Hæstiréttur íslands
Mál nr. 128/2003
Lykilorð
- Landskipti
- Lögvarðir hagsmunir
- Frávísun frá héraðsdómi
|
|
Fimmtudaginn 23. október 2003. |
|
Nr. 128/2003. |
Íslenska ríkið (Einar Karl Hallvarðsson hrl.) gegn Sveinberg Laxdal (Karl Axelsson hrl.) |
Landskipti. Lögvarðir hagsmunir. Frávísun máls frá héraðsdómi.
Í hinum áfrýjaða dómi var tekin til greina krafa S um að ógiltur yrði úrskurður ráðuneytis um að hafna endurskoðun tiltekinnar ákvörðunar sýslumanns. Málið hafði eingöngu verið höfðað á hendur Í vegna fyrrgreinds úrskurðar ráðuneytisins, sem æðra stjórnvalds á málskotsstigi innan stjórnsýslunnar. Hafði það því ekki lögvarinna hagsmuna að gæta af niðurstöðu málsins og var aðild þess óþörf. Var þætti áfrýjanda í málinu því vísað sjálfkrafa frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason og Hrafn Bragason.
Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 7. apríl 2003. Hann krefst sýknu af öllum kröfum stefnda og greiðslu málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Málsatvik eru rakin í héraðsdómi. Með honum var vísað sjálfkrafa frá dómi aðalkröfu stefnda um að undirlandskiptagerð 15. október 1982 milli jarðanna Tungu og Túnsbergs annars vegar og Meðalheims hins vegar yrði dæmd ógild. Varakrafa stefnda var hins vegar tekin til greina en hún var um að ógiltur yrði úrskurður dóms- og kirkjumálaráðuneytis 29. mars 1999 um að hafna endurskoðun ákvörðunar sýslumannsins á Akureyri 9. september 1998 um að neita að kveðja yfirlandskiptanefnd til starfa á ný og ljúka landskiptum jarðanna. Var því fallist á þá málsástæðu stefnda að beiðni um yfirlandskiptagerð hefði verið sett fram innan 6 mánaða frá þeim degi er undirlandskipti fóru fram, sbr. 5. gr. landskiptalaga nr. 46/1941. Þannig hafi umrædd beiðni markað málinu áframhaldandi farveg eftir ákvæðum landskiptalaga. Var það niðurstaða dómsins að sýslumanni hafi borið að kveðja yfirlandskiptanefnd til starfa á ný og framkvæma landskipti jarðanna.
Áfrýjanda var eingöngu stefnt vegna úrskurðar dóms- og kirkjumálaráðuneytis en ráðuneytið var samkvæmt framansögðu í þessu tilviki æðra stjórnvald á málskotsstigi innan stjórnsýslunnar, sbr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hann hafði hins vegar ekki lögvarinna hagsmuna að gæta af niðurstöðu málsins. Var aðild hans óþörf. Er ekki heldur nein réttarfarsleg nauðsyn á að gefa áfrýjanda kost á að láta málið til sín taka. Verður þætti hans í málinu því vísað sjálfkrafa frá héraðsdómi.
Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af þessum þætti málsins í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Þætti áfrýjanda, íslenska ríkisins, í máli þessu er vísað sjálfkrafa frá héraðsdómi.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 10. janúar 2003.
Mál þetta, sem dómtekið var þann 13. desember s.l., hefur Sveinberg Laxdal, Túnsbergi, Svalbarðsstrandarhreppi, höfðað hér fyrir dómi gegn Hauki Laxdal Baldvinssyni, Lindasíðu 4, Akureyri, Svalbarðsstrandarhreppi, Ráðhúsinu, Svalbarðsstrandarhreppi, Daníel Daníelssyni, Meðalheimi, Esther Laxdal, Lindasíðu 4, Akureyri, Kjartani Lárussyni, Hólahjalla 4, Kópavogi og íslenska ríkinu, með stefnu birtri 8. febrúar 2002 fyrir stefnda Kjartani, 11. s.m. fyrir stefndu Svalbarðsstrandarhreppi, Esther og Daníel og 22. s.m. fyrir stefnda Hauki. Stefnda íslenska ríkið mætti óstefnt við þingfestingu málsins.
Dómkröfur stefnanda eru aðallega, að undirlandskiptagerð, dags. 15. október 1982, milli jarðanna Tungu og Túnsbergs annars vegar og Meðalheims hins vegar, allra í Svalbarðsstrandarhreppi, verði dæmd ógild.
Til vara krefst stefnandi þess, að ógiltur verði úrskurður dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 29. mars 1999, um að hafna endurskoðun á ákvörðun sýslumannsins á Akureyri frá 9. september 1998 um að synja að kveða yfirlandskiptanefnd til starfa á ný til að ljúka landskiptum milli jarðanna Túnsbergs, Tungu og Meðalheims, og lagt verði fyrir sýslumanninn á Akureyri að skipa yfirlandskiptanefnd til að framkvæma yfirlandskipti milli tilgreindra jarða.
Þá krefst stefnandi málskostnaðar óskipt úr hendi stefndu.
Stefnda íslenska ríkið krefst þess aðallega, að það verði sýknað af aðalkröfu stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar samkvæmt mati dómsins eða framlögðum reikningi.
Til vara gerir stefnda íslenska ríkið tvíþætta kröfu, aðallega að varakröfunni verði vísað frá dómi, en til vara að stefndi verði sýknaður af varakröfu stefnanda.
