Hæstiréttur íslands

Mál nr. 209/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Vanreifun
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Þriðjudaginn 24. mars 2015.

Nr. 209/2015.

Grétar Jónsson og

Lilja Grétarsdóttir

(Ásgeir Þór Árnason hrl.)

gegn

Vegagerðinni og

(Gunnar Gunnarsson hrl.)

Borgarverki ehf.

(Jóhannes Ásgeirsson hrl.)

Kærumál. Vanreifun. Frávísunarúrskurður staðfestur.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli G og L á hendur V og B ehf. var vísað frá dómi. Höfðu G og L krafist þess að viðurkennd yrði sameiginleg bótaábyrgð V og B ehf. á tjóni sem þau hefðu orðið fyrir vegna framkvæmda á vegi sem lá í gegnum jörð þeirra og tilgreint var í 11 liðum í kröfugerð þeirra. Þá kröfðust þau þess að V og B ehf. afhentu þeim 60 rúmmetra af möl sem þau héldu fram að teknir hefðu verið í leyfisleysi af landi þeirra. Í úrskurði héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti með vísan til forsendna hans, kom fram að hvorki væri samaðild með V og B ehf. í málinu né heldur væri gerð grein fyrir því á hvaða grundvelli hvorum um sig væri stefnt til að þola dómkröfur G og L. Þá væri sá annmarki á málatilbúnaði G og L að ekki væri gerð grein fyrir því hver væri hlutur V annars vegar og B ehf. hins vegar í þeim 11 tilvikum sem talin væru upp í stefnu og áttu að hafa valdið þeim tjóni. Þóttu kröfur G og L vanreifaðar um þetta í þeim mæli að á skorti að skilyrði e. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála væri fullnægt. Þá þótti ekki ráðið af málatilbúnaði G og L að nægilega væri sýnt fram á að þau hefðu beðið tjón af völdum V og B ehf.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma Markús Sigurbjörnsson hæstaréttardómari og Guðrún Erlendsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 9. mars 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 23. febrúar 2015, sem sóknaraðilar kveðast ekki hafa fengið vitneskju um fyrr en 27. sama mánaðar, en með honum var máli þeirra á hendur varnaraðilum vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar, svo og að varnaraðilum verði gert að greiða kærumálskostnað. Til vara krefjast sóknaraðilar þess að málskostnaður í héraði verði látinn falla niður, en að því frágengnu verði lækkaðar fjárhæðirnar, sem varnaraðilum voru dæmdar með hinum kærða úrskurði.

Varnaraðilar krefjast hvor fyrir sitt leyti staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðilum verður gert að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðilar, Grétar Jónsson og Lilja Grétarsdóttir, greiði varnaraðilum, Vegagerðinni og Borgarverki ehf., hvorum fyrir sig 300.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 23. febrúar 2015.

Mál þetta sem tekið var til úrskurðar um frávísunarkröfu stefndu 31. október 2014 er höfðað með stefnu birtri 7. apríl og 22. apríl 2014.

Stefnendur eru Grétar Jónsson, Hávarsstöðum, Hvalfjarðarstrandarhreppi, og Lilja Grétarsdóttir, sama stað.

Stefndu eru Vegagerðin, Borgartúni 5-7, Reykjavík og Borgarverk ehf., Sólbakka 17-19, Borgarnesi.

I.    Stefnendur krefjast þess sameiginlega að viðurkennd verði með dómi sameiginleg bótaábyrgð stefndu á tjóni stefnenda sem varð í tengslum við vegaframkvæmdir sem hófust árið 2008 á Leirársveitarvegi sem er þjóðvegur númer 504 sem liggur í gegnum jörðina Hávarsstaði í Hvalfjarðarstrandarhreppi í Borgarfjarðarsýslu sem er í eigu stefnenda og nánar er þannig tilgreint;

(1) tjón vegna þess að vestasti hliðstaurinn á vestasta hliðinu sunnan þjóðvegarins 504 þar sem hann liggur í gegnum land Hávarsstaða var brotinn og tjón vegna þess að tveir hliðstaurar á hliðinu við gamla þjóðveginn gengt fjárhúsunum á Hávarsstöðum voru brotnir,

(2) tjón vegna þess að land milli gamla afleggjarans að Hávarsstöðum og gamla þjóðvegarins liggur nú undir vatni í rigningum sem það gerði ekki áður,

3) tjón vegna þess að gert var skarð í árbakka Neðri-Skarðsár sunnan nýja vegarins, utan helgunarsvæðis Vegagerðarinnar, í vesturbakka árinnar, rétt neðan við beygju en í beygju þessari ofan skarðsins er greinileg grjótvörn sem stefndu settu,

(4) tjón vegna þess að girðingar við ræsi í gegnum gamla veginn voru teknar niður,

