöðvarinnar hafi verið hætt 1998. Hins vegar hafi verið lítil þörf fyrir rafstöðina eftir 1976 þegar rafmagn frá RARIK var tekið á bæinn. Stefndu byggja á því að ekkert hafi komið fram í matsgerð dómkvaddra matsmanna sem hnekki mati matsnefndar eignarnámsbóta. Matsmenn telji lýsingu matsnefndarinnar tæmandi en hækka engu að síður verðmatið án röksemda. Telja stefndu að stefnanda hafi ekki tekist að hnekkja mati matsnefndar eignarnámsbóta varðandi gripa- og útihús.

5. Stefnendur halda því fram að dómkvaddir matsmenn hafi metið allt heimaland Geitaskarðs sem stefnandi telji í matsbeiðni vera 1382 hektara að stærð. Stefndu byggja á því að þeir hafi ekki fengið innleyst útskiptu heimalandi jarðarinnar. Framsetning í matsbeiðni sé því villandi og forsendur matsins rangar. Stefndu halda því fram að í úrskurði landbúnaðarráðherra og í mati matsnefndar eignarnámsbóta hafi ekki verið talað um það land sem tilheyrir Skarðsskarði og Tungubakka sem heimaland. Þetta land sé afréttur og nýtt sem slíkt og fráleitt að meta það sem heimaland í hefðbundnum skilningi þess orðs. Tilgreining á stærð heimalands í matsgerð sé því röng sem síðan endurspeglist í rangri niðurstöðu í matinu. Þá telja stefndu ófært að meta urð og grjót sem beitiland. Stefndu lýsa þeirri skoðun sinni að óvíst sé að þau eigi meiri rétt en beitarafnot á hluta þess lands sem metið var og byggja þá skoðun sína á nýlegum úrskurðum Óbyggðanefndar. Stefndu halda því fram að land sem tilheyrir Skarðsskarði og Tungubakka hafi verið metið í mati matsnefndar eignarnámsbóta ásamt veiði- og vatnsréttindum í Laxá og Norðurá. Nefndin hafi talið landið nýtanlegt sem beitiland og metið það að meðtöldum veiðiréttindum á 1.200.000 krónur. Dómkvaddir matsmenn fimmfaldi þetta verð og meti landið á 6.000.000 króna. Niðurstaða þeirra sé órökstudd og raunar hærri en söluverð bújarða, með vélum og framleiðslurétti, í nágrenni Geitaskarðs. Telja stefndu sem fyrr að mat dómkvaddra matsmanna sé óraunhæft og hafi í engu hnekkt niðurstöðu matsnefndarinnar.

6. Af hálfu stefndu er því haldið fram að því sé ranglega haldið fram í matsgerð að veiðiréttindi í Laxá og Norðurá hafi ekki verið metin af matsnefnd eignarnámsbóta en eins og áður er getið tók nefndin tillit til þessara réttinda í mati sínu. Þessu mati nefndarinnar hafi ekki verið hnekkt en mat dómkvaddra matsmanna sé byggt á röngum forsendum og því verði að hafna því.

7. Stefndu byggja á því að þegar hafi verið dæmt um kröfur stefnanda vegna hlutdeildar í greiðslumarki mjólkur, sbr. dómur Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 279/2000. Með þeim dómi hafi stefnandi fengið dæmdar bætur vegna sölu greiðslumarks í mjólk frá jörðinni. Þær kröfur hafi fyrir löngu verið gerðar upp að fullu. Stefndu halda því fram að stefndi geti ekki nú, mörgum árum síðar, haft uppi sömu eða nátengdar kröfur sem hann hefði átt að hafa uppi í fyrra dómsmáli, sbr. m.a. 116. gr. laga um meðferð einkamála. Með því að hafa þessa kröfu ekki með í fyrra málinu, ef eitthvað stóð eftir, hafi hann fyrirgert rétti sínum til að gera slíka kröfu nú.

