Hæstiréttur íslands

Mál nr. 203/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Kærufrestur
  • Frávísun frá Hæstarétti


                                                        

Þriðjudaginn 9. apríl 2013.

Nr. 203/2013.

Tollstjóri

(Jóhanna Lára Guðbrandsdóttir fulltrúi)

gegn

Z

(Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.)

Kærumál. Kærufrestur. Frávísun frá Hæstarétti.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar felld var úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík um að kyrrsetja tiltekinn eignarhluta Z í fasteign að beiðni tollstjóra. Kæra tollstjóra barst ekki héraðsdómi fyrr en að liðnum kærufresti og var málinu því vísað frá Hæstarétti.

                                                             

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. mars 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. mars 2013, þar sem felld var úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 15. október 2012 um að kyrrsetja eignarhluta varnaraðila í fasteigninni [...] í Reykjavík, fastanúmer [...]-[...]. Um kæruheimild vísar sóknaraðili til 1. mgr. 35. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl., sbr. 4. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og kröfum varnaraðila hafnað. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Að kröfu sóknaraðila kyrrsetti sýslumaðurinn í Reykjavík 15. október 2012 eignarhluta varnaraðila í fyrrgreindri fasteign til tryggingar væntanlegri skattkröfu á hendur henni vegna ætlaðra brota gegn lögum nr. 90/2003 um tekjuskatt. Með bréfi 24. sama mánaðar var þess krafist á grundvelli 9. mgr. 113. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 2. mgr. 102. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, að héraðsdómur felldi kyrrsetninguna úr gildi. Með hinum kærða úrskurði var kyrrsetningargerðin felld úr gildi.

Samkvæmt 6. mgr. 113. gr. laga nr. 90/2003, sbr. lög nr. 23/2010 og lög nr. 24/2011, er heimilt að krefjast kyrrsetningar hjá skattaðila og öðrum þeim, sem rökstuddur grunur um refsiverða háttsemi samkvæmt 109. gr. laganna beinist að, til tryggingar greiðslu væntanlegrar skattkröfu, fésektar og sakarkostnaðar í málum er sæta rannsókn hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins að nánar tilgreindum skilyrðum fullnægðum. Í 9. mgr. sömu greinar kemur fram að leggja má fyrir héraðsdóm ágreining um lögmæti kyrrsetningargerðar með sama hætti og greinir í 2. mgr. 102. gr. laga nr. 88/2008. Heimild til að kæra slíkan úrskurð til Hæstaréttar er í k. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008, sbr. dóm Hæstaréttar 21. júní 2010 í máli nr. 372/2010. Samkvæmt 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008 er kærufrestur þrír sólarhringar frá því að kærandi fékk vitneskju um úrskurðinn. Sóknaraðili var viðstaddur uppkvaðningu hins kærða úrskurðar 1. mars 2013. Kærufrestur var því liðinn þegar kæran barst héraðsdómi 14. sama mánaðar. Samkvæmt þessu verður málinu vísað frá Hæstarétti.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. mars 2013.

Mál þetta var þingfest 23. nóvember sl. og tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 30. janúar sl. Sóknaraðili er Z, [...], Reykjavík en varnaraðili er Tollstjóri, Tryggvagötu 19, Reykjavík.

                Dómkröfur sóknaraðila eru þær að kyrrsetning sem Sýslumaðurinn í Reykjavík framkvæmdi hjá sóknaraðila í máli nr. K-32/2012, 15. október 2012, í fasteigninni [...], Reykjavík, fastanúmer [...]-[...], verði felld úr gildi með úrskurði. Þá krefst lögmaður sóknaraðila málsvarnarlauna úr ríkissjóði, en til vara málskostnaðar úr hendi varnaraðila.

                Varnaraðili krefst þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað.

Málavextir

                Skattrannsóknarstjóri ríkisins hóf rannsókn 30. maí 2012 á meintum vanframtöldum skattskyldum tekjum X, kt. [...], fyrir tekjuárin 2006 til 2009, vegna millifærslna frá [...] ehf. og [...] Ltd. inn á bankareikning X. Hinn 28. september sl. barst Tollstjóra tilkynning frá Skattrannsóknarstjóra ríkisins um rökstuddan grun um refsiverða háttsemi X vegna ætlaðra brota á skattalöggjöf.

