Hæstiréttur íslands

Mál nr. 504/2009


Lykilorð

  • Börn
  • Barnavernd
  • Líkamsárás
  • Miskabætur


Fimmtudaginn 11. febrúar 2010.

Nr. 504/2009.

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir

vararíkissaksóknari)

gegn

X

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

(Guðni Á. Haraldsson hrl.

réttargæslumaður)

Börn. Barnavernd. Líkamsárás. Miskabætur.

X var sakfelldur fyrir margvísleg hegningarlaga- og barnaverndarlagabrot gegn þremur ungum börnum sínum, sem honum hafði verið treyst fyrir. Brotin voru framin á sameiginlegu heimili þeirra á tæplega þriggja ára tímabili. Var talið að X ætti sér engar málsbætur og að mál þetta væri án fordæmis. Litið var til þess við ákvörðun refsingar að X braut gróflega gegn börnunum á heimili þeirra, þar sem þau eiga að hafa skjól og búa við öryggi. Að þessu gættu og með hliðsjón af refsiramma þeirra lagaákvæða, sem áttu við í málinu, þótti refsing hæfilega ákveðin fangelsi í tvö ár. Þá var X dæmdur til að greiða börnum sínum miskabætur, A 1.200.000 krónur, B 600.000 krónur og C 600.000 krónur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason og Gunnlaugur Claessen og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 12. júní 2009 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Hann krefst þess að refsing ákærða verði þyngd.

          Brotaþolar, A, B og C, krefjast þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um bætur til þeirra og vexti.

          Ákærði krefst aðallega sýknu en til vara að refsing verði milduð og bundin skilorði. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfum verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að þær verði lækkaðar.

I

          Lagt hefur verið fyrir Hæstarétt bréf til réttargæslumanns brotaþola frá verkefnastjóra barnaverndar fjölskyldunefndar [...] 7. janúar 2010. Þar kemur fram að uppeldisaðstæður barnanna, áður en til vistunar á fósturheimili hafi komið, hafi haft alvarlegar afleiðingar á andlega líðan þeirra. Til að vinna úr þeim miklu áföllum sem þau hafi orðið fyrir hafi þau þurft á markvissri aðstoð sérfræðinga Barna- og unglingageðdeildar LSH að halda, auk þess sem þau hafi notið þjónustu sérfræðinga Barnahúss. Lýsandi fyrir alvarleika málsins sé að þau hafi „til þessa alfarið hafnað að hitta föður sinn, jafnvel undir eftirliti fósturforeldra og/eða barnaverndarstarfsmanna.“ Börnin hafi öll lýst yfir ánægju með dvöl sína hjá fósturforeldrum sínum, sem séu föðurfaðir þeirra og eiginkona hans. Þar líði þeim vel og þar vilji þau vera. Jafnframt hafi komið fram í viðtölum við fósturforeldra og fulltrúa skóla að börnin hafi tekið miklum framförum, bæði félagslega og í námi.

II

          Svo sem rakið er í héraðsdómi var mál þetta höfðað á hendur ákærða fyrir hegningarlaga- og barnaverndarlagabrot gegn þremur börnum sínum í níu ákæruliðum. Í 3. ákærulið var ákærði talinn hafa brotið gegn syni sínum A með ólögmætri nauðung og broti á barnaverndarlögum með því að hafa sumarið 2007 á tjaldstæði á [...] í [...] neytt A til að stela áfengi úr nærliggjandi tjaldi með því að hóta honum lífláti að öðrum kosti. Í framburði brotaþolans B kemur ekki skýrlega fram að ákærði hafi með hótunum eða ógnunum neytt A til verksins, eins og ákærða var gefið að sök. Telst ólögmæt nauðung því ekki sönnuð í þessum ákærulið þótt fyrir liggi að ákærði hafi sagt A að vinna verkið. Varðar því brot ákærða við 2. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Í héraðsdómi eru brot samkvæmt 8. og 9. ákærulið rétt færð til refsiákvæða. Skiptir þar engu að í ákæru var sú augljósa ritvilla að þessir ákæruliðir voru sagðir nr. 7 og 8, enda hefur vörn ákærða ekki verið áfátt að þessu leyti. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms að öðru leyti er niðurstaða hans um sakfellingu og heimfærslu brota ákærða staðfest.

          Ákærði er sakfelldur fyrir margvísleg og langvarandi hegningarlaga- og barnaverndarlagabrot gegn þremur ungum börnum sínum, sem honum hafði verið treyst fyrir, á heimili þeirra á tæplega þriggja ára tímabili. Hann á sér engar málsbætur. Mál þetta er án fordæmis. Að þessu gættu og með hliðsjón af refsiramma þeirra lagaákvæða sem hér eiga við, svo og með vísan til þess sem í héraðsdómi greinir um ákvörðun refsingar, er hún hæfilega ákveðin fangelsi í tvö ár.

Ákvæði héraðsdóms um skaðabætur til brotaþola og sakarkostnað verða staðfest.

Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, X, sæti fangelsi í tvö ár.

Ákvæði héraðsdóms um skaðabætur og sakarkostnað skulu vera óröskuð.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 627.485 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 376.500 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Guðna Á. Haraldssonar hæstaréttarlögmanns, 188.250  krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. apríl 2009.

I

Málið, sem dómtekið var 20. mars síðastliðinn, er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 6. janúar 2009 á hendur „X, kennitala [...], [...], [...], fyrir eftirgreind hegningarlaga- og barnaverndarlagabrot gegn þremur börnum sínum frá sumri 2005 til febrúarmánaðar 2008, á heimili þeirra að [...]:

I.

Gegn syni ákærða, A, fæddum 1993:

1.       Fyrir líkamsmeiðingar og barnaverndarlagabrot með því að hafa nokkur skipti slegið A í andlit og líkama, sparkað í líkama hans og tekið fast um handleggi hans með þeim afleiðingum meðal annars að A hlaut mar á upphandleggjum, í eitt skipti tekið piltinn kverkataki, og í nokkur skipti sett hönd sína, og í nokkur skipti kodda, fyrir vit drengsins svo honum lá við köfnun.

Telst þetta varða við 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 98. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

2.        Fyrir hótanir og barnaverndarlagabrot með því að hafa í nokkur skipti hótað A lífláti og ógnað honum um leið með hnífi í eitt skipti og í öðru tilviki með eftirlíkingu af skammbyssu, sem drengurinn hélt að væri raunveruleg hlaðin skammbyssa, en ákærði hélt byssunni að höfði A.

