Hæstiréttur íslands
Mál nr. 214/2004
Lykilorð
- Fjárhættuspil
- Upptaka
- Skilorð
|
|
Fimmtudaginn 16. desember 2004. |
|
Nr. 214/2004. |
Ákæruvaldið(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari) gegn Brynjari Valdimarssyni (Jón Magnússon hrl.) |
Fjárhættuspil. Upptaka. Skilorð.
B var ákærður fyrir að hafa staðið fyrir rekstri fjárhættuspils og veðmálastarfsemi í húsnæði sem hann hafði á leigu. Allir fjármunir vegna rekstrarins fóru í gegnum reikning B og var veltan veruleg. Var talið að B hafi staðið að starfseminni í atvinnuskyni, enda þótt hann hafi haft aðra atvinnu hluta ársins 2002. Var B sakfelldur fyrir þau brot sem honum voru gefin að sök í ákæru og dæmdur til fjögurra mánaða skilorðsbundinnar fangelsisvistar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason og Gunnlaugur Claessen.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 10. maí 2004 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvalds.
Með vísan til forsendna héraðsdóms ber að staðfesta niðurstöðu hans um sakfellingu ákærða. Telst brot hans í fyrra ákærulið varða við 1. mgr. 183. gr. og 184. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en í síðara ákærulið við 183. gr. sömu laga.
Staðfesta ber ákvæði héraðsdóms um fangelsisrefsingu ákærða og skilorðsbindingu hennar, sektargreiðslu, upptöku fjármuna og sakarkostnað.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Brynjar Valdimarsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Jóns Magnússonar hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. maí 2004.
Mál þetta var höfðað með ákæru ríkissaksóknara dagsettri 15. desember 2003 á hendur Brynjari Valdimarssyni, kt. 301267-4609, Grettisgötu 2 b, Reykjavík, „fyrir brot á ákvæðum XX. kafla almennra hegningarlaga eins og hér greinir:
Með því að hafa á tímabilinu frá desember 2001 til 28. september 2002 rekið fjárhættuspil („black Jack”, rúllettur og póker) í atvinnuskyni og sér til ávinnings í húsnæði sem hann hafði á leigu að Suðurgötu 3 í Reykjavík.
Telst þetta varða við 183. gr. og 184. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
Með því að hafa á ofangreindu tímabili jafnframt rekið veðmálastarfsemi í atvinnuskyni og sér til ávinnings, er hann kom öðrum til þátttöku í veðmálum með því að standa fyrir heimasíðunni vedbanki.net á internetinu sem hafði þann tilgang að þeir sem opnuðu heimasíðuna gætu tengst inn á heimasíðu veðbankans Gamebookers Ltd. þar sem boðið er upp á þátttöku í veðmálum sem einkum snúast um íþróttakappleiki.
Telst þetta varða við 183. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og að til að sæta upptöku á eftirtöldum varningi, samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga, sem hald var lagt á við rannsókn málsins:
Fimm spilaborðum ásamt fylgihlutum, tuttugu rauðum spilaborðsstólum, spilapeningum og spilastokkum.
Þá er þess krafist að ákærða verði gert að sæta upptöku á eftirgreindum fjármunum, samkvæmt 3. tl. 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga, sem hald var lagt á við rannsókn málsins:
Peningaseðlum og einni ávísun að fjárhæð kr. 25.000, samtals kr. 2.182.000.
Innistæðu að fjárhæð kr. 678.678 ásamt áföllnum vöxtum sem var á reikningi nr.[ ] á nafni ákærða.
Innistæðu að fjárhæð 307.635 ásamt áföllnum vöxtum hjá Kreditkortum hf. vegna færslna með greiðslukortum í gegnum kortaskanna sem ákærði hafði afnot af með þjónustusamningum við greiðslukortafyrirtækið.
Innistæðu að fjárhæð kr. 1.594.149 ásamt áföllnum vöxtum hjá Greiðslumiðlun hf. vegna færslna með greiðslukortum í gegnum kortaskanna sem ákærði hafði afnot af með þjónustusamningum við greiðslukortafyrirtækið.
Innistæðu að fjárhæð kr. 342.550 ásamt áföllnum vöxtum sem var á reikningi nr. [ ] á nafni Moneybookers Ltd., kt. 621101-9190.”
Við upphaf aðalmeðferðar málsins féll ákæruvaldið frá kröfu um upptöku á 20 rauðum spilaborðsstólum.
Af hálfu ákærða er krafist sýknu. Þá er þess krafist að sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun. Loks er þess krafist að upptökukröfum verði hafnað.
