Hæstiréttur íslands

Mál nr. 19/2001


Lykilorð

  • Vinnusamningur


Fimmtudaginn 3

 

Fimmtudaginn 3. maí 2001.

Nr. 19/2001.

Paul Richardson

(Guðni Á. Haraldsson hrl.)

gegn

Ferðaþjónustu bænda hf.

(Jakob R. Möller hrl.)

 

Vinnusamningur.

P gegndi hálfu starfi sem framkvæmdastjóri F uns honum var sagt upp störfum. Krafði P F um greiðslur vegna yfirvinnu síðustu mánuði fyrir starfslok hans. F hafnaði greiðsluskyldu á þeirri forsendu að ósamið hefði verið um slíkan rétt P til handa. Áralöng framkvæmd og fyrra uppgjör yfirvinnugreiðslna var ekki talið benda til að það hefði verið skilningur aðila að í vinnusambandi þeirra fælist að P skyldi mæla vinnuframlag sitt og fá greiðslur fyrir vinnustundir umfram starfshlutfall. Var talið að P hefði borið að leggja það fyrir stjórn F, teldi hann tímabundnar aðstæður krefjast vinnu af sinni hálfu, sem leiddi til þess að hann ætti rétt til frekari greiðslna. Ekki var talið hagga þessari niðurstöðu að ekki hafði verið gerður skriflegur ráðningarsamningur við P.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 15. janúar 2001. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 497.143 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. júlí 1998 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Áfrýjandi var ráðinn framkvæmdastjóri Félags ferðaþjónustubænda á árinu 1987. Þegar Ferðaþjónusta bænda hf. var sett á stofn á árinu 1991 var áfrýjandi jafnframt ráðinn framkvæmdastjóri þess félags, en náin tengsl voru milli félaganna og höfðu þau meðal annars sameiginlega skrifstofu og sameiginlegt starfslið. Starfaði áfrýjandi síðan sem framkvæmdastjóri beggja félaganna til ársloka 1997, en þá virðist starfsemi Félags ferðaþjónustubænda hafa verið hætt. Lengst af gegndi áfrýjandi framkvæmdastjórastöðu í félögunum í fullu starfi, en á þessum árum var nokkuð misjafnt hvernig starf hans skiptist milli félaganna. Var starfshlutfall hans hjá stefnda á bilinu 25% til 50%.

Í desembermánuði 1997 gegndi áfrýjandi 50% starfi hjá hvoru félaganna og hélt hann áfram hálfu starfi í þágu stefnda eftir að starfsemi Félags ferðaþjónustubænda var af lögð í árslok uns honum var sagt upp störfum hjá stefnda með bréfi 22. apríl 1998. Var uppsögnin með þriggja mánaða fyrirvara miðað við næstu mánaðamót, en þess jafnframt óskað að áfrýjandi léti af störfum þegar í stað. Með bréfi 4. júní 1998 krafði áfrýjandi stefnda um greiðslu 522.859 króna fyrir yfirvinnu á tímabilinu 1. janúar til 22. apríl 1998. Ítrekaði hann þá kröfu með bréfi 23. ágúst 1998 og enn með símskeyti 7. apríl 1999, en henni var hafnað af hálfu stefnda með bréfi Vinnuveitendasambands Íslands 30. júní 1999. Höfðaði áfrýjandi mál þetta til heimtu kröfunnar 9. desember 1999.

II.

Ekki var gerður skriflegur ráðningarsamningur um störf áfrýjanda í þágu stefnda. Bar áfrýjandi fyrir héraðsdómi að þegar hann hóf störf fyrir Félag ferðaþjónustubænda á árinu 1987 hafi hann verið ráðinn á launakjörum, sem miðuðust við ráðunauta Búnaðarfélags Íslands, en í því hefðu falist tiltekin grunnlaun og föst yfirvinna, auk bifreiðastyrks. Hafi þetta fyrirkomulag ekkert breyst meðan hann vann í þágu fyrrnefndra félaga fyrir utan einhverja hækkun launa. Ber samkomulag Félags ferðaþjónustubænda og stefnda 5. maí 1992 það með sér að stefndi hafi gengið inn í launasamninga, sem fyrrnefnda félagið hafði gert við starfsfólk sitt. Voru mánaðarlaun áfrýjanda á árinu 1998 fyrir 50% starf samkvæmt framlögðum launaseðlum 110.911 krónur í föst laun, 23.791 króna fyrir fasta yfirvinnu og 14.060 krónur í bifreiðastyrk. Er ekki ágreiningur milli aðila um efni ráðningarsamnings áfrýjanda að þessu leyti. Í janúar 1994 greiddi stefndi áfrýjanda 64.254 krónur fyrir yfirvinnu og 196.560 krónur í janúar 1995. Komu greiðslur þessar til viðbótar áðurnefndri fastri yfirvinnu og kveður áfrýjandi þær hafa verið vegna uppsafnaðrar yfirvinnu á undangengnu ári. Fékk hann á sama tíma hliðstæðar yfirvinnugreiðslur frá Félagi ferðaþjónustubænda. Bar Ingi Tryggvason, sem á þessum tíma var stjórnarformaður beggja félaganna, fyrir héraðsdómi að hér hafi verið um að ræða greiðslur fyrir yfirvinnu, sem samkomulag hafi orðið um milli sín og áfrýjanda. Hafi það verið gert að athuguðu máli og fengnum upplýsingum um hvað að baki lægi. Áfrýjandi virðist ekki á starfstíma sínum hafa fengið frekari greiðslur fyrir yfirvinnu frá stefnda, utan fyrrnefndar greiðslur fyrir fasta yfirvinnu. Bar hann fyrir héraðsdómi að vinnuálag hafi verið mismikið eftir því hvernig skrifstofan var mönnuð, vinnan hafi verið sveiflukennd innan ársins og hann hafi tekið yfirvinnu á álagstímum út í fríi þegar minna var um að vera. Að auki hafi hann viljað félaginu vel og ekki lagt inn reikninga vegna yfirvinnu.