Stefndu hafna því að stefnandi geti átt rétt til hlutdeildar í beingreiðslum vegna mjólkurframleiðslu stefndu. Um slíkar greiðslur hafi ekki verið fjallað í nefndum dómi Hæstaréttar sem stefnandi virðist þó byggja rétt sinn á. Dæmt hafi verið að greiðslumark tilheyrði lögbýli og stefnandi hafi fengið greitt í samræmi við dóminn. Stefndu reisa kröfur sínar á því að um beingreiðslur gildi annað en greiðslumark. Í tilvitnuðum dómi Hæstaréttar segi svo:  ,,Framleiðandi, hvort sem það er eigandi eða leiguliði á lögbýli fær bein greiðslu í samræmi við greiðslumark þess á meðan á framleiðslu stendur.“ Að mati stefndu komi þarna skýrt fram að rétturinn til beingreiðslna sé bundinn við framleiðanda. Beingreiðsluréttur fylgi því ekki lögbýlinu eins og stefnandi virðist halda fram að segi í títtnefndum dómi. Í þessu sambandi benda stefndu á að stefnandi eða bræður hans hafa aldrei átt aðild að búrekstri á jörðinni. Auk þessa halda stefndu því fram að tilvísun stefnanda til ákvæða 52. og 54. gr. laga um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum nr. 99/1993 eigi ekki við í þessu máli. Í X. kafla laganna séu ákvæði um að beingreiðslur eigi alfarið að renna til framleiðanda mjólkur. Enda séu beingreiðslur stuðningur við mjólkurframleiðslu samkvæmt tilgangi og markmiði nefndra búvörulaga. Í 1. gr. laganna sé tekið fram að markmið laganna sé að jafna sem best kjör þeirra sem stunda landbúnað við kjör annarra stétta. Í 55. gr. laganna segi að beingreiðsla sé stuðningur við framleiðslu og markað fyrir mjólkurafurðir. Auk þessa séu ákvæði í 28. gr. laganna þess efnis að greiðslur séu lagðar til framleiðanda fyrir innlagðar búvörur og í 51. gr. sé tekið fram að tilgangur með beingreiðslum sé stuðningur við framleiðendur. Stefnandi framleiði ekki búvörur og eigi því ekki rétt til beingreiðslna. Að mati stefndu breytir niðurstaða dómkvaddra matsmanna ekki þeirri staðreynd að stefndu eigi ekki rétt til beingreiðslna vegna mjólkurframleiðslu, enda hafi hann eða bræður hans aldrei verið mjólkurframleiðendur.

Stefndu byggja á því að almenna skaðabótareglan eigi ekki við í þessum þætti málsins. Engin saknæm eða ólögmæt háttsemi stefndu hafi valdið stefnanda tjóni. Þau hafi hætt mjólkurframleiðslu á Geitaskarði vegna þess að fyrirséður kostnaður við endurbætur bygginga var svo mikill að ekki borgaði sig að ráðast í hann til að halda framleiðslu mjólkur áfram. Þess vegna hafi verið eðlilegt af stefnendum að selja greiðslumarkið frá jörðinni.

Stefndu halda því fram að ef þessi liður kröfu stefnanda verði tekinn til greina beri að horfa til 2. mgr. 27. gr. laga um meðferð einkamála við ákvörðun málskostnaðar vegna hans. Loks telja stefndu að ákvæði 2. mgr. 116. gr. nefndra laga um meðferð einkamála leiði til þess að þessum kröfulið skuli vísað frá dómi ella beri að sýkna þá af honum.

8. Stefndu hafna því að stefnandi geti átt hlutdeild í beingreiðslum vegna fullvirðisréttar í ærgildum. Ekki hafi verið fjallað um slíkar greiðslur í dómi Hæstaréttar sem áður er nefndur nr. 279/2000 en stefndu telja að stefnandi byggi rétt sinn í þessu tilviki á þeim dómi. Um beingreiðslur fyrir kindakjöt vísa stefndu til sömu raka og þegar hafa verið talin varðandi beingreiðslur sem miðast við framleiðslu á mjólk. Þá benda stefndu máli sínu til stuðnings á 28., 36., 38. og 39. gr. laga um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum. Í 38. gr. sé tekið fram að á hverju lögbýli skuli einungis vera einn framleiðandi sem skráður sé handhafi beingreiðslna. Þegar um sé að ræða fleiri sjálfstæða rekstraraðila með aðskilinn búrekstur geti hver þeirra verið skráður handhafi beingreiðslna. Í 39. gr. laganna séu ákvæði sem mæli fyrir um hver geti verið handhafi beingreiðslna. Til að fá beingreiðslur þurfi handhafi að eiga að lágmarki 0,6 vetrarfóðraðar kindur fyrir hvert ærgildi greiðslumarks árið 2001. Stefnandi, sem aldrei hafi átt neina aðild að búrekstri á jörðinni og hafi þar af leiðandi ekki verið framleiðandi í skilningi laganna, geti því ekki verið handhafi beingreiðslna, enda yrði slíkt í andstöðu við tilgang laganna sem hafi stefnt að því að bæta afkomu sauðfjárbænda. Auk þessa vísa stefndu til 10. gr. ábúðarlaga nr. 80/2004, sbr. 24. gr. eldri ábúðarlaga nr. 64/1976.