Telst þetta varða við 233. gr. almennra hegningarlaga, 98. gr. og 1. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga.

3.        Fyrir ólögmæta nauðung og barnaverndarlagabrot með því að hafa sumarið 2007, á tjaldstæði á [...] í [...], neytt A til að stela áfengi úr nærliggjandi tjaldi með því að hóta honum lífláti að öðrum kosti.

Telst þetta varða við 225. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 1. og 2. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga.

4.        Fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa í árslok 2007 eða ársbyrjun 2008 kastað hnífi að A sem hafnaði í læri hans en við þetta hlaut drengurinn sár ofarlega innanvert á hægra læri. 

Telst þetta varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en til vara við 4. mgr. 220. gr. sömu laga.

II.

5.        Gegn dóttur ákærða, B, fæddri 1995, fyrir líkamsárásir og barnaverndarlagabrot með því að hafa í eitt skipti handjárnað stúlkuna við ofn og handleikið síðan hníf fyrir framan hana og í nokkur skipti slegið hana í andlitið.

Telst þetta varða við 217. gr. almennra hegningarlaga og 98. gr. barnaverndarlaga.

III.

Gegn dóttur ákærða C, fæddri 1999:

6.        Fyrir líkamsárásir og barnaverndarlagabrot með því að hafa í nokkur skipti slegið telpuna í andlitið og klipið fast í kinnar hennar.

Telst þetta varða við 217. gr. almennra hegningarlaga og 98. gr. barnaverndarlaga.

7.        Fyrir ólögmæta nauðung og barnaverndarlagabrot með því að hafa í eitt skipti hrint C fullklæddri ofan í baðkar sem fullt var af köldu vatni og haldið henni þar í stutta stund, og í eitt skipti lokað hana úti í skamman tíma að vetri til þegar kalt var í veðri og barnið á náttfötum einum klæða.

Telst þetta varða við 225. gr. almennra hegningarlaga, 98. gr. og 1. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga.

IV.

Gegn börnunum öllum með því að hafa:        

8.        Drepið heimilisköttinn [...] að A og C ásjáandi og látið A henda kettinum í ruslatunnu heimilisins þar sem B fann hann.

9.        Í nokkur skipti vakið börnin að nóttu til þegar hann var drukkinn og látið þau vinna ýmis húsverk.

Brot ákærða skv. 7. og 8. tl. teljast varða við 98. gr. og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Af hálfu A, kennitala [...], er krafist miskabóta að fjárhæð kr. 1.500.000 auk dráttarvaxta skv. lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 25. október 2008 til greiðsludags. Þá er krafist réttargæsluþóknunar úr hendi ákærða og að dráttarvextir leggist við höfuðstól dómkröfu á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 12 mánuðum eftir upphafsdag vaxta.

Af hálfu B, kennitala [...], er krafist miskabóta að fjárhæð kr. 1.000.000 auk dráttarvaxta skv. lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 25. október 2008 til greiðsludags. Þá er krafist réttargæsluþóknunar úr hendi ákærða og að dráttarvextir leggist við höfuðstól dómkröfu á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 12 mánuðum eftir upphafsdag vaxta.

Af hálfu C, kennitala [...], er krafist miskabóta að fjárhæð kr. 700.000 auk dráttarvaxta skv. lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 25. október 2008 til greiðsludags. Þá er krafist réttargæsluþóknunar úr hendi ákærða og að dráttarvextir leggist við höfuðstól dómkröfu á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 12 mánuðum eftir upphafsdag vaxta.“

Ákærði neitar sök og krefst sýknu, en til vara vægustu refsingar. Þess er krafist að bótakröfunum verði vísað frá dómi og sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða, verði greiddur úr ríkissjóði.

II

Mál þetta hófst með því að 17. febrúar 2008 var Neyðarlínunni tilkynnt um ætlað ofbeldi ákærða gagnvart börnum sínum.  Í framhaldinu voru börnin tekin af heimilinu og þeim komið fyrir í fóstur, en ákærði fór í áfengismeðferð.  Í gögnum málsins kemur fram að ákærði hafði haft forsjá barnanna frá 2003 og búið einn með þeim.  Á þessum tíma litu félagsmálayfirvöld til með heimilinu, meðal annars með stuðningi við börnin sem fólst í því að kona kom á heimilið nokkrum sinnum í viku til að annast um þau.

Af hálfu félagsmálayfirvalda var rætt við börnin og var haft eftir þeim í tilkynningu til lögreglu að þau hefðu sætt ofbeldi af hálfu ákærða og hann oft verið drukkinn á heimilinu.  Þá hefði hann meðhöndlað hnífa í viðurvist þeirra svo og skammbyssur, en þar mun hafa verið um eftirlíkingar að ræða.  Rætt var við ákærða og þrætti hann ekki fyrir að hann hefði beitt börnin ofbeldi, en taldi upplifun þeirra á því ekki vera í samræmi við raunveruleikann.  Þá kannaðist hann við að hann ætti við áfengisvanda að stríða og féllst á að leita aðstoðar vegna þess.

A var skoðaður af Þengli Oddssyni yfirlækni 18. febrúar 2008 og segir í vottorði hans að drengurinn sé með um það bil 3 cm nýlega gróinn skurð á innanverðu hægra læri.  Á báðum upphandleggjum megi sjá mar sem gæti passað við að drengurinn hefði verið tekinn föstum tökum.  Um tilurð sársins á lærinu segir að ákærði hafi verið í hnífakasti í stofunni og kallað á drenginn, sem kom inn í stofuna og fékk um leið hníf í lærið.  A var einnig skoðaður á Barnaspítala Hringsins 26. febrúar.  Í vottorði Jóns R. Kristinssonar barnalæknis er getið um sárið á lærinu og áverka sem hann fékk í leikfimi 2004, en að öðru leyti bar hann ekki áverkamerki og líkamsskoðun leiddi í ljós eðlilegt ástand.

Sami barnalæknir skoðaði einnig dætur ákærða sama dag.  Í vottorðum hans kemur fram að líkamsástand þeirra og þroski sé eðlilegur.  Engin áverkamerki fundust, nema hvað B hafði marblett á læri sem var vart sjáanlegur og C var með marblett fyrir ofan hnéskel á hægra fæti.  Hefur læknirinn eftir henni að þetta mar sé eftir disk sem ákærði hafi kastað í hana. 

