Hæstiréttur íslands
Mál nr. 200/2016
Lykilorð
- Fjármálafyrirtæki
- Slit
- Riftun
- Greiðsla
- Skuldabréf
- Kröfuréttur
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir, Karl Axelsson og Viðar Már Matthíasson.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 14. mars 2016. Hann krefst þess að rift verði greiðslu sinni á skuld, sem fram fór með fimm nánar tilgreindum greiðslum til gagnáfrýjanda á tímabilinu frá 21. júlí til 12. september 2008 með samtals 8.474.555,14 evrum og að gagnáfrýjanda verði gert að greiða sér þá fjárhæð með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 16. september 2010 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 12. apríl 2016. Hann krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms um annað en málskostnað en til vara lækkunar á endurgreiðslukröfu aðaláfrýjanda. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Í héraðsdómi er gerð grein fyrir ágreiningsefnum málsins, en svo sem þar segir krefst aðaláfrýjandi, sem áður bar heitið Landsbanki Íslands hf., riftunar á ráðstöfunum sem fólust í kaupum hans á hlutdeildum í skuldabréfum, sem voru með gjalddaga höfuðstóls annars vegar 21. desember 2009 og hins vegar 20. júní 2012. Kaupin fóru fram í þremur tilvikum í júlí, einu í ágúst og einu í september 2008. Eins og greinir í héraðsdómi tók Fjármálaeftirlitið yfir stjórn aðaláfrýjanda 7. október 2008 og var hann síðar tekinn til slita. Frestdagur við slitin er 15. nóvember sama ár og er krafa aðaláfrýjanda um riftun þeirra ráðstafana, sem um ræðir, á því reist að með þeim hafi hann greitt skuld við gagnáfrýjanda á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag. Aðaláfrýjandi reisir kröfu sína um riftun á 134. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og kröfuna um endurgreiðslu á 142. gr. sömu laga. Ágreiningur málsaðila lýtur einkum að því hvort um hafi verið að ræða greiðslu á skuld, sem innt hafi verið af hendi fyrr en eðlilegt var, og hafi svo verið, hvort greiðslan hafi samt virst venjuleg eftir atvikum.
Ágreiningslaust er að gagnáfrýjandi hafði frumkvæði að því að kaupin fóru fram. Hann kveðst hafa gert það fyrir viðskiptamann sinn, sem hann þó geti ekki nafngreint. Hann kom í viðskiptum þessum fram í eigin nafni og verður með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms staðfest sú niðurstaða hans að gagnáfrýjandi sé réttur aðili til varnar í málinu.
Þótt sú skipan sem mælt var fyrir um í útgáfulýsingum vegna skuldabréfanna og samningum aðaláfrýjanda við tilteknar fjármálastofnanir um umsjón með útgáfunni leiði til þess að ekki verði litið svo á að skuldarsamband hafi verið með aðaláfrýjanda og gagnáfrýjanda í skilningi reglna fjármunaréttar þegar kaupin fóru fram, ræður það ekki úrslitum um hvort ákvæði 134. gr. laga nr. 21/1991 verði beitt við úrlausn málsins, sbr. dóm Hæstaréttar 11. maí 2017 í máli nr. 189/2016. Ekki er ágreiningur um að aðaláfrýjandi innti af hendi þær greiðslur sem tilgreindar eru í kröfugerð hans og að þær hafi runnið til gagnáfrýjanda. Greiðslurnar urðu til þess að skuldir aðaláfrýjanda lækkuðu í raun og að sama skapi fékk gagnáfrýjandi fullnustu, sem hann undi við, á þeim kröfum sem hann átti og aðaláfrýjandi skyldi á endanum bera ábyrgð á að hann fengi greiddar. Verður staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að um hafi verið að ræða greiðslu á skuld í skilningi 134. gr. laga nr. 21/1991.
Kaup á þeim hlutdeildum, sem um ræðir, fóru fram í fjórum tilvikum meira en einu ári fyrir gjalddaga höfuðstóls skuldar, sem eins og fyrr greinir var 21. desember 2009, og í einu tilviki tæpum fjórum árum fyrir gjalddaga höfuðstóls skuldar, sem var 20. júní 2012. Áfallnir vextir voru einnig greiddir á sama tíma, hvað sem leið gjalddaga þeirra. Samkvæmt þessu fóru greiðslurnar fram fyrr en eðlilegt var.
Loks greinir málsaðila á um hvort ráðstafanirnar hafi virst venjulegar eftir atvikum í skilningi 134. gr. laga nr. 21/1991 og þeim verði af þeirri ástæðu ekki rift. Leggja verður hlutlægt mat á hvort gagnáfrýjandi hafi sannað að þessu skilyrði sé fullnægt. Eins og gerð er grein fyrir í héraðsdómi var beinlínis um það samið að aðaláfrýjandi gæti keypt hlutdeildir í skuldabréfunum án þess að því væru settar sérstakar skorður. Jafnframt er upplýst að hann keypti slíkar hlutdeildir í eigin skuldabréfum í talsverðum mæli á árunum 2006 til 2008 og að alvanalegt sé að fjármálafyrirtæki kaupi hlutdeildir í skuldabréfum, sem þau hafa gefið út, áður en til gjalddaga þeirra kemur. Samkvæmt þessu verður einnig staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að ráðstafanir þær, sem krafist er riftunar á, hafi virst venjulegar eftir atvikum.
Samkvæmt framansögðu verður, með þeim athugasemdum sem áður greinir en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms, staðfest niðurstaða hans um sýknu gagnáfrýjanda af kröfum aðaláfrýjanda. Jafnframt verður staðfest ákvæði dómsins um málskostnað.
Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er rétt að hvor aðila beri sinn kostnaði af rekstri málsins fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. mars 2016.
Mál þetta, sem höfðað var 23. febrúar 2012, var tekið til dóms 1. mars sl. að lokinni aðalmeðferð. Stefnandi er LBI hf., áður Landsbanki Íslands hf., Austurstræti 16, Reykjavík. Stefndi er LGT Bank in Liechtenstein Ltd., Herrengasse 12, Vadus, Lichtenstein.
Stefnandi krefst þess að staðfest verði með dómi riftun á eftirfarandi greiðslum stefnanda til stefnda vegna skuldabréfa sem gefin voru út af Landsbanka Íslands hf. með auðkennin LI FRN 21/12/09 og með ISIN númer XS 0208211911, með gjalddaga 21. desember 2009:
1. Greiðsla að fjárhæð 914.053 evrur 21. júlí 2008;
2. Greiðsla að fjárhæð 914.197,75 evrur 22. júlí 2008;
3. Greiðsla að fjárhæð 915.355,17 evrur 30. júlí 2008;
4. Greiðsla að fjárhæð 1.863.649,50 evrur 12. september 2008.
Stefnandi krefst þess einnig að staðfest verði með dómi riftun á greiðslu stefnanda til stefnda að fjárhæð 3.867.299,72 sem var greidd 18. ágúst 2008 vegna skuldabréfs með gjalddaga 20. júní 2012 og gefið út af Landsbanka Íslands hf. með auðkennið EMTN 115 FIN og ISIN númer XS0222154691. Jafnframt krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda 8.474.555,72 evrur með dráttarvöxtum samkvæmt 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 16. september 2010 til greiðsludags. Hann krefst einnig málskostnaðar.
Stefndi krefst aðallega sýknu en til vara lækkunar greiðslukröfu stefnanda. Hann krefst einnig málskostnaðar.
Helstu ágreiningsefni og yfirlit málsatvika
Ágreiningur aðila lýtur að heimild stefnanda til að rifta þeim greiðslum stefnda, sem vísað er í í kröfugerð stefnanda, samkvæmt 134. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og krefjast endurgreiðslu á grundvelli 142. gr. laganna. Atvik við útgáfu umræddra skuldabréfa, svo og þeir skilmálar sem um þau giltu, eru óumdeild. Einnig er ekki um það deilt að með fyrrgreindum greiðslum hafi Landsbanki Íslands hf. nýtt sér heimildir í skilmálum sem giltu um bréfin til endurkaupa á þeim, svo sem nánar er rakið síðar. Aðilar deila um hvaða upplýsingar lágu fyrir um stöðu Landsbanka Íslands hf. á þeim tíma sem greiðslurnar fóru fram og hvað stefnda hafi mátt vera ljóst í því sambandi. Þá er fullyrðingu stefnda á þá leið að hann hafi einungis sinnt viðskiptunum á grundvelli milligöngu fyrir þriðja aðila, sem honum sé óheimilt að upplýsa um vegna reglna um bankaleynd í Liechtenstein, mótmælt sem ósannaðri af hálfu stefnanda.
A
Stefnandi starfaði áður sem fjármálastofnun undir heitinu Landsbanki Íslands hf. og tekin var yfir af Fjármálaeftirlitinu 7. október 2008 á grundvelli 100. gr. a. í lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og honum skipuð skilanefnd. Samkvæmt beiðni skilanefndar bankans skipaði Héraðsdómur Reykjavíkur honum slitastjórn þann 29. apríl 2009. Frestdagur við slitameðferð stefnanda er 15. nóvember 2008 samkvæmt III. bráðabirgðaákvæði laga nr. 44/2009 um breytingu á lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.
Í stefnu málsins er lýst lausafjárkreppu á fjármálamörkuðum í heiminum árið 2007 og stöðu Landsbanka Íslands hf. í því samhengi. Segir að staða bankans hafi verið mjög alvarleg þegar leið á árið 2008. Í febrúarmánuði 2008 lækkaði alþjóðlega matsfyrirtækið Moody’s lánshæfiseinkunn Landsbanka Íslands úr Aa3 í A2 og 21. maí þess árs lækkaði Moody’s lánshæfiseinkunn Ríkissjóðs Íslands í Aa1 úr Aaa. Þá var landsmat (e. country ceiling) á bankainnstæður í erlendri mynt lækkað í Aa1 úr Aaa. Einnig hækkaði skuldatryggingarálag Landsbanka Íslands hf. svo og annarra banka á þessum tíma. Í stefnu er bent á að vegna þessara erfiðleika hjá íslenskum fjármálafyrirtækjum, almenns lausafjárskorts og óvissu um stöðu bankanna hafi markaðir fyrir óskráð skuldabréf í íslenskum bönkum ekki verið virkir. Bankarnir sjálfir hafi verið nánast einu kaupendurnir að skuldabréfum þeirra sem ekki voru skráð á skipulegan markað. Af hálfu stefnda hefur þessari fullyrðingu stefnanda verið mótmælt.
