Hæstiréttur íslands

Mál nr. 541/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Föstudaginn 17. september 2010.

Nr. 541/2010.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Bjarni Hauksson hrl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. september 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. september 2010, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 29. september 2010 klukkan 16 og sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Fallist er á með sóknaraðila að fram sé kominn rökstuddur grunur um að varnaraðili hafi gerst sek um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við. Er fullnægt skilyrðum a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 fyrir því að hún verði látin sæta gæsluvarðhaldi. Þá verður einnig talið að rannsóknarhagsmunir leiði til þess að fallist verði á kröfu sóknaraðila um að varnaraðila verði gert að sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldi hennar stendur, sbr. 2. mgr. 98. gr. laga nr. 88/2008. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

      Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. september 2010.

                Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, allt til miðvikudagsins 29. september n.k. kl. 16:00.

Þá er gerð krafa um að sakborningur sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.

Í greinargerð lögreglu kemur fram að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsaki nú ætluð stórfelld brot gegn 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt og gegn peningaþvættisákvæði almennra hegningarlaga sbr. 264 gr.  almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Upphaf þessa máls séu tilkynningar frá Íslandsbanka og frá Arion banka um peningafærslur sem hafi þótt grunsamlegar og ekki samræmast upplýsingum og eða viðskiptum hjá reikningshöfum í bönkunum.

Við nánari skoðun lögreglu hafi komið í ljós að um hafi verið að ræða greiðslur inn og út af reikningum tveggja fyrirtækja A, kt. [...], og B, kt. [...]. Sýndu reikningsyfirlit háar fjárgreiðslur frá tollstjóra inn á reikninga þessar tveggja fyrirtækja. Fjárhæðirnar hafi síðan smám saman verið teknar út af reikningunum fyrirtækjanna að mestu í reiðufé. Innlagnir og úttektir sem til rannsóknar er áttu sér stað frá október 2009 til júní 2010.

Við upplýsingaöflun lögreglu m.a. hjá skattrannsóknarstjóra hafi komið í ljós að hinar háu greiðslur inn á reikningana voru endurgreiðslur á innskatti vegna endurbóta á húsnæði en slíkar endurgreiðslur séu gerðar á grundvelli sérstakrar skráningar á virðisaukaskattsskrá skv. reglugerð nr. 577/1989. Við nánari eftirgrennslan um grundvöll þessara endurgreiðslna vöknuðu grunsemdir um að tilefni þeirra byggði á röngum og tilhæfulausum gögnum.

Rannsókn málsins hafi leitt í ljós að húsnæði  það sem félögin fengu endurgreiddan innskatt hafi aldrei verið í eigu félaganna. Endurgreiðslur til A, samtals að fjárhæð kr. 174.330.155 sé vegna endurbóta húsnæði að [...] í Reykjavík. Það húsnæði hafi skv. gögnum málsins aldrei verið í eigu A. Endurgreiðslur til B, samtals að fjárhæð kr. 103.000.000 voru vegna endurbóta á iðnaðarhúsnæði að [...] í Reykjavík. Það húsnæði er hins vegar í eigu annars félags, C, og virðist aldrei hafa verið í eigu B. Þá þyki einnig grunsamlegt að áætlaðar endurbætur sem endurgreiðslan byggir á eru langt yfir fasteignamati þeirra eigna sem endurbæta átti.

Samkvæmt reglugerð  nr. 577/1989 sé skylt að leggja fram ýmis gögn er sýni fram á eignarhald á húsnæði og fyrirhugaðar endurbætur áður en unnt sé að afgreiða erindi um sérstaka skráningu og endurgreiðslu. Starfsmaður í virðisaukaskattdeild ríkisskattstjóra hefur staðfest að hafa afgreitt þessi erindi og að þá hafi legið fyrir þau gögn sem krafist er m.a. kaupsamningar um húsnæði. Hjá skattstjóra finnist hins vegar engin gögn varðandi fyrrnefnd tvö félög. Séu möppur sem áttu að innihalda þau gögn af óútskýranlegum ástæðum tómar. Ljóst er að ef að þessi gögn lágu einhvern tímann fyrir þá var um fölsuð gögn að ræða.

