Hæstiréttur íslands
Mál nr. 16/2013
Lykilorð
- Ómerking
- Heimvísun
- Játningarmál
- Rannsókn
- Aðfinnslur
|
|
Fimmtudaginn 2. maí 2013. |
|
Nr. 16/2013.
|
Ákæruvaldið (Stefanía G. Sæmundsdóttir settur saksóknari) gegn X (Jón Magnússon hrl.) |
Ómerking. Heimvísun. Játningarmál. Rannsókn. Aðfinnslur.
X var ákærður fyrir fíkniefnalagabrot með því að hafa haft í vörslum sínum í sölu- og dreifingarskyni 841 stk. kannabisplöntur og hafa um skeið fram til þess dags ræktað plönturnar, auk þess að hafa í vörslum sínum 1060,5 g af kannabislaufum. Játaði X háttsemina og var því farið með málið í samræmi við ákvæði 1. mgr. 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Var X sakfelldur í héraði á grundvelli játningarinnar og dæmdur í 18 mánaða fangelsi, auk þess sem honum var gert að sæta upptöku á fíkniefnum og munum. Hæstiréttur vísaði til þess að ekki yrði séð að lögregla hefði leitast við að afla frekari gagna til að varpa ljósi á sannleiksgildi játningar X eftir að hún lá fyrir, en dómurinn taldi að ekki yrði séð að neitt annað hefði komið fram við rannsókn málsins sem benti til sektar hans. Hefði lögregla með þessu brugðist þeim skyldum, sem á henni hvíldu samkvæmt 2. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008, en lögreglustjóri mælti ekki fyrir um frekari rannsókn málsins þrátt fyrir það heldur gaf út ákæru á hendur X. Féllst Hæstiréttur ekki á það með héraðsdómi að játning X hefði verið í samræmi við önnur gögn málsins og taldi að ekki hefðu verið efni til að komast að þeirri niðurstöðu að játningin hefði verið trúverðug án frekari sönnunarfærslu fyrir dómi samkvæmt 166. gr. laga nr. 88/2008. Hefðu því brostið lagaskilyrði til að ljúka málinu á þann hátt sem gert var í héraði. Var hinn áfrýjaði dómur ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 7. janúar 2013 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að héraðsdómur verði staðfestur.
Ákærði krefst þess að hann verði dæmdur til vægustu refsingar sem lög leyfa og að hún verði bundin skilorði.
I
Í máli þessu er ákærði sakaður um fíkniefnalagabrot með því að hafa „12. ágúst 2011, í skemmu á [...], [...], haft í vörslum sínum í sölu- og dreifingarskyni 841 stk kannabisplöntur og hafa um skeið fram til þess dags ræktað greindar plöntur.“ Að auki „að hafa í vörslum sínum 1060,5 g af kannabislaufum en fíkniefnin fundust öll í skemmunni.“
Rannsókn málsins hófst 12. ágúst 2011 þegar lögreglumenn fóru í eftirlitsferð að [...] vegna upplýsinga um að þar væri hugsanlega verið að rækta kannabisplöntur. Í ljós kom að sá grunur átti við rök að styðjast þar sem í skemmu, sem stendur við íbúðarhúsið að [...], fundust þær plöntur og lauf sem að framan greinir, auk búnaðar sem notaður hafði verið til ræktunarinnar.