Í stefnu málsins er enn fremur vísað til skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um að bankastjóri Landsbanka Íslands hf. hafi talið verulega hættu á því að íslenska bankakerfið myndi falla í lok mars 2008. Þar komi einnig fram vísbendingar um að eigið fé Landsbanka Íslands hf. hafi verið ofmetið þar sem ekki hafi verið dregnir frá því hlutir í bankanum sem aflandsfélög áttu og einnig eigin hlutir sem voru færðir á svokallaðan LI hedge-reikning. Í skýrslunni sé komist að þeirri niðurstöðu að á árinu 2008 og jafnvel fyrr hafi stjórnendur bankans gerst sekir um markaðsmisnotkun með kaupum á eigin hlutabréfum og lánveitingum til kaupa á eigin hlutabréfum. Við aðalmeðferð málsins var í þessu sambandi einnig vísað til dóms Landsdóms í máli nr. 3/2011 og dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 842/2014 af hálfu stefnanda. Af hálfu stefnanda er þessum atvikum ekki mótmælt en þau talin vera þýðingarlaus með hliðsjón af þeim upplýsingum sem stefnda voru aðgengilegar.
Þá er í stefnu rakið fall fjárfestingarbankans Lehman Brothers 15. september 2008, tilkynning ríkisstjórnar Íslands um yfirtöku ríkisins á 75% af hlutafé Glitnis banka hf., útstreymi fjár af svonefndum Icesave-reikningum og tilkynningar Seðlabanka Evrópu um breytingar á skilmálum í svonefndum endurhverfum viðskiptum við Landsbanka Íslands hf. Lyktaði þessari atburðarás með því að Landsbanki Íslands hf. óskaði eftir því að hann yrði tekinn yfir af Fjármálaeftirlitinu 7. október 2008, svo sem áður greinir.
Hinn 16. ágúst 2010 sendi slitastjórn riftunaryfirlýsingu vegna framangreindra greiðslna til stefnda. Í riftunaryfirlýsingunni lýsti slitastjórn stefnanda yfir riftun á framangreindum greiðslum og gerði kröfu um að stefndi, sem móttakandi hinnar ótímabæru greiðslu, skyldi greiða stefnanda 8.474.555,72 evrur. Yfirlýsingu slitastjórnar var andmælt í bréfi lögmanns stefnda á Íslandi til slitastjórnarinnar 30. september 2010.
B
Stefndi er alþjóðlegur banki og verðbréfamiðlari með starfsemi víða um heim en með höfuðstöðvar í Liechtenstein. Samkvæmt greinargerð stefnda fjárfestir hann reglulega í einstökum skuldabréfum, skuldabréfasjóðum og öðrum fjármálagerningum tengdum skuldabréfum, ýmist fyrir eigin reikning eða fyrir hönd viðskiptamanna. Fjárfestingar stefnda í skuldabréfum fyrir hönd viðskiptamanna hans fari yfirleitt fram á grundvelli svokallaðrar einkabankaþjónustu og hafi stefndi þá umboð viðskiptamanna sinna til að fjárfesta fyrir þeirra hönd. Stefndi komi því fram í eigin nafni en hins vegar sé það viðskiptamaðurinn í hverju tilviki sem sé bundinn af viðskiptunum. Þegar svo hátti til séu viðskipti ýmist að fumkvæði viðskiptamannsins sjálfs eða þá að stefndi eigi viðskipti á grundvelli reglu um „bestu framkvæmd“. Viðskipti með þau skuldabréf sem kröfur stefnanda lúti að og ákvörðun um þau, bæði kaup og sala, hafi verið að frumkvæði viðskiptamanns stefnda sem hafi verið fjárfestingarsjóður. Stefndi hafi því selt bréfin vegna fyrirmæla viðskiptamannsins þess efnis. Stefnda sé hins vegar óheimilt að upplýsa um heiti viðskiptamannsins.
Samkvæmt málatilbúnaði stefnda höfðu starfsmenn hans ekki neinar sérstakar upplýsingar um stöðu eða þróun Landsbanka Íslands hf. og var ókunnugt um þá erfiðleika sem steðjuðu að bankanum. Stefndi hefur hins vegar bent á að á þeim tíma sem umrædd viðskipti fóru fram hafi lánshæfiseinkunn bankans verið A2 hjá matsfyrirtækinu Moody’s og A hjá Fitch Ratings. Samkvæmt fyrirliggjandi skýrslu Analytica 16. desember 2011 hafi lánshæfiseinkunn verið BBB- og betri í svonefndum fjárfestingarflokki. Þegar umþrætt viðskipti áttu sér stað hafi fjármálagerningar útgefnir af Landsbanka Íslands hf. því enn verið í fjárfestingarflokki. Einnig hefur stefndi vísað til ýmissa gagna, þ. á m. svonefndra álagsprófana Fjármálaeftirlitsins, þar sem íslensku fjármálakerfi var lýst sem stöðugu.
Af hálfu stefnda er að öðru leyti lögð á það áhersla að upplýsingar um bága stöðu bankans hafi ekki komið fram fyrr en eftir að þau viðskipti urðu sem vísað er til í kröfugerð stefnanda. Samkvæmt þessu hafi markmið stefnda ekki verið að fá skuldir samkvæmt skuldabréfunum greiddar eða losa sig við bréfin af ótta við greiðslufall Landsbankans Íslands hf. Þeir starfsmenn stefnda sem önnuðust sölu skuldabréfanna hafi og ekki vitað betur en að Landsbanki Íslands hf. kæmi aðeins fram sem miðlari í viðskiptum með bréfin, þ.e. að bankinn væri að kaupa bréfin fyrir viðskiptamann sinn.