(5) tjón vegna þess að túnblettur í landi Hávarsstaða sem heitir Stóra flötin og er þar sem beygja á Neðri-Skarðsá kemur næst nýja þjóðveginum þar sem hann liggur í gegnum land Hávarsstaða er skemmdur eftir umferð vinnuvéla,

(6) tjón vegna þess að uppskerubrestur varð á sama túnbletti árin 2008, 2009, 2010, 2011, 2012 og 2013,

(7) tjón vegna þess að fylla þarf með jarðvegi í skurðenda skurðar sem liggur frá austri til vesturs í landi Hávarsstaða og hvarf að mestu undir nýja veginn en skurðendi þessi er norðan við nýja veginn en fyrir neðan gamla veginn, þ.e.a.s. í tungunni milli gamla og nýja vegar og neðarlega í tungunni,

(8) tjón vegna þess að póstkassi stefnenda við nýja afleggjarann að Hávarsstöðum var brotinn niður,

(9) tjón vegna þess að fyllt var í ræsi sem liggur undir nýja afleggjarann að Hávarsstöðum og er þannig samsíða þjóðveginum þegar verið var að breikka þjóðveginn,

(10) tjón vegna þess að teknir voru 60 rúmmetrar af möl úr farvegi Neðri-Skarðsár þar sem hún liggur í gegnum land stefnenda þar sem áin liggur neðan gamla vegar en ofan nýja vegar og

(11) tjón vegna þess að fjarlægja þarf grjót úr skurði sem liggur meðfram gamla þjóðveginum vestanvert á landi stefnenda að Hávarsstöðum.

II. Þá er þess krafist að stefndu afhendi stefnendum 60 rúmmetra af möl sem teknir voru í leyfisleysi af landi stefnenda úr farvegi Neðri-Skarðsár þar sem hún liggur í gegnum land stefnenda neðan gamla þjóðvegarins en ofan nýja þjóðvegarins.

III. Stefnendur krefjast þess að stefndu verðir dæmd til að greiða stefnendum málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

Af hálfu stefnda Vegagerðarinnar er aðallega er krafist frávísunar dómkrafna I og II í stefnu. Einnig er krafist sýknu af þeim kröfum stefnenda sem verði ekki vísað frá dómi.

Til vara er þess krafist að stefndu verði sýknaðir af öllum kröfum stefnenda.

Í öllum tilvikum er þess krafist að stefnendum verði gert að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati dómsins.

Dómkröfur stefnda Borgarverks ehf. eru aðallega þær að máli þessu verði vísað frá héraðsdómi. Til vara er gerð krafa um að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda.

Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda að skaðlausu.

MÁLSATVIK

 Með samningi frá 4. maí 2008 sem stefnendur gerðu við stefnda Vegagerðina kveðast þau hafa afsalað sér hluta af landi sínu undir nýtt vegstæði, sbr. 1. gr. samningsins og loftmynd á fylgiskjali 1 með samningnum.

Í 3. gr. samningsins hafi verið kveðið á um það að Farvegi Neðri-Skarðsár yrði breytt, með samþykki eigenda Lögmannsengis og Hávarsstaða. Einnig að stefndi Vegagerðin myndi annast frágang raskaðs lands, jafnað yrði fyrir jarðrask og sáð í sár sem myndast á grónu landi vegna vegagerðar. Kveðið hafi verið á um að frágangi yrði hagað í samráði við landeiganda. Hafi þessi ákvæði verið samin einhliða af stefnda Vegagerðinni og stefnendur ekki aðra haft kosti í stöðunni en að ganga að þeim en ellegar fara í tímafrekan og dýran málarekstur fyrir dómstólum.

Framkvæmdir hafi hafist sumarið 2008. Stefndi Vegagerðin hafi ráðið stefnda Borgarverk ehf. til verksins og Guðmund Brynjólf Ottesen sem girðingaverktaka. Eins og til hafi staðið hafi vegstæði Leirársveitarvegar verið flutt þar sem vegurinn liggi í gegnum land stefnenda. Framkvæmdir hafi dregist  mjög á langinn og stefnendur ítrekað þurft að ýta við því að vinna héldi áfram. Það hafi svo ekki verið fyrr en seint veturinn 2012 til 2013 sem girðingarmenn á vegum verktaka hafi farið  frá verkinu ókláruðu.

Við framkvæmdirnar hafi orðið ýmsar skemmdir á landi stefnenda og munum sem séu varanlega skeyttir við landið. Þá hafi munir í eigu stefnenda verið teknir ófrjálsri hendi.

Er í I. kafla kröfugerðar stefnenda talin upp 11 tilvik þar sem lýst er aðgerðum og tjóni sem stefnendur telja að hafi leitt af þeim.

Í II. kafla dómkrafna stefnenda kveða þau stefndu hafa tekið 60 rúmmetra af möl heimildarlaust til  sín.  Þess er krafist að stefndu skili stefnendum möl þessari hvar sem hún er niðurkomin. Eignaréttur stefnenda yfir mölinni standi óhaggaður.

