Hæstiréttur íslands

Mál nr. 609/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Réttarfarssekt


Fimmtudaginn 7

 

Fimmtudaginn 7. desember 2006.

Nr. 609/2006.

X

(sjálf)

gegn

B og

C

(Jón Sveinsson hrl.)

 

Kærumál. Réttarfarssekt.

Héraðsdómari úrskurðaði að X skyldi greiða sekt í ríkissjóð fyrir brot á 2. mgr. 9. gr. laga nr. 91/1991 vegna nánar tilgreindra ummæla, sem hún viðhafði í fjölmiðlum um einkamál, sem rekið var fyrir luktum dyrum. Talið var að dómaranum hefði ekki verið það heimilt, sbr. 135. gr. sömu laga, og var úrskurðurinn því felldur úr gildi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. nóvember 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. nóvember 2006, þar sem sóknaraðila var gert að greiða 80.000 krónur í sekt í ríkissjóð. Kæruheimild er í p. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Ekki er heimild til þess að dómari í einkamáli ákveði sekt vegna brots á 2. mgr. 9. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 135. gr. sömu laga. Ætluð brot sóknaraðila sæta rannsókn og ákæru samkvæmt almennum reglum laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Ber því að fella hinn kærða úrskurð úr gildi.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. nóvember 2006.

Mál þetta var höfðað 8. desember 2004.

Stefnandi er A, [heimilisfang].

Stefndu eru B, [heimilisfang] og C, [heimilisfang].

Dómkröfur stefnanda í málinu eru þær að stefndu verði dæmd til að þola að D f. [...], d. [...], verði dæmdur faðir hans.  Þá er krafist málskostnaðar.

Dómkröfur stefndu eru þær að þau verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda og þeim tildæmdur málskostnaður.

Í þinghaldi 31. ágúst 2006 setti lögmaður stefndu fram þá kröfu að dómarinn beiti refsiviðurlögum 2. mgr. 9. gr. einkamálalaga vegna ummæla lögmanns gagnaðila í fjölmiðlum um efnisþætti málsins, þ.e. í DV 2. febrúar 2006 og í Kastljósi Ríkisútvarpsins 31. maí sl. í ljósi þess að þinghöld í máli þessu eru lokuð.

Lögmaður stefnanda óskaði eftir því að fá nákvæmlega tilgreint hvaða ummæli það eru sem eru tilefni til þessarar kröfu stefndu, en lögmaðurinn telur sig ekki hafa sagt meira um málið í fjölmiðlum en lesa megi í dómum Hæstaréttar um málið.

Í þinghaldi 20. september sl. lagði lögmaður stefndu fram dómskjal nr. 26 þar sem tilgreind eru þau ummæli sem krafist er refsingar fyrir.  Lögmaður stefnanda mótmælti þessari kröfu lögmanns stefndu.

Hinn 5. október sl. fór fram munnlegur málflutningur um framangreinda kröfu stefndu.  Lögmaður stefndu gerði þá kröfu að lögmaður stefnanda verði sektaður vegna brots á ákvæði 2. mgr. 9. gr. laga nr. 91/1991 með því að skýra opinberlega frá því sem fram fór í þinghöldum í máli þessu en samkvæmt 2. mgr. 12. gr. barnalaga skuli þinghald í faðernismáli háð fyrir luktum dyrum.  Þá var gerð krafa um málskostnað í þessum þætti málsins.

Lögmaður stefnanda krafðist þess að kröfu stefndu verði hafnað.

Rökstuddu lögmenn aðila kröfur sínar og báru fram málsástæður og lagarök.  Var málið síðan tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi.

Í 2. mgr. 9. gr. laga nr. 91/1991 segir m.a. að óheimilt sé að skýra opinberlega frá því sem gerist í lokuðu þinghaldi án leyfis dómara.  Slík heimild dómara liggur ekki fyrir í máli þessu.  Öll þinghöld málsins hafa verið lokuð.

Umrædd ummæli lögmanns stefnanda birtust annars vegar í DV 2. febrúar 2006 og voru hins vegar viðhöfð í þættinum Kastljós í Ríkisútvarpinu 31. maí sl.

