Hæstiréttur íslands
Mál nr. 483/2002
Lykilorð
- Kærumál
- Fjárslit milli hjóna
- Endurgjald
|
|
Fimmtudaginn 14. nóvember 2002. |
|
Nr. 483/2002. |
K(Brynjar Níelsson hrl.) gegn M (Jón Magnússon hrl.) |
Kærumál. Fjárslit milli hjóna. Endurgjaldskrafa.
Ráðstöfun M á 6.000.000 krónum til þriggja barna sinna á árinu 1998 var ekki talin leiða til verulegrar skerðingar á fjárhlut K við opinber skipti til fjárslita milli hennar og M vegna hjónaskilnaðar, en samtals komu um það bil 42.000.000 króna til skipta. Var kröfu K um að hún fengi 3.000.000 krónur af búshluta M því hafnað, sbr. 2. mgr. 107. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. október 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. október 2002, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að viðurkennt yrði að við opinber skipti til fjárslita milli hennar og varnaraðila vegna hjónaskilnaðar eigi hún rétt á að fá 3.000.000 krónur af búshluta varnaraðila með nánar tilgreindum vöxtum og verðbótum frá 8. september 1998 til skiptaloka. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess að viðurkennt verði að við skiptin eigi hún rétt á að fá áðurnefnda fjárhæð með nánar tilgreindum vöxtum og verðbótum. Hún krefst jafnframt málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur um annað en málskostnað og sér dæmdur málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður.
Varnaraðili hefur ekki kært úrskurð héraðsdómara fyrir sitt leyti. Kemur því þegar af þeirri ástæðu ekki til álita að honum verði dæmdur málskostnaður í héraði.
I.
Samkvæmt gögnum málsins gengu aðilarnir í hjúskap á árinu 1965. Eignuðust þau ekki börn saman, en hvort þeirra átti börn frá fyrra hjónabandi. Aðilar slitu samvistum í ársbyrjun 2001 og leitaði sóknaraðili skilnaðar að borði og sæng fyrir sýslumanninum í Reykjavík 8. október 2001. Með því að samkomulag tókst ekki um fjárskipti milli þeirra leitaði sóknaraðili opinberra skipta til fjárslita með kröfu til Héraðsdóms Reykjavíkur 18. febrúar 2002 með vísan til þess að hún taldi sig eiga endurgjaldskröfu á hendur varnaraðila vegna 6.000.000 króna gjafagernings hans til þriggja barna sinna. Vísaði hún kröfu sinni til stuðnings til 2. mgr. 107. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Með úrskurði 15. mars sama árs féllst héraðsdómari á kröfu sóknaraðila. Við upphaf skipta 19. apríl 2002 bókaði skiptastjóri að sóknaraðili krefðist „að ofangreindar 6.000.000 króna gangi aftur inn í búið.” Ákvað skiptastjóri þá að beina ágreiningnum til úrlausnar héraðsdóms. Var mál þetta þingfest af því tilefni 31. maí 2002. Fyrir héraðsdómi krafðist sóknaraðili þess sem fyrr með vísan til 2. mgr. 107. gr. hjúskaparalaga að hún fengi 3.000.000 krónur af búshluta varnaraðila þar sem hann hafi ráðstafað 6.000.000 krónum til þriggja barna sinna samkvæmt gjafagerningi 30. mars 1999. Varnaraðili mótmælti kröfunni.
Með hinum kærða úrskurði hafnaði héraðsdómari kröfu sóknaraðila á þeirri forsendu að hún hafi öðlast vitneskju um að varnaraðili hafi gefið börnum sínum umrædda fjármuni seinni hluta árs 1998. Því hafi þriggja ára frestur til að hafa uppi kröfuna verið liðinn við upphaf skipta 19. apríl 2002, sbr. 2. mgr. 66. gr. hjúskaparlaga.
II.
