Hæstiréttur íslands

Mál nr. 512/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Miðvikudaginn 9

 

Miðvikudaginn 9. september 2009.

Nr. 512/2009.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Björgvin Jónsson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari. 

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. september 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. september 2009, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 2. október 2009 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Varnaraðili hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 13. ágúst 2009.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur föstudaginn 4. september 2009.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði X, kt. [...], til að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 2. október nk. kl. 16:00.

Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að kvöldi miðvikudagsins 12 ágúst sl. hafi kærði verið handtekinn, ásamt tveimur samverka­mönnum, þar sem þeir hafi verið staðnir að verki við innbrot að Y í Reykjavík og þeir haft fangið fullt af þýfi, þegar lögreglan kom að þeim, sem þeir höfðu tekið úr íbúðinni við Y.  Kærði hafi verið einn af þessum aðilum sem lögregla stóð að verki og verið í framhaldinu handtekinn grunaður um þjófnað úr íbúðinni ásamt þeim A og B. Við yfirheyrslu hjá lögreglu hafi kærði játað innbrotið við Y.

Lögregla hafi kærða undir grun um að tilheyra hópi manna af erlendum upp­runa sem hafi verið mjög virkur í innbrotum á höfuðborgarsvæðinu að undanförnu. Fimmtudaginn 20. ágúst sl. hafi lögregla farið í húsleit á dvalarstað kærða að Z í Kópavogi við þá leit fundist mikið magn af þýfi og fíkniefni og hafi lögregla þegar rakið hluta þess þýfis til annarra innbrota.

Í þágu rannsóknar málsins hafi kærði sætt gæsluvarðhaldi frá 14. ágúst sl., nú síðast með dómi Hæstaréttar Íslands nr. 493/2009.

Þann 30. desember 2008 hafi lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu gefið út ákæru á hendur kærða í þremur liðum. Ákæran hafi hins vegar verið send til baka úr héraðsdómi þar sem talið hafi verið að kærði væri farinn af landi brott og þeim málum sé því ekki lokið. Í þeirri ákæru hafi  kærði verið ákærður fyrir eftirfarandi brot:

007-2008-14774

Fyrir þjófnað, með því að hafa þriðjudaginn 26. febrúar 2008 í félagi við annan mann, í verslun Nettó í Þönglabakka í Reykjavík, stolið matvörum að óþekktu verðmæti, en kærði og samverkamaður hans settu matvörurnar í tvær körfur sem þeir gengu með út úr versluninni án þess að greiða fyrir þær.

007-2008-14828

Fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa ekið bifreiðinni Þ, fimmtudaginn 28. febrúar 2008 á Hafnarfjarðarvegi við Vífilstaðaveg í Garðabæ án þess að hafa öðlast ökuréttindi.

007-2008-22920

Fyrir þjófnað, með því að hafa mánudaginn 31. mars 2008 farið í heimildarleysi inn í bifreiðina Æ við Ö í Reykjavík og stolið þaðan íþróttatösku en í töskunni var m.a. íþróttafatnaður, íþróttaskór, gullarmbandsúr af gerðinni Mixon og veski sem innihélt snyrtivörur og debetkort.

Að auki sé kærði sterklega grunaður um aðild að neðangreindum málum:

007-2009-37866

Fyrir þjófnað, með því að hafa mánudaginn 22. júní sl., í félagi við annan mann brotist inn í bifreiðina R, sem stóð í bifreiðastæði við Garðastræti í Reykjavík, með því að brjóta rúðu og stolið þaðan Garmin GPS tæki og 2 stk. svartar buddur sem innihéldu smámynt. Vitni hafi séð kærða og samverkamann hans flýja af vettvangi á bifreiðinni S og skömmu síðar hafi lögregla stöðvað bifreiðina og þar verið að finna kærða og þýfið.

