Hæstiréttur íslands
Mál nr. 234/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Nauðungarsala
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Fimmtudaginn 16. apríl 2015. |
|
Nr. 234/2015.
|
Í Paradís ehf. (Sverrir Sverrisson fyrirsvarsmaður) gegn Arion banka hf. (enginn) |
Kærumál. Nauðungarsala. Frávísunarúrskurður staðfestur.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem máli Í ehf. gegn A hf. var vísað frá dómi með vísan til þess að sá tímafrestur sem fram kæmi í 80. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu, til að leita úrlausnar héraðsdómara um gildi nauðungarsölu, hefði verið liðinn og þar sem Í ehf. hefði ekki lýst því yfir við fyrirtöku sýslumanns á nauðungarsölunni að hann hygðist leita úrlausnar héraðsdómara um ágreining varðandi úthlutun söluverðs, sbr. 1. málslið 2. mgr. 73. gr. sömu laga.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. mars 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 6. mars 2015 þar sem vísað var frá dómi máli sóknaraðila gegn varnaraðila varðandi nauðungarsölu á fasteigninni Hallkelshólum í Grímsnes- og Grafningshreppi. Kæruheimild er í 1. mgr. 79. gr. og 1. mgr. 85. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Sóknaraðili krefst þess að lagt verði fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar, svo og að kæran „fresti aðgerðum á grundvelli hins kærða úrskurðar við hina umþrættu úthlutun söluverðs“. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Kærumálskostnaður dæmist ekki.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 6. mars 2015.
Með tilkynningu/beiðni til héraðsdómara, dagsettri 16. febrúar 2015, sem móttekin var sama dag, leitar sóknaraðili, Í Paradís ehf., kt. [...], úrlausnar héraðsdómara vegna nauðungarsölu á fasteigninni Hallkelshólum, lóð 168504, Grímsnes- og Grafningshreppi, fnr. 227-5317, sem fram fór hjá sýslumanninum á Selfossi. Kröfum sínum til stuðnings vísar fyrirsvarsmaður sóknaraðila til XIII. kafla laga nr. 90/1990, sem væntanlega er misritun og eigi að vera XIII. kafli laga um nauðungarsölu nr. 90/1991. Kröfur sóknaraðila eru eftirfarandi: Aðallega að meðferð nauðungarsölumálsins í heild hjá fyrrum embætti sýslumannsins á Selfossi verði dæmd dauð og ómerk, og nauðungarsalan felld úr gildi. Til vara krefst sóknaraðili þess að felld verði úr gildi ákvörðun sýslumanns, dagsett 21. janúar 2015, þess efnis að frumvarp til úthlutunar söluverðs viðkomandi eignar skuli standa óbreytt. Til þrautavara krefst sóknaraðili þess að verði ekki fallist á aðalkröfu hans, verði þó úrskurðað að kæra slíks úrskurðar fresti aðgerðum á grundvelli hans, samkvæmt 3. mgr. 79. gr. laga nr. 90/1991. Loks krefst sóknaraðili málskostnaðar að mati dómsins í öllum tilvikum.
I.
Sóknaraðili hefur tvisvar áður lagt mál tengt nauðungarsölumeðferð á fasteigninni Hrafnkelshólum, lóð 168504, fnr. 227-5317, fyrir héraðsdómara. Í fyrra skiptið var málinu vísað frá dómi með úrskurði Héraðsdóms Suðurlands 24. október 2013, sem staðfestur var í Hæstarétti 27. nóvember sama ár, sbr. mál dómsins nr. 723/2013. Í því máli krafðist sóknaraðili þess aðallega að uppboðsbeiðni Arion banka hf., um uppboð á eigninni yrði hafnað. Í síðara skiptið var málinu einnig vísað frá dómi með úrskurði Héraðsdóms Suðurlands 2. apríl 2014, þar sem sóknaraðili setti ekki málskostnaðartryggingu sem honum var gert að leggja fram með úrskurði dómsins 12. mars 2014, að kröfu Arion banka hf.
II.
