Hæstiréttur íslands
Mál nr. 307/2000
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Börn
- Miskabætur
- Réttargæslumaður
|
|
Fimmtudaginn 15. febrúar 2001. |
|
Nr. 307/2000. |
Ákæruvaldið(Ragnheiður Harðardóttir saksóknari) gegn X (Kristján Stefánsson hrl.) |
Kynferðisbrot. Börn. Miskabætur. Réttargæsla brotaþola.
X var ákærður fyrir að hafa framið kynferðisbrot gagnvart drengjunum Y og Z þegar þeir voru á aldrinum 11 til 13 ára. X játaði skýlaust þær sakargiftir sem á hann voru bornar í ákæruskjali og var sakfelldur í héraði. Hann var dæmdur til 12 mánaða fangelsisvistar og til greiðslu miskabóta til drengjanna. Hæstiréttur staðfesti sakarmat héraðsdóms og heimfærslu hans til refsiákvæða. Refsiákvörðunin var staðfest, en miskabætur til drengjanna hækkaðar. Þóknun skipaðs réttargæslumanns Y og Z var ákveðin í samræmi við 3. mgr. 44. gr. i laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála og lækkuð frá því sem ákveðið var í héraði.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.
Málinu var skotið til Hæstaréttar 2. ágúst 2000 að ósk ákærða en jafnframt af ákæruvaldsins hálfu, sem krefst staðfestingar á sakfellingu en þyngingar refsingar og greiðslu skaðabóta, 5.000.000 krónur til Y og 1.000.000 krónur til Z.
Ákærði krefst aðallega sýknu af broti gegn 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en til vara að háttsemin verði talin varða við 209. gr. eða 2. málslið 1. mgr. 202. gr. laganna. Hann krefst verulegrar mildunar refsingar, sem höfð verði skilorðsbundin, og að skaðabótakröfum verði vísað frá dómi en til vara, að þær verði lækkaðar. Þá krefst hann þess, að kröfu ákæruvalds um greiðslu réttargæslukostnaðar verði vísað frá dómi, en ella verði ákærði sýknaður af þeirri kröfu.
Við málflutning fyrir Hæstarétti féll verjandi ákærða frá kröfu um ómerkingu héraðsdóms og heimvísun. Fallist er á það með héraðsdómara, að ekki hafi verið ástæða til að fram færi sálfræðiathugun á ákærða, en þáverandi verjandi hans undi þeirri ákvörðun.
Fallist er á sakarmat héraðsdómara. Skilja verður málflutning ákærða svo, að sú háttsemi, sem honum er gefin að sök í 2. tölulið ákæru, verði til vara talin varða við 209. gr. almennra hegningarlaga. Ótvírætt er, að háttsemi ákærða, bæði að því er varðar 1. og 2. tölulið ákæru, fellur undir 1. og 2. málslið 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga. Er því fallist á heimfærslu héraðsdóms til refsiákvæða. Brot ákærða eru alvarleg og stóðu yfir í langan tíma. Með hliðsjón af því að ákærði játaði brot sín undanbragðalaust þykir þó mega una við refsiákvörðun héraðsdóms um 12 mánaða fangelsi, en engin efni eru til að skilorðsbinda refsinguna.
Af hálfu brotaþola hafa verið settar fram miskabótakröfur eins og að framan greinir. Ljóst er, að brot þau, sem sakfellt er fyrir í máli þessu, eru almennt til þess fallin að valda þeim, sem fyrir verða, margvíslegum sálrænum erfiðleikum og eiga drengirnir því rétt á miskabótum úr hendi ákærða. Í málinu liggja ekki fyrir sérstök gögn um líðan og hagi drengjanna frá því að héraðsdómur gekk. Þrátt fyrir það þykir rétt að ákveða bætur til þeirra þannig, að Y fái 500.000 krónur og Z 300.000 krónur.
Í héraði var ákærði dæmdur til að greiða þóknun skipaðs réttargæslumanns drengjanna með vísan til 4. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Samkvæmt 1. mgr. 44. gr. f laga nr. 19/1991 er hlutverk réttargæslumanns að gæta hagsmuna brotaþola og veita honum aðstoð í málinu, þar á meðal við að setja fram einkaréttarkröfur samkvæmt XX. kafla laganna, sbr. 14. gr. laga nr. 36/1999. Í 3. mgr. 44. gr. i laga nr. 19/1991 segir, að þóknun réttargæslumanns skuli greiðast úr ríkissjóði og teljast til sakarkostnaðar. Samkvæmt því eru ekki efni til að ákveða brotaþola samkvæmt XXII. kafla almennra hegningarlaga um kynferðisbrot bætur eftir almennu ákvæði 4. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991 fyrir að halda fram bótakröfu, nema sýnt sé fram á sérstakan kostnað utan réttargæslu, sbr. dóm Hæstaréttar 9. nóvember 2000 í máli nr. 290/2000. Nægir því að ákveða réttargæsluþóknun í þessu máli í samræmi við 3. mgr. 44. gr. i laganna, þar sem ekki er sýnt fram á annan kostnað. Við ákvörðun þóknunar verður litið til hins afmarkaða hlutverks réttargæslumanns brotaþola miðað við störf verjanda ákærða.
