Hæstiréttur íslands

Mál nr. 466/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Hæfi dómara


Miðvikudaginn 4. júlí 2012.

Nr. 466/2012.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Björgvin Þorsteinsson hrl.)

Kærumál. Dómarar. Hæfi.

Dómur héraðsdóms í máli ákæruvaldsins gegn X var ómerktur vegna tiltekinna ágalla á meðferð þess. Þegar málið var aftur tekið fyrir í héraði krafðist X þess að þeir dómarar sem dæmt höfðu í málinu vikju sæti. Hæstiréttur hafnaði kröfu X, m.a. með þeim rökstuðningi að fyrir lægi að ný sönnunargögn yrðu færð fram í málinu og að dómararnir væru ekki bundnir af fyrri úrlausn sinni í því. Þá hefði X ekki bent á önnur atvik eða aðstæður sem gætu verið til þess fallnar að draga óhlutdrægni dómaranna með réttu í efa, sbr. g. lið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. júní 2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. júlí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 26. júní 2012, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að héraðsdómararnir Allan V. Magnússon, Arnfríður Einarsdóttir og Arngrímur Ísberg vikju sæti í máli sóknaraðila gegn varnaraðila. Um kæruheimild er vísað til a. liðar 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómarana að víkja sæti í málinu.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Það er meginregla sakamálaréttarfars að héraðsdómari getur leyst efnislega úr máli þótt dómur, sem hann hefur kveðið upp í því, hafi verið ómerktur af æðra dómi, enda er hann ekki bundinn af fyrri úrlausn sinni í málinu, sbr. til dæmis dóm Hæstaréttar í máli nr. 567/2006 sem birtur er í dómasafni réttarins það ár, bls. 4988. Samkvæmt því verður ekki talið að ákvæði g. liðar 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008 standi almennt í vegi fyrir því að héraðsdómari leysi að nýju úr máli þegar þannig háttar til. Undantekning er gerð frá fyrrgreindri meginreglu í 3. mgr. 208. gr. laganna. Þar er svo fyrir mælt að hafi héraðsdómur verið ómerktur fyrir þá sök, að niðurstaða dómara um sönnunargildi munnlegs framburðar kunni að vera röng svo að einhverju skipti um úrslit máls, megi þeir dómarar, sem skipa dóm í málinu við nýja meðferð þess í héraði, ekki vera hinir sömu og áður fóru með það.

Eins og gerð er grein fyrir í hinum kærða úrskurði var héraðsdómur í máli því, sem hér er til úrlausnar, ómerktur af Hæstarétti vegna tiltekinna ágalla á meðferð málsins án þess að það væri gert á þeirri forsendu að niðurstaða héraðsdómara um sönnunargildi munnlegs framburðar kynni að vera röng, sbr. 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008. Vegna þess að undantekningarákvæðið í niðurlagi málsgreinarinnar er bundið við þau tilvik ein, sbr. til dæmis dóm Hæstaréttar 24. maí 2012 í máli nr. 33/2012, er rétt að þeir dómarar, sem kváðu upp fyrrnefndan dóm , skipi dóm við áframhaldandi meðferð málsins í héraði, enda liggur fyrir að ný sönnunargögn verða færð fram í málinu og dómararnir eru sem fyrr segir ekki bundnir af fyrri úrlausn sinni í því. Varnaraðili hefur ekki bent á önnur atvik eða aðstæður, sem geta verið til þess fallnar að draga óhlutdrægni dómaranna þriggja með réttu í efa, sbr. g. lið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008. Þá hefur enginn þeirra úrskurðað varnaraðila í gæsluvarðhald samkvæmt 2. mgr. 95. gr. laganna og ber þeim því ekki að víkja sæti í málinu á grundvelli 2. mgr. 6. gr. þeirra.

Með vísan til þess, sem að framan greinir, verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 26. júní 2012.

Verjandi ákærða hefur krafist þess í þinghaldi 22. júní sl. að dómarar í máli ákæruvaldsins á hendur honum víki sæti. Vísar verjandinn um þetta til ákvæðis 2. mgr. 6. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, sbr. 2. mgr. 95. gr. sömu laga.

Af hálfu ákæruvaldsins er kröfu þessari mótmælt og þess krafist að því verði hafnað að dómarar víki sæti í  máli þessu.

Með dómi héraðsdóms Vesturlands frá 28. mars sl. var ákærði sakfelldur fyrir kynferðisbrot gagnvart dóttur sinni og dæmdur til 4 ára fangelsisvistar.

Málið var dómtekið 22. febrúar 2012 en dómur var kveðinn upp 28. mars eins og áður segir. Voru þá liðnar fimm vikur frá dómtöku málsins og dómur þannig kveðinn upp eftir að fjögurra vikna fresti skv. 184. gr. laga um meðferð sakamála lauk. Í framangreindu þinghaldi andmælti verjandi því að flytja málið þá þegar en að svo búnu fór fram munnleg sókn og vörn að nýju.