Í öllum tilfellum gerir stefnda íslenska ríkið kröfu um málskostnað úr hendi stefnanda.
Stefndu Svalbarðsstrandarhreppur, Daníel og Kjartan gera þær kröfur, að þeir verði sýknaðir af kröfum stefnanda og dæmdur málskostnaður úr hans hendi.
Stefndu Haukur og Esther taka undir aðal- og varakröfu stefnanda að því undanskyldu að þau krefjast sýknu af málskostnaðarkröfu hans á hendur þeim. Þá gera stefndu Haukur og Esther kröfu um málskostnað úr hendi stefnanda.
Í máli þessu er annars vegar um það deilt, hvort ógilda beri undirlandskiptagerð frá árinu 1982, en með henni var skipt óskiptu landi jarðanna Tungu, Túnsbergs og Meðalheims. Hins vegar deila aðilar um það, hvort ógilda beri úrskurð dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og leggja fyrir sýslumanninn á Akureyri að kveðja yfirlandskiptanefnd til starfa, en með nefndum úrskurði var staðfest ákvörðun sýslumanns um að hafna beiðni í þá veru.
Málsatvik eru þau, að árið 1973 gaf sýslumaður Þingeyinga út skipunarbréf handa Stefáni Skaptasyni, ráðunaut, til að vera oddamaður nefndar við landskipti milli jarðanna Tungu, Túnsbergs og Meðalheims. Auk oddamanns skipuðu nefndina Kjartan Magnússon og Ingþór Ingimarsson, úttektarmenn Svalbarðsstrandarhrepps.
Fyrsti skiptafundur var haldinn 25. júní 1974. Á fundinum kom upp ágreiningur milli aðila um skiptagrundvöll og túlkun landskiptalaga. Aðilar voru þó sammála um að með hluta Tungu teldist jörðin Túnsberg, 1/3 hluti Tungu. Þáverandi eiganda Tungu, Jóhannes Laxdal, og Jónas Björnsson, þáverandi eiganda Meðalheims, greindi hins vegar á um hvaða land ætti að koma til skipta. Var málinu vísað aftur til sýslumanns til frekari meðferðar, enda lá fyrir að ekki næðist samkomulag um skiptin eða grundvöll þeirra.
Á fundi landskiptanefndar 10. september 1975 féllust aðilar á að til grundvallar skiptunum skyldi leggja land jarðanna Tungu, Túnsbergs og Ásgarðs annars vegar og Meðalheims hins vegar og væri um helmingaskipti að ræða. Landskiptanefnd tók ekki tillit til þessa samkomulags heldur lagði allt land að jöfnu. Mótmælti stefnandi þessari gjörð nefndarinnar. Niðurstaða fundarins varð að lokum sú, að aðilar samþykktu skipti sem byggðust á því að til Meðalheims féll umtalsvert stærra land til heiðarinnar. Voru merkjalínur dregnar inn á uppdrátt og sérstakt skjal, sem undirritað og samþykkt var af aðilum. Oddamanni nefndarinnar var síðan falið að þinglýsa skjalinu.
Fjórum árum síðar, eða þann 13. september 1979, boðaði oddamaður nefndarinnar til nýs skiptafundar. Stefnandi og eigandi Tungu mótmæltu þessari fundarboðun í bréfi til sýslumanns og óskuðu skýringa. Mótmæli nefndra aðila byggðust á því, að landskiptin hefðu verið útkljáð á fundinum 10. september 1975.
Á fundinn 13. september 1979 mættu tveir nýir nefndarmenn í landskiptanefnd, Ólafur Vagnsson og Guðmundur Steindórsson, auk oddamanns, Stefáns Skaptasonar. Þrátt fyrir áðurnefnd mótmæli stefnanda og eiganda Tungu var á fundinum leitast við að ná samkomulagi um skiptagrundvöll. Að samkomulagi varð, að til helmingaskipta skyldu koma lönd jarðanna Meðalheims, Tungu, Túnsbergs, Ásgarðs og Helgafells, að undanskyldum sjö vallardagssláttum, sem getið var um í leiguafsali Guðnýjar Grímsdóttur frá 2. júní 1918, en það land átti að falla óskipt til Tungu.
Landskiptafundi var framhaldið 12. september 1980. Á fundinum kom upp ágreiningur um landamerki á móti Fnjóskdælum og var fundi þá frestað og málinu vísað til sýslumanns. Eftir að niðurstaða hafði fengist um landamerki Fnjóskdæla var skiptafundi framhaldið 15. október 1982. Á þeim fundi voru lögð fram tvö bréf af hálfu stefnanda og stefnda Hauks og var annað þeirra kröfubréf í 14 liðum til landskiptanefndar. Í upphafi fundarins las oddamaður símskeyti, sem honum hafði borist 11. október 1982, frá lögmanni stefnanda og stefnda Hauks. Í skeytinu kom fram yfirlýsing nefndra aðila um að þeir féllu frá skiptagrundvelli þeim er samþykktur hafði verið á fundi landskiptanefndar 13. september 1979. Koma ástæður þessarar yfirlýsingar fram í fundargerð landskiptanefndarfundsins. Jónas Björnsson hafnaði sjónarmiðum stefnanda og stefnda Hauks og vildi að skiptagrundvöllurinn frá 13. september 1979 stæði. Er hér var komið sögu lýsti landskiptanefnd því yfir, að skiptum yrði haldið áfram á grundvelli samkomulagsins frá 13. september 1979. Andmæli aðila voru færð til bókar.
