Hæstiréttur íslands
Mál nr. 221/2005
Lykilorð
- Land
- Hefð
- Sératkvæði
|
|
Fimmtudaginn 13. október 2005. |
|
Nr. 221/2005. |
Sævar Magnússon(Jónas Haraldsson hrl.) gegn Helguhóli ehf. (Ólafur Björnsson hrl.) |
Land. Hefð. Sératkvæði.
Deilt var um hvort S hefði eignast fyrir hefð landspildu, sem var innan landamerkja jarðarinnar N, en jörðin var í eigu H ehf. Lá fyrir að faðir S eða S sjálfur hafði fengið spilduna á árunum 1965 til 1970 til ræktunar og nýtingar frá þáverandi eigendum N. Ekki þótti upplýst að spildan hefði verið afhent til annars en láns. Samkvæmt 3. mgr. 2. gr. laga nr. 46/1905 um hefð gætu umráð S á landspildunni því ekki heimilað hefð. Með vísan til þess var fallist á kröfu H ehf. um að spildan tilheyrði landi jarðarinnar N og væri í eigu félagsins.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason og Hrafn Bragason.
Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 26. maí 2005. Hann krefst þess að viðurkenndur verði eignarréttur hans á um 9,7 hektara landspildu, sem liggur milli kvíslar úr Fnjóská og heimreiðar að bænum Nesi í Höfðahverfi og afmörkuð er á hnitsettri loftmynd frá því í september 2002. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Málsatvikum er lýst í héraðsdómi. Þar er því lýst að aðila greinir á um eignarrétt að 9,7 hektara landspildu sem er innan landamerkja jarðarinnar Ness og afmörkuð er nánar svo sem segir í kröfugerð. Fram er komið að faðir áfrýjanda eða áfrýjandi sjálfur fékk landspildu þessa á árunum 1965 - 1970 til ræktunar og nýtingar hjá þáverandi eigendum Ness, sem voru afi og móðurbróðir áfrýjanda. Reisir áfrýjandi mál sitt á því að hann hafi unnið eignarrétt á landinu fyrir hefð. Fyrirsvarsmaður stefnda byggir aftur á móti á framburði föður síns Jóns Laxdal fyrrum bónda í Nesi fyrir dómi um að hann hafi sjálfur staðið fyrir því að umþrætt landspilda hafi á sínum tíma verið lánuð endurgjaldslaust úr landi Ness til mágs hans Magnúsar Snæbjörnssonar bónda á Syðri-Grund, föður áfrýjanda, en hann hafi skort land til ræktunar. Hann hafi fært það í tal við Magnús að ganga skriflega frá þessum lánsafnotum en það ekki komist í framkvæmd.
Héraðsdómari hefur metið framburð Jóns Laxdal og talið hann trúverðugan, en hann styðst við spjald frá Búnaðarsambandi Eyjafjarðar frá 1971 þar sem spildan virðist talin vera leiguland áfrýjanda. Ólafur Geir Vagnsson ráðunautur, sem færði spjald þetta, bar fyrir dómi að fyrst þetta sé svo fært hafi landspildan verið leiguland á þessum tíma í sínum huga. Þá eru dæmi um að spildur hafi verið leigðar úr landi Ness til annarra jarða í Höfðahverfi gegn gjaldi. Þótt ekkert endurgjald hafi verið áskilið í þessu tilfelli getur það hafa helgast af frændsemi og tengslum aðila. Með framangreint í huga og það að umþrætt spilda er innan merkja Ness þykir ekki fram komið að afhending hennar hafi verið til annars en láns. Samkvæmt 3. mgr. 2. gr. laga nr. 46/1905 um hefð geta umráð til láns eða á leigu ekki heimilað hefð. Ber því að staðfesta niðurstöðu héraðsdóms.
Rétt er að áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, svo sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Sævar Magnússon, greiði stefnda, Helguhóli ehf., 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Sératkvæði
Gunnlaugs Claessen hæstaréttardómara
í hæstaréttarmálinu nr. 221/2005:
Sævar Magnússon
gegn
Helguhóli ehf.
I.
Sakarefni þessa máls hefur áður verið borið undir Hæstarétt og féll dómur um það 1. september 2003 í máli nr. 284/2003. Í því máli, sem nú er til úrlausnar, hefur sú breyting orðið á aðild að í stað Ara Laxdal og Sigurlaugar Sigurðardóttur vegna jarðarinnar Ness hefur komið stefndi, Helguhóll ehf. Þau Ari og Sigurlaug eru fyrirsvarsmenn hins stefnda félags. Aðild áfrýjanda vegna Syðri-Grundar er óbreytt frá fyrra máli.
