Hæstiréttur íslands
Mál nr. 457/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Sönnunarfærsla
- Framlagning skjals
- Lögvarðir hagsmunir
|
|
Þriðjudaginn 9. september 2014. |
|
Nr. 457/2014.
|
Jón Helgi Egilsson (Arnar Þór Stefánsson hrl.) gegn Lögskilum ehf. (Björn Ólafur Hallgrímsson hrl.) Hilmari Magnússyni og (sjálfur) Ágústi Sverri Egilssyni (Gísli Guðni Hall hrl.) |
Kærumál. Sönnunarfærsla. Framlagning skjals. Lögvarðir hagsmunir.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfum J aðallega um að L ehf. yrði gert að afhenda afrit af samningi sínum og Q um framsal á tilteknu einkaleyfi frá fyrrnefnda félaginu til þess síðarnefnda, millifærslukvittun/millifærslukvittanir er sýndu það endurgjald sem komið hefði fyrir einkaleyfið og afrit af tímaskýrslu vegna reiknings L ehf. til C ehf. vegna lögmannsþjónustu, en til vara að Á yrði gert að afhenda afrit af framangreindri tímaskýrslu. Atvik máls voru með þeim hætti að á grundvelli reiknings sem L ehf. gerði C ehf., sem J var einn eigenda að, var að kröfu fyrrgreinda félagsins gert fjárnám í einkaleyfi C ehf. og var L ehf. hæstbjóðandi er einkaleyfið var selt nauðungarsölu. Bar J því m.a. við að við L ehf. hefði auðgast með óréttmætum hætti á kostnað C ehf. við fjárnámið og nauðungarsöluna, en krafa hans um afhendingu á samningnum um framsal einkaleyfisins til Q og millifærslukvittunum var gerð í því skyni að átta sig á tjóni C ehf. vegna þessa. Þá var krafa J um afhendingu á tímaskýrslum á því reist að hún upplýsti um tilurð kröfu L hf. sem var grundvöllur aðfarar í einkaleyfinu og síðar nauðungarsölu á því. Hæstiréttur féllst á með héraðsdómi að J hefði ekki lögvarða hagsmuni af því að fá gögn um það við hvaða verði einkaleyfið hefði verið selt frá L ehf. til þriðja aðila, en niðurstaða um ætlað tjón C ehf. réðist af því hvort L ehf. hefði L ehf. hefði við nauðungarsöluna fengið meira verðmæti en sem numið hefði réttmætri kröfu félagsins á þeim tíma og yrði sönnun um það einkum aflað með matsgerð dómkvaddra matsmanna. Að því er varðaði kröfu J um afhendingu tímaskýrslnanna vísaði Hæstiréttur til þess að J hefði ekki með skýrum hætti gert grein fyrir því á hvaða grundvelli reikningur L ehf. kynni að verða vefengdur og hefði hann ekki haldið því fram að krafan hefði verið óréttmæt. Þá hefði hvorki verið gerð grein fyrir tengslum kröfunnar við ætlaða kröfu á hendur L ehf. um endurgreiðslu ólögmætrar auðgunar né ætlaðrar skaðabótaskyldu Á eða H. Var því ekki talið að lagaskilyrði væru til þess að J gæti fengið skjalið afhent. Var niðurstaða héraðsdóms því staðfest.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. júní 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. júlí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. júní 2014, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðilanum Lögskilum ehf. og varnaraðilanum Ágústi Sverri verði hvorum fyrir sitt leyti gert að afhenda nánar tilgreind skjöl, en fallist á að nafngreindur maður skyldi gefa skýrslu fyrir dómi. Kæruheimild er í f. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að varnaraðilanum Lögskilum ehf. verði gert að afhenda „afrit af samningi Lögskila ehf. og QZR IP Holdings LLC frá árinu 2011 um framsal á einkaleyfinu nr. 6.286.017 frá fyrrnefnda félaginu til þess síðarnefnda ... millifærslukvittun/millifærslukvittanir sem sýni það endurgjald sem barst til Lögskila ehf. fyrir nefnt einkaleyfi hvort sem það barst frá QZR IP Holdings LLC eða Spyscreen LCC“ og „afrit af tímaskýrslu á bak við reikning félagsins fyrir lögmannsþjónustu til Cell Objects á Íslandi ehf., dags. 16. mars 2007, til að öll framangreind skjöl verði lögð fram fyrir dómi.“ Til vara krefst hann þess að varnaraðilanum Ágústi Sverri verði gert að afhenda afrit af framangreindri tímaskýrslu svo hún verði lögð fram fyrir dómi. Þá krefst hann þess að ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað verði fellt úr gildi. Loks krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðilarnir Lögskil ehf. og Hilmar Magnússon krefjast þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi, en til vara staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Varnaraðilinn Ágúst Sverrir Egilsson krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Sóknaraðili kveðst í málinu neyta heimildar 2. málsliðar 2. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991 til þess að afla gagna um atvik sem hann hafi lögvarða hagsmuni af. Hagsmunir hans felist í því að hann og félagið, Cell Objects á Íslandi ehf., sem hann eigi 43% hlut í, hafi orðið fyrir tjóni er tiltekið einkaleyfi, sem félagið hafi átt, ,,gekk undan“ því til varnaraðilans Lögskila ehf. Af málatilbúnaði sóknaraðila má ráða að hann telji að varnaraðilar, einn eða fleiri, geti verið skaðabótaskyldur gagnvart sér vegna ætlaðs tjóns síns, beint eða vegna tjóns á hagsmunum Cell Objects á Íslandi ehf., eða hafi auðgast með óréttmætum hætti á sinn kostnað eða félagsins.
Ágreiningslaust er að Lögskil ehf. gerði Cell Objects á Íslandi ehf. reikning 16. mars 2007 fyrir lögfræðiþjónustu. Sá reikningur var ekki greiddur og höfðaði Lögskil ehf. mál á hendur síðarnefnda félaginu til heimtu reikningsfjárhæðarinnar. Stefna í málinu var árituð um heimild til aðfarar sem fram fór 5. nóvember 2010. Af hálfu gerðarþola mætti fyrirsvarsmaður þess, varnaraðilinn Ágúst Sverrir. Gert var fjárnám í einkaleyfi gerðarþola nr. 6.286.017 ásamt öllum réttindum sem því fylgdu, en það var skráð í Bandaríkjum Norður-Ameríku 4. september 2001. Krafa Lögskila ehf., sem fjárnámið var gert til að tryggja, var sögð 8.511.724 krónur. Einkaleyfið var selt nauðungarsölu 4. desember 2010 og var Lögskil ehf. hæstbjóðandi á uppboðinu og uppboðsandvirðið 100.000 krónur. Lögskil ehf. munu síðar hafa selt einkaleyfið til QZR IP Holding LLC.
Sóknaraðili telur að Lögskil ehf. hafi auðgast með óréttmætum hætti á kostnað Cell Objects á Íslandi ehf. og eigenda þess ,,við fjárnám og nauðungarsölu á einkaleyfinu ... í nóvember og desember 2010.“ Hann telur að varnaraðilinn Ágúst Sverrir kunni að hafa bakað sér skaðabótaskyldu með því að láta hjá líða að tryggja að Cell Objects á Íslandi ehf. fengi réttmætt endurgjald fyrir umrætt einkaleyfi og þrjú önnur, sem félagið hafi átt. Þá kveður sóknaraðili til skoðunar að beina málsókn gegn varnaraðilanum Hilmari Magnússyni, sem verið hafi í stjórn félagsins, á þeim grundvelli að ,,hann hafi verið samverkamaður Ágústs Sverris“ í þeirri háttsemi sem leiddi til þess að einkaleyfið ,,gekk undan“ félaginu án réttmæts endurgjalds, eins og lýst hefur verið.
II
Sóknaraðili kveðst krefjast tilgreindra gagna úr hendi Lögskila ehf. til þess að átta sig á umfangi tjóns Cell Objects á Íslandi ehf. en liður í því sé að fá gögn um það á hvaða verði Lögskil ehf. seldu einkaleyfið í árslok 2011.
Mat á ætluðu tjóni Cell Objects á Íslandi ehf. og hluthafa þess og ætlaðri óréttmætri auðgun Lögskila ehf. vegna nauðungarsölu á einkaleyfinu ræðst af því hvort síðastgreint félag hafi við nauðungarsöluna fengið meiri verðmæti en sem nemur réttmætri kröfu þess á þeim tíma. Niðurstaða þess mats ræðst af verðmæti einkaleyfisins á þeim tíma sem nauðungarsalan fór fram. Sönnunar um það, sé um það deilt, verður einkum aflað með matsgerð dómkvaddra manna. Verður því með vísan til forsendna héraðsdóms fallist á að sóknaraðili hafi ekki lögvarða hagsmuni af því að fá gögn um við hvaða verði einkaleyfið kann að hafa verið framselt síðar til þriðja manns.