Börnin voru í viðtölum í Barnahúsi í september og október 2008.  Í greinargerð Ástu Ólafar Farestveit um viðtal við A segir meðal annars:  „A sagðist vera mjög hræddur við X föður sinn.  Hann sagðist upplifa árásir föður síns sem „morðtilraun“.  Sagði föður sinn hafa reynt að kyrkja sig, kastað að sér hnífum og einnig sagði hann frá því að faðir hans hafi haldið fyrir vit hans þannig að hann taldi að hann myndi kafna.  A sagði allt þetta hafa getað leitt til dauða síns og því sjái hann þetta sem slíkt.  Hann sagðist hafa óttast að einn daginn myndi faðir hans ganga  að honum dauðum sérstaklega eftir að einn hnífurinn hafnaði í læri hans.  Faðir hans skaut einnig á hann með litlum plastkúlum úr einhverri byssu sem hann átti sem skyldi eftir sig marga örlitla marbletti út um allan líkamann.  A sagðist hafa valið að segja engum frá þessu ofbeldi af ótta við að vera drepinn ef hann myndi gera það.”  Þá er haft eftir A að ofbeldið hafi byrjað þegar hann var um 11 ára aldur.

Í greinargerð um viðtal við B er haft eftir henni að henni hafi liðið mjög illa heima hjá ákærða, en lífið væri miklu betra eftir að hún fór frá honum.  Þá sagði B frá því að hún vissi til þess að ákærði hefði drepið köttinn [...] og hún væri sannfærð um að hann hefði einnig drepið annan kött sem hún átti.  Sá hún mikið eftir köttunum sem höfðu veitt henni styrk í erfiðleikum hennar.

Í greinargerð um viðtalið við C segir meðal annars:  „Hins vegar sagði C frá því grátandi strax í fyrsta viðtalinu að sér hafi liðið illa hjá föður sínum og nefndi hún þá strax þegar hann „drap [...] fyrir framan mig“.  Hún sagði að kisan hennar hafi verið hrædd við föður hennar og klórað hann og þá hafi X tekið köttinn hennar og drepið hann fyrir framan C og eftir það hafi C að eigin sögn orðið „100% hrædd“ við föður sinn.  C var mikið niðri fyrir og grét við frásögn sína enda sagðist hún hafa þótt mjög vænt um kisuna.  Hún sagði sjálf frá því að hún hafi grátið mikið hjá föður sínum því hann var „alltaf að sparka í þau, kíla og ógna þeim með hnífum” segir í dagál dags. 15. september s.l.  Aðspurð hvers vegna hún hafi ekki sagt einhverjum fullorðnum frá sagðist hún ekki hafa þorað að segja frá af ótta við frekari ofbeldi af hendi föður.“

Í þágu rannsóknar málsins voru teknar skýrslur fyrir dómi af brotaþolum 8. og 10. apríl 2008.  Verður nú efni þeirra rakið.

A skýrði svo frá að ákærði hefði beitt hann bæði andlegu og líkamlegu ofbeldi.  Þetta hefði byrjað fyrir fjórum til fimm árum, það er eftir að foreldrar hans skildu og ákærði fékk forsjá barnanna.  Þá hafi ákærði einnig farið að drekka meira en hann gerði áður.  Drengurinn kvað ákærða hafa átt það til að vekja börnin á næturnar til að láta þau taka til eftir hann.  Einnig hafi hann kallað þau ýmsum ónefnum.  Hann hefði hrint sér í gólfið, sparkað í sig, barið sig og kýlt í andlitið.  Einu sinni hefði ákærði kastað hníf að sér og hefði hnífurinn rekist í fótinn, nálægt hnénu.  Enn fremur hefði ákærði beint skammbyssu að höfði hans og sagt að nú myndi hann deyja.  Kvaðst drengurinn hafa haldið að byssan væri raunveruleg.  Ákærði hefði átt tvær skammbyssur og hafi önnur verið úr plasti en hin úr málmi og hafi hún verið óvirk.  Þá hefði ákærði reynt að kæfa hann með því að taka fyrir munn hans og setja kodda yfir höfuð hans.  Drengurinn kvaðst oft hafa spurt ákærða daginn eftir svona atburði hvort hann myndi eftir því hvað hann hefði gert eða sagt kvöldið áður, en ákærði hafi sagt að hann myndi ekki eftir því.  Drengurinn kvað ákærða hafa drepið köttinn [...]  að sér og yngri systur sinni ásjáandi.  Hræið hefði verið sett í plastpoka og hann sendur með hann út í ruslatunnu.  Loks kvað drengurinn ákærða hafa sent sig til að stela bjór þegar hann og börnin voru í útilegu í [...]. 

Drengurinn kvað ákærða einnig hafa beitt systur sínar ofbeldi.  Hann hefði meðal annars sett þá yngri í baðkar og hellt á hana heitu og köldu vatni.

B skýrði frá því að ákærði hefði beitt móður sína ofbeldi meðan þau bjuggu enn saman.  Almennt lýsti hún framkomu ákærða á heimilinu á þann veg að hann hefði verið reiður og pirraður og hann hefði drukkið mikið.  Hún kvað ákærða hafa handjárnað hana og fest við ofn og sveiflað hníf til og frá á þann hátt að hún hélt hann myndi stinga sig.  Henni hefði tekist að ná í lykilinn og losa handjárnin af sér og komast undan honum inn í herbergi sitt.  Daginn eftir hefði hún spurt hann af hverju hann hefði handjárnað hana, en hann svarað að hann hefði ekki verið að handjárna hana.  Það hefði einnig gerst öðru sinni að hún hefði spurt hann daginn eftir að hann gerði tiltekna hluti af hverju hann hefði gert þetta og hefði hann þá neitað að hafa gert þá.  Þá lýsti hún því að eitt kvöldið hefði hún verið inni í herbergi sínu og þá heyrt í [...], kettinum sínum, og komið fram.  Ákærði sagði henni þá að fara aftur inn í herbergið og varð hún að hlýða því.  Þegar C kom inn kvaðst B hafa spurt hana af hverju hún hefði verið rekin inn í herbergið, en C kvaðst ekki mega segja það.  Daginn eftir kvaðst hún hafa spurt eftir kettinum en ekki fengið svar.  Síðar um daginn hafi hún farið út með ruslið og þá séð poka í tunnunni sem henni fannst undarlegur og opnað hann og í honum var þá kötturinn dauður og rennblautur.  Hún kvaðst hafa spurt ákærða hvað hann hefði gert kettinum, en hann ekki kannast við neitt.  A hefði sagt að ákærði hefði kyrkt köttinn og drepið hann þannig, en þegar hún sagði honum að hann hefði verið blautur hefði C sagt að ákærði hefði barið hann með sturtuhaus og síðan drekkt honum.  B lýsti því að ákærði hefði kastað hnífum í gólf, veggi og hurðir og eitt sinn hefði hann hent A á hurð og stungið hníf í hurðina beint fyrir framan hann.  Það kvaðst hún ekki hafa séð en A hefði sagt frá því.  Hún kvað ákærða hafa vakið börnin á næturnar til að láta þau taka til eftir þau, en ruslið hafi mest verið eftir hann sjálfan, bæði bjórdósir og pappír sem gekk af þegar hann var að klippa úr bókum og þess háttar.  Þá lýsti hún því að ákærði hefði nokkrum sinnum slegið sig fast utan undir og hefði sér liðið illa á eftir.  Einnig hefði hann slegið systkini sín og verið vondur við þau, sérstaklega A en ekki eins vondur við C.  Ákærði hefði bæði hrint A í gólfið og sparkað í hann og hefði A farið að gráta vegna þessa.  Eitt sinn hefði ákærði sprautað ísköldu vatni á annaðhvort A eða C, en ekki vissi hún hvort þeirra þar eð hún mundi ekki hvort hún hefði séð það.  Loks skýrði hún frá því að einhverju sinni er ákærði og þau systkinin voru í útilegu hafi hann sagt A að stela bjór úr verslun sem var við hlið fellihýsisins sem þau voru í og hafi A gert það.  Ákærði hefði líka sagt henni að gera hið sama og þegar hún neitaði og sagðist þurfa að sofa hafi hann læst hana inni í herberginu hennar í fellihýsinu. 