Í málinu er ágreiningslaust að varnaraðili ráðstafaði 6.000.000 krónum til þriggja barna sinna 8. september 1998. Deila aðilar um hvort sóknaraðili eigi af þessu tilefni rétt til endurgjalds af hjúskapareign beggja sem svarar til helmings þessarar fjárhæðar við opinber skipti til fjárslita milli þeirra. Beinist krafa sóknaraðila ekki að því að fá ráðstöfuninni hrundið á grundvelli 66. gr. hjúskaparlaga þrátt fyrir framangreinda bókun skiptastjóra. Samkvæmt 2. mgr. 107. gr. laganna getur annað hjóna krafist endurgjalds af hjúskapareign beggja þegar skipti fara fram hafi hitt hjóna rýrt hjúskapareign sína eða sameign hjóna með því að misbeita ráðum yfir hjúskapareigninni eða með öðru óhæfilegu atferli og slíkt hefur leitt til verulegrar skerðingar á fjárhlut þeim sem hitt hjóna á tilkall til. Í málinu liggur fyrir að varnaraðili bar ráðstöfun umræddra fjármuna ekki undir sóknaraðila, en samkvæmt framburði sonar varnaraðila var henni kunnugt um gjöfina síðla árs 1998 og af framburði dóttur hennar verður slíkt hið sama ráðið. Samkvæmt gögnum málsins koma um það bil 42.000.000 krónur til skipta milli aðilanna. Að teknu tilliti til verðlagsbreytinga frá haustmánuðum 1998 fram til þess að sóknaraðili leitaði opinberra skipta hefur ráðstöfunin sem hér um ræðir numið um það bil 15% af heildareignum aðilanna. Í ljósi þessa og umfangs þeirra eigna er til skipta koma verður ekki fallist á með sóknaraðila að ráðstöfunin hafi leitt til verulegrar skerðingar á fjárhlut hennar. Samkvæmt framansögðu verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.
Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. október 2002.
Mál þetta var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 31. maí 2002 og tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 23. september 2002.
Sóknaraðilar eru K.
Varnaraðili er M.
Dómkröfur sóknaraðila eru að viðurkennt verði að sóknaraðili eigi að fá við skipti vegna fjárslita aðila 3.000.000 kr. af búshluta varnaraðila auk vaxta og verðbóta sem sú fjárhæð hefði borið samkvæmt innlánsreikningi [...] frá 8. september 1998 til skiptaloka. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi varnaraðila samkvæmt mati dómsins.
Dómkröfur varnaraðila eru að hafnað verði kröfu sóknaraðila þess efnis að hún eigi að fá 3.000.000 kr. auk vaxta og verðbóta svo sem krafist er af hálfu sóknaraðila þannig að varnaraðili verði alfarið sýknaður af öllum kröfum sóknaraðila. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi sóknaraðila samkvæmt mati dómsins.
Ágreiningur aðila á sér í stuttu máli þann aðdraganda að 8. september 1998 gaf varnaraðili þremur börnum sínum peningafjárhæð, samtals að upphæð 6.000.000 kr.
Upplýst er að aðilar þessa máls gengu í hjónaband á árinu 1965. Á þeim tíma átti sóknaraðili sjö börn frá fyrra hjónabandi en varnaraðili þrjú börn. Ekki eignuðust aðilar börn saman. Þau slitu samvistum í byrjun árs 2001 [...].
Með bréfi lögmanns sóknaraðila, sem móttekið var í Héraðsdómi Reykjavíkur 19. febrúar 2002, krafðist sóknaraðili opinberra skipta til fjárslita aðila, en sóknaraðili hafði 8. október 2001 krafist skilnaðar að borði og sæng hjá sýslumanninum í Reykjavík á grundvelli 33. gr. laga nr. 31/1993 án þess að náðst hefði fullt samkomulag um fjárskipti.
Kveðinn var upp úrskurður í Héraðsdómi Reykjavíkur 15. mars 2002 að opinber skipti skyldu fara fram til fjárslita milli aðila enda var engum mótmælum hreyft við því af hálfu varnaraðila. En í fyrrgreindu bréfi lögmanns sóknaraðila til héraðsdóms segir m.a.:
Ágreiningur aðila hefur snúist um endurgjaldskröfu umbj. míns samkvæmt 2. mgr. 107. gr. hjúskaparlaga ... Umbj. minn hefur ekki fengið umbeðnar upplýsingar um ráðstafanir [M] á hjúskapareignum sínum og því hefur ekki náðst samkomulag um þá kröfu. Telur umbj. minn að hann eigi því ekki annan kost en að óska eftir opinberum skiptum.