Samkvæmt upplýsingaskýrslu lögreglu dags. 8. júní 2002 fóru þrír lögreglumenn að Suðurgötu 3 í Reykjavík þar sem Briddsklúbburinn er til húsa til þess að kanna hvort upplýsingar um að þar væri ólöglegt spilavíti ættu við rök að styðjast og til að upplýsa hvernig sú starfsemi færi fram. Lögreglumennirnir hefðu komið á vettvang kl. 23.40 að læstum dyrum. Hefðu þeir hringt dyrabjöllu og þá komið til dyra kona sem bauð þeim inn. Hún hefði fylgt þeim inn á staðinn og innt þá eftir því hvort þeir væru að koma þar í fyrsta sinn. Lögreglumennirnir hefðu játað því og konan þá kallað til mann sem augljóslega hefði verið nokkurs konar stjórnandi á staðnum og hefðu lögreglumennirnir lýst áhuga sínum á að spila.
Í skýrslunni er húsaskipan lýst þannig að fyrst sé gengið inn í anddyri og þaðan í gegnum lokaðar dyr og þá komið inn á sjálfan staðinn. Úr anddyrinu sé komið inn á stórt þrískipt svæði. Næst anddyrinu sé bar og sófasett en inn af því séu tvö spilaborð. Þar inn af sé annað rými þar sem séu fleiri spilaborð. Hefðu verið 5 stór spilaborð, 2 rúllettuborð með tilheyrandi búnaði og 3 „black jack” borð. Lögreglumönnunum hefði sýnst 10 starfsmenn vera á staðnum en þeir væru ekki sérstaklega merktir. Á öllum veggjum væru speglar en ekki væri að sjá að þar væru gluggar. Hefðu verið hreyfiskynjarar á nokkrum stöðum en engar myndavélar.
Stjórnandinn hefði fylgt lögreglumönnunum að tölvu við hlið barsins og tekið niður nöfn þeirra, kennitölur og símanúmer og hefðu þeir verið skráðir sem meðlimir nr. 107-109. Síðan hefði þeim verið boðið að fara á barinn og drekka hvað sem þá lysti og ef þeir spiluðu væri ekkert rukkað fyrir drykkina. Ef þeir hins vegar ætluðu ekki að spila væri áfengið selt fyrir svipað verð og á veitingahúsum. Hefði stjórnandinn jafnframt sagt þeim frá þeirri reglu að ef þeir væru með debet- eða kreditkort ættu þeir að taka út peninga af kortinu á barnum og mælti hann með 5.000 krónum á mann. Hefðu tveir lögreglumannanna tekið þá upphæð út af debetkortum sínum en einn notað kreditkort og beðið um sömu upphæð. Honum hefði hins vegar verið tilkynnt að þar sem um kreditkort væri að ræða myndi bætast við 5% álag og hefði hann fengið 5.000 krónur afhentar en úttektin af kortinu hefði verið 5.250 krónur. Við kortaúttektirnar hefðu lögreglumennirnir ekki fengið seðla heldur POSA kvittanir sem þeim var sagt að skipta fyrir spilapeninga við spilaborðin. Nafnið á greiðslukvittununum, þar sem nafn fyrirtækis komi yfirleitt fram, hafi verið Brynjar Valdimarsson.
Fram kemur að lögreglumennirnir þrír hafi sest við rúllettuborð og afhent gjafaranum kvittanirnar sem hafi skipt þeim út fyrir spilapeninga. Greiðslukvittanirnar hefðu verið settar í þar til gerða rauf á borðinu þar sem þær hefðu væntanlega farið í einhvers konar peningageymslu undir borðinu. Hefði þeim verið tjáð að hver spilapeningur jafngilti 200 krónum og að það væri lágmarksveðmál við borðið en 20.000 krónur væru hámark án sérstaks leyfis frá stjórnanda staðarins. Lögreglumennirnir hefðu síðan spilað og fylgst með starfseminni. Við þau borð, sem verið var að spila á, hefðu verið að jafnaði 3-4 starfsmenn, 1 gjafari, 1-2 eftirlitsmenn og 1 nokkurs konar raðari en hans hlutverk hefði virst vera að raða upp spilapeningum eftir litum og setja þá í þar til gerða bakka. Þeir sem komið hefðu á borðin með seðla hefðu afhent gjafaranum seðlana í skiptum fyrir spilapeninga og hefðu seðlarnir farið niður um sömu rauf og greiðslukvittanir lögreglumannanna.
Fram kemur að á meðan lögreglumennirnir voru inni á staðnum hefðu verið þar um það bil 15-20 manns og hefði verið spilað á þremur borðum. Langflestir gestanna hefðu verið á aldrinum 30-50 ára. Þá hefði verið greinilegt að starfsmenn staðarins hefðu haft fyrirmæli um að halda áfengi að þeim sem voru að spila. Þjónustan hefði verið mjög góð og alltaf hafi starfsmaður fylgst með því að allir væru með nóg áfengi í glösum og hefði verið greinilegt að gestir urðu fljótt ölvaðir. Hefði vakið athygli lögreglumannanna hversu fagmannlegir starfsmennirnir voru og hversu mikið virtist lagt upp úr góðri og persónulegri þjónustu þar sem gjafarar og starfsfólk á bar hefði reynt að ávarpa alla viðskiptavini með nafni og sífellt verið að hrósa mönnum fyrir frábæra spilamennsku og einstaka heppni.