C skýrði frá því að ákærði hefði lamið þau systkinin, sparkað í þau og kýlt þau þegar hann var drukkinn og einnig hefði hann beint hnífi í átt að A.  C sagði ákærða næstum hafa verið búinn að drepa A en þær systurnar hefðu stöðvað hann.  Þá hefði hann sett sig á náttbuxunum út í garð að næturlagi um vetur.  Hún kvað ákærða hafa drepið [...] með því að lemja hana með sturtuhaus og drekkja henni síðan í fötu.  Annar köttur, [...], hefði einnig drepist og hefði ákærði sagt að hann hefði orðið undir bíl.  C kvað A hafa sagt sér frá því að ákærði hefði kastað hnífi í gólf, borð og skrifborð A. Þá kvað hún ákærða hafa hrint sér ofan í bað með köldu og volgu vatni og hafi hún þá verið klædd.          

III

Ákærði bar að hann hefði fengið forsjá barnanna sumarið 2003.  Hann kvaðst hafa búið einn með börnunum á þeim tíma og stað sem í ákæru greinir.  Frá 1. desember 2007 hafi hann verið atvinnulaus.  Þá hafi hann og átt við áfengisvandamál að stríða og leitað lækna vegna þunglyndis og annarra geðrænna einkenna.  Hann kvaðst hafa farið í áfengismeðferð í febrúar 2008 og væri í áframhaldandi meðferð, auk þess hefði hann leitað aðstoðar geðlæknis.  Hann kvaðst hafa tekið lyf við þunglyndi frá 2003 og vita að ekki væri gott að neyta áfengis eftir að hafa tekið slík lyf.          

Ákærði neitaði að hafa slegið og sparkað í A eins og honum er gefið að sök í 1. ákærulið.  Hann kvaðst hinsvegar hafa tekið fast í handleggi hans.  A hefði verið erfiður á þessum tíma, enda væri hann ofvirkur og með athyglisbrest.  Ákærði kvaðst sjálfur ekki hafa gengið heill til skógar á þessum tíma og þess vegna hafi viðbrögð hans við hegðun drengsins stundum verið harkaleg.  Hann hafi ekki alltaf verið undir áhrifum áfengis þegar þetta gerðist.  Stundum þegar hann drakk fékk hann svonefnt blackout og mundi þá ekki hvað hefði gerst.  Hann kannaðist við að þeir feðgar hefðu tekið hvorn annan kverktaki og hefði það verið grín sem þeir hefðu séð í sjónvarpsþáttum um Simpson.  Hann neitaði hins vegar að hafa sett hönd sína og kodda fyrir vit drengsins.  Framburður dætra hans um þetta var borinn undir hann og kvaðst hann ef til vill hafa geta verið í blackout og útilokaði hann því ekki að þetta hefði gerst.

Ákærði neitaði að hafa ógnað A og hótað honum lífláti eins og honum er gefið að sök í 2. ákærulið.  Hann kvað hnífa hafa verið á heimilinu, en hann neitaði að hafa handleikið þá fyrir framan börnin nema þá í einstaka sinnum.  Þessir hnífar væru safngripir úr seinna stríði.  Einnig hefði verið skammbyssa úr plasti á heimilinu og önnur leikfangabyssa sem A á.  Hann kvaðst aldrei hafa haldið byssu að höfði A og eins hefði drengurinn vitað að byssurnar væru eftirlíkingar. 

Ákærði kvaðst hafa verið í útilegu með börnunum að [...].  Þau hefðu fengið leyfi fólks í næsta fellihýsi til að hlaða tæki sem þau voru með og í staðinn kvaðst ákærði hafa gefið fólkinu súkkulaði.  Fólkið hefði þá gefið honum bjórflösku.  Síðar um daginn kvaðst ákærði hafa verið að grilla og þá beðið drenginn að fara aftur til fólksins og biðja það um aðra flösku og gerði hann það og kom með flösku til baka.  Hann neitaði því alfarið að hafa hótað drengnum í þessu sambandi.

Ákærði neitaði alfarið að hafa kastað hnífi að A eins og honum er gefið að sök í 4. ákærulið.  Hann kannaðist við að hafa kastað hnífum í korktöflu á heimili sínu og verið geti að hann hafi kastað þeim í veggi, en hann kvaðst þó ekki muna eftir því. 

Ákærði neitaði að hafa handjárnað B við ofn, enda væri það ekki hægt þar eð ofnarnir væru flatir.  Handjárn hefðu verið til á heimilinu og hefði A átt þau.  Hann kvað það geta verið að þau tvö hefðu verið að leika sér með þau.  Hann neitaði að hafa handleikið hníf fyrir framan hana og að hafa slegið hana í andlitið.  Ákærði neitaði því alfarið sök í 5. ákærulið.

