Hæstiréttur íslands
Mál nr. 620/2011
Lykilorð
- Verksamningur
- Gagnsök
- Frávísun frá héraðsdómi að hluta
- Aðfinnslur
|
|
Fimmtudaginn 31. maí 2012. |
|
Nr. 620/2011.
|
Vegagerðin (Reynir Karlsson hrl.) gegn Vélsmiðju Orms og Víglundar ehf. (Jón Auðunn Jónsson hrl.) |
Verksamningur. Gagnsök. Frávísun frá héraðsdómi að hluta. Aðfinnslur.
V keypti ferju á árinu 2005 sem nota átti til farþegaflutninga. Verk vegna viðgerða og endurbóta á ferjunni var boðið út og samið við V ehf. á grundvelli tilboðs félagsins í verkið. Ágreiningur reis um uppgjör í viðskiptum þessum og höfðaði V ehf. mál til heimtu eftirstöðva samningsgreiðslna og greiðslna vegna aukaverka. V hafði haldið eftir 10% af samningsfjárhæðinni vegna ákvæða í samningnum um tafabætur. V taldi jafnframt galla vera á verkinu og höfðaði gagnsakarmál á hendur V ehf. Þar sem gagnsökin var ekki höfðuð innan þeirra tímamarka sem áskilin eru í 2. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og undantekning 3. mgr. ákvæðisins ekki talin eiga við vísaði Hæstiréttur gagnsökinni frá héraðsdómi. Með hliðsjón af ónákvæmri útboðslýsingu og þar af leiðandi miklum fjölda aukaverka voru ekki taldar forsendur fyrir tafabótum enda lá ekki fyrir að tafirnar sem á verklokum urðu væru að rekja til vanefnda af hálfu V ehf. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms, sem skipaður var sérfróðum meðdómendum, var hann staðfestur um greiðsluskyldu V vegna eftirstöðva samningsgreiðslna og fjölmargra aukaverka.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 5. október 2011. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 16. nóvember 2011 og áfrýjaði hann öðru sinni 22. sama mánaðar samkvæmt heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hann krefst þess aðallega að dómkröfu stefnda verði vísað frá héraðsdómi, til vara að hann verði sýknaður af kröfunni og að því frágengnu að krafa stefnda verði lækkuð og dráttarvaxtakröfu vísað frá héraðsdómi. Þá krefst áfrýjandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 28.026.226 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 18. mars 2010 til greiðsludags. Loks krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi á mál þetta rætur að rekja til þess að á árinu 2005 keypti áfrýjandi ferju sem nota átti til farþegaflutninga milli Dalvíkur og Grímseyjar. Ferjan hafði verið smíðuð árið 1995 og var í slæmu ástandi vegna skorts á viðhaldi. Verk vegna viðgerða og endurbóta á ferjunni var boðið út og var samið við stefnda á grundvelli tilboðs hans í verkið. Verksamningur milli aðila var undirritaður 6. apríl 2006 og samkvæmt honum áttu verklok að vera 31. október sama ár. Fljótlega kom í ljós að umfang verksins var mun meira en fram kom í útboðslýsingu og urðu tafir á afhendingu þess. Snýst ágreiningur aðila um uppgjör á eftirstöðvum samningsgreiðslna og aukaverka. Þá er ágreiningur um hvort áfrýjandi eigi rétt á bótum vegna tafa og galla á verkinu.
Mál þetta höfðaði stefndi til heimtu eftirstöðva samningsgreiðslna og greiðslna vegna aukaverka og var það þingfest 4. febrúar 2010. Áfrýjandi höfðaði gagnsakarmál vegna ætlaðra galla á verkinu á hendur stefnda með stefnu sem árituð var um birtingu 5. mars 2010. Samkvæmt 2. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 verður að höfða gagnsök innan mánaðar frá þingfestingu aðalsakar nema það verði ekki metið varnaraðila til vanrækslu að hafa ekki gert gagnkröfu sína í tæka tíð, sbr. 3. mgr. sömu lagagreinar. Ekki verður séð að undantekningin hafi átt hér við og er því óhjákvæmilegt samkvæmt afdráttarlausu orðalagi 2. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 að vísa gagnsök frá héraðsdómi.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms, sem skipaður var sérfróðum meðdómendum, verður hann staðfestur.
Stefndi gerði í stefnu kröfu um dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001. Í dómsorði hins áfrýjaða dóms var kveðið á um að krafa stefnda skyldi bera 5.5% dráttarvexti. Fyrir liggur að dráttarvextir samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 hafa á því tímabili sem vaxtakrafa stefnda nær til verið hærri en 5,5% ársvextir. Þar sem stefndi hefur aðeins krafist staðfestingar héraðsdóms verður ekki hróflað við þessari niðurstöðu.
Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Það athugist að verksamningur aðila var lagður fram á erlendu tungumáli án þýðingar á íslensku, sbr. 10. gr. laga nr. 91/1991. Er þetta aðfinnsluvert.
Dómsorð:
Gagnsök, sem áfrýjandi höfðaði 5. mars 2010, er vísað frá héraðsdómi.
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Vegagerðin, greiði stefnda, Vélsmiðju Orms og Víglundar ehf., 1.200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. júlí 2011.
Mál þetta, sem dómtekið var 16. júní síðastliðinn, var höfðað í aðalsök með stefnu birtri 29. janúar 2010 af Vélsmiðju Orms og Víglundar ehf., Kaplahrauni 14-16, Hafnarfirði, gegn Vegagerð ríkisins, Borgartúni 5-7, Reykjavík. Gagnstefna var lögð fram í málinu í þinghaldi 18. mars sama ár og frá þeim tíma hafa málin verið rekin sem eitt mál.
Í aðalsök krefst aðalstefnandi þess að aðalstefndi verði dæmdur til að greiða 264.466 evrur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 28. febrúar 2008 til greiðsludags auk málskostnaðar að mati dómsins.
Af hálfu aðalstefnda er þess aðallega krafist í aðalsök að málinu verði vísað frá dómi. Til vara krefst hann sýknu af öllum kröfum aðalstefnanda en til þrautavara að stefnukröfurnar verði lækkaðar og að dráttarvaxtakröfu aðalstefnanda verði vísað frá dómi. Í gagnsök krefst gagnstefnandi þess að gagnstefndi verði dæmdur til að greiða 29.077.140 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 18. mars 2010 til greiðsludags. Þá krefst gagnstefnandi þess að aðalstefnandi og gagnstefndi verði dæmdur til að greiða málskostnað í aðal- og gagnsök samkvæmt málskostnaðarreikningi.
Gagnstefndi krefst sýknu af kröfum gagnstefnanda í gagnsök og málskostnaðar að mati dómsins.
Í þinghaldi 29. október sl. var ákveðið að beiðni aðalstefnda að fresta umfjöllun um frávísunarkröfu aðalstefnda þar til við aðalmeðferð málsins en það var talið til hagræðingar við málareksturinn.
Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna
Á árinu 2003 skipaði samgönguráðherra starfshóp til að fjalla um samgöngur til Grímseyjar. Starfshópurinn taldi hagkvæmara að kaupa notaða ferju, lagfæra hana og breyta þannig að hún fullnægði öllum kröfum sem gerðar yrðu til farþega- og flutningaskips á leiðinni milli Dalvíkur og Grímseyjar. Ákveðið var því að kanna möguleika á kaupum á notuðu skipi. Haustið 2004 skoðuðu skipaverkfræðingar ferjuna Oleain Arann frá Írlandi. Í ljós kom að hún var í slæmu ástandi vegna skorts á viðhaldi. Fyrsta kostnaðaráætlun sem gerð var af þessu tilefni var að fjárhæð 150.000.000 króna. Samþykkt var í ríkisstjórn að kaupa ferjuna að tillögu þáverandi samgönguráðherra.
Aðalstefndi keypti ferjuna í nóvember 2005. Ferjan var smíðuð árið 1992 og hafði ekki verið í rekstri þegar kaupin voru gerð. Verkfræðistofunni Navis Fengur ehf. var falið að gera útboðslýsingu og kostnaðaráætlun vegna viðgerða og endurbóta á ferjunni og var það verk unnið af Agnari Erlingssyni og Karli Lúðvíkssyni skipaverkfræðingum. Verkið var boðið út af Ríkiskaupum á evrópska efnahagssvæðinu og bárust tilboð frá sex aðilum. Aðalstefnandi átti næstlægsta tilboðið og var samið við hann eftir að lægstbjóðandi féll frá boði sínu. Verksamningur var síðan undirritaður 6. apríl 2006 og var samningsupphæðin 1.300.615,28 evrur.
Samkvæmt samningnum átti aðalstefndi að afhenda aðalstefnanda skipið ekki síðar en 1. maí 2006 og verklok áttu að vera 31. október sama ár. Eftirlit með endurbótum fyrir hönd aðalstefnda hafði fyrrgreind verkfræðistofa, Navis Fengur ehf.
Snemma kom í ljós að umfang verksins var mun meira en fram kom í útboðslýsingu. Var þar aðallega um að ræða aukna endurnýjun á stáli í byrðing skipsins eftir að þykktarmæling á bolnum hafði verið gerð. Þá var þykkt á stáli í perustefni aukin um 4 mm umfram samning. Vegna bolviðgerða var flotkví aðalstefnanda bundin við verkið lengur en áætlað var. Aðalstefnandi hefur enn fremur lýst því að stálviðgerðir hafi verið erfiðari þar sem þær hefðu farið fram að vetri til vegna tafa við umfangsmeira verk en því hefði aðalstefnandi ekki gert ráð fyrir við tilboðsgerð. Þá kom í ljós við skoðanir ýmissa rýma í skipinu að viðgerða og hreinsunar var þörf. Með aukaverkum jókst bæði verktími og kostnaður.
Af hálfu aðalstefnda er því haldið fram að verkið hafi dregist langt umfram það sem eðlilegt geti talist vegna aukaverka. Ágreiningur hafi verið með málsaðilum um túlkun útboðsgagna. Aðalstefnandi virtist hvorki hafa burði né mannskap til að sinna verkinu. Skipulagsleysið hafi verið algert. Hvorki hafi borist reikningar né stuðningsgögn frá honum vegna þeirra verka sem hann hefði þó unnið. Engu að síður hafi hann krafist greiðslna frá aðalstefnda. Aðalstefndi kveðst hafa neyðst til að greiða samkvæmt framvinduskýrslu eftirlits til að verkið stöðvaðist ekki. Hann vísar til þess að gögn hafi loks borist frá aðalstefnda sem hafi verið samantekt vegna aukaverka og magnaukningar í verkinu. Fyrsti formlegi reikningurinn frá honum hafi borist í júlí 2007.
Í febrúar s.á. höfðu verið greiddar 1.320.058 eða rúm samningsfjárhæð verksins. Aðalstefnandi taldi sig þá vanhaldinn í greiðslum fyrir aukaverk um allt að 900.000 . Á þessum tíma kvartaði vegamálastjóri undan gangi verksins og vísaði í eftirlitsmann sem hafi fullyrt að aukaverk réttlættu aðeins tveggja til þriggja mánaða framlengingu á verktíma. Aðalstefnandi svaraði þessu og benti á að forsendur verksamningsins væru í raun brostnar samkvæmt verksamningarétti, útboðslýsingin gæfi ranga mynd af umfangi verksins og hafi aðalstefnandi í raun verið blekktur þegar hann gerði tilboð í verkið. Aðalstefnanda bárust engin viðbrögð við því.
Af því sem fram hefur komið í málinu er ljóst að trúnaður var ekki lengur á þessum tíma á milli forsvarsmanna aðalstefnanda og eftirlitsmanns aðalstefnda sem jafnframt var annar höfundur útboðslýsingar og kostnaðaráætlunar. Af hálfu aðalstefnanda er því haldið fram að eftirlitsmaðurinn hafi hafnað öllum kröfum aðalstefnanda um leiðréttingu vegna aukaverka og hafi á sama tíma krafist þess að áfram yrði unnið við skipið.
Aðalstefnandi lýsir því í málatilbúnaði sínum að ágreiningur þessi hafi náð hámarki þegar setja átti innkeyrsluhlera í skipið. Hér var um tvær brýr að ræða sem aðalstefndi lét smíða hjá fyrirtækinu TTS í Noregi. Í útboðsgögnum lið 8.4 er tekið fram hvaða hlutir verði afhentir af aðalstefnda og að aðalstefnandi eigi að setja þá í skipið. Áætlaður stálþungi var samkvæmt lýsingu 800 kg. Þegar búnaðurinn kom til landsins kom í ljós að karmarnir sem brýrnar áttu að falla í á skipinu fylgdu ekki með.
Eftirlitsaðili aðalstefnda hafnaði í fyrstu öllum kröfum aðalstefnanda um leiðréttingu á þessum lið. Í bréfi 16. ágúst 2006 krafðist eftirlitsmaðurinn þess að aðalstefnandi ynni verkið. Fyrir áætlaðan viðbótarstálþunga, sem eftirlitsmaðurinn mat á 2.651 kg, féllst hann á að greiddar yrðu 21.22 á kg eða samtals 69.542 . Ef aðalstefnandi féllist ekki á þessa niðurstöðu yrði litið svo á að hann hefði sagt sig frá verkinu. Í tölvupósti 4. apríl 2007 sagði aðstoðarvegamálastjóri að smíði karmanna væri innifalin í verksamningi og væri aðalstefnandi ekki sammála því gæti hann leitað til dómstóla. Að ráði lögfræðings síns lét aðalstefnandi hanna og smíða fyrrgreinda karma og áskildi sér rétt til að fá leiðréttingu mála sinna síðar.
Af hálfu aðalstefnda er vísað til þess að verklok og afhending skipsins hafi upphaflega átt að vera 31. október 2006. Endurskoðuð verk- og tímaáætlun hafi borist 4. október s.á. en þar hafi verið gert ráð fyrir að verkinu lyki 1. mars 2007. Þriðja áætlunin hafi borist eftirliti á verkfundi 19. janúar 2007 þar sem gert hafi verið ráð fyrir afhendingu skipsins 29. maí s.á.
Af hálfu aðalstefnanda hefur komið fram að í febrúar 2007 hafi fyrirtækið stefnt í greiðsluþrot vegna þess hve illa gekk að fá viðurkenndan og greiddan viðbótarkostnað vegna verksins við skipið. Að lokum hafi stöðin orðið að stöðva allar framkvæmdir við ferjuna. Aðalstefnandi vann á þessum tíma ítarlega skýrslu um öll aukaverk og kostnað við þau.
Eitt af atriðum skýrslunnar voru fyrrnefndir karmar. Í ljós kom að við útreikninga aðalstefnanda var stálþyngd þeirra 10.606 kg en ekki 2.651 kg, eins og niðurstöður eftirlitsmanns voru. Þessi útreikningur aðalstefnanda, svo og aðrir útreikningar á stálþunga, voru síðan staðfestir sem viðbótarmagn í stálviðgerðum. Aðalstefndi greiddi aðalstefnanda í samræmi við það og er enginn ágreiningur um þetta í málinu en skýrir þau vandamál sem leiddu af því að verkið varð mun umfangsmeira en lýst er í útboðsgögnum.
Eftirlitsmaður með verkinu skilaði í lok mars 2007 greinargerð um viðbótarverk þar sem hann lagði dóm á einstaka liði, oftast án rökstuðnings. Samþykkti hann slumptölur á einstökum liðum sem hann taldi réttar. Fyrir milligöngu Ríkiskaupa var efnt til sáttafundar og tók yfirlögfræðingur hennar að sér að miðla málum. Farið var yfir hvern lið í kröfugerð aðalstefnanda og þannig voru um 90% aukaverka samþykkt að fullu en um önnur varð samkomulag um skiptingu að jöfnu, meðal annars með vísan til þess að óvissa hafi verið um túlkun verksamningsins. Fram hefur komið að meðal þess sem samþykkt var að greiða aðalstefnanda voru 45.000 vegna stöðugjalda í flotkví. Nýr eftirlitsmaður, Hjörtur Emilsson, tók við af Agnari Erlingssyni.
Af hálfu aðalstefnanda er því lýst að í byrjun júní 2007 hafi náðst full sátt á milli málsaðila. Fallist hafi verið á kröfur aðalstefnanda að upphæð um það bil 900.000 en að greiðsluhæft af þeim væru 750.000 . Þar hafi verið miðað við kröfugerð aðalstefnanda þegar verkið stöðvaðist í mars 2007. Ágreiningur var enn um hönnunarvinnu við karma, fjármagnskostnað og lögmannskostnað. Aðalstefnandi telur að á fundi með forstjóra og yfirlögfræðingi Ríkiskaupa 12. júní 2007 hafi verið samþykkt að aðalstefndi greiddi eðlilegan vaxtakostnað af 750.000 og einhvern lögmannskostnað. Ekki hafi gefist ráðrúm til þess að ganga frá því formlega. Þessir aðilar hafi síðan neitað að kannast við þetta samkomulag.
Aðalstefnandi lýsir því að vegna sumarleyfa og þar sem samningar við starfsmannaleigur höfðu fallið niður vegna verkstöðnunar hafi gengið illa að koma verkinu á skrið á ný sumarið 2007. Lögmaður aðalstefnda skrifaði lögmanni aðalstefnanda bréf 11. júlí þar sem kvartað var yfir hægagangi á verkinu og að aðalstefndi íhugaði riftun samningsins. Eftir að aðalstefnandi hafði skýrt aðstæður með bréfi 20. júlí s.á. varð sátt um framgang verksins. Í verkáætlun var gert ráð fyrir að verklok yrðu 28. nóvember s.á. Ákveðið var með samkomulagi að lögmenn málsaðila sætu verkfundi sem halda skyldi reglulega. Eftir þetta fór verkið í fullan gang en nýjar kröfur komu á sama tíma frá Grímseyingum, Samskipum, Öryrkjabandalaginu, flokkunarfélagi skipsins, sem var Lloyd´s Register, og Siglingamálastofnun. Aukaverkum fjölgaði að sögn aðalstefnanda og hafi bæst við um 60 verk eftir að vinna hófst að nýju. Síðustu verkbeiðnir fyrir aukaverk bárust 15. nóvember 2007 en þann dag bárust beiðnir um tilboð í 9 aukaverk.
Í byrjun árs 2008 var ákveðið að aðalstefnandi hætti störfum við ferjuna þrátt fyrir að aukaverkum væri ekki öllum lokið. Afhending skipsins fór síðan fram 12. janúar. Við afhendingu var gerður listi yfir aukaverk sem ekki var lokið. Þá var gert samkomulag um verklok, uppgjör og afhendingu ferjunnar. Í 6. lið samkomulagsins segir að lögmenn málsaðila muni reyna til þrautar að ná samkomulagi um ágreiningsmál og lokauppgjör.
Aðalstefndi hafði tekið tilboði Slippsins á Akureyri um að ljúka vinnu við ferjuna. Fram hefur komið að tilboðið hafi numið 12.966.300 krónum og verktími ætlaður þrjár vikur. Einnig hefur komið fram að verktíminn varð í reynd tólf vikur og heildarkostnaður meira en tvöföld tilboðsupphæð.
Lokareikningar aðalstefnanda vegna aukaverka lágu fyrir í lok janúar 2008. Þeir eru dagsettir 8. janúar það ár en aðalstefndi telur sig ekki hafa fengið reikningana fyrr en 31. janúar s.á. og er við það miðað í kröfugerð aðalstefnanda í aðalsök. Af upphaflegum verksamningi átti aðalstefndi þá eftir að greiða 128.279 , reikningur númer 1371 nemur 52.274 og reikningur númer 1372 nemur 135.554 . Reikningarnir voru sundurliðaðir á fylgiblöðum í einstök aukaverk þar sem getið er um vinnustundafjölda og efniskostnað.
Hjörtur Emilsson, eftirlitsmaður aðalstefnda, gerði athugasemdir við einstaka liði og samþykkti aðeins að greiða 81.097 . Athugasemdirnar koma fram í gögnum málsins og vísað er af hálfu málsaðila til greinargerðar hans sem fylgt hafi bréfi lögmanns aðalstefnda 19. febrúar 2008. Í bréfi lögmannsins er viðurkennt að ekki hafi verið greiddar eftirstöðvar upphaflegs verksamnings, 128.279 . Vegna aukaverka sé aðeins samþykkt að greiða 81.097 . Frá þessum fjárhæðum taldi aðalstefndi að skyldi draga 128.279 evrur vegna dagsekta, 17.836 vegna reikninga, sem aðalstefndi hafði greitt Hafnarfjarðarhöfn vegna rafmagns- og hafnargjalda en taldi að aðalstefnandi ætti að greiða, og 16.182 vegna krana fyrir MOB-bát.
Reikningar voru skoðaðir næstu vikur en í apríl 2008 lá fyrir afstaða eftirlitsmanns aðalstefnda og var hún óbreytt. Lögmenn málsaðila hófu því samningaviðræður um endanlegt uppgjör. Viðræðurnar byggðust á að leysa úr ágreiningi, sem ekki var útkljáður í kjölfar sáttarinnar frá júní 2007, svo og þeim ágreiningsefnum sem óleyst voru samkvæmt bréfi lögmanns aðalstefnda frá 19. febrúar 2008. Eftir nokkra fundi lögmannanna lauk viðræðum án þess að sættir tækjust.
Aðalstefnandi vísar til þess að hann hafi í júnímánuði s.á. haft samband við samgönguráðherra. Ráðherra hafi ætlað að kanna málið og hafa samband við vegamálastjóra. Fram hefur komið að aðalstefnandi hefði ekkert heyrt frá samgönguráðherra. Hins vegar hafi lögmaður aðalstefnda tilkynnt um haustið að honum hafi verið falið að hefja nýjar samningaviðræður við aðalstefnanda. Viðræður stóðu um skeið en þeim lauk án árangurs. Síðustu viðræður lögmanna málsaðila fóru fram í apríl 2010 en þá lá fyrir staðfest að ágreiningur málsaðila yrði lagður í úrskurð dómstóla.