Landskiptanefnd lauk störfum 15. október 1982 og 30. nóvember s.á. var landskiptagerðin send eigendum Tungu og Túnsbergs. Landskiptagerðinni var skotið til yfirlandskiptanefndar með símskeyti 14. apríl 1983 og lauk hún störfum 15. ágúst 1988.
Eigendur Tungu og Túnsbergs höfðuðu síðan dómsmál og kröfðust ógildingar yfirlandskiptagerðarinnar vegna ágalla sem þeir töldu á henni vera. Með dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra, uppkveðnum 10. maí 1996, var yfirlandskiptagerðin frá 15. ágúst 1988 dæmd ógild. Var dómsorðið svohljóðandi: „Yfirlandskiptagerð frá 15. ágúst 1988 milli jarðanna Tungu og Túnsbergs annars vegar og Meðalheims hins vegar, allra í Svalbarðsstrandarhreppi er dæmd ógild.“
Með bréfi, dags. 28. maí 1998, óskaði stefnandi eftir því við sýslumanninn á Akureyri, að hann kveddi yfirlandskiptanefnd til að nýju til að ljúka umræddum landskiptum. Nokkru áður hafði eigandi Meðalheims lagt undirlandskiptagerðina fram til þinglýsingar hjá sýslumannsembættinu og óskað eftir staðfestingu þar til bærra stjórnvalda. Þessu mótmælti stefnandi fyrir sýslumanni, landbúnaðarráðuneyti, hreppsnefnd Svalbarðsstrandarhrepps og jarðanefnd Suður-Þingeyjarsýslu.
Sýslumaður hafnaði beiðni stefnanda með bréfi, dags. 9. september 1998. Vísaði sýslumaður bæði til þess, að frestur til að fara fram á yfirlandskipti væri liðinn og að áðurgreindur dómur héraðsdóms hefði ekki kveðið á um ógildi undirlandskipta-gerðarinnar.
Stefnandi sætti sig ekki við ákvörðun sýslumanns og kærði hana til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins í þeim tilgangi að fá hana úr gildi fellda. Ráðuneytið kvað upp úrskurð í kærumálinu 29. mars 1999 og hafnaði kröfu stefnanda um að fella umrædda ákvörðun sýslumanns úr gildi og kveðja yfirlandskiptanefnd til starfa á ný. Stefnandi höfðaði í kjölfarið mál þetta.
Stefnandi kveðst byggja aðalkröfu sína á því, að af lögum um landskipti nr. 46, 1941 leiði, að hafi undirlandskiptum verið skotið til yfirlandskiptanefndar falli undirlandskiptin í raun úr gildi og sé það verkefni yfirlandskiptanefndar að ráða landskiptunum til lykta. Ef úrlausn yfirlandskiptanefndar sé síðar felld úr gildi með dómi beri nefndinni að taka landskiptin upp aftur. Þessu megi jafna til þeirrar aðstöðu er æðri dómur ómerki dóm héraðsdóms, sem í framhaldinu taki málið fyrir af sjálfsdáðum. Heldur stefnandi því fram að á sýslumanni hvíli við þessar aðstæður ákveðin frumkvæðisskylda, en samkvæmt landskiptalögum beri sýslumanni að vera formaður yfirlandskiptanefndar og stýra mati. Með því sé lögð sú ábyrgð á sýslumann, að fylgja eftir lagalegri meðferð og framkvæmd skipta. Engu breyti þó sýslumaður skipi ólöglærðan mann í sinn stað. Með dómi héraðsdóms hafi verið bent á það sem miður hafi farið við yfirlandskiptin og hafi nefndinni skilyrðislaust borið að leiðrétta þá ágalla.
Stefnandi heldur því fram, að beiðni hans frá 14. apríl 1983 um yfirlandskipti standi, hún hafi aldrei verið afturkölluð. Eftir ógildingu yfirlandskiptagerðarinnar hafi sýslumanni borið að kveðja nefndina aftur til starfa, enda beiðni stefnanda enn til staðar. Sú beiðni hafi verið sett fram innan tilskilinna og lögmætra fresta, sbr. 5. gr. laga nr. 46, 1941.
Með vísan til framangreinds beri því að ógilda undirlandskiptagerðina en hún geti ekki staðið sem löglegur og réttmætur grundvöllur landskipta eftir að henni var skotið til yfirlandskiptanefndar. Undirlandskiptagerðin geti ekki falið í sér lyktir landskipta-málsins.
Að auki byggir stefnandi aðalkröfu sína á því, að undirlandskiptagerðin byggi ekki á löglegum grundvelli. Þeir gallar, sem dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra frá 10. maí 1996 byggi á að hafi verið á yfirlandskiptagerðinni, þ.e. að ekki hafi verið tekið tillit til þeirra landspildna sem seldar höfðu verið eða nýttar og þannig ekki gætt ákvæðis 9. gr. landskiptalaga auk þess sem ekki var gætt að ágreiningi um eignarhlutföll, hafi einnig að hluta verið á undirlandskiptagerðinni. Um síðarnefnda atriðið segi í héraðsdómnum, að slíkt falli ekki undir landskipti skv. 3. mgr. 3. gr. landskiptalaga, en samkvæmt því ákvæði beri að ráða slíkum ágreiningi til lykta með dómi. Undirlandskiptagerðin byggi því ekki á löglegum grundvelli og hana beri því að ógilda.