Í skýrslunni lýsir höfundur hennar því þegar einn gestanna, sem hafði unnið töluverða upphæð í „black jack”, óskaði eftir því að fá vinninginn greiddan út. Hefði hann tilkynnt gjafaranum þetta sem hefði beðið raðarann um að telja saman spilapeninga vinningshafans. Raðarinn hefði síðan afhent vinningshafanum miða með upphæð á sem hinn síðarnefndi hefði farið með til manns sem kynntur hefði verið sem gjaldkeri og bar á sér svarta mittistösku. Hefði gjaldkerinn fengið miðann og afhent vinningshafanum seðla í staðinn. Hefðu þetta sýnst vera 20.000 krónur í fjórum 5.000 króna seðlum. Hefði svarta mittistaskan virst full af seðlum.
Húsleit var gerð að Suðurgötu 3 28. september 2002 vegna gruns um að þar færi fram ólögleg spilastarfsemi og voru á staðnum haldlagðir ýmsir munir sem tengdust starfseminni og jafnframt var haldlagt fé sem nam 2.157.000 krónum. Þá voru haldlagðir peningar á bankareikningi ákærða, skv. kortasamningum við greiðslukortafyrirtækin Greiðlslumiðlun hf. og Kreditkort hf. og af reikningi á nafni Moneybookers Ltd. Í heild nema haldlagðir peningar vegna málsins 5.105.012 krónum.
Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dóminum.
Ákærði kvað Briddsklúbbinn vera félagsskap manna sem veðjuðu sín á milli og hefði verið spiluð rúlletta, „black jack” og póker. Hefðu menn lagt peninga undir. Þá hefðu menn getað veðjað á netinu á tölvu sem var í húsnæði klúbbsins að Suðurgötu 3. Ákærði kvaðst hafa haldið úti vefsíðunni vedbanki.net og hefði þar verið hægt að fara inn á síðu Gamebookers eftir krækju en þar væri veðjað á ýmis konar íþróttakappleiki. Kvaðst ákærði ekki hafa haft tekjur af vefsíðunni og kvaðst ekki hafa notið 15% af heildargróða Gamebookers af veðmálum í gegnum vefsíðuna enda þótt hann kannaðist við að Gamebookers byðu mönnum samstarf á slíkum kjörum ef þeir hefðu krækju við síðu fyrirtækisins á sinni vefsíðu. Aðspurður kvaðst ákærði hafa stofnað kennitölu fyrir Moneybookers og bankareikning í Landsbanka í því nafni að beiðni fyrirtækisins. Hefði það verið gert svo hægt væri að millifæra peninga. Hins vegar kvaðst ákærði ekki hafa haft umráð yfir reikningnum
Opið hefði verið að Suðurgötu 3 frá fimmtudegi til sunnudags frá kl. 10 að kvöldi til kl. 4 að morgni. Aðspurður um ástæðu þess að leigusamningur væri undirritaður af honum sjálfum og að posavélarnar væru einnig á nafni hans en ekki Briddsklúbbsins, kvað ákærði það hafa verið „tilfallandi”.
Ákærði kvað Briddsklúbbinn hafa fengið hann til að sjá um rekstur félagsins sem nokkurs konar framkvæmdastjóri og hefði hann átt að sjá um peningamálin. Við spilamennskuna hefði félagið verið „bankinn” og ef ágóði varð hefði hann átt að renna aftur til félagsins, m.a. til endurbóta á húsnæðinu. Hefðu félagsmenn unnið sem gjafarar við spilaborðin og stundum hefðu félagsmenn verið „bankinn”. Kannaðist ákærði við að spilarar, sem greiddu með kreditkortum, hefðu þurft að greiða 5% þóknun sem runnið hefði til félagsins. Aðspurður um uppgjör klúbbsins, sem ákærði lagði fram við aðalmeðferð málsins, kvaðst ákærði hafa samið það sjálfur og boðið lögreglu sem ekki hafi haft áhuga á því.
Ákærði kvað einungis félagsmenn Briddsklúbbsins og gesti þeirra hafa haft aðgang að húsnæðinu að Suðurgötu 3 og minnti hann að lögreglumennirnir þrír hefðu nefnt kunningsskap við félagsmann.