9. Varðandi kröfu um bætur fyrir tapaða húsaleigu þá mótmæla stefndu því harðlega að stefnandi geti átt slíka kröfu. Til að stefnandi gæti átt slíka kröfu þurfi að vera fyrir hendi samningsbundinn réttur. Slíkur réttur sé ekki til staðar. Hinn 1. maí 1986 hafi stefnandi og bræður hans gert leigusamning við stefnda Ágúst um eignarhlut þeirra í íbúðarhúsinu. Stefnandi og bræður hans hafi sameiginlega verið leigusali en leigusamningurinn hafi mælt fyrir um að hlutur stefnanda og bræðra hans væri leigður gegn því að stefndu greiddu skatta og gjöld af eigninni. Önnur greiðsla hafi ekki átt að koma fyrir hið leigða. Stefnandi og einn bræðra hans hafi reynt að segja samningnum upp 29. september 1997. Uppsögninni hafi verið hafnað sem marklausri af lögmanni stefndu með bréfi dagsettu 17. október 1999. Að mati stefndu hafi tveir af sex sameigendum ekki getað sagt samningnum upp svo bindandi væri fyrir þá alla. Benda stefndu á meginreglur samninga- og kröfuréttar um samaðild að eignarrétti og einnig til hliðsjónar 18. gr. laga um meðferð einkamála.

Stefndu benda einnig á að umræddur eignarhluti hafi alfarið komist í eigu þeirra með lögmætum hætti eftir að greitt hafði verið fyrir hlutann samkvæmt ákvörðun matsnefndar eignarnámsbóta þann 10. júní 2002. Stefnandi geti því alls ekki átt rétt á húsaleigu eftir þann tíma. Auk þessa telja stefndu sem fyrr að eignarhluti stefnanda og bræðra hans hafi aldrei verið íbúð í venjulegum skilningi þess orðs og alls ekki mögulegt að leigja eignarhlutann á almennum markaði eins og gert sé ráð fyrir í mati dómkvaddra matsmanna. Forsendur sem gefnar hafi verið í matsbeiðni hafi verið rangar og því leitt til rangrar niðurstöðu matsmanna. Af þessum sökum sé ekki unnt að byggja á matinu hvað þetta varðar, sbr. 44. gr. og 2. mgr. 66. gr. laga um meðferð einkamála.

Loks telja stefndu, hvað þennan lið kröfu stefnanda varðar, fjarstæðukennt að krefja um leigugreiðslur fyrir sjö ár. Krafa um vangreidda húsaleigu geti ekki verið skaðabótakrafa og engar forsendur til að halda slíku fram. Slík krafa teljist fjárkrafa sem fyrnist á fjórum árum eftir að hún er gjaldkræf, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda nr. 14/1905.

          Varakröfu sína um lækkun krafna stefnanda styðja stefndu sömu rökum og rakin hafa verið varðandi kröfu um sýknu. Í þessu tilfelli er þess krafist að dómurinn taki tillit til eðlilegs markaðsverðs fyrir hina innleystu eignarhluta sem og annarra kröfuliða sem stefnandi setur fram í málinu. Í því sambandi verði höfð hliðsjón af verðmati matsnefndar eignarnámsbóta svo og þeim gögnum sem stefndu hafa lagt fram í málinu.

          Hvað lagarök varðar vísa stefndu meðal annars til 18., 27., 80., 116. og 129-130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991; 17. gr. laga um framkvæmd eignarnáms nr. 11/1973; laga um skráningu og mat fasteigna nr. 6/2001, sbr. áður lög nr. 94/1976; 1., 28., 36., 39., 51., 52., 54. og 55. gr. laga um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum nr. 99/1993; 10. gr. ábúðarlaga nr. 80/2004, sbr. einnig 24. gr. eldri laga um sama efni nr. 64/1976; 3. gr. laga um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda nr. 14/1905; III. og IV. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 og laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988. Auk þess vísa stefndu til meginreglna leiguréttar um heimildir til eðlilegs viðhalds á sameiginlegum lögnum, meginreglna samninga- og kröfuréttar um sameignir, meginreglna kröfuréttar um brottfall réttinda fyrir tómlæti og eðli máls.