Dómsorð:
Ákærði, X, sæti fangelsi í 12 mánuði.
Ákærði greiði Y 500.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 20. júní 2000 til greiðsludags.
Ákærði greiði Z 300.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá 20. júní 2000 til greiðsludags.
Ákærði greiði allan sakarkostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, þar með talin réttargæslu- og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns í héraði, Lúðvíks E. Kaaber héraðsdómslögmanns, 300.000 krónur, málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 150.000 krónur, þóknun Helgu Leifsdóttur héraðsdómslögmanns, skipaðs réttargæslumanns bótakrefjenda í héraði, 150.000 krónur, og Óskars Thorarensen hæstaréttarlögmanns, skipaðs réttargæslumanns þeirra fyrir Hæstarétti, 75.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. júní 2000.
Málið er höfðað með ákæruskjali ríkissaksóknara 14. desember sl. gegn ákærða X, [ ] “fyrir eftirtalin kynferðisbrot:
1. Frá nóvember 1997 til vors 1999, á heimili ákærða að F, þuklað á lærum drengsins Y, fædds 12. maí 1986, utan klæða og baki hans innan og utan klæða, margsinnis þuklað lim drengsins innan klæða og fróað honum, tekið lim drengsins í munn sér og haft munnmök við hann og fróað sjálfum sér á sama tíma í nokkur skipti og, sumarið 1998, í tjaldi á ferðalögum á Akureyri og á Laugarvatni, fróað drengnum og sjálfum sér á sama tíma.
2.Frá hausti 1997 fram á árið 1999, einnig á heimili sínu, margsinnis strokið drengnum Z, fæddum 9. desember 1985, um rass og mitti utan klæða, sett hönd undir buxnastreng drengsins og fróað honum.
Telst þetta varða við 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 10. gr. laga nr. 40, 1992.
Þess er krafist, að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Af hálfu Y er krafist miskabóta að fjárhæð kr. 5.000.000 krónur, auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25,1987 frá 15. apríl 1997 til greiðsludags og þóknunar vegna réttargæslu og lögmannsaðstoðar.
Af hálfu Z er krafist miskabóta að fjárhæð 3.000.000 krónur, auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá 1. nóvember 1997 til greiðsludags og þóknunar vegna réttargæslu og lögmannsaðstoðar.”
Helga Leifsdóttir héraðsdómslögmaður, skipaður réttargæslumaður drengjanna, Y og Z gerði grein fyrir miskabótakröfum og krafðist þóknunar vegna réttargæslu og lögmannsaðstoðar fyrir þeirra hönd samkvæmt framlögðum reikningi.
Af hálfu ákærða hefur þess verið krafist að hann verði dæmdur til vægustu refsingar sem lög leyfa. Hann hefur krafist þess að miskabótakröfum verði vísað frá dómi en til vara að þær verði stórlega lækkaðar.
Við meðferð málsins fyrir dómi kom fram krafa af hálfu ákærða, um að dómari málsins viki sæti með vísan til g liðar 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Með úrskurði uppkveðnum 28. mars 2000 hafnaði dómari kröfu um að hann viki sæti. Var úrskurðurinn staðfestur með dómi Hæstaréttar 6. apríl 2000.
Málavextir
Málavextir eru óumdeildir í málinu, en ákærði hefur játað þær sakargiftir sem á hann eru bornar í ákæruskjali.
Með bréfum A starfsmanns Barnaverndarnefndar B 17. maí 1999 og 25. maí 1999 til lögreglunnar í Reykjavík, var óskað eftir því að lögreglan kannaði hvort brotið hafi verið á börnunum Y og Z. Teknar voru lögregluskýrslur af mæðrum drengjanna, C móður Z þann 9.maí 1999 og D, móður Y þann 25. maí 1999. Kröfðust þær þess að meint kynferðisbrot ákærða gagnvart sonum þeirra yrði rannsakað.
Með bréfum Lögreglustjórans í Reykjavík dagsettum 25. maí 1999 og 7. júní 1999 til Héraðsdóms Reykjavíkur var þess farið á leit að teknar yrðu skýrslur af drengjunum vegna rannsóknar málsins. Tók dómari skýrslu af Z þann 27. maí 1999 í Barnahúsi og kvaddi dómari Rögnu Guðbrandsdóttur félagsráðgjafa sem kunnáttumann sér til aðstoðar við skýrslutöku. Þann 20. júlí 1999 tók dómari skýrslu af Y í Barnahúsi og kvaddi dómari Vigdísi Erlendsdóttur sem kunnáttumann sér til aðstoðar. Viðstaddur báðar þessar skýrslutökur var verjandi ákærða, Lúðvík Emil Kaaber hdl. Voru skýrslurnar teknar upp á myndbönd. Við aðalmeðferð málsins voru myndbönd þessi sýnd að ákærða viðstöddum.
Verða nú raktir framburðir ákærða og vitna fyrir dóminum.