007-2009-37842

Fyrir hylmingu, með því að hafa mánudaginn 22. júní sl., þegar kærði var handtekinn vegna máls nr. 37866, haft í vörslum sínum Kodak myndavél Sony Ericson farsíma og tvær barnatöskur, þrátt fyrir að kærða hafi verið ljóst að um þýfi var að ræða og þannig haldið mununum ólöglega fyrir eigandanum, en umræddum munum hafði verið stolið úr bifreiðunum T og U sem stóðu við bifreiðastæði Háskólabíós í Reykjavík þann sama dag. Kærði hafi ekki getað skýrt út hvers vegna þessir munir voru í vörslum hans.

007-2009-39529

Fyrir þjófnað, með því að hafa aðfaranótt föstudagsins 26. júní sl., í félagi við annan mann brotist inn í herbergi á gistiheimilinu [...] við Ú í Reykjavík með því að fara inn um glugga á húsnæðinu og stolið þaðan skartgripum, fatnaði, Charlton ferðatösku sem innihélt ýmsa smámuni og 1200 norskar krónur. Samverkamaður kærða hafi borið vitni um það hjá lögreglu að kærði hafi brotist þarna inn og samverkamaður hans staðið vörð á meðan. Kærði neiti hins vegar sök.

007-2009-39476

Fyrir þjófnað, með því að hafa aðfaranótt föstudagsins 26. júní sl. í félagi við annan mann brotist inn í íbúðarhúsnæði að V í Reykjavík með því að spenna upp stormjárn á glugga og stolið þaðan 600 evrum, 167.000 íslenskum krónum, fartölvu og Canon myndavél. Fingraför hafi fundist á vettvangi af samverkamanni kærða sem gaf þann framburð hjá lögreglu að hann hefði verið í öðru innbroti sömu nótt með kærða. Kærði neiti sök í málinu.

007-2009-43138

Fyrir þjófnað, með því að hafa þriðjudaginn 14. júlí sl. í félagi við tvo aðra menn brotist inn í tvö leiguherbergi við M í Reykjavík og stolið þaðan svörtum i-pod, Zepto fartölvu, hleðslutæki fyrir fartölvu, Nova netpungi, farsíma, snyrtivörum, dart keppnispílum og 3 stk. skyrtum að verðmæti kr. 224.200. Kærði kveðst ekki hafa brotist inn og stolið þessum munum. Vitni hafi verið að því þegar kærði ásamt tveimur öðrum mönnum brutust inn í húsnæðið og staðfest við lögreglu að þeir aðilar sem lögregla væri með í haldi væru innbrotsþjófarnir.

007-2009-45507

Fyrir þjófnað, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 26. júlí sl. í félagi við annan mann brotist inn í íbúð að N í Mosfellsbæ og stolið þaðan 2 stk. fartölvum af gerðinni Mac Pro og Dell, Playstation 3 fartölvu, PSP leikjatölvu og United flatskjássjónvarpi. Kærði neiti sök. Vitni hafi séð bifreiðina S aka af vettvangi um nóttina og sé þessi bifreið í eigu kærða, skömmu eftir að tilkynnt var um innbrotið hafi lögregla fundið bifreiðina í Mosfellsbæ þar sem mest allt þýfið úr innbrotinu var og kærði einnig fundist í íbúðarhúsnæði þar sem bifreiðin var staðsett. Þá hafi eitt vitni gefið þann framburð hjá lögreglu að kærði hafi viðurkennt það fyrir sér að hafa brotist þarna inn.

007-2009-46547

Fyrir hylmingu, með því að hafa fimmtudaginn 20. ágúst sl. haft í vörslum sínum mikið magn af skartgripum og fatnaði sem stolið hafi verið í innbroti við O í Garðabæ föstudaginn 31. júlí sl., þrátt fyrir að kærða hafi verið ljóst að um þýfi var að ræða og þannig haldið mununum ólöglega fyrir eigandanum. Kærði hafi viðurkennt að hafa keypt þessa muni af C og að hann hafi vitað að um þýfi væri að ræða. Lögregla hafi fundið þessa muni við húsleit að Z í Kópavogi sem sé dvalarstaður kærða.

