Hæstiréttur íslands
Mál nr. 206/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
Þriðjudaginn 17. mars 2015. |
|
|
Nr. 206/2015.
|
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H. B. Snorrason saksóknari) gegn X (Bjarni Hauksson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi áfram sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma Benedikt Bogason hæstaréttardómari og Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. mars 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. mars 2015 þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 18. mars 2015 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. mars 2015.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði X, kt. [...], til að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 20. mars nk. kl. 16.00. Þá er þess krafist að kærða verði gert að sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.
Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu vinni nú að rannsókn alvarlegra brota af hálfu kærða þar sem uppi sé sterkur grunur um tælingu stúlkubarna. Þegar liggi fyrir sterkur grunur um að hann hafi numið tvö stúlkubörn, í sitt hvoru lagi, á brott og farið með þær í íbúð sem hann hafi aðgang að en sé ekki skráð heimili kæra. Í báðum tilvikum sé ætlað að kærði hafi tekið myndir af stúlkunum, m.a. eftir að hafa fengið þær til að fækka fötum. Kærði hafi haldið þeim talsverðan tíma í íbúðinni og fjarri heimili og umráðamönnum.
„007-2015-[...]
Kærði setur sig í samband við brotaþola sem var þá 14 ára, í gegnum Snapchat. Í framhaldi af þeim samskiptum lokkar kærði brotaþola til þess að hitta sig og í framhaldi fer hann með hana í íbúð sem hann hefur einhvern aðgang að án þess að um sé að ræða heimili hans. Þar myndað kærði brotaþola léttklædda í kynferðislegum stellingum, auk þess að taka myndir af rassi hennar eftir að hafa boðið henni 10.000 krónur fyrir slíkt.
007-2015-[...]
Kærði setur sig í samband við brotaþola sem er 13 ára í gegnum snapchat. Í framhaldi af þeim samskiptum lokkar kærði brotaþola til þess að hitta sig og fór með brotaþola í íbúðina sem hann hefur aðgang að. Brotaþoli er þroskahömluð og á einhverfurófi. Hún hvarf að heiman um klukkan 21:00 um kvöld og skilaði sér ekki heim aftur fyrr en rétt fyrir klukkan 01:00 eftir miðnætti. Móðir brotaþola áttaði sig á því að stúlkan var horfin að heiman fyrir klukkan 22:00 og komst að því að stúlkan hafði áður verið í sambandi við einhvern á snapchat. Brotaþoli sagði að maðurinn sem hún var með hefði boðið sér 5.000 kr. fyrir að fá að taka myndir af brjóstum hennar. Móðirin ber að hún hafi verið með 5.000 kr í vasa sínum þegar hún kom heim.“
Þann 6. mars sl. hafi verið gerð húsleit í íbúðinni sem kærði hafi aðgang að í [...] og tölvur og símar haldlagðir, auk fíkniefna og lyfseðilsskyldra lyfja sem kærði sé grunaður um að dreifa. Jafnframt hafi verið gerð leit í bifreiðinni [...], sem sé grár sendlabíll af gerðinni [...], sem kærði kveðist vera umráðamaður yfir.
Við skýrslutöku hjá lögreglu hafi kærði játað að hafa sett sig í samband við stúlkubörnin, sótt þær á bifreið sinni og farið með á dvalarstað sinn. Kærði neiti að hafa brotið gegn þeim kynferðislega en játi að hafa tekið tvær ljósmyndir á síma sinn af annarri stúlkunni full klæddri. Kærði segist hafa tekið myndirnar á síma sem hafi svo orðið ónýtur, en kærði segist hafa skipt um síma fimmtudaginn 5. mars. Kærði segist hafa hent símanum. Kærði hafi neitað að veita lögreglu heimild til að fá aðgang að reikning hans á snapchat til þess að mögulegt væri að kanna samskiptasögu kærða þar. Þá kveði kærði annan mann vera umráðamann [...] á snapchat en kærði hafi komist yfir upplýsingar um notendanafn og lykilorð í partýi. Kærði hafi ekki getað upplýst um hver þessi maður sé. Lögregla hafi ástæðu til að ætla að kærði hafi haft samband við eða reynt að hafa samband við stúlkubörn til þess að lokka til sín.
