Hæstiréttur íslands

Mál nr. 707/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Framlagning skjals


Fimmtudaginn 7. nóvember 2013.

Nr. 707/2013.

Sérstakur saksóknari

(Arnþrúður Þórarinsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Ólafur Eiríksson hrl.)

Y

(Sigmundur Hannesson hrl.)

Z

(Ragnar Tómas Árnason hrl.)

Þ

(Almar Þór Möller hdl.)

Æ og

(Gestur Jónsson hrl.)

Ö

(Ragnar H. Hall hrl.)

Kærumál. Framlagning skjals.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem S var meinað að leggja fram sex eigin skýrslur rannsakenda en kröfum X, Y, X, Þ, Æ og Ö um að S yrði meinað að leggja fram skjal með yfirskriftinni „Tímalína“ ásamt gögnum er því skjali fylgdu, hafnað. Í úrskurði héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti með vísan til forsendna hans, sagði að skýrslur þær sem um ræddi væru í raun greinargerðir, samdar eftir útgáfu ákæru. Framlagning þeirra rúmaðist því ekki innan heimilda ákæruvaldsins samkvæmt ákvæðum laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og yrði því að hafna kröfu S um að þær yrðu lagðar fram í málinu. Hvað varðaði skjal með yfirskriftina „Tímalína“ væri um að ræða sönnunargögn með yfirliti í tímaröð yfir tiltekna atburði og tilvísanir í rannsóknargögn og samkvæmt lögum um meðferð sakamála væri S heimilt að leggja þau gögn fram.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. nóvember 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. nóvember 2013, þar sem sóknaraðila var ekki heimilað að leggja fram sex eigin skýrslur rannsakenda, en kröfu varnaraðila að öðru leyti hafnað. Kæruheimild er í p. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Varnaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar fyrir sitt leyti með kæru 4. nóvember 2013. Þeir krefjast þess að þeim hluta hins kærða úrskurðar, þar sem kröfu þeirra var hafnað, verði hrundið, en staðfestur verði sá hluti úrskurðarins að sóknaraðila verði meinað að leggja fram skjal með yfirskriftinni: „Tímalína“ ásamt gögnum sem því skjali fylgja.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. nóvember 2013.

                Við þingfestingu mótmæltu ákærðu framlagningu tiltekinna gagna, er ákæruvaldið hafði sent dóminum með ákærunni, sbr. 154. gr. laga nr. 88/2008. Mótmæli þeirra nú lúta annars vegar að „sex eigin skýrslum rannsakenda sem unnar voru dagana 4., 10. og 11. september sl. ásamt fylgiskjölum. Samkvæmt 2. mgr. 134. gr. laga nr. 88/2008 er heimilt að leggja fram sönnunargögn í sakamáli „sem aflað hefur verið við rannsókn“. Eigin skýrslur þær sem ákæruvaldið hyggst nú leggja fram í stað viðauka með greinargerð rannsakenda skv. 1. mgr. 56. gr. laga nr. 88/2008 eru unnar eftir útgáfu ákæru og eftir að framlagningu fylgigagna eða svokallaðra viðauka við hana hafði verið mótmælt.“ Hins vegar mótmæla ákærðu framlagningu möppu, sem merkt er nr. 3 og eru þar gögn blaðsíðumerkt 411 til 731. Fyrsta skjalið í þessari möppu ber yfirskriftina Tímalína og telja ákærðu ekki lagaheimild fyrir framlagningu þessara gagna.

                Sækjandinn hefur krafist þess að öll gögn, er send voru dóminum með ákærunni, verði lögð fram.

                Krafa ákærðu lýtur fyrst að því að ákæruvaldinu verði meinað að leggja fram 6 skýrslur rannsakenda málsins. Fjórum skýrslnanna fylgja gögn og eru skýrslurnar úrvinnsla og að hluta til ályktanir sem rannsakandinn dregur af þeim. Í hinum tveimur skýrslunum er vitnað til gagna í skýrslunum sjálfum og af þeim dregnar ályktanir. Í lögum um meðferð sakamála er gert ráð fyrir í 2. mgr. 134. gr. og 154. gr. að ákærandi afli og leggi fram þau gögn er aflað hefur verið við rannsókn málsins og hann hyggst byggja á í málinu. Bæði getur verið um að ræða bein sönnunargögn og eins gögn er rannsakendur vinna úr gögnum málsins og draga ályktanir af, enda er þeim hvergi í nefndum lögum meinað að gera það. Ákærðu benda hins vegar á að í nefndum skýrslum sé um að ræða skriflegan málflutning. Benda þeir á að ákæra hafi verið gefin út 5. júlí síðastliðinn en skýrslurnar séu unnar í september. Ekkert hafi komið fram í málinu eftir útgáfu ákæru er hafi kallað á gerð skýrslnanna. Ákæruvaldið hafi heimild til að gera grein fyrir málinu í sérstakri skýrslu, sbr. 1. mgr. 56. gr. laganna, og í sérstakri greinargerð í ákæru, sbr. d-lið 1. mgr. 152. gr. laganna. Þessar heimildir hafi ákæruvaldið nýtt sér og séu þau gögn til staðar í málinu. Nefnd lög heimili ákæruvaldinu ekki frekari framlagningu greinargerða og beri því að hafna kröfu þess um að fá að leggja þessi gögn fram.

                Í nefndum ákvæðum sakamálalaganna eru tæmandi taldar heimildir ákæruvaldsins til að leggja fram skriflegar greinargerðir. Skýrslur þær, sem hér um ræðir, eru í raun útlistanir á málavöxtum, unnar af lögreglumanni. Hér er því um að ræða skýrslur sem eru í raun greinargerðir, samdar eftir útgáfu ákæru. Framlagning þessara skýrslna rúmast ekki innan framangreindra heimilda ákæruvaldsins og verður því að hafna kröfu þess um að þær verði lagðar fram í málinu.

                Í öðru lagi krefjast ákærðu þess að ákæruvaldinu verði meinað að leggja fram möppu með rannsóknargögnum, en upphafsblað þeirrar möppu ber yfirskriftina: Tímalína. Í möppunni, sem fylgdi með ákærunni til dómsins, eru ýmis gögn varðandi stofnun og starfsemi fyrirtækis þess sem í upphafi ákæru greinir. Upphafsblaðið er í raun yfirlit í tímaröð yfir það sem á að hafa gerst hjá fyrirtækinu, og raunar fleiri fyrirtækjum, frá stofnun þess og þar til starfsemi þess lauk. Ákærðu byggja á því að gögn þessi séu ekki sönnunargögn heldur umfjöllun um sönnunargögn sem ekki sé heimilt að leggja fram, sbr. það sem að framan segir.

                Í nefndri möppu eru gögn sem ekki verður betur séð en að séu sönnunargögn með yfirliti í tímaröð yfir tiltekna atburði og tilvísanir í rannsóknargögn. Samkvæmt lögum um meðferð sakamála er ákæruvaldinu heimilt að leggja þessi gögn fram og er kröfu ákærðu því hafnað.

                Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

                Ákæruvaldinu er ekki heimilt að leggja fram framangreindar sex eigin skýrslur rannsakenda en að öðru leyti er kröfum ákærðu hafnað.