Þá kveður stefnandi óupplýst hvaða heimild hafi stutt kvaðningu nýrra manna til starfa í landskiptanefnd þeirri, sem tekið hafi til starfa 13. september 1979, eða á hvaða grundvelli nefndin, er síðar lauk við að skipta umræddu landi, tók til starfa. Nefnd þessi hafi enga heimild haft til að skipta landi jarðanna skv. lögum um landskipti. Landskiptum hafi lokið 10. september 1975 og ef ætlunin hafi verið að leiðrétta þau skipti hefðu aðilar þurft að óska eftir endurskiptum eða eftir atvikum að fara fram á framhaldsundirlandskipti.
Ágreiningur hafi verið milli aðila landskiptanna um skiptagrundvöll og hvaða land ætti að koma til skipta. Samkomulag hafi náðst um ákveðin skiptagrundvöll á skiptafundi 13. september 1979, en á fundi þann 15. október 1982 hafi stefnandi og stefndi Haukur afturkallað samþykki sitt fyrir þeim skiptagrundvelli. Ráða megi af fundargerð fundarins, að aðila hafi greint á um hvaða landi ætti að skipta, sem og eignarhlutföll, m.a. um Helgafell. Að svo komnu máli hafi landskiptanefndin átt að vísa ágreiningnum til dómsstóla. Nefndin hafi enga heimild hafi til að ljúka skiptunum. Ágreiningur um eignarrétt eigi ekki undir landskipti heldur dómstóla, sbr. 3. mgr. 3. gr. landskiptalaga. Vettvangur skiptanna hafi því verið rangur, en slíkur annmarki leiði til ógildingar.
Stefnandi heldur því einnig fram, að undirlandskiptanefndin hafi gengið fram hjá öðrum reglum landskiptalaga, sbr. 3., 5. og 9. gr. landskiptalaga. Ekki hafi verið tekið tillit til þeirra landspildna, sem seldar höfðu verið og nýttar, þannig að ekki hafi verið gætt ákvæðis 9. gr. landskiptalaga. Þá hafi ekkert tilliti verið tekið til krafna stefnanda og stefnda Hauks, sem settar hafi verið fram í 14 liðum á skiptafundi 15. október 1982. Nefndin hafi hins vegar einhliða fallist á þann skiptagrundvöll, sem Jónas Björnsson hafi haldið fram. Þar með hafi nefndin verið komin í sæti dómara, en slíkt leiði til ógildingar.
Jafnframt byggir stefnandi á því, að um ákvarðanir og athafnir undirlandskiptanefndarinnar hafi gilt almennar meginreglur stjórnsýsluréttar um málefnalegan undirbúning stjórnsýslugernings. Landskiptagerðin sé stjórnvaldsákvörðun, tekin í skjóli laga nr. 46, 1941. Hún kveði með bindandi hætti á um réttindi og skyldur aðila. Heldur stefnandi því fram, að við landskiptin hafi grundvallarreglna stjórnsýsluréttarins ekki verið gætt.
Í fyrsta lagi hafi rannsóknarreglan verið brotin, en landskiptanefnd hafi brotið gegn þeirri skyldu sinni að upplýsa málið nægjanlega vel, enda hafi nefndin fallist einhliða á sjónarmið annars aðilans. Ekki verði heldur séð að nefndarmenn hafi kannað eða látið meta landgæði þess lands, sem skipta hafi átt, eða tekið tillit til landspildna, sem seldar höfðu verið eða nýttar. Skiptin séu því einnig ósanngjörn þegar tekið sé tillit til landgæða og þeirra spildna, sem þegar höfðu verið seldar eða nýttar.
Í öðru lagi sé skiptagerðin andstæð lögmætisreglunni en megin inntak hennar sé að stjórnvöldum sé óheimilt að skerða lögvarin réttindi borgaranna án skýrrar lagaheimildar. Með skiptagerðinni hafi eignarréttur stefnanda verið skertur en ekki sé heimild til slíkrar skerðingar í lögum nr. 46, 1941.
Í þriðja lagi hafi allir aðilar málsins ekki verið boðaðir á fundi landskiptanefndar, t.a.m. hafi ábúendur Ásgarðs aldrei verið boðaðir. Það fari gegn 5. gr. landskiptalaga.
Varakröfu sína kveður stefnandi byggja á því, að fallist dómurinn ekki á að ógilda undirlandskiptagerðina, eigi stefnandi rétt til yfirlandskipta og að sýslumaðurinn á Akureyri kveðji yfirlandskiptanefnd til að ljúka landskiptum milli jarðanna Tungu, Túnsbergs og Meðalheims, með lögformlega réttum hætti.
