Hæstiréttur íslands
Mál nr. 198/2007
Lykilorð
- Kærumál
- Lögvarðir hagsmunir
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Mánudaginn 23. apríl 2007. |
|
Nr. 198/2007. |
Fjármálaeftirlitið(Jóhannes Karl Sveinsson hrl.) gegn Birni Þorra Viktorssyni(Jóhannes R. Jóhannsson hrl.) |
Kærumál. Lögvarðir hagsmunir. Frávísunarúrskurður staðfestur.
Með úrskurði kærunefndar samkvæmt lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi voru felldar úr gildi ákvarðanir F um að B, ásamt sex öðrum aðilum, færu sameiginlega ekki með meira en 5% atkvæðisréttar í Sparisjóði Hafnarfjarðar. F stefndi B og krafðist þess að úrskurður nefndarinnar yrði felldur úr gildi. Þegar málið var til meðferðar í héraði var samþykktur samruni Sparisjóðs vélstjóra og framangreinds sparisjóðs og var þeim síðarnefnda slitið án skuldaskila. Við samrunann varð til nýr sparisjóður og þar sem úrskurðurinn, sem krafist var ógildingar á, tók ekki til eignar í þessum nýja sparisjóði, var talið að dómur um kröfu F fæli í sér svar við lögspurningu og að stofnunin hefði ekki lengur lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins. Vísaði héraðsdómur því málinu frá dómi og var frávísunin staðfest af Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. apríl 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. mars 2007, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði felldur úr gildi og lagt fyrir hann að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst sóknaraðili aðallega kærumálskostnaðar, en til vara málskostnaðar í héraði.
Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og sóknaraðila gert að greiða málskostnað.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar, sbr. einnig 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, verður hann staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Fjármálaeftirlitið, greiði varnaraðila, Birni Þorra Viktorssyni, 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. mars 2007.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 8. mars sl., er höfðað með stefnu birtri 31. október sl.
Stefnandi er Fjármálaeftirlitið, Suðurlandsbraut 32, Reykjavík.
Stefndi er Björn Þorri Viktorsson, Nesbala 17, Seltjarnarnesi.
Dómkröfur stefnanda eru þær að felldur verði úr gildi úrskurður kærunefndar samkvæmt lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi nr. 87/1988 frá 4. ágúst 2006 í málinu nr. 5/2006.
Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins.
Dómkröfur stefnda
eru aðallega þær að málinu verði vísað frá dómi.
Til vara er þess krafist að stefndi verði
sýknaður. Þá krefst stefndi málskostnaðar.
Í báðum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar.
Með úrskurði 8. febrúar var frávísunarkröfu stefnda hafnað. Krafan byggðist á því að stefnandi ætti ekki málshöfðunarheimild, frestur til málshöfðunar væri liðinn og málstaður stefnanda vanreifaður.
Í tilefni af því að fram er komið að eftir að mál þetta var höfðað runnu Sparisjóður Hafnarfjarðar og Sparisjóður vélstjóra saman og sá síðarnefndi tók við réttindum og skyldum Sparisjóðs Hafnarfjarðar frá 1. janúar ákvað dómari að gefa lögmönnum kost á því að tjá sig um það álitaefni hvort vísa bæri máli þessu frá dómi ex officio.
MÁLSATVIK
Atvik máls þessa eru þau, að á árinu 2005 samþykkti stjórn Sparisjóðs Hafnarfjarðar framsal á stofnfjárhlutum í sparisjóðnum til stefnda. Stefnandi hóf rannsókn á því hvort stofnast hefði virkur eignarhlutur með stofnfé í sparisjóðnum, í skilningi laga nr. 161/2002. Með bréfi 7. febrúar 2006 tilkynnti stefnandi stefnda að stefndi teldist, ásamt fleiri stofnfjáreigendum, aðili að virkum eignarhlut sem hefði myndast í Sparisjóði Hafnarfjarðar, án þess að lagaskilyrða hefði verið gætt. Var stefnda svo tilkynnt 20. febrúar 2006 um þá ákvörðun stefnanda að stefndi teldist aðili að virkum eignarhlut og að atkvæðisréttur hans yrði takmarkaður þannig að hann, ásamt fjórum öðrum, færi ekki með meira en 5% atkvæðisréttar í sparisjóðnum, sbr. 3. mgr. 70. gr. laga nr. 161/2002. Hinn 16. maí 2006 skrifaði stefnandi stefnda bréf þar sem fram kom að tveir menn til viðbótar teldust vera aðilar að hinum óbeina virka eignarhlut, og að þeir skyldu ekki fara með meira en 5% atkvæðisréttar sameiginlega.