Ákærði kvaðst hafa unnið hjá [ ]. við ýmislegt snatt við veitingarekstur á [ ] á árinu 2002 og þegið laun þaðan á tímabili. Hann kvaðst hins vegar aldrei hafa fengið laun fyrir vinnu sína fyrir Briddsklúbbinn en taldi aðspurður að hagnaðurinn af rekstri klúbbsins hefði hlaupið á milljónum. Hefði hagnaðurinn átt að renna til meðlima klúbbsins og til endurbóta á húsnæði hans. Aðspurður um aðrar tekjur sínar á árinu 2002, sem ekki kæmu fram á skattframtali, kvaðst ákærði hafa átt einhvern söluhagnað frá fyrra ári og þá hefði ÞH lánað honum 1.000.000 króna, K hefði endurgreitt honum 500.000 krónur og loks hefði I endurgreitt honum 600.000 króna lán. Auk þess hefði hann unnið við að setja upp um það bil 10 billjardborð og fleira fyrir ýmsa aðila. Kvað ákærði engin gögn vera til um framangreind viðskipti.
Vitnið HÞ, lögreglumaður, kvaðst hafa rannsakað málið. Hann hefði leitað til allra bankanna til að fá upplýsingar um reikninga ákærða. Hefði sú rannsókn leitt í ljós að um var að ræða einn reikning sem meginhluti veltu ákærða fór um. Hefði verið gert yfirlit yfir veltu ákærða og lægi það frammi í málinu. Hefði verið farið fram á skýringar ákærða á misræmi milli útgjalda hans og tekna samkvæmt skattframtali. Ekki sé um tæmandi talningu útgjalda ákærða að ræða í yfirlitinu heldur væru eingöngu tíundaðar hæstu færslurnar. Vitnið kvaðst aðspurður ekki hafa fundið gögn sem bentu til fjárútláta vegna endurbóta á húsnæðinu að Suðurgötu 3. Þá kannaðist vitnið ekki við að einhver annar en ákærði hefði verið í forsvari fyrir Briddsklúbbinn og hefði verið ljóst að ákærði sæi um allan rekstur þess.
Aðspurður um reikning Moneybookers kvað vitnið forsvarsmann Moneybookers, V að nafni, ekki hafa kannast við að hafa stofnað þennan reikning. Ákærði hefði verið prókúruhafi reikningsins en óljóst hefði verið hvaðan innistæðan stafaði og hver ætti hana. Hefðu fundist gögn í tölvunni á Suðurgötu 3 um samskipti við erlendan veðbanka sem kallast Gamebookers þar sem svo virðist sem reikningurinn sé stofnaður að þeirra ósk og verið sé að veita starfsmönnum Gamebookers aðgengi að reikningnum til millifærslna. Moneybookers hefðu í fyrstu ekki kannast við þennan reikning en síðan sagst eiga þessa peninga og krafist þess að fá þá afhenta. Einhver tengsl væru greinilega milli Moneybookers og Gamebookers en þau væru augljóslega viðkvæm.
Aðspurður um hvers vegna liðið hefðu 7 mánuðir milli skýrslutaka af ákærða, kvað vitnið rannsóknina hafa verið umfangsmikla auk þess sem miklar annir hefðu verið við rannsókn annarra mála.
Vitnið G lýsti starfseminni að Suðurgötu 3 frá desember 2001 til septemberloka 2002 þannig að þar hefði félagsskapur áhugamanna um fjárhættuspil haft aðstöðu. Um væri að ræða einkaklúbb þar sem ekki mættu spila aðrir en félagsmenn og gestir þeirra. Menn hefðu ekki getað komið inn af götunni og spilað enda hefði það verið brot á reglum og hefði það gerst hefðu það verið mistök. Menn hefðu átt að greiða árgjald að fjárhæð 10.000-15.000 krónur, sem greiða hefði mátt í nokkrum greiðslum, en síðan hefði verið fallið frá því. Á árinu 2002 hefði verið opið fjóra daga í viku frá fimmtudegi til sunnudags og hefði verið opið frá klukkan 10 á kvöldin til klukkan 2 virka daga en til 6 í hæsta lagi um helgar. Vitnið kvaðst hafa verið félagsmaður í klúbbnum en ákærði hefði verið framkvæmdastjóri staðarins. Vitnið kvaðst stundum hafa aðstoðað á staðnum og þá helst við spilagjöf. Hefðu menn skipst á að vera „bankinn” og hefði vitnið stundum tekið það að sér. Kvað vitnið meðlimi klúbbsins hafa hjálpast að og tekið að sér að gefa og ýmislegt annað og hefði ákærði stundum verið gjafari. Aðspurður kvað vitnið stöðugt hafa farið fram endurbætur á húsnæði klúbbsins, einnig á árinu 2002. Gat vitnið ekki upplýst hvað endurbæturnar kostuðu en hins vegar mundi hann eftir því að á þessum tíma hefðu veggir verið klæddir með viðarþiljum og einnig hefði verið málað. Hann kvaðst hafa verið skráður formaður klúbbsins á einhverju tímabili en mundi ekki hvenær það var. Kvað vitnið klúbbinn hafa leitað til lögreglunnar og hefðu fulltrúar hennar komið á staðinn en engar athugasemdir gert við starfsemina. Engin leynd hefði hvílt yfir starfseminni. Aðspurður kvað hann félagið hafa óskað eftir því að ákærði starfaði fyrir félagið en hann hefði ekki fengið greidd laun fyrir störf sín frekar en aðrir sem störfuðu þar. Aðspurður kvað vitnið markmið félagsins hafa verið að gera mönnum kleift að stunda veðmál og peningaspil innan ramma laganna. Hefðu peningar sem kæmu inn átt að vera eign félagsins. Aðspurður kvaðst vitnið ekki hafa séð um bókhald félagsins og vissi hann ekki til þess að bókhald hefði verið haldið. Þá kvaðst hann ekki hafa séð um gerð leigusamnings fyrir félagið. Aðspurður um hvort félagið hefði átt bankareikning kvaðst vitnið ekki hafa komið að þeim hlutum og kvað framkvæmdastjóra félagsins hafa séð um endurbætur á húsnæðinu fyrir hönd félagsins með tekjum þess án þess að hann vissi hvar tekjurnar væru geymdar. Aðspurður um hverjir hefðu verið í stjórn félagsins á árinu 2002 kvaðst vitnið ekki muna það.