007-2009-47917

Fyrir hylmingu, með því að hafa fimmtudaginn 20. ágúst sl. haft í vörslum sínum fæðubótarefni sem stolið hafði verið í innbroti í versluninni Ó við P í Reykjavík aðfaranótt föstudagsins 7. ágúst sl. þrátt fyrir að kærða hafi verið ljóst að um þýfi væri að ræða og þannig haldið mununum ólöglega fyrir eigandanum. Kærði hafi ekki viljað tjá sig um málið. Lögregla hafi fundið þessa muni við húsleit að Z í Kópavogi.

007-2009-48170

Fyrir hylmingu, með því að hafa fimmtudaginn 20. ágúst sl. haft í vörslum sínum skartgripi sem stolið hafði verið í innbroti í íbúðarhúsnæði við H í Reykjavík laugardaginn 8. ágúst sl. þar sem hafði verið stolið skartgripum auk annarra heimilistækja, þrátt fyrir að kærða hafi verið ljóst að um þýfi var að ræða og þannig haldið mununum ólöglega fyrir eigandanum. Lögregla hafi fundið þessa muni við húsleit á dvalarstað kærða. Kærði hafi sagt við skýrslutöku hjá lögreglu að allt gull sem hafi fundist heima hjá honum að Z í Kópavogi hafi hann keypt af C, vitandi að um þýfi væri að ræða.

007-2009-48566

Fyrir þjófnað og fíkniefnalagabrot, með því að hafa mánudaginn 10. ágúst sl. brotist inn í safnaðarheimili [...]kirkju við I í Reykjavík með því að spenna upp stormjárn á glugga safnaðarheimilisins og stolið þaðan stafrænni myndavél, greiðslukorti og 7- 8 þúsund krónum í reiðufé og með því að hafa haft í vörslum sínum að Z í Kópavogi 1 stk. kannabisplöntu sem lögregla hafi fundið við húsleit þann 20. ágúst sl. Kærði neiti sök í þessu máli hvað varði þjófn­aðinn en játi vörslu kannabisplöntunnar. Samverkamaður kærða sem hafi viðurkennt þjófnaðinn að I hafi bent á kærða sem samverkamann og þá séu einnig til myndir úr hraðbanka þar sem megi sjá þrjá menn vera misnota greiðslukortið sem var stolið og telji lögregla að þar megi sjá kærða á vettvangi.

Með vísan til gagna málsins og framburðar kærða hjá lögreglu sé ljóst að hann sé undir rökstuddum grun um að hafa framið fjölmörg afbrot, sem fangelsisrefsing sé lögð við.  Þá verði að telja, í ljósi brotaferils hans, yfirgnæfandi líkur fyrir því að hann muni halda áfram afbrotum gangi hann frjáls ferða sinna. 

Það sé mat lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að lagaskilyrðum síbrota­gæslu séu fullnægt og því nauðsynlegt að kærða verði gert að sæta áfram gæslu­varðhaldi, svo unnt verði að ljúka málum hans hjá lögreglu og dómstólum.

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og c.-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Með vísan til þess sem að framan var rakið úr greinargerð lögreglustjóra og rannsóknargagna málsins er það mat dómsins að kærði sé undir rökstuddum grun um að eiga aðild að fjölmörgum auðgunarbrotum sem þar er gerð grein fyrir. Þegar litið er til þess telur dómurinn að uppfyllt séu skilyrði c liðar 1. mgr. 95. gr. 88/2008 til að verða við kröfu lögreglustjóra um gæsluvarðhald. Með hliðsjón af framangreindu þykja vægari úrræði ekki koma til greina og verður krafan tekin til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.

Greta Baldursdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, kt. [...], skal sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 2. október nk. kl. 16:00.