Á hluthafafundi í stefnda 5. desember 1997 urðu umræður um framtíð félagsins, að því er virðist vegna niðurlagningar á starfsemi Félags ferðaþjónustubænda og taprekstrar stefnda undanfarin ár. Var samþykkt tillaga stjórnarformanns um að mynda starfshóp til að kanna hvaða leiðir kæmu til greina í því efni. Voru tillögur starfshópsins kynntar á aðalfundi stefnda, sem haldinn var 27. febrúar 1998, sem og tillögur stjórnar um áframhaldandi rekstur félagsins, sem í meginatriðum byggðust á tillögum starfshópsins. Lutu báðar tillögurnar að því að halda rekstrinum áfram, en auka hlutverk stjórnar varðandi eftirlit með daglegum rekstri félagsins, koma á hvetjandi launakerfi og hagræða og spara í rekstri, meðal annars með flutningi í ódýrara leiguhúsnæði og með því að draga úr kostnaði af tölvukerfi. Var báðum þessum tillögum vísað til stjórnar. Kom framkvæmd ýmissa þessara atriða til umræðu á stjórnarfundi 25. mars 1998, þar sem áfrýjandi kynnti meðal annars hugmyndir um breytt árangurstengt launakerfi. Þá lagði hann fram drög að starfssamningi milli sín og stefnda, þar sem ekki var gert ráð fyrir greiðslu vegna yfirvinnu, en auk fastra launa var lagt til að upp yrðu teknar afkomutengdar viðbótargreiðslur. Á þessum fundi var einnig samþykkt að fela áfrýjanda að semja um flutning á skrifstofu stefnda í ódýrara húsnæði og var hún flutt í framhaldi af því.

III.

Áfrýjandi heldur því ekki fram að um það hafi beinlínis verið samið milli sín og stefnda að hann fengi greitt fyrir vinnu umfram þær vinnustundir, sem fólust í starfshlutfalli hans, heldur leiði það af því vinnusambandi, sem í gildi var milli hans og stefnda, að hann eigi rétt á slíkum greiðslum. Á umræddu tímabili í ársbyrjun 1998 hafi stefndi til að sinna vinnuskyldu sinni þurft að inna af hendi vinnuframlag umfram þær fjórar klukkustundir á dag, sem falist hafi í 50% starfshlutfalli hans. Um þessa yfirvinnu hafi hann lagt fram yfirlit, sem byggt sé á dagbókarfærslum hans, enda hafi hann sjálfur þurft að halda utan um vinnustundir sínar, þar sem ekki hafi verið stimpilklukka eða önnur tímamælingakerfi á skrifstofu stefnda. Heldur áfrýjandi því fram að greiðslur þær, sem hann fékk í ársbyrjun 1994 vegna yfirvinnu á árinu 1993 og í ársbyrjun 1995 vegna yfirvinnu á árinu 1994, séu til marks um að þetta fyrirkomulag hafi gilt varðandi vinnusamband aðila og sýni að fordæmi eða venja sé fyrir uppgjöri í árslok vegna yfirvinnu. Þá heldur áfrýjandi því fram að frá áramótum til 22. apríl 1998 hafi vinnuálag hans verið venju fremur mikið. Hafi svo verið bæði vegna þess að sá árstími sé í eðli sínu álagstími fyrir framkvæmdastjóra stefnda og honum hafi vegna starfsloka ekki gefist færi á því að jafna yfirvinnu á þessum árstíma út með fríi síðar á árinu og einnig vegna ýmissa sérstakra aðstæðna og verkefna. Hann bendir í því sambandi meðal annars á endurskipulagningu á starfsemi stefnda í kjölfar niðurlagningar Félags ferðaþjónustubænda, endurskipulagningu tölvumála, flutning á skrifstofu stefnda, útfærslu á tillögum um breytt rekstrarfyrirkomulag og áætlanagerð því tengdri, upptöku nýs bókhaldskerfis og að aðalfundi stefnda var flýtt.

Ekki er ágreiningur milli aðila um að þegar áfrýjandi var ráðinn til Félags ferðaþjónustubænda á árinu 1987 var samið um að hann fengi föst laun, fastar yfirvinnugreiðslur og bifreiðastyrk. Þegar Ferðaþjónusta bænda hf. var stofnuð á árinu 1991 gekk það félag sem fyrr segir inn í þau ráðningarkjör, sem fyrir voru milli starfsfólks og Félags ferðaþjónustubænda, og liggur fyrir að ekki urðu breytingar á ráðningarkjörum áfrýjanda eða fyrirkomulagi á launauppgjöri á starfstíma hans hjá stefnda ef undan eru skildar launahækkanir. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að skráning á vinnutíma áfrýjanda og greiðsla á yfirvinnu fyrir vinnu umfram starfshlutfall hafi verið þáttur í reglulegu launauppgjöri hans. Þvert á móti sést af þeim launaseðlum, sem fram hafa verið lagðir, að mánaðarlegt launauppgjör áfrýjanda hefur byggst eingöngu á greiðslu þeirra þriggja föstu þátta, sem að framan eru raktir, föstum launum, fastri yfirvinnu og bifreiðastyrk. Áralöng framkvæmd bendir því ekki til að það hafi verið skilningur aðila að í vinnusambandinu fælist að áfrýjandi skyldi mæla vinnuframlag sitt og fá greiðslur fyrir vinnustundir umfram starfshlutfall. Þá verður heldur ekki séð að greiðsla á yfirvinnu eftir á vegna áranna 1993 og 1994 staðfesti slíkan skilning aðila á ráðningarkjörum áfrýjanda. Fyrir liggur að þessar greiðslur byggðust á sérstöku samkomulagi áfrýjanda og stjórnarformanns stefnda og hliðstæðar eftirágreiðslur áttu sér ekki stað vegna yfirvinnu annarra ára á sjö ára starfstíma áfrýjanda hjá stefnda. Þegar þetta er virt verður að telja að áfrýjanda hafi ekki tekist að sýna fram á að falist hafi í vinnusambandi hans og stefnda að honum bæru greiðslur fyrir vinnu sína umfram mánaðarlaun og fastar yfirvinnugreiðslur.