Í aðalsök er deilt um það hvort aðalstefnandi eigi rétt á eftirstöðvum samningsgreiðslunnar sem aðalstefndi hefur haldið eftir vegna þess að hann telur sig eiga rétt á bótum vegna tafa sem orðið hafi á verkinu. Einnig er deilt um aukaverk sem aðalstefnandi telur að hafi bæst við og ekki hafi verið gert ráð fyrir í útboðslýsingu. Aðalstefndi hefur að hluta til viðurkennt þessi verk eða eftirlitsmaður á hans vegum.
Í gagnsök er deilt um kröfu gagnstefnanda vegna vanefnda sem hann telur að hafi orðið á verksamningnum af hálfu gagnstefnda. Þar er um nokkur verk að ræða en gagnstefnandi telur vinnu gagnstefnda við þau gallaða eða ófullnægjandi. Annmarkar hafi verið á ýringarkerfi, sem hafi þurft að lagfæra, gluggar og hurðir hafi lekið, undirvinna við málningu hafi verið ófullnægjandi og hún því ónýt og sementshúð í neysluvatnsgeymum hafi flagnað. Þessum kröfum er öllum mótmælt af hálfu gagnstefnda.
Málsástæður og lagarök aðalstefnanda í aðalsök
Aðalstefnandi krefur aðalstefnda um greiðslu samkvæmt verksamningnum en aðalstefndi hélt eftir 10% af samningsfjárhæðinni vegna ákvæða í samningnum um tafabætur. Þá krefst aðalstefnandi greiðslu á reikningum vegna aukaverka að frádregnum tveimur kreditreikningum sem gefnir voru út til leiðréttingar á tímaskráningu að ábendingu aðalstefnda. Aðalstefnandi hafni alfarið rétti aðalstefnda til frádráttar vegna rafmagns- og hafnargjalda og vegna krana fyrir MOB-bát.
Sundurliðun á kröfu aðalstefnanda:
1. Eftirstöðvar samningsverks 128.279
2. Reikningur 1371 52.274
3. Reikningur 1372 135.554
4. Reikningur 1414 1.340
5. Kreditreikningur 1415 -3.408
6. Kreditreikningur 1416 -2.494
7. Innborgun 21. janúar 2008 - 47.079
samtals 264.466
Fyrsti liður kröfunnar sé óumdeildur að öðru leyti en því að aðalstefndi geri kröfu um að hann fái þá fjárhæð úr höndum aðalstefnanda sem tafabætur. Af hálfu aðalstefnanda sé því hafnað að aðalstefndi eigi rétt á tafabótum. Hann krefjist því greiðslu á eftirstöðvum samningsins samkvæmt 1. lið í sundurliðun hér að framan. Samkvæmt tillögu aðalstefnda að lokauppgjöri 19. febrúar 2008 hafi hann dregið frá samningsgreiðslunni 128.279 vegna bóta sem hann telji sig eiga rétt á vegna tafa á verkinu. Aðalstefnandi hafni alfarið rétti aðalstefnda til bóta og krefjist greiðslu þessarar upphæðar að fullu úr höndum aðalstefnda. Engar tafir hafi orðið á verkinu sem aðalstefnandi beri ábyrgð á.
Upphaflegi samningurinn um viðgerðir og endurbætur á Grímseyjarferjunni hafi numið 1.300.615 . Eftir að ákveðið var að fella niður verklið vegna frystigeymslu, sem hafi numið 17.828,29 , hafi samningurinn hljóðað á 1.282.785 . Verkið hafi átt að vinnast á tímabilinu frá 1. maí 2006 til 31. október 2006. Samkvæmt grein 6.1 í verksamningi hafi aðalstefnandi átt að greiða aðalstefnda tafabætur sem næmu 0,5% af samningsfjárhæðinni fyrir hvern dag sem verklok tefðust og allt að 10% af samningsfjárhæðinni.
Þegar upphaflegum verktíma var lokið hefði aðalstefnandi unnið í skipinu verk sem samsvaraði rúmlega umfangi verksamningsins. Eftirlitsmaður aðalstefnda hefði samþykkt greiðslur inn á verkið að fjárhæð 920.000 en þá hafi ekkert verið farið að greiða fyrir aukaverk. Aðalstefnandi hefði margoft lýst þeirri skoðun sinni að útboðsgögn væru ónothæf og villandi vegna ófullnægjandi upplýsinga. Hann hafi vísað í ákvæði laga um opinber innkaup nr. 84/2007 og talið að rétt væri að skoða skipið og semja að nýju um verkið. Á það hafi ekki verið fallist af hálfu aðalstefnda og ekki samið um nýjan afhendingartíma. Forsendur verksamningsins hafi verið brostnar og útilokað að áætla eða lofa nokkru um verklok vegna sífelldra breytinga sem komið hafi fram af hálfu aðalstefnda. Með því að láta aðalstefnda í té það magn vinnu og efnis á upphaflegum samningstíma, eða rúmlega það, hafi aðalstefnandi fullnægt skilyrðum verksamningsins um afhendingartíma. Síðasta verkáætlun aðalstefnanda hafi miðast við að skipið yrði afhent 28. nóvember 2007 en aðeins hálfum mánuði fyrr hafi aðalstefnanda borist níu beiðnir frá aðalstefnda um tilboð í aukaverk. Engar vanefndir hafi orðið varðandi afhendingartímann af hálfu aðalstefnanda en líta verði til þess hverjar ástæður væru fyrir því að verk tefðist. Verkáætlanir hafi hrunið jöfnum höndum vegna stöðugra breytinga og viðbóta en við þær aðstæður sé útilokað að aðalstefndi geti krafist tafabóta.
Aukaverkin hafi í lokin verið orðin 109 og heildarkostnaðurinn hefði rúmlega tvöfaldast. Þetta sýni hve grundvöllur samningsins hafi verið rangur og villandi. Vinna við stálsmíðar hafi færst inn á vetrartímann með tilheyrandi aukakostnaði. Fundargerðir verkfunda sýni þróun verksins. Í lok febrúar 2007 hafi verkið stöðvast að mestu vegna greiðsludráttar af hendi aðalstefnda. Í samningaviðræðum sem fóru fram hafi aðalstefndi viðurkennt kröfur aðalstefnanda og hafi hann greitt í samræmi við þær. Í þessum viðræðum hafi aldrei verið minnst á tafabætur. Aðalstefndi hafi greitt aðalstefnanda 45.000 vegna viðbótartíma skipsins í flotkví aðalstefnanda. Þannig hafi aðalstefndi viðurkennt að tafirnar væru á hans ábyrgð.
Aðalstefndi hafi ekki orðið fyrir neinu tjóni vegna hugsanlegra tafa á verkinu. Hann hafi haft annað skip til umráða og hafi ekki verið í neinni tímaþröng með að skipta um skip. Hann hafi ákveðið að halda framkvæmdum við skipið áfram og hafi haustið 2007 boðið út umtalsverðar viðgerðir og breytingar til viðbótar. Eftir að aðalstefnandi lauk sínum verkþætti hafi þótt nauðsynlegt að bjóða verkið út að nýju með umtalsverðum breytingum en það sýni hve illa var staðið að allri áætlanagerð og undirbúningi af hálfu aðalstefnda.
Aðalstefndi hafi aldrei allan verktímann rætt það að hann teldi sig eiga rétt á tafabótum. Við sáttargerðina í júní 2007 hafi hvergi verið minnst á dagsektir. Það hafi verið ákvörðun aðalstefnda að fella ekki samninginn niður og semja á nýjan leik. Með því að óska stöðugt eftir því að aðalstefnandi héldi áfram að vinna í verkinu í nýjum og nýjum verkum hafi aðalstefndi fyrirgert rétti sínum til að beita fyrir sig vanefndaúrræði gagnvart aðalstefnanda um tafabætur. Aðalstefnandi hefði getað beitt haldsrétti í skipinu og krafist uppgjörs en það hafi hann ekki gert. Í samkomulagi, sem gert var við afhendingu ferjunnar, hafi inntakið verið að skipið yrði afhent að undangengnu mati á stöðu samningsverks og aukaverka. Í 6. gr. samningsins segi að lögmenn málsaðila myndu reyna að ná samkomulagi um lokauppgjör. Ekki sé minnst á tafabætur af hálfu aðalstefnda heldur lofað að greiða um leið og lokauppgjör væri í höfn.
Af framantöldu megi vera ljóst að ákvæði upphaflega verksamningsins um tafabætur hafi fallið úr gildi þegar forsendur samningsins stóðust ekki.
Krafa aðalstefnanda vegna aukaverka, sem hann telji utan verksamnings, sé samkvæmt reikningum fyrir efni og vinnu. Reikningunum fylgi sundurliðun í einstök aukaverk þar sem gerð sé grein fyrir vinnustundafjölda og öllu aðkeyptu efni. Hér á eftir sé aðeins fjallað um umdeild verk, þ.e. verk sem aðalstefndi hafi annaðhvort hafnað eða lækkað.
Reikningur nr. 1371:
Aukaverk 64. Fjarlægja glussadælu af bógskrúfuvél. Reikningur aðalstefnanda nemi 5.833 en aðalstefndi hafi samþykkt 2.500 fyrir verkið og telji tímafjölda ofreiknaðan. Ágreiningurinn snúist aðallega um umfang verksins. Viðgerðin hafi verið ítarleg og dælan reynst í fullkomnu lagi á eftir. Þetta hafi verið hagkvæmari kostur en að kaupa nýja dælu. Ekkert mat eða úttekt hafi farið fram á verkinu.
Aukaverk 74. Lagfæra leka á austurlögn. Ágreiningur hér sé um tímaskráningu en af hálfu aðalstefnanda var fallist á lækkun reiknings um átta tíma í dagvinnu og tvo eftirvinnutíma. Lækkunin hafi verið gerð á kreditreikningi.
Aukaverk 75. Endurnýja segulspólu á stjórnborðs-niðurfærslugír. Ágreiningur hafi verið um tímafjölda og hafi aðalstefnandi fallist á að lækka reikninginn um þrjá dagvinnutíma sem gert hafi verið á kreditreikningi.
Aukaverk 76. Hraðabreytir á annan vélarúmsblásarann. Verkið hafi verið að útvega og setja upp hraðabreyti fyrir annan vélarúmsblásarann til að getað dregið úr hávaða frá honum. Deilt sé um tímafjölda og efniskostnað. Reikningur aðalstefnanda nemi 2.800 en eftirlitsmaður hafi lækkað reikninginn um 800 án frekari rökstuðnings. Aðalstefnandi geri kröfu um að reikningurinn verði greiddur að fullu enda hafi réttmæti hans ekki verið hrakið.
Aukaverk 77. Endurnýjun á reyk- og hitaskynjurum. Aðalstefndi hefði samþykkt efniskostnað 1.300 og 100 vegna ferða til að útvega efni eða búnað. Hér sé því aðeins deilt um tímavinnuþáttinn. Aðalstefnandi hafi samþykkt að uppsetning væri innifalin í tilboðinu. Reikningur sé leiðréttur um 28 tíma en 241 bætist við vegna þess að fleiri skynjarar hafi verið settir upp en fyrir voru.
Aukaverk 78. Færsla á loftræstiröri og undirstöðu björgunarbáts. Aðalstefnandi hafi fallist á að leiðrétta tímaskráningu um 8 tíma í dagvinnu og 2 tíma í eftirvinnu. Frádráttur hafi verið gerður á kreditreikningi og því sé enginn ágreiningur um þennan þátt.
Aukaverk 79. Hreinsun á glussaolíugeymi og lögnum fyrir háþrýstikerfi. Aðalstefnandi hafi lækkað kröfuna um 4 dagvinnutíma verkstjóra. Upphaflega hafi krafan verið 7.823 en aðalstefndi hafi samþykkt 6.000 og eftirlitsmaður hafi lækkað þennan lið án rökstuðnings. Ágreiningur sé því um 1.630 . Aðalstefnandi geri kröfu um að reikningurinn verði greiddur að fullu.
Aukaverk 80. Kúlulokar í háþrýstikerfi TTS-búnaðar. Verkið hafi tekið tvo menn 12 tíma samkvæmt málatilbúnaði aðalstefnanda. Ágreiningur um tímaskráningu byggðist á misskilningi hjá aðalstefnda þar sem átt sé við verk nr. 95. Tímaskráning hafi verið leiðrétt undir þeim lið. Þetta verk sé óumdeilt að mati aðalstefnanda.
Aukaverk 84. Frárennsliskerfi frá salernum. Aðalstefnandi geri kröfu um greiðslu á 63 vinnutímum en aðalstefndi hafi boðið greiðslu á 30 tímum. Aðalstefndi hafi ákveðið að fækka tímum verkstjóra um 8 tíma svo ágreiningur sé þá um 1.163 . Tímaskráning hafi ekki verið hrakin enda augljóst að slík vinna, sem krefjist útréttinga og leitar, geti verið mjög tímafrek.
Aukaverk 85. Setja neyðarljós í stigahús samkvæmt kröfu Lloyd´s Register. Aðalstefnandi hafi sett upp 9 neyðarljós í stigahús ferjunnar. Samkvæmt verklýsingu gr. 9,4 bar að setja upp 6 ljós en Lloyd´s hafi krafist þess að þremur ljósum yrði bætt við. Aðalstefnandi telji ljóst að hér sé um viðbót að ræða. Aðalstefndi geti ekki neitað að greiða fyrir það sem hann fékk.
Aukaverk 86. Endurnýjun lampa í vélarúmi. Fulltrúi flokkunarfélags skipsins hafi krafist að ljós í vélarúmi yrðu endurnýjuð. Aðalstefnandi hafi talið að fulltrúi aðalstefnda hefði samþykkt það enda hafi aðalstefndi ekki gert athugasemdir við verkið en hafnað greiðslu. Aðalstefnandi hafi boðist til að fjarlægja ljósin og lækka reikninginn í samræmi við það en ekki fengið svör. Aðalstefndi geti ekki neitað að greiða fyrir það sem hann fékk.
Aukaverk 87. Endurnýja rofa fyrir kælivatnsdælu á þétti. Fulltrúi flokkunarfélags skipsins hafi krafðist þess í viðurvist fulltrúa aðalstefnda, sem ekki hafi gert athugasemdir, að rofinn yrði endurnýjaður.
Reikningur nr. 1372:
Aukaverk 92. Slöngur og fittings sem vantaði í TTS sendingu. Lyftibrúm sem aðalstefnandi hafi keypt frá TTS í Noregi hafi fylgt vökvaþrýstibúnaður og stýribúnaður til að lyfta og slaka brúnum. Mikið hafi vantað í sendinguna til að unnt væri að ganga frá búnaðinum. Aðalstefndi neiti að greiða fyrir hann og segi að aðalstefnandi hafi átt að leggja hann til. Hann vísi til tæknilýsingar og afhendingarlista fyrir búnaðinn. Ekkert sé í útboðsgögnum eða verksamningi sem bendi til þess að aðalstefnandi hafi átt að leggja til búnað sem vantaði. Þegar skorturinn kom í ljós hafi aðalstefndi óskað eftir að aðalstefnandi útvegaði það sem vantaði til að unnt yrði að ljúka uppsetningu búnaðarins. Hér sé um 5.960 að ræða sem viðbótarverk sem aðalstefnda beri að greiða.
Aukaverk 93. Breytingar á blökkum í síðuporti samkvæmt tilmælum TTS. Búnaðurinn frá framleiðanda TTS hafi verið gallaður. Fulltrúar TTS hafi ekki leyst málið en starfsmaður aðalstefnanda hafi náð að gera það. Kostnaður hafi verið 5.871 en aðalstefndi telji án raka að greiða beri 3.500 fyrir verkið. Aðalstefnandi haldi fast við kröfu sína um að fá allan kostnað sinn greiddan vegna þessa verks.
Aukaverk 94. Breytingar á rafmagni sem ekki var á teikningum frá TTS. Búnaðurinn hafi ekki verið á upphaflegri teikningu frá TTS en samkvæmt ósk þeirra og án athugasemda eftirlitsmanns aðalstefnda hafi verkið verið framkvæmt. Hér sé um aukaverk að ræða og krefjist aðalstefnandi greiðslu að upphæð 1.248 fyrir það.
Aukaverk 95. Skolun á öllum glussalögnum við TTS búnað samkvæmt forskrift Norðmanna, þrýstiprófa hverja grein. Eftir að búnaður frá TTS hafði verið tengdur hafi borið að skola hann með háþrýstiolíu. Verkið hafi verið tímafrekt og hafi kostnaður við það verið 21.756 . Aðalstefndi hafi neitað að greiða fyrir hreinsunina og vísi til gagna frá TTS um að verktaka beri að skola kerfið eftir uppsetningu. Aðalstefndi haldi því fram að aðalstefnandi hafi fengið gögnin í hendur í febrúar 2006 en því sé mótmælt þar sem þau hafi ekki fylgt útboðsgögnum. Til þeirra sé ekki vísað í verksamningi og þau hafi ekki legið fyrir við tilboðsgerðina. Verkið sé ekki innifalið í tilboðsfjárhæð. Vegna ábendinga aðalstefnda hafi aðalstefnandi lækkað kröfu sína vegna þessa þáttar sem samsvari 32 dagvinnutímum og 13 tímum í eftirvinnu sem komi fram á kreditreikningi.
Aukaverk 97. Mæla skekkju á skrúfuöxli og gír fyrir Lloyd´s Register. Aðalstefndi hafi hafnað reikningi fyrir verkið af þeirri ástæðu að hann hafi ekki beðið um það. Aðalstefnandi hefði áður gert nauðsynlegar mælingar á skrúfuásum skipsins sem hluta af samningsverki, en hér sé um að ræða sérstakar mælingar samkvæmt kröfu Lloyd´s. Aftengja hafi þurft báða skrúfuása og létta á ásþéttum. Hlífar hafi verið fjarlægðar og festingar fyrir mælitæki smíðaðar. Tímaskráning aðalstefnanda nemi 107 tímum. Verkið hafi verið unnið og tímaskráningu hafi ekki verið mótmælt.
Aukaverk 98. Yfirferð á aðvörunarkerfi og skýrslugerð. Aðalstefndi hafi neitað að greiða fyrir þetta verk þar sem það hafi ekki verið tilgreint í samkomulagi 12. janúar 2008. Hann mótmæli því ekki að verkið hafi verið unnið. Aðalstefnandi eigi rétt á greiðslu fyrir það. Samkomulagið frá 12. janúar breyti því ekki og kostnað af þessu eigi aðalstefndi að bera en ekki aðalstefnandi.
Aukaverk 99. Klassakostnaður umfram aukaverk. Ágreiningur um þennan lið varði kröfu aðalstefnanda um 4% álag á umframkostnað flokkunarfélagsins Lloyd´s. Í tilboðsverkinu hafi verið gert ráð fyrir 42.157,89 vegna kostnaðar flokkunarfélagsins. Umframkostnaður hafi orðið 23.188 . Krafan um 4% álag byggðist á ákvæði 1.3.7 í verksamningi þar sem kveðið sé á um heimild til að leggja slíkt álag á varahluti og efni umfram skyldu samkvæmt verksamningi.
Aukaverk 100. Skera úr turni fyrir víra og breyta læsingum á lúgum að tilmælum TTS. Aðalstefndi hafi hafnað greiðslu með vísan til sömu ástæðna og í verki 98, það er að ekki hafi verið getið um þennan lið í samkomulagi frá 12. janúar 2008. Aðalstefndi hafi ekki mótmælt því að verkið hafi verið unnið. Án þessa verks hefði búnaðurinn ekki virkað og kostnaður fallið að lokum á aðalstefnda.
Aukaverk 103. Koma fyrir styrkingum við lúgukarm í lest, krafa Lloyd´s Register. Ágreiningur um þennan lið varði kostnað við málningu. Málningu við skipið hafi verið lokið þegar krafa hafi komið frá Lloyd´s um viðbótarstyrkingu. Við suðuvinnuna hafi málning skemmst sem varð að endurnýja.
Aukaverk 104. Koma fyrir olíudælu. Tekin niður vegna viðgerðar á ljósavél. Olíudæla á þili á milli vélarúms og lestar hafi verið tekin niður þegar rjúfa þurfti skilrúmið til að ná út ljósavélum vegna viðgerða á þeim. Á sama hátt hafi bógskrúfuvél og rafall ljósavélar verið flutt úr vélarúmi um skilrúmsopið í land til viðgerðar. Eftir viðgerð og lokun skilrúmsins hafi olíudælunni verið komið fyrir á ný.
Aukaverk 105. Breyta körmum og skipta um gúmmí í lúgum vegna óþéttleika. Lyftubrúnum, sem smíðaðar voru af TTS í Noregi, hafi ekki fylgt karmar. Þegar átti að fella þær í skipið hafi það ekki gengið þar sem hlerarnir hafi verið skakkir og snúnir. Auk þess hafi festingar og búnaður á þeim verið rangt staðsettir. Nauðsynlegt hafi verið að lagfæra gallana á körmunum. Eftirlitsmaður aðalstefnda hafi fylgst með verkinu. Kostnaður eigi ekki að falla á aðalstefnanda í þessu verki og greiðslukrafa hans sé ótvíræð.
Aukaverk 107. Smíða og koma fyrir hlíf yfir glussalagnir á dekki. Hlífarnar hafi ekki verið hluti af tilboðsverki þar sem þeirra sé ekki getið í útboðsgögnum. Aðalstefnandi hafi boðist til að taka við hlífunum og fella niður reikninginn en aðalstefndi hafi ekki gengið að því.
