Hæstiréttur íslands

Mál nr. 361/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Þriðjudaginn 10

 

Þriðjudaginn 10. júlí 2007.

Nr. 361/2007.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Stefán Eiríksson lögreglustjóri)

gegn

X

(Guðjón Ólafur Jónsson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var felldur úr gildi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Árni Kolbeinsson og Hjördís Hákonardóttir.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. júlí 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 9. júlí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 4. júlí 2007, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 15. ágúst 2007 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Varnaraðili var handtekinn 29. júní síðastliðinn í framhaldi af því að hann hringdi sjálfur til Neyðarlínu. Tjáði hann lögreglu að hann hefði tekið konu sína hálstaki og reynt að bana henni. Hann var yfirheyrður án þess að lögmaður væri viðstaddur en var síðan sleppt. Lögregla talaði við konuna en ekki hefur verið tekin af henni formleg skýrsla og ekki heldur af dóttur þeirra sem var heima eða eldri dóttur mannsins sem nefnd er í lögregluskýrslum. Konan neitaði að kæra atburðinn og ekkert áverkavottorð liggur fyrir. Hinn 4. júlí var varnaraðili handtekinn á ný án þess að nýtt tilefni væri fyrir hendi og úrskurðaður í gæsluvarðhald. Eftir það hefur konan gefið út yfirlýsingu þess efnis að hún hafi enga áverka hlotið, hún óttist varnaraðila ekki og hafi neitað að kæra hann, en að andlegt ástand hans hafi verið slæmt. Jafnframt því að vera úrskurðaður í gæsluvarðhald var varnaraðila sama dag gert að sæta geðrannsókn og mótmælti hann ekki þeirri kröfu.

Eins og mál þetta liggur nú fyrir er það ekki fullrannsakað og hefur játning varnaraðila ekki verið studd þeim rökum að fullyrt verði að sterkur grunur sé til staðar um að hann hafi gerst sekur um brot gegn 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 eða 2. mgr. 218. gr. sömu laga og að varðhald sé því nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Með hliðsjón af framangreindu verður varnaraðila ekki gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Verður hinn kærði úrskurði því felldur úr gildi.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.

                                                                                   

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 4. júlí 2007.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að úrskurðað verði að X, kt. [...] verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 15. ágúst nk. kl. 16:00. Þá gerir sækjandi þá kröfu munnlega að dómari dómkveðji geðlækni til að framkvæma mat á því hvort kærði sé sakhæfur í skilningi 15. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, eða eftir atvikum hvort ætla megi að refsing geti borið árangur, sbr. 16. gr. sömu laga, sbr. d lið 1. mgr. 71. gr. laga nr. 19/1991.

Kærði hefur mótmælt gæsluvarðhaldskröfunni en krefst þess til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími. Hins vegar mótmælir kærði ekki kröfu lögreglustjóra um dómkvaðningu matsmanns.

Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að föstudaginn 29. júní sl. hafi lögreglu borist tilkynning um að hringt hefði verið í Neyðarlínu frá [...] í Kópavogi og óskað aðstoðar en síðan skellt á.

Lögreglumenn hefðu haldið á vettvang og hringt dyrabjöllu að [...] og hefði kærði komið til dyra. Aðspurður hefði kærði sagst hafa reynt að drepa konu sína, Y, með því að kyrkja hana en hætt við þegar hann sá að hún var að missa meðvitund. Þá hefði hann farið í símann og reynt að hringja eftir aðstoð Neyðarlínunnar. Hefði kærði ítrekað að hann hefði ráðist á Y í þeim tilgangi að myrða hana. Hefði kærði verið handtekinn.

Y hefði verið rauð um hálsinn og í nokkurri geðshræringu. Hún hefði sagt kærða hafa átt erfitt andlega um langa hríð vegna þunglyndis, höfuðverkja o.fl. og hann hefði ítrekað leitað sér læknisaðstoðar vegna þessa og tæki þunglyndislyf.

Við yfirheyrslu hjá lögreglu sama dag hefði kærði játað að hafa ráðist með ofbeldi á eiginkonu sína í skrifstofuherbergi hennar í þeim tilgangi að bana henni. Hefði kærði ekki getað skýrt hver væri ástæða árásarinnar en kvað þau hjónin hafa rifist í um það bil 10-15 mínútur og hann verið orðinn mjög reiður og sár þegar hann hefði gengið að Y, tekið með báðum höndum utan um háls hennar og hert að. Þá hefði kærði viðurkennt að hafa lagt hendur á Y fjórum til sex sinnum frá því að þau byrjuðu saman fyrir rúmlega 17 árum.

Y hefði staðfest framburð kærða að mestu leyti í skýrslutöku hjá lögreglu þann 29. júní. Þá hefði hún lýst því að það hefði áður komið til slagsmála milli þeirra en þau hefðu ekki verið alvarleg og þá hefði kærða einnig lent saman við eldri dóttur sína. Einnig hefði dóttir kærða og Y sagt lögreglu á vettvangi  að faðir hennar hefði lagt hendur á eldri systur hennar og að foreldrar hennar rifust oft og að stundum enduðu deilurnar með ofbeldi.

Lögregla kveður rannsókn máls þessa vera á lokastigi

Lögreglustjóri vísar til þess að sterkur og rökstuddur grunur leiki á því að kærði hafi framið brot gegn 211., sbr. 20. gr. eða 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 20/1981, sem getur varðað allt að 16 ára eða ævilöngu fangelsi.  Verið sé að rannsaka mál þar sem kærði hefur játað að hafa beitt stórhættulegri aðferð gegn brotaþola í því skyni að bana henni. Telur lögreglustjóri brotið vera þess eðlis að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. 

Vísað er til framangreinds, hjálagðra gagna og 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.

Með vísan til framanritaðs og með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum er það mat dómsins að fram sé kominn sterkur grunur um að kærði hafi framið það brot sem hann er grunaður um og getur það varðað við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga og jafnvel við 211. gr., sbr. 20. gr., sömu laga. Að öllu framangreindu virtu og með hliðsjón af því hversu alvarlega háttsemi kærði er sakaður um, teljast uppfyllt skilyrði til að hann sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, enda getur brotið varðað að lögum 10 ára fangelsi og er þess eðlis að telja verður nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna að kærði sæti gæsluvarðhaldi. Verður því fallist á kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu eins og hún er fram sett.

ÚRSKURÐARORÐ

Kærði, X, [...], Kópavogi, sæti gæsluvarðhaldi allt til kl. 16:00 miðvikudaginn 15. ágúst 2007.