Í máli nr. 284/2003 kröfðust eigendur Ness þess að fá áfrýjanda borinn með beinni aðfarargerð af tæplega tíu hektara spildu, sem er innan marka Ness samkvæmt landamerkjalýsingu, en áfrýjandi hefur haft til umráða og nýtt um langt skeið. Sá síðastnefndi hélt uppi vörnum. Aðilum bar saman um að afnot áfrýjanda og föður hans af spildunni hafi hafist 1965 og jafnframt er óumdeilt að af hálfu eigenda Ness hafi ekki verið hreyft athugasemd við því að áfrýjandi nýtti landið fyrr en í janúar 2001 þegar þau sendu áfrýjanda til undirritunar leigusamning um spilduna til fimm ára. Áfrýjandi endursendi skjalið óundirritað þar sem hann taldi sig vera eiganda landsins. Aðilana greindi hins vegar á um það með hvaða hætti umráð áfrýjanda í öndverðu væru til komin. Sjálfur lýsti hann því svo að afi hans, Grímur Laxdal, þá bóndi og eigandi Ness að helmingi á móti syni sínum Jóni Laxdal, hafi gefið sér spilduna, en Syðri-Grund hafi haft ríka þörf fyrir land til ræktunar vegna landleysis heima fyrir. Til vara byggði áfrýjandi á því að hann hafi eignast spilduna fyrir hefð með 36 ára samfelldri nýtingu frá 1965 til 2001. Eigendur Ness héldu fram að samkomulag hafi verið gert um endurgjaldslaus afnot Syðri-Grundar af landinu í 20 ár, en að þeim tíma liðnum skyldi bæði ræktun og girðing vera eign leigusala án þess að greiðsla kæmi fyrir. Í dómi Hæstaréttar var lagt til grundvallar að hvorki hafi áfrýjandi sýnt fram á að hann hafi fengið spilduna að gjöf frá afa sínum, eins og hann hélt fram, né hafi eigendur Ness sannað að spildan hafi með samningi verið látin af hendi til afnota tímabundið eða til hve langs tíma. Segir jafnframt í dóminum að þótt réttur til nota af spildunni kynni í byrjun að hafa verið samningsbundinn til ákveðins tíma, geti það eitt og sér ekki staðið því í vegi að sóknaraðili geti hafa unnið eignarrétt fyrir hefð með óslitnu eignarhaldi á henni í 20 ár að umsömdum afnotatíma loknum. Var að þessu virtu hafnað kröfu eigenda Ness um heimild til að fá áfrýjanda borinn út af spildunni með beinni aðfarargerð.
II.
Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 46/1905 um hefð er 20 ára óslitið eignarhald á fasteign skilyrði fyrir því að eignarréttur geti stofnast fyrir hefð. Í 3. mgr. sömu greinar segir að hafi hefðandi fengið hlut að veði, til geymslu, til láns eða á leigu geti slík umráð ekki heimilað hefð.
Í stefnu til héraðsdóms reisti stefndi kröfu sína á því að samkomulag hafi verið gert um not áfrýjanda af landinu í „a.m.k. 20 ár“, en að þeim tíma loknum skyldu bæði ræktun og girðing vera eign leigusala án þess að sérstakt gjald kæmi fyrir. Þessi samningur hafi verið gerður um 1975, þegar spildan var fullræktuð, eins og segir í stefnu, og leigukjör átt að vera sambærileg þeim, sem sé að finna í leigusamningi milli Jóns Laxdal og eigenda Hléskóga um spildu fyrir þá jörð til ræktunar í landi Ness.
Jón Laxdal, fyrrum eigandi Ness og faðir Ara Laxdal, gaf skýrslu fyrir dómi. Kvaðst hann þekkja málið vel, þar eð hann hafi sjálfur lánað áfrýjanda landið og leyft honum að girða það. Spurningu um hvort gerður hafi verið leigusamningur svaraði hann neitandi, „þetta var ekki neinn leigusamningur, það var ekki talað um neinn leigusamning.“ Kvað hann leyfið hafa verið veitt um stundarsakir, en þetta „var nú svona látið rúlla áfram meðan ég þurfti ekki beinlínis á þessu að halda.“ Þetta hafi verið gert í góðu samkomulagi og „það var ekkert um það talað.“ Aðspurður um hvort rætt hafi verið um það í upphafi að einhvern tíma ætti að skila landinu svaraði hann: „Það er nú bara ævinlega þegar menn fá eitthvað lánað þá á að skila því. Og um leið og ég gerði kall til þess þá átti auðvitað að skila landinu.“ Hann neitaði jafnframt að nokkurt uppgjör hafi þurft fyrir ræktun og girðingar, „við tækjum bara landið ef við þyrftum á því að halda og þurfti ekki neitt uppgjör þar um, þau voru búin að hafa landið til nytja ...“. Kvað hann samkomulag um afnotin hafa verið munnlegt og að ekki hafi komist í verk hjá sér að ganga frá samningi um þau.