Af gögnum málsins er ljóst að Ferðaþjónusta bænda hf. stóð á nokkrum tímamótum um áramótin 1997 og 1998 og að laga þurfti rekstur félagsins að breyttum aðstæðum. Er fram komið ýmislegt, sem bendir til þess að verkefni framkvæmdastjóra félagsins hafi af þessum sökum verið venju fremur umfangsmikil í ársbyrjun 1998. Jafnframt er ljóst að aðgerðir stefnda beindust á þessum tíma að því að auka hlut stjórnar í daglegum rekstri og draga úr útgjöldum félagsins og spara í rekstri þess. Hafi áfrýjandi talið að aðstæður á þessum tíma gæfu tilefni til aukins vinnuframlags af hans hálfu, sem hafa mundi í för með sér kostnaðarauka fyrir stefnda, bar honum í ljósi fyrri framkvæmdar á launagreiðslum að leggja það fyrir stjórn stefnda. Gat hann ekki við þessar aðstæður einhliða gert stefnda að greiða fyrir þá yfirvinnu, er af því kann að hafa leitt. Verða sérstakar aðstæður á þessum tíma því heldur ekki taldar valda því að taka beri kröfu áfrýjanda um laun vegna yfirvinnu til greina.

Fyrir Hæstarétti hefur áfrýjandi haldið því fram að þar sem stefndi gerði ekki skriflegan ráðningarsamning við sig þrátt fyrir skyldu þar um, sbr. tilskipun Evrópusambandsins nr. 91/533/EBE og auglýsingu nr. 503/1997, beri hann hallann af skorti á sönnun varðandi rétt áfrýjanda til yfirvinnugreiðslna. Þegar af þeirri ástæðu að ekkert er fram komið af hálfu áfrýjanda um hvernig skriflegur ráðningarsamningur hefði átt að taka af tvímæli um þau atriði, sem um er deilt í máli þessu, verður ekki séð að tilvitnuð tilskipun skipti neinu við úrlausn þess.

Samkvæmt framansögðu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur um annað en málskostnað.

Rétt er að málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti falli niður.

                                                         Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. október 2000.

Mál þetta, sem dómtekið var 20. september sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Paul Richardson, kt. 020843-5009, Grenimel 20, Reykjavík, á hendur Ferðaþjónustu bænda hf., kt. 530991-1359, Hafnarstræti 1, Reykjavík, með stefnu sem birt var 9. desember sl.

Dómkröfur stefnanda eru að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 522.859 krónur ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. júlí 1998 til greiðsludags.  Þá er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að mati réttarins auk lögmælts virðisaukaskatts.

Dómkröfur stefnda eru aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað að mati réttarins.  Til vara krefst stefndi þess að kröfur stefnanda verði verulaga lækkaðar og í því tilviki verði málskostnaður felldur niður.

I.

Stefnandi lýsir málavöxtum þannig: Stefnandi gegndi fram til áramóta 1997/1998 tveimur störfum.  Annars vegar framkvæmdastjórastöðu hjá Félagi ferðaþjónustu bænda og hins vegar sem framkvæmdastjóri stefnda, Ferðaþjónustu bænda hf.  Í báðum tilvikum var um að ræða 50% stöðu.  Um þessi áramót lét stefnandi af starfi sínu hjá Félagi ferðaþjónustu bænda, en hélt áfram starfi fyrir Ferðaþjónustu bænda hf. með óbreyttum starfskjörum.  Með bréfi dagsettu 22. apríl 1998 var honum sagt upp og að ósk stjórnar stefnda lét hann þegar af störfum.  Fékk hann greidd laun í þrjá mánuði, sem var umsaminn uppsagnarfrestur.

Á þeim árum sem stefnandi starfaði fyrir bæði félögin, hafði skapast sú venja um greiðslu fyrir unna yfirvinnu, að stefnandi hélt utan um og skráði unnar yfirvinnustundir, og fékk þær greiddar eftir á, jafnan í lok starfsárs.  Við starfslok hjá stefnda tók stefnandi því saman þá yfirvinnutíma sem hann hafði innt af hendi til þess tíma er hann lét af störfum, og fór fram á uppgjör.  Stefndi hafnaði greiðsluskyldu, og hefur ekki þrátt fyrir ítrekuð tilmæli fengist til að greiða stefnanda þessa launakröfu.