C
Að því er varðar fyrstu fjórar greiðslurnar sem vísað er til í kröfugerð stefnanda eru helstu málsatvik þau að með útgáfulýsingu 17. desember 2004 bauð Landsbanki Íslands hf. fjárfestum til sölu skuldabréf í flokki sem auðkenndur var LI FRN 21/12/09 með ISIN númer XS0208211911. Skuldabréfin skyldi gefa út á grundvelli umsýslusamninga sem bankinn gerði við Deutsche Bank AG og Deutsche Bank Luxembourg S.A. Samkvæmt útgáfulýsingunni skyldi selja skuldabréf til fjárfesta með áskriftarfyrirkomulagi. Gefa skyldi út heildarbréf (e. Global Note) og það sett til miðlunar í kerfum Euroclear Bank S.A./N.V. Fyrst skyldi gefa út tímabundið bréf (e. Temporary Global Note) 21. desember 2004, en því svo skipt út fyrir varanlegt bréf (e. Permanent Global Note) frá og með 31. janúar 2005. Skuldabréfið (e. Global Note) skyldi fjárfestir fá afhent í samræmi við hlutfall fjárfestingarloforðs hans í heildar-skuldabréfaútgáfunni. Skuldabréfin skyldu vera handhafabréf (e. Bearer Form) og skyldi gefa vaxtamiða (e. Coupons) út samhliða skuldabréfunum. Samkvæmt útgáfulýsingu skyldi skuldabréfaflokkurinn í heild nema 500.000.000 evra. Staðfesting Euroclear eða Clearstream fyrir eignarhaldi fjárfestis skyldi tekin sem sönnun á handhafarétti. Með ákveðnum skilyrðum skyldi vera mögulegt að skipta skuldabréfunum (e. Permanent Global Note) fyrir endanlegt handhafabréf (e. Definitive Notes). Þau bréf skyldi gefa út í 1.000.000 evra einingum. Vaxtagreiðsludagar voru skilgreindir fjórir á ári, þ.e. 21. mars, 21. júní, 21. september og 21. desember. Gjalddagi bréfanna skyldi vera 21. desember 2009.
Í 3. málslið 6. gr. fyrrgreindrar útgáfulýsingar var kveðið á um að útgefandi eða dótturfélög hans gætu hvenær sem er keypt skuldabréf með hvaða hætti sem væri og á hvaða verði sem væri. Þá sagði í málsliðnum að bréf sem keypt væru af útgefanda eða dótturfélögum hans ætti að fella úr gildi. Í sérstökum umsýslusamningi (e. agent agreement) var að finna nánari ákvæði um tilkynningar skuldara til umsýsluaðila vegna bréfa sem fella skyldi úr gildi, sbr. 12. gr. samningsins.
Í framhaldi af birtingu fyrrgreindrar útgáfulýsingar voru skuldabréf gefin út í samræmi við þá skilmála sem áður greinir. Liggur jafnframt fyrir að bréfin voru skráð á markaði í Lúxemborg og Frankfurt. Hins vegar er ekki komið fram hvort og á hvaða gengi viðskipti með bréfin áttu sér stað á þessum mörkuðum.
Ekki er um það deilt að með þeim greiðslum sem vísað er til í kröfugerð stefnanda keypti Landsbanki Íslands hf. skuldabréf samkvæmt umræddri útgáfulýsingu. Kom jafnframt fram við munnlegan flutning málsins að það væri skilningur beggja aðila að þessi kaup hefðu grundvallast á áðurgreindri heimild bankans sem útgefanda samkvæmt 3. málslið 6. gr. útgáfuskilmálanna og hefði því ekki verið um að ræða innlausn bréfanna (e. redemption) samkvæmt skilmálunum. Kaupin fóru fram á grundvelli svonefndra SWIFT-skeyta milli Landsbanka Íslands hf. og stefnda þar sem sá síðarnefndi var tilgreindur sem gagnaðili bankans við viðskiptin. Af hálfu stefnda er á því byggt að hann hafi engu að síður komið fram sem milligönguaðili fyrir hönd raunverulegs eiganda bréfanna sem hann geti ekki upplýst um vegna reglna Liechtenstein um bankaleynd. Greiðslur voru inntar af hendi í gegnum Euroclear Bank með þriggja viðskiptadaga töf. Samkvæmt upplýsingum stefnanda nam verð bréfs að nafnvirði fimm milljónir evra, sem keypt var 13. ágúst 2008, 76,5% af nafnverði, önnur bréf voru keypt á 91% af nafnvirði að undanskildum bréfum sem keypt voru 9. september 2008 og námu 92,01% af nafnvirði.
Af hálfu stefnanda er á því byggt að stefndi hafi átt frumkvæði að viðskiptunum, þ.e. boðið bréfin til sölu. Hins vegar er ekkert komið fram um nánari tildrög þess að bréfin voru boðin Landsbanka Íslands hf. til sölu eða hvernig gengi bréfanna við kaupin var ákveðið. Þá er ekkert komið fram um hvort eða með hvaða hætti Landsbanki Íslands hf. keypti með skipulögðum hætti skuldabréf í umræddum flokki eða öðrum flokkum sem hann hafði gefið út. Við aðalmeðferð málsins var lagður fram listi um kaup bankans á eigin bréfum frá 1. janúar 2006 til 6. október 2008 og koma þar fram rúmlega hálft fjórða hundrað færslna. Samkvæmt listanum námu heildarkaup bankans að nafnvirði samtals 144.049.481.370 krónum en heildarsala 19.985.037.500 krónum.
Samkvæmt bókun stefnanda sem lögð var fram undir meðferð málsins voru umrædd skuldabréf ekki felld niður með formlegum hætti heldur geymd á vörslureikningi bankans hjá Euroclear. Í bókuninni kemur jafnframt fram að útistandandi fjárhæð viðkomandi skuldabréfaútgáfu hafi verið lækkuð að tiltölu í bókum bankans. Þessu er mótmælt af hálfu stefnda.
