Hæstiréttur íslands

Mál nr. 486/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Farbann


Mánudaginn 11

 

Mánudaginn 11. september 2006.

Nr. 486/2006.

Ríkislögreglustjóri

(Jón H. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

 

Kærumál. Farbann.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X yrði áfram bönnuð för úr landi á grundvelli 110. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. b. lið 1. mgr. 103. gr. sömu laga.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. september 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. september 2006, þar sem varnaraðila var bönnuð för úr landi allt til fimmtudagsins 21. september 2006 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að honum verði einungis gert að setja tryggingu samkvæmt 109. gr. laga nr. 19/1991. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Varnaraðili er grunaður um alvarleg brot gegn 50. gr., sbr. 5. tl. 2. mgr. 52. gr. höfundarlaga nr. 73/1972 og 13. gr., sbr. 26. gr. laga nr. 57/2005 um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins, en brot gegn þessum ákvæðum geta varðað fangelsisrefsingu. Fyrir hendi þykja vera skilyrði til að varnaraðili verði látinn sæta áfram farbanni samkvæmt 110. gr., sbr. b. lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, þann tíma sem ákveðinn var í hinum kærða úrskurði. Má ráða af gögnum málsins að sá tími muni duga til að ljúka rannsókn á hendur varnaraðila og taka ákvörðun um saksókn verði sú raunin. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. september 2006.

Ríkislögreglustjóri hefur krafist þess, með vísan til 110 gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, og b-liðar 1. mgr. 103. gr. sömu laga, að X, [kt.], verði bönnuð brottför af landinu allt til fimmtudagsins 21. september 2006 kl. 16:00.

Í greinargerð ríkislögreglustjóra kemur fram að Efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjórans hafi nú til rannsóknar meint brot kærða á höfundalögum nr. 73/1972 og lögum nr. 57/2005 um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins.

Í þágu rannsóknar málsins sætti kærði farbanni til klukkan 16:00 28. ágúst s.l. og áframhaldandi farbanni til kl. 16:00 7. september s.l., sbr. úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá 20. ágúst og 28. ágúst sl.

Um málsatvik vísast til krafna efnahagsbrotadeildar um leit, handtöku þann 10. ágúst sl. og um farbann þann 20. ágúst og 28. ágúst sl. svo og úrskurða héraðsdóms af því tilefni.

Rannsókn málsins sé vel á veg komin. Tölvurannsókn stendur enn yfir á 250 gígabæta færanlegum gagnamiðli (harður diskur) sem kærði hefur við yfirheyrslur játað að hafa afritað gögn á af netþjóni Y. Við skoðun á efnisyfirliti disksins kom í ljós að um mun fleiri gögn var að ræða en í fyrstu var talið. Rannsókn beinist nú m.a. að nánari greiningu á þeim gögnum sem kærði hefur játað að hafa yfirfært á gagnamiðlinn sem og meðferð þeirra gagna m.t.t. hvort þau hafi síðar verið afrituð. Í tengslum við rannsókn mun efnahagsbrotadeild þurfa að yfirheyra kærða aftur. Nauðsynlegt er því að tryggja nærveru kærða svo ljúka megi rannsókn málsins og taka ákvörðun um hvort af saksókn verði. 

Kærði sé spænskur ríkisborgari. Hann hafi ekki atvinnu á Íslandi og engin þau tengsl við landið sem telja megi að komi í veg fyrir að hann fari af landi brott. Þar sem hætta sé á að kærði geti komið sér undan málsókn, sbr. b-lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 með því að vera ekki tiltækur við rannsókn málsins er því nauðsyn að hefta ferðafrelsi hans eins og 110. gr. laga nr. 19/1990 mælir fyrir um.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er þess krafist að dómari leggi fyrir ákærða að halda sig á Íslandi allt til fimmtudagsins  21. september kl. 16:00.

Kærði er erlendur ríkisborgari, sem grunaður er um verulegt brot á 50. gr. höfundarlaga og 13. gr. laga um eftirlit með óréttmætum viðskiptum og fleira. Ekki verður séð að hann hafi nein tengsl við landið sem séu líkleg til að valda því að hann yfirgefi ekki landið og komi sér ekki undan saksókn. Rannsókn málsins er ekki lokið og ákvörðun um saksókn hefur enn ekki verið tekin. Ber því að verða við kröfu ákæruvaldsins og ákveða með heimild í b-lið 1. mgr. 103. gr. oml. að banna kærða för af landi brott til fimmtudagsins 21. september nk. kl. 16.00.

Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Kærða, X, [kt.], er bönnuð för úr landi allt til fimmtudagsins 21. september 2006, kl. 16:00.