Ákærði kvaðst hafa kynnst Y 1-2 mánuðum eftir að hann flutti í sama hús í febrúar eða mars 1997. Hafi kunningsskapur þeirra hafist með því að móðir Y hafi stungið upp á því að hann kæmi í heimsókn. Hann hafi átt tölvu og svo hafi þetta þróast þannig að þeir hafi farið saman í bíó og gert eitt og annað sér til dægrastyttingar. Hann hafi umgengist Y næstum daglega auk þess sem hann hafi umgengist fjölskyldu hans eitthvað líka. Hann kvaðst hafa vitað um aldur Y. Hann kvaðst aðspurður einu sinni hafa beðið móður Y að leyfa honum að gista hjá honum og hafi hann gert það einu sinni í síðbúinni afmælisveislu hans og hafi þá fleiri vinir Y verið með. Hafi þetta verið svona “upp á sportið”.
Aðspurður kvaðst hann hafa þuklað Y um bak og læri innan og utan klæða. Kvaðst ákærði hafa átt upptökin. Þetta hafi byrjað um haustið eða veturinn eftir að hann kynntist honum. Hann kvaðst hafa gert þetta ansi oft en hefði ekki tölu á því. Hann kvaðst oft hafa þuklað lim Y, svona einu sinni í viku. Þetta hafi hætt þegar Y varð 13 ára, þann 12. maí 1999. Hann kvaðst hafa fróað Y og átt upptökin að því. Það hefði gerst svona einu sinni í viku og byrjað á sama tíma og annað sem hann hefur lýst. Hann kvaðst hafa haft munnmök við Y og hafi það byrjað mun seinna, sennilega sumarið 1998 eða um haustið það ár. Þetta hafi gerst álíka oft og annað sem hann gerði við hann og stóð þar til hann varð 13 ára. Hann kvað það sjaldan hafa komið fyrir að hann hefði fróað sér á sama tíma. Hann kvað Y hafa fengið fullnægingu en ekki sáðlát. Hann kvaðst hafa farið í ferðalög með Y um sumarið 1998. Hann kvaðst hafa fróað Y á þessum ferðalögum og haft við hann munnmök, alla vega í tveimur þessara ferðalaga á Laugarvatni og á leiðinni til Þingvalla. Hann kvaðst hafa fróað sjálfum sér eftir að hann var kominn ofan í svefnpokann.
Hann kvaðst hafa kynnst Z ekkert löngu eftir að hann kynntist Y. um sumarið 1997. Hann hefði vitað að hann væri 11 ára. Hann hafi komið með Y og fengið að fara í tölvuna. Hann kvaðst hafa umgengist Z mun minna en Y. Kannski svona aðra hvora viku eða eitthvað svoleiðis. Hann kvaðst aðspurður hafa þuklað rass og mitti Z aðallega utan klæða en einhvern tímann innan klæða. Hafi þetta byrjað veturinn 1997-1998, heldur seinna en með Y. Þetta hafi gerst svona annað hvert skipti sem hann kom eða rúmlega það alveg fram á vetur 1999 eða vorið 1999, svona fram í janúar eða febrúar. Hann kvaðst tvisvar hafa fróað Z. Annað skiptið hafi það verið í afmælisveislu hans en hitt skiptið eitthvað fyrr. Hafi Y verið viðstaddur þegar hann gerði þetta. Hann kvaðst ekki hafa fróað sér á sama tíma og hafi hann sjálfur átt upptökin. Hann kvaðst ekki hafa rætt við drengina að segja ekki frá þessu. Hann kvað aðstæður hafa verið þannig þegar þetta gerðist, fyrir utan atvikin á ferðalögunum, að þeir hafi verið ýmist í tölvunni eða horfa á videó.
Ákærði kvaðst ekki hafa talið að drengirnir hefðu verið smeykir við þetta, nema hann kvaðst lítið geta sagt varðandi Z þar sem hann hafi umgengist hann svo lítið. Honum fannst Y ekki vera smeykur. Hann kvaðst hafa rætt við drengina um að ef þeir vildu þetta ekki gætu þeir bara sagt það, þeir þyrftu ekki að vera feimnir við það.
Ákærði kvað drengina í flest öllum tilvikum hafa komið til sín óboðnir. Hann kvaðst aldrei hafa séð nein óttamerki á drengjunum. Hafi móðir Y talað sérstaklega um að Y hefði verið miklu betri í skapinu eftir Akureyrarferðina þetta hafi allt verið svo skemmtilegt.
Í skýrslu Y, sem tekin var í Barnahúsi 20. júlí 1999, kemur fram að hann teldi að hann hefði kynnst ákærða fyrir um 3 árum og hafi það verið úti í garði við F þar sem þeir bjuggu. Hafi þeir oft hist og hann oft heimsótt ákærða. Stundum hafi vinir hans farið þangað með honum en stundum hafi hann farið einn. Hafi ákærði stundum gert eitthvað við hann sem hann hafi ekki átt að gera. Hann hafi runkað honum. Hann mundi ekki hversu oft þetta hefði gerst. Hann kvað ákærða einnig hafa tottað hann og hann héldi að það hafi gerst oftar en einu sinni. Þegar þetta hafi gerst hafi ekki aðrir verið viðstaddir Hafi ákærði ekki látið hann gera neitt. Hafi þeir báðir verið venjulega klæddir þegar þetta gerðist, hafi þeir verið staddir í stofunni ýmist í sófanum eða við tölvuna.