Fyrir Hæstarétti mótmælir áfrýjandi framburði Jóns Laxdal sem röngum og vísar um sönnunargildi hans til ákvæðis 59. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hvað sem því líður er alveg víst að málatilbúnaður stefnda um að gerður hafi verið leigusamningur til ákveðins tíma við áfrýjanda og hann reisir kröfur sínar á, fær ekki stoð í framburði þess manns, sem kveðst hafa samið við áfrýjanda um landið. Þvert á móti kvað Jón Laxdal að um lán hafi verið að ræða, en landinu skyldi skilað hvenær sem hann „gerði kall til þess“. Í því felst andstætt staðhæfingu í stefnu, að landið hafi ekki verið afhent áfrýjanda til fyrirfram markaðs tíma. Ekki fær heldur stoð í framburði hans að bæði hafi verið samið við áfrýjanda um töku hans og nýtingu á landinu 1965, þegar afnotin hófust, og síðan aftur um 1975 „þegar spildan var fullræktuð“, eins og segir í stefnu. Athugasemd í bókum Búnaðarsambands Eyjafjarðar frá 1971 um að hluti spildunnar, 0,83 hektarar, sé „leigt land frá Nesi“ skiptir því engu máli, en engar frekari skýringar á þessari færslu komu fram í skýrslu þess manns fyrir dómi, sem gerði hana. Þá er haldlaus og óútskýrð sú staðhæfing í stefnu að leigukjör hafi átt að vera sambærileg þeim, sem um hafi verið samið við eigendur Hléskóga um leigu á spildu til ræktunar í landi Ness, en samkvæmt þeim samningi var leigutími 10 ár og árlegt endurgjald 300 krónur. Jafnvel þótt sambærilegur samningur hefði verið gerður við áfrýjanda 1965 til tíu ára, girti það ekki fyrir að áfrýjandi ynni eignarrétt fyrir hefð með óslitnu eignarhaldi í 20 ár eftir 1975.
Samkvæmt framanröktu hefur stefndi ekki sannað frekar en gert var í máli nr. 284/2003 að áfrýjandi hafi haft umráð spildunar, sem málið snýst um, á grundvelli leigu- eða lánssamnings, þar sem afnotarétturinn hafi falið í sér samningsbundna skyldu til að skila landinu aftur að tilteknum tíma loknum. Er ekki leitt í ljós að áfrýjandi hafi mátt vænta þess að umráðin yfir landinu, sem nánir ættingjar veittu honum og fram er komið að þeir hafi ekki þurft á að halda í sínum búrekstri, væru aðeins tímabundin. Er sú aðstaða ekki fyrir hendi að ákvæði 3. mgr. 2. gr. laga nr. 46/1905 standi því í vegi að áfrýjandi geti unnið rétt með hefð, eins og hann krefst.
III.
Af hálfu áfrýjanda er því ómótmælt haldið fram að hann hafi þegar á árinu 1965 girt alla spilduna. Með því tryggði hann umráð sín og kom jafnframt í veg fyrir nýtingu annarra af landinu, sem hann ræktaði upp á næstu árum.
Á eina hlið liggur spildan að kvísl úr Fnjóská og bendir stefndi á að áfrýjandi hafi ekki nýtt veiðirétt þar. Nes hafi notið arðs af veiðihlunnindum í Fnjóská og arðskrá fyrir Veiðifélag Fnjóskár hafi lengi staðið óbreytt. Áfrýjandi hafi ekki haldið fram á þeim vettvangi að honum bæri stærri hlutur í arðskrá vegna eignar á umþrættu landi og ekki gert athugasemdir á árinu 2002 þegar landeigendur merktu landamerki á loftmynd til að mæla bakkalengd jarða, þegar arðskrá var endurskoðuð. Gegn þessu hefur áfrýjandi ómótmælt haldið fram að engin veiði sé í þeirri kvísl Fnjóskár, sem spildan liggur að. Þá skiptir bakkamæling árið 2002 þegar hefðartími var löngu fullnaður ekki máli. Hinu sama gegnir um greiðslu veiðiarðs til Ness, sem áfrýjandi hefur greint frá að hafi komið til á allra síðustu árum og nemi árlega um 2000 krónum, en jörðin á land að Fnjóská á stóru svæði við og nærri ósum hennar. Að öðru leyti er þetta atriði, sem stefndi hefur ekki skýrt neitt nánar við meðferð málsins, svo sem hvort um greiðslu arðs hafi verið að ræða á tímabilinu 1965 til 1985. Getur þessi viðbára stefnda ekki haggað þeirri niðurstöðu að ekki er öðrum til að dreifa en áfrýjanda, sem hefur nýtt spilduna í fullan hefðartíma eftir 1965.
Stefndi mótmælir því að samanlagður umráðatíma áfrýjanda og föður hans á spildunni sé lagður saman, en nýting hvors þeirra sé ekki nægjanlega löng til að hefð teljist fullnuð. Að framan var því lýst að áfrýjandi fékk sjálfur umráð spildunnar, en jafnvel þótt litið yrði svo á að faðir hans hafi upphaflega fengið réttinn til að nýta hana eru haldlaus þau mótmæli stefnda að óheimilt sé að leggja saman umráðatíma þeirra beggja við úrlausn um það hvort hefðartími sé fullnaður, sbr. 3. gr. laga nr. 46/1905.