Aukaverk 109. Endurnýjun á loftræstistokkum, túðum og eldhúsháfi. Í grein 9.4 í útboðslýsingu segi að aðalstefnandi eigi að leggja til nýja eldavél og ísskáp af viðurkenndri gerð til notkunar í skipum og koma þeim fyrir um borð. Þá segi að aðalstefnandi eigi að setja upp viftu en ekki komi fram að hann eigi að leggja hana til á sinn kostnað. Í þessum lið sé einnig endurnýjun á loftræstistokkum sem ekki hafi verið í tilboðinu. Ákveðið hafi verið að vinna þetta verk í tímavinnu. Smíða hafi þurft nýjan háf sem aðalstefnandi hafi gert.
Reikningar frá Bæti ehf. vegna vélaviðgerða. Bætir ehf. hafi séð um allar vélaviðgerðir í skipinu. Full samstaða hafi verið um það á milli fyrri eftirlitsmanns, Bætis ehf. og aðalstefnanda að verkið yrði unnið og síðan farið yfir það í lok viðgerðar hvað hefði bæst við eða breyst frá því sem lagt var til grundvallar í útboðinu. Enginn ágreiningur hafi verið um reikninga frá Bæti ehf. og hafi þeir verið greiddir án athugasemda. Maður á vegum Bætis ehf. hafi verið fenginn sem vélstjóri til siglingar skipsins til Akureyrar og því hafi ekki verið unnt að gera upp verk Bætis ehf. fyrr en eftir afhendingu.
Reikningar Bætis ehf. séu sundurliðaðir og geti eftirlitsmaður aðalstefnda séð hvaða liðir eru ekki hlutar af tilboðinu samkvæmt kafla 4.
Reikningur nr. 1414. Aðalstefndi hafi óskað eftir breytingum á pöntun sinni á stólum í farþegasal. Þessi reikningur sé vegna viðbótarkostnaðar af þessum sökum. Eftirlitsmaður hafi lýst því að hann hafi óskað eftir breytingu á stólum en það hafi verið mistök. Þótt hann hafi sagt að hann ætti að greiða umframkostnað sem af þessu hlaust sé aðalstefnanda rétt að beina kröfunni að aðalstefnda en hann hafi fengið umrædda vöru með breytingum sem eftirlistmaðurinn hafi óskað eftir.
Frádráttur vegna reikninga Hafnarfjarðarhafnar fyrir rafmagn og vegna hafnargjalda.
Í tillögu aðalstefnda að lokauppgjöri verksins hafi hann dregið frá 17.836 vegna reikninga sem hann hafði greitt Hafnarfjarðarhöfn vegna rafmagns fyrir skipið og vegna hafnargjalda meðan það lá við bryggju. Aðalstefnandi mótmæli þessari kröfu aðalstefnda harðlega.
Upphaflega útboðið hafi miðað við að verkið tæki 180 daga, frá byrjun maí til loka október. Samkvæmt grein 1.3.8 í samningi hafi aðalstefnandi átt að leggja til rafmagn í skipið á meðan á viðgerð stæði og samkvæmt grein 1.3.10 greiði hann hafnargjöld á sama tíma. Í samningnum séu ákvæði um að aðalstefndi greiði 723,68 fyrir hvern umfram dag í flotkví og 0,17 fyrir hverja kílóvattstund.
Aðalstefnandi hafi lýst því hvernig verk þetta hafi meira en tvöfaldast að kostnaði og umfangi. Í samningaumræðum, sem fram hafi farið á milli aðila á vormánuðum 2007, hafi aðalstefnandi sett fram kröfu um að aðalstefndi greiddi fyrir umframdaga í flotkví og fyrir rafmagnskostnað eftir að umsömdum verktíma var lokið. Aðalstefndi hafi fallist á þessi sjónarmið og samþykkt að greiða rafmagnskostnaðinn. Þá hafi orðið samkomulag með aðilum um að skipta að jöfnu kostnaði vegna viðbótartíma í flotkví og hafi aðalstefndi greitt 45.000 vegna þess.
Aðalstefnandi greiði hafnargjöld af flotkví sinni allt árið og greiði því ekki gjöld af skipum sem tekin eru í flotkvína.
Miðað sé við umfang verksins og verkáætlun hefði verkið verið unnið í kvínni. Hafnargjöld hafi fallið á skipið eftir að það fór úr flotkvínni. Hér sé um viðbótarkostnað að ræða sem hafi orðið vegna þess hve verkið dróst á langinn. Aðalstefndi hafi greitt áfallin gjöld jöfnum höndum og það hafi ekki verið fyrr en við lokauppgjör sem krafa hafi komið fram um að aðalstefnandi greiddi þennan kostnað. Aðalstefnandi byggi á því að hér sé um viðbótarkostnað að ræða sem ekki hafi verið gert ráð fyrir í útboði.
Frádráttur vegna MOB krana. Í tillögu aðalstefnda um lokauppgjör séu 16.182 dregnar frá vegna krana fyrir björgunarbát. Aðalstefnandi hafi gert aðalstefnda tilboð í að útvega kranann sem hafi verið óháð tilboðsverkinu. Við afhendingu skipsins hafi kraninn verið ókominn til landsins og hafi aðalstefnandi því ekki gert reikning fyrir hann. Við komu kranans hafi verið gerður reikningur fyrir hann og aðalstefndi hafi greitt umsamið verð. Þessi liður eigi ekkert erindi í þetta uppgjör og sé frádráttarliðnum mótmælt sem tilhæfulausum.
Kreditreikningar nr. 1415 og 1416. Reikningar þessir hafi verið gefnir út vegna reikninga 1371 og 1372. Með þeim séu lækkaðar kröfur aðalstefnanda vegna leiðréttinga á tímaskráningu. Nánari skýringar komi fram við aukaverkin sem talin hafi verið hér á undan.
Aðalstefnandi gerir kröfu um dráttarvexti frá 28. febrúar 2008. Ástæða þessarar dagsetningar sé sú að aðalstefndi hafi mótmælt því að hafa tekið við reikningum aðalstefnanda fyrr en 31. janúar s.á. Með þessu sé útrýmt hugsanlegum ágreiningi um upphafsdag dráttarvaxta. Við munnlegan málflutning var því lýst af hálfu aðalstefnanda að dráttarvexti af evrum ætti að reikna samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands frá 1. júlí 2006 en þar segi að dráttarvextir af evrum sé 5,5% og gildi sú ákvörðun enn. Seðlabankinn ákveði dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu.
Aðalstefnandi byggi dómkröfur sínar á samningi málsaðila og vísi til skilmála útboðsins, útboðslýsingar og annarra fylgigagna. Aðalstefnandi vísi enn fremur til almennra reglna samninga- og kröfuréttarins um skyldu til réttra efnda, sbr. einkum reglur verksamningaréttar um skyldur verkkaupa o.fl. Hann mótmæli því að IST 30 eigi við um lögskipti málsaðila en hann sé ekki hluti af samningi þeirra. Dráttarvaxtakröfu sína byggi aðalstefnandi á ákvæðum vaxtalaga nr. 38/2001. Um réttarfar vísist til laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um varnarþing vísist til 36. gr. sömu laga. Krafa um málskostnað styðjist við 130. gr. sömu laga.
Málsástæður og lagarök aðalstefnda í aðalsök
Af hálfu aðalstefnda er vísað til þess að skipið hafi þurft að lagfæra meira en gert hafi verið ráð fyrir í útboðsgögnum. Með málsaðilum hafi verið ágreiningur um túlkun útboðsgagna. Verkið sem aðalstefnandi hafi tekið að sér hafi dregist langt fram yfir það sem eðlilegt geti talist vegna aukaverka. Svo virtist sem aðalstefnandi hefði ekki burði til að sinna verkinu. Skipulagsleysið hafi verið algert og hvorki hafi borist reikningar né gögn frá honum vegna verka sem hann hafi þó unnið. Aðalstefndi hafi neyðst til að greiða samkvæmt skýrslum eftirlits til að verkið stöðvaðist ekki. Loks hafi borist gögn frá gagnstefnda 21. mars 2007 og fyrsti formlegi reikningurinn hafi borist í júní s.á.
Verklok hafi upphaflega átt að vera 31. október 2006. Endurskoðuð verk- og tímaáætlun hafi borist 4. október s.á. þar sem gert hafi verið ráð fyrir að verkinu lyki 1. mars 2007. Þriðja áætlun hafi borist 19. janúar 2007 þar sem gert var ráð fyrir afhendingu skipsins 29. maí s.á.
Um mánaðamót maí/júní 2007 hafi málsaðilar náð samkomulagi um lausn ágreiningsmála sinna í verulegum atriðum. Vegna aukaverka sem til féllu hafi verið samið um níu vikna lengingu verksins. Þrátt fyrir samkomulagið virtist sem aðalstefnandi hefði hætt við verkið. Vikur og mánuðir hafi liðið án þess að nokkuð væri unnið við skipið. Hinn 11. júlí s.á. hafi lögmaður aðalstefnda sent aðalstefnanda bréf þar sem tilkynnt var að hann hefði í hyggju að rifta verksamningi aðila. Bréfinu hafi lögmaður aðalstefnanda svarað 20. júlí s.á., þar sem hann haldi því fram að ónógum undirbúningi í byrjun, ófullnægjandi skoðun á skipinu og ónákvæmum útboðsgögnum væri um að kenna hve verkið sæktist seint. Þessari túlkun hafi verið mótmælt með bréfi lögmanns aðalstefnda 27. júlí s.á.
Áætlun aðalstefnanda um verklok 28. nóvember 2007 hafi ekki staðist frekar en fyrri áætlanir hans. Hinn 11. janúar 2008 hafi málsaðilar gert með sér samkomulag um „verklok uppgjör og afhendingu Grímseyjarferju“. Í þessu samkomulagi hafi falist að skipið yrði afhent daginn eftir í Hafnarfjarðarhöfn og að við afhendingu lægi fyrir stöðumat uppfært af eftirlitsaðila og málsaðilum. Þá hafi verið gert samkomulag um að aðalstefnandi afhenti aðalstefnda reikninga vegna aukaverka eins fljótt og auðið væri og að lögmenn málsaðila reyndu að ná samkomulagi um ágreiningsmál og uppgjör.
Hinn 31. janúar 2008 hafi eftirliti aðalstefnda borist reikningar aðalstefnanda nr. 1371 og nr. 1372, dagsettir 8. janúar 2008, vegna aukaverka. Hinn 19. febrúar s.á. hafi lögmaður aðalstefnda sent lögmanni aðalstefnanda bréf þar sem tekin sé afstaða til reikninganna. Þar segi að eftir vandlega skoðun á fylgiskjölum, sem fylgdu reikningunum, hafi eftirlitið getað samþykkt 37.002 af reikningi nr. 1371 og 44.095 af reikningi nr. 1372, eða samtals 81.097 . Í bréfinu segi að ámælisvert sé að starfsmenn aðalstefnanda hafi í nokkrum tilvikum verið bókaðir á tvö eða fleiri verk á sama tíma og að verk hafi verið unnin án verkbeiðna frá eftirliti aðalstefnda. Með bréfi lögmanns aðalstefnda hafi fylgt yfirlit um afstöðu eftirlits aðalstefnda til framangreindra reikninga. Lögmaður aðalstefnda hafi gert eftirfarandi tillögu að lokauppgjöri með bréfi 19. febrúar 2008:
1. Ógreitt af samningsverki 128.279
2. Samþykkt aukaverk af reikningum nr. 1371 og 1372 81.097
Frá dregst:
1. Dagsektir 10% af upphaflegri samningsfjárhæð -128.279
2. Reikningar vegna rafmagns-hafnargjalda
(1.751.052/gengi 18. febrúar 2008 98,176) -17.836
3. Krani fyrir MOB bát -16.182
Til greiðslu 47.079
Aðalstefndi hafi í samræmi við ofangreint uppgjör lagt 47.079 inn á reikning aðalstefnanda. Í mars 2008 hafi aðalstefnandi sent aðalstefnda kreditreikninga að upphæð 3.408 „vegna aukaverka 56A til og með 90“ og 2.494 „vegna aukaverka nr. 91 til og með 109“ .
Dómkröfur aðalstefnanda í máli þessu séu að verulegu leyti vegna meintra eftirstöðva reikninga nr. 1371 og 1372 og ógreiddra eftirstöðva af samningsverki að upphæð 128.279 sem aðalstefndi telji sér ekki skylt að greiða þar sem upphæðin dragist frá uppgjöri vegna kröfu aðalstefnda um tafabætur, sbr. grein 6.1 í verksamningi málsaðila.
Krani fyrir MOB bát hafði verið greiddur af aðalstefnda áður en hann var afhentur fyrir afhendingu skipsins og þess vegna sé andvirði hans dregið frá við uppgjörið. Gengið hafi verið frá uppgjöri þessa liðar 19. mars 2008.
Aðalstefndi byggi aðalkröfu sína um frávísun málsins á því að kröfugerð aðalstefnanda sé óljós og í engu samræmi við d- og e-liði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sundurliðun aðalstefnanda á kröfum sínum í stefnu sé mjög einföld og villandi. Þar sé ekki gerð grein fyrir því að aðalstefndi hafi samþykkt hluta krafna samkvæmt reikningi 1371, eða 37.002 , og 44.095 af reikningi 1372, samtals 81.097 . Þá sé engin grein gerð fyrir því hvernig innborgun aðalstefnda frá 19. febrúar 2008, að upphæð 47.079 hafi verið ráðstafað, sbr. bréf lögmanns aðalstefnda til lögmanns aðalstefnanda 19. febrúar 2008. Samkvæmt kröfugerð aðalstefnanda virtist innborguninni ráðstafað m.a. til greiðslu á reikningi nr. 1414, frá 10. mars 2008, eða 18 dögum eftir innborgunina. Dráttarvaxta sé krafist af allri stefnufjárhæðinni frá 28. febrúar 2008 til greiðsludags. Þá sé í umfjöllun aðalstefnanda um einstök meint „aukaverk“ oft á tíðum ekki gerð nægileg grein fyrir þeim fjárhæðum sem myndi kröfu aðalstefnanda, þ.e. þau verk eða fjárhæðir sem ágreiningur sé um. Aðalstefndi eigi því óhægt um vik að taka til varna í málinu. Sem dæmi megi taka umfjöllun aðalstefnanda í stefnu um aukaverk 74 og 75 og aukaverk 102 þar sem lýsing í stefnu sé í engu samræmi við undirgögn reiknings frá aðalstefnanda. Ekki hafi verið dregnar frá kröfur, sem felldar hafi verið niður, sbr. umfjöllun síðar um aukaverk 89 og 101. Málið sé þannig verulega vanreifað og beri að vísa því frá dómi.
Varakröfu sína um sýknu byggi aðalstefndi á því að hann hafi gert upp að fullu við aðalstefnanda í samræmi við verksamning málsaðila. Aðalstefndi fjalli hér á eftir um einstaka liði í kröfugerð aðalstefnanda eins og þeir komi fram í málatilbúnaði hans í stefnu.
Aðalstefndi kveðst eiga rétt á tafabótum úr höndum aðalstefnanda. Kröfuna byggi hann á því að samkvæmt grein 6.1 í verksamningi málsaðila hafi aðalstefnanda borið að greiða 0,5% af upphaflegri samningsfjárhæð, sem hafi verið 1.282.785 , fyrir hvern dag sem afhending dróst, en þó samtals að hámarki 10% af samningsfjárhæðinni. Vegna hins langa dráttar á afhendingu skipsins hafi aðalstefndi haldið eftir hámarksfjárhæðinni, 128.279 , og dregið frá uppgjöri til aðalstefnanda í bréfi 19. febrúar 2008. Aðalstefnandi beri því við í málatilbúnaði sínum að forsendur hafi brostið fyrir umsömdum verktíma þar sem verkið hafi breyst mikið. Aðalstefndi vísi í þessu sambandi til greinar 4 í verksamningi þar sem fjallað sé um breytingar og aukaverk og áhrif þeirra á verktíma. Samkvæmt grein 4.3. hafi borið að semja skriflega um allar breytingar og aukaverk og áhrif þeirra á afhendingartíma. Af þessu leiði að ef ekki var samið sérstaklega um aukaverk og áhrif þeirra á verktíma, hafi það engin áhrif haft á afhendingartíma. Vísast í þessu sambandi til greinar 16.6 og 16.7 í ÍST 30:2003 um breytingar á verki og aukaverk og kafla 24 í sama staðli um aukaverk og áhrif þeirra á afhendingartíma, einkum grein 24.3. Verksamningurinn byggi þannig á sömu reglum og komi fram í staðlinum.
Með samkomulagi málsaðila 21. maí 2007 hafi þeir samið um að framlengja verktíma um 9 vikur frá því sem upphaflega var ákveðið vegna breytinga og aukaverka. Verkinu hafi átt að vera lokið 31. október 2006, eins og fram komi í verksamningnum. Miðað við umsamda framlengingu á verkinu hefði því átt að vera lokið í janúar 2007. Samkvæmt því sé dráttinn fyrst og fremst að rekja til atvika sem varði aðalstefnanda. Þá hafi aðalstefnandi allt fram á síðustu daga nýs afhendingartíma, sem áætlaður var 28. nóvember 2007, haldið því fram, að skipið yrði afhent á réttum tíma, óháð aukaverkum og breytingum. Þetta komi fram í fjölda verkfundargerða, t.d. fundargerð frá 21. nóvember s.á. Skipið hafi ekki verið afhent fyrr en 12. janúar 2008. Krafa aðalstefnda um tafabætur eigi því fullan rétt á sér og beri að draga hana frá uppgjöri til aðalstefnanda. Í þessu sambandi vísi aðalstefndi til 7. tl. samkomulags málsaðila, sem gert hafi verið rétt fyrir afhendingu skipsins, þar sem fram komi að um uppgjör, ábyrgð á verkinu og annað, sem ekki sé tekið fram í samkomulaginu, skuli fara eftir verksamningi og fylgigögnum með honum.
Aukaverk á reikningi nr. 1371:
Reikningurinn hafi borist eftirliti og aðalstefnda 31. janúar 2008 þrátt fyrir að hann sé dagsettur 8. janúar s.á. Verkfundargerð frá 12. janúar 2008 bendi líka ótvírætt til að reikningurinn hafi ekki verið til á þeim tíma. Aðalstefnandi hafi viðurkennt þetta í raun með því að krefjast dráttarvaxta frá 28. febrúar s.á. Reikningurinn sé vegna aukaverka sem unnin hafi verið að beiðni eftirlits, ýmist samkvæmt tilboði eða í tímavinnu.
Aukaverk 64. Fjarlægja glussadælu af bógskrúfuvél.
Í beiðni eftirlits, Verkfræðistofunnar Navis ehf., 16. október 2007 vegna þessa verks komi fram ósk um að dælan verði send viðurkenndum þjónustuaðila til skoðunar. Annað hafi ekki verið beðið um og því hafi verkið verið unnið á ábyrgð og kostnað aðalstefnanda, sbr. kafla 4.3 í verksamningi málsaðila, sbr. einnig grein 16.6 í ÍST 30:2003. Þrátt fyrir að aðalstefnandi ætti engan rétt á greiðslu fyrir þetta verk hafi aðalstefndi fallist á að greiða honum 2.500 umfram skyldu. Frekari kröfum sé hafnað. Allt of margir tímar hafi farið í verkið.
Aukaverk 74. Lagfæra leka á austurlögn.
Eftirlit (Navis) hafi óskað eftir tilboði í þennan lið en ekki fengið. Þrátt fyrir það hafi aðalstefndi ákveðið að greiða fyrir þennan verklið. Aðalstefnandi hafi fallist á að lækka kröfu sína samkvæmt þessum lið vegna tvískráningar. Ágreiningur standi því aðeins um 93 sem eftirlitið hafi hafnað þar sem eðlilegt sé að krafa vegna vélavinnu lækki í hlutfalli við færri vinnustundir. Þetta leiði m.a. af eðli máls. Kröfum samkvæmt þessum lið sé því hafnað.
Aukaverk 75. Endurnýja spólu á SB-niðurfærslugír.
Eftirlit (Navis) hafi óskað eftir tilboði í þennan lið en ekki fengið það, sbr. þó grein 4.3 í samningi aðila, sem geri ráð fyrir samningi á milli aðila við þessar aðstæður. Svo sem fram komi í stefnu hafi aðalstefnandi fallist á að lækka þennan lið vegna tvískráningar. Ágreiningur aðila upp á 130 stafi af því að verð fyrir segulspólu og hús sé mun hærra en aðalstefnandi hafi kynnt eftirliti. Eftirlitið hafi óskað eftir því að aðalstefnandi legði fram reikninga til staðfestingar á kaupverðinu en aðalstefnanda sé samkvæmt grein 1.3.7 í samningi málsaðila aðeins heimilt að leggja 4% ofan á cif verð vörunnar. Aðalstefnandi hafi þrátt fyrir áskoranir eftirlits ekki lagt fram reikning fyrir vörunni sem honum ætti þó að vera í lófa lagið að gera. Hann verði því að bera halla af þessum upplýsingaskorti. Kröfum aðalstefnanda vegna þessa liðar sé því hafnað og vísað til rökstuðnings eftirlits (Navis).
Aukaverk 76. Hraðabreytir á annan vélarúmsblásara.
Ágreiningur málsaðila stafi annars vegar af því að aðalstefnandi hafi ekki lagt fram reikninga til sönnunar á efniskostnaði og verði því að bera halla af því, sbr. grein 1.3.7. Hins vegar telji eftirlit að 21 klukkustund til að festa upp einn hraðabreyti sé allt of langur tími sem standist ekki. Kröfum aðalstefnanda vegna þessa liðar sé því hafnað og vísað til rökstuðnings eftirlits (Navis).
Aukaverk 77. Endurnýjun á reyk- og hitaskynjurum.