Þann 7. mars sl. hafi kærði verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til dagsins í dag á grundvelli rannsóknarhagsmuna og hafi sá úrskurður verið staðfestur með dómi Hæstaréttar í máli nr. H. 186/2015.
Fram sé kominn rökstuddur grunur um að kærði hafi framið verknaði sem varði allt að 16 ára fangelsisrefsingu. Lögregla hafi unnið að rannsókn málanna undanfarna daga og liggi fyrir að á þeim tíma hefur ekki tekist að tryggja mikilvæg sönnunargögn, m.a. samskipti kærða við stúlkubörnin, enda sé rannsókn lögreglu á tölvu- og símagögnum mjög umfangsmikil. Jafnframt hafi ekki tekist að opna svokallað ský, sem visti gögn utan tölvunnar. Símar og tölvur stúlkubarnanna hafi verið afritaðir en þær munu hafa eytt nokkru af samskiptasögu sinni við kærða, m.a. vegna orða hans um að „þetta“ væri bara þeirra á milli. Við rannsókn á tölvubúnaði kærða hafi komið í ljós mikið magn af barnaníðsefni og megi leiða líkur að því að áhugi hans á stúlkubörnum sé óeðlilegur. Fram þurfi að fara ítarleg rannsókn á því hvernig þetta barnaníðsefni sé til komið, hvort það sé frá kærða sjálfum og hvort þar sé að finna myndefni af brotaþolum kærða. Að mati lögreglu sé einnig gífurlega mikilvægt að fá svigrúm til að tryggja þau gögn sem kunni að vera á Snapchat reikningi kærða í þágu rannsóknar málsins, auk þess sem ekki sé ólíklegt að kærði hafi sett sig í samband við fleiri stúlkur. Þar sem kærði hafi ekki heimilað lögreglu aðgang að Snapchat reikningi sínum muni það taka lengri tíma en ella að rannsaka samskipti kærða og brotaþola, en báðir brotaþolar hafi sagt samskipti við kærða hafa hafist í gegnum Snapchat.
Með hliðsjón af framangreindu sé ljóst að rannsóknarhagsmunir krefjist þess að kærða verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi. Að mati lögreglu sé ljóst að mikil hætta sé að á því að kærði muni torvelda rannsókn málsins fari hann frjáls ferða sinna, svo sem með því að setja sig í samband við meinta brotaþola eða önnur vitni svo og eyða eða koma undan öðrum sönnunargögnum, þ.e. gögnum sem kunni að vera á Snapchat reikningi hans.
Ætluð brot teljist varða við 193. gr., 1. og 2. mgr. 210. gr. a og 1. mgr. 226. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og a.-liðar 1. mgr. 95. gr. og 2. mgr. 98. gr., sbr. b-liður 1. mgr. 99. gr., laga nr. 88/2008 um meðferð sakamálamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Niðurstaða:
Með vísun til þess, sem að fram hefur verið rakið, er að mati dómsins fyrir hendi rökstuddur grunur um að kærði hafi framið brot sem varðað getur fangelsisrefsingu. Þá kom og fram að hann hafi neitað lögreglu um aðgang að snapchat reikningi sínum. Í þinghaldinu var upplýst að hann hefði veitt aðgang að honum nú fyrir 45 mínútum. Fallist er á með lögreglustjóra að ástæða sé til að ætla að þar kunni að vera upplýsingar um stúlkubörn er hann kann að hafa brotið gegn. Það er því og fallist á að hætta kunni að vera á að kærði torveldi rannsókn málsins með því að hafa samband við vitni er upplýsingar kunna að vera um í þessum gögnum, hafi hann fullt ferðafrelsi. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísun til þess sem að framan er rakið úr greinargerð lögreglustjóra og skv. heimild í a-lið, 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 er fallist á kröfu lögreglustjóra eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Með sömu rökum og hér að framan eru rakin er fallist á að kærði skuli sæta einangrun í gæsluvarðhaldinu samkvæmt 2. mgr. 98. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008.
Arngrímur Ísberg kveður upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kærði, X, kt. [...] sæti áframhaldandi gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 18. mars nk. kl. 16. og skal hann sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.