Samkvæmt tilkynningu sóknaraðila til héraðsdómara, dagsettri 16. febrúar sl., er efni ágreinings þess sem sóknaraðili leitar úrlausnar vegna lýst á eftirfarandi hátt. Sóknaraðili leiti úrlausnar Héraðsdóms Suðurlands um ágreining er varði ákvörðun sýslumanns þess efnis að frumvarp til úthlutunar söluverðs viðkomandi eignar skuli standa óbreytt en umrædd ákvörðun hafi verið tekin við fyrirtöku hjá sýslumanni þann 21. janúar sl. Aðalkrafa sóknaraðila er ekki í samræmi við framangreindan málatilbúnað, auk þess sem hún verður ekki byggð á þeim lagaákvæðum sem sóknaraðili vísar til í tilkynningu sinni. Aðalkrafa, sem og þrautavarakrafa sóknaraðila, hefði með réttu átt að byggja á XIV. kafla nauðungarsölulaga, sér í lagi 80. gr. laganna. Í áðurgreindu bréfi sóknaraðila til dómsins, kemur ekki fram hvenær nauðungarsala á eigninni Hallkelshólum fór fram. Samkvæmt staðfestu endurriti úr gerðabók sýslumannsins á Selfossi fór framhald uppboðs fram á eigninni sjálfri 21. nóvember 2013. Samkvæmt endurritinu lýsti sýslumaður því að uppboði á eigninni væri lokið og yrði boð hæstbjóðanda, Arion banka hf., samþykkt ef greiðsla bærist í samræmi við uppboðsskilmála þann 5. desember 2013. Af gögnum málsins má ráða að hæstbjóðandi, Arion banki hf., hafi staðið við boð sitt frá 21. nóvember 2013. Í 1. mgr. 80. gr. laganna segir að þegar uppboði hefur verið lokið samkvæmt V. eða XI. kafla, tilboði hefur verið tekið í eign samkvæmt VI. kafla eða andvirði réttinda hefur verið greitt sýslumanni eftir ráðstöfun samkvæmt 2. eða 3. mgr. 71. gr., geti hver sá sem hefur lögvarinna hagsmuna að gæta leitað úrlaunar héraðsdómara um gildi nauðungarsölunnar, en krafa þess efnis skal þá berast héraðsdómara innan fjögurra vikna frá því fyrrgreinda tímamarki sem á við hverju sinni. Frá framangreindum fresti eru þó tvenns konar undantekningar sem koma fram í 2. og. 3. mgr. 80. gr. laganna. Í fyrrnefnda ákvæðinu, sem hér kemur til sérstakrar skoðunar, segir að þegar frestur samkvæmt 1. mgr. er liðinn verður því aðeins leitað úrlausnar héraðsdómara um gildi nauðungarsölu að það sé samþykkt af hendi allra aðila að henni, sem hafa haft uppi kröfur fyrir sýslumanni og úrlausnin gæti varðað, svo og kaupanda að eigninni ef um hann er að ræða. Gerir ákvæðið þannig ráð fyrir að þeir sem gætu orðið fyrir röskun hagsmuna sinna af ógildingu nauðungarsölu, geti alltaf fallið frá þeirri vernd sem þeim er búin af málshöfðunarfrestinum.
Þar sem málshöfðunarfrestur samkvæmt 1. mgr. 80 gr. laga nr. 90/1991 er löngu liðinn og ekki hefur verið lögð fram sérstök yfirlýsing samkvæmt 2. mgr. greinarinnar, verður aðal- og þrautavarakröfum sóknaraðila þegar af þeirri ástæðu vísað frá dómi án þess að kveðja til aðila málsins eða taka það að öðru leyti fyrir á dómþingi, sbr. 1. mgr. 82. gr. laga nr. 90/1991.
Varakrafa sóknaraðila lýtur að ágreiningi um úthlutun söluverðs. Í 1. mgr. 52. gr. laga nr. 90/1991 er heimild til að leita úrlausnar héraðsdóms um slíkan ágreining eftir reglum XIII. kafla laga nr. 90/1991. Fjallar 1. málsliður 2. mgr. 73. gr., um það hvernig standa skuli að því að leita úrlausnar héraðsdómara ef sá sem þess óskar er viðstaddur fyrirtöku þar sem ákvörðun kemur fram, en 2. málsliður 2. mgr. 73. gr., um það þegar sá sem vill leita úrlausnar héraðsdómara er ekki viðstaddur fyrirtökuna. Varakrafa sóknaraðila í máli þessu er að felld verði úr gildi ákvörðun sýslumanns, dagsett 21. janúar 2015, þess efnis að frumvarp til úthlutunar söluverðs viðkomandi eignar skuli standa óbreytt.