X sé skráð fyrir úttektum af reikningi B. frá nóvember 2009 til júlí 2010, samtals rúmlega kr. 31.000.000 í reiðufé. 

X hafi sagt Y hafa beðið sig um að gerast prókúruhafi á bankareikning B. Hann hafi ekki útskýrt nánar. Síðan reglulega beðið hana um að taka út peninga á árunum 2009 og 2010. Hún sótti peningana í bankann, tók út í reiðufé fór með heim til sín og afhenti svo Y peninginn þar. Aldrei rætt til hvers peningurinn væri. X sagði Y hafa sagst ætla að aðstoða hana þar sem hún aðstoðaði hann og taldi hún hann hafa greitt sér um 1 milljón á þeim. Hún segist hafa vitað að Z og Þ hafi líka verið að taka út peninga fyrir Y.

Í gærkveldi, að undangengnum úrskurði héraðsdóms Reykjaness, var framkvæmd húsleit á heimili X og fannst þar taska með um 11 kg af kannabisefni. X sagði Y hafa beðið hana um að geyma þessa tösku. Hún hafi vitað að taskan innihélt eitthvað ólöglegt en ekki hvað.

Með vísan til framangreinds og til gagna málsins sé uppi rökstuddur grunur um að sakborningur hafi átt þátt í umfangsmiklum brotum gegn skattalögum og peningaþvætti.

Rannsókn málsins sé á frumstigi. Að mati lögreglu sé uppi rökstuddur grunur um að sakborningur eigi aðild að því broti sem til rannsóknar er. Þegar hafi 7 aðilar verið handteknir í tengslum við málið og nú fer fram umfangsmikil vinna við yfirheyrslur og gagnaöflun. Lögregla leitar nú annarra aðila sem kunna að vera viðriðnir fyrrnefnd brot m.a. þess aðila sem talinn er hafa skipulagt brotin og sakborningur neitar að nafngreina. Megi ætla að ef sakborningur verði látinn laus muni hann eiga þess kost að torvelda rannsókn málsins, svo sem með því að hafa samband við ætlaða samverkamenn og koma undan gögnum. Lögregla telur það brýnt fyrir framgang málsins að fallist verði á framkomna kröfu um gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna svo unnt sé að reyna að hafa upp á framangreindum aðilum og til að koma í veg fyrir að sakborningur geti spillt rannsókn málsins. Af framangreindum ástæðum er einnig farið fram á að sakborningur sæti einangrun á meðan á gæsluvarðhaldi stendur.

Meint sakarefni séu stórfelld skattalagabrot og peningaþvætti en brotin séu talin geta varðað við almenn hegningarlög nr. 19/1940 og lög um virðisaukaskatt nr. 50/1988. Við þessum brotum liggur allt að 12 ára fangelsisrefsing. Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Um heimild til einangrunar á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur er vísað til b-liðar 1. mgr. 99. gr. sömu laga.

Rannsókn málsins er á frumstigi en kærða var handtekin í gærkvöldi. Um umfangsmikið mál er að ræða. Í ljósi þessa þykir hætta á að kærða muni torvelda rannsókn málsins, svo sem með því að afmá merki eftir brot, skjóta undan munum ellegar hafa áhrif á vitni og samseka, fari hún frjáls ferða sinna.

Með vísan til þess sem að framan greinir svo og til rannsóknargagna málsins er fallist á að fullnægt sé skilyrðum a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um að kærðu verði gert að sæta gæsluvarðhaldi en þó eigi lengur en til miðvikudagsins 29. september nk. kl. 16:00. Kærða skal sæta einangrun á meðan gæsluvarðhaldinu stendur.

Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kærða, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi, allt til miðvikudagsins 29. september n.k. kl. 16:00.

Kærða skal sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.