          Hvað varðar kröfu stefnanda um dráttarvexti telja stefndu að slíka vexti skuli ekki reikna fyrr en frá dómsuppsögu eða frá þingfestingu málsins. Styðja stefndu þá kröfu við III. og IV. kafla nefndra laga um vexti og verðtryggingu.

          Kröfu sína um málskostnað að skaðlausu reisa stefndu á 129.-131. gr. laga um meðferð einkamála og krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun styðst við lög nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

          Stefndu krefjast málskostnaðar í samræmi við reikning sem lagður verður fram við aðalmeðferð málsins ef til hennar kemur. Stefndu byggja á því að umfang málsins sé mun meira en fjárhagslegir hagsmunir gefa til kynna. Þá telja stefndu stefnanda hafa verið ósamvinnuþýðan í garð þeirra og hann hafi sótt málið af óvægni, ósanngirni og óbilgirni. Í því sambandi benda stefndu á eftirfarandi ummæli í matsgerð matsnefndar eignarnámsbóta: ,,Af hálfu [stefnanda og bræðra hans] hefur mál þetta og aðrar þrætur því tengdar verið sótt af miklu kappi. Þannig hefur verið gerður ágreiningur um fjölmörg atriði, sum smávægileg og langsótt, að mati nefndarinnar.“ Telja stefndu því að sterk rök liggi til þess að álag verði greitt ofan á málskostnað, sbr. 2. mgr. 131. gr. sbr. 4. mgr. sömu greinar laga um meðferð einkamála.

IV

Niðurstaða

Kröfugerð stefnanda er í nokkrum liðum og má skipta í tvo flokka. Annars vegar er um að ræða kröfur í fjórum liðum sem hann telur að hafi verið vanmetnar af matsnefnd eignarnámsbóta. Hins vegar eru kröfur í sex liðum sem hann kveður matsnefndina ekki hafa tekið til umfjöllunar.

Stefnandi fékk kröfu Þorbjörns bróður síns á hendur stefndu framselda hinn 14. maí 2005 og gerir hann í þessu máli kröfu fyrir þeim hluta líka. Hinn 10. júní 2002 greiddu stefndu stefnanda og bræðrum hans það sem þeim bar samkvæmt ákvörðun matsnefndar eignarnámsbóta. Í kröfugerð sinni dregur stefnandi þessa fjárhæð frá kröfum á hendur stefndu, samtals 504.204 krónur, og hefur hann þá einnig dregið frá þá fjárhæð sem kom í hlut Þorbjörns bróður hans.

Við úrlausn málsins verður leyst sérstaklega úr hverjum lið kröfu stefnanda.

Í fyrsta lagi krefst stefnandi bóta úr hendi stefndu að fjárhæð 350.000 krónur vegna eignarhluta síns í íbúðarhúsi. Matsnefnd eignarnámsbóta mat þennan eignarhluta stefnanda á 166.666 krónur. Stefnandi heldur því fram að með mati dómkvaddra matsmanna hafi honum tekist að hnekkja niðurstöðu matsnefndar eignarnámsbóta. Hér verður að horfa til þess að í matsbeiðni er þess óskað að matsmenn meti matsandlagið á ,,almennu markaðsverði eins og það geti orðið hæst.“ Þetta gerðu matsmenn og í matsgjörð mátu þeir fyrst jörðina sem eina heild og síðan áætluðu þeir verðmæti hvers matshlutar eins og óskað var í matsbeiðni. Komust hinir dómkvöddu matsmenn að þeirri niðurstöðu að heildarverðmæti jarðarinnar væri 54.000.000 króna án greiðslumarks í aprílmánuði 2005. Hér verður að horfa til þess að krafa stefnanda varð til við uppkvaðningu úrskurðar matsnefndar eignarnámsbóta 9. maí 2002. Var stefnanda því rétt að óska þess við hina dómkvöddu matsmenn að þeir mætu eignarhluta hans í íbúðarhúsi á verðlagi þess árs en ekki ársins 2005. Alkunna er að jarðaverð hefur hækkað mikið á undanförnum árum án þess að fyrir liggi hversu mikið það hækkaði frá árinu 2002 til ársins 2005. Þar sem ekkert tillit er tekið til þessa er það mat dómsins að stefnanda hafi ekki tekist að hnekkja mati matsnefndar eignarnámsbóta með matsgjörðinni. Verða stefndu því sýknuð af kröfu stefnanda um hækkun þessa kröfuliðar frá því sem ákveðið var af matsnefnd eignarnámsbóta. 