Stefndi kærði ákvarðanir stefnanda til kærunefndar samkvæmt lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi nr. 87/1998. Kærunefndin kvað upp úrskurð 4. ágúst 2006 og felldi ákvarðanir stefnanda úr gildi, meðal annars með vísan til þess að stefnandi hefði við málsmeðferð brotið gegn reglum stjórnsýslulaga. Stefnandi skaut málinu til dómstóla með heimild í bráðabirgðaákvæði í lögum nr. 87/1998, sbr. 10. gr. laga nr. 67/2006.
Stefndi lét bóka í þinghaldi 8. mars sl. að hann teldi stefnanda ekki lengur hafa lögvarða hagsmuni af úrslitum málsins. Byggir stefndi á því að við samruna Sparisjóðs Hafnarfjarðar og Sparisjóðs vélstjóra hafi Sparisjóði Hafnarfjarðar verið slitið án skuldaskila. Fjármálaeftirlitið hafi samþykkt samrunann og Sparisjóður vélstjóra hafi tekið yfir öll réttindi og skyldur Sparisjóðs Hafnarfjarðar, sem sé þar af leiðandi ekki lengur til. Sé það mat stefnda að vísa beri málinu frá án kröfu enda verði dómstólar ekki spurðir álits á lögfræðilegum efnum.
Stefnandi kveðst ennþá hafa hagsmuni af úrlausn málsins. Hafi hann í fyrsta lagi hagsmuni af því að vita hvort hann hafi brotið gegn formreglum þegar hin umdeilda ákvörðun var tekin. Þá hafi álitaefnið um hvort um hafi verið að ræða lögbrot stefnda ennþá þýðingu. Snúist málið um afmarkað sakarefni á tilteknum tíma, sem skipti máli að lögum að fá efnislega úrlausn um.
NIÐURSTAÐA
Á fundi stofnfjárfesta í Sparisjóði Hafnarfjarðar 1. desember 2006 var samþykktur samruni sparisjóðsins og Sparisjóðs vélstjóra. Var Sparisjóði Hafnarfjarðar slitið án skuldaskila við sameiningu sjóðanna. Fjármálaeftirlitið samþykkti samrunann 8. desember og Sparisjóður vélstjóra tók yfir öll réttindi og skyldur Sparisjóðs Hafnarfjarðar frá og með 1. janúar sl. Til varð nýr sparisjóður, er hefur fengið nafnið Byr.
Stefnanda er í lögum nr. 161/2002 fengin heimild til eftirlits með fjármálafyrirtækjum, svo sem Sparisjóði Hafnarfjarðar, og laut úrskurðurinn sem krafist er ógildingar á í máli þessu að ákvörðun innan hans. Eftir að kærunefndin hafði fellt úr gildi ákvörðun stefnanda um atkvæðavægi stefnda og fleiri stofnfjáreigenda, var tekin ákvörðun á stofnfjárfundi um að slíta sparisjóðnum og sameina hann Sparisjóði vélstjóra. Stefnandi samþykkti ákvörðun þessa, og samruna sparisjóðanna tveggja. Ákvörðunin sem krafist er að verði ógilt tekur ekki til eignar í hinum nýja sparisjóði, Byr, eða ákvarðanatöku innan hans, heldur í sjóði sem er ekki lengur til. Verði ákvörðunin felld úr gildi raknar við ákvörðun sem átti við ástand í eldra sparisjóði sem hefur nú verið slitið. Telja verður því að ógilding á úrskurði kærunefndarinnar myndi engu breyta um réttarstöðu málsaðila nú. Dómur um kröfur stefnanda fæli í sér svar við lögspurningu og telur dómari að stefnandi hafi ekki lengur lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins.
Samkvæmt þessu verður máli þessu vísað frá dómi.
Stefnandi greiði stefnda 200.000 krónur í málskostnað.
Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnandi, Fjármálaeftirlitið, greiði stefnda, Birni Þorra Viktorssyni, 200.000 krónur í málskostnað.