Samkvæmt því, sem að framan er rakið, tel ég skilyrði vera uppfyllt fyrir því að áfrýjandi hafi unnið eignarrétt á umræddri spildu fyrir hefð. Ég tel því að niðurstaða málsins eigi að vera sú að fallast beri á kröfur hans í málinu og dæma stefnda til að greiða honum málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 11. maí 2005.
Mál þetta, sem dómtekið var þann 14. apríl s.l., hafa Ari Laxdal, [...] og Sigurlaug Sigurðardóttir, [...], bæði til heimilis að Nesi í Grýtubakkahreppi, f.h. Helguhóls ehf. [...] höfðað hér fyrir dómi með stefnu birtri 16. apríl 2004, á hendur Sævari Magnússyni kt. 210636-7819, til heimilis að Syðri-Grund í Grýtubakkahreppi.
Endanlegar dómkröfur stefnanda Helguhóls ehf. eru, að viðurkennt verði með dómi að ca. 9,7 ha. landspilda, sem liggur á milli kvíslar úr Fnjóská og heimreiðar að Nesi og er afmörkuð á meðfylgjandi hnitsettri loftmynd, dagsett í september 2002, unnin af Búnaðarsambandi Eyjafjarðar, sbr. og framlögð hnitaskrá, verði viðurkennt eignarland stefnanda, sem enn tilheyri landinu Nesi.
Af hálfu stefnanda er krafist málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda og til samræmis við framlagðan málskostnaðarreikning.
Dómkröfur stefnda eru aðallega, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Jafnframt gerir stefndi þá kröfu, að viðurkenndur verði eignarréttur stefnda að umþrættri landspildu.
Af hálfu stefnda er krafist greiðslu málskostnaðar að skaðlausu eða eftir framlögðum málskostnaðarreikningi eftir atvikum og að tekið verði tillit til þess að stefndi er ekki virðisaukaskattsskyldur.
Málavextir.
Málavextir eru þeir að Grímur Laxdal keypti jörðina Nes í Grýtubakkahreppi árið 1928. Árið 1951 selur Grímur syni sýnum Jóni Laxdal helming jarðarinnar og hinn helminginn árið 1970. Sonur Jóns, Ari Laxdal og kona hans Sigurlaug Sigurðardóttir kaupa jörðina af Jóni, sbr. kaupsamningur 31. desember 1996 og afsal útgefið 5. júlí 1999. Með yfirlýsingu dags. 5. desember 2002 var jörðin loks framseld til Helguhóls ehf. sem telst nú vera skráður eigandi að Nesi. Stefndi, Sævar Magnússon er bóndi á grannjörðinni Syðri-Grund og hóf þar félagsbúskap um 1965 ásamt föður sínum Magnúsi Snæbjarnarsyni. Tók stefndi við öllum rekstri búsins af föður sínum árið 1974 og eignast formlega Syðri-Grund við afsal 13. júní 1987. Snýst ágreiningur málsaðila hér fyrir dómi um eignarréttindi að tiltekinni 9.7 ha. landspildu úr landi Ness sem stefndi hefur þó haft umráð yfir í áraraðir.
Landamerki jarðarinnar Ness eru samkvæmt landamerkjaskrá í Grýtubakkahreppi dags. 16. maí 1889, þinglesin að Grýtubakka 21. maí 1889 og innfærð í landamerkjabók Þingeyjarsýslu nr. 32. Óumdeilt er að umþrætt ca. 9,7 ha. landspilda tilheyrði upphaflega landi Ness, en ábúendur að Syðri-Grund hafa einir nýtt spilduna í áraraðir.
Málsaðilum ber ekki fyllilega saman um það hvenær eða með hvaða hætti umþrætt landspilda úr Nesi var falin bændum að Syðri-Grund til nota. Virðist það hafa gerst með e.k. munnlegu samkomulagi hlutaðeigandi bænda á 7. áratug sl. aldar, en ekkert liggur skriflega fyrir um samkomulag eða efni þess. Var upphaflega um að ræða óræktaðan skika undir kartöflurækt en árin 1970-1975 virðist hafa verið lagt til meira land og breyttist það síðar í tún við ræktun. Eftir því sem næst verður komist stóðu að þessum gerningum feðgarnir Grímur Laxdal og Jón Laxdal frá Nesi annars vegar og faðir stefnda, Magnús Snæbjarnarson á Syðri-Grund hins vegar en Magnús var kvæntur Guðnýju dóttur Gríms og systur Jóns.
Af hálfu stefnda hefur komið fram að afi hans Grímur Laxdal hafi upp úr 1960 gefið honum umþrætta landspildu. Hafi stefndi sjálfur hafið ræktun spildunnar árið 1965 þá hann hóf félagsbú með föður sínum og hafi hann einn nýtt landið þaðan í frá. Þegar stefndi hafi keypt Syðri-Grund af föður sínum hafi undir þau kaup m.a fallið öll ræktun sem faðir hans hafi átt á öðrum jörðum, þ.e. á hinni umþrættu spildu úr landi Ness sem og á prestsetrinu Laufási en bændur á Syðri-Grund ræktuðu einnig spildu úr landi Laufáss með heimild jarðeigenda þar. Upp frá því hafi stefndi ræst landið fram, girt það og sléttað, ræktað þar kartöflur, en tekið það síðar undir grasnyt.