Vitnið B kvaðst ekki hafa komið að starfsemi Briddsklúbbsins á tímabilinu frá desember 2001 til október 2002 en hann hefði verið formaður klúbbsins nokkurn veginn frá stofnun hans og fram að þeim tíma. Ákærði hefði síðan tekið við sem formaður félagsins en vitnið kvaðst ekki hafa verið í tengslum við ákærða eða aðra sem spiluðu þar eftir þetta enda hefði hann hætt að spila um þetta leyti. Húsnæðið að Suðurgötu 3 hefði verið í eigu vitnisins og foreldra hans og hefði verið leigt Briddsklúbbnum en ákærði hefði skrifað undir samninginn fyrir hönd klúbbsins. Leigan hefði verið 150.000 krónur á mánuði. Staðfesti vitnið að endurbætur hefðu verið gerðar á húsnæðinu, t.d. hefði verið búið að taka niður létta milliveggi og mála. Leigusali hefði þó ekki þurft að borga fyrir endurbæturnar.
Aðspurður kvaðst vitnið hafa komið að því að semja lög félagsins. Kvað hann ástæðu þess að lögð hefði verið áhersla á að starfsemi félagsins væri innan ramma laganna vera þá að áður hefði starfsemi spilaklúbba verið upprætt. Hefði vitnið átt viðræður við lögregluyfirvöld um klúbbinn um mitt ár 1998 og sent þeim gögn yfir starfsemina og fulltrúar lögreglunnar komið á staðinn í framhaldi af því. Aðspurður kvað hann þá fjármuni, sem voru að veltast í fjárhættuspilunum, ekki hafa komið klúbbnum við heldur eingöngu þeim sem spiluðu við borðin. Enginn hefði fengið laun fyrir störf sín fyrir félagið. Vissi hann ekki til þess að nokkurn tíma hefðu verið greidd laun í klúbbnum.
Vitnið J kvaðst hafa verið á Suðurgötu 3 þegar lögregla gerði húsleit 28. september 2002. Hann hefði setið við spilaborð og fylgst með öðrum spila en hann sé óvirkur spilafíkill. Kvaðst hann hafa verið meðlimur í Briddsklúbbnum og hefði því getað komið í klúbbinn og spilað þegar hann vildi. Hefði hann ekki greitt félagsgjöld og mundi ekki eftir að um slík gjöld hefði verið rætt. Kvað hann ákærða hafa verið í forsvari fyrir klúbbnum á árinu 2002 en tók ekki eftir að einhver annar væri í forsvari á þessum tíma. Aðspurður kvaðst hann halda að engir aðrir en félagsmenn hefðu fengið að spila. Hefðu menn yfirleitt lagt undir 1.000 til 5.000 krónur. Kvaðst vitnið hafa eytt um 5.000 til 10.000 krónum í spilamennsku þegar hann var að spila.
W kom fyrir dóminn sem vitni. Hann kvaðst hafa komið í þrjú eða fjögur skipti á Suðurgötu 3 til að spila en hann mundi ekki til þess að hafa verið meðlimur í klúbbnum. Það gæti þó verið að hann hefði verið á meðlimaskrá. Kannaðist vitnið við færslur með kortum hans að fjárhæð 142.500, 150.000 og 1.100.000 sem fóru inn á reikning ákærða og greint er frá í lögregluskýrslu. Kvaðst hann hafa tapað tveimur minni upphæðunum sama kvöldið en hæsta talan hefði verið samtala þess sem hann hefði tapað önnur kvöld. Hefði hann því þurft að endurgreiða þessar fjárhæðir. Aðspurður kvað vitnið ákærða hafa verið í forsvari klúbbsins og vissi hann ekki til þess að einhver annar hefði verið þar í fyrirsvari.