Rök sóknaraðila fyrir því að krefjast afhendingar á tímaskrá að baki reikningi Lögskila ehf. 16. mars 2007 eru þau að afla þurfi gagna um tilurð kröfunnar, sem var grundvöllur aðfarar í einkaleyfinu og síðar nauðungarsölu á því. Reikningur Lögskila ehf. liggur frammi í málinu, en þar kemur fram sá tímafjöldi sem um ræðir og tímagjald, auk þess sem finna má stutta lýsingu á þeim verkum sem unnin voru. Í aðfararbeiðni kemur fram sundurliðun kröfunnar í höfuðstól, dráttarvexti og kostnað. Stefna í málinu var árituð af dómara um heimild til aðfarar 28. júlí 2010. Sóknaraðili gerir ekki með skýrum hætti grein fyrir því á hvaða grundvelli reikningurinn kunni að vera vefengdur og heldur því ekki fram að krafan hafi verið óréttmæt, einungis að afla þurfi gagna um tilurð hennar. Þá er hvorki gerð grein fyrir tengslum þessarar kröfu og ætlaðrar kröfu á hendur Lögskilum ehf. um endurgreiðslu óréttmætrar auðgunar né ætlaðrar skaðabótaskyldu Ágústs Sverris eða Hilmars Magnússonar. Með þessum athugasemdum, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar, verður hann staðfestur um að ekki séu lagaskilyrði til þess að sóknaraðili geti fengið skjalið afhent. Verður því hafnað kröfu sóknaraðila um afhendingu á tímaskrá Lögskila ehf. að baki reikningi félagsins 16. mars 2007 til Cell Objects á Íslandi ehf. sem og varakröfu hans um að fá skjalið úr hendi Ágústs Sverris.
Samkvæmt öllu framansögðu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Sóknaraðili greiði varnaraðilum kærumálskostnað eins og í dómorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Jón Helgi Egilsson, greiði hverjum varnaraðila, Lögskilum ehf. Hilmari Magnússyni og Ágústi Sverri Egilssyni, 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur mánudaginn 23. júní 2014.
Mál þetta, sem barst dóminum 13. mars sl., var tekið til úrskurðar 27. maí sl. Sóknaraðili er Jón Helgi Egilsson, kt. [...], Bandaríkjunum. Varnaraðilar eru Lögskil ehf., kt. [...], Suðurlandsbraut 48, Reykjavík, Hilmar Magnússon kt. [...], Hæðarseli 4, Reykjavík og Ágúst Sverrir Egilsson, kt. [...], Akrakór 7, Kópavogi.
Sóknaraðili krefst þess að varnaraðilanum Lögskilum ehf. verði gert að afhenda eftirtalin skjöl svo þau verði öll lögð fram í dómi:
1) Afrit af samningi Lögskila ehf. og QZR IP Holdings LLC frá árinu 2011 um framsal á einkaleyfinu nr. 6.286.017 frá fyrrnefnda félaginu til þess síðarnefnda,
2) Millifærslukvittun/millifærslukvittanir sem sýni það endurgjald sem barst til Lögskila ehf. fyrir nefnt einkaleyfi hvort sem það barst frá QZR IP Holdings LLC eða Spyscreen LCC.
3) Afrit af tímaskýrslu á bak við reikning félagsins fyrir lögmannsþjónustu til Cell Objects á Íslandi ehf. frá 16. mars 2007.
Til vara krefst sóknaraðili þess að varnaraðilanum Ágústi Sverri Egilssyni verði gert að afhenda afrit af nefndri tímaskýrslu svo hún verði lögð fram fyrir dómi.
Þá er þess krafist að skýrsla verði tekin fyrir dómi af Arnari Sigurðssyni, kt. [...], Bergstaðastræti 84, Reykjavík.
Varnaraðilinn Lögskil ehf. krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi en til vara að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst hann þess að honum verði „úrskurðuð ómaksþóknun úr hendi sóknaraðila skv. mati réttarins“.
Varnaraðilinn Hilmar Magnússon krefst þess að beiðninni verði vísað frá dómi hvað hann varðar og „sóknaraðili dæmdur til greiðslu ómaksþóknunar“.
Varnaraðilinn, Ágúst Sverrir Egilsson, krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar að skaðlausu samkvæmt mati réttarins.
Málið var flutt samtímis um form- og efnishlið þess 27. maí sl. og tekið til úrskurðar þann dag að málflutningi loknum.
I
Málsatvik
Þann14. febrúar 2002 var ritað undir hluthafasamkomulag í einkahlutafélaginu Cell Objects á Íslandi ehf. þess efnis að félagið yrði 100% eigandi að einkaleyfi því sem aðilar samkomulagsins, sóknaraðili máls þessa, varnaraðilinn Ágúst Sverrir Egilsson og Íslenskir aðalverkatakar hf. (ÍAV), höfðu fram að því átt sameiginlega. Nefnt var í samkomulaginu að einkaleyfið hefði verið fengið fyrir Bandaríkin, Kanada, Frakkland, Bretland, Írland og Þýskaland. Tekið var fram að einkaleyfin byggðust öll á einkaleyfisumsókn US 08/392, 164, frá 22. febrúar 1995. Ótvírætt sé að einkaleyfi, með bandarísku einkaleyfisnúmerin 6.286.017, 6.763.498, 7.853.867 og 2011/0022939, byggjast öll á einkaleyfisumsókn US 08/392, 164, frá 22. febrúar 1995. Eignarhald á félaginu Cell Objects á Íslandi ehf. mun frá árinu 2002 hafa verið þannig að varnaraðilinn, Ágúst Sverrir átti 45%, sóknaraðili 43% og ÍAV 12%. Landsbanki Íslands hf. mun hafa lánað félaginu í upphafi og gengust varnaraðilinn Ágúst og sóknaraðili í sjálfskuldarábyrgð fyrir þeirri skuld.
Sóknaraðili greinir svo frá í beiðni sinni að síðar, og án atbeina og samþykkis hans, hafi Landsbankinn fallið frá ofangreindri sjálfskuldarábyrgð á hendur varnaraðilanum Ágústi. Til þess hafi bankinn eða varnaraðilinn Ágúst þó haft nokkra heimild enda hefði þurft sóknaraðila til þess að hann stæði einn eftir sem skuldari að skuldinni. Sóknaraðili hafi alla tíð mótmælt þessum gerningi og kveðst hann áskilja sér allan rétt í tengslum við hann. Á árinu 2001 hafi sóknaraðili ákveðið, að áeggjan varnaraðilans Ágústs, að segja upp góðu starfi hjá Mentis hf. og flytja búferlum til Palo Alto í Kaliforníu til að geta einbeitt sér að uppbyggingu Cell Objects á Íslandi ehf. sem framkvæmdastjóri. Sóknaraðili kveðst engin laun hafa fengið greidd frá félaginu á þessum tíma og hafi því haft af því töluverðan útlagðan kostnað til viðbótar. Í kjölfar áhuga IBM á félaginu á árunum 2001/2002 hafi aukist áhugi fyrrum starfsmannastjóra ÍAV, Ólafs Thors, á félaginu. ÍAV hafi í kjölfarið tilkynnt sölu á sínum hlut til Ólafs Thors. Hins vegar hafi forkaupsréttarákvæði ekki verið virt og þess vegna hafi þessi eignatilfærsla verið markleysa. Upp hafi risið mikil deila og hafi Ólafur Thors fengið varnaraðilann Hilmar Magnússon, lögmann hjá varnaraðilanum Lögskilum ehf., til að gæta hagsmuna sinna sem lögmaður í þeirri deilu. Sú deila hafi m.a. gengið til dómstóla en verið vísað frá dómi vegna skorts á lögvörðum hagsmunum. Um það leyti, hafi sóknaraðila borist tölvupóstur frá varnaraðilanum Ágústi þar sem því hafi m.a. verið hótað að framangreint samkomulag frá 4. febrúar 2002 yrði „ógilt“, hvernig svo sem það átti að gerast lögfræðilega. Þá hafi verið sagt í tölvupóstinum: „Ég mun því í kjölfarið beita mér fyrir því að einkaleyfið sé flutt í félag sem er í eign ÍAV og míns eingöngu.“ Segja megi að krókurinn hafi beygst snemma því að þessi tölvupóstur sé upptaktur að því sem gerðist tæpum 9 árum síðar þegar einkaleyfin hafi verið færð undan félaginu og seld bandarískum aðila, QZR IP Holdings LLC. Þessum viðskiptum hafi verið haldið leyndum og vísvitandi látið líta svo út að þetta hefði aldrei gerst. Hið sanna hafi komist upp fyrir nokkrum mánuðum, ríflega þremur árum eftir verknaðinn, eins og nánar verði rakið hér á eftir.