Af hálfu stefnda er málavöxtum þannig lýst: Allt fram til áramóta 1997 og 1998 var stefnandi bæði í starfi hjá Félagi ferðaþjónustu bænda (FFB) og Ferðaþjónustu bænda hf. (FB hf.).  Starfshlutfall hjá hvorum aðila um sig breyttist lítillega milli ára.  Á árinu 1992 var stefnandi í 75% starfi hjá FFB en í 25% starfi hjá FB hf.  Á árinu 1993 jókst starfshlutfall stefnanda hjá FB hf. en minnkaði að sama skapi hjá FFB, nánar tiltekið varð starfshlutfall stefnanda 63% hjá FFB en 37% hjá FB hf.  Síðasta árið sem stefnandi var í starfi hjá báðum aðilum var árið 1997 en það ár var stefnandi í 50% starfi hjá hvorum aðila um sig fram til 1. október.  Í október og nóvember það ár var stefnandi hins vegar í 25% starfi hjá FB hf. en 50% starfi hjá FFB.  Í desember var starfshlutfall stefnanda að nýju 50% hjá hvorum aðila um sig.

Rekstri FFB var hætt um áramótin 1997-1998 og starfsmönnum félagsins sagt upp störfum.  Stefnandi lauk því störfum á þeim vettvangi í árslok 1997.

Stefnandi hélt áfram sem framkvæmdastjóri hjá FB hf. í 50% starfi frá og með 1. janúar 1998.  Þannig hélst starfshlutfall stefnanda hjá stefnda þar til honum var sagt upp störfum hjá fyrirtækinu með uppsagnarbréfi dags. 22. apríl 1998.  Ástæður uppsagnarinnar voru einkum samstarfsörðugleikar milli stjórnarinnar og stefnanda.  Að ósk stjórnar hætti stefnandi störfum þegar í stað, þ.e. 22. apríl 1998 en stefnanda voru greidd laun út júlímánuð það ár.

Samningsbundin launakjör stefnda á því tímabili sem ágreiningur máls þessa snýst um voru eftirfarandi:

Föst laun fyrir 50% starfkr.110.911.-

yfirvinnakr.23.791.-

bifreiðastyrkurkr.14.060.-

samtalskr.148.762.-

Í júní 1998 sendi stefnandi stjórn stefnda bréf þar sem hann krafði fyrirtækið um ógreidd laun fyrir tímabilið janúar til apríl 1998, samtals 522.859 krónur.  Þrátt fyrir að stjórn fyrirtækisins teldi að krafan ætti ekki við rök að styðjast voru stefnanda boðnar 65.000 krónur.  Tekið var mið af þeim greiðslum sem stefnandi hafði fengið greitt eftir á vegna ógreiddrar yfirvinnu á árunum 1993 og 1994.  Boð stefnda um að ljúka málinu með þessum hætti var ekki svarað.

II.

Stefnandi kveðst byggja kröfu sína á því vinnusambandi er í gildi var milli hans og stefnda.  Óumdeilt sé að stefnandi sinnti starfi framkvæmdastjóra í hálfu starfi tímabilið frá l. janúar 1998 til 22. apríl sama ár.  Hann hafi sinnt vinnuskyldu sinni á  á þessu tímabilinu og fengið greidd laun, nema fyrir yfirvinnu.  Á þessu tímabili hafði stefnandi, líkt og undanfarin ár, haldið skrá um unna yfirvinnu, en starf stefnanda hafi verið þess eðlis að það kallaði á mikil ferðalög bæði innanlands og utanlands.  Þá hafi stjórn stefnda falið honum að vinna að breytingum á tölvu og skipulagsmálum félagsins, sem meðal annars fól í sér skipulagningu nýs launakerfis.  Þessi vinna hefði krafist mikils vinnuframlags af hendi stefnanda og telur stefnandi að þessi aukavinna hans hafi nú þegar sparað stefnda ómæld útgjöld.

Stefnandi kveðst hafa haldið nákvæmt yfirlit um unnar yfirvinnustundir í þágu stefnda.  Hafi hann gert það með hliðsjón af þeirri vinnureglu sem gilt hafi milli hans og stefnda um greiðslu fyrir yfirvinnu hans mörg undanfarin ár.  Eftir að honum var sagt upp störfum, hafi komið í ljós að stefndi hafði horfið frá því fyrirkomulagi sem gilt hafði milli aðila, og hætt að greiða fyrir unna yfirvinnu, þrátt fyrir að stefnanda hefði verið falin verkefni, sem ekki voru leysanleg innan fasts vinnutíma.  Ekki hafi stefnandi verið upplýstur um þetta breytta viðhorf stefnda.  Hafði hann því unnið af samviskusemi að lausn þeirra verkefna sem fyrir hann voru lögð, sem hins vegar leiddi til nokkurrar uppsöfnunar á yfirvinnutímum.

Stefnandi kveðst óumdeilanlega hafa innt umrædda yfirvinnu af hendi, en stefndi ekki staðið skil á greiðslu fyrir það vinnuframlag.  

III.

Af hálfu stefnda er krafa um sýknu byggð á því að stefnandi hafi fengið greitt það sem honum bar og eigi hann engan rétt á frekari greiðslu fyrir vinnu sína hjá stefnda.

Af hálfu stefnda er því alfarið vísað á bug að venja eða vinnuregla hafi skapast milli hans og stefnda, Ferðaþjónustu bænda hf. (FB hf.) um að stefnandi héldi utan um og skráði unnar yfirvinnustundir og fengi þær greiddar í lok starfsárs.  Slíkt hefði ekki tíðkast í sambandi aðilanna nema í algjörum undantekningartilfellum, nánar tiltekið vegna áranna 1993 og 1994.  Stefnandi hafi verið í 50% starfi hjá stefnanda á því tímabili sem ágreiningur þessi stafar en hafi auk þess fengið fasta greiðslu vegna þeirrar vinnu sem fór fram yfir 50% starfshlutfall.  Á þeim árum sem ofangreindar leiðréttingar hefðu áttu sér stað, þ.e. 1993 og 1994, hafi stefnandi aðeins verið í 37% starfshlutfalli og fengið 64.254 krónur greiddar vegna vinnu umfram vinnuskyldu árið 1993 en 196.560 krónur vegna vinnu umfram vinnuskyldu árið 1994.  Starfshlutfall stefnanda hafi því verið mun minna á þessum árum en það var á þeim tíma sem hér um ræðir.  Því séu aukagreiðslurnar á árunum 1993 og 1994 ekki hæfar til viðmiðunar.  Af hálfu stefnda segir að föst yfirvinna hafi verið inni í mánaðarlaunum stefnanda á árinu 1998.  Hafi hún numið 23.791 krónum.  Það sé því rangt sem haldið er fram í greinargerð stefnanda að yfirvinna hafi ekki verið greidd.