Eftirlit (Navis) hafi óskað eftir tilboði í þennan lið en ekki fengið, sbr. þó grein 4.3 í samningi málsaðila sem geri ráð fyrir samningi á milli þeirra við þessar aðstæður. Eftirlit telji efniskostnað í engu samræmi við grein 1.3.7 í samningi málsaðila og aðalstefnandi hafi ekki orðið við áskorunum eftirlits um að leggja fram reikninga fyrir skynjurunum. Hann verði því að bera halla af þessum upplýsingaskorti. Aðalstefnandi hafi lækkað vinnuþátt samkvæmt þessum lið úr 30 klukkustundum í tvær þar sem vinnuþátturinn hefði verið hluti af samningsverkinu. Kröfum aðalstefnanda vegna þessa liðar sé því hafnað og vísað til rökstuðnings eftirlits (Navis).
Aukaverk 78. Færsla á loftræstiröri og undirstöðu björgunarbáts.
Eftirlit (Navis) hafi óskað eftir tilboði í þennan lið en það hafi aldrei borist, sbr. þó grein 4.3 í samningi málsaðila sem geri ráð fyrir samningi á milli þeirra við þessar aðstæður. Engu að síður hafi aðalstefndi fallist á að greiða kröfu samkvæmt honum eftir að aðalstefnandi leiðrétti tímaskráningu. Ekki sé lengur ágreiningur um hann og hafi hann því ekki áhrif á mál þetta.
Aukaverk 79. Hreinsun á glussaolíugeymi og lögnum fyrir háþrýstikerfi.
Svo sem fram komi í athugasemdum eftirlits hafi tímar verið tvískráðir í þessu verki. Sami maður hafi verið skráður með 12 klukkustundir í dagvinnu og 5 í eftirvinnu sama daginn. Aðalstefnandi hafi leiðrétt þetta sem nemi 4 klukkustundum í dagvinnu. Eftirlit telji þrátt fyrir það tímafjölda of mikinn og ekki standast nánari skoðun. Kröfum samkvæmt þessum lið sé því hafnað og vísað til rökstuðnings eftirlits (Navis).
Aukaverk 80. Kúlulokar á háþrýstikerfi TTS-búnaðar.
Eftirlit hafi óskað eftir tilboði í þennan lið en það hafi þó aldrei borist, sbr. þó grein 4.3 í samningi málsaðila sem geri ráð fyrir samningi á milli þeirra við þessar aðstæður. Aðalstefnandi hafi því unnið verkið á eigin ábyrgð án þess að eiga rétt á greiðslum. Engu að síður hafi eftirlit ákveðið að samþykkja 14 tíma á verkið þegar frá er talin tvískráning, sem falist hafi í því að sami maður hafi verið talinn í tveimur verkum á sama tíma, þ.e. aukaverki 80 og 95. Þá telji eftirlit að tímar hafi verið of margir miðað við umfang verks. Kröfum samkvæmt þessum lið sé því hafnað.
Aukaverk 84. Frárennsliskerfi frá salernum.
Tímaskrift samkvæmt þessum lið sé augljóslega röng og eftir á tilbúningur. Rúrik Birgisson, verkstjóri aðalstefnanda, sé skráður með 8 klukkustundir í dagvinnu þennan dag. Eftirlit (HE) hafi verið um borð þennan morgun og hafi Rúrik ekki verið á svæðinu og heldur ekki á meðan vegamálastjóri ásamt fleirum var um borð til hádegis þennan dag. Fjórir menn séu skrifaðir á verkið föstudaginn 4. janúar 2008, hver um sig með 8 klukkustundir í dagvinnu og 2 í aukavinnu. Samkvæmt athugun eftirlits hafi vinnu lokið klukkan 15.30 þennan dag og því standist ofangreind tímaskráning ekki. Eftirlit hafi samþykkt 30 klukkustundir vegna þessa verkliðar sem það telji hámarkstíma til að vinna þetta verk. Frekari kröfum sé því hafnað. Nánar um þennan lið vísist til rökstuðnings eftirlits (Navis).
Aukaverk 85. Setja neyðarljós í stigahús samkvæmt kröfu Lloyd´s Register.
Verkið sé hluti af samningsverki, sbr. grein 9.4 í verksamningi málsaðila, þar sem gert sé ráð fyrir að aðalstefnanda beri að setja upp neyðarljós samkvæmt reglum. Engin beiðni hafi legið fyrir um aukaverk vegna þessa liðar, sbr. þó grein 4.3 í samningi málsaðila sem geri ráð fyrir samningi á milli þeirra við þessar aðstæður. Aðalstefnandi verði því að bera áhættu af kostnaði vegna þessa. Kröfum samkvæmt þessum lið sé því hafnað og vísað til rökstuðnings eftirlits (Navis).
Aukaverk 86. Endurnýjun lampa í vélarúmi.
Engin beiðni hafi legið fyrir frá eftirliti um þessa vinnu, sbr. þó grein 4.3 í samningi málsaðila. Þvert á móti komi fram í fundargerð frá verkfundi aðila 18. maí 2007 og lista sem henni fylgdi, að eftirlit hafi lagst gegn því að verkið yrði unnið. Verkið hafi því verið unnið á áhættu og kostnað aðalstefnanda. Aðalstefnandi hafi haldið því fram að verkið hefði verið unnið að kröfu Loyds sem flokkunarfélags skipsins, en aðalstefnandi beri ábyrgð á að verk sé unnið samkvæmt kröfum flokkunarfélagsins, sbr. kafla 3 í útboðsgögnum. Eftirlit hafi óskað eftir að aðalstefnandi legði fram skriflega staðfestingu flokkunarfélagsins, en við því hafi hann ekki orðið. Kröfum samkvæmt þessum lið sé því hafnað og vísað til rökstuðnings eftirlits.
Aukaverk 87. Endurnýja rofa fyrir kælivatnsdælu á þétti.
Um þennan lið vísist til málsástæðna aðalstefnda vegna liðar 86.
Aukaverk 89. Setja nýjan stjórnloka á aftari spilkopp.
Samkvæmt stefnu séu ekki lengur gerðar kröfur vegna meints aukaverks nr. 89 sem þó hafi verið hluti af reikningi stefnanda nr. 1371. Ekki verði hins vegar séð að stefnukrafan hafi verið lækkuð sem svari fjárhæð þessa liðar, eða um 760,70 , eins og þó væri eðlilegt þar sem verkið sé ekki talið með í kröfugerð aðalstefnanda. Kreditreikningur aðalstefnanda taki ekki til framangreindrar fjárhæðar, þ.e. 760,70 . Hún hafi því ekki enn verið dregin frá dómkröfunum. Eftirlit (Navis) hafi óskað eftir tilboði í þetta verk en það hafi aldrei borist, sbr. þó grein 4.3 í samningi aðila sem geri ráð fyrir samningi milli aðila við þessar aðstæður. Engu að síður hafi aðalstefnandi unnið verkið á eigin ábyrgð og fengið greitt fyrir það. Draga þurfi því framangreinda fjárhæð frá dómkröfunum. Nánar vísist um þennan lið til rökstuðnings eftirlits (Navis).
Reikningur 1372:
Þessi reikningur hafi borist eftirliti (og aðalstefnda) 31. janúar 2008 þrátt fyrir að hann sé dagsettur 8. janúar 2008. Verkfundargerð aðila frá 12. janúar s.á. bendi líka ótvírætt til að reikningurinn hafi ekki verið til á þeim tíma. Aðalstefnandi hafi viðurkennt þetta í raun með því að krefjast dráttarvaxta frá 28. febrúar 2008. Engin eftirfarandi verka, sem þessi reikningur sé byggður á, hafi verið unnin að beiðni eftirlits eða verkkaupa eða samkvæmt tilboði. Þvert á móti hafi þau öll verið unnin í tímavinnu samkvæmt ákvörðun aðalstefnanda sjálfs. Ekkert þeirra sé heldur á lista yfir aukaverk sem undirritaður hafi verið um leið og fundargerð á síðasta verkfundi 12. janúar 2008 þegar skipið var afhent. Samkvæmt þeirri fundargerð hafi aðeins átt eftir að reikna út verð á þau aukaverk sem þar séu tilgreind.
Samkvæmt meginreglum verktakaréttar, sem gildi m.a. um verksamning málsaðila, beri aðalstefnda sem verkkaupa aðeins að greiða fyrir þau aukaverk sem honum hafi verið kynnt og hann samþykkt fyrir fram, sbr. grein 4.3 í verksamningnum. Þessi meginregla komi m.a. fram í 16. kafla ÍST 30:2003, t.d. grein 16.6, 16.7. og 16.8. Þetta hafi enn frekar átt við þar sem ítrekað hafi verið skorað á aðalstefnanda á verkfundum að upplýsa um möguleg aukaverk, auk þess sem þessi verk séu ekki á meðal aukaverka sem talinn voru upp á lista sem fylgdi verkfundargerð við afhendingu skipsins 12. janúar 2008. Framangreind meginregla gildi einnig í samningarétti, þ.e. að sá sem vinni verk án beiðni, hljóti sjálfur að bera áhættuna af því að fá greitt fyrir það. Af þessu leiði að sýkna verði af kröfum aðalstefnanda samkvæmt þessum lið/reikningi.
Mótmæli aðalstefnda við meint „aukaverk“ samkvæmt reikningi 1372 séu eftirfarandi og jafnframt vísað nánar til rökstuðnings sem fram komi í athugasemdum eftirlits Navis:
Aukaverk 92. Slöngur og fittings sem vantaði í TTS sendingu.
Í grein 8.4 í útboðsgögnum komi fram að aðalstefnandi eigi að útvega m.a. rör og „fittings“, sem sé ekki með í búnaði samkvæmt fyrri hluta greinar 8.4, sem sé aðkeyptur búnaður. Fljótlega eftir að verksamningur málsaðila var undirritaður, hafi komið með teikningum frá TTS svokallaður „scope of supply list“ sem eftirlit hafi afhent aðalstefnanda og Erni Marelssyni tæknifræðingi sem þá hafi unnið tæknivinnu fyrir aðalstefnanda. Á þessum lista komi fram að aðalstefnandi eigi að útvega rör og „fittings“ og sé það í samræmi við áðurgreinda grein 8.4. Engar athugasemdir hafi komið fram fyrr en í byrjun október 2007 um að „fittings“ vantaði í sendingu TTS. Aðalstefnandi hafi heldur ekki upplýst um hvaða búnaður þetta væri þrátt fyrir áskoranir þar um eins og ítrekað komi fram í fundargerðum frá verkfundum, sbr. t.d. í fundagerð 28. nóvember 2008. Verði aðalstefnandi að bera halla af þessu tómlæti sínu. Aðalstefnda sé enn ekki ljóst til hvaða búnaðar nákvæmlega krafa aðalstefnanda taki. Aðalstefnandi beri sönnunarbyrðina fyrir því að aðalstefndi eigi að greiða þennan búnað og að hann sé ekki meðal þess sem aðalstefnanda bar að afhenda samkvæmt grein 8.4 í útboðsgögnum. Kröfum samkvæmt þessum lið sé því hafnað.
Aukaverk 93. Breyting á blökkum í síðuporti samkvæmt tilmælum TTS.
Verkið hafi ekki verið unnið samkvæmt beiðni eftirlits, sbr. þó grein 4.3 í verksamningi aðila sem geri ráð fyrir samningi á milli þeirra við þessar aðstæður. Óumdeilt sé að þarna hafi verið galli sem þurfti að lagfæra. Eftirlit hafi fylgst með verkinu og áætlað rauntíma í það um það bil 45 klukkustundir. Í samræmi við það hafi eftirlit samþykkt að greiða 3.500 af 5.871 kröfu aðalstefnanda. Aðalstefnandi hafi hins vegar gert kröfu um að fá greiddar 92 klukkustundir vegna þessa verkliðar. Aðalstefndi telji það allt of langan tíma, eins og eftirlit, sem ekki fáist með nokkru móti staðist. Frekari kröfum vegna þessa verkliðar sé því hafnað.
Aukaverk 94. Breyting á rafmagni sem var ekki á teikningum frá TTS.
Verkið hafi ekki verið unnið samkvæmt beiðni eftirlits, sbr. þó grein 4.3. í verksamningi málsaðila. Aðalstefnandi hafi unnið verkið á eigin ábyrgð og áhættu. Hann eigi því ekki kröfu á að fá það greitt gegn mótmælum aðalstefnda. Verkið sé hluti af samningsverki, sbr. 2. mgr. greinar 15.5 í útboðslýsingu, sbr. lokamálsgrein greinar 8.4. Aðalstefnandi eigi því ekki rétt á greiðslu samkvæmt þessum lið.
Aukaverk 95. Skolun á glussalögnum við TTS búnað samkvæmt forskrift Norðmanna, þrýstiprófa hverja grein.
Verkið hafi ekki verið unnið samkvæmt beiðni eftirlits, sbr. þó grein 4.3. í verksamningi málsaðila. Skolun og háþrýstiprófun kerfisins sé hluti af uppsetningu þess og því innifalið í tilboðsfjárhæð. Aðalstefndi vísi til venju á þessu sviði, þ.e. að kerfi sé prófað eftir að það sé uppsett. Þá leiði af eðli máls að skola verði og prófa kerfið, þar sem sá sem setji upp slíkt kerfi þurfi að skola það og fullvissa sig um að það virki. Þá vísi aðalstefndi til gagna frá TTS „Technical spacification for TTS cargo acess equipment“ og „scope of supply list“ sem afhentir hafi verið fulltrúum aðalstefnanda og Erni Marelssyni tæknifræðingi skömmu eftir gerð verksamnings. Í þessum gögnum komi ótvírætt fram að kerfið beri að skola og háþrýstiprófa. Aðalstefnandi hafi ekki gert athugasemdir við það fyrr en löngu síðar og beri því halla af tómlæti sínu. Þá telji eftirlit tímaskráningu í engu samræmi við raunveruleikann. Kröfum samkvæmt þessum lið sé því hafnað.
Aukaverk 97. Mæla skekkju á skrúfuöxli og gír fyrir Lloyd´s Register.
Þetta verk hafi ekki verið unnið að beiðni eftirlits (Navis), sbr. þó grein 4.3 í verksamningi málsaðila. Samkvæmt því sem fram komi í skýringum aðalstefnanda hafi verkið verið unnið að beiðni flokkunarfélags skipsins (Lloyds), en aðalstefnanda hafi borið að vinna verkið í samræmi við kröfur þess og bera kostnað af því eftirliti, sbr. grein 3 í útboðsgögnum. Samkvæmt grein 5.7 í útboðsgögnum hafi aðalstefnanda borið að öxuldraga skipið og mælingar á því hvort verkið stæðist kröfur væru því eðlilegur hluti þess. Í greinum 2.1 og 2.3 í útboðsgögnum komi fram að aðalstefnandi skuldbindi sig til að fara eftir kröfum yfirvalda og flokkunarfélags. Þá sé tímaskráning varðandi þennan lið óhófleg. Kröfum samkvæmt þessum lið sé því hafnað.
Aukaverk 98. Yfirferð á aðvörunarkerfi og skýrslugerð.
Þetta verk hafi ekki verið unnið að beiðni eftirlits (Navis), sbr. þó grein 4.3 í verksamningi málsaðila sem geri ráð fyrir samningi á milli þeirra við þessar aðstæður. Verkið hafi verið unnið að frumkvæði aðalstefnanda sem verði að bera halla af því að hafa ekki fengið það samþykkt fyrir fram. Kröfum samkvæmt þessum lið sé því hafnað.
Aukaverk 99. Klassakostnaður umfram aukaverk.
Svo sem fram komi í stefnu varðandi þennan lið liggi ágreiningur málsaðila aðeins í kröfu aðalstefnanda um 4% álag á útlagðan kostnað hans vegna úttekta og eftirlits flokkunarfélagsins (Loyds). Kröfu sinni til stuðnings vísi aðalstefnandi til greinar 1.3.7 í útboðsgögnum þar sem heimild sé fyrir aðalstefnanda til að leggja 4% álag á búnað og efni sem hann þurfi að kaupa til verksins. Aðalstefnandi telji að sömu sjónarmið gildi um eftirlitskostnað flokkunarfélagsins, þ.e. að hann eigi rétt á 4% álagi á þann kostnað þar sem það „kosti fé að leggja út slíka fjármuni og hafa þá útistandandi svo mánuðum skiptir“, eins og það sé orðað. Aðalstefndi byggi hins vegar á því að grein 1.3.7 sé alveg skýr um það að þetta gildi aðeins um efni og búnað en ekki annan kostnað. Aðalstefnanda hafi verið í lófa lagið að senda reikninga vegna þessa kostnaðar jafnóðum til aðalstefnda um leið og hann féll til. Aðalstefnandi verði sjálfur að bera halla af því að hafa dregið þetta fram yfir lok verksins. Þá vísi aðalstefndi í þessu sambandi til greinar 2.1 og 2.3 í útboðsgögnum þar sem fram komi að aðalstefnandi beri almennt kostnað af eftirliti flokkunarfélags. Kröfum samkvæmt þessum lið sé því hafnað.
Aukaverk 100. Skera úr turni fyrir víra og breyta læsingum á lúgum að tilmælum TTS.
Þetta verk hafi ekki verið unnið að beiðni eftirlits (Navis), sbr. þó grein 4.3 í verksamningi málsaðila sem geri ráð fyrir samningi á milli þeirra við þessar aðstæður. Verkið hafi verið unnið að frumkvæði aðalstefnanda sem verði að bera halla af því að hafa ekki fengið það samþykkt fyrir fram. Kröfum samkvæmt þessum lið sé því hafnað.
Aukaverk 101. Breyta festingum fyrir tjakka á lestarlúgu TTS.
Samkvæmt stefnu séu ekki lengur gerðar kröfur vegna meints aukaverks nr. 101 sem hafi þó verið hluti af reikningi aðalstefnanda nr. 1372, sbr. fylgiskjöl með honum. Ekki verði hins vegar séð að stefnukrafan hafi verið lækkuð sem svari eftirstöðvum þessa liðar, eða um 240 evrur, eins og þó væri eðlilegt þar sem verkið sé ekki talið með í kröfugerð aðalstefnanda. Vísist um þetta til kreditreikningsins, en fylgiskjöl sem hafi fylgt honum sýni að hann taki ekki til framangreindra eftirstöðva, þ.e. 240 . Fjárhæðin hafi því ekki enn verið dregin frá dómkröfunum. Verkið hafi ekki verið unnið að beiðni eftirlits, en að fengnum útskýringum aðalstefnanda hafi verið samþykkt að greiða kröfu hans að undanskildum framangreindum 240 . Fjárhæðina beri því að draga frá dómkröfunum.
Aukaverk 103. Koma fyrir styrkingum við lúgukarm í lest að kröfu Lloyd´s.
Samkvæmt því sem fram komi í stefnu varði ágreiningur um þennan lið eingöngu málningarkostnað. Krafan sé fráleit og vanreifuð. Um sé að ræða málningu á styrkingu í kringum eina lestarlúgu og fráleitt að það geti kostað 5.024 . Þá vísist um þetta til fundargerðar af verkfundi 15. nóvember 2007, þar sem fram komi að búið sé að vinna verkið samkvæmt kílóaverði og að aðalstefnandi hafi bókað að styrkingarnar yrðu ekki málaðar. Þrátt fyrir það hafi hann tekið einhliða ákvörðun um að mála þær. Málsástæður aðalstefnanda samkvæmt þessum lið séu algerlega í ósamræmi við athugasemdir hans og undirgögn reikningsins. Krafan sé því vanreifuð og beri að vísa henni frá dómi eða eftir atvikum hafna henni.
Aukaverk 104. Koma fyrir olíudælu. Tekin niður vegna viðgerðar á ljósavél.
Aldrei hafi verið beðið um að aðalstefnandi ynni þetta aukaverk eins og þó hafi verið skylt samkvæmt grein 4.3 í verksamningi sem geri ráð fyrir samningi á milli málsaðila við þessar aðstæður. Aðalstefnandi beri því sjálfur ábyrgð á að hafa unnið verkið og sitji uppi með meintan kostnað vegna þess. Kröfum samkvæmt þessum lið sé því hafnað.
Aukaverk 105. Breyta körmum og skipta um gúmmí í lúgum vegna óþéttleika.
Ekki hafi verið beðið um þetta aukaverk, sbr. þó grein 4.3 í verksamningi málsaðila sem geri ráð fyrir samningi á milli þeirra við þessar aðstæður. Engu að síður hafi eftirlit ákveðið án skyldu en út frá sanngirnisjónarmiðum að samþykkja 10.000 fyrir þetta verk. Eftirlit telji kröfu aðalstefnanda um 19.970 fyrir þetta ótrúverðuga og tímann sem skráður sé á verkið með ólíkindum. Í athugsemdum eftirlits komi fram að sjálfsagður hluti af vinnu aðalstefnanda hafi verið að fella saman lúgu og lúgukarm og hafi aðalstefnandi því ekki átt að fá greitt sérstaklega fyrir það. Frekari kröfum vegna þessa liðar sé hafnað.
Aukaverk 107. Smíða og koma fyrir hlíf yfir glussalagnir á dekki.
Samkvæmt grein 8.4 í útboðsgögnum hafi aðalstefnandi átt að útvega lagnir að aðkeyptum búnaði frá TTS. Eftirlit hafi lagt til ódýrustu lagnaleiðina ofan þilja, en aðalstefnandi hefði gert ráð fyrir að leggja lagnirnar undir þilfari sem hafi verið mun dýrari leið. Hlífar yfir glussalögnum séu innifaldar í fullnaðarfrágangi á lögnunum, sbr. framangreinda grein 8.4. Stýrilagnir samkvæmt þessari grein hafi verið ágreiningsmál á milli málsaðila og hafi því máli verið lokið með því að þeir skiptu kostnaði vegna þessa jafnt á milli sín. Aðalstefndi hafi með því talið sig ganga mjög langt til sátta þar sem engum vafa sé undirorpið að aðalstefnandi hafi átt að greiða lagnirnar samkvæmt grein 8.4. Þá sé og á það að líta að ekki komi fram beiðni um hlífar yfir glussalagnirnar sem þó hefði borið að gera samkvæmt grein 4.3 sem geri ráð fyrir samningi á milli aðila við þessar aðstæður. Kröfu samkvæmt þessum lið hafi aðalstefndi því greitt að fullu.