Kvaðst Y hafa farið með ákærða í bíltúra og í búðir. Þrisvar sinnum hefðu þeir farið saman í ferðalög, tvisvar á Laugarvatn og einu sinni til Akureyrar. Hafi ákærði einnig farið með honum í íshokkí ferð til Akureyrar síðast liðinn vetur, líklega eftir jól. Hafi ákærði farið með öllu liðinu í rútu. Í þeirri ferð hafi ákærði ekkert gert. Í ferðinni til Laugarvatns hafi ákærði runkað honum og tottað hann. Þeir hafi farið annað sinn til Akureyrar og á bifreið ákærða. Hann mundi ekki hvenær það hafi verið en það hafi verið að sumri til. Þeir hafi gist í tjaldi og hafi gist í þrjár nætur. Þarna hafi gerst það sama og í hinu ferðalaginu og taldi hann að ákærði hefði runkað honum og tottað hann tvisvar í þeirri ferð.
Kvað Y ákærða hafa gefið sér afmælis- og jólagjafir en utan þess hafi hann ekki gefið honum gjafir. Hann hefði stundum fengið að drekka og borða hjá honum, stundum hafi hann pantað pizzu en stundum hafi hann eldað. Hann hafi tvisvar lánað honum peninga 10 krónur og 50 krónur til að hann gæti keypt sér að drekka.
Hann kvaðst hafa verið í tölvuleikjum í tölvu ákærða. Taldi hann að klám hefði verið á tölvu ákærða, þeirri sem af honum var tekin. Ekki kvaðst hann hafa hugmynd um hversu oft ákærði hefði runkað honum eða tottað hann. Þetta hafi byrjað svona mánuði eftir að þeir kynntust. Stundum hafi þeir hist einu sinni í viku og stundum 4 til 5 sinnum. Í helmingi heimsóknanna hafi hann verið einn en í helmingi þeirra hafi vinir hans verið með honum. Hafi ákærði stundum komið heim til hans og þeir stundum verið að passa fyrir mömmu Y. Þá hafi ekkert gerst.
Hann kvaðst hafa séð grín- og spennumyndir hjá ákærða en ekki öðruvísi myndir. Ekki kvaðst hann geta útskýrt hvað það væri að runka eða totta. Aðspurður kvað hann ákærða ekki hafa meitt sig. Ekkert hafi verið rætt um þetta eða að hann mætti ekki segja frá þessu. Y kvað ákærða hafa runkað sér þegar hann var að eiga við hann, en hann hafi ekki verið mikið að horfa á það, en hann hafi séð það. Hafi ákærði aldrei látið hann gera neitt við sig.
Kvað hann aðspurður að það að runka sér væri að gera eitthvað við typpið með höndunum og sé typpið þá hart. Hann kvaðst ekki telja að hann hefði fengið sáðlát en ákærði hefði alltaf farið inn á klósett á eftir. Hann hefði gert þetta jafnvel oftar en 10 sinnum.
Kvaðst Y hafa verið of feiminn til að gera eitthvað til að ákærði hætti að eiga við hann en hann sagði að sér hafi þótt þetta óþægilegt. Hann kvaðst ekki hugsa mikið um þetta og væri að reyna að gleyma þessu. Þetta væri leiðinlegt og hann nennti ekki að muna þetta.
Hann kvaðst ekki hafa talað um þetta við vini sína, en mamma hans hefði talað um þetta áður en þetta kom upp því hún var hrædd um að eitthvað væri að gerast. Hafi hann hugsað um að segja frá þessu.
Y kvaðst hafa séð ákærða runka Z í 2-3 skipti í sófanum en það hafi ekki verið lengi. Kvaðst Y hafa verið hræddur að segja frá þessu án þess að hann vissi við hvað hann væri hræddur, hann væri búinn að gleyma því. Hann kvaðst aldrei hafa lent í neinu svona áður.
Í skýrslu Z sem tekin var í Barnahúsi þann 27. maí 1999 kom fram að hann þekkti ákærða því vinur hans, Y byggi í sama húsi og ákærði. Hann hafi kynnst ákærða fyrir svona einu og hálfu til tveimur árum síðan því ákærði hefði hjálpað Y og móður hans. Hann sagði að ákærði hefði byrjað að káfa á honum svona tveim mánuðum eftir að hann hafi kynnst honum og hafi það gerst í nánast hvert skipti sem hann fór til ákærða. Hann hafi um tíma farið oftar en einu sinni í viku til ákærða. Fyrst hafi ákærði byrjað að strjúka hann yfir fötin svo hafi hann farið innar og innar. Hann hafi strokið um mittið, bæði að framan og aftanverðu. Hann hafi farið undir fötin. Þeir hafi verið í tölvuleik eða verið að horfa á myndir í sjónvarpinu. Ákærði hefði ekki rætt neitt nema talað um tölvuleiki meðan á þessu stóð. Hann hafi sýnt honum myndir af berum stúlkum í tölvunni. Kvaðst Z aldrei hafa verið einn inni hjá ákærða, heldur hafi Y alltaf verið með.