Stefnandi kveður ekki unnt að byggja á undirlandskiptagerðinni þar sem henni hafi verið vísað til yfirlandskipta skv. heimild í 5. gr. landskiptalaga nr. 46, 1941 og hafi ætlunin verið að bæta úr helstu göllum undirlandskiptanna. Yfirlandskiptin hafi hins vegar verið ógilt með dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra. Að þeirri niðurstöðu fenginni hafi yfirlandskiptanefnd borið að taka landskiptin upp aftur og við meðferð þeirra hafi nefndinni borið að taka tillit til athugasemda héraðsdóms. Önnur niðurstaða sé ekki tæk og gangi í berhögg við tilgang laga nr. 46, 1941 og ákvæði þeirra um framkvæmd landskipta. Undirlandskiptagerðin sé ekki lengur lyktir landskiptamálsins eftir að henni hefur verið skotið til yfirlandskiptanefndar. Hún geti því ekki verið réttmætur og löglegur grundvöllur landskipta. Nýr frestur til að skjóta undirlandskiptagerð til yfirmats geti því ekki byrjað að líða að nýju við ógildingu yfirlandskipta heldur beri sýslumanni að kveðja yfirlandskiptanefnd aftur til starfa til að ljúka skiptunum.
Stefnandi segir að beðið hafi verið um yfirlandskipti af hálfu stefnanda innan tilskilins frests og hafi sú beiðni aldrei verið afturkölluð. Í ljósi þess, sem og fyrrgreindra röksemda, verði ekki séð, að úrskurður dóms- og kirkjumálaráðuneytisins frá 29. mars 1999 hafi lagastoð. Hann beri því að fella úr gildi og þar með ákvörðun sýslumannsins á Akureyri.
Ákvörðun þess efnis að skipa yfirlandskiptanefnd geti ekki talist íþyngjandi fyrir stefndu. Þrátt fyrir að nýir eigendur séu komnir að þeim jörðum, sem hér eigi í hlut, verði að horfa til þess að stefnandi hafi mótmælt á öllum stigum að farið yrði eftir undirlandskiptagerðinni, þar sem hún gæti ekki talist lögmætur eða réttmætur grundvöllur landskipta. Stefndu hafi því átt að vera um þetta kunnugt, eða a.m.k. mátt vera það kunnugt. Þá hafi viðsemjanda þeirra borið að gera þeim grein fyrir þessu, enda viðkomandi fullkunnugt um afstöðu og mótmæli stefnanda. Stefnandi geti ekki borið ábyrgð á því hvort seljandi landsins hafi uppfyllt upplýsingaskyldu sína að þessu leyti.
Til stuðnings kröfum sínum vísar stefnandi til einkum til laga nr. 46, 1941 um landskipti, einkum 3., 5., 8. og 9. gr. Jafnframt vísar hann til meginreglna stjórnsýsluréttar um málefnalegan undirbúning stjórnsýslugernings, sbr. nú ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37, 1993, einkum 10., 13. og 14. gr., sem og lögmætisreglu stjórnsýsluréttar. Þá vísar stefnandi til 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33, 1944 og einnig til tveggja dóma Hæstaréttar Íslands, dóms frá 1960, bls. 466 og dóms frá 1964, bls. 179.
Stefndu Svalbarðsstrandarhreppur, Daníel og Kjartan segjast byggja sýknukröfu sína á því, að þeir beri ekki ábyrgð á umræddri undirlandskiptagerð. Þá hafi þeir ekkert haft með þá ákvörðun sýslumannsins á Akureyri að gera, að hafna beiðni stefnanda um að yfirlandskiptanefnd verði kvödd til starfa á ný.
Stefndu Svalbarðsstrandarhreppur, Daníel og Kjartan kveðast ekki taka afstöðu til þess, hvort ógilda beri undirlandskiptagerðina frá 15. október 1982, en komi til þess muni þeir að sjálfsögðu taka þátt í nýjum landskiptum.
Halda stefndu Svalbarðsstrandarhreppur, Daníel og Kjartan því fram, að málaferli þessi séu tilkomin vegna rangra aðgerða eða aðgerðarleysis stefnanda, þar sem hann hafi sjálfur getað beðið um skipan nýrrar yfirlandskiptanefndar í kjölfar uppkvaðningar héraðsdóms þann 10. maí 1996 og þá innan þess frests, sem stefnanda greini á um við opinbera aðila. Þá hafi stefnandi einnig átt þess kost í umræddu dómsmáli, að krefjast ógildingar á undirlandskiptagerðinni.
Varakröfu stefnanda kveða stefndu Svalbarðsstrandarhreppur, Daníel og Kjartan eingöngu beinast að stefnda íslenska ríkinu. Þeir séu ekki í aðstöðu til að taka afstöðu til réttmætis úrskurðar ráðuneytisins og af þeirra hálfu séu því engar kröfur gerðar varðandi varakröfuna, aðrar en krafa um málskostnað.
Stefnda íslenska ríkið segir, að í lögum um landskipti nr. 46, 1941 sé gert ráð fyrir að aðilar landskipta séu eigendur landsins og þeir sem nýti sér það, sbr. 1. og 5. gr. laganna. Þessir aðilar geti óskað eftir yfirmati vilji þeir ekki una undirmatinu. Að þessu athuguðu verði ekki séð, að íslenska ríkið geti átt aðild að aðalkröfu stefnanda þar sem hún varði ógildingu undirlandskiptagerðar, sem það hafi ekki verið aðili að. Íslenska ríkið sé ekki eigandi umrædds lands, það nytji ekki landið og hafi því engra hagsmuna að gæta. Sýkna beri því íslenska ríkið af aðalkröfu stefnanda, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91, 1991.
