Hæstiréttur íslands
Mál nr. 775/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Nálgunarbann
|
Föstudaginn 13. desember 2013. |
|
|
Nr. 775/2013. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn X (Þ. Skorri Steingrímsson hdl.) |
Kærumál. Nálgunarbann.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta nálgunarbanni var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. desember 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 9. desember 2013 þar sem varnaraðila var gert að sæta nálgunarbanni eins og nánar greinir í úrskurðarorði. Kæruheimild er í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að nálgunarbanni verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann „málsvarnarlauna“ úr ríkissjóði.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði segir, greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Þ. Skorra Steingrímssonar héraðsdómslögmanns, fyrir Hæstarétti, 125.500 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 9. desember 2013.
Með kröfu, dagsettri 4. desember sl., sem barst dóminum 3. desember sl., hefur lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness staðfesti ákvörðun lögreglustjórans frá 29. nóvember 2013 þess efnis að X kt. [...] verði gert að sæta nálgunarbanni í 12 mánuði þannig að lagt verði bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili A, kt. [...], að [...] í [...], á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis heimilið, mælt frá miðju hússins. Jafnframt að lagt verði bann við því að X veiti A eftirför, nálgist hana á almannafæri eða setji sig í samband við hana með öðrum hætti.
Í greinargerð með kröfunni segir að hinn 29. nóvember sl. hafi A leitað til lögreglunnar í [...] og lagt fram beiðni um nálgunarbann gagnvart X á grundvelli a- og b-liða 4. gr. laga nr 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Hafi hún farið fram á að X, sem væri barnsfaðir hennar, yrði bannað að nálgast heimili hennar að [...] í [...]og jafnframt að honum yrði bannað að veita henni eftirför, heimsækja eða setji sig í samband við hana með öðrum hætti. Hafi A greint frá því að hún væri ráðalaus gagnvart stöðugum ofsóknum X og að hún óttaðist hann mjög. Hann hefði verið með áreiti og hótanir gagnvart henni í mörg ár og m.a. ítrekað reynt að kúga fé af A og fjölskyldu hennar, haft í líkamsmeiðingarhótunum og þá hefði hann valdið eignaspjöllum á munum í hennar eigu.
Í greinargerð segir að í málaskrárkerfi lögreglu sé að finna eftirfarandi mál vegna samskipta X við A og fólk henni tengt:
1. Mál 007-2013-[...]: Þann 10. júlí sl. hafði lögreglan afskipti af X þar sem hann var búin að taka skráningarnúmer af bifreið A.
2. Mál 007-2013-[...]: Þann 30. júlí sl. kom A á lögreglustöð og kærði ofangreindan skráningarnúmeraþjófnað. Gat A þess einnig að hún yrði fyrir ítrekuðu ónæði af hálfu X en hann hringdi stöðugt í hana og sendi henni smáskilaboð. Þá hefði X einnig hótað föður A eignarspjöllum.
3. Mál 007-2013-[...]: Þann 26. ágúst sl. var lögreglu tilkynnt um að X væri búinn að loka bifreið A inni við leikskólann [...] í [...] og hefði elt hana inn á leikskólann. Hafði A séð sig knúna til að loka sig af inni á klósetti á leikskólanum með dóttur sína og óska eftir aðstoð lögreglu.
4. Mál 007-2013-[...]: Þann 27. ágúst sl. óskaði A eftir aðstoð lögreglu vegna eignaspjalla. Búið var að stinga á og eyðileggja öll dekk bifreiðarinnar [...] sem er í eigu A. Grunaði A X um verknaðinn.
5. Mál 007-2013-[...]: Þann 17. október sl. sakaði A X um að hafa vísvitandi opnað hurð á bifreið sinni á bifreið A og að hafa reynt að ná yngri dóttur þeirra út úr bifreið A.
Annað:
6. Mál 007-2013-[...]: Þann 27. ágúst lagði bróðir A, B, fram kæru vegna eignaspjalla en stungið hafði verið á öll dekk á bifreið B þar sem hún stóð fyrir utan heimili hans. Sama dag hafði verið skorið á öll dekk á bifreið A, sjá bókun hér að ofan.