Þá er því alfarið mótmælt af hálfu stefnda að stjórn stefnda hafi falið stefnanda vinnu sem krafist hafi sérstaklega mikils vinnuframlags umfram það sem almennt hefði tíðkast hjá fyrirtækinu.  Þvert á móti hafi það verið skilaboð nýrrar stjórnar að aðhalds í rekstri fyrirtækisins væri þörf.  Stefnanda hafi verið fullkunnugt um stefnu stjórnarinnar í þeim efnum enda hafi hann sjálfur setið stjórnarfundi þar sem þetta hafi skýrt komið fram.  Stefnandi hafi verið framkvæmdastjóri FB hf. og borið ábyrgð á launaútreikningum og fjármálum fyrirtækisins og hefði hann haft prókúruumboð þann tíma sem um er deilt og jafnframt setið stjórnarfundi.

Af hálfu stefnda er talið ósannað að stefnandi hafi átt rétt til sérstakrar greiðslna vegna yfirvinnu, sem hafi farið fram úr föstum, umsömdum greiðslum vegna yfirvinnu.  Um slíkt hafi aldrei verið samið og af hálfu stefnanda hafi aldrei verið gefið í skyn að slíkur réttur fælist í starfssamningi stefnda.  Af hálfu stefnda er staðhæft að tímaskýrslur stefnanda eiga ekki við rök að styðjast.  Miðað við kröfu stefnanda hafi orðið óútskýrð umbylting á starfi stefnanda á þeim stutta tíma sem hér um ræðir.  Stefnandi hafi fengið greiddar 110.911 krónur í föst laun fyrir 50% starf hjá stefnda á árinu 1998.  Í máli þessu krefji stefnandi stefnda um 130.714 krónur að meðaltali á mánuði fyrir ógreidda yfirvinnu fyrir fjögurra mánaða tímabil.  Stjórn fyrirtækisins hafi ekki verið látin vita að slík umskipti hefðu orðið á störfum stefnanda sem framkvæmdastjóri fyrirtækisins, svo sem hann heldur fram, fyrr en með kröfu stefnanda í máli þessu.  Hefðu þessi umskipti orðið hefði stefnanda verið skylt að upplýsa stjórnina tímanlega um þær.

Þá hefði stefnandi, sem framkvæmdastjóri fyrirtækisins, borið ábyrgð á bókhaldi og launaútreikningum starfsmanna og þar með hans sjálfs.  Skv. 5. og 6. gr. bókhaldslaga nr. 145/1994 hefði honum verið skylt að sjá til þess að í bókhaldi félagsins kæmi fram að ógreiddar væru launakröfur hans á hendur félaginu.  Það hefði falist í starfsskyldum hans sem framkvæmdastjóra að sjá til þess að bókhald fyrirtækisins gæfi raunsanna mynd af fjárhag þess.  Hann hafi hins vegar aldrei séð ástæðu til þess þrátt fyrir fullyrðingar um ógreidd laun úr hendi stefnda eftir að hann lauk störfum fyrir stefnda.

Af hálfu stefnda er raunar talið að stefnandi hafi sjálfur skilið ráðningarkjör sín svo að hann fengi aðeins greidd laun fyrir 50% starf auk þess að fá fasta mánaðarlega þóknun fyrir yfirvinnu og ekki væri um frekari aukavinnu eða greiðslu vegna þess að ræða enda hafi stefnandi hvorki farið fram á það við stjórn fyrirtækisins að starfshlutfall hans yrði endurskoðað né hafi hann greitt sjálfum sér laun fyrir þá gríðarlegu aukavinnu sem hann byggir málstað sinn á.

Ósannað sé með öllu að stefnandi hafi unnið þá tíma sem greiðslu er krafist fyrir og að honum hafi verið gert að vinna þá tíma eða hann hefði haft nokkra heimild til þess að auka vinnu sína í þeim mæli, sem hann heldur fram að hann hafi gert. Stefnandi hafi með engu móti sýnt fram á að hann hafi átt rétt til greiðslna umfram hina umsömdu, föstu yfirvinnu.  Hvorki stjórnarmenn einir sér né stjórnin sjálf hafi gefið stefnanda tilefni til að hann ynni þá yfirvinnu, sem hann heldur fram að hann hafi aukalega unnið fyrir fyrirtækið.  Þegar Félag ferðaþjónustu bænda (FFB) var lagt niður um áramótin 1997-1998 hafi stjórn FB hf. ákveðið að framkvæmdastjóri fyrirtækisins skyldi áfram vera í 50% starfi.  Viðvera stefnanda á skrifstofu fyrirtækisins, sem áður var jafnframt skrifstofa FFB, hefði minnkaði í samræmi við starfshlutfallið.  En jafnvel þó stefnandi hefði í reynd varið öllum þeim tíma sem hann haldi fram á vinnustað eða í þágu fyrirtækisins þá sé algjörlega ósannað að það hafi verið nauðsynlegt vegna starfa hans eða það hafi yfirleitt skilað félaginu einhverju.