                Að sögn varnaraðila hafi sóknaraðili talið fram til skatts og verið samsköttuð með X tekjuárin 2006-2009 sem séu til rannsóknar hjá Skattrannsóknarstjóra. Því beri sóknaraðili sjálfsskuldarábyrgð samkvæmt 1. mgr. 116. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt á greiðslu væntanlegrar skattkröfu. Sóknaraðili kveður að hún og X hafi slitið samvistir í október 2009. Fyrir liggur að sóknaraðili og X fengu leyfi til skilnaðar að borði og sæng 12. apríl 2010 og var veitt leyfi til lögskilnaðar 12. ágúst 2011.

                Með kyrrsetningarbeiðni sem móttekin var hjá Sýslumanninum í Reykjavík 11. október 2012 krafðist varnaraðili kyrrsetningar í eignum sóknaraðila fyrir kröfum að fjárhæð 31.000.000 króna vegna væntanlegrar skattkröfu. Beiðnin var tekin fyrir hjá sýslumanni 15. október 2012 í máli nr. K-32/2012. Sóknaraðili var ekki boðuð í gerðina að ósk varnaraðila með þeim rökum að hætta væri talin á undanskoti eigna. Þó var farið að lögheimili sóknaraðila að [...], Reykjavík, en hún hittist ekki þar fyrir. Fulltrúi sýslumanns hafði samband við sóknaraðila símleiðis og mun hafa upplýst hana um málsatvik og leiðbeint um leiðir til að varna gerðinni. Gerðinni lauk sama dag með kyrrsetningu í fasteigninni [...], Reykjavík, fastanúmer [...]-[...], að fjárhæð 31.000.000 króna. Krafa sóknaraðila um úrskurð dómsins var móttekin 25. október 2012.

Málsástæður og lagarök sóknaraðila

                Sóknaraðili byggir kröfu sína annars vegar á því að skilyrði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. fyrir kyrrsetningu vegna meintrar kröfu varnaraðila gegn sóknaraðila séu ekki uppfyllt, hins vegar að árangurslaus kyrrsetning verði ekki framkvæmd hjá sóknaraðila á grundvelli sérreglna 6. og 7. mgr. 113. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt þar sem til þess skorti lagaheimild.

                Hvað varðar skilyrði kyrrsetningar samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 31/1990 byggir sóknaraðili á því að varnaraðili eigi ekki lögvarða kröfu á sóknaraðila enda engin krafa til staðar, algjör óvissa ríki um fjárhæð hinnar meintu kröfu og gjalddagi hennar sé ekki kominn. Fyrrverandi eiginmaður sóknaraðila hafi hvorki verið dæmdur til greiðslu sektar né ákvörðuð sekt af þar til bærum yfirvöldum. Af því leiði að enginn gjalddagi sé á hinni meintu kröfu. Fjárhæð hinnar meintu kröfu sé ekki rökstudd í kyrrsetningarbeiðni varnaraðila. Af þessu leiði að kyrrsetning varnaraðila hjá sóknaraðila verði ekki grundvölluð á 1. mgr. 5. gr. laga nr. 31/1990.

Sóknaraðili mótmælir því að 1. mgr. 116. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, sbr. 6. mgr. 113. gr. sömu laga, geti verið grundvöllur kyrrsetningar á fasteign í eigu sóknaraðila. Sóknaraðili og X séu ekki hjón. Sóknaraðili sé fyrrverandi eiginkona hans, en þau hafið slitið samvistir í október 2009. Þau hafi skilið að borði og sæng 12. apríl 2012 (sic) og fjárskiptum þeirra á milli hafi lokið 9. apríl 2010.