Kvaðst hann aldrei hafa séð myndir af berum stúlkum í sjónvarpinu en ákærði hefði átt 2-3 blöð með þannig myndum.
Var Z beðinn að lýsa einu atviki sem ákærði hefði gert við hann og kvað hann ákærða hafa byrjað á að káfa aðeins síðan hafi hann farið með höndina undir fötin og verið að káfa á honum þar og farið með höndina upp og niður. Hann hafi þá verið með höndina á typpinu á honum. Það hafi verið í svolítið langan tíma. Hann kvaðst aldrei hafa séð ákærða gera neitt við sjálfan sig. Hann kvaðst ekki hafa rætt þetta við ákærða en taldi sig hafa látið í ljós að hann vildi þetta ekki. Þessi atvik hafi gerst bæði við tölvuna og í sófanum. Þeir hafi alltaf verið klæddir í buxur og stuttermabol. Kvað hann ákærða hafa strokið honum og verið með höndina í klofinu á sér, aðallega utan yfir fötin. Hafi ákærði komið við typpið á honum 2-3 skiptum eftir að hann byrjaði að káfa á honum. Hann kvaðst ekki vita hversu oft þetta hefði gerst en hann hefði verið svolítið oft hjá honum. Hafi ákærði aldrei klætt hann úr fötunum. Hafi ákærði aldrei beðið hann að koma við sig. Hann hefði einu sinni gefið honum 2-300 krónur fyrir flugeldum og 100 krónur þegar þeir voru í ferð til Þingvalla. Í þeirri ferð hefði ekkert gerst. Hann kvað ákærða aldrei hafa gefið sér gjafir en þeir hafi stundum fengið pizzu þegar þeir heimsóttu hann. Ekki kvaðst hann muna eftir því að ákærði hefði beðið hann að tala ekki um þetta en það gæti þó verið að hann hefði gert það. Minnti hann að það hefði verið gefið í skyn að þetta væri leyndarmál, en hann kvaðst ekki vera viss. Ákærði hefði aldrei hótað honum eða verið vondur við hann.
Hann kvað þá Y einu sinni hafa gist hjá ákærða og þá hafi hann káfað á honum en ekkert meira. Hann kvaðst aðspurður hafa reynt að forðast að fara til ákærða.
Vitnið Vigdís Erlendsdóttir, sálfræðingur og forstöðumaður Barnahúss kom fyrir dóminn. Hún kvaðst hafa haft til meðferðar drenginn Z í Barnahúsi. Hann hafi komið tvisvar sinnum til hennar, fyrst 21. júní 1999 og síðan aftur 2. júlí 1999. Hafi hann verið mjög áhyggjufullur og kviðið fyrir að koma í viðtölin. Hefði hann haft ýmsar vangaveltur í sambandi við sína eigin ábyrgð á því sem hafði gerst og eins svona almennar vangaveltur, sem sjáist oft hjá strákum sem séu áreittir af karlmönnum, hræðslu um að vera hommi og ýmislegt því tengdu og hræðslu um að félagarnir myndu heyra hvað hafði gerst og taldi sig hafa orðið fyrir skaða út af því sem hafði gerst. Honum hafi liðið mjög illa.
Hafi hann tengt hræðslu sína við að vera hommi við það að hafa ekki stoppað eða flúið. Það hafi því kannski mest tengst þeirri ábyrgð sem hann taldi sig bera á því sem gerst hefði. Hafi hann nefnt að þetta kynni að geta valdið því að hann fengi rangar hugmyndir um kynlíf en hann hafi ekki talað um í hverju þær væru fólgnar. Hann hafi líka sagt að ef hann heyrði í fjölmiðlum eitthvað um kynferðisofbeldi eða yrði var við eitthvað svona í sínu umhverfi sem væri að einhverju leyti því tengt þá hrykki hann alltaf við og brygði mjög og þetta truflaði hann svolítið í daglegu lífi því að hann óttaðist alltaf að eitthvað minnti hann á það sem hafði gerst.
Hafi orðið að samkomulagi að hann kæmi tvisvar í viðtöl til vitnisins og ef móðir hans teldi hann hafa þörf fyrir frekari viðtöl myndi hún hafa samband. Kvað hún drenginn hafa verið mjög duglegan í viðtölunum. Hann hafi komið þótt hann kviði því mjög og sagt sjálfur að hann hefði þörf fyrir að ræða þetta til að fá leiðréttingu á þeim hugmyndum hans sem hugsanlega væru rangar. Hafi hann látið þess getið að hann hefði verið leiður í langan tíma og hafi honum létt mjög þegar þetta hafi komist upp. Hún kvaðst ekki hafa frétt neitt af drengnum síðan.