Aukaverk 109. Endurnýjun á loftræstistokkum, túðum og eldhúsháfi.
Uppsetning á háfnum sé vinna sem innifalin sé í samningsverki, sbr. grein 9.4 í útboðsgögnum. Þá hafi aðalstefnandi keypt viftu og sett hana upp svo sem honum hafi borið að gera án atbeina eftirlits. Hafi hann talið það aukaverk hafi honum borið að tilkynna það fyrir fram og fá leyfi eftirlits, sbr. grein 4.3 í verksamningi. Það hafi hann ekki gert og verði því að bera halla af því tómlæti sínu. Krafa hans vegna þessa hafi fyrst komið fram eftir að skipið var afhent. Eftirlit hafi hins vegar fallist á að vinna vegna loftræstistokka væri unnin í tímavinnu, eins og fram komi í fundargerð verkfundar 7. nóvember 2007. Það verk hafi verið unnið af undirverktaka. Eftirlit hafi krafist þess að fá að sjá reikninga frá þessum verktaka, eins og fram komi í athugasemdum þess, þar sem það hafi talið kröfu aðalstefnanda allt of háa. Aðalstefnandi hafi ekki orðið við þeim kröfum og verði því að bera halla af þessum upplýsingaskorti. Þá sé krafa aðalstefnanda samkvæmt þessum lið augljóslega vanreifuð. Samkvæmt því sem fram komi í stefnu sé um að ræða kostnað vegna nýrrar viftu auk endurnýjunar á loftræstistokkum. Samkvæmt fylgigögnum sem fylgdu reikningi 1372 sé kostnaður við eldhúsháf „aðeins“ 1.196,24 en heildarkostnaður samkvæmt þessum verklið sé 11.615 , þar af sé efni og vélalvinna 7.949,86 . Til að leggja dóm á kröfuna sé nauðsynlegt að fá undirgögn, svo sem reikninga vegna efniskostnaðar, vinnu blikksmiða o.s.frv. Óhjákvæmilegt sé annað en að vísa kröfunni frá dómi vegna vanreifunar eða a.m.k. sýkna að svo stöddu vegna hennar.
Reikningur frá Bæti ehf. vegna vélaviðgerða.
Aðalstefndi hafi ekkert haft með aðkomu „Bætismanna“ að verkinu að gera og engin beiðni hafi legið fyrir sem þó hafi verið skylt, sbr. grein 4.3 í verksamningi. Aðalstefnandi verði því að bera kostnað vegna þessa. Aðalstefnandi hafi fyrst upplýst á verkfundi 21. nóvember 2007 að krafa eða reikningur vegna þessa væri á leiðinni. Reikningur hafi þó ekki borist fyrr en 31. janúar 2008 þegar skipið hafði verið afhent. Kostnaður vegna þessa sé hluti af samningsverki, þ.e. að keyra upp vélar og prófa eftir heildarupptekt á þeim, sbr. grein 4.1 í útboðsgögnum. Aðalstefndi mótmæli fullyrðingum í stefnu um að fullt samkomulag hafi verið með málsaðilum um að aðalstefndi greiddi reikninga frá Bæti. Þá hafni aðalstefndi þeirri fullyrðingu aðalstefnanda að ekki hafi verið hægt að gera upp við Bæti fyrr en eftir siglingu skipsins til Akureyrar, þar sem maður á vegum Bætis hafi verið fenginn sem vélstjóri í þá ferð. Hið rétta sé að eftirlit (HE) hafi fengið mann á vegum Bætis til að vera vélstjóri í nefndri ferð og hafi aðalstefndi greitt Bæti fyrir það sérstaklega án aðkomu aðalstefnanda. Kröfum vegna þessa liðar sé því hafnað.
Reikningur nr. 1414:
Krafa aðalstefnanda vegna þessa sé vanreifuð og ekki í samræmi við d- og e-liði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Því beri að vísa henni frá dómi. Í stefnu komi aðeins fram að um sé að ræða viðbótarkostnað vegna breytingar á pöntun á stólum í farþegasal án þess að það sé rökstutt nánar. Ekkert komi fram um það í hverju viðbótarkostnaðurinn sé fólginn og engin undirgögn lögð fram því til sönnunar. Verði ekki fallist á frávísunarkröfuna sé krafist sýknu af þessum lið vegna sönnunarskorts.
Frádráttur vegna reikninga Hafnarfjarðarhafnar fyrir rafmagn og vegna hafnargjalda.
Samkvæmt grein 1.3.10 í útboðsgögnum hafi aðalstefnanda borið að greiða hafnargjöld á meðan á verkinu stóð og einnig rafmagn á sama tíma, sbr. grein 1.3.8 í útboðsgögnum. Aðalstefndi hafni þeirri fullyrðingu aðalstefnanda að með því að greiða rafmagn og stöðugjöld samkvæmt samkomulaginu frá 21. maí 2007, hafi hann í raun viðurkennt að bera ábyrgð á þessum kostnaði. Samkomulagið hafi að þessu leyti aðeins tekið til lengingar á verktíma vegna aukaverka á meðan skipið var í flotkví, samtals 9 vikur. Samningur málsaðila hafi eftir sem áður gilt um réttarsamband þeirra og aðalstefnanda hafi borið að tilkynna sérstaklega ef hann teldi að aðalstefndi ætti að greiða allan rafmagnskostnað og hafnargjöld það sem eftir var verksins, þvert á samninga málsaðila. Það hafi hann ekki gert og verði að bera halla af því tómlæti sínu. Hafnarfjarðarhöfn hafi gert kröfu um að verkkaupi greiddi þennan kostnað þar sem reglan hafi verið sú að senda reikninga vegna þessa á skipseigendur. Rökin að baki því séu þau að höfnin hafi veð í skipinu verði um vanefndir að ræða. Aðalstefndi eigi fullan rétt á því að kostnaður vegna rafmagns og hafnargjalda sé dreginn frá í uppgjöri hans við aðalstefnanda, sbr. bréf lögmanns aðalstefnda 19. febrúar 2008. Hér sé ekki ágreiningur um upphæðir heldur eingöngu um hvar greiðsluskyldan liggi, sbr. það sem fram komi í stefnu varðandi þennan lið.
Frádráttur vegna MOB krana.
Ágreiningur vegna þessa fjalli eingöngu um það hvort aðalstefnda hafi verið heimilt að draga frá 16.182 í uppgjöri sínu við aðalstefnanda 19. febrúar 2008, sbr. bréf lögmanns aðalstefnda sama dag. Aðalstefndi hafi gert reikning á hendur aðalstefnanda vegna helmings kostnaðar við krana fyrir MOB bátinn þennan dag og vísist til hans og fylgigagna með honum. Hinn helminginn hafi aðalstefndi greitt við afhendingu skipsins, sbr. fylgiskjal með fundargerð af verkfundi 12. janúar 2008. Kraninn hafði hins vegar ekki enn verið afhentur við uppgjör 19. febrúar s.á., eins og fram komi í bréfi lögmanns aðalstefnda sama dag. Aðalstefnda hafi því verið rétt að halda eftir kostaði við kranann við uppgjörið. Kraninn hafi hins vegar verið greiddur að fullu þegar hann kom til landsins um miðjan mars 2008. Þetta komi fram í minnisblaði Navis, Hjartar Emilssonar, og fylgigagna með því.
Kreditreikningar nr. 1415 og 1416:
Aðalstefndi haldi því fram að aðalstefnandi hafi ekki gert nægilega grein fyrir því í stefnu til hvaða verkliða framangreindir kreditreikningar nr. 1415 og 1416 nái. Málið sé því vanreifað að þessu leyti og aðalstefnda gert óhægt um vik að gæta hagsmuna sinna.
Fallist dómurinn hvorki á að vísa málinu í heild frá dómi né sýkna aðalstefnda að fullu sé varðandi þrautavarakröfu byggt á því að stefnukröfurnar beri að lækka á grundvelli þeirra sjónarmiða og málsástæðna sem fram komi í umfjöllun um sýknukröfuna. Dráttarvaxtakröfunni beri að vísa frá dómi á grundvelli d- og e-liða 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í stefnu komi fram að aðalstefnandi byggi dráttarvaxtakröfu sína „á ákvæðum vaxtalaga nr. 38/2001“ eins og það sé orðað. Í stefnukröfum komi fram að dráttarvaxta sé krafist samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001. Þetta geri aðalstefnandi þrátt fyrir að dómkrafan sé að öðru leyti í evrum. Engin skýring sé á þessu í stefnunni né vísað til heimildar fyrir þessari kröfugerð. Aðalstefnanda sé óheimilt að krefjast dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 91/1991 af kröfum í erlendum gjaldmiðli án sérstakrar heimildar. Yrði fallist á dráttarvaxtakröfu aðalstefnanda nyti hann hárra íslenskra vaxta á kröfu sem jafnframt nyti gengistryggingar og hagnaðist þannig óeðlilega á kostnað aðalstefnda. Ekki sé heimild fyrir slíkri kröfugerð. Málið sé vanreifað að þessu leyti og því beri að vísa dráttarvaxtakröfunni frá dómi.
Varðandi lagarök vísi aðalstefndi til meginreglna samningaréttar um að samninga skuli efna eftir aðalefni sínu. Þá vísist til almennra meginreglna verktakaréttarins um réttindi og skyldur aðila og til meginreglna ÍST 30, þ.m.t. ákvæða um aukaverk og breytingar á verki, lengingu verktíma, tafabætur, hlutverk og völd eftirlitsmanns í ágreiningsmálum o.fl. Varðandi málskostnaðarkröfu vísist til 21. kafla laga nr. 91/1991.
Málsástæður og lagarök gagnstefnanda í gagnsök
Af hálfu gagnstefnanda er í gagnsök vísað til þess að eftir að skipið var afhent hafi komið í ljós ýmsir gallar á verki gagnstefnda sem ekki hafi sinnt áskorunum um úrbætur. Í gagnsök sæki gagnstefnandi skaðabætur vegna þeirra galla sem hann telji að hafi verið á verki gagnstefnda.
Kröfu sína um skaðabætur byggi gagnstefnandi á reglum skaðabótaréttarins um skaðabætur innan samninga. Gagnstefndi hafi vanefnt verksamninginn með saknæmum og ólögmætum hætti. Ýmsir gallar á verkinu hafi komið í ljós þar sem ekki hefði verið unnið í samræmi við verksamning og auk þess hafi ýmsum verkþáttum ekki verið lokið. Þá hafi gagnstefndi enga viðleitni sýnt til að bæta úr göllum þótt honum hafi verið gefið tækifæri til þess. Gagnstefndi verði því að bæta tjón gagnstefnanda með greiðslu skaðabóta.
Skaðabótakrafa gagnstefnanda sé byggð á því að eftirfarandi verkþættir hafi verið gallaðir:
1. Ýringarkerfi. Í útboðsgögnum grein 17.10 sé óskað eftir tilboði í ýringarkerfi (kaup og uppsetningu). Gagnstefndi hafi boðið í búnaðinn en tilboði hans hafi verið hafnað. Hann hafi síðar gert annað tilboð sem afhent hafi verið á verkfundi 23. nóvember 2006. Í fyrstu hafi tilboði gagnstefnda aðeins verið tekið í þann hluta kerfisins sem fór á bak við klæðningu og í lagnir að dælustöð. Þar sem afhending ferjunnar dróst hafi verið ákveðið 19. september 2007 að taka heildartilboðinu. Gagnstefndi hafi tilkynnt 10. janúar 2008 að dælustöðin væri komin og lokið væri við að koma henni fyrir um borð. Í samkomulagi málsaðila hafi verið ákveðið að verkinu yrði lokið ásamt fleiri verkum annars staðar. Gagnstefndi hafi upplýst að minni háttar verkþættir væru eftir, allar lagnir, bæði rafmagns- og röralagnir hefðu verið lagðar að dælustöð og einungis ætti eftir að tengja hana. Síðar hafi komið í ljós að aðeins hafði verið lagður einn kapall af þremur frá dælustöð og upp í brú þar sem stjórnstöð kerfisins er staðsett. Við lagningu kapla hafi þurft að fjarlægja þilplötur og loftklæðningu. Þá hafi þurft að setja upp loftpressu vegna kerfisins. Við prófun kerfisins af fulltrúa framleiðanda hafi komið í ljós ýmsir annmarkar sem þurft hafi að lagfæra. Gagnstefnda hafi verið tilkynnt um þetta með tölvupósti 13. febrúar 2008 en engin svör hafi borist. Gagnstefnandi hafi því neyðst til að láta vinna verkið hjá Slippnum á Akureyri. Heildarkostnaður hafi reynst 1.733.907 krónur og vísist til meðfylgjandi reikninga. Gagnstefnandi geri kröfu til að gagnstefndi bæti sér þennan galla.
2. Leki á innra ásþétti. Samkvæmt verksamningi, grein 5.7, hafi gagnstefndi átt að öxuldraga og skipta um ásþétti. Eftirlitsmaður skipsins hafi upplýst gagnstefnda 19. febrúar 2008 að nokkru áður hefði komist sjór í stefnisrörið stjórnborðsmegin. Við skoðun hafi komið í ljós að kælikápa innra ásþéttis hefði lekið. Óskað hafi verið eftir að fulltrúi gagnstefnda yrði viðstaddur skoðun og viðgerð á ásþéttinu. Fulltrúi gangstefnda hafi mótmælt því að hann bæri ábyrgð á þessu. Gagnstefnandi byggi á því að frágangur á ásþéttunum hafi verið ófullnægjandi og eftirlit hafi ekki verið kallað til úttektar þrátt fyrir augljósa tæringu í bakplötu og skekkju í kæliplötu innri ásþétta. Vísist til viðgerðarskýrslu og mynda frá Slippnum. Eftir viðgerð hafi kerfið verið þrýstiprófað og reynst þétt. Kostnaður við verkið hafi verið 865.030 krónur og vísist til meðfylgjandi reikninga. Gagnstefnandi geri kröfu um að gagnstefndi bæti sér þennan galla.
3. Lekir gluggar. Samkvæmt greinum 11.3 og 14.3 í útboðsgögnum hafi gagnstefndi átt að kaupa og setja nýja glugga í viðbyggingu aftan við brú ferjunnar. Þá hafi gagnstefndi átt að taka upp alla glugga í brú og yfirbyggingu skipsins og endurnýja gluggaþéttingar. Eftirlitsaðili hafi tilkynnt gagnstefnda með tölvupósti 15. maí 2008 að þrír gluggar á framhlið efri farþegasalar væru lekir og einnig gluggi á afturþili í stigagangi upp í brú stjórnborðsmegin. Engin viðbrögð hafi borist frá gagnstefnda. Síðar hafi komið í ljós að þétta þurfti alla glugga. Töluverð tæring hafi verið undir gluggarömmum, gúmmílistar ekki límdir og sumstaðar skildir eftir brotnir boltar í boltagötum og nýir boltar settir við hliðina án þess að þétta gamla gatið. Gagnstefnandi hafi látið gera við alla gluggana, bæði nýja og eldri glugga. Kostnaður við viðgerðina hafi verið 1.020.936 krónur. Vísað sé til sundurliðunar viðgerðarkostnaðar í reikningum Slippsins. Gagnstefnandi geri kröfu um að gagnstefndi bæti sér þennan galla.
4. Lekar hurðir. Samkvæmt grein 11.3 í útboðsgögnum hafi gagnstefnda borið að kaupa tvær nýjar veðurþéttar hurðir í nýbyggingu aftan við brú. Samkvæmt grein 10.2 í útboðsgögnum skyldi lagfæra tvær stálhurðir. Síðar hafi verið ákveðið að skipta þeim út fyrir tvær plasthurðir sem gagnstefndi hafi útvegað. Gagnstefnda hafi verið tilkynnt með tölvupósti 15. maí 2008 að önnur plasthurðin læki. Engin viðbrögð hafi borist frá honum. Síðar hafi allar hurðirnar lekið. Vélvirki ehf. á Dalvík hafi gert við þær, gúmmíþéttilistar hafi verið endurnýjaðir og lokunarbúnaður stilltur. Margt bendi til að hurðirnar séu of veikbyggðar. Kostnaður við viðgerðina hafi reynst vera 178.634 krónur og vísist til meðfylgjandi reiknings. Gagnstefnandi geri kröfu til þess að gagnstefndi bæti sér þennan galla.
5. Sturtubotn. Samkvæmt útboðsgögnum grein 12.1 hafi gagnstefnda borið að endurnýja öll hreinlætistæki í íbúðum áhafnar. Meðal þeirra hafi verið einn sturtuklefi. Vatn hafi ekki getað runnið úr honum þar sem frárennslisrör hafi reynst hærra en niðurfall. Eftirlit gagnstefnanda hafi tilkynnt gagnstefnda um þetta með tölvupósti 15. maí 2008 án viðbragða frá honum. Kostnaður vegna lagfæringar sé 150.914 krónur en gagnstefnandi geri kröfu til þess að gagnstefndi bæti sér þennan kostnað.
6. Málning. Samkvæmt grein 6.2 og 6.3 í útboðslýsingu hafi gagnstefndi átt að sandblása og mála skipið með fullkomnu málningarkerfi. Gagnstefndi hafi ekki talið sig hafa aðstöðu til að sandblása og í stað þess boðið vatnsblástur sem hann hafi fullyrt að gerði sama gagn. Gagnstefnandi hafi samþykkt vatnsblástur til að liðka fyrir samningum. Skömmu eftir afhendingu skipsins hafi ryð farið að koma í ljós undan málningu. Eftirlit gagnstefnanda hafi tilkynnt gagnstefnda þetta 15. maí 2008 án þess að fá viðbrögð. Það líti út fyrir að mála þurfi skipið á ný frá grunni. Tilboð gagnstefnda í þennan lið hafi verið 147.709 eða um 25.701.366 krónur miðað við gengi evru 174 krónur 4. mars 2010. Gagnstefnandi telji viðgerðarkostnað vegna þess 21.050.000 krónur og geri kröfu um að gagnstefndi bæti sér hann. Matsmaður hafi verið dómkvaddur til að meta þennan kostnað og hafi kröfugerð veri breytt til samræmis við niðurstöðu matsins. Mati hans hafi ekki verið hnekkt.
7. Neysluvatnsgeymir. Samkvæmt grein 6.19 í útboðsgögnum hafi gagnstefndi átt að bjóða í málningu á sérhverjum geymi í skipinu. Gagnstefndi hafi ekki gert það. Eftirlit hafi óskað eftir tilboði í verkið en það hafi aldrei borist. Gagnstefndi hafi unnið verkið og sent reikning sem eftirlit gagnstefnanda hafi samþykkt að lokum. Eftirlitið hafi ekki verið kallað út til að taka út verkið svo sem gagnstefnda hafi borið að gera. Fljótlega eftir afhendingu skipsins hafi komið í ljós að neysluvatn hafi verið óhæft til neyslu. Þegar neysluvatnsgeymir var opnaður hafi sést að sementshúð, sem borin hafði verið á geyminn, hafði losnað að stórum hluta og borist í neysluvatnið. Leðja hafi verið í botni geymisins, hann ryðgaður og að því er virtist málað yfir óhreinindi og ryð. Þá hafi fundist málningarpensill í einu horni geymisins. JF verktakar hafi séð um viðgerð á geyminum. Hann hafi verið sandblásinn og málaður og hafi kostnaður reynst vera 1.940.000 krónur. Gagnstefndi hafi hins vegar gert reikning fyrir verkið að upphæð 4.861,84 eða 845.960 krónur miðað við gengi evru 4. mars 2010 sem sé 174 krónur. Gagnstefnandi geri kröfu um að fá þá fjárhæð endurgreidda sem skaðabætur vegna gallans á verkinu þar sem það hafi þurft að vinna á ný.
8. Þilfarskrani. Samkvæmt grein 8.2 og 8.3 í útboðsgögnum hafi borið að færa krana af aðalþilfari upp á nýtt efra þilfar. Verkið hafi átt að vinna þannig að skera undirstöðu kranans frá þilfari og bæta nýrri þriggja metra undirstöðu undir hann. Gagnstefndi hafi ákveðið að skera kranann frá stöplinum rétt neðan við samsetningarflansinn og setja nýja framlengingu ofan á þann stöpul sem fyrir var og sjóða síðan kranakransinn þar ofan á. Í ljós hafi komið að kranakransinn var ónýtur. Skekkja hans hafi reynst vera 2 mm en leyfileg skekkja samkvæmt upplýsingum framleiðanda sé einungis 0,2 mm. Of mikla skekkju hafi mátt rekja til þess að gagnstefndi hafi ekki farið eftir verklýsingu og kranafótur hafi verið skorinn mjög nálægt snúningskransi. Kranann hafi þurft að taka í land og endurnýja og rétta af snúningskransinn. Kostnaður við þetta hafi reynst vera 3.231.759 krónur sem gagnstefnandi geri gröfu um að gagnstefndi bæti sér. Vísað sé til meðfylgjandi reiknings.
Sundurliðun dómkrafna:
1. Bætur vegna ýringarkerfis 1.733.907 krónur
2. Bætur vegna leka innra ásþéttis 865.030 „
3. Bætur vegna lekra glugga 1.020.936 „
4. Bætur vegna lekra hurða 178.634 „
5. Bætur vegna sturtubotns 150.914 „
6. Bætur vegna málningar 21.050.000 „
7. Bætur vegna neysluvatnsgeymis 845.960 „
8. Bætur vegna þilfarskrana 3.231.759 „
Samtals krafa 29.077.140 krónur
Varðandi dráttarvaxtakröfu vísi gagnstefnandi til 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Dráttarvaxta sé krafist frá þingfestingardegi þegar gagnstefna var lögð fram í málinu, sbr. 4. mgr. 5. gr. sömu laga. Gagnstefnandi vísi til almennra reglna skaðabótaréttarins um skaðabætur innan samninga og meginreglna samningaréttar um að samninga skuli efna eftir aðalefni sínu. Þá vísist til almennra meginreglna verktakaréttarins um réttindi og skyldur aðila og til meginreglna IST 30.