Stefnda íslenska ríkið kveðst telja, að varakrafa stefnanda sé gerð með heimild í 2. mgr. 19. gr. laga nr. 91, 1991, en þar sé að finna heimild til varaaðildar. Skilyrði varaaðildar séu tilgreind í 1. mgr. 19. gr. en þau séu, að dómkröfurnar eigi rætur að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings. Kröfur á hendur aðalstefndu og varastefndu verði því að eiga sameiginlegan uppruna. Í því tilviki sem hér um ræði sé aðstaðan hins vegar ekki þannig. Aðalkrafan hljóði um ógildingu á landskiptagerð en varakrafan um að ógiltur verði úrskurður dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, en með honum hafi verið staðfest sú ákvörðun sýslumannsins á Akureyri, að hafna kröfu stefnadna um að kveðja yfirlandskiptanefnd saman til að framkvæma yfirlandskipti á milli jarðanna Tungu, Túnsbergs og Meðalheims. Því verði ekki séð, að aðalkrafan og varakrafan eigi sameiginlegan uppruna eða að þær séu sprottnar af sama atviki. Það verði ekki talinn sami uppruni þó að stefnandi og grannar hans deili um landamerki jarða sinna. Þá sé augljóst að aðal- og varakröfurnar séu ekki sprotnar af sama atviki því krafist sé ógildingar á tveimur óskyldum stjórnvaldsákvörðunum. Stefnandi sé því að flækja málið með því að stefna stefnda íslenska ríkinu til vara, án þess að skilyrðum 2. mgr. 19. gr. laga nr. 91, 1991 sé fullnægt.
Hvað varakröfu stefnanda varðar byggir stefnda íslenska ríkið að öðru leyti á því, að í lögum nr. 46, 1941 sé að finna reglur um hvernig skipta beri heimalöndum og afréttarlöndum sveitajarða, komi fram beiðni um skipti, sbr. 1. gr. laganna. Samkvæmt 5. gr. sé gert ráð fyrir bæði undir- og yfirlandskiptagerð, en samkvæmt lögunum virðist þessar landskiptagerðir eftir atvikum endanleg skipti milli þeirra, sem aðild eigi að skiptunum. Landskiptum hafi lokið 15. október 1982, en þeirri landskiptagerð hafi verið skotið til yfirmats m.a. af stefnanda. Yfirlandskiptanefnd hafi lokið störfum 15. ágúst 1988, en yfirlandskiptagerðin hafi síðan verið ógilt með dómi uppkveðnum 10. maí 1996. Af stefnu verði helst ráðið að stefnandi telji, að ef óskað sé yfirmats þá falli undirmatið úr gildi. Kveður stefnda íslenska ríkið þessi sjónarmið ekki fá stoð í lögum nr. 46, 1941 eða í almennum reglum stjórnsýsluréttarins. Undirmatið standi þar til það hefur verið fellt úr gildi með dómi og af því leiði, að undirmatið frá 1982 sé gildandi um landskipti milli jarðanna.
Stefnda íslenska ríkið segir, að samkvæmt 5. gr. laga nr. 46, 1941 þurfi að koma til ósk frá þeim, sem krefjist yfirmats, og samkvæmt 1. gr. laganna verði ekki framkvæmd landskipti nema samkvæmt beiðni þeirra sem hagsmuna hafi að gæta, sbr. 1.-3. tl. 1. gr. Frestur til að óska yfirmats sé 6 mánuðir frá lokum undirmats, sbr. 5. gr. i.f. laga nr. 46, 1941. Í héraðsdóminum frá 1996 hafi stefnendur, þ.m.t. stefnandi þessa máls, ekki gert kröfu um annað en að yfirmatið yrði ógilt og hafi dómurinn verið í samræmi við þá kröfugerð. Beiðni stefnanda til sýslumanns um að yfirlandskiptanefndin yrði kvödd til starfa „á ný“ hafi hins vegar fyrst komið fram með bréfi dags. 28. maí 1998. Verði að líta svo á, að við uppkvaðningu héraðsdómsins 10. maí 1996 hafi nýr 6 mánaða frestur skv. 5. gr. i.f. laga nr. 46, 1941 byrjað að líða. Sá frestur hafi verið löngu liðinn þegar bréf stefnanda hafi borist sýslumanni í lok maí eða byrjun júní 1998. Sá frestur sem settur sé samkvæmt 5. gr. i.f. laga nr. 46, 1941 sé til þess að eyða óvissu sem kunni að vera um skiptingu landa milli manna eftir að landskiptum lýkur. Sömu reglur hljóti því að gilda varðandi frest eftir ógildingu yfirlandskiptagerðar.
Þá byggir stefnda íslenska ríkið einnig á því, að stefnandi hafi sýnt af sér verulegt tómlæti með því að óska ekki eftir yfirlandskiptum svo fljótt sem kostur var eftir að dómurinn var kveðinn upp 10. maí 1996. Kröfugerð í því máli var þannig háttað, að ekki varð sú ályktun dregin af henni, að stefnandi myndi óska eftir breytingu á landskiptagerðinni frá 1982. Tvö ár hafi liðið áður en stefnandi óskaði eftir að yfirmatsnefnd kæmi saman, sem hljóti að vera allt of langur tími. Búið sé að þinglýsa undirlandskiptagerðinni frá 1982 og breytingar á henni geti því verið íþyngjandi fyrir þá sem hlut eigi að máli. Þá hafi eigendaskipti orðið á hluta viðkomandi jarða.
