Hæstiréttur íslands

Nr. 2023-55

B (Óskar Sigurðsson lögmaður)
gegn
A (Einar Gautur Steingrímsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Áminning
  • Opinberir starfsmenn
  • Sveitarfélög
  • Stjórnsýsla
  • Skaðabætur
  • Tjáningarfrelsi
  • Stjórnarskrá
  • Meðalhóf
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.

2. Með beiðni 14. apríl 2023 leitar B leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 17. mars 2023 í máli nr. 601/2021: A gegn B. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila um greiðslu miska- og skaðabóta úr hendi leyfisbeiðanda auk þess sem gagnaðili fór fram á að áminning sem henni var veitt 1. febrúar 2016 yrði dæmd ógild.

4. Héraðsdómur sýknaði leyfisbeiðanda af kröfum gagnaðila. Landsréttur vísaði frá kröfu gagnaðila um ógildingu áminningar og kröfu um skaðabætur en dæmdi leyfisbeiðanda til greiðslu miskabóta. Rétturinn leit til þess að atvikið sem leiddi til áminningar hafi átt sér stað á lokuðum fundi starfsmanna. Slíkir fundir væru mikilvægur vettvangur umræðu um starfsemi skólans og skólastjóra skylt að halda slíka fundi með kennurum og öðrum sérfræðingum skólans. Óhjákvæmilegt væri að játa þátttakendum á slíkum fundum mjög rúmt frelsi til tjáningar um það sem þeir teldu betur mega fara í starfsemi skólans og stjórnun hans. Um vanhæfi skólastjóra til meðferðar málsins í skilningi 6. töluliðar 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 leit Landsréttur til úttektar sem leyfisbeiðandi fékk sálfræðing til að vinna. Þar kom fram að erfiðleikar í samskiptum gagnaðila og skólastjórans hefðu verið orðnir langvarandi, ágreiningur væri orðinn persónulegur og hvorug vildi vinna með hinni. Taldi rétturinn að í niðurstöðu úttektarinnar sem leyfisbeiðandi aflaði og byggði á í málinu fælust sannanlegar hlutlægar ástæður sem almennt hafi verið til þess fallnar að draga mætti óhlutdrægni skólastjórans í efa þegar kom að ákvörðun um uppsögn gagnaðila. Þá yrði að líta til þess að tilefni uppsagnarinnar hefði eingöngu verið sú grein sem gagnaðili ritaði sem snerist svo til öll um gagnrýni á skólastjórann en ekki annars konar vanrækslu á starfsskyldum. Samkvæmt þessu taldi Landsréttur að skólastjórinn hefði verið vanhæf samkvæmt 6. tölulið 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga við meðferð málsins.

5. Leyfisbeiðandi telur dóm Landsréttar bersýnilega rangan og úrslit málsins varða sérstaklega mikilvæga hagsmuni sveitarfélagsins í starfsmannamálum almennt. Byggir hann á því að málið hafi verulegt almennt gildi um stjórnunarheimildir stjórnenda gagnvart undirmönnum við veitingu áminningar og eftirfarandi uppsagnar vegna háttsemi þeirra. Þá lúti beiðnin að túlkun Landsréttar á stjórnunarheimildum í tengslum við hollustu- og trúnaðarskyldur starfsmanna sveitarfélaga sem og háttsemi, tjáningu og framkomu starfsmanna er þeir nýta sér tjáningarfrelsi sitt samkvæmt 41. gr. stjórnsýslulaga, 1. mgr. 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og 2. mgr. 73. gr. stjórnarskrár. Enn fremur telur leyfisbeiðandi að með dómi Landsréttar hafi verið vikið frá því að dómstólar hafi almennt veitt stjórnendum verulegt svigrúm til þess að meta hvort framkoma starfsmanna kalli á áminningu eða eftir atvikum uppsögn. Hafi flestir dómar þar sem uppsögn hefur verið talin ólögmæt ráðist af formbundnum skilyrðum laga eða kjarasamninga, en ekki efnislegu mati á framkomu eða háttsemi starfsmanna.

6. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.