Í öðru lagi krefst stefnandi bóta fyrir eignarhluta sinn í útihúsum að fjárhæð 166.400 krónur. Matsnefnd eignarnámsbóta mat eignarhluta stefnanda í úthúsum að fjárhæð 34.435 krónur. Hér á það sama við og rakið er að framan um það tímamark sem miðað er við í matsgjörðinni. Dómkvaddir matsmenn meta útihús sem hlutfall af heildarverðmæti jarðarinnar en það mat þeirra miðaðist við verðlag ársins 2005. Hefur stefnanda því ekki tekist að hnekkja mati matsnefndar eignarnámsbóta hvað þennan lið varðar. Þá er og rétt að hafa í huga að dómkvaddir matsmenn hafa ekkert við lýsingu matsnefndar eignarnámsbóta á útihúsunum að athuga en sú lýsing er í aðalatriðum á þann veg að útihúsin séu nánast ónýt. Verða stefndu því sýknuð af kröfu stefnanda um hækkun þessa kröfuliðar frá því sem ákveðið var af matsnefnd eignarnámsbóta. 

Í þriðja lagi er krafist bóta fyrir land Skarðsskarðs og Tungubakka án veiðiréttinda. Hér á það sama við og áður er rakið um þau tímamörk sem miðað er við annars vegar í mati matsnefndar eignarnámsbóta og hins vegar í mati dómkvaddra matsmanna. Stefnanda hefur því ekki tekist að hnekkja mati matsnefndarinnar hvað þennan lið varðar. Verða stefndu því sýknuð af kröfu stefnanda um hækkun þessa kröfuliðar frá því sem ákveðið var af matsnefnd eignarnámsbóta.  

Í fjórða lagi er krafist bóta fyrir hlutdeild í vatns- og veiðiréttindum í Laxá og Norðurá. Enn á ný á hér það sama við og áður er rakið. Matsnefnd eignarnámsbóta mat þessi réttindi með Skarðsskarði og Tungubakka án þess þó að gera sérstaklega grein fyrir því hvers virði þessi réttindi eru. Dómkvaddir matsmenn meta þessi réttindi sem hluta af heildarverðmæti jarðarinnar eins og það var í júlí 2005. Stefnanda hefur því ekki tekist að hnekkja mati matsnefndarinnar. Verða stefndu því sýknuð af kröfu stefnanda samkvæmt þessum lið.

Þeir kröfuliðir sem hér koma á eftir voru að sögn stefnanda ekki metnir af matsnefnd eignarnámsbóta.

Í fimmta lagi krefst stefnandi bóta úr hendi stefndu vegna kostnaðar við að koma ,,íbúð“ í upprunalegt horf. Með úrskurði landbúnaðarráðuneytisins hinn 10. júlí 2001 var stefndu heimiluð innlausn á hluta stefnanda og bræðra hans í íbúðarhúsinu að Geitaskarði. Í máli þessu er ekki deilt um lögmæti úrskurðarins þó svo stefnandi hafi verið ósáttur við hann. Matsnefnd eignarnámsbóta mat íbúðarhúsið til verðs eins og henni bar að gera. Ekki verður fallist á með stefnanda að hann eigi rétt á bótum sem nema kostnaði við að koma hluta íbúðarhússins í það horf sem það var í um 1987 en ekki er um það deilt að á þeim tíma gerðu stefndu breytingar á efri hæð hússins. Ef stefnandi telur að verðmæti hússins hafi minnkað við þessar breytingar bar honum að fara þess á leit við hina dómkvöddu matsmenn að þeir mætu til verðs mismun á verðmæti hússins fyrir og eftir breytingar. Það hafa þeir ekki gert og er því ósannað að verðmæti hússins hafi rýrnað við þessar breytingar. Þá er og ósannað að sérstök verðmæti séu fólgin í eldavél og vaski sem stefndu virðast hafa fargað fyrir 20 árum. Hér verður einnig að hafa í huga að varðandi þessa kröfu sýndi stefnandi af sér verulegt tómlæti. Þegar stefnandi sagði upp leigusamningi um íbúðarhúsið í lok árs 1997 voru liðin nærri 10 ár frá því að stefndu gerðu þessar breytingar á íbúðarhúsinu.