Af hálfu stefnda er haldið fram að ekki sé ljóst við hvaða tölu stefnandi miði í útreikningum sínum á yfirvinnu fyrir umrætt tímabil.  Fyrirvari sé einnig gerður við launaútreikninga stefnanda að öðru leyti.

IV.

Stefnandi, Paul Richardson, kom fyrir dóminn.  Hann sagði m.a. að hann hefði flutt austur í Mýrdal 1980 og byrjað með ferðaþjónustu að Eystra-Skagnesi í Vík.  Kvaðst hann reyndar hafa haft afskipti af ferðaþjónustu bænda áður en hann hafi gengið í samtökin.  Hafi hann aðstoðað við að útbúa fyrsta litabækling ferðaþjónustu bænda 1983, bæði hvað varðaði hönnun og að skrifa textann.  Kvaðst hann hafa gengið í samtökin 1986 og um haustið hafi hann verið kosinn í stjórn samtakanna.  Í desember 1986 hafi hann verið beðinn um að taka við formennsku vegna þess að þá hafi hann rekið þýðingafyrirtæki, sem mikið hafi unnið við að útbúa gögn á erlendum málum fyrir ferðaþjónustuna.  Fyrirtækið hafi verið staðsett í Reykjavík enda þótt hann væri búsettur fyrir austan. 

Paul sagði að í janúar eða febrúar 1987 hafi hann komið á skrifstofu [samtakanna] og ekki litist á hvernig ástandið var.  Töluverð skuld hafi hvílt á félaginu og hafi hann lýst því yfir að hann væri ekki tilbúinn að vera formaður nema hann tæki einnig að sér framkvæmdastjórn.  Hefði það orðið raunin að hann hefði síðan verið formaður og framkvæmdastjóri á miklu uppbyggingartímabili næstu fjögur árin.  Á þessum tíma hafi þeir m.a. tekið í notkun gæðakerfi og flokkun gististaða, sem verið hafi hornsteinn markaðssetningar ferðaþjónustu bænda í mörg ár.  Þá hafi starfsfólk og stjórn verið mótað.  Öflugu sölukerfi hafi verið komið á fót sem síðar hafi verið breytt í hlutafélag árið 1991 sem er Ferðaþjónusta bænda hf.

Þegar framangreindar breytingar urðu sagði Paul, að allt hefði ekki alveg farið skv. áætlun, en aðalatriðið hafi verið að samkomulag var hjá félagsmönnum Félags ferðaþjónustu bænda og Ferðaþjónustu bænda hf. um að Ferðaþjónusta bænda hf. yfirtæki allar skuldbindingar gagnvart starfsfólki.  Raunar hefðu bæði félögin verið rekin áfram.  Hann kvaðst líta svo á, í þessu máli, að hann sé maður sem hafi starfað í tæp tvö ár í þessu. 

Paul sagðist ekki ætla að tíunda nema tvö síðustu árin sem hann starfaði fyrir stefnda.  Á aðalfundi 1997 hafi ný stjórn verið kosin eins og venjulegt var á aðalfundi.  Ingvar Guðmundsson hafi verið kosinn í stjórn.  Hann hafi síðan á fyrsta stjórnarfundi  á eftir verið kosinn formaður.  Ingvar hafi í framhaldi tekið sig afsíðis og sagt sér að allir væru sammála um að segja honum upp störfum.  Kvaðst stefnandi ekkert hafa haft um það að segja því að þetta hafi verið hlutverk stjórnarinnar.  Þegar aðrir stjórnarmenn hefðu spurt, hvort hann ætlaði ekki að mótmæla þessu, hafi hann neitað því. 

Stefnandi sagði að seinna hefði komið í ljós að Ingvar hafði ekki talað við aðra stjórnarmenn um þetta.  Ingvar hefði með öðrum orðum sagt honum upp án samráðs við aðra stjórnarmenn.  Á næsta fundi hafi a.m.k. þrír stjórnarmanna krafist þess að uppsögnin yrði dregin til baka.  Hafi það orðið raunin - en Ingvar Guðmundsson hefði sagt sig úr stjórninni og farið. 

Á næsta aðalfundi 1998, sagði stefnandi, að Ingvar hefði aftur verið kosinn í stjórn - þannig að væri rætt um hagsmunaárekstra milli hans og Ingvars þá hefði verið við því að búast, enda þótt hann hefði ekki gert neitt sérstakt til að þannig færi.  Annað væri að umrædd tvö félög hefðu verið mjög tengd.  Í maí 1997 hafi verið samþykkt á stjórnarfundi Félags ferðaþjónustu bænda að segja honum upp störfum sem framkvæmdastjóra Ferðaþjónustu bænda hf. þó svo að enginn í þeirri stjórn hefði verið í stjórn Ferðaþjónustu bænda hf.  Þá hafi hann verið í 50% starfi hjá hvoru félagi.  Hafi hann átt að ljúka störfum um áramót 1997/1998 hjá Félagi ferðaþjónustu bænda. 

Stefnandi sagði að tveir stjórnarmenn frá Félagi ferðaþjónustu bænda, formaður og annar, hefðu komið inn á skrifstofu til hans og sagt honum upp.  Kvaðst hann hafa sagt þeim að þeir hefðu ekki vald til þess.  Hafi hann þá sagt upp störfum hjá Félagi ferðaþjónustu bænda og gert það bréflega í maí 1997.  Kvaðst hann ekkert svar hafa fengið fyrr en tveimur mánuðum eftir að hann hætti störfum eða í febrúar 1998.