Kvað vitnið sérstaklega aðspurð ekki vera hægt á grundvelli almennra niðurstaðna um afleiðingar kynferðisofbeldis að draga ályktanir um einstaklinga. Hins vegar séu ýmis einkenni þekkt hjá börnum, sem verði fyrir kynferðisofbeldi, og þeir þættir sem veiti bestu forspá um afleiðingarnar séu aldursmunur brotaþola og geranda. Þeim mun meiri sem hann sé þeim mun alvarlegri sé talið að afleiðingarnar verði. Enn fremur sé talað um tengsl milli geranda og þolanda, þeim mun sterkari sem þau séu, þess líklegra sé að afleiðingarnar verði alvarlegri fyrir brotaþolann. Einhver sem hann treysti hafi brugðist traustinu og það geti haft áhrif á samskipti brotaþola við annað fólk í framhaldinu. Þriðji þátturinn sem skipti máli í sambandi við afleiðingar séu viðbrögð umhverfisins og hvort sá sem fyrir þessu verður fái hjálp eftir að hann segi frá. Það sé þessi þriðji þáttur sem veiti forspá um afleiðingar kynferðisofbeldis. Ef brotaþola sé trúað þegar hann segi frá og honum tryggð aðstoð þá sé líklegra að afleiðingarnar verði minni en ella. Þetta séu þeir þrír þættir sem sýni fylgni við alvarlegar afleiðingar.
Vitnið D, móðir Y kvaðst hafa kynnst ákærða um vorið 1997. Hafi þau kynnst smátt og smátt. Hann hafi ekið Y á æfingar í íshokkí og tekið þátt í því tómstundastarfi hans og oft borðað hjá þeim, þau hafi grillað saman og þess háttar. Hafi hún litið á ákærða sem góðan fjölskylduvin, þau hafi smátt og smátt tengst honum og hann hafi í raun verið eins og góður frændi eða bróðir. Hafi þetta verið gífurlegt áfall fyrir vitnið og fjölskylduna. Trúi hún því varla að hún sitji hér nú því ákærði hafi verið svo mikill trúnaðarvinur sem þau hafi nú misst. Hann hafi hjálpað Y við heimalærdóm og þau oft spjallað saman. Hafi ákærði vitað töluvert um fortíð þeirra, gleði og sorg. Hann hafi verið vinur sem þau hafi treyst bæði í gleði og sorg.
Hún kvaðst vera varkár að eðlisfari og því hafi hún stjórnað því að þeir kynntust hægt, Y og ákærði og því sé svo erfitt að kyngja þessu. Hafi henni fundist að hún væri alltaf að hringja í ákærða þegar Y var hjá honum og fara óvænt niður til hans. Hún kvaðst hafa verið því mótfallinn að Y gisti hjá ákærða og fundist það óþarfi. Þeir hafi farið saman í ferðalög og hafi ákærði átt frumkvæðið að því. Þeir hafi farið til Akureyrar 1998. Þeir hafi síðan farið í ferðalag á einn af þeirra uppáhalds stöðum og það sé hræðilegt að nú sé búið að eyðileggja þann stað fyrir þeim. Einu sinni hafi þeir farið á Laugarvatn. Hafi ákærði virst hafa haft vald yfir drengnum. Muni hún að í Akureyrarferðinni hafi Y beðið um að fá að vera lengur í ferðinni og sjái hún núna eftir að þetta uppgötvaðist hvað ákærði hafi haft mikið vald yfir honum.
Kvað hún drenginn mjög reiðan yfir því að ákærði hafi verið laus í eitt ár og sé enginn söknuður í dag til ákærða. Sjái hún best hversu mikið þetta hafi skaðað barnið. Þegar komið hafi í ljós að ákærði hafi verið með klám í tölvunni sinni hafi hún spurt Y hvort þau ættu ekki bara að slíta sambandi við ákærða en hann ekki viljað það. Fannst henni þetta segja að ákærði hefði vald yfir drengnum. Hafi sonur hennar skaðast mikið og neiti öllu sem heiti úrvinnslu og það sé hræðilegt.
Hafi Y verið í [...] í fleiri mánuði. Hann hafi orðið mjög reiður og liðið illa eftir yfirheyrsluna í Barnahúsi því allt hafi rifjast upp fyrir honum. Hann hafi haft martraðir á nóttunni og exem, sem hann þjáist af, hafi blossað upp á honum.
Kvað hún Y hafa þurft að skipta um skóla og þau hafa flutt úr hverfinu þar sem ákærði hefði einungis flust í næsta hús. Kvað hún son sinn hafa verið óheppinn með skólann. Hann sé hress á yfirborðinu en innst inni sé hann daufur. Hann vilji alls ekki tala mikið um þetta, þó spyrji hann oft hvort ákærði hafi verið settur í fangelsi. Megi segja að hjartað í honum gráti. Sé gífurleg vinna framundan til að koma honum í einhvers konar úrvinnslu, en hann loki á það og ætli sér ekki að vinna með þetta. Honum hafi gengið illa í skólanum síðast liðinn vetur og verið óánægður. Hann hafi ekkert unnið þar og erfitt hafi verið að fá hann til að vinna. Hafi hún því í nóvember sl. tekið þá ákvörðun að taka hann úr skólanum og þá hafi hann farið til systur hennar í [...]. Kvað hún hann hafa hætt í íshokkíinu þar sem það tengdist ákærða.