Fyrirsvarsmaður stefnanda, Ari Laxdal kveðst ætíð hafa haft þann skilning að stefndi hafi haft spilduna úr landi Ness að láni. Sendi hann stefnda bréf dagsett 19. janúar 2001 með skriflegum leigusamningi til undirritunar, en ekki hafi áður verið farið fram á endurgjald fyrir afnotin. Neitaði stefndi undirritun samnings þar sem hann taldi sig réttan eiganda spildunnar.
Þann 20. júní 2003 var kveðinn upp úrskurður í Héraðsdómi Norðurlands eystra um þá kröfu stefnanda þessa máls, að stefndi í málinu yrði borinn út af umþrættri landspildu með beinni aðfarargerð og stefnanda fengin umráð hennar, sbr. 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Úrskurður héraðsdóms í því máli var kærður til Hæstaréttar Íslands sem hafnaði kröfu um beina aðfarargerð með dómi í máli nr. 284/2003 frá 1. september 2003. Er mál þetta nú rekið hér fyrir dómi til að fá úr því skorið hvar eignarréttindi liggja varðandi umþrætta landspildu.
Málsástæður og lagarök af hálfu stefnanda.
Af hálfu stefnanda er byggt á því, að aðilar hafi um 1975, þegar spildan var fullræktuð, gert munnlegt samkomulag um leigulaus afnot af landspildunni í a.m.k. 20 ár, en að þeim tíma liðnum skyldu bæði ræktun og girðing þar verða eign leigusala án þess að sérstakt gjald kæmi fyrir. Hafi m.a. verið tekið mið af sambærilegum samningi sem Jón Laxdal gerði við þá Guðmund og Sigurð Þórissyni í Hléskógum um svipað leiti.
Stefnandi byggir á óumdeildum þinglýstum landamerkjum jarðarinnar Ness. Umrædd spilda hafi aldrei verið seld eða gefin frá jörðinni og því greiði stefnandi fasteignagjöld af spildunni líkt og öðru landi jarðarinnar. Sá sem hafi athugasemdalausa eignarheimild fyrir fasteign teljist réttur eigandi hennar en sá sem haldi öðru fram beri sönnunarbyrði fyrir því.
Stefndi hafi byggt á því, eins og fram komi í bréfi lögmanns stefnda dags 30. janúar 2001, að hann hafi fengið spilduna að gjöf frá Grími Laxdal afa sínum, en hefðarsjónarmiðum hafi hann aðeins haldið fram til vara. Að stefnda hafi verið gefin umþrætt spilda á grundvelli löggernings útiloki að fallast megi á kröfu hans um eignarréttindi fyrir hefð. Þótt stefndi geti ekki sannað slíkan gjafagerning standi huglæg afstaða hans í vegi kröfu um hefð sbr. 2. mgr. 2. gr. hefðarlaga. Stefnandi mótmæli því sem ósönnuðu að stefndi hafi fengið spilduna að gjöf og fái stoð í dómi Hæstaréttar frá 1. september frá 2003, í máli nr. 284/2003.
Eignarréttarkrafa byggð á hefð fái ekki staðist þar sem ljóst sé af gögnum málsins að stefnandi eignist ekki jörðina Syðri-Grund fyrr en með afsali árið 1987. Fram til þess hafi faðir hans talist eigandi Syðri-Grundar, en stefndi stundað þar búskap í skjóli hans. Með afsalinu sé hins vegar ljóst að stefndi kaupi einnig ræktun föður síns á umþrættri spildu þar sem ræktað land hafi verið metið á 440 þúsund kr., en árið 1986 sé öll ræktun sem tilheyri Syðri-Grund metin á þá upphæð og sögð vera 28,7 ha., en sú tala fái ekki staðist nema hin umþrætta spilda sé reiknuð með. Stefndi hafi því keypt spilduna af föður sínum en ekki átt hana sjálfur svo lengi sem hann hafi haldið fram. Afhendingardagur eigna hafi verið 13. mars 1987 og hafi 20 ára hefð því ekki verið fullnuð miðað við það tímamark. Stefndi beri sönnunarbyrði fyrir því að um fullkomin umráð hafi verið að ræða sem staðið hafi fullan hefðartíma.