Stefnandi sagði að stjórnarformaður Félags ferðaþjónustu bænda hafi líka verið stjórnarmaður í nýrri stjórn FB hf.   Megi því telja eðlilegt, þegar svona hefur gengið á, að einhver vandamála gætu komið upp en hann hafi lagt mikla áherslu á það að allar línur væru hreinar.  Hann sagði að störf hans sem framkvæmdastjóra hjá FB hf. hafi verið fólgið í því að selja og skipuleggja sölu á ferðaþjónustunni sem bændur veittu.  Um áramótin 1997/1998 hafi engin breyting orðið á launakjörum að öðru leyti en því að hann hafi hætt að vinna hjá öðru félaginu.  Unnið áfram hjá hinu með 50% föst laun.

Stefnandi sagði að við upphaf ráðningar hans, er starfsemin hafi byrjað 1987, hafi hann verið ráðinn á taxta, sem ráðunautar hjá Búnaðarfélagi Íslands hafa.  Um sé að ræða ákveðin grunnlaun, þá laun fyrir óunna yfirvinnu sem launauppbót og að auki bílastyrkur.  Þessi launakjör hans hefðu ekki tekið breytingum á meðan hann starfaði hjá nefndum félögum.  Hann hefði hins vegar breytt launakjörum annarra starfsmanna á þann veg að föst yfirvinna og bílastyrkur varð að grunnlaunum. 

Stefnandi sagði að ástæðan fyrir því að honum hafi síðast verið greitt fyrir yfirvinnu eftir á á árunum 1993 og 1994 hafa verið sú, að skráning yfirvinnu hans hafi verið með þeim hætti, að hann hefði bókað um hana lauslega í dagbók hjá sér og með því að nota bókhaldið og önnur gögn eftir á þá hefði hann getað séð nákvæmlega hvað hann hefði unnið.  Hann hefði ekki alltaf munað þetta nákvæmlega en skráð hjá sér „ákveðna punkta" og getað reiknað út nokkuð nákvæmlega hvað hann hefði unnið.  Hann sagði að bókhald Félags ferðaþjónustu bænda og Ferðþjónustu bænda hf. greini frá þessari yfirvinnu, hver dagur ársins sé tekinn fyrir og skráður. 

Stefnandi sagði, að ástæðan fyrir því að um greiðslur eftir á hafi verið að ræða hafi verið sú að vinna hans hafi verið mjög sveiflukennd.  Á vorin hafi farið fram undirbúningur aðalfundar og margt annað til að undirbúa vertíðina.  Á þeim tíma hafi störf hans verið tímafrek.  Þá hafi aftur í september og október verið mikið að  gera hjá honum við sölustarfið og við innheimtu í nóvember og desember.  Yfir sumarið hefði hann hins vegar á stundum verið töluvert í burtu en þá hafi afgreiðsla á pöntunum farið fram sem ekki hafi verið hluti af hans störfum.  Hann sagði að skýringin á því að hann hefði ekki gert kröfu um greiðslu á yfirvinnu á tímabilinu  1995 til og með 1997 hafi verið af ýmsum ástæðum, t.d. að reikna sér ekki yfirvinnu þar eð hann hefði unnið fyrir félögin af hugsjón en ekki eingöngu launanna vegna.

Stefnandi upplýsti að hann ætti átta hlutbréf í Ferðaþjónustu bænda hf.  Enginn einstaklingur ætti fleiri hlutabréf.

Af hálfu stefnda gaf aðilaskýrslu Jóhannes Kristjánsson, stjórnarformaður stefnda.  Hann sagði m.a. að hann hefði tekið sæti í stjórn stefnda á aðalfundi 1998 en á aðalfundi 1999 hafi hann orðið stjórnarformaður.  Hann sagði að þegar hann varð stjórnarmaður 1998 hafi svo staðið á að hluthafafundur 1997 hafði kosið nefnd.  Nefnd þessi hafi lagt fram sín gögn á aðalfundinum 1998.  Viðvarandi tap hefði verið öll undanfarin ár utan eitt og menn orðnir nokkuð smeykir.  Þegar fyrirtækið var stofnað hefði verið gert ráð fyrir því að tap yrði á því fyrstu árin en svo myndi það snúast við.  Hagnaður hefði hins vegar ekki orðið.  Nefndin hefði í ályktun sinni gengið svo langt að ámálgað hefði verið við aðrar ferðaskrifstofur að sameinast þeim.  

Jóhannes sagði að ákveðnir erlendir aðilar hafi þvertekið fyrir að eiga í viðskiptum við stefnda út af erfiðleikum í samskiptum við stefnanda.  Þetta hafi verið þekktar þýskar ferðaskrifstofur.  Þá hefði stjórnin orðið vör við það að mikil þyngsli voru í samskiptum framkvæmdastjórans við menn hér heima.  Þá hafi stjórnar-mönnum fundist að þeir fengju ekki þær upplýsingar frá framkvæmdastjóranum, sem þeir væru að biðja um, nema með einhverri hörku og sumt af því, sem þeir hefðu spurt um, hefði hann talið að þeir þyrftu ekki að vera að skipta sér af.  Við svo búið hefði verið ákveðið að segja stefnanda upp störfum.

Jóhannes sagði að í stjórnartíð sinni 1998 hefði stefnandi aldrei rætt um ógreidda yfirvinnu eða rétt til hennar.  Hann sagði að stefnandi hefði ekki gert kröfu um aukagreiðslu á stjórnarfundinum 22. apríl 1998 þegar honum var sagt upp.  Hann sagði að engin venja hefði myndast svo hann vissi til um það að stefnandi skráði yfirvinnustundir sínar og fengi þær síðan greiddar.  Það hefði aldrei komið fram í máli formanns við sig.