7. Mál 007-2013-[...]: Þann 9. september sl. lagði faðir A, C, fram kæru vegna hótana frá X m.a. í sms-skilaboðum.
Þegar framangreint hafi verið borið undir X hafi hann neitað að hafa valdið tjóni á bifreiðum þeirra A og B. Þegar mál nr. 007-2013-[...] hafi verið borið undir X hafi hann sagt að hann hefði einungis verið að rukka C, fyrrum tengdaföður sinn, um peninga sem hann og A skulduðu honum. Hafi hann ekkert meint með hótununum sem fram hafi komið í skilaboðunum. X hafi aftur á móti viðurkennt að hafa valdið skemmdum á bifreið A er hann hafi opnað hurðina á sinni bifreið á hennar bifreið. Það hafi verið óviljandi og þá hafi hann aðeins langað að hitta dóttur sína umrætt sinn en aldrei hafi staðið til að nema hana á brott.
Ekki hafi tekist að hafa uppi á X fyrr en 2. desember sl. og hafi honum þá verið birt meðfylgjandi ákvörðun lögreglustjóra um nálgunarbann gagnvart A.
Þau gögn sem lögregla hafi undir höndum beri með sér að A stafi ógn af X og sé ljóst að hún og fólk tengt henni hafi undanfarið orðið fyrir miklu ónæði og vanlíðan af hans hálfu.
Í ljósi ofangreinds telji lögreglustjóri að skilyrði 4. gr. laga nr. 85/2011 séu uppfyllt að því leyti að hætta sé á að X muni raska friði A í skilningi ákvæðisins njóti hann fulls athafnafrelsis. Sé ekki talið sennilegt að friðhelgi hennar verði vernduð með öðrum og vægari hætti eins og sakir standi.
Með vísan til framangreinds og framlagðra gagna teljast skilyrði 4. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann uppfyllt og ítrekað að krafan nái fram að ganga.
Niðurstaða.
Hinn 29. nóvember sl. ákvað lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu að varnaraðila yrði gert að sæta nálgunarbanni gagnvart brotaþola samkvæmt 4. gr. laga nr. 85/2011 eins og nánar er kveðið á um í ákvörðunarorðum lögreglustjóra. Var sú ákvörðun birt varnaraðila 2. desember sl. Krafa lögreglustjóra um staðfestingu á þeirri ákvörðun barst dóminum með bréfi 3. desember sl. Boðað var til þinghalds föstudaginn 6. desember sl., en að kröfu varnaraðila og með samþykki sóknaraðila var málinu frestað til dagsins í dag.
Varnaraðili gaf skýrslu fyrir dóminum. Framburður hans um að krafa brotaþola um að hann sætti nálgunarbanni tengdist kröfu, sem hann hefði nýlega sett fram um umgengni við börn sín, fær ekki samrýmst gögnum málsins eða framburði varnaraðila að öðru leyti. Fram kom hjá varnaraðila að hann teldi brotaþola skulda sér 800.000 krónur vegna bifreiðarinnar [...]. Er þetta einnig haft eftir varnaraðila í gögnum málsins, m.a. þegar komið var að honum fyrir utan heimili brotaþola snemma morguns hinn 10. júlí sl. en þá hafði brotaþoli óskað eftir aðstoð lögreglu þar sem búið væri að fjarlægja skráningarnúmer af bifreið hennar. Á vettvangi viðurkenndi varnaraðili að hafa stolið númeraplötunum og neitaði að upplýsa um það hvar þær væru. Jafnframt kom fram hjá varnaraðila að hann ætlaði að afhenda skráningarnúmerin ef brotaþoli greiddi honum skuldina. Samræmist framangreint ekki framburði varnaraðila hér fyrir dómi um að brotaþoli hefði beðið hann um að leggja númeraplöturnar inn þar sem hún væri að fara utan í þrjár vikur.
Jafnframt hefur varnaraðili viðurkennt að sms-skilaboð hans til föður brotaþola tengust áðurgreindri ætlaðri skuld brotaþola við varnaraðila vegna sölu á fyrrgreindri bifreið, en varnaraðili bar um það fyrir dóminum að faðir brotaþola hefði selt bifreiðina og varðveitti nú andvirði hennar. Ljóst þykir að í skilaboðum þessum fólust hótanir í garð föður brotaþola og rennir það stoðum undir það að hegðun og framkoma varnaraðila hafi verið ógnandi og til þess fallin að raska friði brotaþola og fjölskyldu hennar.