Stefnda íslenska ríkið kveður svo virðast sem stefnandi byggi á því, að beiðni hans um yfirlandskipti, sem hann hafi sett fram í tilefni landskiptagerðarinnar frá 15. október 1982, sé enn í fullu gildi þar sem hún hafi ekki verið afturkölluð. Eins og rakið sé að framan sé ekki gert ráð fyrir því í lögum nr. 46, 1941 að aðrir en eigendur geti óskað eftir yfirmati, sbr. 5. gr. Því verði ekki séð, að á sýslumanni hafi hvílt sú skylda eftir ógildingu yfirlandskiptagerðarinnar að skipa yfirlandskiptanefnd eða kalla hana saman að nýju án þess að fram kæmi um það beiðni frá þeim sem um það geta beðið skv. lögum nr. 46, 1941. Forræði í málum sem þessu sé greinilega hjá aðilum, þ.e. landeigendum og þeim sem nýti viðkomandi land, sbr. 1. og 5. gr. laga nr. 46, 1941. Sýslumanninum á Akureyri hafi því ekki borið að hafa frumkvæði að því að kalla yfirlandskiptanefnd til starfa eftir uppkvaðningu héraðsdóms.
Stefndu Haukur og Esther segjast hafa verið og vera enn stefnanda sammála um aðal- og varakröfur hans í málinu. Um það hafi stefnanda verið vel kunnugt og því hafi verið ástæðulaust af hans hálfu, að gera málskostnaðarkröfu á hendur þeim. Að þessu athuguðu sé tæplega hægt að halda því fram, að stefndu Haukur og Esther tapi máli í öllu verulegu þó svo dómkröfur stefnanda nái fram að ganga. Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91, 1991 beri því að taka dómkröfur þeirra til greina.
Álit dómsins:
Samkvæmt 2. mgr. 19. gr. laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála má sækja fleiri en einn í sama máli með þeim hætti, að kröfum sé aðallega beint að einum þeirra en að öðrum til vara, ef skilyrðum 1. mgr. 19. gr. er fullnægt. Í 1. mgr. koma fram þau skilyrði, að dómkröfurnar verði að eiga rætur að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings.
Sama atvikalýsing og sömu sönnunargögn eiga a.m.k. að hluta við um aðal- og varakröfur stefnanda. Þá eiga báðar kröfurnar rætur sínar að rekja til landskipta milli jarðanna Tungu, Túnsbergs og Meðalheims. Með vísan til þessa og 2. sbr. 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91, 1991 er það mat dómsins, að stefnanda sé heimilt að haga kröfugerð sinni í málinu svo sem hann hefur gert.
Stefnandi hefur í máli þessu stefnt sex aðilum. Allir þessir aðilar, utan íslenska ríkið, hafa efnislegra hagsmuna að gæta í málinu, bæði í aðal- og varakröfum stefnanda. Í stefnu er skýrlega tekið fram, að íslenska ríkinu sé einungis stefnt vegna varakröfu stefnanda, þ.e. þeirrar kröfu, að lagt verði fyrir sýslumanninn á Akureyri að skipa yfirlandskiptanefnd til að framkvæma yfirlandskipti á hinu umþrætta landi. Að þessu athuguðu þykir stefnandi réttilega hafa stefnt öllum nefndum aðilum í málinu.
Samkvæmt orðum 5. gr. i.f. landskiptalaga nr. 46, 1941 skal krafa um yfirmat koma fram innan 6 mánaða frá þeim degi, er undirlandskipti fóru fram. Fyrir liggur að beiðni um yfirlandskipti kom fram innan þess frests með símskeyti 14. apríl 1983. Af dómsorði dóms Héraðsdóms Norðurlands eystra, uppkveðnum 10. maí 1996, er ljóst, að með dóminum var einungis yfirlandskiptagerðin sjálf ógilt. Niðurstaða dómsins hreyfði því ekki við þeirri málsmeðferð, sem fram hafði farið skv. ákvæðum landskiptalaga fram til þess tíma, er yfirlandskiptanefnd tók málið til meðferðar. Undirlandskiptagerðin var því enn í gildi eftir uppsögu hérðsdómsins, en með þeim mikilvæga fyrirvara þó, sem fólgst í framkominni beiðni stefnanda um yfirmat.
Í lokamálslið 5. gr. landskiptalaga segir það eitt, að krafa um yfirmat skuli koma fram innan 6 mánaða frá lokum undirmats. Eins og rakið hefur verið kom beiðni stefnanda fram innan þess frest og stóð beiðnin óhögguð að héraðsdómnum gengnum. Verður ekki á það fallist, að frestur skv. 5. gr. i.f. landskiptalaga hafi tekið að líða að nýju eftir uppsögu héraðsdómsins, enda er slík túlkun ekki samrýmanleg skýru orðalagi ákvæðisins.
Þáverandi eigendur Túnsbergs, Tungu og Meðalheims, stefnandi, stefnda Esther og Jónas Björnsson, voru öll aðilar að dómsmáli því, sem rekið var fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra, og lauk með dómi uppkveðnum 10. maí 1996. Þeim var því öllum ljós afdrif yfirlandskiptagerðarinnar, en stefndu Svalbarðsstrandarhreppur og Daníel leiða eignarrétt sinn á jörðinni Meðalheimi frá nefndum Jónasi.