K kom fyrir dóminn sem vitni. Borin var undir hana yfirlýsing sem hún undirritaði 19. mars sl. og staðfesti hún hana að efni og undirritun. Kvað vitnið þau ákærða hafa slitið samvistir í maí 2002 og væri hún nú búin að borga ákærða allt sem hann hefði greitt fyrir hana. Hún hefði endurgreitt honum að einhverju leyti þá fjármuni sem hann hefði lagt út vegna barnanna.
ÞH kom fyrir dóminn sem vitni og staðfesti framlagða yfirlýsingu sína á skjali dagsettu 19. mars sl. að efni og undirritun. Aðspurður kvaðst hann hafa lánað ákærða 1.000.000 krónur á árinu 2002 en ekki fengið kvittun fyrir því heldur hefði ákærði afhent honum ávísun. Þegar ákærði hefði greitt vitninu til baka hefði vitnið skilað ákærða ávísuninni. Aðspurður kvaðst vitnið hafa átt framangreinda peningafjárhæð heima hjá sér og því ekki þurft að fara í banka til þess að sækja hana. Hefði ákærði ekki upplýst vitnið um það hvers vegna hann þyrfti þetta lán. Aðspurður kvað vitnið þá ákærða vera vini.
Vitnið S, lögreglumaður, kvaðst hafa farið að Suðurgötu 3 ásamt HJ, lögreglumanni, og dönskum lögreglumanni. Hefðu þeir verið sendir þangað á vegum lögreglunnar. Þar hefði komið til dyra kona og hleypt þeim inn en þegar inn var komið hefðu þeir verið skráðir sem meðlimir í spilaklúbbi og þeim síðan leiðbeint um hvernig spilamennskan færi fram. Þeir hefðu borgað með greiðslukortum á barnum og fengið nótur sem þeir hefðu svo framvísað við spilaborðið þar sem nótunum hefði verið skipt út fyrir spilapeninga. Hefðu þeir síðan sest við rúllettuborð og þar hefði vitnið spilað fyrir 5.000 krónur.
I kom fyrir dóminn sem vitni. Hann kvaðst ekki hafa unnið fyrir Briddsklúbbinn og kannaðist ekki við að hafa fengið greitt fyrir vinnu á staðnum. Hann kvað ákærða hafa boðist til þess að lána vitninu peninga til að borga fyrir hann skuldir og hefði ákærði borgað fyrir hann reikninga í ársbyrjun 2002. Hafi ákærði lánað vitninu 600.000 krónur en vitnið borgað ákærða skuldina til baka smám saman á árinu 2002. Aðspurður kvaðst vitnið ekki hafa fengið kvittanir fyrir endurgreiðslunni.
Vitnið kvað eingöngu meðlimi spilaklúbbsins og gesti þeirra hafa mátt spila á Suðurgötu 3 enda um lokaðan einkaklúbb að ræða. Vitnið kvaðst hafa snúið rúllettunni og gefið í spilum einstaka sinnum. Ýmis spil hefðu verið spiluð og eitthvað hefði verið um að menn leggðu peninga undir. Hefðu menn þá keypt spilapeninga af þeim, sem var „bankinn” hverju sinni, en klúbbmeðlimir hefðu skipst á að gegna því hlutverki. Kvað vitnið ákærða hafa verið í fyrirsvari fyrir klúbbinn. Aðspurður kannaðist vitnið ekki að seldar hefðu verið veitingar í klúbbnum og hefði enginn verið rukkaður fyrir drykki. Þá kannaðist vitnið ekki við að hann eða aðrir hefðu veðjað á netinu í gegnum tölvu að Suðurgötu 3.
Á, eigandi fyrirtækisins [ ]., kom fyrir dóminn sem vitni. Hann kvað ákærða hafa unnið hjá fyrirtækinu í 4-5 mánuði á árunum 2002 og 2003 við ýmis dagleg störf, t.d. við tölvumál og uppsetningu á heimasíðu. Vitnið kvaðst hafa komið á Suðurgötu 3 til að spila. Hefðu menn þar lagt undir peninga og kvaðst vitnið hafa keypt sína spilapeninga af ákærða, sem var þarna í forsvari, og hefði annað hvort borgað með peningum eða debetkorti.
V kom fyrir dóminn sem vitni. Hann kvaðst hafa verið meðlimur í Briddsklúbbnum á árinu 2002 en í því hefði falist að hafa félagsskap af öðrum við spil. Ekki hefðu verið innheimt félagsgjöld af meðlimum en félagsmenn hefðu haft aðgang að húsnæðinu að Suðurgötu 3 og kvaðst vitnið ekki vita hvort félagsmönnum hefði verið heimilt að taka með sér gesti. Hefði ákærði verið í fyrirsvari fyrir klúbbinn. Vitnið kvaðst hafa spilað fjárhættuspil við félaga sína og þá hefði hann einnig veðjað á netinu á Suðurgötu 3. Aðspurður kannaðist vitnið við að hafa greitt með debetkorti og kreditkorti inn á kortaskanna í nafni ákærða, samtals rúmlega 1.300.000 krónur á tímabilinu janúar til maí 2002. Um væri að ræða úttekt á peningum ýmist til að leggja undir á netinu eða spila við einhvern annan. Aðspurður kvað vitnið áfengi hafa verið veitt á staðnum án endurgjalds. Staðfesti vitnið framburð sinn hjá lögreglu.