Sóknaraðili rekur að 6. og 7. mgr. 113. gr. laga nr. 90/2003 feli í sér undantekningar frá meginreglu 1. mgr. 5. gr. laga nr. 31/1990 og beri að skýra þröngt, samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum. Rannsókn Skattrannsóknarstjóra gagnvart X hafi byrjað 30. maí 2012 eða tæplega þremur árum eftir að að þau hafi slitið samvistir. Það sé því mjög íþyngjandi gagnvart sóknaraðila að þremur árum síðar skuli hennar eina eign, sem jafnframt sé bústaður fjölskyldu hennar, vera kyrrsett vegna meintrar og óvissrar fjárkröfu íslenska ríkisins. Árið 2006 hafi sóknaraðili fengið greiddar slysabætur að fjárhæð tæplega 22.000.000 króna. Sóknaraðili hafi verið metin 30% öryrki vegna slyssins, en hún hafi fyrir tveimur börnum að sjá. Framangreindar slysabætur séu nú bundnar í fasteign hennar að [...], Reykjavík. Kyrrsetning varnaraðila hjá sóknaraðila vegna óvissrar fjárkröfu íslenska ríkisins vegna meintrar refsiverðrar háttsemi fyrrverandi eiginmanns hennar brjóti í bága við 69., 70., 71. og 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Sóknaraðili telur ósannað að X hafi gerst sekur um refsiverða háttsemi, hvað þá heldur háttsemi sem varði við 262. gr. almennra hegningarlaga. Rannsókn Skattrannsóknarstjóra sé skammt á veg komin. Samkvæmt 7. mgr. 113. gr. laga nr. 90/2003 verði grunur Skattrannsóknarstjóra að vera rökstuddur. Engin rök séu færð fyrir því í kyrrsetningarbeiðni hvers vegna krafist sé kyrrsetningar hjá sóknaraðila fyrir meintri kröfu að fjárhæð 31.000.000 króna eða hvernig sú fjárhæð sé fundin út. Lýsing varnaraðila í kyrrsetningarbeiðni á hinum meintu brotum X sé mjög fátækleg. Af þeirri ástæðu hafni sóknaraðili því að rökstuddur grunur sé um refsiverða háttsemi X.

Varnaraðili hafi nú framkvæmt kyrrsetningu hjá sóknaraðila og X fyrir ólögvarinni kröfu íslenska ríkisins samtals að fjárhæð 117.000.000 króna. Í erindi Skattrannsóknarstjóra ríkisins til Tollstjóra komi fram að kyrrsetningarfjárhæðin sé til tryggingar greiðslu kröfu samtals að fjárhæð 86.000.000 króna. Í lögskýringargögnum komi ítrekað fram að beita eigi framangreindum sérreglum laga nr. 90/2003 af varfærni, sérstaklega þegar í hlut eigi aðili sem sé ekki sjálfur til rannsóknar en beri ábyrgð á skattgreiðslum eins og raunin sé í tilviki sóknaraðila. Starfsmenn varnaraðila hafi gerst sekir um saknæma háttsemi gagnvart sóknaraðila. Varnaraðili hafi farið offari í kyrrsetningaraðgerðum sínum gagnvart sóknaraðila. Varnaraðili hafi fengið fullnustu kröfu sinnar, að fjárhæð 86.000.000 króna, með árangurslausri kyrrsetningu hjá X. Þá sé varnaraðili bundinn af því mati sem fram komi hjá Skattrannsóknarstjóra um fjárhæð væntanlegrar skattkröfu og fésektar og geti ekki að eigin frumkvæði krafist kyrrsetningar fyrir hærri fjárhæð.

Krafa um úrskurð héraðsdóms byggist á 9. mgr. 113. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 2. mgr. 102. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Krafa sóknaraðila um málskostnað styðst við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Málsástæður og lagarök varnaraðila

                Varnaraðili byggir á því að umrædd kyrrsetningargerð hafi farið fram á grundvelli 6. mgr. 113. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt en ekki á grundvelli 5. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Heimild 6. mgr. 113. gr. laga nr. 90/2003 sé sama eðlis og 88. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 og sé því rýmri en almenn heimild til kyrrsetningar samkvæmt 5. gr. laga nr. 31/1990.

                Ákvæði 6. mgr. 113. gr. laga nr. 90/2003 heimili að eignir gerðarþola séu kyrrsettar til að tryggja greiðslu væntanlegrar skattkröfu, fésektar og sakarkostnaðar. Ákvæðið áskilji ekki að endanleg ákvörðun um skattkröfu eða sekt liggi fyrir. Tilgangur ákvæðisins sé að tryggja kröfu á meðan málið sé í rannsókn og ekki sé hægt að beita öðrum aðferðum fullnusturéttarfars til að tryggja greiðslu kröfunnar. Vegna hins langa málsmeðferðartíma og sérstaks eðlis brotanna sé veruleg hætta á undanskoti eigna.