Í úttekt Búnaðarsambands Eyjafjarðar frá 1971 hafi komið fram að 0.83 ha. ræktun úr spildunni hafi verið tekin út og að um hafi verið að ræða leiguland frá Nesi. Stefndi hafi þar verið skráður handhafi ræktunarinnar en hann hafi þá ekki verið skráður fyrir eignum að Syðri-Grund og hafi því engin gjöld greitt sjálfur. Hafi þar komið fram og ekki verið hrakið af hálfu stefnda að ábúendur Syðri-Grundar hafi þá verið með landið á leigu og að afnot hafi þá verið að hefjast að hluta a.m.k. Ljóst væri að 20 ára hefð hafi ekki verið fullnuð af hálfu Magnúsar Snæbjarnarsonar árið 1987 þegar hann hafi selt Syðri-Grund til stefnda og þar með ræktun á spildunni. Hafi Magnús aldrei borið við eignarrétti á landspildunni fyrir hefð en réttur stefnda geti aldrei orðið betri en þess aðila sem hann leiði rétt sinn frá, sbr. 2. mgr. 2. gr. hefðarlaga.
Grímur Laxdal, afi beggja málsaðila, hafi lengi verið hreppstjóri í Grýtubakkahreppi og honum hafi því verið vel ljóst hvernig eigendaskipti að landi jarða í sveit skyldu með réttu ganga fyrir sig og leiki ekki vafi á um að hann hefði skjalfest slík viðskipti hafi hann ætlað þau varanleg. Vísist til jarðalaga og lax og silungsveiðilaga sem setji slíkum eignartilfærslum skorður og ákvæði landskiptalaga varðandi skiptingu jarða, en með vísan til þessa sé því haldið fram að fullkomin eignayfirfærsla á umræddri spildu hafi ekki getað farið fram á grundvelli hefðar.
Eigendur Ness hafi notið óskert allra hlunninda af jörð sinni allan hinn umþrætta afnotatíma, þ.m.t. veiðihlunninda úr Fnjóská, og hafi stefndi engar athugasemdir gert þar um. Hafi hann m.a. ekki gert athugasemd árið 2002 þegar landeigendur merktu landamerki inn á loftmynd til að mæla bakkalengd jarða sem arðskrá er unnin eftir en bakkinn á hinni umþrættu spildu hafi þá verið talinn tilheyra Nesi svo sem verið hafi. Með því hafi stefndi viðurkennt eignarrétt stefnanda og girði það fyrir eignarhefð, sbr. 1. mgr. 2. gr. hefðarlaga.
Stefnandi vísar til 25. og 26. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978 um rétt þinglýsts eiganda, laga um landamerki nr. 41/1919, ákvæða 72. gr. stjórnarskrár, sbr. 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við mannréttindasáttmála Evrópu, til hefðarlaga nr. 46/1905, einkum 2.-4. gr., jarðalaga nr. 65/1976, laga um lax og silungsveiði nr. 76/1970, landskiptalaga nr. 46/1941 og til laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 2. mgr. 25. gr. og VI. kafla og XXI. kafla.
Málsástæður og lagarök af hálfu stefnda.
Stefndi byggir á því að hann hafi fyrir óslitið eignarhald unnið eignarhefð á hinni umþrættu landspildu, sbr. 1. gr. laga nr. 46/1905 um hefð. Stefndi hafi haft spilduna í vörslum og nýtt hana sjálfur óslitið sem sína eign frá árinu 1965 eða í 37 ár þegar stefnandi hafi krafist aðfarar þann 30. júlí 2002. Engir aðrir en stefndi og faðir hans í fyrstu, sem þinglýstir eigendur að Syðri-Grund, hafi haft umráð yfir né heldur nýtt spilduna frá árinu 1965 þegar stefndi hafi tekið við landinu til ræktunar, sem sé í fullan hefðartíma og rúmlega það. Engar athugasemdir hafi verið gerðar við vörslur eða notkun stefnda á landspildunni þessi 37 ár, né hafi verið gerðar kröfur um greiðslu leigugjalds fyrr en árið 2002, né komið fram mótmæli við hagnýtingu stefnda á spildunni, sem hafi nýtt hana í þeirri trú að hann væri eigandi hennar.
Af hálfu stefnda er staðhæft að afi hans Grímur Laxdal hafi gefið honum spilduna og því hafi leigusamningur eðlilega ekki verið gerður, né heldur krafið um leigugjald, settir skilmálar um skil á spildunni eða takmarkanir við nýtingu hennar. Þar sem engin gögn hafi hins vegar fundist um ofangreinda gjöf né heldur um meintan leigusamning aðila, svo sem fram komi í dómi Hæstaréttar Íslands, verði ekki á því byggt af hans hálfu í máli þessu.
Stefndi mótmælir sem röngum þeim fullyrðingum af hálfu stefnanda að ábúendur Syðri-Grundar hafi haft spilduna á leigu árið 1971. Sé tilvísun í úttekt Búnaðarsambands Eyjafjarðar frá því ári sérstaklega mótmælt sem þýðingarlausri þar sem hún byggi aðeins á ályktun ráðunautar án tilvísunar til annarra gagna. Þá er því mótmælt að afnot stefnda hafi verið í óþökk stefnanda þar sem stefnandi hafi aldrei gefið neitt slíkt í skyn fyrr en árið 2002.