D
Að því er varðar fimmtu greiðsluna sem talin er upp í kröfugerð stefnanda eru helstu atvik þau að 8. júní 2005 gaf Landsbanki Íslands hf. út skuldabréf með breytilegum vöxtum (e. Floating Rate Note (FRN)) að heildarnafnvirði 300.000.000 evra samkvæmt svonefndum EMTN-rammasamningi (e. Euro Medium Term Note Programme). Útgáfan grundvallaðist á útboðslýsingu 15. maí 2001 en nánari skilmálar komu fram í útgáfulýsingu 8. júní 2005, sem Royal Bank of Scotland annaðist. Flokkurinn fékk raðnúmerið 115 og voru bréfin auðkennd sem „EMTN 115 FIN“ með ISIN númerið XS0222154691. Útgáfan var skráð í Lúxemborg en skuldabréfin voru með breytilegum vöxtum tengdum þriggja mánaða EURIBOR og vaxtaálagi 0,20%. Vaxtagjalddagar voru fjórir á ári og gjalddagi höfuðstóls 20. júní 2012.
Atvik við kaup Landsbanka Íslands hf. á bréfunum sumarið 2008 eru sambærileg við það sem áður greinir um kaup á áðurgreindum „LI FRN 21/12/09-bréfum“. Er þannig ekki um það deilt að bankinn keypti bréfin á grundvelli SWIFT-skeytasendinga við stefnda með þeirri greiðslu sem vísað er til í kröfugerð stefnanda. Er einnig ágreiningslaust að kaupin grundvölluðust á sambærilegri heimild útgefanda, og dótturfélaga hans, til kaupa á eigin bréfum eins og áður greinir, sbr. i-lið 8. gr. útgáfulýsingarinnar 8. júní 2005. Liggur einnig fyrir að bréfin voru ekki formlega felld úr gildi heldur geymd á fjárvörslureikningi Landsbanka Íslands hf. hjá Euroclear. Líkt og áður greinir um fyrri greiðslur er á því byggt af hálfu stefnda að hann hafi ekki verið raunverulegur eigandi bréfanna og einungis komið fram við viðskiptin sem milligönguaðili.
Ekki var um að ræða munnlegar skýrslur við aðalmeðferð málsins.
Helstu málsástæður og lagarök stefnanda
Krafa stefnanda um að staðfest verði riftun á greiðslum sem Landsbanki Íslands hf. innti af hendi til stefnda vegna kaupa bankans á eigin skuldabréfum er byggð á 134. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 og krafa um greiðslu úr hendi stefnda er byggð á 142. gr. laganna, sbr. 4. mgr. 103. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002.
Dómkröfur stefnanda byggja á því að skilyrði 134. gr. laga um gjaldþrotaskipti fyrir riftun séu uppfyllt þar sem greiðslurnar fólu í sér greiðslu á skuld stefnanda við stefnda þar sem réttindi og skyldur samkvæmt skuldabréfunum fóru á eina hendi og féll krafan þar með niður, Landsbanki Íslands hf. hafi með framangreindum greiðslum til stefnda greitt skuld við hann fyrr en eðlilegt var þar sem skuldabréfakröfurnar voru greiddar áður en kom að gjalddaga þeirra og þær greiðslur hafi ekki getað talist venjulegar eftir atvikum með vísan til slæmrar fjárhagslegrar stöðu Landsbanka Íslands hf. og opinberra upplýsinga um þá slæmu stöðu þegar greiðslurnar fóru fram.
Kröfu stefnanda er beint að stefnda með vísan til 142. gr. laga um gjaldþrotaskipti þar eð fyrirliggjandi gögn sýni að hann hafi verið eigandi krafnanna og jafnframt viðtakandi greiðslnanna.
Stefnandi byggir á því að málsatvik þau sem eru lögð til grundvallar í stefnu málsins teljist sönnuð með vísan til gagna málsins en einnig er vísað til dóms Landsdóms í máli nr. 3/2011 frá 23. apríl 2012 og dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 842/2014 frá 4. febrúar 2016. Þessir dómar hafi fullt sönnunargildi um þau málsatvik sem þar greini, meðal annars slæma fjárhagslega stöðu Landsbanka Íslands hf. og stórfellda markaðsmisnotkun stjórnenda bankans, sbr. 4. mgr. 116. gr. laga um meðferð einkamála.
Stefnandi bendir á að í málatilbúnaði stefnda sé fullyrt að viðskiptin með skuldabréfin og ákvörðun um þau, bæði kaup og sala, hafi verið að frumkvæði óþekkts þriðja aðila, viðskiptamanns stefnda. Engin gögn hafi verið lögð fram sem sanni tilvist eða eðli þessa viðskiptasambands. Möguleg aðkoma þriðja aðila að þessum viðskiptum sé með öllu ósönnuð og af því beri stefndi hallann. Leggja beri til grundvallar, með vísan til 45. gr. laga nr. 91/1991, að stefndi hafi haft allar viðeigandi upplýsingar um slæma fjárhagslega stöðu stefnanda, sem voru á allra vitorði og lágu fyrir í hlutlægum og opinberum gögnum þegar greiðslurnar fóru fram, og hafi haft frumkvæði að viðskiptunum.
Helstu málsástæður og lagarök stefnda
Stefnandi mótmælir því að skilyrði 134. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. séu uppfyllt. Í fyrsta lagi hafi ekki verið um að ræða greiðslu á skuld sem greidd var með óvenjulegum greiðslueyri fyrr en eðlilegt var eða með fjárhæð sem hafi skert greiðslugetu þrotamanns verulega, en um þetta beri stefnandi sönnunarbyrðina. Í öðru lagi, jafnvel þótt eitthvert framangreindra atriða eigi við, hafi greiðslan verið venjuleg eftir atvikum.