Árið 2002 hafi sóknaraðili verið þjófkenndur vegna láns Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins til félagsins. Allir hluthafar þess hafi samþykkt það lán og ráðstöfun þess. Auk þess hafi varnaraðilinn Ágúst útlistað rækilega í pósti til foreldra sinna og sóknaraðila tveimur vikum fyrr, að sóknaraðili hefði allan rétt á að taka lánið og ráðstafa því og hafi Ágúst hvatt sérstaklega til lántökunnar eins og fram komi í dómi Hæstaréttar 15. mars 2007 í hæstaréttarmáli nr. 504/2006. Örskömmu eftir samþykkt lánsins hafi varnaraðilinn Ágúst ekkert viljað kannast við lánið og sent sjóðnum og Landsbankanum orðsendingu þess efnis að hann liti svo á að lánið væri félaginu óviðkomandi og yrði að meðhöndlast sem persónulegt lán sóknaraðila Með áðurnefndum dómi Hæstaréttar í máli nr. 504/2006 hafi verið staðfest að félagið væri bundið við lánið og að það hefði byggst á ákvörðun sem tekin hafi verið á stjórnarfundi í félaginu 6. ágúst 2002. Varnaraðilinn Ágúst mun hafa flutt málið sjálfur fyrir Hæstarétti, f.h. félagsins, en varnaraðilinn Hilmar Magnússon hrl. í héraði, væntanlega að beiðni Ágústs. Þar með hafi Hilmar, sem verið hafði lögmaður Ólafs Thors gagnvart félaginu og sóknaraðila, verið orðinn lögmaður félagsins. Sóknaraðili kveðst frá upphafi hafa gert Ágústi og Hilmari báðum grein fyrir því munnlega og skriflega að hann, sem einn aðaleigandi félagsins, samþykkti aldrei að lögmanni Ólafs Thors yrði greidd króna fyrir að verja félagið í máli sem til væri komið vegna ólögmætrar tilraunar Ólafs Thors og Hilmars af hans hálfu til að gera hann að hluthafa án þess að virða ákvæði um forkaupsrétt. Sóknaraðili hafi lýst því hvernig Hilmar Magnússon hrl. hefði gert honum óformlegt og munnlegt tilboð þess efnis að bréfið, sem hafi þjófkennt sóknaraðila gagnvart lánveitanda félagsins, Nýsköpunarsjóði Atvinnulífsins, yrði „leiðrétt“ og dregið til baka gegn því að hann samþykkti skjólstæðing sinn, Ólaf Thors, sem hluthafa, án þess að kauptilboð yrði lagt fram og þess ekki krafist að forkaupsréttarákvæði félagsins yrði virt. Sóknaraðili kveðst hafa hafnað þessu „tilboði“.
Eftir framangreindar deilur hafi sóknaraðili hætt afskiptum af félaginu. Eignarhald hans á 43% í félaginu hafi þó alltaf haldist auk þess sem sóknaraðili hafi að forminu til setið í stjórn félagsins og sé í sjálfskuldarábyrgð fyrir kröfu Landsbankans á hendur félaginu. Þeir fjármunir sem Landsbankinn hafi lánað félaginu, og sóknaraðili sé í sjálfskuldarábyrgð fyrir, hafi alfarið verið nýttir til að fjármagna einkaleyfisumsóknina (US 08/392) sem sé grunnur umræddra einkaleyfa.
Á árunum 2006 og 2007, við störf í Bandaríkjunum, hafi sóknaraðila orðið ljóst að hægt væri að selja einkaleyfi félagsins nr. 6.286.017. Hafi sóknaraðili þá komist í samband við miðlara og eftir nokkrar þreifingar hafi orðið ljóst að Intellectual Ventures sjóðurinn væri líklegur kaupandi. Tölur sem nefndar hafi verið sem lágmarkskaupverð hafi verið 100.000 Bandaríkjadalir (USD), sem sé hærri tala en sem nam skuldum félagsins, þar á meðal skuld sem sóknaraðili sé enn í sjálfskuldarábyrgð fyrir. Sóknaraðili hafi nefnt þetta við varnaraðilann Ágúst og lagði hart að honum sem stjórnarformanni félagsins að hann hæfi samningaviðræður við sjóðinn og að hugverkaréttur félagsins yrði seldur. Ágúst hafi í engu tekið því og ekkert hafi orðið af sölu.
Á árinu 2010 hafi óvænt verið boðað til hluthafafundar í félaginu. Á fundinn hafi verið mættir varnaraðilinn Ágúst, Ólafur Thors og varnaraðilinn Hilmar Magnússon, sem stjórnarmaður, og hugsanlega lögmaður Ólafs og/eða félagsins. Sóknaraðili hafi brugðist ókvæða við veru Ólafs Thors og Hilmars á fundinum, enda hafi hann ekki talið Ólaf Thors, og telur hann ekki, löglegan hluthafa í félaginu. Á þessum fundi hafi sóknaraðili látið það skýrlega koma fram að félagið ætti engan annan kost en að selja hugverkaréttindi félagsins og að mörg undanfarin ár hafi boð um kaup borist frá Intellectual Ventures en þau verið stöðvuð af Ágústi. Undir þessa tillögu sóknaraðila hafi í engu verið tekið.
Þá liggur fyrir að á árinu 2010 hafi varnaraðilinn Ágúst stofnað félagið JCell FSS ehf. sem starfræki vefsíðuna QuantCell Research. Sé það fyrirtæki greinilega að nota tækni sem byggist á umsókn nr. US 08/392 en án þess þó að hafa nokkra heimild frá fyrrum eiganda, þ.e. hlutafélaginu Cell Objects á Íslandi ehf., og ekki, svo vitað sé, frá Intellectual Ventures sjóðnum sem hafi keypt tæknina, væntanlega í góðri trú. Hugsanlega sé félag varnaraðilans Ágústs með leyfi frá sjóðnum að nýta tæknina en engar upplýsingar um þessi viðskipti hafi verið lögð fram gagnvart stjórn og réttmætum eigendum hugverkaréttindanna.
Í upphafi árs 2013 hafi enn verið ljóst að áhugi væri í Bandaríkjunum fyrir kaupum á hugverkaréttinum en þá hafi áðurnefndur miðlari haft samband við sóknaraðila. Í kjölfarið hafi varnaraðilinn Ágúst verið spurður hvort áhugi væri ekki á því að selja. Enginn slíkur áhugi hafi verið hjá honum, hann sagt réttindin verðlítil eða verðlaus og eftir engu að slægjast. Þetta geti Arnar Sigurðsson fjárfestir, sem varnaraðilinn Ágúst leitaði til um fjármögnun hins nýja félags Ágústs, staðfest sem vitni. Arnar Sigurðsson hafi vitað af eignarhaldi Cell Objects á Íslandi ehf. á hugverkaréttindunum og hann taldi að það fyrirtæki sem Ágúst hafi þá verið að reyna að fjármagna væri að nýta sér þau sömu réttindi og hafi því spurt ítrekað út í stöðu vegna einkaleyfa.
Í kjölfar þessa hafi sóknaraðili óskað eftir fundi með Ágústi. Upphaflega hafi staðið til að sá fundur færi fram 1. mars 2013 en Ágúst hafi afboðað á síðustu stundu og hafi fundurinn farið fram miklu síðar þegar Ágústi hentaði, eða 4. júní 2013. Á þann fund hafi einnig mætt Arnar Sigurðsson og hafi svör Ágústs verið hin sömu og fyrr. Hugverkarétturinn væri einskis virði og örugglega ómögulegt að selja. Þá hafi hann fullyrt að það félag sem varnaraðilinn hafði þá stofnað JCell Fss ehf., sem rak og reki vefsíðuna QuantCell Research, og hafi þegið styrki frá Tækniþróunarsjóði, væri ekki að brjóta gegn hugverkaréttindum Cell Objects á Íslandi ehf. og væri í engu að nýta sér lögvarin réttindi eða hugmyndafræði Cell Objects á Íslandi ehf. Hvorki í upphafi árs 2013, á fundum með nefndum Arnari né á fundinum 4. júní 2013 hafi Ágúst látið þess getið að hugverkaréttindin og einkaleyfi væru löngu gengin undan félaginu með fjárnámi og beinni sölu heldur gerði lítið úr verðmætum og möguleikum að koma þeim í verð.