Í sjötta lagi krefst stefnandi bóta fyrir hlut sinn í beingreiðslum greiðslumarks mjólkur. Byggir stefnandi kröfu sína á mati dómkvaddra matsmanna en þeir gerðu í mati sínu ráð fyrir að greiðslumark það sem var á jörðinni fram til ársins 1997 væri þar enn til staðar. Í framhaldi af því reiknuðu þeir út hversu háar beingreiðslur hefðu komið í hlut framleiðanda á Geitaskarði árin 2001 til og með 2004. Í 47. gr. laga nr. 99/1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum segir að beingreiðsla sé framlag úr ríkissjóði til framleiðanda mjólkur og að hún skuli svara til 47,1% af framleiðslukostnaði mjólkur samkvæmt verðlagsgrundvelli á innleggsdegi. Hún greiðist samkvæmt greiðslumarki hvers lögbýlis. Það er því framleiðandi, hvort sem hann er eigandi eða leiguliði á lögbýli, sem fær beingreiðslu í samræmi við greiðslumark lögbýlisins meðan á framleiðslu stendur. Stefnandi hefur aldrei verið mjólkurframleiðandi á Geitaskarði og hefur því aldrei átt rétt til beingreiðslna úr ríkissjóði. Verða stefndu því sýknuð af þessari kröfu stefnanda.

Í sjöunda lagi krefst stefnandi hlutdeildar í beingreiðslum fullvirðisréttar í kindakjöti fyrir árið 2004. Hér á það sama við og rakið er að framan um beingreiðslur vegna mjólkurframleiðslu. Í 40. gr. nefndra laga nr. 99/1993 segir að beingreiðsla sé framlag úr ríkissjóði til framleiðenda sauðfjárafurða og sem skuli svara til 50% af framleiðslukostnaði kindakjöts. Það greiðist samkvæmt greiðslumarki hvers lögbýlis. Það er því framleiðandi kindakjötsins hverju sinni sem á rétt til beingreiðslna úr ríkissjóði í samræmi við greiðslumark jarðarinnar. Stefnandi hefur ekki stundað framleiðslu á kindakjöti á Geitaskarði og getur því ekki krafið stefndu um bætur vegna þess og eru stefndu sýknuð af þessari kröfu stefnanda.

Í áttunda lagi krefst stefnandi bóta vegna hlutdeildar í beingreiðslum fullvirðisréttar í kindakjöti fyrir árin 2001, 2002 og 2003. Með vísan til þess sem rakið er hér að framan um sjöunda kröfulið stefnanda eru stefndu sýknuð af þessari kröfu stefnanda.

Í níunda lagi krefst stefnandi bóta vegna hlutdeildar sinnar í ærgildum fullvirðisréttar í kindakjöti. Hér verður að miða við að stefnandi krefjist hlutdeildar í greiðslumarki Geitaskarðs vegna sauðfjárframleiðslu, enda er krafan, og rökstuðningur fyrir henni, þannig fram sett. Stefnandi krafðist þess af matsnefnd eignarnámsbóta að nefndin mæti til verðs fullvirðisrétt í kindakjöti. Nefndin taldi hins vegar að henni bæri ekki að fjalla um kröfuréttindi innlausnarþola er vörðuðu hlutdeild í ærgildum og/eða fullvirðisrétti í kindakjöti og fleiri kröfur sem innlausnarþolar settu fram hjá nefndinni, en um sumar þeirra hefur verið fjallað hér að framan. Fyrir liggur að Hæstiréttur Íslands hefur ítrekað í dómum sínum dæmt að með greiðslumarki hafi skapast takmarkaður réttur til handa framleiðendum búvara, sem geti haft fjárhagslega þýðingu fyrir þá. Þá hefur rétturinn ítrekað dæmt að greiðslumark fylgi lögbýlum. Í þessu sambandi má t.d. benda á dóm réttarins í máli nr. 279/2000 er varðaði sölu á greiðslumarki í mjólk frá Geitaskarði en aðilar þessa máls voru ásamt fleirum aðilar að því máli. Stefndu hafa innleyst eignarhluta stefnanda í jörðinni og á hann því ekki lengur hlut í lögbýlinu Geitaskarði. Rétt eins og þegar greiðslumark mjólkur var selt frá Geitaskarði á sínum tíma og nefnt Hæstaréttarmál nr. 279/2000 fjallar um þá á stefnandi kröfu til að fá greitt fyrir greiðslumark í sauðfé sem fylgir jörðinni. Í matsgjörð dómkvaddra matsmanna kemur fram að 48,3 ærgildi hafi tilheyrt býlinu í apríl 2005. Verðmæti hvers ærgildis sögðu þeir vera 29.000 krónur en þær upplýsingar fengu þeir frá Bændasamtökunum. Ekki þykir óvarlegt að leggja þessar tölur til grundvallar í máli þessu og verður krafa stefnanda hvað þennan lið varðar, að fjárhæð 116.538 krónur (58.269 x 2), tekin til greina að fullu. Hér er rétt að geta þess að í greinargerð stefndu var ekkert fjallað um þennan kröfulið stefnanda og því ekki sett fram nein rök fyrir því að hafna ætti þessari kröfu stefnanda. Dráttarvextir skulu reiknast á kröfuna frá birtingu stefnu hinn 18. ágúst 2005.