Niðurstaða.
Óumdeilt er að á Suðurgötu 3 voru stunduð fjárhættuspil á því tímabili sem um ræðir. Hins vegar er deilt um það hvort ákærði hafi rekið fjárhættuspil og veðmálastarfsemi í atvinnuskyni sér til lífsviðurværis. Gögn málsins sýna að einhvers konar spilaklúbbur var rekinn að Suðurgötu 3 allt fram til hausts 2002. Þegar litið er til vættis lögreglumanna hér fyrir dóminum þykir verða að miða við það að menn hafi getað komið þar og fengið að spila án þess að vera fyrirfram meðlimir klúbbsins eða gestir klúbbmeðlima. Verður því ekki talið að um lokaðan einkaklúbb hafi verið að ræða.
Samkvæmt gögnum málsins var ákærði í forsvari á Íslandi fyrir veðbankann Gamebookers. Á heimasíðunni vedbanki.net, sem ákærði hafði umsjón með, er krækja yfir á heimasíðu veðbanka Gamebookers og í ljós er leitt að ákærði stofnaði bankareikning sem notast var við við veðmálastarfsemina en reikningurinn var í nafni Moneybookers sem ákærði var eini prókúruhafinn fyrir. Í framburði vitnisins VÞ hjá lögreglu og hér fyrir dóminum kemur fram að hann veðjaði á netinu í gegnum tölvuna að Suðurgötu 3.
Í ljós er leitt að öll fjármálaumsvif vegna starfseminnar að Suðurgötu 3 fór um reikning ákærða í Íslandsbanka nr. 30126. Þá var kortaskanni, sem notaður var á staðnum, á nafni ákærða. Fram kom í framburðum vitna að ákærði var í fyrirsvari fyrir klúbbinn og sjálfur tók hann húsnæðið að Suðurgötu 3 á leigu. Af framburðum vitna, sem sögðust vera félagar í Briddsklúbbnum, liggur ekki fyrir að aðrir en ákærði hafi komið að stjórn og rekstri starfseminnar að Suðurgötu 3 á umræddu tímabili.
Þótt ekki liggi fyrir nákvæmar tölur um hagnað af framangreindum rekstri er ljóst af gögnum málsins að veltan var mikil. Fyrir liggur að velta á reikningi ákærða, sem stofnaður var í apríl 2001, var 12 milljónir króna á árinu 2001 en 47 milljónir á árinu 2002. Talsverður hluti fjárins kom í gegnum kortaskanna á nafni ákærða. Fram er komið að nokkrar endurbætur á húsnæðinu að Suðurgötu 3 fóru fram sem fólust einkum í málningu og niðurbroti á léttum milliveggjum. Engin gögn liggja þó fyrir um kostnað við framkvæmdirnar og hjá vitninu B, leigusala húsnæðisins, kom fram að hann hefði ekki þurft að endurgreiða leigutaka vegna endurbótanna þegar leigutíma lauk. Verður með hliðsjón af framanrituðu og framburðum vitna að telja að kostnaður við endurbætur húsnæðisins hafi ekki numið verulegum fjárhæðum. Verður að telja ljóst að ákærði hafi haft hagnað af rekstrinum að Suðurgötu 3 þótt ekki liggi fyrir nákvæmar tölur um hversu mikill hann hafi verið.
Upplýsingar um tekjur ákærða á árinu 2002 liggja frammi í skattskýrslu hans og launaseðlum frá [ ] vegna launa fyrir mánuðina júlí til og með október 2002 að heildarfjárhæð 1.000.000 krónur. Þá lýsti ákærði því fyrir dóminum að hann hefði átt söluhagnað í upphafi ársins 2002 sem ekki kæmi fram á skattskýrslu án þess þó að fjárhæð hans væri tilgreind. Við aðalmeðferð málsins lagði ákærði fram yfirlýsingu ÞH frá 19. mars sl. um að ákærði hafi fengið hjá honum lán að fjárhæð 1.000.000 krónur sem ákærði hafi endurgreitt á árinu 2003. Sama dag lagði ákærði fram yfirlýsingu K, fyrrverandi sambýliskonu sinnar, dagsett 19. mars sl. um að hún hafi endurgreitt ákærða 500.000 krónur á árinu 2002 þegar þau slitu samvistum. Ákærði hafði ekki upplýst um framangreint við lögreglurannsókn þótt lögregla hafi þá ítrekað spurt hann út í fjármál hans. Þá liggja engin önnur gögn fyrir um ofangreind viðskipti, hvorki kvittanir né yfirlit yfir bankafærslur. Þykja gögn þessi ekki trúverðug þegar litið er til þess að þau voru fyrst lögð fram við aðalmeðferð málsins og að ákærði hafði hvorki minnst á þessi viðskipti við lögreglurannsókn né við fyrirtökur málsins hér fyrir dóminum.