Í ljósi þess að Ágúst hafi talið hugverkaréttindi og einkaleyfi einskis virði og ekki skipta neinu máli og að hans nýja fyrirtæki væri ekki að brjóta þau réttindi, hafi verið ákveðið af sóknaraðila og Arnari, eftir fundinn 4. júní 2013 að freista þess að koma réttindunum í verð. Söluandvirðið skyldi nýtt til að greiða niður skuldir og greiða restina inn í félagið Cell Objects á Íslandi ehf. öllum hluthöfum félagsins til hagsbóta. Arnar Sigurðsson hafi fengið vilyrði frá ÍAV um skiptingu á mögulegum hagnaði af þeirra væntanlega hlut. Enn hafi sóknaraðili verið í sambandi við miðlara í New York eftir þennan fund upp á að fá mögulega kynningu fyrir Intellectual Ventures. Í lok júní 2013, þegar búið hafi verið að kynna eitt einkaleyfanna aftur af miðlara fyrir Intellectual Ventures, hafi hið óvænta komið upp úr dúrnum, sjóðurinn hafi sagt að hann ætti þegar öll réttindi og hefði átt þau í mörg ár.
Í kjölfar þessa hafi sóknaraðili aflað gagna um tilurð eignarhalds á leyfi nr. 6.286.017. Í þeim komi m.a. fram að leyfið hafi gengið til félags sem sé í eigu varnaraðilans Hilmars Magnússonar (og annars meðeiganda) varnaraðilans Lögskila ehf., í desember 2010, þaðan til ameríska félagsins QZR IP Holdings LCC í janúar 2011 og þaðan til Spyscreen LCC í október 2011, en Spyscreen LCC sé í eigu áðurnefnds sjóðs Intellectual Ventures. Einnig hafi komið í ljós að varnaraðilinn Ágúst hafi á árinu 2011 selt þrjú önnur einkaleyfi, sem hafi einnig byggst á upphaflegu einkaleyfisumsókninni, sömu leið. Þau séu, eins og áður segi, númer 6.763.498, 7.853.867 og 2011/0022939.
Eftir að þetta hafi orðið ljóst leitaði sóknaraðili til Árna Vilhjálmssonar hrl. hjá LOGOS lögmannsþjónustu til að gæta hagsmuna sinna. Hinn 11. september sl. sendi Árni varnaraðilanum Ágústi bréf með afriti á varnaraðilann Hilmar Magnússon, sem Ágúst svaraði mjög stuttaralega með tölvupósti 23. september sl. Hafi þá m.a. komið í ljós að einkaleyfið nr. 6.286.017 hefði gengið til Lögskila ehf. á grundvelli fjárnáms. Engin viðbrögð hafi borist frá Hilmari við bréfinu.
Að þeim upplýsingum fengnum hafi sóknaraðili aflað gagna um fjárnámið frá sýslumanninum í Hafnarfirði. Af þeirri gagnaöflun hafi orðið ljóst að 5. nóvember 2010 hafi verið gert fjárnám hjá Cell Objects á Íslandi ehf. að beiðni Lögskila ehf. til tryggingar „kröfu“ að fjárhæð 8.511.724 kr. sem reist hafi verið á áritaðri stefnu. Af hálfu Lögskila ehf. hafi mætt Hilmar Magnússon hrl., þá nýlega hættur í stjórn Cell Objects á Íslandi ehf., en hann hafi setið í stjórn þess félags á árunum 2002 til 2010 fyrir atbeina varnaraðilans Ágústs og Ólafs Thors. Sá síðarnefndi hafi þó aldrei verið hluthafi en hafi ítrekað reynt það með fulltingi Hilmars Magnússonar án þess að vilja virða forkaupsréttarákvæði félagsins, sem sé upphafleg ástæða deilna þeirra bræðra og málaferla. Hilmar muni hafa sagt sig úr stjórn Cell Objects á Íslandi ehf. í júní 2010 ekki löngu áður en til fyrirtöku fjárnámsins hjá sýslumanni kom. Af hálfu Cell Objects á Íslandi ehf. hafi varnaraðilinn Ágúst Sverrir mætt við fjárnámið. Skorað hafi verið á félagið að greiða kröfuna en við þeirri áskorun hafi Ágúst ekki orðið. Þá hafi að ábendingu Hilmars verið gert fjárnám í einkaleyfi nr. 6.286.017. Við það hafi Ágúst enga athugasemd gert. Þá hafi Ágúst ekki látið sóknaraðila vita af hinni árituðu stefnu eða áðurnefndu fjárnámi. Virðist einkaleyfið hafa verið selt á nauðungarsölu 4. desember 2010 fyrir 100.000 krónur. Af þeirri nauðungarsölu hafi sóknaraðili ekki heldur ekki vitað.
Með bréfi núverandi lögmanns sóknaraðila, til varnaraðilanna, Ágústs, Hilmars og Lögskila ehf., 20. desember 2013, hafi verið spurt ítarlegra spurninga um framangreinda atburðarás og gagna óskað. Svör hafi borist, annars vegar frá lögmanni varnaraðilans Ágústs og Ágústi sjálfum 22. janúar 2014 og hins vegar frá varnaraðilanum Hilmari Magnússyni og Lögskilum ehf. 3. febrúar 2014. Fáein gögn hafi borist frá lögmanninum Hilmari/Lögskilum ehf., en engin frá varnaraðilanum Ágústi. Veigamestu gögnin sem ekki hafi borist og beðið hafði verið um hafi verið framsalssamningarnir um einkaleyfin fjögur til QZR IP Holdings LCC, sem og tímaskýrsla á bak við reikning varnaraðilans Lögskila ehf. fyrir lögmannsþjónustu til Cell Objects á Íslandi ehf., dags. 16. mars 2007. Þá hafi því einnig verið leynt fyrir sóknaraðila hvernig samningar um sölu einkaleyfanna hafi verið, en einkaleyfin byggi, eins og áður segi, öll á einkaleyfisumsókn, sem hafi m.a. verið fjármögnuð með láni sem sóknaraðili sé enn í ábyrgð fyrir og eigi þar að auki í gegnum 43% eignarhald sitt á eiganda einkaleyfanna.
Beiðni um afhendingu þeirra gagna sem að framan greinir hafi verið ítrekuð með tölvupóstum, en afhendingu þeirra hafnað.
II
Málsástæður og lagarök sóknaraðila
Sóknaraðili kveðst byggja kröfur sínar í máli þessu á því að hann hafi til skoðunar að höfða mál á hendur Lögskilum ehf., Hilmari Magnússyni og Ágústi Sverri Egilssyni. Hvað varnaraðilann Lögskil ehf. varði yrði slík málsókn á því reist að Lögskil ehf. hafi auðgast með ólögmætum hætti á kostnað Cell Objects á Íslandi ehf., sem og á kostnað hluthafa þess, þ. á m. sóknaraðila, við fjárnám og nauðungarsölu á einkaleyfinu nr. 6.286.017 í nóvember og desember 2010. Hvað varnaraðilann Ágúst Sverri varði komi til álita að sækja skaðabótakröfu á hendur honum á grundvelli 51. gr. og 108.-109. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög, og almennu skaðabótareglunnar, vegna þeirra fjögurra einkaleyfa sem gengið hafi undan félaginu Cell Objects á Íslandi ehf., án réttmæts endurgjalds, þ. á m. leyfisins nr. 6.286.017, sem beiðni þessi lúti að, en sóknaraðili sé eigandi 43% hlutafjár í félaginu og búi við að vera í sjálfskuldarábyrgð fyrir láni félagsins. Sóknaraðili muni reka mál þetta annaðhvort í eigin nafni eða, eftir atvikum, á grundvelli heimildar í 2. mgr. 109. gr. laga nr. 138/1994 vegna og í nafni einkahlutafélagsins Cell Objects á Íslandi ehf. Loks sé til skoðunar að beina málsókninni að Hilmari Magnússyni á þeim grundvelli að hann hafi verið samverkamaður Ágústs Sverris varðandi það að framangreint einkaleyfi nr. 6.286.017 gekk undan Cell Objects á Íslandi en fyrir liggi að Hilmar var í stjórn Cell Objects á Íslandi ehf. á árunum 2002 til 2010 og lét af stjórnarsetu ekki alllöngu fyrir umrætt fjárnám. Yrðu þá kröfur á hendur Hilmari reistar á almennu skaðabótareglunni, þannig að á því yrði byggt að Hilmar hefði með saknæmum og ólögmætum hætti valdið sóknaraðila, sem hluthafa í Cell Objects á Íslandi ehf., tjóni.
Liður í því að átta sig á umfangi tjóns Cell Objects á Íslandi ehf. og sóknaraðila sé að fá gögn um það á hvaða verði einkaleyfið nr. 6.286.017 hafi gengið frá Lögskilum ehf., sem félagið hafði fengið á nauðungarsölu líkt og að framan er rakið, til QZR IP Holdings LLC og síðar til Spyscreen ehf. á árinu 2011, þ.e. samninginn og millifærslukvittun eða millifærslukvittanir. Enn fremur þurfi að afla gagna um tilurð þeirrar „kröfu“ Lögskila ehf. sem fjárnám og síðar nauðungarsala á einkaleyfinu hafi verið reist á. Loks sé liður í hinu sama að taka skýrslu af Arnari Sigurðssyni, sem getið sé um hér að framan, en hann muni hafa verið vitni að tilgreindum atburðum í þeirri atburðarás sem var undanfari þess að leyfin gengu undan félaginu.