Þá viðurkenndi varnaraðili fyrir dóminum að hafa fyrir utan leikskóla dóttur sinnar hinn 26. ágúst sl. lagt bifreið sinni fyrir aftan bifreið brotaþola þannig að brotaþoli hafi ekki komist í burtu. Jafnframt kemur fram í gögnum málsins að hann hafi farið á eftir brotaþola inn í leikskólann, en brotaþoli hafi lokað sig þar inni á salerni með dóttur sinni. Kvaðst varnaraðili einungis hafa komið á leikskólann til að ræða við dóttur sína og sagðist ekki hafa yrt á brotaþola. Í ljósi fyrri samskipta varnaraðila og brotaþola þykir þessi framkoma varnaraðila ógnandi og til þess fallin að raska friði brotaþola.
Varnaraðili kvaðst hér fyrir dómi hvorki hafa stungið á hjólbarða á bifreið brotaþola, [...], né á bifreið bróður hennar, en atvik þessi áttu sér stað sömu nótt eða aðfaranótt 27. ágúst sl., þ.e. daginn eftir að atvikið átti sér stað við leikskóla dóttur varnaraðila og brotaþola. Hefur varnaraðili borið um það bæði hér fyrir dómi og hjá lögreglu að hann hafi verið erlendis á þessum tíma. Samkvæmt gögnum málsins mun varnaraðili hafa farið af landi brott snemma morguns hinn 27. ágúst 2013 eða kl. 06:00. Hefur varnaraðili því haft tækifæri til að fremja verknaðinn áður en hann hélt af landi brott. Í ljósi framangreinds og með hliðsjón af deilu hans og brotaþola og fyrri framkomu hans í þeim efnum þykir framburður varnaraðila hvað áðurgreint atvik varðar ekki trúverðugur.
Þá hefur varnaraðili viðurkennt að hafa fyrir utan [...] í [...] hinn 17. október sl. opnað dyr bifreiðar sinnar með þeim afleiðingum að bílhurðin lenti á bifreið brotaþola og skemmdi hana. Heldur varnaraðili því fram að að um óhappatilvik hafi verið að ræða. Samkvæmt framburði brotaþola mun varnaraðili hafa opnað bílhurðina á ferð með þeim afleiðingum að hún lenti á afturstuðara bifreiðar brotaþola. Kveðst varnaraðili hafa ætlað að ræða við dóttur sína, sem verið hafi í bifreið brotaþola, en kveðst ekki hafa yrt á brotaþola. Í ljósi fyrri samskipta varnaraðila og brotaþola þykir þessi framburður varnaraðila ótrúverðugur og framkoma hans ógnandi og til þess fallin að raska friði brotaþola.
Að öllu framansögðu þykir fram kominn rökstuddur grunur um að varnaraðili hafi framið refsivert brot og jafnframt raskað friði brotaþola á annan hátt. Ekki þykir sennilegt að friðhelgi brotaþola verði vernduð með öðrum og vægari hætti en með nálgunarbanni. Þykja því vera fyrir hendi skilyrði samkvæmt II. kafla laga nr. 85/2011 um nálgunarbann til að beita nálgunarbanni eins og kveðið er á um í ákvörðun lögreglunnar frá 29. nóvember sl., þess efnis að lagt verði bann við því að X, kt. [...], komi á eða í námunda við heimili A, kt. [...], að [...] í [...], á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis heimilið, mælt frá miðju hússins. Jafnframt er lagt bann við því að X veiti A eftirför, nálgist hana á almannafæri eða setji sig í samband við hana með öðrum hætti, en þó með þeirri breytingu að rétt þykir að stytta tímalengd nálgunarbannsins eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Í málinu gerir skipaður verjandi varnaraðila og skipaður réttargæslumaður brotaþola kröfu um þóknun. Með hliðsjón af umfangi málsins þykir þóknun verjanda varnaraðila Þormóðs Skorra Steingrímssonar hdl. og réttargæslumanns, Þórdísar Bjarnadóttur hrl., hæfilega ákveðin 125.500 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, hvoru til handa. Þóknunin greiðist úr ríkissjóði og telst til sakarkostnaðar sbr. 3. mgr. 48. gr. og 216. gr. laga nr. 88/2008.
Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
ÚRSKURÐARORÐ.
Varnaraðila, X, kt. [...], er gert að sæta nálgunarbanni í sex mánuði frá 2. desember 2013 að telja, þannig að lagt er bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili A kt. [...] að [...] í [...], á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis heimilið, mælt frá miðju hússins. Jafnframt er lagt bann við því að X veiti A eftirför, nálgist hana á almannafæri eða setji sig í samband við hana með öðrum hætti.
Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Þormóðs Skorra Steingrímssonar hdl., og skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Þórdísar Bjarnadóttur hrl., 125.500 krónur til hvors um sig, greiðist úr ríkissjóði.