Oddný Björg Halldórsdóttir, starfsmaður hjá stefnda, gaf skýrslu fyrir rétti.  Hún sagði m.a. að hún hefði verið starfandi hjá stefnda í árslok 1997 og í byrjun árs 1998.  Hún sagði að stefnandi hefði unnið hálfan daginn fyrir félagið eftir áramótin en áður hefði hann unnið fyrir tvö fyrirtæki.  Honum hefði verið sagt upp í öðru fyrirtækinu þannig að hann hefði síðan verið í 50% vinnu fyrir Ferðaþjónustu bænda hf. og oftast eftir þetta farið af skrifstofunni um hádegisbil.  Hún sagði að starfsmenn Ferðaþjónustu bænda hf. hefðu ekki mátt vinna yfirvinnu nema með leyfi framkvæmdastjóra.  Hún sagði að stefnandi hefði tjáð sér að stjórn félagsins hefði sagt að þau þyrftu að spara og kvaðst hún hafa gert sér ljóst að þau þyrftu að fara vel með fé.  Hún kvað aðspurð sér ekki hafa verið kunnugt um hvernig launakjör stefnanda voru á þessum tíma.

Sigrún Björg Valdimarsdóttir, stjórnarmaður stefnda á árunum 1997 og 1998, gaf skýrslu fyrir rétti.  Hún sagði m.a. að henni hefði ekki verið kunnugt um hvernig greiðslu fyrir eftirvinnu stefnanda hefði verið háttað.  Hún kvaðst ekki treysta sér til að segja um hvort breytingar hefðu orðið á launakjörum stefnanda áramótin 1997/1998.  Hún sagði að samskipti hennar við stefnanda hefðu gengið mjög vel. 

Erla Fanney Ívarsdóttir, sem var í stjórn stefnda m. a. á árinu 1998, gaf skýrslu fyrir rétti.  Hún sagði m.a. að hún hefði átt mjög góð samskipti við stefnanda.  Hún sagði að hlutfallsleg breyting hefði orðið á störfum stefnanda um áramótin 1997/1998.  Frá þeim tíma hafi hann verið í hálfu starfi hjá stefnda.  Hún kvaðst ekki þekkja til með hvaða hætti stefnandi fékk greitt fyrir yfirvinnu.  Hún kvaðst þó hafa vitað að hann þyrfti að vinna yfirvinnu.

Margrét Jóhannsdóttir gaf skýrslu fyrir rétti.  Hún sagði m.a. að hún hefði verið í stjórn stefnda í eitt ár, komið í stjórn á árinu 1997.  Hún kvaðst ekki hafa verið sérstaklega kunnug launakjörum stefnanda á þessu tímabili.

Ingi Tryggvason, stjórnarformaður stefnda á árunum 1993 og 1994, gaf skýrslu fyrir rétti.  Hann sagði m.a. að hann myndi ekki nákvæmlega á hvaða launakjörum stefnandi var á þeim tíma.  Lagt var fyrir Inga dskj. nr. 12, sem er myndrit af launaseðlum stefnanda hjá Ferðaþjónustu bænda hf. fyrir yfirvinnu á árunum 1993 og 1994.  Hann sagði að þetta hafi verið greiðslur fyrir yfirvinnu, sem samkomulag hafi verið um milli hans og framkvæmdastjórans, að yrðu greiddar.  Aðspurður hvort einhver venja hefði myndast um aukagreiðslur til stefnanda sagði Ingi, að þarna hefði verið um samkomulag við stefnanda að ræða í bæði skiptin, að athuguðu máli og fengnum upplýsingum um, hvað á bak við þetta lá.

Lagt var fyrir Inga dskj. nr. 21, sem er myndrit af bréfi nefndar, sem kosin hafði verið á aukafundi stefnda 5. des. 1997 „til að skoða mismunandi leiðir í sambandi við ferðaskrifstofurekstur FB hf. og koma með ábendingar og tillögur til stjórnar FB hf. ..."  Bréfið er dags. 22. janúar 1998, undirritað af Inga o.fl.  Ingi kannaðist við undirskrift sína.  Hann sagði að nefndin hefði gert tillögu um aukin afskipti formanns og stjórnar af daglegum rekstri í þeim tilgangi, að stjórnin hefði nánari vitneskju um allt sem færi fram, þannig að stjórnin yrði betur fær um að taka ákvarðanir.

Aðspurður kvað Ingi sér ekki hafa verið kunnugt um hver launakjör stefnanda voru áramótin 1997/1998.

V.

Niðurstaða:

Stefnandi byggir á því að venja hefði skapast um að hann fengi greiðslu eftir á fyrir unna yfirvinnu í lok starfsárs samkvæmt skrá, sem hann hefði haldið fyrir unnar yfirvinnustundir yfir árið.  Þá byggir stefnandi á því að stjórn stefnda hafi falið honum aukalega að vinna að breytingum á tölvu- og skipulagsmálum félagsins og að skipuleggja nýtt launakerfi.  Af hálfu stefnda er þessu hafnað.  Stefnandi hefur ekki lagt fram gögn er staðfesta staðhæfingar hans með óyggjandi hætti gegn mótmælum stefnda.  Af framburði vitna verður heldur ekki ráðið að stefnandi eigi rétt á þeim greiðslum úr hendi stefnda sem hann fer fram á.

Samkvæmt framangreindu verður ekki fallist á kröfur stefnanda á hendur stefnda.

Rétt er að stefnandi greiði stefnda 100.000 krónur í málskostnað.

Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

DÓMSORÐ:

Stefndi, Ferðaþjónusta bænda hf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Paul Richardson.

Stefnandi greiði stefnda 100.000 krónur í málskostnað.