Stefndi hafnar þeirri málsástæðu stefnanda að sú staðreynd að stefndi hafi aldrei gert aukna kröfu um veiðirétt í Fnjóská að tiltölu við landspilduna hafi þá þýðingu að stefndi hafi með því viðurkennt eignarétt stefnanda yfir spildunni.
Telur stefndi, að með því að hafa spilduna í vörslum sínum frá 1965, eða í meira en 20 ár, hafi hann unnið eignarhefð yfir henni þegar árið 1985, sbr. dómar Hæstaréttar Íslands frá 1964 bls. 716 (720) og í máli réttarins frá 2002, nr. 482, en ósannað sé um aðra tilurð eignaréttar. Stefndi hafi allan hefðartímann verið í góðri trú um að hann hefði full umráð og vörslur spildunnar á grundvelli þess að afi hans Grímur Laxdal hafi gefið honum landið þótt ekki liggi fyrir um það skriflegur gerningur. Stefnandi beri enn fremur sönnunarburði fyrir því að uppsegjanlegur leigusamningur hafi upphaflega verið gerður um leiguafnot spildunnar á milli aðila, en slíkt teljist ósannað, sbr. dómur í fyrra mál aðila fyrir Hæstarétti Íslands, mál nr. 284 frá 2003.
Verði litið svo á að stefndi hafi formlega með afsali árið 1987 tekið við Syðri-Grund af föður sínum teljist hefðartími samt vera unninn á grundvelli reglunnar um accessio possessionis. Þ.e. að óslitinn vörslutími þeirra feðga Magnúsar og Sævars á spildunni skuli lagður saman á grundvelli lögmæts framsals á Syðri-Grund og sé því ákvæði 3. gr. hefðarlaga nr. 46/1905 fullnægt með því að leggja saman eignarhald feðganna að Syrði-Grund fyrir tímabilið 1965-2002.
Af hálfu stefnda er vísað til þess að þrátt fyrir að eignaréttur hafi upphaflega legið hjá tilteknum aðila þurfi það ekki að girða fyrir það að annar aðili geti hefðað eignina ef skilyrði hefðarlaga séu á annað borð fyrir hendi eins og sé í þessu tilviki. Umráð eignar fullan hefðartíma feli í sér eignarrétt fyrir hefðanda, jafnvel þótt skráður eigandi hafi verið fyrir hendi að viðkomandi eign, sbr. 16. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978, en hefðun eignaréttinda sé ekki bundin því skilyrði að engin hafi verið eigandi eignar, sbr. dómar Hæstaréttar Íslands í máli frá 1983, bls. 2076 (2077) og í máli frá 1984, bls. 1391 (1393).
Þótt stefnda hafi skort formlega eignaheimild að spildunni, þá geti 2. mgr. 2. gr. hefðarlaga nr. 46/1905 ekki staðið í vegi hefðar. Telji stefndi, að þar sem hann hafi einn og/eða faðir hans haft umráð spildunnar fullan hefðartíma skv. 1. mgr. 2. gr. hefðarlaga, þá verði að líta svo á að hann hafi unnið eignarhefð á umþrættri landspildu, sbr. einkum dóm Hæstaréttar í máli nr. 482/2002.
Af hálfu stefnda er áréttað að hann sé ekki kominn að umþrættri landspildu með leigu eða láni, sbr. dómar Hæstaréttar Íslands frá 1998, bls. 4500 (4501) og frá 1999, bls. 3679 eða með veðsetningu eða vegna geymslu, sbr. 3. mgr. 2. gr. hefðarlaga nr. 46/1905 og þar sem slíku sé ekki til að dreifa þá standi 3. mgr. 2. gr. hefðarlaga ekki í vegi hefðarréttar. Þá standi 2. mgr. 2. gr. hefðarlaganna heldur ekki í vegi því, að stefndi hafi unnið hefð á landspildunni, sbr. dómar Hæstaréttar Íslands í málum frá 1983, bls. 2076 (2077) og 1984, bls. 1391 (1393).
Stefndi byggi á hefðarlögum nr. 46/1905 og Þinglýsingarlögum nr. 39/1978, en um málskostnað vísar hann til 1. mgr.130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Niðurstaða.
Fyrir dómi voru teknar aðilaskýrslur af þeim Ara Laxdal og Sævari Magnússyni en vitnaskýrslur af þeim Jóni Laxdal, fyrrverandi bónda að Nesi og Ólafi Vagnssyni, ráðunauti hjá Búnaðasambandi Eyjafjarðar.
Í málflutningi við aðalmeðferð ákvað stefnandi að skerpa á orðalagi dómkrafna í stefnu til þess horfs sem að framan greinir og sætti það engum athugasemdum af hálfu stefnda. Kom og fram fyrir dómi að málsaðila greinir ekki á um skilgreiningu og afmörkun þess lands sem deilt er um.