Ákærði neitaði að hafa slegið C í andlitið en viðurkenndi að hafa klipið nokkrum sinnum laust í andlit hennar og hefði það verið grín sem telpan hefði hlegið að.

Ákærði kannaðist við að hafa sett C fullklædda ofan í baðkar sem í var volgt baðvatn en ekki kalt vatn.  Þetta hefði verið grín og kvaðst hann hafa tekið mynd af þessu þar sem C væri brosandi.  Hann neitaði að hafa lokað telpuna úti að vetri til á náttfötunum.

Ákærði kannaðist við að hafa aflífað köttinn [...] á heimilinu.  Atvik málsins hefðu verið þau að kötturinn lenti fyrir bíl og þar eð ekki hefði náðst í dýralækni hefði hann aflífað köttinn til að lina þjáningar hans.  A hefði orðið vitni að þessu og síðar hefði komið í ljós að C sá þetta líka.  Ákærði kvaðst hafa átt við [...] þegar hann var yfirheyrður af lögreglu um kött sem hann drap.  Hann kvaðst ekki hafa drepið [...], hún hefði týnst. 

Ákærði kannaðist við að hafa í eitt skipti náð í eldri börnin tvö, sem komin voru í rúmið, og látið þau þrífa upp eftir sig matarafganga.  Þetta var klukkan ellefu að kvöldi og  börnin ekki verið sofnuð.   

Ákærði kannaðist ekki við að börnin hefðu rætt við hann um að hann hefði beitt þau ofbeldi eða gert á hlut þeirra eins og þau hafa borið.  Hann kvaðst ekki geta skýrt af hverju þau skýri frá á þann hátt sem að framan var rakið.

A kom fyrir dóm við aðalmeðferð og bar að hann hefði orðið fyrir ofbeldi af hendi ákærða.  Hann hefði beitt sig líkamlegu og andlegu ofbeldi.  Hann kvað ákærða hafa lamið sig og kýlt og sparkað í sig og fellt sig í gólfið.  Höggin hefðu verið á marga staði líkamans, bæði andlitið, kviðinn og annars staðar.  Þetta hafi verið næstum daglegt brauð á heimilinu.  Hann kvaðst hafa borið merki um áverkana, bæði á handleggjum og í andliti.  Systur hans hefðu orðið vitni að þessu.  Nánar lýsti hann atferli ákærða á þann veg að ákærði hefði kallað sig illum nöfnum og tekið um háls sér og sýndi A hvernig ákærði hefði tekið um háls hans að framanverðu með báðum höndum.  A kvað þetta ekki hafa verið gert í gríni og oftast hefði ákærði verið drukkinn þegar hann beitti hann ofbeldi en ákærði hefði drukkið nánast á hverjum degi.  Þá lýsti A því að ákærði hefði ruðst inn í herbergi hans um miðja nótt og haldið fyrir munn hans og sett kodda yfir andlit hans en systur hans hefðu ekki orðið vitni að því.  A kvað ákærða hafa talað illa um sig og móður sína og kallað þau illum nöfnum.  Þá hefði ákærði oft hótað sér lífláti ef hann segði frá því sem þeim fór á milli.  Ákærði hefði skotið loftbyssukúlum að sér úr byssu sem var eins og venjuleg byssa og kvaðst A ekki hafa vitað annað en að þetta væri raunveruleg byssa, enda hafi verið til byssuskot á heimilinu.  Ákærði átti svona byssu og eins hefði hann fengið leikfangabyssu að láni hjá sér og notað hana til að berja sig.  A kvað það hafa komið fram hjá ákærða að hann teldi sig upphaf ógæfu sinnar, enda hefði hann tekið saman við móður hans vegna þess að hún hafði alið hann.  A kvað ákærða hafa átt hnífa og kastað þeim í átt að sér og eins hótað sér lífláti með hníf og í eitt skipti hefðu systur hans verið vitni að þessu.  Þá kvað A ákærða hafa hótað sér óförum og lífláti, gerði hann  lítið úr Vottum Jehóva, en ákærði tilheyrir þeim.

A kvað ákærða og þau börnin hafa verið í fellihýsi í [...] laugardagskvöld nokkurt.  Ákærði hefði byrjað að drekka og skipað sér um miðja nótt að fara í næsta tjaldvagn og stela áfengi fyrir sig og kvaðst A hafa gert það og stolið tveimur bjórdósum. 

A kvað ákærða hafa stillt sér upp við vegg með fætur sundurglennta og hendur útréttar og hefði hann ekki þorað að gera annað en ákærði vildi.  Ákærði hefði síðan kastað hníf að sér og hefði hann farið á milli fóta sér og lent í læri hans og beri hann ör eftir það.  A kvað ákærða oft hafa verið að leika sér með hnífa á heimilinu og stinga þeim í veggi og annað.    

 A kvaðst hafa orðið vitni að ofbeldi ákærða gagnvart systrum sínum. Hann kvaðst meðal annars hafa séð systur sína handjárnaða við rimlarúm.  Þá kvaðst hann hafa vaknað og séð litlu systur sína úti um vetur á náttfötum.  Þá kvaðst hann hafa heyrt hana setta í ískalt bað en sá það ekki.  A kvaðst hafa séð ákærða slá eldri systur sína í andlitið en ekki þá yngri, en séð hann klípa hana í hendurnar en ekki kinnarnar.

Þá kvaðst A hafa séð ákærða kyrkja köttinn [...] og hefði C séð það líka.  Ákærði hefði sagt sér að fara með hræið út í ruslatunnu.  Ákærði hefði hins vegar drekkt kettlingi inni á baði.  Þá hefði ákærði oft vakið þau systkinin á næturnar til að þrífa íbúðina eftir að hann hefði ruslað þar til.  Daginn eftir hefðu þau verið mjög þreytt í skólanum. 

A kvað ákærða ýmist hafa verið reiðan eða drukkinn þegar hann beitti þau börnin ofbeldi.  Hann kvaðst oft hafa spurt hann daginn eftir að hann hafði beitt þau ofbeldi af hverju hann hefði gert það og hvort hann myndi eftir því, en hann hafi sagst ekki muna eftir því og ekki orðið miður sín.  A kvaðst hafa fengið áverka af völdum ákærða og eins hefði sér liðið mjög illa, hann hefði meðal annars verið með magaverki vegna þessa.  Þar eð hann bjó á sama heimili og ákærði kvaðst hann ekki hafa treyst sér til að segja öðrum, eins og til dæmis stuðningsfulltrúanum, frá þessu.