Aðilar hafa náð samkomulagi um sölu eigna og skiptingu innbús. Eignir þeirra eru því eingöngu bankainnistæður, húsbréf og eftirstöðvar vegna sölu eigna. Helstu eignir búsins eru eftirfarandi: [samtals 42.216.100 kr.]
Á skiptafundi 19. apríl 2002 var fyrir hönd sóknaraðila krafist þess að sama fjárhæð og varnaraðili gaf börnum sínum 30. mars 1999, þ.e. 6.000.000 kr., yrði endurgreidd af hálfu varnaraðila til búsins, sbr. 107. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Ekki náðist samkomulag um þetta og var ágreiningi vísað til héraðsdóms.
Sóknaraðili byggir á því að varnaraðili hafi skert sameign aðila með ótilhlýðilegum hætti með ráðstöfun á 6.000.000 kr. til barna sinna 30. mars 1999, sbr. 59. gr. og 2. mgr. 107. gr. hjúskaparlaga. Þó að bankareikningur, sem greitt var af til barna varnaraðila, hafi verið á nafni varnaraðila, þá hafi greiðslan leitt til verulegrar skerðingar á fjárhlut sem sóknaraðili eigi tilkall til. Hér hafi raunar verið um sameign aðila að ræða og varnaraðili ráðstafað með þessu hluta af sameiginlegum sparnaði þeirra hjóna í yfir 30 ár. Varnaraðili hafi misbeitt ráðum sínum yfir þessum fjármunum með þessari ráðstöfun án vitundar sóknaraðila. Hann hafi gert þetta þegar halla fór undan fæti í hjónabandinu og fyrirséð að sóknaraðili myndi krefjast skilnaðar. Að auki hafi sóknaraðili átt við talsverð veikindi að stríða á þessum tíma og því átt erfitt með að fylgjast með fjármálum heimilisins.
Varnaraðili byggir á því að hann hafi gefið börnum sínum 6.000.000 kr. með vitund sóknaraðila en sóknaraðili hafi, á þeim tíma sem gjöfin var innt af hendi, ekkert haft við þá ráðstöfun að athuga. Ekki hafi um óhæfilegt atferli verið að ræða eða misbeitingu á ráðum yfir hjúskapareign, heldur hafi varnaraðili eðlilega ákveðið að styrkja börn sín sem og hann hefði gert á þennan hátt, svo sem sóknaraðila hafi verið kunnugt um. Þessi ráðstöfun hafi ekki leitt til verulegrar skerðingar á fjárhluta þeim sem sóknaraðili átti tilkall til. Um hafi verið að ræða 10% af heildareign búsins á þeim tíma, eignum sem að mestum hluta til hafi myndast fyrir atvinnurekstur varnaraðila. Varnaraðili hafi verið í fullum rétti til að ráðstafa hluta af sjálfsaflafé sínu til barna sinna með þessum hætti. Um hafi verið að ræða eðlilega og sanngjarna gjöf eins og á stóð enda hefðu börn varnaraðila aldrei fengið fyrr eða síðar fjárstuðning frá honum eða hann annast uppeldi þeirra og framfærslu, en styrkir hefðu runnið úr búinu um margra ára bil til barna sóknaraðila án þess að varnaraðili hefði gert athugsemdir við það.
Því er mótmælt að bankareikningur sá sem varnaraðili tók umræddar 6.000.000 kr. út af hafi verið sameign hjónanna. Um hafi verið að ræða bankareikning sem að varnaraðili hefði haft með að gera og lagt inn á tekjur sína. Hann hafi stundað sjálfstæðan atvinnurekstur og haft ágætar tekjur. Þannig hafi hann bæði getað greitt fyrir þarfir heimilisins og lagt fyrir umtalsverð fjármuni. Innstæða á bankareikningi þessum hafi því verið hjúskapareign varnaraðila. Þá er því mótmælt að varnaraðili hafi ráðstafað þessum fjármunum þegar halla tók undan fæti í hjónabandinu og fyrirséð að sóknaraðili myndi krefjast skilnaðar. Varnaraðili hafi ekki vitað til þess að sóknaraðili hafi ætlað að krefjast skilnaðar á árinu 1998 og minnist þess ekki að farið hafi verið að halla undan fæti í hjónabandinu á þeim tíma. Þá kannast varnaraðili ekki við að sóknaraðili hafi átt við slík veikindi að stríða á árinu 1998 að hún hafi átt erfitt með að fylgjast með fjármálum heimilisins.