Með dómi Hæstaréttar Íslands hinn 7. júní sl. var máli þessu vísað heim í hérað með þeim rökum að verjanda hefði ekki gefist nægjanlegt ráðrúm til að undirbúa sig undir endurflutning málsins svo að gagni gæti komið og eins og til sé ætlast

Þá vísar Hæstiréttur til þess að verjandi hafi í þinghaldinu 28. mars sl. óskað eftir að leggja fram mynddisk með upptöku af því að brotaþoli lýsti yfir að ákærði hafi ekki framið þann verknað, sem hún bar á hann í skýrslu sem hún gaf fyrir dómi í Barnahúsi 30. nóvember 2011, en upptaka þessi virðist hafa verið gerð að kvöldi 27. mars 2012. Hafi að þessu fram komnu verið tilefni til að brotaþoli yrði kvödd fyrir dóm til frekari skýrslugjafar og dómurinn gæfi sakflytjendum eftir atvikum kost á að afla matsgerðar dómkvadds manns um þroska og heilbrigðisástand brotaþolans áður en dómur yrði felldur á málið.

Verjandi hefur nú krafist þess að dómendur víki sæti með því að þeir hafi með dómi sínum frá 28. mars sl. sakfellt ákærða og séu því þau atvik og þær ástæður fyrir hendi að draga megi óhlutdrægni þeirra með réttu í efa sbr. g. lið 1. mgr. 6. gr. Dómendur hafi þegar lagt mat á sönnunargögn í málinu og því séu þeir vanhæfir til frekari meðferðar þess.

Af hálfu ákæruvaldsins er þessar kröfu mótmælt og til þess vísað að í dómi Hæstaréttar sé skýrt afmarkað að þau þrjú atriði sem hér að framan er getið leiði til þess að dómur hafi verið ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar.

NIÐURSTAÐA

Í fyrrnefndum dómi Hæstaréttar frá 7. júní sl. er ekki vikið að sönnunarmati héraðsdóms heldur einungis þeirra þriggja atriða sem að framan greinir, þ.e. að verjanda hafi ekki gefist nægilegt ráðrúm til að undirbúa sig undir endurflutning málsins, nýtt gagn gæfi tilefni til frekari skýrslutöku af brotaþola og sakflytjendum verði eftir atvikum gefinn kostur á að afla matsgerðar dómkvadds manns um þroska og heilbrigðisástand brotaþola.

Í 3. mgr. 208 gr. laga um meðferð sakamála kemur fram sú regla að telji Hæstiréttur líkur á að niðurstaða héraðsdóms um sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi kunni að vera röng svo að einhverju skipti um úrslit máls og vitni eða ákærði sem eiga í hlut hafa ekki gefið skýrslu fyrir Hæstarétti geti rétturinn fellt úr gildi héraðsdóm og meðferð málsins í héraði í þeim mæli að munnleg sönnunarfærsla geti farið þar fram eftir þörfum og leyst verði úr máli á ný. Þá segir að sé héraðsdómur ómerktur samkvæmt þessu skuli þrír dómarar skipa dóm í málinu við nýja meðferð þess í héraði og mega þeir ekki vera hinir sömu og áður fóru með það. Ákvæði þetta á ekki við hér.

Kemur þá til álita hvort ákvæði 6. gr. laganna leiði til þess að dómurum beri að víkja sæti í máli þessu. Ekki er sýnt fram á og því reyndar ekki haldið fram að ákvæði a – f liða 1. mgr. taki til tilviks þessa. Hins vegar telur verjandi að þegar litið sé til þeirrar reglu sem kemur fram í 2. mgr. 6. gr. og g liðar 1. mgr. séu aðstæður hér til þess fallnar að óhlutdrægni dómara verði með réttu dregin í efa.

Á þetta er ekki fallist en fyrir liggur að skýrslutaka af brotaþola fer fram að nýju og eftir atvikum mat dómkvadds manns þannig að ný gögn koma til meðferðar fyrir dóminum sem metin verða eftir almennum reglum laga um meðferð sakamála og ekkert fram komið sem gefur tilefni til að ætla að  það mat verði ekki óhlutdrægt.

Samkvæmt þessu er kröfu verjanda um að dómarar víki sæti í máli þessu hafnað.

Allan Vagn Magnússon héraðsdómari, Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari, Arngrímur Ísberg héraðsdómari kváðu upp þennan héraðsdóm.

ÚRSKURÐARORÐ

Allan V. Magnússon, Arnfríður Einarsdóttir og Arngrímur Ísberg héraðsdómarar víkja ekki sæti í máli þessu.