Stefnendur hafi reynt að fá tjón sitt bætt frá stefndu. Meðal annars hafi Grétar stefnandi kært stefndu til lögreglu. Þá hafi stefnandi Grétar átt í bréfaskriftum við stefndu Vegagerðina. Og síðar hafi lögmaður stefnenda átt í bréfaskiptum við stefndu.. Hafi þessar bréfaskriftir engan árangur borið. Sé mál þetta því höfðað.

Af hálfu stefnenda eru þeim málsástæðum teflt fram að kröfur á hendur stefnda Vegagerðinni byggist bæði á reglum um skaðabætur innan samninga og utan samninga en hin almenna sakarregla sé meginregla á báðum réttarsviðum. Ekkert samningssamband hafi aftur á móti verið á milli stefnenda og stefnda Borgarverks ehf. Um ábyrgð stefnda Vegagerðarinnar eftir reglum um skaðabætur innan samninga segja stefnendur að í þeim samningi sem gerður var 18. maí 2008 komi fram að stefnda Vegagerðinni sé afsalað landi vegna lagningar vegar, sbr. inngangsorð samningsins og að látið sé af hendi land undir veg, sbr. 1. málslið 1. gr. samningsins. Hvergi komi fram að þau tjónstilvik 1 til 11 í I. kafla kröfugerðar stefnenda megi fara fram eða fyrir þau hafi á einhvern hátt verið bætt. Hafi það því verið brot á samningnum að gengið hafi verið lengra en samið hafi verið  um og stefnendum valdið tjóni með því.

Málsástæður stefnenda gagnvart Borgarverki ehf. byggist eingöngu á reglum um skaðabætur utan samninga þar sem hin almenna sakarregla sé meginreglan. Stefnendur byggja á því að stefndu hafi valdið sér tjóni með saknæmum og ólögmætum hætti þannig að stefndu beri samkvæmt hinni almennu sakarreglu að bæta stefnendum það tjón sem stefndu hafa valdið stefnendum.

Í fyrsta lagi, liggi fyrir að stefnendur hafi orðið fyrir tjóni. Hliðstaurar hafi verið brotnir, land liggi undir vatni sem áður var þurrt, skarð verið gert í árbakka án þess að það væri lagfært og hafi áin grafið í árbakkann og minnkað ræktanlegt land, girðingar verið teknar niður, tún skemmt með vinnuvélum, uppskerubrestur orðið vegna skemmda á túninu, ekki lokað nægjanlega vel fyrir skurðenda sem hafi verið opnaður, póstkassi verið skemmdur, fyllt hafi verið í ræsi sem þurfi að vera opið, möl tekin í leyfisleysi og grjót skilið eftir í skurði þar sem það eigi ekki að vera og takmarki virkni skurðarins. Ljóst sé að til að lagfæra allt þetta munu stefnendur þurfa að leggja út fjármuni.

Í öðru lagi, felist saknæmi þeirra manna sem orðið hafi valdir af því tjóni sem rakið sé í umfjöllun um tjónstilvik 1 til 11 að framan tjóninu með saknæmum hætti. Tjóninu hafi beinlínis verið valdið af ásetningi með því að þeir hafi ætlað sér að haga sér eins og þeir gerðu. Það sé þó nóg að sýna fram á gáleysi af þeirra hálfu til að þetta skilyrði sé uppfyllt.

Í þriðja lagi, hafi tjóninu verið valdið með ólögmætum hætti því ólögmætt sé að valda skemmdum á eigum annarra eða taka þær í leyfisleysi.

Í fjórða lagi, sé skilyrði um sennilega afleiðingu uppfyllt og meira en svo því það sé bein afleiðing af gjörðum þeirra manna sem verið hafi  á svæðinu á vegum stefndu.

Í fimmta lagi, raski háttsemin hagsmunum sem verndaðir séu af skaðabótareglum sem séu þeir hagsmunir stefnenda sem felist í eignarétti þeirra á landinu, þeim munum sem við það séu skeyttir og mölinni sem tekin hafi verið.

Ábyrgð stefnda Borgarverks ehf. á gerðum starfsmanna sinna byggist á reglunni um vinnuveitendaábyrgð sem stundum sé nefnd reglan um húsbóndaábyrgð. Sömuleiðis byggist ábyrgð stefnda Vegagerðarinnar á sömu reglu, samningnum frá18. maí 2008, og vegalögum, nr. 80/2007.