Athygli veki að óljóst sé hver er og var eigandi QZR IP Holdings. Sérstaka athygli veki þó að fyrrum stjórnarmaður Cell Objects á Íslandi ehf., Hilmar Magnússon, sem af hálfu félags síns Lögskila ehf. beitti fjárnámi til að komast yfir eitt einkaleyfanna, og Ágúst, seldu öll einkaleyfin sama fyrirtækinu, QZR IP Holdings, sem aftur hafi selt þau Spyscreen LCC, öll fjögur í einu lagi og á sama degi, 8. desember 2011.
Með skírskotun til alls framangreinds krefst sóknaraðili þess að varnaraðilanum Lögskilum ehf. verði gert í fyrst lagi að afhenda afrit af samningi Lögskila ehf. og QZR IP Holdings LLC frá árinu 2011 um framsal á einkaleyfinu nr. 6.286.017 frá fyrrnefnda félaginu til þess síðarnefnda, í öðru lagi verði varnaraðilanum gert að afhenda millifærslukvittun eða millifærslukvittanir sem sýni það endurgjald sem hafi borist til Lögskila ehf. fyrir nefnt einkaleyfi, hvort sem það hafi borist frá QZR IP Holdings LLC eða Spyscreen LCC, og í þriðja lagi að varnaraðilanum verði gert að afhenda sóknaraðila tímaskýrslu á bak við reikning félagsins fyrir lögmannsþjónustu til Cell Objects á Íslandi ehf., dags. 16. mars 2007, til að þessi skjöl verði lögð fram fyrir dómi. Til vara krefst sóknaraðili þess að varnaraðilanum Ágústi verði gert að afhenda nefnda tímaskýrslu til að hún verði lögð fram fyrir dómi. Þá sé þess sjálfstætt krafist, á grundvelli XII. og VIII. kafla laga nr. 91/1991, að skýrsla verði tekin af vitninu Arnari Sigurðssyni, fyrir dómi.
Hvað varði aðild varnaraðilans Hilmars að málinu tekur sóknaraðili fram að sönnunarfærsla sú sem óskað sé eftir varði Hilmar að lögum í skilningi 2. mgr. 78. gr. laga nr. 91/1991 og því eigi hann aðild að málinu. Honum kunni að verða stefnt og því sé ekki hægt að sleppa honum í máli því sem hér er til umfjöllunar.
Sóknaraðili byggir á því að hann hafi lögvarða hagsmuni af að fá umrædd gögn þar sem hann sé 43% eigandi, hann sé í sjálfskuldarábyrgð fyrir félaginu, hann hafi orðið fyrir tjóni vegna athafna og að því er virðist athafnaleysis Ágústs og sökum þess að L ehf. hafi auðgast á ólögmætan hátt á sinn kostnað. Þá hafnar sóknaraðili málskostnaðarkröfu þeirra varnaraðila sem vísi í 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991. Þessi ákvæði eigi við um einkamál sem slík en hugsanlega geti 4. mgr. 79. gr. komið til skoðunar í þessu máli.
Framangreind gagnaöflun og skýrslutaka muni ráða niðurstöðu um hvort sóknaraðili láti reyna á málshöfðun þá sem nefnd er hér að framan, sbr. 2. málslið 2. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991.
Um fordæmi fyrir sönnunarfærslu sem þessari vísast m.a. til dóma Hæstaréttar 22. mars 2011 í máli nr. 64/2011 og 15. maí 2013 í máli nr. 259/2013.
III
Málsástæður og lagarök varnaraðilans Lögskila ehf.
Varnaraðilinn, Lögskil ehf., mótmælir í greinargerð sinni málavaxtalýsingu sóknaraðila sem hann segir í veigamiklum atriðum ranga. Lögmenn fyrirtækisins hafi um árabil unnið ýmis ráðgjafar- og lögmannsstörf fyrir félagið Cell Objects á Íslandi ehf. að beiðni þess. Ósætti hluthafans, Jóns Helga, sem sé sóknaraðili máls þessa, við aðra hluthafa skipti þar engu máli nema því að óforsvaranleg framganga hans hafi beinlínis orðið þess valdandi að félagið þurfti frekar á aðkeyptri lögmannsþjónustu að halda en ella hefði verið. Meðal verkefnanna hafi verið rekstur tveggja dómsmála sem bæði enduðu með dómum Hæstaréttar. Fyrra málið hafi verið vegna málshöfðunar sóknaraðila á hendur félaginu þar sem hann krafðist ógildingar tiltekins fundar í félaginu. Síðara málið gegn félaginu hafi verið vegna skuldabréfakröfu Nýsköpunarsjóðs. Hafi þá verið svo komið að varnaraðilinn hafi hafnað því að leggja til málsins alla þá vinnu er til þurfti enda hafi viðskiptaskuld Cell Objects á Íslandi ehf. þá verið orðin mjög veruleg og vinnuframlagið mjög mikið. Stjórnarformanni félagsins sem og öðrum hluthöfum í félaginu, þ. á m. sóknaraðila, hafi verið um þetta kunnugt, enda höfðu gögn um vinnuframlagið verið kynnt félaginu. Sóknaraðili hafi verið mjög andsnúinn því að lögmönnum félagsins hafi verið greitt fyrir vinnu þeirra í þágu þess, m.a. til að verjast fráleitum kröfum hans sjálfs, sem varð tilefni fyrri málaferlanna. Þegar vanhöld hafi svo orðið af hálfu félagsins á að greiða varnaraðila réttmætar kröfu þess síðarnefnda hafi verið óumflýjanlegt að stefna félaginu til að fá aðfararhæfan dóm á hendur því. Að dóminum fengnum hafi með venjulegum hætti verið leitað eftir fullnustu hans hjá sýslumanni. Cell Objects á Íslandi ehf. reyndist ekki unnt að greiða dómskuldina er á það var skorað með venjulegum hætti. Eina aðfararhæfa eign félagsins var hið skráða einkaleyfi og því hafi verið á það bent og í því gert fjárnám. Nýsköpunarsjóður hafi alllöngu áður gert fjárnám í þessari sömu eign félagsins en ekki fylgt því eftir innan tímafrests og hafi það því verið niður fallið er til fjárnámsaðgerða varnaraðila kom. Sýslumaður hafi svo afsalað einkaleyfinu til varnaraðila sem hæstbjóðanda að greiddu uppboðsverðinu.
Varnaraðili, Lögskil ehf., krefst þess að málinu verði vísað frá dómi. Byggir hann frávísunarkröfu sína á því að málatilbúnaður sóknaraðila uppfylli hvergi nærri það meginskilyrði laga um meðferð einkamála að vera skýr og greiður, enda byggist málið að verulega leyti á röngum málsatvikum og ónothæfum málsástæðum. Sóknaraðili útskýri með allsendis ófullnægjandi hætti hvernig uppfyllt séu lagaskilyrði 77. gr. laga nr. 91/1991 um lögvarða hagsmuni til að dómara megi vera unnt að fallast á beiðnina. Við svo ógreiðum málatilbúnaði ber dómara að bregðast með því að hafna beiðninni með úrskurði um frávísun málsins. Þá byggist frávísunarkrafa hans jafnframt á því að hann telji sóknaraðila enga þá lögvörðu hagsmuni eiga eða geta átt er beiðni þessi verði byggð á gagnvart varnaraðila. Óréttmætur hefndarhugur og þráhyggja uppfylli fráleitt skilyrði 2. málsliðar 2. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991. Ljóst sé að grundvallarskilyrði þess að dómari megi samkvæmt ákvæðinu heimila gagnaöflun þess sé að sóknaraðili hafi lögvarða hagsmuni af gagnaöfluninni. Samkvæmt 3. mgr. 78. gr. áðurnefndra laga beri dómara að meta af sjálfsdáðum hvort skilyrði séu til þess að fallast á beiðni sóknaraðila. Varnaraðili kveðst telja ljóst að engin skilyrði séu til staðar samkvæmt 51. og 108. gr. laga nr. 138/1994 eða almennu skaðabótareglunni til að sóknaraðili geti sótt bætur fyrir meint tjón hvort sem er á hendur varnaraðila, Cell Objects á Íslandi ehf., eða varnaraðilunum Hilmari Magnússyni eða Ágústi Sverri Egilssyni. Því séu engir lögvarðir hagsmunir til staðar hjá sóknaraðila til að krefjast aðgangs að skjölum varnaraðila um viðskipti varnaraðila óviðkomandi sóknaraðila og Cell Objects á Íslandi ehf., sbr. 1. og 2. lið kröfugerðar sóknaraðila. Gögn samkvæmt þriðja lið hafi verið kynnt Cell Objects á Íslandi ehf. á sínum tíma og eigi að vera til staðar hjá því félagi nema að þeim hafi verið fargað. Fyrir liggi á hinn bóginn endanlegur dómur um réttmæti fjárkröfu varnaraðila og hafi sóknaraðili því enga lögvarða hagsmuni af því að fá frá varnaraðila umkrafða tímaskýrslu.