Þá er af hálfu varnaraðila vísað til þess að samkvæmt ákvæðum 66. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 beri að höfða dómsmál innan árs frá því að hinum makanum varð kunnugt um gjöfina og í síðasta lagi innan þriggja ára frá afhendingu gjafar. Sóknaraðila hafi verið kunnugt um gjöfina um það leyti sem hún var innt af hendi, þ.e. 8. september 1998, en þó svo hefði ekki verið þá hefði borið að höfða dómsmál í síðasta lagi fyrir 8. september 2001. Dómsmál það sem hér um ræðir geti ekki talist hafa verið höfðað fyrr en í fyrsta lagi 19. apríl 2002.
A, dóttir sóknaraðila, gaf skýrslu fyrir rétti. Hún sagði m.a. að einhver grunur hefði vaknað síðla árs 1998 um að varnaraðili hafi ráðstafað 6.000.000 kr. til þriggja barna sinna. B bróðir hennar hefði spurt C hvernig á þessu stæði. Hafi C sagt að hann kannaðist ekki við þetta. Þá hefði móðir hennar tjáð henni að hún hefði spurt um þetta nokkru síðar. Hafi móðir hennar verið mjög ósátt við þessa ráðstöfun en hún hafi vitað árið 1998 að varnaraðili hefði ráðstafað 6.000.000 kr.
A sagði að varnaraðili hafi veikst 1997 og hafi verið úrskurðaður „heilabilaður" af lækni. Hún sagði að andleg heilsa móður henni hefði verið „þolanleg".
C, sonur varnaraðila, gaf skýrslu fyrir rétti. Hann sagði m.a. að hann hefði ekkert haft með gerð gjafagernings, sem fram kemur á dskj. nr. 6, að gera. Hann kvaðst í rauninni ekki hafa séð þetta skjal fyrr en núna. Hann kvaðst hins vegar hafa vitað að gerð hans hafi staðið til. Systir hans, D, hefði séð um þetta. Hann sagði að gjöfin hefði verið innt af hendi í september 1998. Hann sagði að K [sóknaraðili] hefði spurt hann um þetta seinna á árinu 1998. Hann hefði tjáð henni að þetta væri mál föður hans, hann hefði ákveðið að gefa þeim þetta.
Aðspurður kvað hann föður sinn alfarið hafa átt frumkvæðið að því að gefa þessa gjöf. Hann sagði að á þessum tíma hafi andleg heilsa föður hans verið með ágætum.
Aðspurður kvaðst hann ekki vita hvort faðir hans hefði gert grein fyrir umræddri gjöf á skattframtölum og sagði að sonur K [sóknaraðila], E, hefði séð um framtöl fyrir þau.
Niðurstaða: Upplýst er í málinu að sóknaraðila var kunnugt seinni hluta árs 1998 að varnaraðili hafði ráðstafað því fé, sem hér um ræðir, úr félagbúi þeirra. Þá þykir ljóst að sóknaraðila hafi verið kunnugt um að varnaraðili hafði gefið börnum sínum þessa peninga.
Samkvæmt 2. mgr. 66. gr. varð sóknaraðili í síðasta lagi innan þriggja ára frá því að hafa öðlast þessa vitneskju að krefjast þess að gjöfinni væri hrundið. Krafa sóknaraðila kom fyrst fram svo staðfest sé á skiptafundi hjá skiptastjóra 19. apríl 2002 og voru þá þrjú ár liðin.
Samkvæmt framangreindu er kröfu sóknaraðila hafnað, en rétt þykir að málskostnaður milli aðila falli niður.
Páll Þorsteinsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ:
Hafnað er kröfum sóknaraðila, K, á hendur varnaraðila, M.
Málskostnaður fellur niður.