Samkvæmt 5. tölulið 3. gr. vegalaga sé vegagerð einn þáttur veghalds. Samkvæmt 2. málslið 4. gr. laganna annist Vegagerðin þátt ríkisins samkvæmt lögunum. Samkvæmt 1. málslið 1. mgr. 13. gr. sé Vegagerðin veghaldari þjóðvega en vegurinn sem um ræði í þessu máli sé þjóðvegur og samkvæmt 1. málslið 12. gr. laganna beri veghaldari ábyrgð á veghaldi vegar. Lögum samkvæmt beri Vegagerðin þess vegna ábyrgð á þeim vegaframkvæmdum sem um ræði í þessu máli jafnvel þó fengnir hafi verið verktakar til verksins.

Þá hafi eftirlit Vegagerðarinnar með veghaldinu brugðist og er það sjálfstæður grundvöllur fyrir skaðabótaábyrgð Vegagerðarinnar. Um þessar skyldur Vegagerðarinnar sé fjallað í 15. gr. vegalaga.

Einnig beri Vegagerðinni samkvæmt VII. kafla vegalaga að bæta stefnendum tjón eins og það sem þau hafi orðið fyrir í þessu máli og sé það því einnig sjálfstæður grundvöllur fyrir skaðabótaábyrgð Vegagerðarinnar. Skuli samkvæmt ákvæðum þessa kafla m.a. bæta jarðrask vegna vegagerðar og samkvæmt 36. gr. vegalaga skuli Vegagerðin greiða landeiganda bætur vegna tjóns og óhagræðis sem sannanlega hljótist af bráðabirgðaafnotum lands.

Samkvæmt 2. mgr. 35. gr. vegalaga skuli Vegagerðin gæta meðalhófs og þess að valda ekki meira raski við bráðabirgðaafnot lands en brýna nauðsyn beri til. Sé brot Vegagerðarinnar á þessu ákvæði einnig sjálfstæður bótagrundvöllur en ljóst sé að meðalhófs hafi ekki verið gætt og meira tjóni valdið en brýna nauðsyn hafi borið til og það tjón sem valdið hafi verið ekki verið bætt.

Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, hafi stefnda Vegagerðinni borið að afla framkvæmdaleyfis áður en ráðist hafi verið í vegaframkvæmdirnar. Það hafi ekki verið gert. Einnig hafi stefnda Borgarverki ehf. verið óheimilt að vinna við framkvæmdirnar nema slíkt leyfi lægi fyrir. Hafi því stefndu gerst brotlegir við ákvæði þessara laga en þau brot hafi leitt til þess að stefnendur hafi orðið  fyrir tjóni. Vísast um þetta einnig til ákvæðis 2. mgr. 37. gr. laga nr. 44/1999 um náttúruvernd sem lagði sömu skyldur á herðar stefndu.

Í máli þessu sé krafist viðurkenningar á bótaskyldu. Sé því ekki nauðsynlegt að sýna fram á nákvæma fjárhæð tjóns heldur eingöngu að stefnendur hafi orðið fyrir einhverju tjóni. Alveg sé ljóst að þeir hagsmunir sem stefndu hafi skert séu fjárhagslegir hagsmunir og hafi stefnendur þannig orðið fyrir tjóni.

Stefnendur eigi samaðild að þessu máli til sóknar vegna þess að þau séu sameigendur jarðarinnar Hávarsstaða þar sem tjóninu var valdið.

Stefndu eiga samaðild til varnar vegna þess að stefndu séu báðir ábyrgir fyrir tjóni stefndu.

Um lagarök vísar stefnendur til hinnar almennu sakarreglu sem er meginregla á sviði skaðabótaréttar, til IV. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, um almennar reglur um sönnun og til 1. mgr. 6. gr. og laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Þá vísast til Vegalaga nr. 80/2007, skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og laga nr. 44/1999 um náttúruvernd.

Krafa um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Varðandi varnarþing vísast til 33., 34. og 42. gr. sömu laga.

Stefndi gerir í fyrsta lagi kröfu um frávísun máls á grundvelli þess að skilyrði samaðildar stefndu séu ekki til staðar. Stefnandi geri ekki grein fyrir því á hvaða lagagrundvelli heimilt sé að stefna stefnda og meðstefnda Borgarverki ehf. sameiginlega til að þola dómkröfur í málinu. Jafnframt sé gerð krafa um frávísun þar sem kröfugerð og máltilbúnaður í stefnu brjóti gegn meginreglu einkamálaréttarfars um skýrleika, sbr. 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Einnig er þess krafist að máli þessu verði vísað frá á grundvelli þess að að skilyrði þess að höfða viðurkenningarmál á grundvelli 2. mgr. 25. gr. eml. séu ekki fyrir hendi.

 Stefnendur telji stefndu eiga samaðild í málinu þar sem þeir séu báðir ábyrgir fyrir tjóni stefndu. Hins vegar liggi fyrir að stefnendur telja að ábyrgð þeirra byggi á mismunandi bótagrundvelli.