Stefndi leggur áherslu á að þeim riftunarheimildum sem felast í 134. gr. laga nr. 21/1991 sé fyrst og fremst ætlað að taka til greiðslna sem eru óvenjulegar í sjálfu sér eða fara fram við óvenjulegar aðstæður. Skýrist heimildin af þeim megintilgangi riftunarreglna laganna að skapa möguleika á að auka jafnræði kröfuhafa við gjaldþrotaskipti og leiðrétta óeðlilegar ráðstafanir. Engu slíku sé til að dreifa í þessu máli.
Stefndi vísar til þess að greiðslan, sem bankinn greiddi stefnda, hafi verið innt af hendi til kaupa á skuldabréfum. Það hafi verið megintilgangur bankans að eignast skuldabréfin, ekki að greiða skuld sína við stefnda. Viðskipti aðila með skuldabréfin hafi þess vegna verið staðgreiðsluviðskipti með verðbréf. Stefndi hafi framselt bankanum skuldabréfin og fengið í staðinn greiðslu samkvæmt markaðsverði. Hafi þetta verið venjubundin skuldabréfaviðskipti á markaði, en kaup útgefanda á eigin skuldabréfum séu alþekkt. Sé með því stuðlað að hærra virði skuldabréfaflokks við endursölu og einnig hærra verði í næstu skuldabréfaútgáfu útgefanda og aðgangur að fjármagns- og lánsfjármörkuðum opnaður frekar. Uppkaup Landsbankans á skuldabréfum hafi því verið hefðbundin ráðstöfun til að undirbúa næstu skuldabréfaútgáfu. Kaup á bréfunum hafi af þessari ástæðu verið sjálfsögð og eðlileg. Sú málsástæða stefnanda að í kaupum bankans á skuldabréfunum hafi falist greiðsla á skuld sé einnig í andstöðu við önnur viðskipti aðila með skuldabréf útgefin af hinum stóru viðskiptabönkunum. Rennir þetta frekari stoðum undir þá staðreynd að einfaldlega hafi verið um að að ræða venjubundin viðskipti með skuldabréf.
Verði ekki fallist á framangreinda málsástæðu, og litið svo á að í kaupum Landsbankans á bréfunum hafi falist greiðsla á skuld, er á því byggt að greiðslan hafi ekki farið fram fyrr en eðlilegt var. Skortir þess vegna það skilyrði að greiðslan hafi verið óvenjuleg. Er í þessu sambandi vísað til kaupheimildar útgefanda í skilmálum útgáfulýsingar bréfanna, sem áður greinir. Í þessu sambandi er jafnframt áréttað að skuldabréfin hafi verið seld með afföllum. Stefnandi hafi þess vegna hagnast á því að greiða skuldina samkvæmt skuldabréfunum fyrr. Hafi þess vegna verið eðlilegt að greiða skuldina á þessum tíma. Auk þess bendir stefndi á að engu vanefndatilviki samkvæmt skilmálum skuldabréfanna (e. event of default) hafi verið til að dreifa. Vanefndir eða fyrirsjáanlegar vanefndir hafi því engan þátt átt í sölu skuldabréfanna.
Stefndi kveður að samkvæmt því sem að framan er rakið hafi greiðslur bankans á skuldabréfunum í öllu falli verið venjulegar eftir atvikum. Megi hér miða við að greiðslurnar hefðu farið fram á sama tíma og með sama hætti þótt fjárhagsvandræði skuldara hefðu ekki komið til. Stefndi leggur áherslu á að viðskipti aðila hafi verið hefðbundin og í samræmi við það sem almennt tíðkast í skuldabréfaviðskiptum. Í þessu tilliti telur hann einnig ástæðu til að taka fram að skuldabréfin hafi verið rétthærri (e. senior) en hefðbundin skuldabréf og notið ákveðins forgangs. Ekki sé því um að ræða kaup bankans á undirmálslánum (e. subordinated) sem hefðu orðið eftirstæð krafa við slit bankans.
Jafnframt bendir stefndi á að hlutlægt séð hafi aðstæður eða atvik ekki gefið honum tilefni til að ætla að kaup stefnanda á skuldabréfunum væru óvenjuleg. Skuldatryggingarálag og lánshæfiseinkunn hafi verið í góðu horfi hjá bankanum þegar viðskiptin áttu sér stað og verið svo allt fram í október 2008. Stefndi hafi ekki getað vitað um fjárhagsörðugleika Landsbanka Íslands hf. á þeim tíma sem viðskiptin áttu sér stað. Þá er vísað til þess að markaðsgengi hafi verið á bréfunum á þeim tíma sem þau voru seld og hafi viðskiptin miðast við það gengi í öllum tilvikum. Viðskipti sem eiga sér stað á frjálsum markaði og það á markaðsverði, eða nálægt því, hljóti að teljast venjuleg eftir atvikum.
Stefndi mótmælir því að starfsmönnum hans hafi mátt vera ljóst að áhættan var að aukast vegna krafna á hendur Landsbanka Íslands hf. Þeir miðlarar stefnda sem sáu um viðskiptin hafi ekki vitað hvort bankinn væri að kaupa bréfin til að fella niður skuldbindinguna til endursölu þeirra eða fyrir viðskiptamann sinn. Þá hafi fjárhagsstaða bankans virst traust samkvæmt þeim mælikvörðum sem þeir áttu kost á að styðjast við. Er um þetta vísað til upplýsinga um bankann í skilmálum skuldabréfanna og ársreikninga. Stefndi telur að jafnvel þótt hann hefði kannað fjárhagsstöðu Landsbankans nánar hefði hann ekki haft tilefni til að ætla að fjárhagsstaða Landsbankans væri slæm. Vísar hann í þessu sambandi til ýmissa yfirlýsinga íslenskra ráðamanna, áhættumats og álagsprófana Fjármálaeftirlitsins og þróunar skuldatryggingaálags íslensku bankanna.