Jón R. Kristinsson barnalæknir staðfesti framangreind vottorð sín.  Hann bar að hafa skoðað börnin og kvað hann mögulegt að áverki sem A bar á læri gæti verið eftir hníf, en mjög erfitt væri að slá því föstu.  Jón kvað A hafa verið mjög opinskáan í viðtali við sig og hefði verið erfitt og sláandi að hlusta á börnin, sérstaklega A og C.   

Þengill Oddsson yfirlæknir staðfesti framangreind vottorð sín.  Hann bar að hafa skoðað A og hefði hann borið þá áverka sem lýst er í vottorðinu og eins hefði hann tekið mynd af áverka sem A hefði sagt að væri eftir hníf.  Þengill kvað það vel geta verið að áverkinn væri eftir hníf.  Hann bætti því við að óvenjulegt væri að menn væru með áverka á þessum stað án þess að hann væri eftir eggjárn.  Þá er áverkinn það djúpur að um sár var að ræða en ekki rispu.  Áverkinn var nýlegur.  Mar sem A bar gat verið eftir að einhver hefði tekið á honum frekar en að hann hefði rekið sig í. 

D studdi við börn ákærða á vegum bæjarins.  Hún kvaðst hafa byrjað í febrúar 2005 til létta undir á heimilinu, aðstoða börnin og veita ákærða ráðsgjöf.  D kvaðst hafa komið þrisvar í viku, tvo tíma í senn, þar til börnin fóru af heimilinu í febrúar 2008 en hún hélt áfram að sinna þeim fram í júní það ár.  Hún kvaðst aldrei hafa orðið vör við að ákærði beitti börn sín ofbeldi, en sig hafi grunað að eitthvað væri að en ekki komist að neinu.  Ástæðurnar fyrir þessum grunsemdum kvað hún hafa verið þær að sér hefði fundist eins og börnin væru að fela eitthvað.  Þá kvað hún sér hafa fundist að börnunum liði illa og spurt þau en þau hafi fullvissað hana um að það væri ekki rétt og enginn væri vondur við þau.  Börnin hafi stundum verið þreytt en henni hafi ekki fundist það óeðlilegt miðað við börn almennt.  Hún kvað áfengisneyslu ákærða hafa komið til umræðu á fundi með honum og hann þá sagt að hann fengi sér einn og einn bjór.  Þegar honum var bent á að áfengisneysla á heimilinu væri óheppileg miðað við neyslusögu móður barnanna kvaðst hann myndu hætta að neyta áfengis á heimilinu.  Eftir að mál þetta kom upp tjáðu börnin sig hins vegar við hana og opnuðu sig smátt og smátt á það sem þau sögðu að gerst hefði.  Þau hefðu lýst fyrir sér bæði drykkju og ofbeldi.  Hún hefði hins vegar ekki orðið vitni að slíku, nema hvað hún hafi séð eina og eina bjórdós.  Þá kvaðst hún ekki hafa orðið vör áverka á börnunum og ekki séð hnífa eða byssur. 

Ólöf Ásta Farestveit forstöðumaður Barnahúss kvaðst hafa rætt við börnin vegna gruns um kynferðisafbrot sem ekki leiddi til frekari rannsóknar.  Hún kvað að börnin hefðu tjáð sig um ofbeldi á heimilinu.  Meðal annars hefði C tjáð sig um drápið á kettinum og að hún hefði verið lamin af ákærða.  Þá hefðu þau tjáð sig um vanlíðan gagnvart ákærða.  Hann hefði beitt þau bæði andlegu og líkamlegu ofbeldi.  A hefði til dæmis lýst því hvernig hann var tekinn hálstaki og hönd sett yfir vit hans.  Hún staðfesti greinargerðir um viðtölin sem vitnað er til í II. kafla. 

E skólahjúkrunarfræðingur kvaðst hafa sinnt börnum ákærða í skólanum.  Hún kvað B mest hafa leitað til sín vegna verkja og eins hefði hún vitað að A hefði verið með áverka en ekki hefði hann skýrt sér frá af hverju þeir stöfuðu.  Þetta hefðu verið marblettir á handlegg að hana minnti.  Hún kvaðst hafa sent hann á heilsugæslustöð vegna þeirra en ekki skoðað þá sjálf.  Verkir B komu upp í framhaldi af árekstrum hennar við ákærða, en E kvaðst ekki hafa fundið líkamlegar orsakir verkjanna heldur hefðu þeir lagast eftir að B hafði tjáð sig við hana um samskiptin við ákærða.  E kvaðst hafa rætt þessi mál við ákærða sem hefði tekið vel í að laga málin heima fyrir.  Þá kvað E B oft hafa verið þreytta og syfjaða og í einhver skipti lagði B sig hjá henni og sofnaði og svaf lengi.  E kvaðst hins vegar ekki hafa haft mikið af C að segja fyrr en eftir að þetta mál kom upp.  Hún kvað C hafa óttast að hún þyrfti að fara aftur til ákærða.  Þá hafi B tjáð sér eftir að málið kom upp að ákærði hefði drepið köttinn hennar og hún verið lokuð inni á meðan.        

F félagsráðsgjafi tilkynnti lögreglu um ætluð brot ákærða gagnvart börnum sínum.  Hún kvaðst hafa fylgst með ákærða og börnum hans frá 2006 og haldið fundi með honum og starfsfólki félagsþjónustunnar.  Í upphafi komu upplýsingar um að allt væri í lagi og börnin tækju framförum en í desember 2006 fóru að berast upplýsingar um vanrækslu en ekki voru þó grunsemdir um ofbeldi.  Þó hefði C tjáð sig um að ákærði hefði sett hana í kalt bað, en þegar þetta var rætt við C var ekki að fullu ljóst hvort þetta hefði verið leikur.  Á þessum tíma fóru að berast upplýsingar um að mikið væri lagt á börnin heima fyrir varðandi heimilisstörf og eins hefði mikil ábyrgð verið lögð á A.  F kvað þetta hafa verið rætt við ákærða sem hefði tekið vel í að bæta úr.  Í desember 2006 höfðu yfirvöld ekki áhyggjur af áfengisneyslu ákærða.  Haustið 2007 fóru að berast upplýsingar frá skóla barnanna um að ekki væri allt með felldu, börnin væru óhrein og vansvefta.  Þau báru merki vanrækslu en ekki voru grunsemdir um ofbeldi en þó fannst F eins og ekki væri allt með felldu.  Hún kvaðst hafa verið kölluð í skóla barnanna 8. janúar 2008 og hitt A sem hefði borið öll merki vanlíðunar.  Hann hefði ekki tjáð sig mikið en farið heim og hefði hún farið þangað líka og rætt við ákærða um ástandið á heimilinu.  Um miðjan febrúar hefði svo borist tilkynningin sem var upphaf málsins og í framhaldinu hefðu börnin verið tekin af heimilinu og lögreglu tilkynnt um málið.