Eigandi íbúðarhússins og skemmunnar, A, var yfirheyrður af lögreglu 16. ágúst 2011. Spurður ítrekað kvaðst hann ekki hafa vitað af þeirri ræktun á kannabisefnum sem fram hafi farið í skemmunni. A skýrði svo frá að maður hafi komið til sín fyrir einu eða einu og hálfu ári og viljað taka skemmuna á leigu, en ekkert orðið af því. Þrátt fyrir að leigusamningur hafi verið gerður sagðist hann ekki muna nafnið á manninum, en taldi hann heita B eða C og vera smið. Hafi maðurinn ætlað að vera með trésmíðaverkstæði í skemmunni. Spurður hvort hann hafi haft aðgang að þeim hluta skemmunnar þar sem ræktunin átti sér stað svaraði A því neitandi. Aðspurður kvaðst hann hafa greitt fyrir rafmagn af [...] og hafi það árlega verið um 120 þúsund krónur af íbúðarhúsnæði og skemmu. Degi áður, 15. ágúst 2011, hafði lögregla tekið skýrslu af D. Sagðist hann aðstoða A með því að gefa hundum sem verið væri að rækta í hluta skemmunnar. Hann kvaðst hins vegar ekkert vita um framleiðslu fíkniefna á staðnum og ekki hafa aðgang að þeim hluta skemmunnar þar sem hún hefði farið fram. Þá gaf E skýrslu hjá lögreglu 7. september 2011. Hún sagðist hafa flutt að [...] í lok júní það ár. Hafi hún veitt því athygli að A og eiginkona hans haft oft komið í skemmuna, stundum á nóttunni, og verið að sýsla þar eitthvað. Einnig hafi komið með þeim Pólverji, sem kallaður væri F, og stundum tveir Pólverjar til viðbótar. Hún hafi ekki séð aðra fara inn í skemmuna.
Hinn 20. september 2011 hafði ákærði samband við lögreglu, að eigin frumkvæði, og viðurkenndi að hann hefði verið að rækta kannabisefnin að [...]. Í skýrslu sem ákærði gaf hjá lögreglu 22. þess mánaðar játaði hann að hafa verið að rækta kannabisefni á þeim stað. Kvaðst hann fyrst hafa lesið um það í Morgunblaðinu að ræktunin hafi uppgötvast. Í framhaldinu hafi honum fundist að fylgst væri með sér og að honum sett kvíða sem hann hafi ekki getað losað sig við nema með því að gefa sig fram. Sagðist ákærði vera í fjárhagsvandræðum vegna íbúðarkaupa sem hann hafi stofnað til í góðærinu, en í byrjun árs 2009 farið að safna sér peningum til að hefja ræktun fíkniefna því að hann hafi „heyrt að það væri góður peningur í“ slíkri ræktun. Ákærði greindi frá því að hann hafi útvegað sér húsnæði gegnum mann sem hann kvað heita G, H eða einhverju öðru nafni sem byrjaði á [...]. Þá hafi hann hitt útlending sem hafi sagt sér að hann hefði reynslu af ræktun fíkniefna. Í framhaldi af því kvaðst ákærði hafa greitt þeim manni 300.000 krónur fyrir að koma upp ræktun fyrir sig og hafi sá maður í félagi við annan mann séð um að koma fyrir ræktunarbúnaðinum. Aðspurður um hvenær ræktunin hafi byrjað sagðist ákærði hafa fengið húsnæðið fyrir um ári og komið hafi verið að fyrstu uppskeru. Hann kvaðst hafa farið þangað á um þriggja daga fresti til að athuga með ræktunina og hvort rafmagnið hefði farið af. Sér hafi fundist skrýtið að enginn hafi verið þarna, en hann hafi reynt að gæta þess að koma í skjóli nætur eða eftir hádegi. Hafi hann talið einhvern vera heima hafi hann læðst í gegnum túnin. Aðspurður kvaðst ákærði hvorki hafa greitt húsaleigu né rafmagn.
Eftir að ákærði gaf skýrslu sína verður ekki séð að lögregla hafi tekið fleiri skýrslur, hvorki af þeim sem áður höfðu verið yfirheyrðir né öðrum. Ekki verður heldur ráðið af gögnum málsins að leitast hafi verið við að afla frekari gagna til að upplýsa málið, til dæmis til að ganga úr skugga um hvort ýmislegt það sem fram kom í fyrrgreindri skýrslu ákærða ætti við rök að styðjast.