Málsástæður og lagarök gagnstefnda í gagnsök
Gagnstefndi mótmælir því alfarið sem röngu og ósönnuðu að verk hans í Grímseyjarferju hafi verið gallað eða ekki af umsömdum gæðum. Þá mótmælir hann því einnig að þau efni sem notuð voru við verkið hafi ekki staðist gæðakröfur.
Hver einasti verkliður í skipinu hafi verið tekinn út af eftirlitsmanni á vegum gagnstefnanda, en hann hafi fylgst með verkinu frá degi til dags. Allt efni hafi komið frá viðurkenndum framleiðendum og hafi verið samþykkt af verkkaupa. Um málsástæður og kröfuliði geri gagnstefndi eftirfarandi athugasemdir:
1. Ýringarkerfi. Í samkomulagi málsaðila sé ítarlega lýst verklagi sem viðhaft hafi verið þegar skipið var afhent gagnstefnanda 11. janúar 2008. Þá hafi legið fyrir stöðumat, uppfært af eftirlitsmanni gagnstefnanda, úttektarskýrsla, þar sem lýst sé m.a. þeim verkþáttum sem ólokið hafi verið eða voru ófullnægjandi. Þetta hafi síðan verið metið til verðs og dregið frá verklaunum gagnstefnda. Úttektir þessar hafi verið unnar af gagnstefnanda og síðan samþykktar af báðum aðilum. Hafi eitthvað verið ófullnægjandi eða ófrágengið af verkum gagnstefnda, hefði átt að taka það fram þá. Það hafi ekki verið gert.
Gagnstefnandi hafi ekki samþykkt tilboð gagnstefnda fyrr en 19. september 2007, en
þá hefði tilboðið verið búið að liggja á borði hans síðan í nóvember 2006. Þegar tilboðinu hafi loks verið tekið hafi þurft að panta kerfið að utan. Það hafi borist til landsins 10. janúar 2008 eða tveimur dögum áður en skipið var afhent. Gangstefnanda hafi verið fullljós staða þessa verks við afhendingu og hefði átt að gera athugasemd við það hafi hann talið eitthvað vanta upp á frágang þess, sem taka hefði þurft tillit til í fyrrgreindu uppgjöri. Það hafi hann ekki gert.
Eftirlitsmaður gagnstefnanda hafi á sínum tíma farið yfir tilboð gagnstefnda í þennan verklið og samþykkt það athugasemdalaust. Yfirferð hans hafi bæði náð yfir gæði, notagildi og verð þess búnaðar sem boðinn var til kaups.
Að kvöldi 12. janúar hafi gagnstefnandi siglt skipinu norður á Akureyri þar sem það hafi verið afhent annarri skipasmiðju. Eftir það hafi gagnstefndi ekki komið að neinu verki í skipinu. Honum sé alveg ókunnugt um það hvort og þá hvað, eða af hvaða ástæðum, unnið hafi verið við ýringarkerfið eftir að skipið kom norður. Hann hafni allri ábyrgð á því ef þurft hafi að breyta eða bæta þetta kerfi. Hann hafi afhent það sem hann bauð og vinnu við uppsetningu alveg fram að brottsiglingu skipsins. Það sem út af stóð sé honum óviðkomandi enda hefði það átt að koma til frádráttar uppgjörinu.
Krafan um að gagnstefndi leggi gagnstefnanda til loftpressu sé fráleit þar sem ekkert slíkt tæki hafi verið innifalið í tilboði hans. Gagnstefndi hafi ekki selt gagnstefnanda neitt slíkt tæki. Eftirlitsmanni gagnstefnanda hafi verið vel kunnugt um að ekki væri þrýstiloftskerfi í skipinu.
2. Leki á innra ásþétti. Gagnstefndi hafi öxuldregið skipið alveg eins og kveðið var á um í verksamningi málsaðila. Ástengi og legur hafi margoft verið mæld ásamt með eftirlitsmanni og fulltrúa flokkunarfélagsins á verktímanum. Ástæðan hafi verið sú að talið var að skekkja væri í kerfinu. Allir aðilar hafi tekið þetta verk út að lokum. Hins vegar hafi verið vitað að kælikerfið fyrir öxulþéttin væri í ólagi þar sem ásþéttin hitnuðu óeðlilega Allir aðilar málsins hafi vitað af þessu en gagnstefnandi hafi ákveðið að láta gera við þetta á Akureyri, þar sem hann hafi ekki viljað dvelja lengur í Hafnarfirði.
Á siglingunni norður hafi skipverjarnir verið í vandræðum vegna þess hve öxulþéttin hitnuðu mikið. Vandræðin hafi verið alveg frá því að skipið kom út á Faxaflóann. Þegar norður var komið hafi þetta allt verið ónýtt.
Um það bil fimmtán stiga frost hafi verið á Akureyri þegar ferjan var tekin upp fyrir norðan. Kælikápan á ásþéttunum hafi ekki verið tæmd og við það geti pakkningar hafa skemmst af völdum frosts.
Öxulþéttin hafi verið í lagi allan tímann á meðan ferjan var við
bryggju í Hafnarfirði og einnig í þremur prufusiglingum.
Enginn leki hafi komið þá fram en hins vegar hafi myndast hiti. Í hvert skipti hafi gagnstefndi bent á
þessa bilun og boðist til þess að gera við hana en ávallt verið synjað. ![]()
Að kvöldi 19. febrúar 2008 hafi eftirlitsmaður gagnstefnanda sent gagnstefnda tölvupóst þar sem hann hafi skorað á gagnstefnda að mæta við skoðun á ásþéttinu morguninn eftir. Í skeytinu komi fram að gagnstefnandi hafi þá þegar verið búinn að láta fara fram viðgerð á kælikápu ásþéttisins stjórnborðsmegin. Sú viðgerð hafi verið framkvæmd án þess að gagnstefnda væri gert viðvart. Gagnstefndi hafi hvorki átt möguleika á né séð ástæðu til að mæta við boðaða skoðunargerð miðað við þessar aðstæður.
3. Lekir gluggar. Allir gluggar í ferjunni hafi verið teknir út af fulltrúa flokkunarfélagsins og eftirlitsmanni. Það hafi verið gert með því að láta strauminn úr brunaslöngu bylja á gluggunum. Þeir hafi allir reynst þéttir. Engin úttekt hafi farið fram á því hvort og þá að hvaða leyti efni eða ísetningarvinnu, sem unnin var af gagnstefnda, hafi verið ábótavant né í hverju það hafi falist. Athygli veki að athugasemd við ástand glugganna hafi ekki borist fyrr en fjórum mánuðum eftir að skipið var afhent. Gagnstefndi mótmæli því sem röngu og ósönnuðu að gluggarnir hafi verið óþéttir eða gallaðir að öðru leyti þegar skipið var afhent.
4. Lekar hurðir. Hurðirnar sem voru keyptar í ferjuna hafi verið viðurkenndar af Lloyd´s og samþykktar af eftirlitsaðila gagnstefnanda. Engu að síður hafi þær lekið við prófun eftir að þær voru komnar í. Gagnstefndi hafi kvartað við framleiðandann undan þessu, sem brugðist hafi við því með því að leggja til tvær viðbótar Tessur fyrir hverja hurð, en það sé nafnið á læsingunum á slíkum hurðum. Gagnstefndi hafi sett þessar nýju læsingar á hurðirnar á sinn kostnað og hafi þá verið fjórar læsingar á hverri hurð. Eftir að læsingum var bætt við hafi vatnsþol hurðanna verið prófað með sama hætti og lýst var um gluggana. Þær hafi staðist prófið fullkomlega.
Ekkert sé vitað um meðferð skipsins eða umgengni þá fjóra mánuði sem liðu frá því að skipið var afhent þar til athugasemd kom fram varðandi hurðirnar, en það hafi staðið í slipp mest allan þann tíma. Engin úttekt hafi farið fram á því hvort hurðirnar hafi verið gallaðar og þá af hvaða orsökum. Fullyrðingum gagnstefnanda um að gagnstefndi beri ábyrgð á því sé vísað á bug sem röngum og ósönnuðum.
5. Sturtubotn. Gagnstefndi hafi ekki lagt frárennslisrör það sem fjallað er um undir þessum lið. Hann hafi aðeins verið beðinn um að tengja sturtubotninn við rör sem fyrir var og þjónað hafði sturtuklefa sem var í skipinu. Frágangur þessa hafi allur verið með sama hætti og áður hafði verið. Verk gagnstefnda og frágangur hafi verið tekinn út af öllum aðilum án athugasemda. Engin álits- eða matsgerð hafi verið unnin í sambandi við þennan kröfulið. Gagnstefndi sé krafinn um greiðslu viðgerðarkostnaðar sem sé áætlaður af gagnstefnanda án nokkurs rökstuðnings. Raunkostnaður virtist því ekki liggja fyrir sem bendi til þess að eftir tveggja ára notkun ferjunnar, sé ekki enn farið að laga þennan meinta galla. Kröfu þessari, rökstuðningi og sönnunargögnum sé hafnað sem ótækum.
6. Málning. Sú aðferð að hreinsa skip undir málningu með vatnsblæstri sé löngu viðurkennd og hafi gagnstefndi notað hana eingöngu í fjöldamörg ár. Honum hafi aldrei borist kvörtun, hvorki frá útgerðum né eftirlitsaðilum. Þessi aðferð sé betri en sandblástur þar sem hún skoli betur saltinu úr efninu.
Áður en málningarvinna hófst hafi hreinsunin verið tekin út af eftirlitsmanni gagnstefnanda og fulltrúa málningarverksmiðjunnar, en það hafi verið Slippfélagið hf. Skipt var um stóra fleti í byrðingi skipsins. Ekkert hafi komið fram um það hvort meintir ryðblettir séu eingöngu í eldra stálinu eða því öllu. Styðji það þá niðurstöðu að hreinsun skipsins sé í engu ábótavant.
Eftir hreinsunina hafi skipið verið grunnað og hafi það staðið þannig í heilt ár án þess að vart yrði við nokkurt ryð. Síðan hafi það verið heilmálað og það hafi staðið þannig mánuðum saman, bæði í slipp og við bryggju án þess að nokkuð bæri á ryði. Fljótlega eftir að því var lokið hafi verið beðið um nokkur aukaverk sem öll hafi kallað á það að skipshlutar yrðu skornir í burtu og aðrir soðnir í, í staðinn. Við þetta hafi sáldrast járnagnir yfir allt skipið. Slíkar járnagnir brenni sig inn í málninguna og ryðgi svo. Agnir þessar fari ekki í gegn og því sé ekki um ryð að ræða í gegnum málninguna. Vegna þessa hafi gagnstefndi endurmálað stóra hluta skipsins á sinn kostnað auk þess sem hann hafi sýruþvegið það oftar en einu sinni en slíkur þvottur hreinsi agnirnar úr málningunni.
Engar athugasemdir hafi verið gerðar við málningu skipsins áður en það fór norður sem bendi til þess að ekkert ryð hafi þá verið farið að koma fram. Eftir að skipið kom norður hafi það staðið í flotkví í fjóra mánuði þar sem stórfelldar breytingar voru gerðar á yfirbyggingu þess. Ljóst sé að þær hafi kallað á skæðadrífu málmagna yfir allt skipið. Hafi það ekki verið sýruþvegið eða endurmálað eftir þessa meðferð þá sé skiljanlegt að á því hafi komið fram ryð, en það sé ekki á ábyrgð gagnstefnda.
Fyrst hafi verið kvartað undan málningunni eftir að viðgerðinni í slippnum fyrir norðan lauk. Í bréfi eftirlitsmannsins til gagnstefnda 15. maí 2008 hafi hann tilkynnt að hann hefði óskað eftir úttekt málningarsérfræðings Slippfélagsins til þess að gera úttekt á þessum meintu göllum á málningunni og gera skýrslu um málið. Skýrsla þessi hafi ekki enn komið fram.
Hreinsun og málun skipsins hafi verið í fullkomnu lagi. Hafi komið fram ryð í skipinu eftir viðgerðina norður á Akureyri, þá sé það gagnstefnanda óviðkomandi með öllu. Ósannað sé að skipið hafi verið gallað að þessu leyti við afhendingu þess og sé því mótmælt. Þá sé meint tjón gagnstefnanda ósannað með öllu, en hann beri sönnunarbyrðina fyrir því að hann hafi orðið fyrir tjóni.
7. Neysluvatnsgeymir. Fullyrðingar gagnstefnanda undir þessum lið séu rangar og þeim sé mótmælt. Agnar Erlingsson, sem þá hafi verið eftirlitsmaður með verkinu, hafi skriðið inn í tankinn og skoðaði hann eftir hreinsun. Hann hafi samþykkti frágang tanksins. Tankurinn hafi síðan staðið tómur og ónotaður svo mánuðum skipti. Vel sé hugsanlegt að sementshúðin, sem gagnstefndi hafi sett innan á tankinn, hafi við þetta skemmst. Ekkert sé vitað um það né heldur um aðrar hugsanlegar orsakir þess að vatnið í tanknum reyndist ekki ferskt. Eins og annað í þessari gagnsök sé það ókannað og meintur galli ósannaður með öllu.
8. Þilfarskrani. Fullyrðingar gagnstefnanda undir þessum lið séu fráleitar. Ef þilfarskraninn er skakkur þá hafi það ekkert að gera með þær ástæður sem gagnstefnandi tiltaki. Það geti ekkert haft með færsluna á skurðinum að gera enda eigi staðsetning hans ekki að breyta neinu í þessum efnum.
Stöpullinn hafi verið stífaður að innan áður en skurðurinn var gerður. Síðan hafi hann verið soðinn niður fastur aftur, nákvæmlega eins og hann hafi verið. Hann geti ekki hafa skekkst við þetta. Sé kraninn skakkur þá hafi hann verið það áður en þessi færsla átti sér stað.
Ástæða þess að ráðist var í þessa breytingu, þ.e.a.s. að færa skurðinn, hafi verið sú að eftirlitsmanni gagnstefnanda hafi þótt það smekklegra og koma betur út. Þetta hafi því verið gert að ósk gagnstefnanda.
Matsgerð sem gagnstefnandi hafi aflað sé mótmælt. Það sem komi fram í henni sé ekki eða illa rökstutt. Gagnstefnandi verði að bera hallann af því að hafa ekki tryggt sönnun fyrir hinu meinta tjóni. Í matsgerðinni sé ekki lagt mat á kostnað. Mat vegna málningar standist ekki en matsmaður hafi fengið annan mann til að meta þann hluta í matsgerðinni. Horft sé fram hjá því hve mikill þrýstingur var notaður við hreinsun. Allir helstu fletir skipsins hafi reynst vera í lagi. Aðeins lítill hluti hafi því verið með ryði. Samkvæmt verksamningnum hafi endingartími málningar verið tvö ár.
Jafnvel þótt gagnstefnandi hafi hugsanlega átt einhvern bótarétt undir einhverjum af framangreindum liðum, þá hafi hann glatað honum fyrir löngu vegna tómlætis. Gagnstefnandi hafi sett fram kvartanir sínar vegna þessa á vormánuðum 2008 en hafi síðan ekkert gert til að framfylgja þeim. Hann hafi ekki látið meta meinta galla eða tjón sitt og ekki hreyft neinni kröfugerð fyrr en nú í gagnstefnu u.þ.b. tveimur árum síðar. Hún sé allt of seint fram komin.
Gagnstefndi vísi um lagatilvísanir og grundvöll kröfugerðar sinnar til stefnu í aðalsök. Jafnframt vísi hann til almennra reglna skaðabótaréttarins, einkum um sönnun fyrir tjóni og fjárhæð þess. Einnig vísi hann til reglna samninga og kauparéttarins varðandi skilgreiningu á galla, sönnun og kröfugerð, einkum reglna um tómlæti og áhrif þess.
Niðurstaða
Frávísunarkrafa aðalstefnda er byggð á því að kröfugerð aðalstefnanda sé óljós. Hvorki sé gerð grein fyrir því að aðalstefndi hafi samþykkt hluta af kröfum aðalstefnanda fyrir aukaverk á reikningum nr. 1371 og 1372 né sé gerð grein fyrir því hvernig innborgunum aðalstefnda hafi verið ráðstafað. Í umfjöllun aðalstefnanda um einstök verk sé ekki gerð grein fyrir fjárhæðum sem myndi kröfuna. Aðalstefndi eigi því óhægt um vik að taka til varna. Kröfur sem felldar hafi verið niður hafi ekki verið dregnar frá. Málið sé því vanreifað og ekki í samræmi við d- og e-liði 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála.
Í gögnum málsins kemur fram að Hjörtur Emilsson, sem var eftirlitsmaður með verkinu fyrir aðalstefnda frá Verkfræðistofunni Navis Fengur ehf., samþykki nokkur aukaverk sem aðalstefnandi vann við skip aðalstefnda á verksamningstímanum. Með tillögu aðalstefnda að uppgjöri, sem fram kemur í bréfi lögmanns aðalstefnda 19. febrúar 2008, er samþykkt að greiða fyrir tiltekin aukaverk af reikningum nr. 1371 og 1372, samtals 81.097 . Aðalstefnandi fékk greitt úr höndum aðalstefnda í samræmi við þessa uppgjörstillögu þess síðarnefnda eins og fram kemur í bréfi lögmannsins. Ljóst er hvaða verk þar var um að ræða og að ekki er ágreiningur um greiðslu vegna þeirra eins og ráðið verður af málatilbúnaði aðalstefnanda. Fjárhæðir fyrir þessi óumdeildu aukaverk eru hluti af kröfu aðalstefnanda samkvæmt framangreindum reikningum að frádreginni innborgun aðalstefnda, 47.079 19. febrúar 2008. Ljóst er því hvernig innborgun hefur verið ráðstafað. Í gögnum málsins kemur fram hvað af kröfum aðalstefnanda aðalstefndi hefur viðurkennt. Skilmerkilega er gerð grein fyrir því í skjali sem málsaðilar kalla yfirferð yfir reikninga og er samið af eftirlitsmanni aðalstefnda 19. febrúar 2008 og af lögmanni aðalstefnanda 11. mars s.á. en svör eftirlitsmanns við því eru dagsett 24. apríl s.á.
Aðalstefnandi gerir grein fyrir því í málatilbúnaði sínum að kröfur samkvæmt framangreindum reikningum eru reiknaðar eftir upplýsingum sem fram koma á fylgiblöðum með þeim fyrir aukaverk og efni sem aðalstefnandi kveðst hafa lagt til umfram skyldu samkvæmt verksamningi. Af þessu má sjá hvaða fjárhæðir mynda kröfu aðalstefnanda.
Kröfuliðir, sem aðalstefnandi hefur lækkað vegna þess að hann hefur fallið frá því að krefja um greiðslu fyrir hluta af vinnustundum, sem upphaflega voru taldar á framangreindum reikningum og fylgiblöðum með þeim, koma fram á kreditreikningum þótt þeir séu ekki sundurliðaðir. Aðalstefnandi gerir hins vegar grein fyrir þessu í stefnu og er fjárhæð kreditreikninganna reiknuð í samræmi við það.
Með vísan til þessa þykir málatilbúnaður aðalstefnanda nægilega skýr og í samræmi við regluna sem aðalstefndi vísar í þessu sambandi til í lögum um meðferð einkamála. Hér verður ekki talið að vörnum aðalstefnda verði ekki við komið eða þeim áfátt vegna málatilbúnaðar aðalstefnanda. Með vísan til þessa ber að hafna frávísunarkröfu aðalstefnda.
Í aðalsök krefst aðalstefnandi þess að aðalstefndi greiði 264.466 ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 28. febrúar 2008 til greiðsludags. Aðalstefnandi krefur aðalstefnda um eftirstöðvar greiðslu samkvæmt verksamningnum en aðalstefndi hélt eftir 10% af samningsfjárhæðinni vegna ákvæða í samningnum um tafabætur. Þá krefst aðalstefnandi greiðslu á reikningum vegna aukaverka að frádregnum tveimur kreditreikningum sem gefnir voru út til leiðréttingar á tímaskráningu að ábendingu aðalstefnda. Af hálfu aðalstefnda er talið að greiðslur fyrir rafmagns- og hafnargjöld eigi að koma til frádráttar á kröfum aðalstefnanda en því er mótmælt af hálfu aðalstefnanda.
Verkið átti samkvæmt samningnum að vinnast frá 1. maí 2006 til 31. október s.á. Samkvæmt grein 6.6 í honum átti aðalstefnandi að greiða aðalstefnda tafabætur sem næmu 0,5% af samningsfjárhæðinni fyrir hvern dag sem verklok tefðust og allt að 10% af samningsfjárhæðinni. Fljótlega kom í ljós að ástand skipsins var mun verra en útboðslýsing gaf til kynna. Stálviðgerðir á bol voru samkvæmt útboðslýsingu tilgreindar 2.200 kg til 3.100 kg en urðu að stálmagni 12.044 kg. Stálmagn vegna viðgerða á innra botni var samkvæmt útboðslýsingu áætlað 4.000 kg en varð 10.147 kg. Aukaverkum fjölgaði þannig að í febrúar 2007 nam viðbótarkostnaður vegna þeirra um 900.000 . Aðalstefnandi benti á að verksamningurinn væri í raun ekki lengur í gildi þar sem útboðsgögnin væru ónákvæm og villandi og vísaði til laga um opinber innkaup nr. 84/2007 varðandi þær skyldur verkkaupa að veita bjóðendum réttar og fullnægjandi upplýsingar. Aðalstefnandi taldi að eftir að skipið hefði verið grannskoðað og leiðrétt lýsing samin ætti að semja á ný. Á þetta var ekki fallist af hálfu aðalstefnda. Síðasta verkáætlun aðalstefnanda miðaði við að skipið yrði afhent 28. nóvember 2007 en aðeins hálfum mánuði áður bárust aðalstefnanda níu beiðnir um tilboð í aukaverk. Samtals voru aukaverkin orðin 109 og heildarkostnaður hafði rúmlega tvöfaldast. Með hliðsjón af ónákvæmri útboðslýsingu og þar af leiðandi miklum fjölda aukaverka eru ekki forsendur fyrir tafabótum enda liggur ekki fyrir að tafirnar, sem urðu á verklokum, sé að rekja til vanefnda af hálfu aðalstefnanda. Samkvæmt því ber að taka kröfu aðalstefnanda um greiðslu á 128.279 evrum til greina.