Málavextir liggja fyrir í megindráttum. Af hálfu beggja málsaðila er gerð sú krafa að viðurkenndur verði eignaréttur þeirra að umþrættri ca. 9,7 ha. landspildu, sem liggur á milli kvíslar úr Fnjóská og heimreiðar að Nesi og er afmörkuð á framlagðri hnitsettri loftmynd frá Búnaðarsambandi Eyjafjarðar frá september 2002. Ágreiningur aðila afmarkast í reynd við það úrlausnarefni hvort stefndi, bóndinn að Syðri-Grund, teljist hafa unnið eignarhefð yfir umþrættri landspildu, sem óumdeilt telst upphaflega til jarðar stefnanda að Nesi og er innan landamerkja hennar.
Fyrir dómi var því borið við af hálfu stefnda, Sævari Magnússyni að afi hans Grímur Laxdal hefði gefið honum umþrætta landspildu árið 1965. Reisir stefndi þó ekki mál sitt á þeim grunni hér fyrir dómi, heldur byggir hann einungis á því að hann beri að telja réttan eiganda landspildunnar fyrir hefð.
Í framburði vitnisins Jóns Laxdal, sem er faðir fyrirsvarsmanns stefnanda og fyrrum bóndi að Nesi, kom m.a. fram að hann hefði sjálfur staðið að því fyrir hönd bænda í Nesi að umþrætt landspilda hafi á sínum tíma verið lánuð endurgjaldslaust úr landi Ness til Magnúsar Snæbjarnarsonar og hans fólks að Syðri-Grund, til ræktunar og afnota. Ekki hafi verið gerður skriflegur samningur um lánið enda um fjölskyldutengsl að ræða, en skortur hafi verið á ræktarlandi að Syðri-Grund í þá tíð. Að sögn vitnisins Jóns Laxdal færðu þeir Magnús Snæbjarnarson mágur hans það í tal á sínum tíma að ganga skriflega frá hinu óformlega fyrirkomulagi um lánsafnot af landspildunni, en því hafi þó aldrei verið komið í framkvæmd.
Við úrlausn málsins verður að áliti dómsins að taka mið af ofangreindum vitnisburði Jóns Laxdal sem er í senn greinargóður og trúverðugur á þá lund að umþrætt landspilda hafi á árunum 1965-1970 verið lánuð til grannjarðarinnar að Syðri-Grund í ótiltekinn tíma og rennir framburðurinn stoðum undir þá málsástæðu stefnanda. Það styrkir og framburð vitnisins Jóns Laxdal að ósennilegt verður að telja að Grímur Laxdal fyrrum hreppstjóri og bóndi að Nesi hafi gengið frá eiginlegum gjafagerningi á landi úr jörð í sveit með óformlegum hætti, auk þess sem stefndi hefur eftir því sem næst verður komist aldrei gert nokkrar kröfur um tilsvarandi veiðiréttindi í Fnjóská. Þykir í ljósi þess sem að ofan er rakið rétt að stefndi verði að bera sönnunarbyrði fyrir því að framsal landspildunnar til hans hafi átt sér stað með öðrum hætti en fyrir lánsgerning. Verða fullyrðingar stefnda um að afi hans hafi gefið honum spilduna að teljast ósannaðar við svo búið, enda byggir stefndi raunar ekki málatilbúnað sinn á þeim grunni heldur styður kröfur sínar einvörðungu við sjónarmið um hefð.
Í 3. mgr. 3. gr. gr. hefðarlaga nr. 46/1905 segir: „Nú hefir hefðandi fengið hlutinn að veði, til geymslu, til láns eða á leigu, og geta þá slík umráð ekki heimilað hefð.“
Með vísan til ofangreinds ákvæðis og þess sem áður var rakið verður að hafna þeirri málsástæðu stefnda að hann hafi unnið eignarhefð yfir umþrættri landspildu, sem að öðru leyti er óumdeilt að tilheyri jörðinni Nesi.
Að framansögðu er það niðurstaða málsins, að viðurkennt er að um 9,7 ha. landspilda, sem liggur á milli kvíslar úr Fnjóská og heimreiðar að Nesi og er afmörkuð á meðfylgjandi hnitsettri loftmynd, dagsettri í september 2002, unnin af Búnaðarsambandi Eyjafjarðar, sbr. og framlögð hnitaskrá, skuli teljast eignarland stefnanda og tilheyri landinu Nesi í Grýtubakkahreppi.
Með vísan til framangreindra lykta þykir rétt að stefndi greiði stefnanda 300.000 krónur í málskostnað.
Dóminn kvað upp Ólafur Ólafsson héraðsdómari.
D ó m s o r ð:
Viðurkennt er að um 9,7 ha. landspilda, sem liggur á milli kvíslar úr Fnjóská og heimreiðar að Nesi og er afmörkuð á meðfylgjandi hnitsettri loftmynd, dagsettri í september 2002, unnin af Búnaðarsambandi Eyjafjarðar, sbr. og framlögð hnitaskrá, skuli teljast eignarland stefnanda Helguhóls ehf., og tilheyrir landinu Nesi.
Stefndi greiði stefnanda krónur 300.000 í málskostnað.