Í tíunda og síðasta lagi krefst stefnandi bóta fyrir töpuð afnot af séreignaríbúð stefnanda sjö ár aftur í tímann. Fjárhæð kröfunnar miðar stefnandi við mat hinna dómkvöddu matsmanna. Hinn 1. maí 1986 gerði stefnandi ásamt fimm bræðrum sínum leigusamning við stefnda Ágúst um leigu á hlut þeirra bræðra í íbúðarhúsinu að Geitaskarði. Samningurinn var ótímabundinn en uppsegjanlegur af beggja hálfu með þriggja mánaða fyrirvara ella framlengdist hann um eitt ár í senn. Með símskeyti hinn 29. september 1997 sögðu stefnandi og einn bræðra hans leigusamningi þessum upp með þriggja mánaða fyrirvara. Lögmaður stefndu sendi stefnanda og Jóni bróður hans bréf dagsett 13. október 1997 þar sem uppsögninni er mótmælt með þeim rökum að þar sem eignarhlutinn sé í óskiptri sameign þurfi allir sameigendurnir að standa að uppsögn leigusamningsins til að uppsögnin teljist gild. Fallast verður á þetta sjónarmið lögmannsins. Stefnandi og Magnús bróðir hans gátu ekki án samþykkis annarra sameigenda sinna sagt upp leigusamningi sem þeir höfðu allir gert á árinu 1986. Uppsögn leigusamningsins var því ekki bindandi fyrir stefndu. Samkvæmt þessu var leigusamningur stefndu við stefnanda og bræður hans í fullu gildi allt þar til stefndu var heimilað að leysa til sín eignarhluta stefnanda og bræða hans í íbúðarhúsinu. Þegar af þessari ástæðu getur stefnandi ekki krafist bóta úr hendi stefndu fyrir tjón sem hann telur sig hafa orðið fyrir við að geta ekki nýtt eignarhluta sinn í íbúðarhúsinu. Verða stefndu því sýknuð af þessari kröfu stefnanda.

Með hliðsjón af niðurstöðu málsins verður stefnandi dæmdur til að greiða stefndu málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 186.750 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Við ákvörðun málskostnaðar í þessu máli er tekið tillit til þess að tvö önnur sams konar mál voru rekin fyrir dóminum á sama tíma og dæmd í dag. Einnig er tekið tillit til þess að hinn 15. febrúar sl. var kröfu stefndu um frávísun málsins hafnað en ákvörðun um málskostnað í þeim þætti málsins var látin bíða efnisdóms. Ekki eru efni til að taka til greina kröfu stefndu um að stefnanda beri að greiða sérstakt álag á málskostnað.

Halldór Halldórsson dómstjóri kveður upp dóm þennan. Dómsuppsaga hefur dregist vegna anna dómarans en lögmenn aðila hafa lýst því yfir að þeir telji ekki þörf á endurflutningi málsins af þeim sökum.

DÓMSORÐ

Stefndu, Ágúst Sigurðsson og Ásgerður Pálsdóttir, greiði stefnanda Magnúsi Birni Brynjólfssyni 116.538 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 18. ágúst 2005 til greiðsludags.

Stefnandi greiði stefndu 186.750 krónur í málskostnað að meðtöldum virðisaukaskatti.