Verði talið að í kaupum Landsbankans á skuldabréfunum hafi falist riftanlegar ráðstafanir er engu að síður álitið að sýkna eigi stefnda þar sem kröfu stefnanda sé beint að röngum aðila. Samkvæmt ákvæðum 142. gr. laga nr. 21/1991 skuli sá sem hafði hag af riftanlegri ráðstöfun greiða þrotabúi fé sem svarar til þess sem greiðsla þrotamanns hefur orðið honum að notum. Eins og áður segi hafi stefndi komið fram fyrir hönd viðskiptamanns síns í umþrættum viðskiptum við Landsbankann. Stefndi hafi aðeins haft milligöngu um kaupin. Það hafi því verið viðskiptamaðurinn sem varð bundinn af lögskiptunum en ekki stefndi. Stefndi hafi þess vegna engan hag haft af hinum meintu riftanlegu ráðstöfunum og verði fjárkröfu því ekki beint gegn stefnda.
Lækkunarkrafa stefnda byggist á því að riftunarástæður eigi aðeins við hluta af þeim greiðslum sem hér um ræðir, þ.e. þá greiðslu sem innt var af hendi í september 2008. Mótmæli við vaxtakröfu byggjast á því að stefnandi geti í fyrsta lagi átt rétt á dráttarvöxtum frá höfðun málsins og geti þess utan ekki krafist dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 þar sem krafa hans sé í erlendum gjaldmiðli.
Niðurstaða
Af endurritum SWIFT-skeyta milli starfsmanna Landsbanka Íslands hf. og stefnda vegna fyrrgreindra viðskipta verður ekki annað ráðið en að stefndi hafi verið gagnaðili bankans við viðskiptin. Er og í þessum skeytum eða öðrum gögnum málsins ekki að finna neina vísbendingu eða fyrirvara um að stefndi komi fram fyrir hönd annars aðila við viðskiptin. Þá er ekki annað komið fram en að stefndi hafi verið skráður fyrir bréfunum með þeim hætti sem kveðið var á um í skilmálum þeirra og haft fullan ráðstöfunarrétt yfir þeim sem skráður eigandi. Fullyrðingar stefnda um að hann hafi allt að einu ekki verið raunverulegur eigandi bréfanna og komið fram sem umboðsmaður fyrir hönd annars aðila eru ekki studdar gögnum af neinu tagi. Með hliðsjón af mótmælum stefnanda verður stefndi því að bera hallann af skorti á sönnun um þetta atriði. Er því ekki fallist á að sýkna beri stefnda vegna aðildarskorts samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
A
Aðila greinir hvorki á um að áðurlýst viðskipti hafi átt sér stað né að um hafi verið að ræða kaup Landsbanka Íslands hf. sem útgefanda á eigin bréfum samkvæmt heimild í þeim skilmálum sem giltu um bréfin og áður er gerð grein fyrir. Er óumdeilt að samkvæmt þessum skilmálum var gert ráð fyrir því að bréf, sem keypt yrðu af útgefanda, yrðu felld niður. Hins vegar hefur stefnandi viðurkennt að ekkert umræddra bréfa hafi í reynd verið fellt niður, en bréfin þess í stað vistuð á fjárvörslureikningi Landsbanka Íslands hf. hjá Euroclear. Samkvæmt málatilbúnaði stefnda leiðir þetta til þess að ekki ber að líta á viðskiptin sem greiðslu á skuld samkvæmt 134. gr. laga nr. 21/1991, enda hafi allt eins getað verið um það að ræða að Landsbanki Íslands hf. væri að kaupa bréfin í þeim tilgangi að selja þau áfram.
Á það verður fallist með stefnda að kaup Landsbanka Íslands hf. á umræddum bréfum, sem voru viðskiptabréf ætlað að ganga kaupum og sölum á markaði, hafi ekki sjálfkrafa leitt til þess að þau féllu niður. Gildir þá einu hvort litið er til almennra reglna íslensks réttar, ensks réttar eins og hann hefur verið leiddur í ljós við meðferð málsins, eða nánari ákvæða þeirra skilmála sem giltu um bréfin. Er þá horft til þess að til að bréfin féllu niður þurfti útgefandi að tilkynna umsýsluaðila um kaup sín, sem bar þá að lækka fjárhæð viðkomandi skuldabréfaflokks, sbr. nánari ákvæði 12. gr. fyrrgreinds umsýslusamnings. Þá styður það eindregið þessa niðurstöðu að í málinu er komið fram að umrædd bréf voru í reynd aldrei felld niður heldur geymd á fjárvörslureikningi Landsbanka Íslands hf. hjá Euroclear.