Kröfu sína um að synjað verði um afhendingu gagna samkvæmt 1. lið í kröfugerð sóknaraðila byggir varnaraðilinn í fyrsta lagi á því að samningur hans um framsal nefnds einkaleyfis sé trúnaðarmál. Varnaraðila hafi verið frjálst að selja hverjum sem var, og við hvaða verði sem var, þá réttmætu eign sína sem varnaraðili hafi fengið afsalað til sín í krafti nauðungarsölulaga. Lýst hafi verið yfir gagnkvæmum trúnaði seljanda og kaupanda um efni sölusamningsins og stendur varnaraðili við trúnaðarskyldur sínar. Sá trúnaður verði ekki rofinn vegna hugsanlegra, en að því er virðist, ólögvarinna krafna sóknaraðila á hendur varnaraðilum á grundvelli meintra lögvarinna réttarhagsmuna sem ekki hafi verið rökstuddir með viðhlítandi hætti.
Um afhendingu gagna samkvæmt 2. lið í kröfugerð sóknaraðila er vísað til sömu sjónarmiða og að ofan greinir senda sé ljóst að trúnaðarskyldur varnaraðila gagnvart kaupanda varða ekki síst söluverðið. Því til viðbótar skuli tekið fram varðandi töluliðina báða að varnaraðili telur sér óskylt með öllu að svala ólögvarinni forvitni sóknaraðila varðandi gögnin. Sjónarmiðum sóknaraðila um auðgun Lögskila ehf. með ólögmætum hætti sé vísað á bug sem óboðlegum dylgjum. Þvert á móti geti það sem gert hafi verið í krafti gildandi laga aldrei orðið ólögmæt auðgun, jafnvel þó varnaraðili hefði hagnast á sölunni, enda hafi hann einungis verið að selja lögmæta eign sína við verði sem honum hafi verið frjálst að ákveða. Sóknaraðili sé á höttunum eftir gögnum um refsiverða háttsemi en samkvæmt 3. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991 sé óheimilt að fallast á slíka kröfu. Líta verði fram hjá dómi Hæstaréttar frá 15. maí 2013 í máli nr. 259/2013 sem geti ekki verið fordæmi í máli þessu.
Um afhendingu gagna samkvæmt 3. lið í kröfugerð sóknaraðila vísar sóknaraðili til þess að fyrir liggi endanlegur dómur um réttmæti fjárkröfu varnaraðila og hafi sóknaraðili því enga lögvarða hagsmuni af því að fá frá varnaraðila umkrafða tímaskýrslu. Sagnfræðilegur áhugi uppfylli ekki kröfur laganna um að varnaraðili hafi lögvarða hagsmuni af því að fá umrædd gögn afhent. Þá sé þess að geta að gögn þessi hafi verið kynnt Cell Objects á Íslandi ehf. á sínum tíma og þau eigi því að vera til staðar hjá því félagi nema þeim hafi verið fargað. Eigi sóknaraðila því að vera hæg heimatökin að kynna sér gögnin hjá eigin félagi.
Gera verði ríkar kröfur til þess að sóknaraðili rökstyðji ítarlega og með „sannferðugum“ hætti varðandi 1. og 2. lið kröfugerðar hans hvernig meintir lögvarðir hagsmunir hans eigi annars vegar að verða þess valdandi að neyða beri varnaraðila til að rjúfa trúnað gagnvart viðskiptavini sínum og hins vegar hvernig slíkar upplýsingar séu nauðsynlegar til að sóknaraðili geti byggt upp hugsanlega kröfugerð sína á hendur varnaraðilum. Nauðsynin sé óútskýrð, enda verði ekki annað séð en að við hugsanlega stefnugerð geti sóknaraðili án umkrafinna gagna m.a. látið dómkveðja matsmenn til að meta meint tjón eða leitast við að sanna það með öðrum venjulegum hætti. Einnig verði að gera ríkar kröfur til þess varðandi 3. lið kröfugerðar hans að hann rökstyðji hvernig það verði fellt undir lögvarða hagsmuni hans að nauðsynlegt sé að fá frá varnaraðila undirgögn löngu dæmdrar fjárkröfu vegna vinnuframlags sem sóknaraðila hafi á sínum tíma verið vel kunnugt um að réttilega hafði verið látið í té í þágu Cell Objects á Íslandi ehf. samkvæmt beiðni forráðamanna félagsins og af illri nauðsyn vegna atgangs sóknaraðila að hagsmunum félagsins.
Þá telur varnaraðili þá hæstaréttardóma sem sóknaraðili tiltekur ekki vera fordæmisgefandi í þessu máli. Sóknaraðili í þeim málum hafi þurft aðgang að tilteknum gögnum einkum til þess að vita hverjum hann gæti stefnt til greiðslu tjóns síns.
Að lokum gerir varnaraðili kröfu um ómaksþóknun úr hendi sóknaraðila með hliðsjón af XXI. kafla laga nr. 91/1991 hver sem úrslit málsins verði. Sóknaraðili hafi að ófyrirsynju komið máli þessu fyrir dóm og haft þar uppi kröfur og staðhæfingar sem hann hafi vitað eða mátt vita að væru rangar og haldlausar. Vísar varnaraðili beint eða með lögjöfnun til a- og c-liða 1. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991, og með sama hætti, til upphafsorða 131. gr. laganna.
IV
Málsástæður og lagarök varnaraðilans Hilmars Magnússonar
Varnaraðilinn krefst þess að beiðninni verði vísað frá dómi hvað hann varði og að sóknaraðila verði gert að greiða honum ómaksþóknun. Í framkominni beiðni virðist engri kröfu beint að varnaraðila. Hún beinist eingöngu að varnaraðilanum Lögskilum ehf. og hugsanlega varnaraðilanum Ágústi Sverri Egilssyni. Ekki sé á forræði varnaraðila að afhenda þau gögn sem sóknaraðili sækist eftir að fá í hendur. Óljóst sé hvað sóknaraðila eða lögmanni hans gangi til nema þá það eitt að halda áfram áreiti og óréttmætum kröfum á hendur varnaraðila. Líti varnaraðili það alvarlegum augum að lögmaður sóknaraðila taki þátt í þeirri herferð sem sóknaraðili hafi staðið fyrir allt frá árinu 2002, í þeim tilgangi að reyna að knésetja varnaraðila með öllum tiltækum ráðum. Megi lögmanninum vera fullljóst miðað við framsetta beiðni að varnaraðili gat aldrei orðið við henni. Samstarf aðila hafi lokið eftir fund á árinu 2010. Hann hafi tilkynnt sig úr stjórn félagsins á tímabilinu 15.-22. júní 2010.
Þá krefst hann þess að sóknaraðila verði gert að greiða honum ómaksþóknun vegna tilhæfulausrar kröfu á hendur varnaraðila sem hann hafi þurft að verjast.
V
Málsástæður og lagarök varnaraðilans Ágústs Sverris Egilssonar
Varnaraðilinn krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað með vísan til þess að hann hafi umkrafða tímaskýrslu ekki í vörslum sínum og hvort sem hann hefði hana í vörslum sínum eða ekki telji varnaraðili gagnaöflun þessa ekki samrýmast ákvæðum laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og meginreglum einkamálaréttarfars. Í skriflegri aðilaskýrslu hans sem liggur fyrir dóminum kemur fram að hann kannist við að hafa séð tímaskýrslur frá varnaraðilanum Lögskilum ehf., bæði útprentanir á skrifstofu félagins í gegnum tíðina meðan vinna þess stóð yfir fyrir Cell Objects á Íslandi ehf. og auk þess að hafa séð reikning frá Lögskilum ehf. á árinu 2007 og 2008 vegna vinnu fyrir félagið. Hafi varnaraðila verið kunnugt um að Lögskil ehf. hafði samkvæmt þessum skýrslum unnið rúmlega 200 tíma fyrir Cell Objects á Ísland ehf. og hafi hann ekki gert athugasemdir við það. Hann hafi hins vegar ekki eintak af þessum vinnuskýrslum eða reikningi í fórum sínum svo hann viti.