Ákæra var gefin út á hendur ákærða af lögreglustjóranum á Suðurnesjum 1. október 2012 og var málið þingfest 6. nóvember sama ár að honum fjarstöddum. Í þinghaldi 14. sama mánaðar var ákærði mættur ásamt lögmanni sem skipaður var verjandi hans. Við þetta tækifæri lagði verjandinn meðal annars fram matsgerð þar sem metnar voru afleiðingar umferðarslyss sem ákærði varð fyrir [...] og taugasálfræðilega athugun á honum frá 29. október 2012. Í þinghaldinu var gerð grein fyrir ákæru og síðan bókað að ákærði viðurkenndi þá háttsemi sem þar kæmi fram, en mótmælti fjölda plantna þar sem misræmi væri milli ákæru og málsskjala lögreglu. Var málinu frestað til 28. nóvember 2012. Í þinghaldi þann dag lagði ákæruvaldið fram upplýsingaskýrslu lögreglu þar sem sagði að fyrri talning hennar á kannabisplöntunum hafi ekki verið rétt og var bókað eftir ákærða að hann vefengdi ekki það sem þar kæmi fram. Að því búnu var orðrétt fært til bókar í þinghaldinu: „Með því að ákærði hefur játað brot sitt skýlaust og dómari telur ekki ástæðu til að draga í efa að játning hans sé sannleikanum samkvæm er ákveðið að fara með málið að hætti 164. gr. laga nr. 88/2008“ um meðferð sakamála. Eftir að sækjandi og verjandi höfðu tjáð sig í stuttu máli um lagaatriði málsins og ákvörðun refsingar var það dómtekið. Hinn áfrýjaði dómur var síðan kveðinn upp 13. desember 2012 og var ákærði þar sakfelldur á grundvelli fyrrgreindrar játningar og dæmdur í 18 mánaða fangelsi.
II
Samkvæmt 2. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008 skulu þeir sem rannsaka mál vinna að því að hið sanna og rétta komi í ljós og gæta jafnt að þeim atriðum sem horfa til sýknu og sektar sakbornings. Skýra verður þessi ákvæði svo að hafi maður játað að hafa gerst sekur um refsiverða háttsemi, án þess að nokkuð annað sé fram komið í málinu er bendi til að hann sé sekur, hvíli sú skylda á lögreglu að ganga úr skugga um hvort sú játning sé sannleikanum samkvæm. Við þær aðstæður er lögreglu skylt að kanna málið frekar í því skyni að upplýsa það, hvort sem þær upplýsingar eru til þess fallnar að skjóta stoðum undir játninguna eða draga úr sannleiksgildi hennar, svo sem með því að rannsaka ítarlega persónulegar aðstæður sakbornings og hugsanlegar hvatir hans til brotsins, sbr. 2. og 3. mgr. 54. gr. laga nr. 88/2008. Ef játning styðst ekki við önnur gögn en framburð sakbornings sjálfs kemur jafnframt til álita að leita eftir atbeina sérfróðs manns á grundvelli 86. gr. laganna til að rannsaka sérstaklega hvort játningin sé trúverðug.
Í máli því sem til úrlausnar er verður ekki séð að lögregla hafi leitast við að afla frekari gagna til að varpa ljósi á sannleiksgildi játningar ákærða eftir að hún lá fyrir, enda þótt ekki verði séð að neitt annað hafi komið fram komið við rannsókn málsins sem benti til að hann væri sekur. Skiptir þá einnig máli hvernig játningu ákærða bar að og hverjar skýringar hann gaf á henni. Þrátt fyrir að lögregla hafi með þessu brugðist þeim skyldum, sem á henni hvíldu og gerð er grein fyrir að framan, mælti lögreglustjóri ekki fyrir um frekari rannsókn málsins þótt ærin ástæða hefði verið til þess, sbr. 2. mgr. 57. gr. laga nr. 88/2008, heldur gaf sem fyrr segir út ákæru á hendur ákærða á grundvelli 152. gr. laganna.
Í forsendum hins áfrýjaða dóms er komist svo að orði að játning ákærða sé í samræmi við önnur gögn málsins. Ef frá er talinn framburður ákærða sjálfs verður ekki séð að önnur gögn bendi til að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök. Þvert á móti er þar að finna atriði sem mæla gegn því, eins og til dæmis verður ráðið af framburði A og E hjá lögreglu sem reifaður er í kafla I, svo og af fyrrgreindri sálfræðilegri athugun á ákærða.