Af hálfu aðalstefnda er því haldið fram að honum hafi verið rétt að draga frá uppgjöri 19. febrúar 2008 reikninga, annars vegar frá Hafnarfjarðarhöfn fyrir rafmagn og hafnargjöld og hins vegar vegna MOB-krana. Greiðslur fyrir MOB-kranann sæta ekki ágreiningi þar sem uppgjör hefur þegar farið fram vegna hans. Dómurinn fellst á sjónarmið aðalstefnanda um að rafmagnskostnaður og hafnargjöld, að fjárhæð 17.836 , skuli greiðast af aðalstefnda þar sem þar er um viðbótarkostnað að ræða vegna umfangsmikilla aukaverka sem ekki var gert ráð fyrir í útboði.
Verður þá fjallað um kröfur aðalstefnanda vegna aukaverka. Við úrlausn á kröfum aðalstefnanda vegna þessara aukaverka verður að líta til þess að allur gangur var á því hvort og hvenær svokölluð aukaverk voru samþykkt af hálfu aðalstefnda. Í mörgum tilvikum voru þau samþykkt eftir á, ýmist að öllu leyti eða að hluta. Vegna þessa ræður ekki úrslitum við úrlausn á því hvort greiða beri fyrir einstaka verkliði þótt þess hafi ekki ávallt verið gætt af hálfu málsaðila að gera sérstakan samning vegna hvers þeirra.
Reikningur nr. 1371 er fyrir 21 aukaverk sem unnið var samkvæmt tilboði og tímavinnu. Samkomulag hefur náðst milli málsaðila um eftirtalin aukaverk en greiðslur fyrir þau eru hluti af kröfu aðalstefnanda í aðalsök:
Aukaverk nr. 56a. Loka dyraopi í eldhúsi, 2.224 .
Aukaverk nr. 65. Smurolíudæla stjórnborðs-gírs, 1.781 .
Aukaverk nr. 73. 12V rafgeymar fyrir neyðarvélar, 428 .
Aukaverk nr. 81. Nýr vír og boltar fyrir síðuport, 1.503 .
Aukaverk nr. 82. Blikkljós tengd aðvörunarkerfi skipsins, 937 .
Aukaverk nr. 83. Pústbarki frá neyðarvél í stýrisvélarými, 1.280 .
Aukaverk nr. 88. Endurnýja glussalagnir við ankerisspil og skipta um stjórnloka, 3.735 .
Aukaverk nr. 90. Lagfæra glussarör við bógskrúfuvél, sem fór í sundur við prufukeyrslu, og fylla aftur á kerfið, 1.953 .
Með vísan til þess er litið svo á að þessir verkþættir sæti ekki ágreiningi og verða þeir því, samtals að fjárhæð 13.841 , að öllu leyti teknir til greina.
Eftirtalin aukaverk sæta ágreiningi milli málsaðila:
Aukaverk nr. 64. Fjarlægja glussadælu af bógskrúfuvél. Fram hefur komið að óskað hafi verið eftir því að glussadæla á bógskrúfuvél yrði tekin af vélinni og komið á verkstæði til umboðsmanns framleiðanda í samráði við eftirlitsmann. Aðalstefnandi sá um að fjarlægja dæluna af bógskrúfu og dælan var sandblásin, tekin í sundur, hreinsuð, yfirfarin, sett saman og komið fyrir að nýju. Enginn ágreiningur er um að aðalstefnandi vann verkið og kom dælunum í lag. Eftirlitsmaður aðalstefnda telur tímaskráningu ótrúverðuga og telur 2.500 hæfilegt verð í stað 5.833 sem krafist er að greitt verði af hálfu aðalstefnanda. Í málinu hefur ekki verið sýnt fram á með nægilegum rökum að tímaskráning þessa verks sé röng eða að aðalstefnanda hafi ekki verið rétt að vinna verkið eins og hann gerði. Óljóst er hvað átt er við af hálfu aðalstefnda þegar hann vísar til þess að koma hafi átt dælunni til viðurkenndra þjónustuaðila til skoðunar. Með vísan til alls þessa er krafa aðalstefnanda vegna verkliðarins, að fjárhæð 5.833 , tekin til greina.
Aukaverk nr. 74. Lagfæra leka á austurlögn. Óskað var eftir því að aðalstefnandi lagfærði lekann. Tilboð barst ekki í verkið. Eftirlitsmaður aðalstefnda hefur gagnrýnt tímaskráningu sem aðalstefnandi hefur leiðrétt um 8 dagvinnutíma og 2 eftirvinnutíma með kreditreikningi. Með leiðréttingunni verður að telja kröfuna réttmæta og er því hafnað að lækka þurfi það sem telst til vélavinnu þótt vinnustundir hafi verið leiðréttar. Með vísan til þess verður krafa aðalstefnanda vegna þessa verkliðar, að fjárhæð 4.075 , tekin til greina.
Aukaverk nr. 75. Endurnýja segulspólu á stjórnboðs-niðurfærslugír. Við prófun kom í ljós að segulspóla við skiptingu á gír stjórnborðs-vélar var óvirk. Óskað var eftir af eftirlitsmanni aðalstefnda að spólan yrði endurnýjuð. Tilboð barst ekki í þessa vinnu. Eftir leiðréttingu á tímaskráningu við verkið um þrjá dagvinnutíma með kreditreikningi er ekki gerð athugasemd af hálfu aðalstefnda við tímaskráninguna. Upplýsingar skortir um verð á umræddum vörum og röksemdir fyrir því að lækka beri þennan kröfulið enn frekar en þegar hefur verið gert. Samkvæmt því er krafa aðalstefnanda vegna þessa verkliðar, að fjárhæð 3.475 , tekin til greina.
Aukaverk nr.76. Hraðabreytir á annan vélarúmsblásarann. Vegna mikils hávaða frá vélarúmsblásurum var ákveðið að setja hraðabreyti við annan blásarann. Óskað var eftir að aðalstefnandi setti upp hraðabreytinn. Tilboð barst ekki í verkið. Eftirlitsmaður aðalstefnda taldi upphæðina 2.800 ekki eðlilega, bæði hvað efni og vinnu varðar en hefur samþykkt 2.000 . Aðalstefnandi hefur gert grein fyrir þessari vinnu. Telja verður að ekki hafi verið sýnt fram á af hálfu aðalstefnda með nægilegum rökum að reikningsupphæð aðalstefnanda sé röng. Með vísan til þess er kröfuliðurinn, 2.800 , tekinn til greina.
Aukaverk nr. 77. Endurnýjun á reyk- og hitaskynjurum. Óskað var eftir endurnýjun á 20 reykskynjurum og 4 hitaskynjurum en reikningur aðalstefnanda fyrir þá nam 3.139 . Þar sem uppsetning 24 skynjara var innifalin í tilboði aðalstefnanda hafa 28 tímar verið dregnir frá á kreditreikningi. Samkvæmt gögnum málsins voru settir upp 22 reykskynjarar og þrjá hitaskynjarar. Dómurinn telur ekki forsendur fyrir því að lækka kröfulið þennan enn frekar. Með vísan til þess verður krafa aðalstefnanda vegna þessa kröfuliðar, að fjárhæð 3.139 , tekin til greina.
Aukaverk nr. 78. Færsla á loftræstiröri og undirstöðu björgunarbáts. Við uppsetningu á loftræstistokki fyrir útblástur frá eldhúsi stjórnborðsmegin kom í ljós að hann rakst á loftræstirör og undirstöður fyrir björgunarbát. Óskað var eftir því að loftræstirör og undirstöður björgunarbáts yrðu færð. Hér er um stálvinnu að ræða. Tilboð barst ekki í verkið. Athugasemd var gerð við verktíma og eftir leiðréttingu aðalstefnanda um átta dagvinnutíma og tvo eftirvinnutíma á kreditreikningi var ekki ágreiningur milli málsaðila um þennan lið. Verður hann með vísan til þess, að fjárhæð 1.828 , tekin til greina.
Aukaverk 79. Hreinsun á glussaolíugeymi og lögnum fyrir háþrýstikerfi. Við upptekt á glussadælu bógskrúfuvélar kom í ljós að mikil óhreinindi voru í olíunni. Óskað var eftir því að aðalstefnandi opnaði glussaolíugeyminn, sem staðsettur er í vélarúmi, tæmdi geyminn og hreinsaði. Einnig að hreinsaðar yrðu allar glussalagnir eins vel og kostur var með því að blása út kerfið ásamt lögnum fram í bógskrúfurými og bógskrúfumótor. Tilboð barst ekki í verkið. Skráðir tímar eru 113,5. Reikningur aðalstefnanda nam 7.823 en eftirlitsmaður aðalstefnda samþykkti 6.000 þar sem hann taldi að um tvískráningu starfsmanns hefði verið að ræða. Aðalstefnandi hefur leiðrétt reikninginn á kreditreikningi um fjóra dagvinnutíma. Staðhæfingar aðalstefnda um að tímar hafi verið ofreiknaðir eða tvískráðir á sama starfsmann eru órökstuddar. Með vísan til þess er krafa aðalstefnanda vegna þessa aukaverks, að fjárhæð 7.823 , tekin til greina.
Aukaverk 80. Kúlulokar í háþrýstikerfi TTS-búnaðar. Í tengslum við skolun á háþrýstilögnum (aukaverk 95) kom fram ábending frá aðalstefnanda studd af fulltrúa TTS um að með því að bæta við 10 kúlulokum í glussalagnir yrði auðveldara að skola kerfið. Óskað var eftir að aðalstefnandi keypti 10 háþrýstikúluloka og tengdi þá við kerfið. Tilboð barst ekki í verkið. Eftirlitsmaður aðalstefnda telur að um tvískráningu á 10 vinnutímum sé að ræða en af hálfu aðalstefnanda er því haldið fram að þarna sé um að ræða misræmi á tímaskráningu í verki nr. 95. Aðalstefnandi heldur því fram að tímaskráning 24 tíma sé rétt fyrir þetta verk og upphæð reiknings 1.846 . Ekki hefur verið sýnt fram á að tímaskráning þessa verks sé röng. Ber með vísan til þess að taka kröfu aðalstefnanda vegna þessa kröfuliðar, að fjárhæð 1.846 , til greina.
Aukaverk 84. Frárennsliskerfi frá salernum. Óskað var eftir að aðalstefnandi tæki upp og lagfærði dælu fyrir klósetttanka og hreinsaði stíflaðar lagnir í frárennsliskerfi. Verkið skyldi unnið í tímavinnu. Dælan var flutt á verkstæði, hreinsuð og skipt um þéttingar. Dælan virkaði ekki sem skyldi en ekki var óskað eftir því að dælan yrði endurnýjuð. Reikningur aðalstefnanda nam 3.750 , vinnutímar 63. Eftirlitsmaður aðalstefnda samþykkti 30 vinnutíma og að upphæð reiknings ætti að vera 2.000 . Aðalstefnandi hefur samþykkt að fella niður 8 tíma og þar með lækkun reiknings sem því nemur. Lækkun er á kreditreikningi. Dómurinn telur að ekki hafi komið fram fullnægjandi rökstuðningur af hálfu aðalstefnda fyrir frekari lækkun. Með vísan til þess ber að taka þennan kröfulið aðalstefnanda, að fjárhæð 3.750 , til greina.
Aukaverk 85. Setja neyðarljós í stigahús samkvæmt kröfu Lloyd´s. Aðalstefnandi setti upp níu neyðarljós í stigahúsi. Af hálfu aðalstefnda er verkið talið hluti af tilboðsverki. Í grein 9.4 í verklýsingu segir að setja eigi upp neyðarljós samkvæmt reglum, annaðhvort þau ljós sem fyrir voru eða ný ljós og tengja þau ljósastæði sem fyrir voru. Þá segir að neyðarlýsing samanstandi af sex ljósum. Fulltrúi flokkunarfélagsins Lloyd´s Register krafðist þriggja viðbótarljósa og er því hér um viðbót við samninginn að ræða. Reikningur aðalstefnanda nemur 1.116 sem dómurinn telur að aðalstefnda beri að greiða aðalstefnanda.
Aukaverk 86. Endurnýja lampa i vélarúmi. Fram hefur komið að eftirlitsmaður aðalstefnda hafi sagt að endurbótum á lýsingu í vélarúmi hafi verið hafnað og vísað til fundargerðar 18. maí 2007. Þessi liður er ekki nefndur í fundargerðinni. Af hálfu aðalstefnanda er því haldið fram að fulltrúi Lloyd´s hafi krafist úrbóta á lýsingu áður en farið var í reynsluferð og því hafi fjórum ljósum verið bætt við. Aðalstefnandi hafi boðist til að fjarlægja ljósin en aðalstefndi hafi ekki svarað því. Ekki er venja að krefjast skriflegar staðfestingar flokkunarfélags þegar um slík verk er að ræða. Reikningur aðalstefnanda nemur 1.490 sem dómurinn telur að aðalstefnda beri að greiða aðalstefnanda með vísan til þess að hér var samkvæmt því sem fram hefur komið um nauðsynlegan verkþátt að ræða sem aðalstefnandi lét aðalstefnda í té.
Aukaverk 87. Endurnýja rofa fyrir kælivatnsdælu á þétti. Af hálfu aðalstefnda er vísað til þess að eftirlitsmaður aðalstefnda hafi ekki samþykkt verkið sem aukaverk. Fram hefur komið að kælivatnsdælu þurfti að ræsa með löngu skrúfjárni og hafi fulltrúi flokkunarfélagsins Lloyd´s Register krafist þess að skipt yrði um rofann fyrir reynsluferð. Hann hafi enga athugasemd gert við lagfæringuna. Aðalstefnandi krefst vegna þessa 499 sem aðalstefnda verður gert að greiða honum með sömu röksemdum og fram kom við úrlausn á aukaverki 86.
Aukaverk 89. Skipta um stjórnloka við aftari spilkopp. Í stefnu er ekki gerð grein fyrir þessum verklið og viðhlítandi gögn eða skýringar hafa ekki komið fram á honum. Ber með vísan til þess að hafna kröfu aðalstefnanda vegna verksins.
Reikningur 1372 er fyrir 19 aukaverk sem unnin voru samkvæmt tilboði og tímavinnu. Samkomulag hefur náðst milli aðila um eftirfarandi aukaverk:
Aukaverk nr. 91. Koma fyrir hæðarrofa í glussatanki við akkerisspil, 502 .
Aukaverk nr. 96. Steypa ballest í lest og loka hólfum, 3.250 .
Aukaverk nr. 106. Ryðfríir boltar, 338 .
Aukaverk nr. 108. Gert við hitakút, skipt um hitahald og stafhitastilli ásamt því að hreinsa lagnir, 1.301 .
Með vísan til þess er litið svo á að þessir verkþættir, samtals að fjárhæð 5.391 , sæti ekki ágreiningi og verða þeir því að öllu leyti teknir til greina.
Eftirtalin aukaverk sæta ágreiningi milli málsaðila:
Aukaverk 92. Slöngur og fittings sem vantaði í TTS sendingu. Samkvæmt upplýsingum eftirlitsmanns aðalstefnda vantaði fittings í afhendingu framleiðanda vörunnar. Óskaði hann eftir upplýsingum frá aðalstefnanda um það hvað vantaði og hver aukakostnaður yrði, sbr. fundargerð frá 15. nóvember 2007. Fram hefur komið að eftirlitsmaður hafi lagt áherslu á að upplýsingar lægju fyrir á meðan maður frá TTS var hér á landi. Eins og í fleiri aukaverkum hafa þarna komið í ljós vankantar á hönnun og afhendingu búnaðar frá fyrirtækinu TTS. Enginn rökstuðningur er fyrir því að aðalstefnanda beri að greiða hluta búnaðar frá þessu fyrirtæki sem vantaði við afhendingu. Reikningur að upphæð 5.960 skal með vísan til þess að greiðast af aðalstefnda.
Aukaverk 93. Breytingar á blökkum í síðuporti samkvæmt tilmælum TTS. Hér er um að ræða endurbætur á hönnun TTS sem gerðar voru í samráði við fyrirtækið. Færa þurfti blakkir sem búið var að sjóða fastar, fella aðrar blakkir að og sjóða ásamt fleiri smærri breytingum. Eftirlitsmaður aðalstefnda taldi að tímafjöldi við verkið væri um það bil tvöfaldur sá tími sem eftirlitið áætlaði og hafi hann samþykkt 3.500 fyrir verkið. Enginn rökstuðningur er fyrir þessari áætlun. Reikningur aðalstefnanda nemur 5.871 og ber að greiðast af aðalstefnda en sömu röksemdir eiga við um hann og um aukaverk 92.
Aukaverk 94. Breytingar á rafmagni sem voru ekki á teikningum frá TTS. Af hálfu aðalstefnda er því haldið fram að eftirlitsmaður aðalstefnda hafi hafnað verkinu sem aukaverki. Samkvæmt því sem fram hefur komið af hálfu aðalstefnanda fylgdu engar teikningar af frágangi rofa og tengiboxa við læsingar á síðuporti. TTS fulltrúi afhenti teikningar sem lagt var eftir. Eftirlitsmaður aðalstefnda var upplýstur um verkið og gerði engar athugasemdir. Með vísan til þess verður að fallast á að reikningur aðalstefnanda, að fjárhæð 1.248 , skuli greiðast af aðalstefnda.
Aukaverk 95. Skolun á öllum glussalögnum við TTS búnað samkvæmt forskrift framleiðanda, þrýstiprófa hverja grein. Við lagningu háþrýstivökvakerfis er nauðsynlegt að kerfið sé vandlega hreinsað eftir uppsetningu. Ef annað er ekki tekið fram er það verk þeirra sem setja upp kerfið. Kostnað við hreinsunina, sem var 21.756 , verður aðalstefnandi að bera þar sem annað er ekki tekið fram í verksamningi. Þessi kröfuliður aðalstefnanda verður því ekki tekinn til greina.
Aukaverk 97. Mæla skekkju á skrúfuöxli og gír fyrir Lloyd´s Register. Eftirlitsmaður aðalstefnda hafnaði verkinu sem aukaverki. Aðalstefnandi gerði nauðsynlegar mælingar fyrir og eftir flotsetningu skipsins. Flokkunarfélagið gerði kröfu um nýjar mælingar og þurfti að aftengja báða skrúfuása og létta á öxulþéttum. Þegar krafa flokkunarfélagsins um mælingar kom fram var úttekt þess við öxuldrátt lokið. Ekki hefur verið sýnt fram á með nægilegum rökum að hér sé ekki um aukaverk að ræða. Ber með vísan til þess að taka kröfu aðalstefnanda um greiðslu að fjárhæð 5.772 úr höndum aðalstefnda fyrir þennan verklið til greina.
Aukaverk 98. Yfirferð á aðvörunarkerfi og skýrslugerð. Eftirlitsmaður aðalstefnda hefur hafnað reikningi aðalstefnanda vegna þessa. Fulltrúar aðalstefnda, flokkunarfélags, verktaka og Raftíðni fóru yfir skýrslu Raftíðni um borð í skipinu vegna ástandsskoðunar á viðvörunarkerfi ferjunnar. Engar teikningar voru til um kerfið eða aðrar upplýsingar um það. Samkvæmt gögnum málsins var þessi vinna, sem var óhjákvæmileg, látin aðalstefnda í té af hálfu aðalstefnanda. Reikningur aðalstefnanda, 3.267 , greiðist með vísan til þess af aðalstefnda.
Aukaverk 99. Klassakostnaður umfram aukaverk. Ágreiningur um þennan þátt er einungis krafa um 4% álag á útlagðan kostnað vegna umframkostnaðar vegna eftirlits flokkunarfélagsins, líkt og af annarri aðkeyptri vinnu og efni. Af hálfu aðalstefnda er því haldið fram að reikningar flokkunarfélagsins hefðu verið greiddir við framvísun og þar með hefði ekki verið þörf á að framvísa þeim við lokauppgjör. Með vísan til þess þykir rétt að reikningur aðalstefnanda greiðist af aðalstefnda án 4% álags, 23.188 .
Aukaverk 100. Skera úr turni fyrir víra og breyta læsingum á lúgum eftir tilmælum TTS. Verkið var ekki unnið að beiðni eftirlits aðalstefnda. Það var hins vegar unnið samkvæmt leiðbeiningum frá fulltrúum TTS sem voru á staðnum. Reikningur aðalstefnanda vegna þessa, að fjárhæð 1.309 , greiðist af aðalstefnda með vísan til þess að röksemdir skortir fyrir því að aðalstefnandi greiði fyrir búnað sem vantaði frá TTS í stað þess að aðalstefndi greiði fyrir hann.