Gerir lögmaður stefnda grein fyrir ummælunum með eftirfarandi hætti: 

Í DV þann 2. febrúar 2006 birtist viðtal við lögmann stefnanda undir fyrirsögninni „[X] vill DNA-rannsókn á [B]“  Í viðtalinu er skýrt frá málavöxtum í dómsmálinu og koma nöfn aðila þar fram.  Stefndi krefst refsingar fyrir eftirfarandi ummæli:

„Vitnin gátu að sjálfsögðu ekki sannað neitt heldur sögðu bara frá því sem þau höfðu heyrt.“ og „Það eru til blóðsýni úr [E] (sic) en nú verðum við að kanna hvort blóðsýni sé til úr [D].  Ef það er ekki til verður að fá það úr afkomendum hans.“

Í Kastljósi Ríkisútvarpsins 31. maí sl. var viðtal við lögmann stefnanda og F, lækni, dóttur stefnanda, í kjölfar dóms Hæstaréttar í málinu nr. 224/2006.  Með dóminum hafnaði Hæstiréttur í annað sinn kröfu stefnanda um mannerfðafræðilega rannsókn.  Í vitalinu segir lögmaður stefnanda m.a.:

„Dómurinn telur öðru sinni, því þetta er nú ekki í fyrsta sinn sem að þessi krafa um mannerfðafræðilega rannsókn kemur til Hæstaréttar.  Hann hafnar því öðru sinni að [A] hafi tekist að sýna nægilega fram á að það hafi verið náið samband milli móður hans og þess manns sem að hann telur föður sinn og dómurinn tekur það sérstaklega fram að orð móður [A] við hann sjáfan séu ekki nægileg.  Meirihlutinn telur líka að það var leitt fram vitni sem að lýsti samtali [D] við móður þess vitnis þannig að þar var nú ekki nema einn  milliliður og það mátti skilja það samtal svo að [D] væri að segja við þessa konu að hann væri faðir [A] en dómurinn telur það heldur ekki nóg.  Hann telur greinilega að það þurfi beinni ummæli við annan en [A] frá [E] um að [D] hafi verið faðir hans.“

Aðspurð um hvort til sé lífssýni úr D svarar lögmaður stefnanda:

„Ja við höfum upplýsingar um að það sé sennilega til en það hefur auðvitað ekki verið hægt að kanna það af því að það hefur ekki ennþá verið samþykkt mannerfðafræðileg rannsókn.  Það sem að [A] er að fara fram á það er það að fá staðfest hvort að [D] hafi verið faðir hans.  Hann hefur orð móður sinnar fyrir því og það vill nú svo til að börn í stöðu [A] að þau hafa venjulega ekki önnur orð heldur en orð mæðra sinna.  Það eru nú sjaldnast vitni af svona nánu sambandi karls og konu og barnið er náttúrulega ekki tilkomið fyrr en eftir á, eftir atburðinn.  Þannig að þegar barn fer í, fyrst vefengingarmál eins og [A] er búinn að gera og fá þar hnekkt faðerni sem sé eiginmanns [E], þar með er staða, hin lagalega staða [A] er sú að hann er ófeðraður.“

Spyrjandi þáttarins setur fram fullyrðingu að úrskurðað hafi verið fyrir dómstólum að G hafi ekki verið kynfaðir A.  Lögmaður stefnanda bregst við á eftirfarandi hátt:

„Nákvæmlega, hann var ekki blóðfaðir hans þannig að [A] er ófeðraður.  Hann er auðvitað bara að reyna að fá úr því skorið hvort að orð móður hans við hann hafi verið rétt.  Hvort að það verði staðfest eða ekki vitum við ekki en hann telur sig eiga, það séu bara hreinlega hans mannréttindi að fá úr þessu skorið og það hefur aldrei neinn annar karlmaður verið nefndur til sögunnar í þessu sambandi.“

Spyrjandi þáttarins spyr í kjölfarið: „Í lífi [E].“

Lögmaður stefnanda svarar: „Nei, aldrei.“

Í lok viðtalsins segir lögmaður stefnanda:

„Það sem er aðalatriðið í þessu máli er auðvitað þessi réttur hvers einstaklings og hvers barns að þekkja foreldra sína og það liggur fyrir að [A] er ekki sonur þess manns sem að hann var upphaflega feðraður til.  Þannig að hann er föðurlaus...Og eins og [F] benti svo réttilega á, þetta er ein af frumþörfum hvers manns það er að þekkja uppruna sinn.  Í öðru sératkvæðinu þá segir Ingibjörg Benediktsdóttir, hæstaréttardómari, það svo ágætlega að það verði að (sic) mjög ríkir hagsmunir sem að koma í veg fyrir það að barn getur fengið, sem sé fái ekki að sanna það sem að hann heldur, það sem það heldur um sinn uppruna.  Og hún bendir á að það sé ekkert í þessu máli sem að hafi bent á það að hagsmunir ættingja hins meinta föður séu ríkari en hagsmunir [A] og ég er algjörlega, hjartanlega, sammála báðum sératkvæðunum og finnst þau bæði mjög góð.  Við hins vegar erum með þennan Hæstaréttardóm sem að meirihlutinn  auðvitað ræður og hann er út af fyrir sig mjög athyglisverður og lögfræðilega er hann mjög athyglisverður.  Hann gerir þar kröfur sem að ég held að ýmsir lögfræðingar þurfi að setjast yfir, því eins og ég segi, ef að orð móður við barn um faðerni duga ekki, hvað þá?  Ég hræðist dálítið að hugsa þá hugsun til enda, því að eins og ég segi og sagði hér í upphafi, börn sem fara af stað í svona mál þau hafa aldrei neitt annað í upphafi heldur en orð móður sinnar og hver veit betur en móðir í hvaða sambandi hún var eða við hvaða menn á getnaðartíma barns síns.  Það vill nú bara svo til að það er enginn nema móðirin sem að veit það.“

Af hálfu lögmanns stefnanda hefur því ekki verið mótmælt að rétt sé eftir lögmanninum haft í þessum viðtölum.

Mál þetta er faðernismál.  Í slíkum málum koma oft á tíðum fram mjög persónulegar upplýsingar og viðkvæmar fyrir þá sem aðild eiga að slíkum málum og aðstandendur þeirra.  Verður að telja að hagsmunir aðila krefjist þess að ekki sé skýrt opinberlega frá aðild að slíkum málum, málavöxtum eða öðru er fram fer í þinghöldum.  Þessir hagsmunir eru verndaðir í 12. gr. barnalaga nr. 76/2003 þar sem segir að þinhöld í faðernismáli skuli há fyrir luktum dyrum svo og í 2. mgr. 9. gr. laga nr. 91/1991 þar sem segir að óheimilt sé að skýra opinberlega frá því sem gerist í lokuðu þinghaldi án heimildar dómara.  Brot gegn þessu ákvæði varðar sektum. 

Í því máli sem hér um ræðir hefur dómari ekki veitt heimild til þess að skýra frá neinu því sem fram hefur farið í þinghöldum í málinu.  Fyrir liggur að viðtal var tekið við lögmann stefnanda í DV þar sem sagt er frá málinu og stöðu þess á þeim tíma.  Eru aðilar sem málinu tengjast nafngreindir.  Eru ummælin rakin hér að framan.  Þá tók lögmaðurinn þátt í viðtali í Kastljósþætti ríkisútvarpsins þar sem fjallað var um mál þetta.  Eru ummæli lögmannsins sem viðhöfð voru í þættinum einnig rakin hér að framan.  Var engum vafa undirorpið í þessari umfjöllun hverjir áttu þar hlut að máli

Telja verður, samkvæmt því sem rakið er hér að framan, að lögmaður stefnanda hafi með ummælum sínum og umfjöllun um mál þetta í þessum tilgreindu fjölmiðlum brotið gegn þagnarskyldu 2. mgr. 9. gr. laga nr. 91/1991. 

Þó að Hæstiréttur Íslands hafi birt á heimasíðu sinni dóma í máli þessu þar sem fjarlægð eru öll persónuauðkenni, víkur það ekki til hliðar þagnarskyldu samkvæmt nefndu ákvæði.

Með hliðsjón af framansögðu verður lögmanni stefnanda, X hrl., gert að greiða 80.000 króna sekt í ríkissjóð.

Ákvörðun málskostnaðar í þessum þætti málsins bíður efnisdóms.

Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Lögmaður stefnanda, X hrl., greiði 80.000 króna sekt í ríkissjóð.

Ákvörðun málskostnaðar í þessum þætti málsins bíður efnisdóms.