Hvað sem líður formlegu gildi áðurlýstra bréfa, eftir að Landsbanki Íslands hf. hafði keypt þau, liggur fyrir að bankinn var útgefandi bréfanna og skuldari samkvæmt þeim. Var því kröfuréttarsamband á milli aðila á grundvelli bréfanna fyrir hendi við viðskiptin og féll þetta samband niður þegar Landsbanki Íslands hf. keypti bréfin af stefnda. Af fyrrgreindum skilmálum sem giltu um bréfin verður ráðið að lögmætur tilgangur kaupa Landsbanka Íslands hf. á bréfunum hafi ekki getað verið sá að selja bréfin aftur á markaði. Hlaut markmið kaupanna því að vera það að lúka skuld bankans samkvæmt bréfunum og lækka þannig útistandandi fjárhæð skuldabréfaútgáfunnar. Hvað sem líður ágreiningi aðila um hvort skuldastaða Landsbanka Íslands hf. hafi verið leiðrétt sem þessu nam í reikningsskilum bankans verður þannig að jafna þessum ráðstöfunum til greiðslu skuldar í skilningi 134. gr. laga nr. 21/1991, sbr. einnig til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 30. janúar 2014 í máli nr. 545/2013. Liggur þá jafnframt fyrir að greiðsla skuldarinnar fór fram áður en komið var að gjalddaga samkvæmt skilmálum bréfanna.
B
Stefndi byggir varnir sínar á því að umræddar greiðslur hafi virst venjulegar eftir atvikum, sem leiði til þess að riftun eigi ekki að ná fram að ganga, sbr. lokaorð 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991. Samkvæmt dómaframkvæmd er ótvírætt að stefndi ber sönnunarbyrðina fyrir því að umrætt skilyrði eigi við um umræddar greiðslur. Hins vegar verður einnig að líta til þess að markmið 134. gr. laga nr. 21/1991 er að taka til greiðslna sem eru af einhverjum ástæðum óvenjulegar, annað hvort í sjálfu sér eða vegna þess að þær fara fram við óvenjulegar aðstæður, og leiða þannig til mismununar kröfuhafa við gjaldþrotaskipti. Verður því bæði að taka til skoðunar eðli þeirra ráðstafana sem hér var um að ræða og það sem stefnda mátti vera ljóst um aðstæður viðsemjanda síns, Landsbanka Íslands hf.
Að virtum atvikum málsins verður að leggja til grundvallar að umrædd viðskipti hafi farið fram að frumkvæði stefnda, þ.e. að hann hafi boðið bréfin til sölu. Hins vegar er ekkert komið fram um að stefndi hafi haft í huga að bjóða útgefanda bréfanna, Landsbanka Íslands hf., bréfin til sölu í þeim tilgangi að ljúka skuldasambandi þeirra eða fá skuldina greidda fyrir gjalddaga. Verður sú ályktun fremur dregin af þeim takmörkuðu upplýsingum sem fyrir liggja um þennan þátt málsins að bréfin hafi staðið hvaða aðila sem er til kaups.
Samkvæmt gögnum sem stefnandi hefur lagt fram um kaup á eigin bréfum frá 2006 til 2008 keypti Landsbanki Íslands hf. eigin skuldabréf í nokkrum fjölda tilvika á þessu tímabili, meðal annars í þeim skuldabréfaflokkum sem hér um ræðir. Geta umrædd kaup því ekki talist óvenjuleg í þessu ljósi. Þá er áður rakið að beinlínis var gert ráð fyrir því í skilmálum bréfanna að útgefandi keypti þau sjálfur. Frá almennu sjónarmiði gat það því vart talist óeðlilegt að Landsbanki Íslands hf. festi kaup á eigi skuldabréfum. Er og ekkert komið fram um að umrædd skuldabréfakaup Landsbanka Íslands hf. hafi verið ætlað að ívilna stefnda eða tryggja stöðu hans umfram aðra. Þvert á móti verður vart önnur ályktun dregin af gögnum málsins en að bréfin hafi verið keypt á verði sem grundvallaðist á markaðslegum forsendum og gat helgast af viðskiptalegum hagsmunum bankans.
Þótt stefnandi hafi lagt fram gögn um versnandi stöðu Landsbanka Íslands hf. á árinu 2008, svo og vísað til dóms Landsdóms 23. apríl 2012 í máli nr. 3/2011 og dóms Hæstaréttar 4. febrúar 2016 í máli nr. 842/2014 um markaðsmisnotkun stjórnenda bankans, telur dómurinn engar vísbendingar komnar fram um að stefndi hafi grandsamur um raunverulega stöðu bankans, eins og hún hefur síðar verið upplýst, eða yfirvofandi greiðsluþrot hans.
Samkvæmt öllu framangreindu telur dómurinn að starfsmenn stefnda hafi enga ástæðu haft til að ætla að viðskipti stefnda við Landsbanka Íslands hf. væru óeðlileg eða til þess fallin að gera hlut stefnda betri en annarra kröfuhafa bankans. Öllu heldur var hér um að ræða tíðkanlega ráðstöfun sem starfsmenn stefnda máttu með réttu líta á sem eðlilegan þátt í starfsemi viðskiptabanka á borð við stefnanda. Svo sem áður greinir er og ekkert komið fram sem bendir til þess að með greiðslunni hafi stefnandi leitast við að tryggja hagsmuni stefnda umfram hagsmuni annarra kröfuhafa.
Þegar á allt þetta er litið til er það álit dómsins að nægilega hafi verið sýnt fram á að sala stefnda á áðurgreindum bréfum til Landsbanka Íslands hf. hafi virst venjuleg eftir atvikum í skilningi 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991. Verður stefndi því sýknaður af kröfum stefnanda.
Í ljósi atvika málsins og vafaatriða þess verður málskostnaður látinn falla niður.
Af hálfu stefnanda flutti málið Þórir Júlíusson hdl.
Af hálfu stefnda flutti málið Björgvin Halldór Björnsson hdl.
Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp þennan dóm.
D Ó M S O R Ð:
Stefndi, LGT Bank in Liechtenstein Ltd., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, LBI hf.
Málskostnaður fellur niður.