Í umfjöllun um málsástæður í stefnu komi fram að stefndu séu taldir ábyrgir fyrir tjóni stefnenda á mismunandi grundvelli. Stefndi Vegagerðin sé af stefnanda talinn bótaábyrgur á grundvelli reglna um skaðabætur innan samninga vegna meintra vanefnda á samningi en einnig að einhverju leyti á grundvelli bótareglna utan samninga.  Enn fremur sé um ábyrgð stefnda vísað til ýmissa ákvæða vegalaga um veghaldara þjóðvega. Ábyrgð meðstefnda byggi stefnendur hins vegar einkum á þeirri ábyrgð sem meðstefndi beri á starfsmönnum sínum á grundvelli reglunnar um ábyrgð vinnuveitanda á skaðaverkum starfsmanna sinna.

Stefndi byggir á því að skilyrði samaðildar séu ekki fyrir hendi og því geti stefnandi ekki byggt sameiginlega aðild stefndu á því að þeir eigi samaðild. Samaðild eigi einungis við ef sú aðstaða sé fyrir hendi að stefna verði aðilum saman í máli til að þola skyldu eða að réttindi verði aðeins sótt af tveimur eða fleiri aðilum sameiginlega, sbr. 1. mgr. 18. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Það gæti t.d. átt við ef stefndu ættu fasteign í sameign. Svo hátti ekki til í þessu máli. Niðurstaðan um hvenær skylt sé að hafa samaðild ráðist af reglum efnisréttar. Ef unnt sé að aðskilja tengd réttindi eða skyldur tveggja eða fleiri í sjálfstæðar einingar standi ekki skylda til samaðildar þeirra. Stefnandi hefði hæglega getað stefnt annað hvort stefnda eða meðstefnda, Borgarverki ehf., til viðurkenningar á skaðabótaskyldu eða greiðslu bóta.  Enga réttarfarsnauðsyn beri til að stefna aðilum saman á grundvelli reglna um samaðild.

Stefndi byggir einnig á því að stefnendur geri ekki grein fyrir því á hvaða grundvelli þau stefni stefnda og meðstefnda sameiginlega til að þola dómkröfur stefnenda í málinu. Stefndi byggir á því að stefnendur verði að sýna fram á að skilyrði samlagsaðildar skv. 19. gr.  eml. séu uppfyllt. Þar sem ekki sé um að ræða samaðild stefnda og meðstefnda hefði stefnendur þurft að gera sjálfstæða kröfu á hendur hvorum aðila um sig en það sé ekki gert í stefnu. Stefndi byggir einnig á því að ekki sé sýnt fram á að skilyrði aðilasamlags séu uppfyllt, þ.e. að dómkröfur séu byggðar á sama atviki, sömu aðstöðu eða sama löggerning. Ef samlagsaðild sé með stefndu sé aðstaðan með þeim hætti, eins og áður hefur verið sagt, að beina verði sjálfstæðri kröfu að hverjum þeirra en það gera stefnendur ekki. Óhjákvæmilegt sé því að vísa kröfu stefnanda frá dómi.

Þá byggir þessi stefndi á því að kröfugerð stefnenda í stefnu verði að vera svo ákveðin og ljós að unnt sé að taka hana upp óbreytta sem ályktunarorð í dómsniðurstöðu í máli.  Ef dómkrafa beinist að öðru en aðfararhæfri skyldu, t.d. viðurkenningu á réttindum stefnenda, eins og eigi við í þessu máli, verði dómsniðurstaða á sama hátt að vera skýr og afgerandi um hvernig viðkomandi réttindum sé háttað.  Kröfugerðin verði að vera ákveðin og skýr með sama hætti þannig að unnt sé að taka hana upp beinlínis í dómsorð.

Stefndi krefst frávísunar á grundvelli þess að dómkrafan og málatilbúnaður stefnenda brjóti gegn meginreglu 1. mgr. 80. gr. eml. um skýran og glöggan málatilbúnað. Ekki sé unnt að leggja dóm á kröfugerð og málatilbúnað stefnenda í því formi sem hún er sett fram í stefnu.

Dómkrafa I í stefnu um viðurkenningu bótaskyldu stefndu sé sundurliðuð í 11 mismunandi tjónsatvik sem, ef fallist yrðu á kröfur stefnenda, yrðu öll sameiginlega á ábyrgð stefndu. Um sé að ræða mjög mismunandi tilvik og sé þeim lýst með mjög takmörkuðum hætti í dómkröfu stefnanda. Óljós lýsing tjónstilvika sem og óskýr afmörkun leiði til þess að umfang bótaábyrgðar stefndu yrði óljós ef dómur yrði felldur í samræmi við kröfugerðina. Meint tjónstilvik séu einnig mjög ólík allt frá meintum skemmdum á hliðstaurum og póstkassa, meints uppskerubrests og skyldu til ráðstafana varðandi frágang án skýrrar lýsingar á hvað um ræði.