Í 1. mgr. 164. gr. laga nr. 88/2008 er það gert að skilyrði fyrir því að máli verði lokið á þann einfalda hátt sem kveðið er á um í lagagreininni að dómari telji ekki ástæðu til að draga í efa að játning ákærða á sakargiftum sé sannleikanum samkvæm. Eins og að framan greinir á sú staðhæfing í forsendum hins áfrýjaða dóms að játning ákærða sé í samræmi við gögn málsins ekki við rök að styðjast. Af þeim sökum voru ekki efni til að komast að þeirri niðurstöðu að játningin væri trúverðug án þess að fram færi frekari sönnunarfærsla fyrir dómi samkvæmt 166. gr. laga nr. 88/2008, eftir atvikum að frumkvæði dómara, sbr. 2. mgr. 110. gr. þeirra. Samkvæmt því brast lagaskilyrði til að ljúka málinu á þann hátt sem gert var. Er því óhjákvæmilegt að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar.
Samkvæmt þessum málsúrslitum verður allur kostnaður af því í héraði og fyrir Hæstarétti felldur á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans á hvoru dómstigi um sig sem ákveðin eru með virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar.
Allur sakarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða í héraði, Magnúsar Jónssonar héraðsdómslögmanns, 100.400 krónur, og skipaðs verjanda hans fyrir Hæstarétti, Jóns Magnússonar hæstaréttarlögmanns, 251.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 13. desember 2012.
Mál þetta, sem þingfest var 6. nóvember sl. og dómtekið 28. nóvember sl, var höfðað með ákæru lögreglustjórans á Suðurnesjum, dagsettri 1. október 2012, á hendur X, kt. [...], með lögheimili að [...] í [...],
„fyrir fíkniefnalagabrot,
með því að hafa þann 12. ágúst 2011, í skemmu á [...], [...], haft í vörslum sínum í sölu- og dreifingarskyni 841 stk. kannabisplöntur og hafa um skeið fram til þess dags ræktað greindar plöntur. Auk þess að hafa í vörslum sínum 1060,5 g af kannabislaufum en fíkniefnin fundust öll í skemmunni.
Telst þetta varða við 2., sbr. 4., sbr. 4. gr. a, sbr. 5. og 6. gr., laga nr. 65/1974, sbr. lög nr. 60/1980, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 10/1997 og lög nr. 68/2001.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Þá er jafnframt krafist að gerðar verði upptækar framangreindar 841 stk af kannabisplöntum og 1060,5 g af kannabislaufum. Þá er þess jafnframt krafist að gerðir verið upptækir 15 stk. lampar, 43 ljósaperur, rafmagnsofn, vökvunarslanga ásamt garðbyssu, 5 vatnsdælur, 4 viftur og þurrkarabarki sem notuð voru við ræktun kannabisplantnanna, sem lögreglan lagði hald á í skemmunni á [...], [...], við húsleit 12. ágúst 2011, allt samkvæmt heimild í 6. og 7. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974, sbr. lög nr. 10/1997 og 68/2001, sbr. 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.
Ákærði kom fyrir dóminn ásamt skipuðum verjanda sínum og játaði brot sitt fyrir dóminum. Er játning ákærða í samræmi við önnur gögn málsins og verður hann sakfelldur fyrir brot sitt en það er í ákæru rétt fært til refsiákvæða.
Ákærði hefur með háttsemi sinni unnið sér til refsingar. Farið var með málið samkvæmt ákvæðum 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu er sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.
Verjandi ákærða krafðist vægustu refsingar sem lög leyfa og að fangelsisrefsing yrði skilorðsbundin yrði hún dæmd. Kvað verjandi ákærða vera með væga greindarskerðingu og eigi erfitt með að tjá sig og skilja en hann hafi lent í umferðarslysi í [...] og séu það afleiðingar þess. Þá hafi þær plöntur sem fundust á staðnum verið svokallaðar mömmuplöntur og gefi lítið af sér. Þá hafi liðið langur tími frá því að rannsókn málsins var lokið þar til ákæra var gefin út.
Ákærði játaði vörslur og ræktun umræddra efna og verður hann sakfelldur fyrir það. Verður ákærða því gerð refsing fyrir þau brot. Þrátt fyrir að ákærði segist stríða við [...], og verjandi hans telji útilokað að hann hafi getað staðið einn að ræktuninni, þá hefur ekki verið upplýst hver annar gæti hafa komið að henni með honum og þrátt fyrir [...], er ákærði nægjanlega greindur til að standa að slíkri ræktun sem hér hefur sannast í sölu-og dreifingarskyni. Er háttsemi ákærða réttilega heimfærð til refsiákvæða.