Guðmundur St. Sigmundsson rannsóknarlögreglumaður staðfesti frumskýrslu málsins.  Hann kvað lögreglu hafa komið að málinu að ósk F 8. febrúar 2008.  Fyrir þann tíma kvaðst hann ekki vita til þess að lögreglan hefði þurft að hafa afskipti af ákærða.  Guðmundur kvaðst hafa farið á heimili ákærða með honum eftir að málið var tilkynnt til lögreglu og séð þar skammbyssu og hnífa.  Hann kvaðst hafa tekið byssuna en ekki séð ástæðu til að taka hnífana.  Guðmundur kvaðst hafa rætt við ákærða og hann viðurkennt fyrir sér hóflega áfengisneyslu en ekki að hafa beitt börnin ofbeldi.

IV

Hér að framan var rakinn framburður barna ákærða og er hann að mestu samhljóða um að ákærði hafi beitt þau bæði andlegu og líkamlegu ofbeldi.  Ákærði hefur viðurkennt að hafa tekið fast í handleggi A, en að öðru leyti neitar hann að hafa beitt börnin ofbeldi.  Þá hefur hann gefið aðrar skýringar en þau á ýmsum ákæruliðum eins og rakið var.  Þess ber að geta að ákærði neytti áfengis og verður ekki önnur ályktun dregin af framburði barnanna, sem að hluta til er studdur hans eigin framburði, að neyslan hafi verið úr hófi og hann kvaðst sjálfur stundum hafa fengið svonefnt blackout.  Alkunnugt er að menn sem fá slíkt muna ekki eftir því sem gerist á þeim tíma og bæði A og B bera að þau hafi spurt ákærða daginn eftir að eitthvað gerðist af hverju hann hefði gert það, en hann svarað því til að það hefði ekki gerst.  Framburður barnanna styðst og við framburð vitna sem komu fyrir dóm eins og rakið var.  Það verður þó að hafa í huga að börnin bjuggu á sama heimili og ákærði og hann er faðir þeirra. Alkunna er að við slíkar aðstæður telja þeir sem minni máttar eru sig ekki geta sagt frá hlutunum eins og þeir eru og reyna að breiða yfir það sem þeir telja að farið hafi úrskeiðis.

Nú verður hver ákæruliður um sig tekinn fyrir og komist að niðurstöðu um sekt eða sýknu.

Í 1. ákærulið er ákærða gefið að sök að hafa í nokkur skipti ráðist á A eins og lýst er þar.  Ákærði hefur viðurkennt að hafa tekið fast í handleggi drengsins og eins að hafa tekið hann kverkataki en það hafi verið leikur þeirra.  Að öðru leyti neitar hann sök.  Með játningu ákærða sem styðst við framburð A er sannað að hann tók fast í handleggi hans og er ekki óvarlegt að telja sannað að af því hafi drengurinn fengið mar á upphandleggi.  Á sama hátt er sannað að ákærði tók A kverkataki og, með hliðsjón af framburði A, er ekki fallist á þá skýringu ákærða að um leik hafi getað verið að ræða.  Framburður A um að ákærði hafi slegið hann og sparkað í hann fær stuðning í framburði systra hans og er það því sannað þrátt fyrir neitun ákærða.  Framburður A um að ákærði hafi sett hönd sína og haldið kodda fyrir vit hans fær ekki stuðning í framburði systranna og gegn neitun ákærða er það ósannað og verður ákærði sýknaður hvað það varðar. 

Brot ákærða samkvæmt þessum ákærulið eru rétt færð til refsiákvæða í ákærunni.

Í 2. ákærulið er ákærða gefið að sök að hafa í nokkur skipti hótað A lífláti og ógnað honum í eitt skipti um leið með hnífi og í annað skipti með eftirlíkingu af skammbyssu.  Börnin bera öll að ákærði hafi handleikið hnífa og sveiflað þeim í viðurvist þeirra, en mest þó gagnvart A.  Hins vegar er A einn um að bera að ákærði hafi hótað sér lífláti og þá ógnað sér með skammbyssu í eitt skipti og í annað skipti með hnífi.  Framburður A fær því ekki stuðning í framburði systranna og, gegn neitun ákærða, er varhugavert að telja sannað að ákærði hafi gerst sekur um það sem á hann er borið í þessum ákærulið og verður hann sýknaður.

A og B bera bæði að ákærði hafi þvingað A til að stela bjór eins og honum er gefið að sök í 3. ákærulið og telst sök hans því sönnuð þrátt fyrir neitun ákærða.  Verður hann sakfelldur samkvæmt ákæruliðnum.

Brot ákærða samkvæmt þessum ákærulið varðar við 1. og 2. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga en honum verður ekki jafnframt refsað fyrir brot gegn 225. gr. almennra hegningarlaga.

Í 4. ákærulið er ákærða gefið að sök að hafa kastað hníf að A og hafi hann hafnað í læri hans.  Þessu hefur ákærði neitað.  A bar að ákærði hefði stillt sér upp við vegg með fætur sundurglennta og útréttar hendur og ákærði hefði síðan kastað hnífi að sér sem hefði lent í læri hans og beri hann ör eftir þetta.  Staðfest er með læknisvottorðum að drengurinn ber ör á þessum stað og annar læknanna sem kom fyrir dóm bar að vel gæti verið að örið væri eftir hníf og óvenjulegt væri að menn væru með ör á þessum stað án þess að það væri eftir eggjárn.  B sá ekki ákærða kasta hníf að A en hún bar að A hefði sagt sér frá þessu atviki og hún lýsti því einnig að ákærði hefði kastað hnífum í veggi og gólf.  C bar að ákærði hefði beint hnífi að A.  Með vísun til trúverðugs framburðar A, sem að hluta til er studdur framburði systra hans, og örsins sem hann ber, metur dómurinn að fram sé komin lögfull sönnun um að ákærði hafi gerst sekur um það sem á hann er borið í þessum ákærulið og verður hann sakfelldur samkvæmt honum.

Sú aðferð ákærða að kasta hníf í áttina að drengnum er stórhættuleg og varðar brot hans samkvæmt þessum ákærulið við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.