Varnaraðili mótmælir í veigamiklum atriðum málsatvikalýsingu sóknaraðila og segir frásögn hans einkennast af rangfærslum. Sumt sé hreinlega hugarburður og útúrsnúningar. Sóknaraðili láti t.d. í veðri vaka að óskýrt sé hvaða einkaleyfi 1. gr. hluthafasamkomulagsins frá 4. febrúar 2002 taki til og nefnd séu til sögunnar tvö síðari tíma einkaleyfi og ein síðari tíma umsókn frá 2011. Hlutahafasamkomulagið sé alveg skýrt um það að það taki til sex útgefinna einkaleyfa sem þá hafi verið til og tengjast umsókn 08/392/164. Öll þessi sex einkaleyfi verji sömu tæknina eða aðferðir en þau eru útgefin í mismunandi löndum og eru að öðru leyti samhljóða. Hvergi sé rætt um einhver önnur einkaleyfi sem verða til í framtíðinni eða eignarrétt á neinni einkaleyfisumsókn. Þá sé því ranglega haldið fram að fjármunir sem Landsbankinn hafi lánað félaginu og sóknaraðili kveðst ábyrgur fyrir hafi verið alfarið nýttur til að fjármagna einkaleyfisumsóknina US 08/392/164. Umsókn þessi hafi alfarið verið unnin af varnaraðilanum sjálfum, á kostnað hans og á hans tíma og hafi sóknaraðili þar hvergi komið nærri. Umsóknin hafi verið send inn 21. febrúar 1995 en dregin til baka rúmlega ári síðar. Umsóknin hafi verið lögð til hliðar árið 1996 og enginn annar kostnaður settur í hana hvorki beinn né óbeinn. Umrædd sjálfskuldarábyrgð sóknaraðila komi til fimm árum síðar og geti því ekki með nokkru móti tengst umræddri einkaleyfisumsókn. Þá sé því haldið fram að óskylt fyrirtæki í eigu varnaraðilans sé að nýta réttindi tengd umsókn US 08/392/164 í heimildarleysi. Telur varnaraðili augljóst að umsókninni fylgja engin réttindi frekar en með nokkurri annarri einkaleyfisumsókn í heiminum en þar að auki sé fyrirtæki varnaraðilans ekki að brjóta nein réttindi svo hann viti til.
Varnaraðili bendir á að samkvæmt 1. mgr. 79. gr. laga nr. 91/1991 skuli við öflun skjala eða annarra sýnilegra sönnunargagna samkvæmt XII. kafla laganna, fara eftir X. kafla þeirra. Þá segi í greindu ákvæði að dómari taki ákvarðanir og úrskurði um þau atriði varðandi gagnaöflunina sem ella hefðu borið undir dómara við sönnunarfærslu við rekstur máls. Um öflun skjala og annarra sýnilegra sönnunargagna samkvæmt 2. mgr. 77. gr. laganna gildi því reglur 67. og 68. gr. þeirra fullum fetum. Af þessu leiði í fyrsta lagi að gegn mótmælum varnaraðila beri sóknaraðili sönnunarbyrði fyrir því að skjal sé til og í vörslum varnaraðila sbr. 4. mgr. 67. gr. laganna. Reikningar Lögskila ehf. hafi verið gefnir út til Cell Objects á Íslandi ehf. en ekki til varnaraðila. Hann hafi umkrafða tímaskýrslu ekki undir höndum og beri engin skylda til að hafa gögn af þessu tagi í vörslum sínum. Væri sóknaraðila því rétt að beina kröfu sinni að félaginu sjálfu en ekki varnaraðila persónulega. Í öðru lagi séu lagaúrræði sóknaraðila til að knýja á um aðgang að skjali úr vörslum varnaraðila tæmandi talin í 1. mgr. 68. gr. áðurnefndra laga. Ítrekað hafi verið staðfest í dómaframkvæmd að aðili geti ekki farið fram á að dómari úrskurði um skyldu gagnaðila til að afhenda tiltekin gögn. Slíkt eigi aðeins við gagnvart vörslumanni/þriðja manni sbr. 2. mgr. áðurnefndrar lagagreinar. Verði varnaraðila, sem fyrirhuguðum gagnaðila í dómsmáli því sem sóknaraðili hyggist taka ákvörðun um að höfða með gagnaöflun þessari, ekki gert að afhenda umkrafin gögn með úrskurði dómara á grundvelli XII. kafla laga um meðferð einkamála. Með vísan til meginreglna einkamálaréttarfars og eðli máls verði aðrar og ríkari skyldur ekki lagðar á varnaraðila áður en mál er höfðað samkvæmt 2. mgr. 77. gr. laganna, sem sé undantekning frá meginreglu einkamálaréttarfars um milliliðalausa málsmeðferð, en lagðar yrðu á hann undir rekstri málsins samkvæmt 67. og 68. gr. sömu laga. Með vísan til ofangreinds beri því að hafna kröfu sóknaraðila um að varnaraðila verði gert að afhenda umkrafin gögn.
VI
Niðurstaða
Í máli þessu krefst sóknaraðili þess, á grundvelli 2. málsliðar 2. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, að honum verði heimilað með öflun skjala og vitnaleiðslu fyrir dóminum að leita sönnunar um atvik sem ráðið geti úrslitum um málshöfðun hans á hendur varnaraðilum máls þessa. Telur hann sig hafa orðið fyrir tjóni vegna athafna varnaraðila sem nánir eru raktar í beiðni hans.
Í beiðni sóknaraðila er gerð grein fyrir því að hugsanleg málsókn hans á hendur varnaraðilanum Lögskilum ehf. yrði á því reist að félagið hafi auðgast með ólögmætum hætti á kostnað Cell Objects á Íslandi ehf., sem og á kostnað hluthafa þess, þ. á m. sóknaraðila, við fjárnám og nauðungarsölu á einkaleyfinu nr. 6.286.017 í nóvember og desember 2010. Hvað varnaraðilann Ágúst Sverri Egilsson varði, komi til álita að sækja skaðabótakröfu á hendur honum á grundvelli 51. gr. og 108.-109. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög, og almennu skaðabótareglunnar, vegna fjögurra einkaleyfa sem gengið hafi undan félaginu Cell Objects á Íslandi ehf., án réttmæts endurgjalds, þ. á m. vegna leyfisins nr. 6.286.017, sem beiðni þessi lúti að. Sóknaraðili muni reka mál þetta annaðhvort í eigin nafni eða, eftir atvikum, á grundvelli heimildar í 2. mgr. 109. gr. laga nr. 138/1994 vegna og í nafni einkahlutafélagsins Cell Objects á Íslandi ehf. Loks sé til skoðunar að beina málsókninni að varnaraðilanum Hilmari Magnússyni á þeim grundvelli að hann hafi verið samverkamaður Ágústs Sverris varðandi það að framangreint einkaleyfi nr. 6.286.017 gekk undan áðurnefndu félagi en fyrir liggi að Hilmar hafi verið í stjórn þess á árunum 2002 til 2010 og látið af stjórnarsetu ekki allöngu fyrir umrætt fjárnám. Yrðu kröfur á hendur Hilmari reistar á almennu skaðabótareglunni, og á því að hann hefði með saknæmum og ólögmætum hætti valdið sóknaraðila, sem hluthafa í Cell Objects á Íslandi ehf., tjóni.
Sem lið í undirbúningi framangreindra málshöfðana á hendur varnaraðilum og til að meta það tjón sem sóknaraðili telur sig hafa orðið fyrir krefst hann þess að varnaraðilanum Lögskilum ehf. verði gert í fyrsta lagi að afhenda afrit af samningi félagsins og QZR IP Holdings LLC frá árinu 2011 um framsal á einkaleyfinu nr. 6.286.017 frá fyrrnefnda félaginu til þess síðarnefnda, í öðru lagi að afhenda millifærslukvittun/millifærslukvittanir sem sýni það endurgjald sem barst til Lögskila ehf. fyrir nefnt einkaleyfi hvort sem það hafi borist frá QZR IP Holdings LLC eða Spyscreen LCC og í þriðja lagi að afhenda afrit af tímaskýrslu á bak við reikning félagsins fyrir lögmannsþjónustu til Cell Objects á Íslandi ehf., frá 16. mars 2007. Til vara krefst sóknaraðili þess að varnaraðilanum Ágústi Sverri verði gert að afhenda afrit af nefndri tímaskýrslu. Þá krefst sóknaraðili þess að skýrsla verði tekin fyrir dómi af Arnari Sigurðssyni, kt. [...], Bergstaðastræti 84, Reykjavík.
Varnaraðilinn Lögskil ehf. hefur krafist þess að máli þessu verði vísað frá dómi þar sem málatilbúnaður sóknaraðila uppfylli ekki það meginskilyrði laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að vera skýr og greiður, enda byggist málið að verulega leyti á röngum málsatvikum og ónothæfum málsástæðum. Dómurinn fellst ekki á að málinu verði vísað frá dómi af þessum sökum. Þá hefur varnaraðili til stuðnings frávísunarkröfu sinni einnig vísað til þess að sóknaraðili hafi ekki lögvarða hagsmuni af því að fá umbeðin gögn. Að mati dómsins geta þessi atriði ekki leitt til frávísunar málsins heldur leiða þau, ef á þau er fallist, til þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað.