Í málatilbúnaði stefnenda sé engin tilraun gerð til að skýra grundvöll meintrar ábyrgðar hvors aðila um sig á hinum ólíku tjónstilvikum sem upp eru talin í stefnu. Þannig skorti alfarið samhengi á milli málsástæðna og einstakra af hinum 11 mismunandi tjónstilvikum undir dómkröfu I. Ekki er á neinn hátt skýrt á hvaða grunni ábyrgð hvors aðila um sig er byggð hvað einstaka liði dómkröfu I varðar.

Stefnendur byggi meinta bótaábyrgð stefndu á mismunandi grundvelli og geti sú ábyrgð ekki fallið saman í öllum tilvikum. Sem dæmi megi nefna að stefnendur byggi ábyrgð stefnda Vegagerðarinnar m.a. á ýmsum ákvæðum vegalaga nr. 80/2007 um skyldur veghaldara en ábyrgð meðstefnda Borgarverks ehf. verði ekki á sama hátt reist á þeim ákvæðum þar sem meðstefndi hafi ekki stöðu veghaldara þjóðvega skv. lögunum. Stefnandi skýri á engan hátt á hvaða grundvelli hann telji unnt að dæma stefndu sameiginlega til ábyrgðar á hinum ólíku tjónstilvikum sem upp eru talin án nokkurrar aðgreiningar með tilliti til mismunandi stöðu þeirra að lögum.

Lýsing einstakra tjónstilvik sé afar takmörkuð og ómögulegt að átta sig á því nánar tiltekið á hvaða háttsemi ábyrgð stefndu hvors um sig á einstökum tjónstilvikum er byggð. Stefnendur rökstyðji heldur ekki með hvaða hætti þau telji öll skilyrði bótaskyldu uppfyllt.

Stefndi telur framangreinda kröfugerð og málatilbúnað í andstöðu við meginreglur einkamálaréttarfars um skýran og glöggan málatilbúnað, sbr. 1. mgr. 80. gr. eml. Sé óhjákvæmilegt að krefjast frávísunar dómkröfu I af þessum sökum.

Einnig byggir stefndi Vegagerðin kröfu um frávísun á því að þar sem skilyrði 2. mgr. 25. gr. til höfðunar viðurkenningarmáls séu ekki uppfyllt verði að vísa dómkröfu I frá dómi.

Stefndi byggir á því að samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 sé heimilt að höfða mál til að leita viðurkenningardóms um kröfu hafi aðili lögvarða hagsmuni af því að skorið sé úr um tilvist eða efni réttinda eða réttarsambands. Áskilnaður ákvæðisins um lögvarða hagsmuni hafi í dómum Hæstaréttar verið skýrður svo, að sá er höfði mál til viðurkenningar á skaðabótaskyldu verði að leiða nægar líkur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni og gera grein fyrir því í hverju tjón hans felist og hver tengsl þess séu við atvik máls, sjá t.d. Hrd. 601/2009. Stefndi telur ekki unnt að halda því fram að svo sé í þessu máli. Stefnendur lýsi tjóni sínu í 11 töluliðum en skýri ekki samhengi tjóns við háttsemi stefndu Vegagerðarinnar eða manna sem hún beri ábyrgð á. 

Stefndi byggir á því að 2. mgr. 25. gr. feli í sér undanþágu frá þeirri meginreglu d.-liðar 1. mgr. 80. gr. eml að kröfufjárhæð sé tilgreind í stefnu. Undanþágan eigi aðeins við í þeim tilvikum þegar ekki sé unnt að tiltaka kröfufjárhæð í stefnunni, t.d. ef að mikil óvissa ríkir um hana. Þessa heimild beri að skýra þröngt enda um undanþágu að ræða. Tilgangur reglunnar sé að gera þeim sem telja sig eiga skaðabótakröfu kleift að höfða mál þó að ekki sé enn ljóst hvert heildartjón stefnanda sé. Stefndi byggir á því að allar forsendur til þess að meta tjón stefnenda liggi fyrir og þeim hafi því ekkert verið að vanbúnaði að setja fram fjárkröfu í stefnu. Á dómsskjali 11 sé að finna bréf stefnanda dags. 7. nóvember 2012 þar sem útlistuð sé peningakrafa fyrir þá liði sem kröfugerð stefnenda lýtur að. Svo virðist því að fjárhæð tjóns liggi að mati stefnenda að mestu fyrir og samkvæmt því ekki tilefni til höfðunar viðurkenningarmáls. Byggir stefndi á því að skilyrði 2. mgr. 25. gr. eml. til þess að höfða viðurkenningarmál séu ekki fyrir hendi og því óhjákvæmilegt að vísa dómkröfu I frá dómi.

Stefndi byggir frávísunarkröfu einnig á því að stefnendur verði að leiða að því líkum að þeir hafi orðið fyrir tjóni sem rekja megi til bótaskyldrar háttsemi stefndu. Í stefnu sé afar takmörkuð grein gerð fyrir einstökum tjónstilvikum sem krafist er viðurkenningar á bótaskyldu. Stefnendur leiði þannig ekki líkum að því að bótaskyld háttsemi hafi átt sér stað né heldur að tjón hafi orðið.

