Hæstiréttur íslands

Nr. 2023-157

Hafnarfell ehf. (Hilmar Gunnarsson lögmaður)
gegn
Skattinum (Snorri Olsen ríkisskattstjóri)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Gjaldþrotaskipti
  • Fyrning
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Karl Axelsson, Björg Thorarensen og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 8. desember 2023 leitar Hafnarfell ehf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., til að kæra úrskurð Landsréttar 7. desember 2023 í máli nr. 734/2023: Hafnarfell ehf. gegn Skattinum. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Ágreiningur aðila lýtur að því hvort skilyrði hafi verið til að fallast á kröfu gagnaðila um gjaldþrotaskipti á búi leyfisbeiðanda. Leyfisbeiðandi telur að kröfurnar sem liggi til grundvallar beiðni um gjaldþrotaskipti séu fyrndar.

4. Með úrskurði Landsréttar var staðfestur úrskurður héraðsdóms þar sem bú leyfisbeiðanda var tekið til gjaldþrotaskipta á grundvelli 1. töluliðar 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991. Landsréttur taldi að leyfisbeiðandi hefði með því að undirrita greiðsluáætlun 20. janúar 2020 viðurkennt kröfu gagnaðila þannig að fyrning hennar hefði verið rofin samkvæmt 1. mgr. 12. gr. laga nr. 150/2019 um innheimtu opinberra skatta og gjalda. Í því sambandi væri ekki unnt að horfa fram hjá því að fyrirvarinn sem leyfisbeiðandi hefði gert við greiðsluáætlunina hefði einvörðungu lotið að fjárhæð kröfunnar en ekki því að engin krafa væri til staðar. Fyrirvarinn hefði ekki gefið gagnaðila tilefni til að ætla að honum væri nauðsynlegt að grípa til frekari ráðstafana til að aftra því að krafan fyrndist á meðan málarekstur leyfisbeiðanda stæði yfir gagnvart íslenska ríkinu.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að kæruefnið hafi verulegt almennt gildi og að mikilvægt sé að fá dóm Hæstaréttar um rof fyrningar samkvæmt 14. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda og hvort greiðsluáætlunin hafi rofið fyrningu þrátt fyrir fyrirvarann. Þá telur leyfisbeiðandi að niðurstaðan sé bersýnilega röng að efni til og samræmist ekki fordæmum Hæstaréttar um þær kröfur sem gera verði til skýrleika þegar tilvist skuldar er viðurkennd.

6. Að virtum gögnum málsins verður ekki talið að kæruefnið hafi slíkt fordæmisgildi að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 2. mgr. sömu lagagreinar í málinu á grundvelli þess að hin kærða dómsathöfn sé bersýnilega röng að efni til. Beiðni um kæruleyfi er því hafnað.