Þá hefur varnaraðilinn Hilmar Magnússon krafist þess að málinu verði, hvað hann varðar, vísað frá dómi. Telur varnaraðilinn að hann sé, fyrir tilverknað sóknaraðila, að ósekju aðili að þessu máli en engar kröfur séu gerðar á hendur honum fyrir dómi. Það er mat dómsins að aðild þessa varnaraðila helgist af því skilyrði er fram kemur í 2. mgr. 78. gr. laga nr. 91/1991 að þeir er sönnunin varðar að lögum skuli tilgreindir í beiðni. Verður að líta svo á að í þessu felist að þeim, er þarna falla undir, sé gefinn kostur á að láta málið til sín taka. Þótt sóknaraðili beini ekki kröfum sérstaklega að þessum varnaraðila var honum því rétt að gefa honum kost á að láta sig málið varða, sem varnaraðili og gerði. Er ekki hægt að fallast á að varnaraðilinn hafi að ósekju eða að tilhæfulausu orðið aðili málsins.
Sóknaraðili hefur til vara beint kröfu sinni um afhendingu áðurnefndrar tímaskýrslu að varnaraðilanum Ágústi Sverri. Verður kröfugerð sóknaraðila skilin svo að hann byggi á því að varnaraðilinn hafi tímaskýrsluna undir höndum. Því hefur verið hafnað af hálfu varnaraðilans. Líta verður svo á að tímaskýrslan sé undirgagn reiknings lögmannsstofunnar Lögskila ehf. vegna vinnu hennar í þágu félagsins Cell Objects á Íslandi. Kröfu sóknaraðila hvað afhendingu þessara gagna varðar er því ekki réttilega beint að þessum varnaraðila og er henni hafnað. Samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga nr. 91/1991 skal beina skriflegri beiðni um það til dómara í þinghá þar sem mætti höfða mál um kröfu hans, vitni er statt, sýnilegt sönnunargagn er að finna eða hlutur er niður kominn sem matsgerð varðar. Varnaraðilinn Ágúst Sverrir hefur lögheimili í Kópavogi. Eins og sóknaraðili gerir grein fyrir í beiðni sinni hefur hann í hyggju að höfða mál á hendur varnaraðilum öllum. Verður því að líta svo á að um þá málsókn færi eftir varnarþingsreglu 42. gr. laga nr. 91/1991. Er því beiðni sóknaraðila réttilega beint til Héraðsdóms Reykjavíkur.
Að mati dómsins tilgreinir sóknaraðili í beiðni sinni nægilega skýrt til hvaða gagna beiðni hans tekur og verður henni því ekki hafnað sökum óskýrleika. Þá er ljóst að í beiðninni eru þeir tilgreindir sem sönnunin getur varðað að lögum. Þar sem sóknaraðili hefur höfðað málið á réttu dómþingi, tilgreinir nægilega skýrt þau atvik og þau gögn sem hann leitar sönnunar um, hvernig sönnunarinnar skuli leitað, hvaða réttindi eru í húfi og hverja sönnunin varðar að lögum, uppfyllir beiðni hans skilyrði 1. og 2. mgr. 78. gr. laga nr. 91/1991.
Í 2. málslið 2. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991 eru tvö skilyrði sett fyrir því að aðili geti aflað sönnunargagna án þess að mál hafi verið höfðað. Í fyrsta lagi þarf aðili að hafa lögvarða hagsmuni af því að leita sönnunar og í öðru lagi þarf sönnunarfærslan að geta ráðið niðurstöðu um hvort aðilinn láti verða af málshöfðun vegna viðkomandi atvika. Í málinu krefst sóknaraðili gagna úr hendi varnaraðilanum Lögskilum ehf. sem varða framsal félagsins á einkaleyfi nr. 6.286.017 til félagsins QZR IP Holdings LLC. Þegar litið er til 1. gr. hluthafasamnings félagsins Cell Objects á Íslandi frá 4. febrúar 2002 og þess að sóknaraðili er eigandi 43% hlutafjár í félaginu er ljóst að sóknaraðili getur haft af því hagsmuni að fá upplýsingar um gögn er varða umrætt einkaleyfi. Á hinn bóginn krefst sóknaraðili þess í 1. og. 2. lið kröfugerðar sinnar að fá gögn um framsal varnaraðilans Lögskila ehf. til þriðja aðila og það endurgjald er hann fékk fyrir einkaleyfið hvort sem það hafi komið frá félaginu QZR IP Holdings LLC eða Spyscreen LCC. Varnaraðili hefur borið því við að trúnaður ríki um viðskipti þessi. Hvað sem því líður telur dómurinn ljóst að lögskipti þessi séu sóknaraðila óviðkomandi þó þau varði framsal á einkaleyfi nr. 6.286.017 sem var eign félagsins Cell Objects á Íslandi ehf. Einkaleyfið var selt varnaraðilanum, Lögskilum ehf., við nauðungarsölu. Er því ekki hægt að líta svo á að sóknaraðili hafi lögvarða hagsmuni af því að fá þau gögn er um ræðir og varða áframhaldandi viðskipti með umrætt einkaleyfi eða sölu þess til þriðja aðila. Er 1. og 2. lið kröfugerðar hans því hafnað.
Hvað varðar 3. lið kröfugerðar sóknaraðila, sem einnig beinist að varnaraðilanum Lögskilum ehf., þá er til þess að líta að þessi varnaraðili kann að verða gagnaðili sóknaraðila í hugsanlegu dómsmáli síðar. Skori aðili einkamáls á gagnaðila að leggja fram skjal, sem sá hefur undir höndum, ber gagnaðilanum samkvæmt 2. mgr. 67. gr. laga nr. 91/1991 að verða við þeirri áskorun ef aðilinn á rétt til skjalsins án tillits til málsins eða efni skjalsins er slíkt að gagnaðilanum væri skylt að bera vitni um það ætti hann ekki aðild að málinu. Sé öðru hvoru þessara síðastnefndu skilyrða fullnægt og gagnaðilinn verður ekki við áskorun um að leggja fram skjal, sem hann hefur í vörslum sínum, getur dómari skýrt það svo að hann samþykki frásögn áskoranda um efni skjalsins, sbr. 1. mgr. 68. gr. laga nr. 91/1991. Úrræði aðila til að knýja á um að fá aðgang að skjali í vörslum gagnaðila eru tæmandi talin á þennan hátt, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar frá 14. desember 2011 í málinu nr. 654/2011. Heimildir sóknaraðila til gagna úr hendi varnaraðilans eru því takmarkaðar við 67. og 68. gr. laganna. Er því heldur ekki unnt að fallast á þennan lið kröfugerðar sóknaraðila og eru honum því hafnað.
Sóknaraðili hefur einnig krafist þess að skýrsla verði tekin fyrir dómi af Arnari Sigurðssyni. Í beiðni sóknaraðila kemur fram að Arnar hafi orðið vitni að „tilgreindum atburðum í þeirri atburðarás sem var undanfari þess að leyfin gengu undan félaginu.“ Þá hafi hann verið í samskiptum við varnaraðilann Ágúst Sverri þegar kannaður var grundvöllur að sölu einkaleyfis félagsins Cell Objects á Íslandi ehf. sem ekki hafi þó orðið af vegna atvika sem nánar er gerð grein fyrir í beiðninni. Dómurinn telur að skýrsla af vitninu Arnari geti haft þýðingu fyrir hugsanlega málsókn sóknaraðila á hendur varnaraðilum einum eða fleirum og er hún því heimiluð eins og nánar greinir í dómsorði.
Vegna úrslita málsins og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðilum málskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan. Dómarinn tók við meðferð málsins 2 maí sl.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Kröfu sóknaraðila á hendur varnaraðilanum, Lögskilum ehf., um afhendingu skjala er greinir í 1.3. lið kröfugerðar sóknaraðila, er hafnað.
Kröfu sóknaraðila til vara á hendur varnaraðilanum, Ágústi Sverri Egilssyni, um afhendingu afrits af tímaskýrslu, er hafnað.
Skýrsla skal tekin fyrir dómi af Arnari Sigurðssyni, kt. [...], Bergstaðastræti 84, Reykjavík.
Sóknaraðili greiði varnaraðilunum, Lögskilum ehf. og Ágústi Sverri, hvorum um sig, 200.000 krónur í málskostnað. Sóknaraðili greiði varnaraðilanum, Hilmari Magnússyni, 100.000 krónur í málskostnað.