Ráða má af gögnum málsins að hæstbjóðandi, Arion banki hf., hafi staðið við boð sitt í umrædda eign frá 21. nóvember 2013 eins og áður er rakið. Bera gögn málsins með sér að sýslumaður hafi þann 13. maí 2014 gert frumvarp til úthlutunar söluverðs eignarinnar og var frestur til að koma að mótmælum við frumvarpið til 30. sama mánaðar. Sóknaraðili sendi sýslumanni mótmæli innan þess frests, þ.e. greinargerð dagsett 27. maí 2014. Samkvæmt staðfestu endurriti úr gerðabók sýslumanns frá 21. janúar 2015 voru mótmæli tekin fyrir á fundi sem sýslumaður boðaði til umræddan dag samkvæmt fyrirmælum 1. mgr. 52. gr. laga nr. 90/1991. Í áðurgreindu endurriti kemur fram að forsvarsmaður sóknaraðila hafi mætt til fundarins og vísað kröfu sinni til stuðnings til áður sendra mótmæla sem og til greinargerðar sem hann lagði fram á fundinum. Þá er bókað um mótmæli Arion banka hf., við kröfugerð sóknaraðila. Sýslumaður hafnaði öllum mótmælum sóknaraðila og bókaði þá ákvörðun sína að frumvarp til úthlutunar, dagsett 13. maí 2014, skuli standa óbreytt. Þá vakti sýslumaður athygli viðstaddra á því að unnt væri að bera þessa ákvörðun hans undir Héraðsdóm Suðurlands samkvæmt 73. gr. nauðungarsölulaga nr. 90/1991.
Eins og rakið er hér að framan háttar þannig til í máli þessu að fyrirsvarsmaður sóknaraðila var viðstaddur fund þann sem sýslumaður boðaði til þann 21. janúar sl., í samræmi við 1. málslið 1. mgr. 52. gr. laga nr. 90/1991. Einnig liggur fyrir að á fundinum gaf sýslumaður hlutaðeigendum kost á að tjá sig um mótmælin og að samkomulag tókst ekki milli hlutaðeigandi. Í framhaldi af því ákvað sýslumaður að frumvarpinu yrði ekki breytt og var bókað um það í gerðabók, þ.e. ekki var fallist á mótmæli sóknaraðila. Þá ber endurrit úr gerðabók sýslumanns af umræddum fundi með sér að sýslumaður gætti leiðbeiningarskyldu sinnar hvað málsskot varðar gagnvart forsvarsmanni sóknaraðila, sem er ólöglærður, og vakti athygli á heimild til að leita úrlausnar héraðsdómara um framangreindan ágreining, sbr. 73. gr. laga nr. 90/1991.
Þegar þannig háttar til sem að ofan er rakið, skal sá sem vill leita úrlausnar héraðsdómara lýsa því yfir við fyrirtökuna þar sem sú ákvörðun kemur fram sem leita á úrlausnar dómara um, sbr. 1. málslið 2. mgr. 73. gr. laga nr. 90/1991. Samkvæmt staðfestu endurriti gerðabókar umrædds fundar er enga slíka yfirlýsingu að finna frá sóknaraðila. Þá er heldur ekki að finna slíka yfirlýsingu í skriflegum mótmælum/greinargerðum sóknaraðila, hvorki í greinargerð hans dagsettri 27. maí 2014, né greinargerðinni dagsettri 20. janúar 2015. Með vísan til þessa er óhjákvæmilegt að vísa varakröfu sóknaraðila frá dómi án þess að kveðja til aðila málsins eða taka það að öðru leyti fyrir á dómþingi, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga nr. 90/1991.
Ragnheiður Thorlacius héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Máli þessu er vísað frá dómi.