Um II. kafla kröfugerðar stefnenda sé það að segja að stefnendur geri kröfu um að stefndu afhendi 60 rúmmetra af möl sem að sögn þeirra hafi verið teknir í leyfisleysi úr farvegi Neðri-Skarðsár og krefjist þess að stefndu skili möl þessari „hvar sem hún er niðurkomin“.

Stefndi krefst frávísunar á þessum kafla að hluta til á sömu forsendum og dómkröfu I. Ekki sé sýnt fram á að skilyrði samaðildar séu fyrir hendi né sameiginleg aðild að öðru leyti rökstudd. Kröfugerð og málatilbúnaður stefnenda sé óskýr og þar með ekki í samræmi við meginreglu einkamálaréttarfars um skýran og glöggan málatilbúnað. Nánari skýringar á því hvaða möl um sé að ræða, hvaðan hún hafi verið numin á brott og af hverjum skorti alfarið af hálfu stefnenda. Þannig liggi ekki fyrir að umrædd möl sé sérgreinanleg og þar með unnt að verða við dómkröfunni. Vísast til umfjöllunar hér að ofan um rökstuðning fyrir frávísun I. kafla dómkröfu.

Stefndi byggir einnig frávísunarkröfu á því að ómögulegt sé að verða við kröfunni. Stefnendur geri enga nánari grein fyrir því hvaða möl um sé að ræða né heldur hvar hún kunni að vera niðurkomin. Stefndi bendir á að einungis sé unnt að gera kröfu um afhendingu tiltekinna verðmæta ef þau séu sérgreinanleg. Ekkert liggi fyrir um að möl sem stefnendur vísi til sé sérgreind með einhverjum hætti og þannig unnt að afhenda hana. Stefndi telur stefnendur þannig ekki hafa sýnt fram á að unnt sé að verða við kröfunni.

Um lagarök vísar stefndi m.a. til almennra reglna skaðabóta- og kröfuréttar um bótaábyrgð innan og utan samninga, reglna samninga- og kröfuréttar og vegalaga nr. 80/2007. Vísað er til laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og meginreglna almenns einkamálréttarfars hvað snertir frávísunarkröfur og reglur um sönnunarbyrði. Loks er vísað til laga um fyrningu kröfuréttinda nr. 150/2007 hvað varðar fyrningu krafna stefnenda.   

Af hálfu stefnda Borgarverks ehf. er til þess vísað að sá sem krefjist skaðabóta, verði að sanna í fyrsta lagi, að hann hafi orðið fyrir tjóni og hvert tjón hans sé, í öðru lagi sök eða atvik, er leiði til bótaskyldu án sakar og í þriðja lagi orsakatengsl, þ.e. að tjónið verði rakið til sakar eða atvika sem sé grundvöllur bótaskyldu án sakar.

Dómkröfur stefnenda á hendur stefnda, Borgarverki ehf. séu óljósar. Í engu sé reynt að varpa ljósi á tengsl vinnu stefnda Borgarverks ehf. við það tjón sem stefnendur telja sig hafa orðið fyrir.

Enginn stafkrókur sé í stefnu um orsakatengsl af vinnu stefnda, Borgarverki ehf. og ætluðu tjóni stefnenda.

Þá liggja engin gögn ætluðu tjóni stefnenda til grundvallar, hvorki matsgerð né úttekt á verklokum.

Stefndi, Borgarverk ehf. hafi unnið  verkið skv. útboðslýsingu og í engu brugðið út af sbr. lokaúttekt. Verkskil hafi farið  fram og verkkaupi, meðstefndi Vegagerðin, tekið við verkinu athugasemdalaust. Í þessu sambandi sé vísað til ÍST 30, einkum 28. kafla en þar sé að finna nákvæm ákvæði um úttekt.

Verkkaupi geti almennt krafist úrbóta á göllum á verki. Í stöðluðum skilmálum á sviði verktakaréttar sé oft við það miðað að verktaki beri ábyrgð á verki í eitt ár frá því að hann skilaði því af sér.

Verklok hafi verið 15. janúar 2008 og með bréfi, dagsettu 14. maí 2009 hafi verið tilkynnt um úttekt verksins „Leirársveitarvegur (504) : Leirá-Svínadalsvegur“  og að heimilt væri að lækka verkábyrgð vegna verktryggingar niður í 4% og að ábyrgðin félli niður að ári liðnu.