Hún kvaðst telja að ástæðan fyrir því að Y hefði ekki viljað slíta sambandinu við ákærða eftir að upp komst um tölvumálið væri sú að hann hefði verið búinn að ná það miklum völdum yfir barninu.
Vitnið C móðir Z kvaðst telja að sonur hennar hefði kynnst ákærða um sumarið eða haustið 1997 og hafi hann kynnst honum í gegnum Y. Taldi hún að þeir hafi umgengist nokkuð mikið. Hafi hún ekki viljað að hann væri mikið hjá ákærða og meðal annars hefði verið keypt tölva á heimilið í því skyni að draga úr þessum heimsóknum. Kvaðst hún oft hafa rætt við móður Y um ákærða til að kanna hvernig maður þetta væri og hafi hún verið mjög tortryggin og fundist ýmislegt athugavert. Hafi henni fundist óeðlilegt að hann samsamaði sig við svona litla stráka. Hann hafi klæðst eins og þeir og verið að bjóða þeim í partí og kvaðst hún aldrei hafa orðið vör við að hann hefði eðlileg fullorðinstengsl. Hafi hún því haft efasemdir og oft rætt það við móður Y.
Kvað hún ástæðu óttans hafa verið þá að hún hafi starfað við mál af þessum toga í mörg ár og taldi sig því vera tortryggna og að hún væri farin að sjá kynferðisafbrotamenn í hverju horni. Hafi D fullvissað hana um að hún hefði talað um þessa hluti við ákærða og Y og hægt væri að treysta ákærða fullkomlega. Sé ákærði þannig maður að maður fari að vorkenna honum og finna til með honum. Hann sé umkomulaus og hafi hún því miður kæft svolítið þessar grunsemdir sínar.
Hún hafi séð til þeirra Z og Y þar sem Y var að sjúga lim Z og hafi þeir borið sig að eins og þeir kynnu þetta. Hafi hún setið á sér að rjúka ekki til og hleypa öllu í hávaða og ákveðið að ræða við Z einslega. Daginn eftir þegar Y var farinn hafi hún rætt við son sinn og gætt þess vel að spyrja ekki leiðandi spurninga.
Hafi hana grunað að þessi háttsemi tengdist ákærða og hafi þetta verið staðfesting á því sem hana hefði grunað lengi. Hafi hún orðið vör við breytta hegðun hjá syni sínum áður en hann sagði henni frá þessu. Hann hefði flosnað upp úr [...]skóla en hann sé mjög góður námsmaður. Taldi hún að ástæðan væri sú að hann væri lítill, mjór og væskilslegur og þetta hafi verið mjög harður og töff bekkur sem hann var í og hafi hún rætt þetta við umsjónarkennarann hans og skólastjórann um haustið þegar stóð til að hann færi aftur í skólann og sagt honum að Z vildi ekki fara í skólann og hafi sér verið tjáð að þetta væri mjög erfiður bekkur. Hafi hún sett hann í [...]skóla og hann verið þar í 7. bekk. Stuttu áður en mál þetta kom upp hafi umsjónarkennarinn hans í [...]skóla haft samband og sagst hafa tekið eftir breytingu á honum. Hann væri orðinn svo áhugalaus, sinnulaus, dapur, þungur, kærulaus og bara svona vansæll og hafi hún kennt því um að hann væri ný búinn að eignast litla systur, en hann hefði verið eina barn móður sinnar í 13 ár.
Kvaðst hún hafa tekið eftir því að eftir að hann trúði henni fyrir þessu og hún sagt honum að hafa engar áhyggjur hafi verið eins og þungu fargi hafi verið af honum létt. Hann hafi tekið öll próf og verið allt annað barn. Honum hafi liðið betur og verið hamingjusamur og hress. Taldi hún að honum hafi bara liðið ágætlega eftir þetta og verið feginn að geta komið þessu frá sér. Þetta sé strákur sem hafi góðan grunn og góðan stuðning og sterka fjölskyldu og hafi þau reynt að styðja hann eftir fremsta megni. Hins vegar sé ekki komin nein reynsla á það hvernig ör þetta skilji eftir en þetta virðist ganga ágætlega í dag
Niðurstaða.
Ákærði hefur við rannsókn og meðferð málsins skýlaust játað að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi, sem hann er sakaður um í ákæru. Við upphaf meðferðar málsins fyrir dómi vildi ákærði ekki viðurkenna að hafa margsinnis strokið drengnum Z um rass og mitti utan klæða, það hefði aðeins gerst nokkrum sinnum. Við aðalmeðferð viðurkenndi hann að hafa gert þetta í svona annað hvert skipti er drengurinn kom í heimsókn eða rúmlega það en hann hefði komið svona aðra hverja viku í heimsókn. Þegar litið er til þess langa tímabils sem þetta stóð yfir þykir sannað með framburði ákærða sjálfs að þetta hafi verið margsinnis eins og lýst er í ákæru. Þykir því sannað með játningu ákærða, sem er í samræmi við önnur gögn málsins, svo sem skýrslur brotaþola, mæðra þeirra og Vigdísar Erlendsdóttur, að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem í ákæru greinir og varðar háttsemin við þau lagaákvæði sem þar eru tilgreind.