Að öllu framanrituðu virtu þykir í ljós leitt að ákærði hafi staðið fyrir rekstri fjárhættuspils og veðmálastarfsemi í húsnæði að Suðurgötu 3 sem hann hafði á leigu. Eins og að framan er lýst fóru allir fjármunir vegna rekstrarins í gegnum reikning ákærða og var veltan veruleg. Telja verður að ákærði hafi staðið að starfseminni í atvinnuskyni enda þótt hann hafi haft aðra atvinnu hluta ársins 2002. Hefur ákærði því gerst sekur um brot þau sem honum eru gefin að sök í ákæru og eru þar réttilega heimfærð til refsiákvæða.
Viðurlög.
Framlagt sakavottorð skv. 3. og 11. gr. reglugerðar nr. 569/1999 ber með sér að ákærði hafi ekki áður brotið af sér en undir rekstri málsins fyrir dóminum var í ljós leitt að ákærði var dæmdur til refsingar með dómi Hæstaréttar Íslands 16. desember 1993 fyrir brot gegn 183. og 184. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 auk áfengislagabrots. Var ákærði þá dæmdur í þriggja mánaða fangelsi skilorðsbundið í 3 ár og til greiðslu 300.000 króna sektar. Refsing ákærða nú þykir hæfilega ákveðin fangelsi í fjóra mánuði. Rétt þykir að fresta framkvæmd refsingarinnar og fellur hún niður að liðnum þremur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga. Þá þykir rétt að ákærði greiði 500.000 krónur í sekt til ríkissjóðs og komi 65 daga fangelsi í stað sektarinnar greiðist hún ekki innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins.
Samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga ber að dæma ákærða til þess að þola upptöku til ríkissjóðs á fimm spilaborðum, spilapeningum og spilastokkum. Gerð er krafa um að jafnframt verði gerðir upptækir fylgihlutir með spilaborðunum fimm en óvíst er við hvað er átt og ber því að vísa upptökukröfunni frá að því er varðar fylgihlutina. Með vísan til 3. tl. 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga er ákærða gert að sæta upptöku á eftirgreindum fjármunum:
Peningaseðlum og einni ávísun að fjárhæð kr. 25.000, samtals kr. 2.182.000.
Innistæðu að fjárhæð kr. 678.678 ásamt áföllnum vöxtum sem var á reikningi nr. [ ] á nafni ákærða.
Innistæðu að fjárhæð 307.635 ásamt áföllnum vöxtum hjá Kreditkortum hf. vegna færslna með greiðslukortum í gegnum kortaskanna sem ákærði hafði afnot af með þjónustusamningum við greiðslukortafyrirtækið.
Innistæðu að fjárhæð kr. 1.594.149 ásamt áföllnum vöxtum hjá Greiðslumiðlun hf. vegna færslna með greiðslukortum í gegnum kortaskanna sem ákærði hafði afnot af með þjónustusamningum við greiðslukortafyrirtækið.
Innistæðu að fjárhæð kr. 342.550 ásamt áföllnum vöxtum sem var á reikningi nr. [ ] á nafni Moneybookers Ltd., kt. 621101-9190.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóns Magnússonar hrl., 150.000 krónur.
Sigríður Friðjónsdóttir, saksóknari, flutti málið af hálfu ákæruvaldsins.
Arnfríður Einarsdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Ákærði, Brynjar Valdimarsson, sæti fangelsi í 4 mánuði. Framkvæmd refsingarinnar er frestað og fellur hún niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærði greiði 500.000 krónur í sekt í ríkissjóð og komi 65 daga fangelsi í stað sektarinnar, greiðist hún ekki innan fjögurra vikna frá dómsbirtingu.
Ákærði þoli upptöku til ríkissjóðs á fimm spilaborðum, spilapeningum og spilastokkum, peningaseðlum og einni ávísun að fjárhæð kr. 25.000, samtals kr. 2.182.000, innistæðu að fjárhæð kr. 678.678 ásamt áföllnum vöxtum sem var á reikningi nr. [ ] á nafni ákærða, innistæðu að fjárhæð 307.635 ásamt áföllnum vöxtum hjá Kreditkortum hf., innistæðu að fjárhæð kr. 1.594.149 ásamt áföllnum vöxtum hjá Greiðslumiðlun hf., innistæðu að fjárhæð kr. 342.550 ásamt áföllnum vöxtum sem var á reikningi nr. [ ] á nafni Moneybookers Ltd., kt. 621101-9190.
Ákærði greiði allan sakarkostnað þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóns Magnússonar hrl., 150.000 krónur.