Í stuttu máli hafi stefndi Borgarverk ehf.skilað umsömdu verki til verkkaupa, hinn 15. janúar 2008, og hafa engar athugasemdir borist um framkvæmd verksins fyrr en með bréfi stefnenda, dagsettu 18. febrúar 2014. Þessu bréfi hafi verið svarað með bréfi stefnda, Borgarverks ehf., þann 24. febrúar 2014, þar sem kröfum stefnenda hafi verið hafnað. Í nefndu bréfi stefnda Borgarverks ehf. hafi m.a. verið vísað til þess að í bréfi meðstefnda Vegagerðarinnar til stefnenda, dags. 13. febrúar 2014,hafi verið  tekið fram að meðstefndi Vegagerðin bæri ábyrgð á athöfnum stefnda, Borgarverks ehf., sem væri í beinum tengslum við framkvæmd verksins, þ.e. þess sem félli innan útboðsins.

Stefndi Borgarverk ehf. hafi ekki verið aðili að samningi stefnenda og meðstefnda Vegagerðarinnar og beri því hvorki ábyrgð á efni hans né efndum hans.

Krafa stefnda Borgarverks ehf. sé m.a. byggð á því að málatilbúnaður stefnenda sé óljós og óskýr. Kröfugerð þeirra sé ekki studd neinum gögnum, engin matsgerð sé lögð fram, og í engu sé þess freistað að tengja vinnu stefnda við ætlað tjón.

Þá sé í engu tilgreint hvað af tjóni stefnenda væri innan verksins Leirársveitarvegur(504) Leirá-Svínadalsvegur“ og hvað utan verksins.

Lagarök:

Stefndi vísar m.a. til: ÍST 30, einkum 28. kafla, 2.mgr. 16. gr. laga um meðferð einkamála.

Þá vísar stefndi til þeirrar meginreglu í skaðabótarétti að tjónþoli þurfi að sanna tjón sitt og að bótagrundvöllur sé fyrir hendi.

Stefndi vísar til framlagðra gagna.

Þá vísar stefndi til meginreglu sem gildir um skaðabætur utan samninga að sá sem krefst skaðabóta verður í fyrsta lagi að sanna að hann hafi orðið fyrir tjóni og hvert tjón hans er. Í öðru lagi þarf bótakrefjandi að sanna sök meints tjónvalds eða atvik sem leiða til bótaskyldu án sakar og í þriðja lagi þarf bótakrefjandi að sanna orsakatengsl, það er að tjón verði rakið til sakar eða atvika sem eru grundvöllur bótaskyldu án sakar.

Stefndi vísar og til laga nr.150/2007 um fyrningu kröfuréttinda svo og til tómlætis eins og það hugtak hefur verið skýrt í dómaframkvæmd.

Um málskostnað vísast til XXl. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 130.gr.

NIÐURSTAÐA

Í máli þessu krefjast stefnendur þess að að viðurkennd verði með dómi sameiginleg bótaábyrgð stefndu á tjóni stefnenda sem stefnendur telja hafa orðið  í tengslum við vegaframkvæmdir sem hófust árið 2008 á Leirársveitarvegi sem liggur í gegnum jörðina Hávarsstaði í Hvalfjarðarsveit sem er í eigu stefnenda og tilgreint er í 11 liðum í kröfugerð stefnenda.

Þá er þess krafist að stefndu afhendi stefnendum 60 rúmmetra af möl sem stefnendur halda fram að teknir hafi verið í leyfisleysi af landi þeirra úr farvegi Neðri-Skarðsár þar sem hún liggi í gegnum land stefnenda neðan gamla þjóðvegarins en ofan nýja þjóðvegarins.

Um fyrri kröfuliðinn er það að segja að ekki er samaðild með stefndu í máli þessu né heldur er gerð grein fyrir því á hvaða grundvelli hvorum stefnda um sig er stefnt til að þola dómkröfur stefnenda.

Þá er sá annmarki á málatilbúnaði stefnenda að ekki er gerð grein fyrir því hver hlutur hvors stefnda um sig sé í þeim 11 tilvikum sem talin eru upp í stefnu og eiga að hafa valdið þeim tjóni. Þykja kröfur stefnenda vanreifaðar um þetta í þeim mæli, að á skortir að ákvæði e liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um að samhengi málsástæðna og málsatvika sé ljóst, sé fullnægt.

Þá verður ekki ráðið af málatilbúnaði stefnenda að nægilega sé sýnt fram á að þau hafi beðið tjón af völdum stefndu.

Samkvæmt öllu framansögðu verður máli þessu vísað frá dómi.

Samkvæm 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verða stefnendur dæmdir til þess að greiða stefndu 450.000 krónur hvorum þ.m.t virðisaukaskattur.

Allan V. Magnússon dómstjóri kvað upp þennan úrskurð.

ÚRSKURÐARORÐ

Máli þessu er vísað frá dómi.

      Stefnendur Grétar Jónsson og Lilja Grétarsdóttir greiði stefndu Vegagerðinni og Borgarverki ehf. hvorum um sig 450.000 krónur í málskostnað.