Ákærði hefur einu sinni áður gerst sekur um refsiverða háttsemi, en þann 4. desember 1998 gekkst hann undir sátt í Héraðsdómi Reykjavíkur með greiðslu sektar vegna brots gegn 2. og 4. mgr. 210. gr. almennra hegningarlaga.
Brot ákærða eru alvarleg. Við ákvörðun refsingar ákærða verður litið til þess að hann hefur hreinskilnislega játað brot sitt. Þykir refsing ákærða með sérstakri vísan til 1. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga og með hliðsjón af 77. gr. sömu laga hæfilega ákveðin fangelsi í 12 mánuði.
Helga Leifsdóttir héraðsdómslögmaður, réttargæslumaður drengsins Y hefur krafist þess að honum verði greiddar miskabætur að fjárhæð 5.000.000 króna auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá 15. apríl 1997 til greiðsludags. Hún hefur jafnframt gert kröfu um miskabætur vegna drengsins Z að fjárhæð 1.000.000 króna auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá 1. nóvember 1997 til greiðsludags. Upphafleg krafa vegna Z var að fjárhæð 3.000.000 króna en var hún lækkuð við aðalmeðferð málsins.
Réttargæslumaðurinn var viðstaddur aðalmeðferð málsins og reifaði þá jafnframt kröfur þessar og krafðist kostnaðar vegna lögfræði- og réttargæslustarfa sinna. Í málinu liggja ekki fyrir sérstök gögn um líðan og hagi drengsins Y í kjölfar brots ákærða gagnvart honum, en eins og rakið hefur verið hefur Vigdís Erlendsdóttir sálfræðingur, sem hefur haft drenginn Z í meðferð í kjölfar brots ákærða, komið fyrir dóminn og lýst vanlíðan hans af völdum brotsins. Þá hefur hún lýst þekktum einkennum hjá börnum sem verði fyrir kynferðisafbrotum og þeim þáttum sem veiti bestu forspá um afleiðingar slíkra brota og nefnt í því sambandi aldursmun geranda og brotaþola. Þeim mun meiri aldursmunur þeim mun alvarlegri afleiðingar fyrir brotaþolann. Þá geti skipt máli hver tengsl séu milli geranda og brotaþola, þeim mun sterkari tengsl, þeim mun alvarlegri afleiðingar geti það haft fyrir brotaþolann. Svo geti viðbrögð umhverfisins skipt miklu varðandi afleiðingar slíkra brota. Geti skipt miklu máli hvort brotaþola sé trúað og hann fái hjálp eftir slíka reynslu.
Telja verður ljóst að slíkir atburðir sem hér um ræðir séu til þess fallnir að valda þeim sem fyrir verða margvíslegum sálrænum erfiðleikum. Verður ákærði því dæmdur til að greiða báðum brotaþolum miskabætur samkvæmt 26. gr. laga nr. 50/1993. Þykir Y eiga rétt á miskabótum að fjárhæð 450.000 krónur. Eftir atvikum þykir rétt að miða upphafsdag vaxta bótakröfunnar við uppsögu dóms þessa og skal ákærði greiða dráttarvexti eins og greinir í dómsorði.
Þá þykir Z eiga rétt á miskabótum að fjárhæð 200.000 krónur. Eftir atvikum þykir rétt að miða upphafsdag vaxta bótakröfunnar við uppsögu dóms þessa og skal ákærði greiða dráttarvexti eins og greinir í dómsorði.
Með vísan til 4. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991 eiga bótakrefjendur rétt á að fá greiddan kostnað við að halda kröfu sinni fram. Er ákærði dæmdur til að greiða þóknun skipaðs réttargæslumanns beggja drengjanna sem þykir hæfilega ákvörðuð 300.000 krónur samtals.
Ákærði er dæmdur til að greiða allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun og réttargæsluþóknun skipaðs verjanda síns, Lúðvíks Emils Kaaber héraðsdómslögmanns 250.000 krónur.
Elín Vigdís Hallvarðsdóttir, fulltrúi lögreglustjórans í Reykjavík, sótti málið af hálfu ákæruvalds.
Greta Baldursdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.
D Ó M S O R Ð
Ákærði, X sæti fangelsi í 12 mánuði.
Ákærði greiði Y 450.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá 20. júní 2000 til greiðsludags.
Ákærði greiði Z 200.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá 20. júní 2000 til greiðsludags.
Ákærði greiði þóknun réttargæslumanns bótakrefjenda, Helgu Leifsdóttur héraðsdómslögmanni, samtals 300.000 krónur.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun og réttargæsluþóknun skipaðs verjanda síns, Lúðvíks E. Kaaber héraðsdómslögmanni 250.000 krónur