B og A bera bæði að ákærði hafi handjárnað B eins og honum er gefið sök í 5. ákærulið.  Hún ber að hann hafi fest sig við ofn, en A að hann hafi fest hana við rimlarúm.  Hvort sem rétt er þá er sannað með framburði systkinanna að ákærði handjárnaði B.  Hins vegar ber B ein að ákærði hafi handleikið hníf fyrir framan hana eftir að hann handjárnaði hana.  Verður að sýkna ákærða af því atriði ákærunnar.  Öll börnin bera um að ákærði hafi slegið þau meira og minna og er því ekki óvarlegt að telja sannað að ákærði hafi slegið B í nokkur skipti í andlitið og verður hann sakfelldur fyrir það þrátt fyrir neitun.

Brot ákærða samkvæmt þessum ákærulið eru rétt færð til refsiákvæða í ákærunni.

Eins og rakið hefur verið bera öll börnin um margítrekað ofbeldi ákærða gagnvart þeim.  Þau hafa lýst því hvernig hann hafi slegið þau, klipið og sparkað í þau.  Framburður C um að ákærði hafi slegið sig og klipið sig fast í kinnarnar fær og stoð í framburði ákærða sem viðurkenndi að hafa klipið nokkrum sinnum laust í kinnar telpurnar og hefði það verið leikur.  Samkvæmt þessu telur dómurinn ekki óvarlegt að sakfella ákærða fyrir það sem honum er gefið að sök í 6. ákærulið.

Brot ákærða samkvæmt þessum ákærulið eru rétt færð til refsiákvæða í ákærunni.

Í 7. ákærulið er ákærða í fyrsta lagi gefið að sök að hafa hrint C fullklæddri ofan í baðkar sem fullt var af köldu vatni og haldið henni þar stutta stund.  Ákærði hefur kannast við hafa sett telpuna fullklædda ofan í baðkar sem í var volgt vatn en ekki kalt og hafi þetta verið leikur.  C bar að ákærði hefði hrint sér fullklæddri í baðkar en ekki verður séð af framburði hinna að þau hafi séð það.  A kvaðst hafa heyrt það og B bar að ákærði hefði sprautað köldu vatni á annaðhvort hinna.  Með játningu ákærða sem fær stuðning í framburði systkinanna er sannað að hann setti hana fullklædda ofan í baðkar með vatni.  Þótt engu verði slegið föstu um hitastig vatnsins eða hversu mikið vatn var í karinu er ljóst af framburði barnanna að þetta hefur ekki verið að vilja C og upplifun hennar af þessu atviki hefur verið slæm og er ekki fallist á þá skýringu ákærða að um leik hafi verið að ræða og verður hann sakfelldur fyrir þessa háttsemi.  C og A bera bæði að ákærði hafi sett hana út á náttfötunum að vetri til eins og honum er einnig gefið að sök í þessum ákærulið og verður hann sakfelldur fyrir það þrátt fyrir neitun hans.

Brot ákærða samkvæmt þessum ákærulið varða við 98. gr. og 1. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga en honum verður ekki jafnframt refsað fyrir brot gegn 225. gr. almennra hegningarlaga.

A og C bera bæði að ákærði hafi drepið köttinn [...] að þeim ásjáandi og styðst það við framburð Bar eins og rakið var.  Ákærði verður því sakfelldur fyrir 8. lið ákæru og breytir engu um það þótt hann kunni einnig að hafa drepið annan kött, hvort sem til þess lágu fullgildar ástæður eða ekki, en hann kveðst hafa aflífað kött sem hafði orðið fyrir bíl.

Í 9. ákærulið er ákærða gefið að sök að hafa í nokkur skipti vakið börnin að nóttu til þegar hann var drukkinn og látið þau vinna ýmis húsverk.  Ákærði hefur kannast við að hafa í eitt skipti náð í eldri börnin í rúmið og látið þau þrífa eftir sig, en þau hafi ekki verið sofnuð.  Bæði A og B bera að ákærði hafi vakið þau að næturlagi til að vinna húsverk og verður hann því sakfelldur samkvæmt þessum ákærulið.

  Brot ákærða samkvæmt ákæruliðum 8 og 9 eru rétt færð til refsiákvæða í ákærunni.

Ákærði hefur ekki áður sætt refsingum.  Í máli þessu hefur hann verið sakfelldur fyrir margvísleg brot gegn börnum sínum sem hann framdi á sameiginlegu heimili þeirra á tæplega 3 ára tímabili eins og í ákæru greinir.  Við ákvörðun refsingar verður því höfð hliðsjón af 3. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga og litið til þess að ákærði braut gróflega gegn börnunum á heimili þeirra þar sem þau eiga að hafa skjól og búa við öryggi.  Samkvæmt þessu og með vísun til 77. gr. almennra hegningarlaga er refsing ákærða hæfilega ákveðin 18 mánaða fangelsi og eru engin skilyrði til að skilorðsbinda hana.

Skaðabótakröfur brotaþola byggjast á 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.  Með vísun til þess sem ákærði hefur verið sakfelldur fyrir að gera á hlut þeirra fellst dómurinn á að þau eigi rétt á miskabótum sem hér segir:  A 1.200.000 krónur, B 600.000 krónur og C 600.000 krónur.  Kröfurnar skulu bera vexti eins og krafist er og í dómsorði greinir, en ákærða voru birtar kröfurnar 25. september 2008 og miðast upphaf dráttarvaxta við það þegar liðnir eru 30 dagar frá þeim degi.

Loks verður ákærði dæmdur til að greiða málsvarnarlaun verjanda síns, þóknun réttargæslumanns brotaþola og annan sakarkostnað eins og greinir í dómsorði.  Laun verjanda og réttargæslumanns eru ákveðin fyrir störf þeirra á rannsóknarstigi og við meðferð málsins fyrir dómi.

Dóminn kváðu upp héraðsdómararnir Arngrímur Ísberg, dómsformaður, Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson.

Dómsorð

Ákærði, X, sæti fangelsi í 18 mánuði.

Ákærði greiði A 1.200.000 krónur, B 600.000 krónur og C 600.000 krónur.  Bótafjárhæðirnar skulu bera dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 25. október 2008 til greiðsludags.

Ákærði greiði málsvarnarlaun verjanda síns Hilmars Ingimundarsonar hrl., 526.884 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, þóknun réttargæslumanns brotaþola, Brynjólfs Eyvindssonar hdl., 316.479 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og annan sakarkostnað, 30.000 krónur.