Samkvæmt sakavottorði sem liggur frammi í málinu hefur ákærða þrisvar sinnum verið gerð refsing áður frá árinu 2007 til 2011 fyrir brot gegn lögum um ávana-og fíkniefni og einu sinni fyrir fíkniefnaakstur. Brot það sem ákærði hefur verið sakfelldur fyrir nú framdi hann áður en dómur gekk þann [...] en þá var ákærði dæmdur til greiðslu 116.000 króna sektar fyrir brot gegn lögum um ávana-og fíkniefni. Verður ákærða því gerður hegningarauki nú samkvæmt skv. 78. gr. laga nr. 19/1940. Verjandi ákærða krafðist refsilækkunar þar sem langt er liðið frá því að rannsókn málsins lauk þar til að ákæra var gefin út.
Samkvæmt gögnum málsins kom ofangreind ræktun upp þann 12. ágúst 2011 við eftirlit lögreglu. Þann 3. nóvember 2011 gaf ákærði sig fram við lögreglu og kvaðst hafa verið í fjárhagsvandræðum vegna íbúðakaupa sem hann hafi stofnað til í góðærinu. Lýsti hann síðan aðdraganda þess að hann fór út í kannabisræktunina og að aðrir menn hafi útvegað honum tól og tæki til þess en vildi ekki gefa upp hverjir þeir voru. Var ákæra gefin út 1. október 2012. Þrátt fyrir að ellefu mánuðir séu liðnir frá því að ákærði gaf sig fram og þar til ákæra var gefin út, telur dómurinn að sá tími hafi ekki þau áhrif að efni séu til að skilorðsbinda refsinguna að hluta eða öllu leyti. Til þess verður einnig að líta við ákvörðun refsingar að ákærði þurfti að koma sér upp sérútbúnu húsnæði og leggja mikla vinnu í ræktun þeirra plantna sem um ræðir og að auki var ræktunin vel á veg komin og stutt í að ákærði klippti niður 180 plöntur sem voru að verða tilbúnar að hans sögn. Þá var ræktunin mjög umfangsmikil. Í matsgerð kemur fram að magn tetrahúdrókannabínóls í þurru sýni var 82 mg/g, sem samsvarar 49 mg/g í sýninu fyrir þurrkun. Auk þessa hafði ákærði lagt út nokkuð fé að hans sögn til að koma upp búnaðinum. Var hjá ákærða einbeittur ásetningur til að rækta mikið magn og hafa af því mikinn ávinning. Með hliðsjón af alvarleika brotsins, umfangs og einbeitts ásetnings ákærða þykir refsing hæfilega ákveðin fangelsi í átján mánuði. Þrátt fyrir að ákærði hafi gefið sig sjálfviljugur fram og játað greiðlega þykja, með hliðsjón af alvarleika brotsins ekki tilefni til að skilorðsbinda refsinguna.
Ákærði skal sæta upptöku á ofangreindum efnum og tækjum samkvæmt heimild í 6. og 7. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974, sbr. lög nr. 10/1997 og 68/2001, sbr. 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001, eins og í dómsorði segir.
Þá skal ákærði með vísan til 218. gr. laga nr. 88/2008 greiða allan sakarkostnað, 198.577 krónur, þar með talda þóknun skipaðs verjanda síns, Magnúsar Jónssonar hdl., samtals 100.400 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D ó m s o r ð :
Ákærði, X, kt. [...], með lögheimili að [...], [...], en dvalarstað að [...], [...], skal sæta fangelsi í átján mánuði.
Ákærði skal sæta upptöku á 841 stk. af kannabisplöntum og 1060,5 g af kannabislaufum, 15 lömpum, 43 ljósaperum, rafmagnsofni, vökvunarslöngu ásamt garðbyssu, 5 vatnsdælum, 4 viftum og þurrkarabarka.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, 198.577 krónur, þar með talda þóknun skipaðs verjanda síns, Magnúsar Jónssonar hdl, 100.400 krónur.