                Hin væntanlega krafa sé lögvarin þar sem hún byggi á lögum nr. 90/2003. Skattrannsóknarstjóri ríkisins tilkynni varnaraðila aðeins um lágmarksfjárhæð sem talið sé víst að tryggja verði með kyrrsetningu. Skattrannsóknarstjóri fari mjög varlega í þetta mat og láti sóknaraðila njóta alls vafa við ákvörðun um fjárhæð.

                Samkvæmt ákvæðum laga nr. 90/2003 beri hjón ábyrgð á greiðslu skatta hvors annars á meðan sameiginlegt fjárfélag sé til staðar. Fjárfélagi sóknaraðila og X hafi ekki verið slitið fyrr en við skilnað að borði og sæng 12. apríl 2010. Skilnaður þeirra hafi ekki í för með sér að ábyrgð samkvæmt 1. mgr. 116. gr. laga nr. 90/2003 falli niður vegna þeirra ára sem þau hafi sameiginlega talið fram og verið samsköttuð eins og margoft hafi komið fram í dómum Hæstaréttar. Telja verði að sóknaraðili hafi notið ávinnings af ætluðum skattalagabrotum X en þau hafi verið í hjúskap þegar þau hafi verið framin. Því verði að telja að löglíkur séu fyrir hendi á því að hætta hafi skapast á undanskoti eigna.

                Varnaraðili vísar því á bug að hann hafi farið offari við kyrrsetningu. Einungis hafi verið kyrrsett fyrir 31.000.000 króna í þeim málum sem lúti að skattskilum sóknaraðila og X. Einnig andmælir varnaraðili fullyrðingum sóknaraðila um að kyrrsetningin feli í sér brot á stjórnarskrárvörðum réttindum hans. Kyrrsetningargerð sem gerð hafi verið hjá sóknaraðila hafi verið í samræmi við lög og nauðsynleg til að tryggja greiðslu væntanlegra skatta, sektar og sakarkostnaðar enda hætta á að eignum verði skotið undan eða þær glatist.

Niðurstaða

                Samkvæmt 6. mgr. 113. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt er heimilt, til tryggingar greiðslu væntanlegrar skattkröfu, fésektar og sakarkostnaðar í málum er sæta rannsókn hjá Skattrannsóknarstjóra ríkisins, að krefjast kyrrsetningar hjá skattaðila og öðrum þeim sem rökstuddur grunur um refsiverða háttsemi samkvæmt 109. gr. sömu laga beinist að ef hætta þykir á að eignum verði ella skotið undan eða þær glatist eða rýrni að mun, enda megi ætla að meint refsiverð háttsemi varði við 262. gr. almennra hegningarlaga. Með sama hætti sé heimilt að krefjast kyrrsetningar hjá aðilum sem beri ábyrgð á skattgreiðslum samkvæmt 116. gr. Fram kemur í 7. mgr. sömu greinar að Tollstjóri annist rekstur mála samkvæmt 6. mgr. og skuli Skattrannsóknarstjóri ríkisins tilkynna Tollstjóra um mál þar sem hann telur að rannsókn hans muni leiða til þess að skattar skattaðila verði hækkaðir eða honum eða öðrum þeim sem grunur um refsiverða háttsemi samkvæmt 109. gr. sömu laga beinist að verði gerð fésekt. Þá kemur fram í sömu málsgrein að um framkvæmd og gildi kyrrsetningar fari sem um kyrrsetningu fjármuna almennt sé að ræða, með þeim undantekningum að tryggingu þurfi ekki að setja, mál þurfi ekki að höfða til staðfestingar kyrrsetningu og gjöld skuli ekki greiða fyrir ráðstafanirnar. Tekið er fram í 9. mgr. sömu greinar að leggja megi fyrir héraðsdóm ágreining um lögmæti kyrrsetningargerðar með sama hætti og greinir í 2. mgr. 102. gr. laga um meðferð sakamála.

                Ákvæði 6. mgr. 113. gr. laga nr. 90/2003 er sérstök regla um kyrrsetningu sem heimilar yfirvöldum að krefjast kyrrsetningar eigna í afmörkuðum tilvikum að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Í samræmi við almennar lögskýringarreglur verður að líta svo á að ákvæðið sé sérregla sem gangi framar almennu kyrrsetningarheimildinni í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Það rennir styrkari stoðum undir þessa ályktun að í lokamálslið 7. mgr. 113. gr. er tekið fram að um ,,framkvæmd og gildi kyrrsetningar“ en ekki skilyrði kyrrsetningar fari sem um kyrrsetningu fjármuna almennt með þeim undantekningum sem þar greinir. Af þessu leiðir að hafna verður málsástæðum sóknaraðila sem lúta að því að skilyrði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 31/1990 séu ekki uppfyllt.

