Hæstiréttur íslands
Nr. 2019-28
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Fasteign
- Eignarréttur
- Hefð
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar.
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.
Með beiðni 10. janúar 2019 leitar Arnarborg eignarhaldsfélag ehf. leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 19. desember 2018 í málinu nr. 344/2018: Gunnlaugur Johnson og Hjördís Bjartmars Arnardóttir gegn Arnarborg eignarhaldsfélagi ehf., á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gunnlaugur Johnson og Hjördís Bjartmars Arnardóttir leggjast gegn beiðninni.
Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila, eigenda jarðarinnar Árbótar í Mosfellsbæ, um að viðurkenndur verði eignarréttur þeirra að nánar tilgreindri spildu úr landi jarðarinnar Bjargs sem er í eigu leyfisbeiðanda og liggur að jörð þeirra. Reisa gagnaðilar kröfu sína meðal annars á því að þau hafi öðlast eignarrétt að spildunni fyrir hefð. Héraðsdómur sýknaði leyfisbeiðanda af kröfu þeirra. Landsréttur tók kröfu gagnaðila á hinn bóginn til greina með því að talið var sannað að eigendur Árbótar hefðu girt spilduna af, ræktað hana upp, útilokað aðra frá eignarráðum yfir henni að minnsta kosti frá árinu 1987 og haft óslitið eignarhald spildunnar í fullan hefðartíma, sbr. 1. mgr. 2. gr. og 3. gr. laga nr. 46/1905 um hefð.
Leyfisbeiðandi telur að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi. Vísar hann til þess að jörðin Bjarg ásamt umræddri spildu hafi verið seld nauðungarsölu á árinu 2004 og reki hann því eignarrétt sinn að spildunni til afsals sem hafi verið gefið út á þeim grunni. Telur leyfisbeiðandi að mikilvægt sé að fá úrlausn Hæstaréttar um það hvaða áhrif nauðungarsala hafi á myndun eignarréttar fyrir hefð. Þá telur hann að dómur Landsréttar sé rangur að efni til þar sem ekki hafi verið sýnt fram á að spildan hafi verið girt af í fullan hefðartíma. Loks telur leyfisbeiðandi að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína.
Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 2. málsliðar 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til, sbr. 3. málslið sömu greinar. Er beiðninni því hafnað.