Aukaverk 101. Breyta festingum fyrir tjakka á lestarlúgu TTS, snúa tjökkum fyrir læsingu. Stútar á tjökkum voru allir á sama stað, en fara þurfti með tjakkana á verkstæði, taka þá í sundur og snúa stútum. Eftirlitsmaður hafði afhent aðalstefnda teikningar af breytingunum. Eftir höfnun eftirlitsmanns aðalstefnda í fyrstu um aukaverk var verkið samþykkt með 5 vinnustunda fækkun. Ágreiningur er um 240 . Samkvæmt gögnum málsins og málatilbúnaði aðalstefnda þykja ekki rök fyrir því að lækka reikninginn. Reikningur aðalstefnanda, að fjárhæð 2.838 , greiðist með vísan til þess af aðalstefnda.
Aukaverk 102. Breyta tjökkum og koma bremsuloki fyrir á þeim. Verkinu var í fyrstu hafnað af eftirlitsmanni aðalstefnda en að fengnum útskýringum var það samþykkt. Aðalstefnda ber því að greiða aðalstefnanda 1.119 fyrir verkið.
Aukaverk 103. Koma fyrir styrkingum við lúgukarm í lest að kröfu Lloyd´s. Styrkingar voru samþykktar af eftirlitsmanni aðalstefnda sem viðbótarstálþungi (95 kg x 21,22) eða 2.016 . Kostnaður við málningu, að upphæð 5.024 , verður ekki tekinn til greina þar sem samþykkt hafði verið að aðalstefnandi málaði ekki stálstyrkinguna. Með vísan til þess ber að taka kröfu aðalstefnanda vegna þessa verkþáttar, að fjárhæð 2.016 , til greina.
Aukaverk 104. Koma fyrir olíudælu sem tekin var niður vegna viðgerða á ljósavél. Fram hefur komið að vegna viðgerða á ljósavél og rafal var vélarúmsþil opnað inn í lest ferjunnar og olíudæla á þilinu fjarlægð. Bógskrúfuvél var telin út um sama op á þilinu. Ekki var gert ráð fyrir opnuninni í útboðinu. Ákvörðun um það var tekin þar sem önnur leið var ekki fær. Þá voru olíulagnir færðar. Eftirlitsmaður aðalstefnda hefur vísað til þess að verkið hafi ekki verið kynnt sem aukaverk og því hafnaði hann að samþykkja greiðslu fyrir það. Ekki liggja fyrir nægileg rök um að hér sé ekki um aukaverk að ræða. Með vísan til þess ber aðalstefnda að greiða reikning aðalstefnanda að fjárhæð 5.625 .
Aukaverk 105. Breyta körmum og skipta um gúmmí í lúgum vegna óþéttleika. Eftirlitsmaður aðalstefnda gerði athugasemd við tímafjölda verksins og telur 10.000 hæfilega greiðslu. Aðalstefnandi vísar til þess að vansmíði hafi verið af hálfu TTS sem þurfti að lagfæra og kostaði meiri vinnu vegna galla á afhentum búnaði. Ekki hefur verið sýnt fram á með nægilegum rökum að tímaskráning verksins sé röng. Reikningur aðalstefnanda, að upphæð 19.970 , greiðist af aðalstefnda.
Aukaverk 107. Koma fyrir hlíf yfir glussalagnir á dekki. Eftirlit aðalstefnda samþykkti þessa einfaldari lagnaleið á þilfari í stað þess að lagt væri undir þilfari. Hlífin var smíðuð samkvæmt beiðni eftirlitsmanns aðalstefnda. Reikningur aðalstefnanda, að fjárhæð 1.736 , greiðist því af aðalstefnda.
Aukaverk 109. Endurnýjun á loftræstistokkum, túðum og eldhúsháfi. Eftirlit aðalstefnda telur þetta verk innifalið í tilboði aðalstefnanda. Aðalstefnandi vísar í útboðsgögn grein 9.4 þar sem getið er um uppsetningu á loftræstiviftu en ekki tekið fram hver eigi að afhenda hana. Í þessum lið er einnig endurnýjun loftræstistokka, sem nauðsynleg var vegna mikilla breytinga á eldhúsi, sem ekki var í upphaflegri áætlun. Aðalstefndi hefur óskað eftir gögnum varðandi smíði blikksmiða en þau hafa ekki komið fram. Ekki hefur verið sýnt fram á með nægilegum rökum að verkið hafi verið innifalið í tilboð aðalstefnanda. Reikningur aðalstefnanda, að fjárhæð 11.615 , greiðist með vísan til þess af aðalstefnda.
Reikningar frá Bæti ehf. vegna vélaviðgerða en þeir eru eftirfarandi:
Reikningsnúmer 9162 frá 23. nóvember 2007. Kvörðun á aðvörunarkerfi aðal- og ljósavéla í Sæfara, 571 (53.139 krónur).
Reikningsnúmer 9174 frá 30. nóvember s.á. Varahlutir og vinna utan tilboðs í Sæfara bakborðs-aðalvél, 4.267 (396.855 krónur).
Reikningsnúmer 9175 frá 29. nóvember s.á. Vinna við bakborðs-ljósavél, vinna við frágang á aðvörunarkerfi, hreinsun og tengingu á hráolíulögnum, 1.050 (97.683 krónur).
Reikningsnúmer 9177 frá 29. nóvember s.á. Vinna við bógskrúfuvél, hreinsanir hráolíulagna og skipt um slöngu, 203 (18.924 krónur).
Reikningsnúmer 9178 frá 29. nóvember s.á. Varahlutir og vinna utan tilboðs stjórnborðs-aðalvél. Frágangur á vatnslögnum og hráolíulögnum, hreinsun á snúningsskynjurum og vinna við aðvörunarkerfi, 4.035 (375.296 krónur).
Reikningsnúmer 9183 frá 30. nóvember s.á. Vegna stjórnborðs-ljósavélar, 793 (73.789 krónur).
Reikningar Bætis ehf. eru samtals að fjárhæð 10.919 (1.015.686 krónur).
Eftirlitsmaður aðalstefnda hafnaði reikningunum og telur að þessi verk séu hluti samningsverka en því er mótmælt af hálfu aðalstefnanda. Fram hefur komið að forstöðumaður Bætis hafi rætt þessi atriði við eftirlitsmann fyrir siglingu skipsins norður. Ekki hefur verið sýnt fram á með nægilegum rökum að reikningar Bætis ehf. séu hluti tilboðsverka. Reikningur aðalstefnanda, að fjárhæð 10.919 , greiðist því af aðalstefnda.
Reikningur aðalstefnanda nr. 1414 er kominn til af því að aðalstefndi óskaði eftir breytingum á pöntun sinni á stólum í farþegasal. Reikningurinn er vegna viðbótarkostnaðar sem af þessu hlaust. Ekki er fallist á að krafa aðalstefnanda vegna þessa reiknings sé vanreifuð eins og haldið er fram af hálfu aðalstefnda. Eftirlitsmaður aðalstefnda hefur ekki mótmælt þessum reikningi. Með vísan til þess ber aðalstefnda að greiða aðalstefnanda 1.340 .
Kreditreikningur 1415 var gefinn út vegna lækkunar á tímaskráningu aukaverka nr. 74, 75, 77, 78, 79 og 84. Reikningurinn nemur 3.407 og dregst frá kröfu aðalstefnanda.
Kreditreikningur 1416 var gefinn út vegna lækkunar á tímaskráningu á verki nr. 95. Þar sem krafa aðalstefnanda vegna verksins er ekki tekin til greina fellur þessi frádráttarliður út.
Krafa aðalstefnanda, sem verður samkvæmt framangreindu tekin til greina, sundurliðast nú þannig:
1. Eftirstöðvar samnings 128.279
2. Reikningur 1371 51.515
3. Reikningur 1372 107.844
4. Reikningur 1414 1.340
5. Kreditreikningur 1415 - 3.408
6. Innborgun 21. febrúar 2008 -47.079
238.491
Samkvæmt því ber aðalstefnda að greiða aðalstefnanda 238.491 .
Af hálfu aðalstefnda er þess krafist að dráttarvaxtakröfu aðalstefnanda verði vísað frá dómi en af hálfu aðalstefnanda sé varðandi kröfuna vísað til 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 þrátt fyrir að krafan sé að öðru leyti í evrum. Engin skýring sé á þessu í stefnu og ekki vísað til heimildar fyrir þessari kröfugerð. Samkvæmt framangreindu lagaákvæði birtir Seðlabanki Íslands dráttarvexti samkvæmt þeirri lagagrein en frá og með 1. júlí 2006 hætti bankinn að birta dráttarvexti af kröfum í erlendri mynt. Aðalstefnandi hefur í málatilbúnaði sínum skýrt dráttarvaxtakröfuna þannig að heimilt sé að krefjast 5,5% dráttarvaxta af evrum samkvæmt tilkynningu Seðlabankans frá 26. maí 2006 sem gildi um dráttarvexti af kröfum í erlendri mynt. Með vísan til þess verður að telja að dráttarvaxtakrafa aðalstefnanda sé sett fram með fullnægjandi hætti og því ekki ástæða til að vísa henni frá dómi vegna vanreifunar.
Af hálfu aðalstefnda er þess jafnframt krafist að dráttarvaxtakröfu aðalstefnanda verði vísað frá dómi vegna þess að dráttarvaxta sé krafist af allri fjárhæðinni frá 28. febrúar 2008 til greiðsludags en reikningur vegna stóla sé ekki dagsettur fyrr en 10. mars það ár. Gjalddagi reikningsins sem um ræðir nr. 1414, að fjárhæð 1.340 , er dagsettur 10. mars 2008 en eindagi er 15 dögum síðar eins og fram kemur á reikningnum. Verða dráttarvextir því ekki reiknaðir af fjárhæðinni fyrr en 25. mars 2008. Ber að taka dráttarvaxtakröfu aðalstefnanda til greina í samræmi við það.
Í gagnsök krefst gagnstefnandi þess að gagnstefndi greiði honum 29.077.140 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 18. mars 2010 til greiðsludags. Kröfum gagnstefnanda er af hálfu gagnstefnda mótmælt og krafist sýknu af þeim. Um málsatvik, að öðru leyti en því sem tengist beint atvikum í gagnsök, fram til þess að gert var samkomulag um afhendingu ferjunnar 11. janúar 2008 og hún síðan afhent næsta dag, vísast til lýsingar í aðalsök.
Í gagnstefnu er gerð krafa um bætur vegna meintra vanefnda samkvæmt eftirfarandi:
|
1. |
Bætur vegna ýringarkerfis |
kr. |
1.733.907 |
|
2. |
Bætur vegna leka á innra ásþétti |
kr. |
865.030 |
|
3. |
Bætur vegna lekra glugga |
kr. |
1.020.936 |
|
4. |
Bætur vegna lekra hurða |
kr. |
178.634 |
|
5. |
Bætur vegna sturtubotns |
kr. |
150.914 |
|
6. |
Bætur vegna málningar |
kr. |
21.050.000 |
|
7. |
Bætur vegna neysluvatnsgeymis |
kr. |
845.960 |
|
8. |
Bætur vegna þilfarskrana |
kr. |
3.231.759 |
|
|
Samtals: |
kr. |
29.077.140 |
1. Ýringarkerfi. Gagnstefndi lagði fram tilboð í ýringarkerfi 23. nóvember 2006. Tilboðið var samþykkt 19. september 2007, þ.e. tæpu ári síðar og átti gagnstefndi þá eftir að panta kerfið. Kerfið kom síðan ekki til landsins fyrr en 10. janúar 2008 eða tveimur dögum áður en skipið var afhent gagnstefnanda. Unnið var að uppsetningu kerfisins fram að brottför skipsins en eftir það hafði gagnstefndi enga aðkomu að uppsetningu þess.
Í samkomulagi málsaðila 11. janúar 2008 kemur fram í lið 4 að aukaverkum, sem ekki verði lokið við afhendingu skipsins, verði þá hætt. Það sem þá verði eftir verði metið til peningaverðs og dregið frá greiðslum til verksala við lokauppgjör.
Líta verður svo á að gagnstefnandi hafi tekið við skipinu með ýringarkerfinu í þeirri stöðu sem uppsetning þess var við brottför skipsins. Er því ekki fallist á að hann eigi rétt á bótum vegna þeirrar vinnu sem eftir var í kerfinu þegar skipið var afhent og er kröfunni því hafnað.
2. Leki á innra ásþétti. Gagnstefndi öxuldró skipið eins og kveðið var á um í verksamningi málsaðila og voru ástengi og legur mæld að viðstöddum fulltrúa flokkunarfélags og eftirlitsmanni gagnstefnanda.
Í þremur prufusiglingum skipsins hitnuðu ásþéttin óeðlilega og vissu aðilar málsins af því. Enn fremur urðu vandræði með hitnun í öxulþéttum á siglingu skipsins norður á Akureyri. Um það bil fimmtán stiga frost var á Akureyri þegar ferjan var tekin í slipp þar. Kælikápan á ásþéttunum var ekki tæmd og við það geta pakkningar hafa skemmst af völdum frosts.
Af gögnum málsins er ljóst að gagnstefnandi mátti vita að hætta væri á ofhitnun ásþéttanna á siglingu skipsins norður þar sem kælikerfi virkaði ekki sem skyldi. Þrátt fyrir það var skipinu siglt norður.
Ljóst þykir að frágangur á ásþéttum var í lagi þegar skipið var afhent í Hafnarfirði. Ekki verður fallist á að gagnstefndi beri nokkra ábyrgð á þeim skemmdum sem kunna að hafa orðið á siglingunni og við slipptökuna fyrir norðan. Ekki er því fallist á bótakröfu gagnstefnanda á hendur gagnstefnda vegna þessa atriðis.
3. Lekir gluggar. Gluggar á yfirbyggingu skipsins voru lekaprófaðir með viðurkenndri aðferð að viðstöddum fulltrúa flokkunarfélags skipsins sem staðfesti að gluggarnir væru í lagi. Hafi verkvöndun verið ábótavant, eins og fram kemur hjá dómkvöddum matsmanni í matsgerð frá 11. febrúar 2011, hefði það átt að koma fram við verkeftirlit af hálfu gagnstefnanda. Ekkert slíkt hefur komið fram og því er ekki fallist á bótakröfu vegna þessa liðar.
4. Lekar hurðir. Fram kemur í málinu að umræddar hurðir láku við fyrstu prófanir og var kvartað um það við framleiðandann sem útvegaði viðbótar tessa, tvo á hverja hurð, til að þétta þær betur. Að þessari aðgerð lokinni reyndust hurðirnar þéttar við lekaprófun að viðstöddum fulltrúa flokkunarfélags. Fram kemur í gagnstefnu og matsgerð að hurðirnar hafi síðan farið að leka eftir að gagnstefnandi tók við skipinu og að þurft hafi að þétta þær að nýju en gagnstefnandi gerir kröfu um að fá þann kostnað bættan. Tilkynnti eftirlit gagnstefnda um lekann með tölvupósti 15. maí 2008. Ekki er sannað og því heldur ekki haldið fram að hurðirnar séu ekki af fullnægjandi gæðum en matsmaður telur að þéttigúmmí á hurðunum hafi verið orðin mikið bæld og muni trúlega aldrei verða þétt. Matsmaður ályktar síðan að viðbótarkostnaður sé óeðlilegur en ekki kemur nánar fram hvað í því felst. Þó kemur fram í viðbótarskjali matsmanns frá 10. mars 2011 að umræddur kostnaður hefði ekki átt að koma til eftir verklok hjá gagnstefnda.
Fyrir liggur að umræddar hurðir voru þéttar við viðurkennda prófun og verður að telja ósannað að hurðirnar eða frágangur þeirra hafi ekki verið í lagi þegar skipið var afhent. Bótakröfunni er því hafnað.
5. Sturtubotn. Fyrir liggur að gagnstefndi setti upp og tengdi umræddan sturtubotn í samræmi við verksamning. Ekki þykir rétt að gagnstefndi beri ábyrgð á því að lagnir að sturtubotninum voru ekki í lagi og því er ekki fallist á bótakröfu vegna þessa liðar.
6. Málning. Ljóst er af því sem fram kemur í gögnum málsins að gagnstefnandi féllst á að skipið væri ryðhreinsað með háþrýstum vatnsþvotti í stað sandblásturs sem kveðið var á um í útboðsgögnum. Í málflutningi og matsgerð kemur fram að ákveðið ósamræmi er í frásögn málsaðila á því hvaða þrýstingur var notaður við hreinsun skipsins. Meðal annars kom fram í matsskýrslu Aðalsteins Þórðarsonar 9. febrúar 2011, lið 3 að „Þau almennu vinnubrögð sem undirritaður þekkir til við ryðhreinsun hérlendis, er yfirleitt unnið við 500-700 bar ...“. Fram kom í málflutningi að sá búnaður sem gagnstefndi notaði getur hreinsað við allt að 2000 bara þrýsting. Þarna verður að telja að matsmaður hafi ekki kynnt sér málsatvik nægilega vel sem leiðir til þess að matið og ályktanir á grundvelli þess verða ekki vel marktækar af þeim sökum.
Í liðum 2.1, 2.2 og 2.3 í sama skjali kemur fram að stórir hlutar skipsins, þar með taldir helstu heilu fletir, séu í lagi, í góðu lagi eða ásættanlegu ástandi. Hins vegar eru tilteknir ákveðnir staðir, sem ekki séu beint sýnilegir, og afmörkuð svæði, kantar, brúnir og blettir, sem séu með ryði. Verður slíkt að teljast eðlilegt fjórum árum eftir að skipið var málað.
Umrætt mat fór fram 3. febrúar 2011, þ.e. rúmum þremur árum eftir að skipið var afhent í Hafnarfirði. Í útboðsgögnum í lið 6.3 kemur eftirfarandi fram: „The paint system for exterior part of vessel is based on a 2 year lifetime“. Ekkert liggur fyrir um það hvernig ástand málningar á skipinu var að loknum tveimur árum frá því það var málað né heldur tveimur árum eftir afhendingu þess.
Í gagnstefnu kemur fram að fljótlega eftir að skipið var afhent hafi komið fram ryð undan málningu og að gagnstefnda hafi verið tilkynnt um það 15. maí 2008. Enn fremur hefur komið fram að umfangsmikil stálvinna fór fram á skipinu í slippnum fyrir norðan og þykir ljóst að stálryk hefur borist yfir skipið við þær aðgerðir. Þekkt er að slíkt stálryk getur myndað ryðlit í yfirborði málningar án þess að það ryð komi innan frá sem megi þannig rekja til undirvinnu fyrir málningu. Verður að telja að yfirgnæfandi líkur séu á að a.m.k. stærstur hluti þess meinta ryðs sem gagnstefnandi hélt fram að komið hefði í ljós 15. maí 2008 hafi verið af þessum sökum en ekki vegna slælegra vinnubragða af hálfu gagnstefnda.
Að framangreindu virtu verður ekki fallist á kröfu gagnstefnanda um bætur úr höndum gagnstefnda vegna málningar á skipinu.
7. Neysluvatnsgeymir. Fram hefur komið af hálfu gagnstefnda að eftirlitsmaður gagnstefnanda hafi tekið út umræddan tank að hreinsun lokinni og samþykkt frágang hans. Umræddur eftirlitsmaður kom ekki fyrir dóminn við aðalmeðferð málsins og því var ekki unnt að sannreyna þetta atriði. Verður gagnstefnandi að bera halla af því. Enn fremur hefur komið fram að tankurinn stóð tómur og ónotaður svo mánuðum skipti og við það hefur sementshúð getað sprungið og ryðmyndun hafist í tanknum. Verður að telja að gagnstefnandi og eftirlitsmaður hans hafi ekki sinnt nægilegri umhirðu um tankinn og því ekki við gagnstefnda að sakast um það. Ekki er því fallist á bótakröfu vegna þessa liðar.
8. Þilfarskrani. Samkvæmt greinum 8.2 og 8.3 í útboðsgögnum bar gagnstefnda að færa krana af aðalþilfari upp á nýtt efra þilfar. Þetta átti að gera með því að skera undirstöðu frá þilfari og bæta nýrri þriggja metra undirstöðu undir kranann. Því er síðan haldið fram í gagnstefnu að verktakinn hafi ákveðið að gera þetta með öðrum hætti og að skekkja á kranakransinum hafi verið 2 mm en ekki mátt vera meiri en 0,2 mm. Fram kemur af hálfu gagnstefnda að umrædd breyting hafi verið gerð vegna þess að eftirlitsmanni gagnstefnanda hafi þótti það smekklegra og koma betur út. Umræddur eftirlitsmaður kom ekki fyrir dóminn við aðalmeðferð málsins og verður gagnstefnandi að bera hallann af því.
Í matsgerð kemur fram að matsmaður telji að þessi aðferð við uppsetningu kranans hafi verið eðlileg. Enn fremur kemur fram að matsmaður geti ekki fullyrt að kransinn hafi ekki verpt sig við suðu, eða hann hafi verið skakkur fyrir.
Ekki þykir sannað að umrædd skekkja á kransinum sé af völdum vinnubragða gagnstefnda og því er ekki fallist á bótakröfu gagnstefnanda á hendur honum vegna þessa liðar.
Þar sem ekki hefur verið fallist á að gagnstefnandi eigi bótakröfu á hendur gagnstefnda vegna vanefnda hans eða galla á verkinu ber að sýkna gagnstefnda af kröfum gagnstefnanda í gagnsök.
Málskostnað ber að dæma aðalstefnanda úr höndum aðalstefnda samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála og þykir hann hæfilega ákveðinn 3.000.000 króna.
Málið dæmir Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari ásamt meðdómsmönnunum Eyþóri H. Ólafssyni rafmagnsverkfræðingi og Jóni B. Hafsteinssyni skipaverkfræðingi.
D ó m s o r ð:
Aðalstefndi, Vegagerð ríkisins, greiði aðalstefnanda, Vélsmiðju Orms og Víglundar ehf., 238.491 evru með 5,5% dráttarvöxtum af 237.151 evru frá 28. febrúar 2008 til 25. mars sama ár en af 238.491 evru frá þeim degi til greiðsludags og 3.000.000 króna í málskostnað.