Það kemur fram í 6. mgr. 113. gr. laga nr. 90/2003 að heimilt sé að krefjast kyrrsetningar ,,til tryggingar greiðslu væntanlegrar kröfu“. Ákvæðinu var bætt við lög nr. 90/2003 með 1. gr. laga nr. 23/2010 og með 4. gr. laga nr. 24/2011 var bætt við því skilyrði að ætla mætti að meint refsiverð háttsemi varði við 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Í athugasemdum við frumvarp sem varð að lögum nr. 23/2010 kemur m.a. fram að frumvarpinu sé ætlað að bregðast við þeirri hættu sem geti skapast, vegna þess hversu langan tíma málsmeðferð mögulegra skattalagabrota taki, að eignum sé komið undan áður en mál sé fullrannsakað. Einnig kemur fram að mál er sæti rannsókn vegna gruns um brot gegn skattalögum séu oft afar vandmeðfarin og taki auk þess, eðli máls samkvæmt, mun lengri tíma en venjulegar skattákvarðanir. Vegna langs rannsóknartíma geti verið hætta á að eignum sé komið undan enda sé skattaðilum oftast ljóst þegar við upphaf rannsóknar að til endurákvörðunar opinberra gjalda muni koma og að lögbundnum fésektum verði beitt. Það sé því mikilvægt að tryggt sé að þeir aðilar sem séu til rannsóknar geti ekki með skipulegum hætti komið eignum undan og sé ákvæðinu ætlað að koma í veg fyrir það. Með ákvæðinu sé greiðsla í ríkissjóð vegna yfirvofandi skattkrafna ríkisins og fésektarkrafna mun betur tryggð. Almennar reglur um kyrrsetningu samkvæmt lögum nr. 31/1990 gildi um kyrrsetningu samkvæmt greininni eftir því sem við eigi. Þó sé gert ráð fyrir að reglur um tryggingu fyrir kyrrsetningu, málshöfðun og lögboðin gjöld vegna ráðstafananna taki ekki til kyrrsetningar Tollstjóra.

Samkvæmt þessu er ljóst að hægt er að krefjast kyrrsetningar meðan mál er til rannsóknar, jafnvel þó að rannsókn sé á frumstigi. Rannsókn Skattrannsóknarstjóra beinist að persónulegum skattskilum X vegna tekjuáranna 2006-2009 og eru ætluð brot talin felast í því að X hafi vanframtalið tekjur vegna millifærslna frá [...] ehf. og [...] Ltd. inn á bankareikning sinn. Eins og kemur fram í tilkynningu Skattrannsóknarstjóra til tollstjóra og kyrrsetningarbeiðni tollstjóra liggur fyrir rökstuddur grunur um að X hafi gerst sekur um refsiverða háttsemi samkvæmt 1. og 2. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Rannsókn Skattrannsóknarstjóra ríkisins á skattskilum X beinist að meintum vanframtöldum tekjum hans vegna tekjuáranna 2006 til 2009. Fyrir liggur að sóknaraðili og X voru í hjúskap á þeim tíma, en þau skildu að borði og sæng 12. apríl 2010. Samkvæmt 1. mgr. 116. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 6. mgr. sömu greinar, bera hjón, sbr. 62. og 80. gr. laganna, óskipta sjálfskuldarábyrgð á greiðslum skatta sem á þau eru lagðir og getur innheimtumaður ríkissjóðs gengið að hvoru hjóna um sig til greiðslu á sköttum þeirra beggja. Sóknaraðili byggir á því að ábyrgð hennar á skattskilum X hafi fallið niður við skilnað þeirra að borði og sæng. Ákvæði 1. mgr. 116. gr. laga nr. 90/2003 er skýrt um að hjón beri óskipta ábyrgð á skattgreiðslum hvors annars og er þar ekki tekið fram að ábyrgð falli niður við skilnað hjóna, sbr. einnig dóm Hæstaréttar Íslands 25. janúar 2002 í máli nr. 34/2002. Samkvæmt 8. mgr. 110. gr. sömu laga fyrnist sök samkvæmt 109. gr. laganna á sex árum miðað við upphaf rannsóknar á vegum Skattrannsóknarstjóra ríkisins, enda verði ekki óeðlilegar tafir á rannsókn máls eða ákvörðun refsingar. Samkvæmt þessu eru ætluð vanskil X ófyrnd og þar með ábyrgð sóknaraðila á skattskilum hans.