Af fjölmörgum framlögðum bréfum, skrifuðum árið 1997 og á fyrri hluta árs 1998, má sjá, að ágreiningur sá, sem til umfjöllunar er í máli þessu, var kominn upp á yfirborðið talsvert löngu áður en stefnandi lagði fram beiðni sína þann 28. maí 1998. Í bréfi lögmanns stefnanda til jarðanefndar, dags. 1. október 1997, má t.a.m. skýrlega sjá afstöðu stefnanda. Af bréfi lögmanns þáverandi eiganda Meðalheims til jarðanefndar, dags. 9. október 1997, er síðan ljóst, að honum var við ritun bréfsins kunnugt um nefnt bréf lögmanns stefnanda. Þá liggur fyrir, að stefnandi setti nefnda beiðni sína fram við sýslumann í kjölfar þess að eigandi Meðalheims lagði undirlandskiptagerðina fram til þinglýsingar, en gerðinni var þinglýst hjá sýslumanninum á Akureyri þann 6. mars 1998.
Með vísan til alls framangreinds er það mat dómsins, að sú staðreynd, að rétt rúmlega tvö ár liðu frá uppkvaðningu héraðsdómsins þann 10. maí 1996 og þar til stefnandi fór fram á að yfirlandskiptanefnd yrði kvödd til starfa að nýju með bréfi dags. 28. maí 1998, skipti engu við úrlausn máls þessa.
Með beiðni sinni um yfirmat markaði stefnandi málinu áframhaldandi farveg eftir ákvæðum landskiptalaga. Er það álit dómsins að stefnandi geti ekki rekið dómsmál um ógildingu undirlandskiptagerðar á meðan til staðar er gild og óafgreidd beiðni hans um yfirmat skv. landskiptalögum, sbr. grunnrök 1. gr. laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála. Að þessu athuguðu þykir verða að vísa aðalkröfu stefnanda í málinu frá dómi ex officio.
Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. landskiptalaga skal sýslumaður kveðja 4 menn óvilhalla til að framkvæma yfirmat, en sjálfur skal hann vera formaður þeirra og stýra matinu. Heimilt er honum þó að kveðja annan í sinn stað. Í því tilviki sem hér um ræðir nýtti sýslumaður sér þessa heimild. Að ákvæði 1. mgr. 6. gr. athuguðu, og þess tíma er leið frá því að yfirlandskiptagerð lá fyrir þann 15. ágúst 1988 og þar til stefnandi óskaði áframhalds skipta þann 28. maí 1998, þykir stefnandi réttilega hafa beint síðastnefndu erindi sínu til sýslumannsins á Akureyri.
Að öllu framangreindu athuguðu er það niðurstaða dómsins, að sýslumanninum á Akureyri hafi borið að verða við þeirri beiðni stefnanda, að kveðja yfirlandskiptanefnd saman að nýju til að ljúka landskiptum milli jarðanna Tungu, Túnsbergs og Meðalheims. Af þessari niðurstöðu leiðir óhjákvæmilega, að ógilda ber úrskurð dóms- og kirkjumálaráðuneytisins frá 29. mars 1999, sem staðfesti höfnun umræddrar beiðnar. Þá ber jafnframt að leggja fyrir sýslumanninn á Akureyri, að kveðja yfirlandskiptanefnd til starfa á ný og framkvæma yfirlandskipti milli nefndra jarða.
Með vísan til úrslita málsins, sbr. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91, 1991, dæmist stefnda íslenska ríkið til að greiða stefnanda málskostnað, sem hæfilega telst ákveðinn kr. 350.000,-.
Stefndu Haukur og Esther hafa í málinu alfarið tekið undir aðal- og varakröfu stefnanda. Tóku þau einungis til varna vegna málskostnaðarkröfu stefnanda þeim á hendur. Að þessu athuguðu og með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem fram koma í l. mgr. 131. gr. laga nr. 91, 1991 þykir rétt að stefnandi greiði stefndu Hauki og Esther óskipt kr. 50.000,- í málskostnað.
Þá þykir rétt með vísan til málsatvika allra, að málskostnaður falli niður milli stefnanda og stefndu Svalbarðsstrandarhrepps, Daníels og Kjartans.
Dóm þennan kveður upp Freyr Ófeigsson, dómstjóri.
D Ó M S O R Ð :
Aðalkröfu stefnanda, Sveinbergs Laxdal, er vísað frá dómi ex offico.
Ógiltur er úrskurður dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 29. mars 1999, um að hafna endurskoðun á ákvörðun sýslumannsins á Akureyri frá 9. september 1998 um að synja að kveðja yfirlandskiptanefnd til starfa á ný til að ljúka landskiptum milli jarðanna Túnsbergs, Tungu og Meðalheims. Lagt er fyrir sýslumanninn á Akureyri að kveðja yfirlandskiptanefnd til starfa á ný og framkvæma yfirlandskipti milli nefndra jarða.
Stefnda, íslenska ríkið, greiði stefnanda kr. 350.000,- í málskostnað.
Stefnandi greiði stefndu Hauki Laxdal Baldvinssyni og Esther Laxdal óskipt kr. 50.000,- í málskostnað.
Málskostnaður fellur niður milli stefnanda og stefndu Svalbarðsstrandarhrepps, Daníels Daníelssonar og Kjartans Lárussonar.