Eins og áður greinir kemur fram í síðari málslið 6. mgr. 113. gr. laga nr. 90/2003 að með sama hætti er heimilt að krefjast kyrrsetningar hjá aðilum sem bera ábyrgð á skattgreiðslum samkvæmt 116. gr. laganna. Að mati dómsins verður að skýra ákvæði 6. mgr. 113. gr. á þann veg að skilyrði fyrri málsliðarins um hættu á að eignum verði skotið undan eða þær glatist eða rýrni að mun eigi einnig við um kyrrsetningu hjá þeim sem ábyrgð ber á skattgreiðslum. Í greinargerð varnaraðila er aðeins vísað almennt til þess að vegna hins langa málmeðferðartíma og sérstaks eðlis þessara brota sé veruleg hætta á undanskoti eigna. Meðal gagna málsins eru skattframtöl sóknaraðila 2012 og 2011, vegna tekjuáranna 2011 og 2010. Ekki verður ráðið af þeim að verulegar breytingar hafi orðið á eignastöðu sóknaraðila þau ár, aðrar en þær sem virðast leiða af skilnaði hennar og X, en samningur þeirra um skilnaðarkjör er lagður fram í málinu. Einnig eru lögð fram skattframtöl sóknaraðila og X 2007 til 2009, vegna tekjuáranna 2006 til 2008. Þó að skattframtölin bendi til nokkurrar eignarýrnunar þau ár verður ekki af þeim ráðið hvort eignir sóknaraðila, X eða þeirra beggja, hafi rýrnað. Varnaraðili hefur að mati dómsins ekki fært fram viðhlítandi rök fyrir því að hætta sé á því að sóknaraðili skjóti eignum sínum undan eða þær glatist eða rýrni að mun. Eru skilyrði kyrrsetningar hjá sóknaraðila því ekki uppfyllt og verður fallist á kröfu sóknaraðila um að kyrrsetning sem Sýslumaðurinn í Reykjavík framkvæmdi hjá sóknaraðila í máli nr. K-32/2012, 15. október 2012, verði felld úr gildi.

                Lögmaður sóknaraðila krafðist málsvarnarlauna úr ríkissjóði við munnlegan flutning málsins, sem skipaður verjandi hans við rannsókn málsins hjá Skattrannsóknarstjóra. Fram kom hjá lögmanni varnaraðila við munnlegan flutning málsins að sóknaraðili hafi haft réttarstöðu sakbornings síðan 1. nóvember sl. Krafa um kyrrsetningu þessa er byggð á 6. mgr. 113. gr. laga nr. 90/2003, eins og fyrr er rakið. Það ákvæði tekur mið af 88. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, þar sem lögreglu er fengin heimild til kyrrsetningar eigna, eins og tekið er fram í athugasemdum við frumvarp sem varð að lögum nr. 23/2010. Mál þetta er lagt fyrir dóminn samkvæmt heimild í 2. mgr. 102. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 9. mgr. 113. gr. laga nr. 90/2003. Það þykir þó mega leiða af ákvæðum 38. gr. laga nr. 88/2008 að lögmanni sóknaraðila verður ekki ákvörðuð málsvarnarlaun af dómara við meðferð máls þessa og er þeirri kröfu hafnað. Til vara krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila. Þar sem fallist hefur verið á kröfu sóknaraðila verður málskostnaður úrskurðaður honum úr hendi varnaraðila og þykir hann hæfilega ákveðinn 200.000 krónur.

                Eggert Óskarsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

                Kyrrsetning, sem Sýslumaðurinn í Reykjavík framkvæmdi hjá sóknaraðila, Z, í máli nr. K-32/2012, 15. október 2012, í fasteigninni [...], Reykjavík, fastanúmer [...] -[...], er felld úr gildi.

                Varnaraðili, Tollstjóri, greiði sóknaraðila 200.000 krónur í málskostnað.